Sameinaðir í fótbolta.

 

Enda hvað annað sameinar fólk á þessum antitímum þar sem fáfræðin og forheimskan ýta undir öfga og öfgafólk, sá sem hrópar hæst að náunganum á sviðsljósið þá og þá stundina.

Á Íslandi má jú nefna Fiskidagana á Dalvík og Gleðigönguna.

Og veðrið, ekki má gleyma því.

 

En global virðist fótboltinn vera það eina sem fær fólk til að gleyma sér, það hættir að sjá húðlit, eða heyra málhreim, það sér boltann, og fer að sparka ef það getur.

Það ræðir hann, jafnvel með handapati ef tungumál dugar ekki, jafnt við nágranna sína, sem og ókunna sem eiga leið fram hjá.

Og það horfir á hann, horfir á þá þá bestu takast á.

 

Þegar vel gengur gleðjast menn.

Fella tár ef miður gengur.

 

Fyrir ekki svo löngu las ég viðtal í blaðinu, við ungan mann sem ferðaðist um Afríku og tók myndir af fólki sparka bolta.

Í fátækt og örbirgð, á átakasvæðum og hörmungarsvæðum, einnig þar sem velsæld var og velmegun, í dreifbýli og þéttbýli.

Oftast aðeins bolti, sjaldnast eitthvað sem kallast útbúnaður, allavega á okkar mælikvarða.

En alls staðar bros og gleði.

Eins kona óminni eða alsæla frá misbitrum raunveruleik.

 

Auk margs annars, þá sönnuðu þessar myndir eitt.

Það er ekkert að fólkinu, þó margir reyni að telja okkur í trú um að svo sé, heldur það er eitthvað mikið að því fólki sem stjórnar því.

Sem samt í raun hefur líka gaman af fótbolta, og getur gleymt sér í spenningi leiksins.

Og hlýtur því að vera inn við beinið alveg eins og við öll hin sem elskum þessa tuðru.

Ágætis fólk.

 

Og vatnið er eins, himinn er eins, sama loft sem er lífgjafinn, í raun ekkert sem útskýrir af hverju þessi fallega álfa, byggð þessu brosmilda fólki, er eins sundurtætt af ófriði, tærð af spillingu og óstjórn.

Ef þessi ungi ljósmyndari hefði farið sömu erinda til Mið Ameríku, þá hefði hann tekið sömu myndirnar, af sama brosmildu fólkinu, spilandi fótbolta.

Alveg eins og unga fólkið sem spilar fótbolta saman í Bronx.

 

Bros og gleði.

Algleymi stundarinnar.

 

Samt er þetta unga fólk á flótta.

Samt er Mið Ameríka sundurtætt af afleiðingum misskiptingarinnar.

Samt er Afríka undirlögð af hrægömmum og hræætum sem sjúga út hverju örðu verðmæta, og ýta undir óstöðugleika og óstjórn um alla álfuna.

 

Afleiðingin er fólk á flótta.

Flótta frá Mið og Suður Ameríku til velstæðra nágranna í norðri.

Flótta frá Afríku yfir Dauðahafið til velstæðra nágranna í norðri.

 

Hatrið og heiftin segja að við eigum að loka þetta fólk úti, reisa veggi og múra, og senda þá heim sem sleppa yfir girðingarnar.

Og í antiheim þar sem samúð og samhygð hafa vikið fyrir sjálfhverfu og sérhyggju, þá er hatrið og heiftin kosin til valda, og vandinn á hverfa ef við bara lokum hann úti.

Eins og fólk þekki ekki þau sannindi sögunnar, að fólk sem getur ekki bjargað sér heima fyrir, það leitar alltaf þangað þar sem það telur björgina vera.

Hundrað í dag, þúsund á morgun, milljón að ári, og einn daginn láta múrar undan þrýstingnum, líkt og stífla heldur því aðeins ef frárennsli hennar hefur undan því vatni sem streymir í lónið. 

 

Hatrið og heiftin leysa því engan vanda.

Þau gera hann aðeins óviðráðanlegan.

Og fáfræði og forheimska fær því engu breytt.

Líkt og maður sem fór nakinn á Suður pólinn og sagði, "hér er ekki kalt", að hann fraus í hel samt sem áður.

Afneitun er aðeins afneitun, hún er aldrei lausn, ekki einu sinni slæm lausn.

 

Hvað er til ráða?, hvað er þá hægt að gera??

Hversu rík sem við erum, þá þrýtur hjálpsemi okkar örendið einn daginn, því þegar við höfum reist hjálparbúðir fyrir milljón, þá koma níu milljónir í viðbót árið eftir.  Náum við að hjálpa þeim, þá koma 90 milljónir árið þar á eftir.

Því hjálp fjarri heimahögum, er alltaf hjálp þó um langan veg sé að fara.

Dilema sem gengur augljóslega ekki upp.

 

Þá fara stjórnmálamenn að rífast.

Sumir kenna fólkinu um, því sé ekki viðbjargandi.

Aðrir kenna um spilltum stjórnvöldum, enn aðrir benda bendifingrinum á kerfið.

Einn skammar markaðskerfið, annar skammar það sem hann segir að sé sósíalískt, því viðkomandi stjórnvöld hafi reynt að stemma stigu við starfsemi hrægamma og blóðsuga.

Í raun vita þeir ekkert hvað hægt er að gera, vítahringur fátæktar, óstjórnar og örbirgðar virðist seint rofinn, þegar skarð kemur í hann, þá fylla tregðuöflin uppí það skarð jafnóðum.

 

Samt er fólkið gott.

Um það getur enginn efast sem sér það glaðbeitt gleyma sér við að sparka tuðru sín á milli.

Og það getur bjargað sér, fái það hið minnsta tækifæri til þess fyrir utanaðkomandi eyðingaröflum.  Það vita þeir sem hafa starfað á vettvangi, og útbreytt þekkingu og menntun.

 

Vandi þess er sá sami og okkar sem höfum séð velmegunarþjóðfélög grotna niður innan frá.

Við erum líka á barmi upplausnar og óaldar.

Hvar sem við lítum í kringum okkur eru hnefar á lofti, á milli hópa, á milli samfélaga, á milli þjóða.

Og það er kynnt undir, það er kynnt hressilega undir.

Og við erum öll að vera fátækari og fátækari, á meðan Örfáir eru að verða ríkari og ríkari, og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.

 

En það er ekki vandinn.

Það er afleiðing.

Alveg eins og það er afleiðing að gjörspilltir pótintátar stjórni þeim ríkjum þar sem fátæktin er mest.

 

Því vandinn er ekki á sviði stjórnmála eða hagfræði, hvað þá að hann snúist um þessa þjóðfélagsgerð eða hina.

Hann er ekki hugmyndafræðilegur.

 

Hann er vandi sem er í öllum samfélögum þar sem guð er dauður og tómið eitt nærir andann.

Hann er siðlegur, hann er heimspekilegur.

Hann snýr að okkur sem manneskjum, hvað við erum, hvað við viljum vera.

 

Það erum við sem kusum Mammonsdýrkendum til valda.

Það erum við sem leyfðum heimspeki þeirra, heimspeki dauðans að gegnsýra alla hugsun okkar og nálgun á samfélag okkar.

Heimspeki sem leiðir aðeins til eins, ólgu og upplausnar og að lokum, eyðingar, dauða.

 

Það er sama hverjir stjórna, sama hvaða skrautheiti menn hnýta á nöfn flokka sinna, hvort sem langafar þeirra hafa einu sinni verið vinstri menn eða hægri menn, að á meðan kerfið lýtur lögmálum Mammons, á meðan heimspeki hans gegnsýrir alla nálgun og athafnir stjórnmálamanna, þá er niðurstaðan alltaf, niðurstaða Mammons.

Auðsöfnun Örfárra, niðurbrot velferðar og velmegunar, í kjölfarið ólga, ringulreið, upplausn, átök.

Eyðing, auðn, dauði.

 

Og ekkert fær því breytt, nema breytingin sjálf.

Mammonsdýrkendur verði aftur gerðir að skógangsmönnum, en hornkerlingarnar, Mannúð og Mennska séu leitaðar uppi og boðnar velkomnar aftur í samfélag okkar.

Hafðar í hávegum, hlustað á þær.

 

Þá smá saman breytist allt.

Líka hjá þeim fordæmdu.

 

Er von??

Já, á meðan fótboltinn sameinar.

Hann sýnir að þrátt fyrir alla innrætinguna, að við séum ekki mennsk, heldur sálarlausir neytendur sem kjósum með buddunni, að þá erum við lifandi.

Lifandi fólk sem innst inni þráum bara það eitt að hafa í okkur og á, og lifa í þokkalegri sátt við annað fólk.

Hvar sem það býr, hvernig sem það er litinn, sama hvaða mál það mælir.

 

Við erum öll fólk.

Sem allavega elskum fótbolta, og gætum alveg fært eitthvað af þeirri ást yfir á náungann.

Því hann er jú forsenda þess, að við getum spilað fótbolta.

 

Já, náunganum er ekki alls varnað.

Án hans er enginn fótbolti.

 

Og ekkert mannlíf heldur

Kveðja að austan.

 


mbl.is Ógnað af Trump en sameinaðir í fótbolta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1. TILGÁTA UM BOLTANN

Hinn sanni bolti þar sem leikgleðin ein ræður ríkjum er af hinu sanna, fagra og góða.

Vandinn er hvað eru orðnir mikilir peningar í boltanum og margir að ráðskast með hann.

Alltaf koma einhverjir ljótir og leiðinlegir sem sprengja tuðruna, það er gömul saga. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 13.8.2017 kl. 13:52

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Biblían er góð bók, vel skrifuð og hefur margt að segja.

Hún sem slík er ekkert verri þó miður gott fólk hafi vitnað í hana á ýmsum tímum sem skálkaskjól illgjörða sinna.

En hins vegar var ég nú eiginlega ekki að skrifa um fótbolta, þó ég hafi gripið setningu á lofti úr þessari annars sorglegu frétt.

Frétt sem meðal annars gerir blaðið að þeim góða fjölmiðli sem hann er í dag.

Og önnur íslensk blöð að sneplum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.8.2017 kl. 14:01

3 identicon

Blessaður sértu ævinlega Ómar minn

boltinn er táknmynd heimsins og allra þjóða heimsins, megi hið sanna, fagra og góða

sameina þjóðir heimsins til leikgleðinnar einnar og mengast aldrei af neinu öðru.

Hvort mogginn sé táknmynd heimsins veit ég ei, en hann á sér fleiri hliðar en eina.  Þannig er með flest.

Með minni bestu kveðju til allra átta

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 13.8.2017 kl. 14:25

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei hann er bara gott blað.

Síðan er ég bara að tala um fótbolta.

Það er síðan skáldanna að hefja flugið.

Þess vegna er biblían svona goð bók.

Stór hluti hennar er rituð af skáldmæltum mönnum.

Það er alltaf andinn sem sigrar að lokum Pétur,.

Stundum þó seint sé.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.8.2017 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 207
  • Frá upphafi: 1412826

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 173
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband