24.1.2018 | 17:42
Hve heimskir þurfa menn að vera??
Sem snúa út úr málefnalegum rökum um faglega skipan dómara.
Það er þeir sem ekki hafa stjórnleysi anarkismans sem lífsskoðun.
Hver er tilgangur þessarar götustrákahegðunar??
Vitnum aðeins í Jakob Möller, margreyndan lagaref og formann dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómarastörf;
"Sagði Jakob Íslendinga hafa tvær leiðir þegar kæmi að skipun dómara. Annars vegar að hverfa aftur til fortíðar þar sem skipunarvaldið væri hjá framkvæmdavaldinu og dómarar skipaðir af pólitískum ástæðum eða hins vegar að lögð væri áhersla á málefnaleg sjónarmið og að hæfasti umsækjandinn um dómaraembætti yrði fyrir valinu."
Með hvaða rökum geta menn verið ósammála þessu?? Vilja menn virkilega þá gömlu tíma þegar "Dómarar hefðu iðulega verið skipaðir eftir flokkslínum hér áður á forsendum þeirra sem verið hefðu við völd hverju sinni".
Eða vilja men þriðju leiðina, að krafan um faglega skipan gildi aðeins þegar aðrir en ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eiga í hlut?
Eða hafa menn ekki vitsmuni til að skilja hvað felst í þessari gagnrýni Jakobs;
Gagnrýndi hann Sigríði Andersen dómsmálaráðherra fyrir að hafa lýst þeirri skoðun sinni, eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu fyrir jól að hún hefði ekki uppfyllt rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga við skipan fimmtán dómara við Landsrétt, að hún væri ósammála niðurstöðunni. Vildi hann meina að sú afstaða væri fáheyrð. Þannig sagðist Jakob ekki vita til þess að lögfræðingar, hvorki hann né aðrir, hafi lýst því opinberlega yfir að þeir væru ósammála Hæstarétti þegar dómur hefði fallið þótt þeir væru óánægðir með niðurstöðuna. Nauðsynlegt væri að halda Hæstarétti við efnið með hvassri fræðilegri gagnrýni en annað væri að gera honum upp annarlegar hvatir.
Hvað það er alvarlegt að hnútukastast við æðsta dóm þjóðarinnar. Hvort sem maður er í ábyrgðarstöðum eður ei.
Hve langt þurfa menn að vera sokknir í pólitískri meðvirkni með lýðskrumi, eða hægriöfgum sem vega að lýðræði fjöldans í þágu sérréttinda auðsins, til að skilja að svona gerir ráðherra ekki? Og þetta er rétt, burtséð frá því hver segir, má þess vegna vera Óli vitavörður eða Guðmundur ruslakarl (báðir þekktir róttæklingar hér á árum áður).
Og til hvers eru fagnefndir, skipaðar samkvæmt lögum sem Alþingi hefur samið, ef dómsmálaráðherra fer ítrekað gegn áliti þeirra?? Og gera það svo klaufalega að þeir eru trekk í trekk dæmdir brotlegir fyrir??
Og er það ekki löngu tímabært að taka það upp í stjórnarskrá, að það séu ekki bara dómarar sem þurfa að fara eftir lögum, heldur ráðherrar líka. Eða svo ég vitni í Jakob; "Lagði hann hins vegar til að gerðar yrðu breytingar á stjórnarskránni þar sem ekki væri aðeins kveðið á um að dómendum bæri að fara að lögum heldur gildi það einnig um ráðherra.".
Farsi Sjálfstæðisflokksins og götustrákahnútukast ráðherra hans útí dómara og dómstóla landsins er óþægilega farinn að minna á Trump nokkurn og lýðskrumstakta hans.
En Trump er einhverfur fjármálasnillingur sem hefur ekki vit til að skilja orð þau sem hægriöfgarnar leggja honum í munn. Það yrði aldrei réttað yfir honum ef til þess kæmi.
En hver er afsökun Sjálfstæðisflokksins?
Mun hann vísa í söguna að mætir fasistar eins og Napóleon þriðji eða Mússólíni komust upp með svona málflutning, og náðu með honum að ganga að lýðræðinu, sem kom þeim til valda, dauðu.
Er þetta sem sagt valdafíkn, að þegar kjörfylgið minnkar, að þá eigi að ná alræðisvöldum á þekktri slóð lýðskrumsins??
Sem sagt ekki heimska, heldur illviljuð atlaga að lýðræðinu??
Veit ekki, þeir sem hlut eiga, verða að svara því.
Hvort þeir eru fasistar eða heimskir.
Nema náttúrulega hvorutveggja sé.
Þó held ég að þeir séu ekki heimskir, ekki hef ég orðið var við það.
En hvað veit ég.
Hins vegar veit ég það, að ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst upp með þessa atlögu að grunnstoð lýðveldisins, sem sjálfstæði dómsstóla er, þá er illt í efni fyrir þessa þjóð.
Og þar sem ítrekuð spilling og hagsmunagæsla hefur komið fylgi flokksins niður í um fjórðungs fylgi, þá er ljóst, að hann kemst ekki upp með þennan einleik sinn, nema að hann njóti til þess stuðnings annarra flokka.
Sem slíkur er flokkurinn áhrifalaus, nema!!!!!
Og þetta nema geta hvorki Sigurður Ingi eða Katrín Jak hundsað mikið lengur.
Því þetta er hætt að vera fyndið.
Og það er ekkert mál stærra eða alvarlega en atlaga að sjálfu lýðræðinu.
Gleymum því aldrei.
Það er við sem erum ekki fasistar eða hægriöfgamenn.
Kveðja að austan.
Vald ráðherra fyrst og fremst formlegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 36
- Sl. sólarhring: 775
- Sl. viku: 5575
- Frá upphafi: 1400332
Annað
- Innlit í dag: 31
- Innlit sl. viku: 4789
- Gestir í dag: 31
- IP-tölur í dag: 31
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nú er það svo að ég er bara anarkískur undirmálsmaður og tel þetts vera í stíl þess sem viðgengist hefur í íslenskri stjórnsýslu um aldir.
Hverju verður þú bættari Ómar, þó Pírötum og Samfylkingunni takist að sprengja þessa stjórn? Bindirðu nú vonir þínar við þá?
Heyri þig núna í huganum byrja að ræða um rökfræði og siðfræði, en þá segi ég að þannig er og sú "rökfræði" og "siðfræði" á alla bóga þegar horft er til vanhæfni stjórnsýslunnar, að engan veit ég þar betri en annan. Þar er allt á sömu bókina lært, öllu snúið þar á hvolf í hráskinnungsleik og yfirdrepsskap. Ógeðsleg og skítug valdabarátta hinnna samseku og samtryggðu.
Þetta er mitt álit og stutt vísunum til eftirmála hrunsins. Hvað er þá annað til ráða en frú Andersen geri tillögu þína að sinni og "hæfisnefndin" einnig og hefji að varpa hlutkesti um hverjir skuli hljóta það hnoss að dæma annað fólk? Eða bíðurðu þess að Smári McCharthy, eða Logi Björn Valur Steingrímur J geri það, að þinni bón?
Sá yðar er syndlaus er, kasti fyrsta steininum. Skyldi það verða Smári McCarthy eða Helga Vala farsaleikkona? Og Ómar Geirsson fagna þá "hreinleika sálna þeirra"? Hvern skal dæma, hver er syndlaus?
Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 24.1.2018 kl. 23:21
He, he Símon minn frá Koti, mér þætti það reglulega fyndið ef Steingrímur Joð legði til að hlutkesti yrði notað til að velja dómara. Það kallar maður sko árangur skrifa sinna í athugasemdarkerfinu.
En kæri elskulegi undirmáls anarkisti minn, hart er í heimi þegar heimurinn hefur verið svo slæmur að anarkistar flýja stjórnleysið og ákalla stöðugleika, og frábiðja sig flokk anarkistanna.
En þegar maður dregur frá allar umbúðirnar sem þú notar til að lýsa yfir stuðningi við Sigríði Andersen, þá gleymir þú einu, og þarf ekki mikil heilabrot til, þó þau séu ágæt heilaleikfimi, að það eru ekki Píratar eða Samfylkingin sem eru að sprengja þessa ríkisstjórn.
Það er Sigríður sjálf og þráseta hennar.
Samfylkingin er löngu hætt að skapa reiði í samfélaginu, Píratar hafa aldrei kunnað það. En þessir flokkar kunna ennþá að fljóta á reiðiöldum inní kastljós fjölmiðlanna, en lítið annað en það. Eftir því sem ég fæ séð þá hafa þeir ekki haft framdrátt af pólitísku keilum sínum, enda alveg lausir við alla drápsgirni í anda Egils Skallagrímssonar, að höggva þegar vel liggur við höggi.
Framganga Sigríðar, hroki hennar og lygar hafa stuðað þjóðina á þann hátt að hálfgróin sár hafa rifnað upp.
Og það er sama hvað þessi ríkisstjórn reynir að láta gott af sér leiða, í hvert skipti sem Sigríður kemur á skjáinn, þá tengir fólk ósjálfrátt ríkisstjórnina beint við stjórnsýsluspillingu og valdahroka, á tímum þegar stjórnmálamönnum er lífsnauðsynlegt að sýna auðmýkt.
Kæri Símon minn, ég er nefnilega að hjálpa ríkisstjórninni.
Líf hennar og framtíð er nefnilega undir því komin að Sigríður víki.
Og því lengra sem það dregst, því veikara verða Bjarni og Katrín.
Það er jú þeirra stjórnmálaferill sem er undir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.1.2018 kl. 07:07
Vg er í klemmu er haft eftir Birni Val vegna frú Andersen. Framsókn siglir lygnan sjó og brosir sem vegirnir til allra áttanna. Sjálfstæðisflokkurinn horfir til Sigmundar á hliðarlínunni og Ingu sem einhvern veginn vantar hlutverk við hæfi. Jú, Vg er í svakalegri klemmu vegna frú Andersen. Ekki græt ég það.
Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 25.1.2018 kl. 08:33
Ég skil þig alveg Símon, en þessir möguleikar eru history, svo ég grípi i frasa gærdagsins.
Sjálfstæðisflokkurinn fær ekkert annað skálkaskjól, samtryggingarflokkurinn fær það ekki heldur.
Það hafa orðið vatnaskil, veðrabrigði eins og Tolkien orðaði svo vel.
Þjóðin mun ekki meðtaka enn eitt ruglið.
Það er engin lausn að fella núverandi ríkisstjórn, lausnin felst að marka skil milli þess gamla, og þess nýja sem þrátt fyrir allt stefna stjórnmálaflokkar okkar að.
Vandi Bjarna og Katrínar, er ekki síður vandi Loga og dverganna óteljandi í Pírötum, það þarf að breyta stjórnmálum okkar á þann hátt að fólk fái aftur trú á þeim.
Í raun er Sigríður steinvala sem alvöru forystufólk skautar framhjá, en börn hnýta um.
Þetta er ekki maður eða mús.
Þetta er maður eða barn.
Þeirri spurningu þurfa Bjarni og Katrín að svara innan ekki svo skamms tíma.
Og þau fá ekki annað tækifæri.
Flóknara er það ekki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.1.2018 kl. 10:29
Rétt, það þurfa allir flokkarnir að líta í eigin barm. Nýleg 129% hækkun fjárframlaga til þeirra eigin átta flokka, samþykkt af þeim öllum sem og samþykkt á eigin launahækkunum um 52% til þingmanna og ráðherra og æðstu embættismanna stjórnsýslunnar, sjálfskömmtum og sjálftaka, benda hins vegar ekki til að sú sjálfskoðun sé í vændum. Forakt almennings í garð þeirra mun einungis magnast. En, ég segi en, fyrr en síðar munum við enn á ný þurfa að velja milli þessara 8 flokka og vita að það mun ekkert breytast, ekkert gott koma frá þeim. Hví skyldum við hafa áhyggjur Ómar, við lifum enn og ef við eigum nokkur tár, vonum að það sé smá fótur í því. Verstur fjandinn hvað búsið er orðið dýrt. Það er dýrt að halda uppi þessu 8 falda flokkadrasli og embættismannahirð á ofurlaunum og þingmönnum allra flokka sem skammta sér launahækkanir langt umfram okkur. Þetta eru allt saman farísear og tollheimtumenn, andskotar okkar. Frú Andersen er einungis örsmár hluti þess vandamáls. Enda snýst allt þetta mál um stundlegan storm í vatnsglasi.
Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 25.1.2018 kl. 11:08
Blessaður aftur Símon.
Eiginlega, þó ég skilji alveg rökfærslu þína, án þess að einhverjar reykskemmdir séu numdar á brunaboðumn í stofunni, þá er það eina sem ég get tekið undir er að búsið er orðið alltof dýrt. Í raun var það fyrstu merki um vík milli vina í tilviki míns og Steingríms Joð.
Sigríður er steinvala fyrir börn og allskonar vitleysinga sem fá ekkert skilið fyrr en flóð tímans drekkir þeim.
En fyrir fólkið sem á allt undir, það er Bjarna og Katrínu, sem og reyndar Sigurð Inga því Sigmundur bíður glottandi á hliðarlínunni, þá er hún bjarg sem þarf að ryðja úr vegi.
Þeir sem það ekki skilja, skilja heldur ekki af hverju auðmenn náðu að endurreisa fjárráns kerfið í því sem næstum því óbreyttri mynd eftir Hrun.
Og skilja ekki heldur af hverju hefðbundin stjórnmál eru komin á endastöð.
Og þó þú sért vesæll anarkisti Símon minn, þá veist að ég er það ekki.
Ég hegg Sigríði í tilraun til að bjarga hinu hefðbundna, því ég veit hvað tekur við.
Alræði auðsins. stjórnleysi, Hel.
Og mér líkar það ekki.
Og mér myndi heldur ekki líka það þó ég væri steingeldur og ætti líf sem þarf að vernda.
Við púkkum ekki uppá hið Svarta fjármagn Símon.
Það er bara svoleiðis.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.1.2018 kl. 13:11
Skil vel um hvað þú ert að tala.
Hér þarf siðbót og "betri stjórnsýslu".
Og þú vilt að sú siðbót komi frá þessari stjórn.
En siðbótin kemur ekki frá 8-flokknum og mun ekki koma frá þessari stjórn og heldur ekki frá stjórnar"andstöðunni". Það er vandinn. Svo gegnumrotið er kerfið orðið, því miður.
Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 25.1.2018 kl. 13:23
Því miður er kerfið orðið helsjúkt af því sem þú réttilega kallar "hið svarta fjármagn" og þú telur frjálshyggjuna bera ábyrgð á. En ég myndi segja það vera hið vanheilaga bandalag stjórnsýslu, þings, framkvæmdavalds, dómsvalds og fjölmiðla við auðræði heimsins og leppa þess og landshöfðingja hér á landi. Slíkt vanheilagt bandalag er oft kennt við fasisma, sem er vissulega sterkt til orða tekið. Og mér virðist þú vilja krossfesta frú Andersen fyrir allar syndir hins vanheilaga bandalags. Er það að ráðast að rótum vandans?
Leyfi mér að efast um það. Bjarg eða vala, skyldi þá ekki gilda að sá eða sú, píratinn eða Helga Vala köstuðu steininum líkt og farísearnir forðum?
Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 25.1.2018 kl. 14:50
"Og ætti ekki líf" vildi ég sagt hafa eftir hina steingeldu líkingu.
Og já, ég trúi á siðbót, harmkvein mín eru svo sem ekki ný, hef reyndar ekki lesið Mósesbók til einhvers gagns, því ég er svo lítið fyrir fjöldamorð, en á eftir þeim bókum, taka við nýrri bækur sem eiga það sammerkt, að hér og þar dúkka upp vandlætarar sem ákalla siðbótina. Í Víkinni minni góðu, fjarri nútímaraftækjum, þá lagði ég loksins í lestur á þeirri bók sem kemur á undan þeirri nýrri. Og hugsaði, þeir eru að endursegja orð mín og umvandanir. Eins og lesturinn í Víkinni minni hafi komið á undan.
En siðbótin var forsenda þess að ég gat upplifað þessa tímaskekkju.
Hún kemur alltaf aftur og aftur, út frá hinu hefðbundna.
Byltingin hins vegar kemur svona á 2.000 ára fresti.
Sem þýðir að það sé kominn tíma á hana.
En sé ekki alveg að ríkisstjórn Katrínar og Bjarna muni koma nálægt henni.
En það er bara annar handleggur Símon minn.
Varðandi lýsingu þína á hinu Svarta fjármagni, þá er hún ágæt eins langt og hún nær.
En hún er bara ekki að lýsa hinu Svarta fjármagni.
Það er.
Og hefur verið til lengi.
Og ber mikla ábyrgð á mörgum hörmungum.
Því var spáð.
Og sú spá hefur ræst.
En spádómurinn um vonina sem kemur lífinu til bjargar hefur ekki ræst.
Og ekkert sem bendir til þess að svo muni vera.
En að Íslandi komi tilurð þess eitthvað við, sú lýsing er vægast sagt eins og að teikna Óla prik, og segja að þetta sé kópía af Mónu Lísu.
Vissulega teygja angar hins Svarta fjármagns sig til Íslands, og hugmyndafræði þess hefur gegnumrotið íslenskt samfélag.
En það eru bara angar, og lýsing á íslenskum veruleika, hvort sem hann er fasismi eður ei, sem ég myndi reyndar aldrei tengja við það ágæta þjóðfélag sem ól mig upp, og hefur gefið drengjunum mínum tækifæri sem mannkynssagan kann fá dæmi um, það er sú skráða í 5.000 ár, hefur akkúrat ekkert með þá skepnu að gera.
Sem betur fer, þess vegna er ennþá von, þó slokknandi fari.
En hún slokknar endanlega ef við sjáum hana ekki Símon minn.
En andinn lætur mig hins vegar alveg í friði, og því pistla ég ekki um Afgangsstærðina.
Sigríðarverkefnið er bara svona tilfallandi, ófriður á íhaldsslóðum er svo sem betri en ekki neitt. En að segja það sem skiptir máli, er svo sem ekki að gerast, hvorki núna, síðast eða þar síðast.
Það sem verra er Símon, það eru ekki heldur aðrir að tjá sig um það.
Þar er meinið, og það mein er ekki hinu Svarta fjármagni að kenna, náttúruöflum, andanum eða neinu því sem fólk getur gripið sér til afsökunar.
En frú Andersen er krossfest öðrum til viðvörunar, þó hún lifi af þessa orrahríð, þá alltaf ríkisstjórninni til tjóns, þá verður ekki fundin sú kjarkmanneskja* næstu árin sem vill feta slóðir hennar í geðþótta og stjórnsýsluspillingu.
Og það sem slíkt er siðbót Símon.
Vissulega ekki andinn, vissulega ekki umfjöllun um það sem skiptir málir, en hamlar um stund hinu óhjákvæmilega.
Sigrarnir í dag eru aðeins varnarsigrar.
En þá baráttu þarf samt að heyja.
Kveðja að austan.
*Sigríður er sú kjarkmesta á þingi þessa dagana, og enginn annar þingmaður í sjónmáli sem hefur hennar tær.
Ómar Geirsson, 25.1.2018 kl. 18:34
Frábær athugasemd þín, þessi nr. níu. Tek algjörlega undir öll þau orð.
Já, við heyjum nú varnarstríð, en erum sundraðir svo sem sagt var frá í þeirri gömlu bók sem þú nefnir.
Veit ekki hvar þetta endar. Dansinn í kringum gullkálfinn heldur áfram um stund, sem dansinn í Hruna.
Við erum menn myrkursins sem skimum eftir vonartírum á himni sem á jörð.
Og þær er enn að finna í hverjum þeim sem svo gjörir. Við eru kyndilberar ljóssins, ljóss sannleikans.
Það er sem maður hafi verið til nokkrum sinnum áður. Alltaf á leiðinni til ljóssins í gegnum sortann.
Hvort umbyltingin verði bráðlega, eða innan hundrað ára eða tvö hundruð er svo stóra spurningin.
Auðvitað erum við bara mannlegir og vonumst til að hún gerist sem fyrst.
Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 25.1.2018 kl. 19:08
Takk fyrir það Símon, þú hefur greinilega huglægt fundið greinarskilin á milli málsgreina, sem renna saman í eitt þegar athugasemdin birtist hér í athugasemdarkerfinu. Þarf líklegast að endurskoða stílbrögðin sem virka ágætlega þegar ég hendi inn pistlum, en ekki alveg eins vel í athugasemdum.
Ég veit svo sem ekki hverjir halda á kyndlinum, þekki þó Skáld sem þú hefðir gott af því að kynna þér, kenni það við Lífið.
En eitt veit ég þó, við höfum engin hundrað ár, hvað þá tvö hundruð, við höfum ekki einu sinni 50 ár.
Þess vegna ergir það mig að sá hluti spádómanna sem snýr að antikristninni hafi ræst, en ekki hinn hlutinn, um ljósið sem barðist á móti.
En ég sá flottan leik hjá Manchester United um daginn.
Pogba átti stórleik.
Það telur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.1.2018 kl. 19:29
Takk sömuleiðis Ómar.
Pistlar þínir auðga vitið og gefa birtunnar yl.
Við erum hreyfing lífsins, og það eru fleiri en við. Trúðu mér, miklu fleiri og hafa alltaf verið. Andkristnin er hins vegar illskeyttari og skinhelgari í yfirdrepskap sínum.
Með kærri kveðju að sunnan.
Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 25.1.2018 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.