19.6.2017 | 08:31
Sólin hefur fátt nýtt séð.
Rök þeirra sem undir ótta kynda með vélbyssum á almannafæri eru álíka gáfuleg eins og að slökkvilið kæmi núna hlaupandi í hvert hús hærri en þrjár hæðir og ræki alla út, eða til vara yrði tilbúið með brunaslöngu í stigagangi viðkomandi húsa, svona ef ske kynni.
Það brann jú bygging í London, og margir fórust.
Og ef slökkviliðið vildi toppa vitleysuna í sjálfu sér, að þá bannaði það umferð um þjóðvegi landsins með tilvísun í nýliðna atburði í Portúgal.
Jú og almannvarnir gætu rýmt strendur landsins vegna flóðbylgjuviðvörunarinnar á Grænlandi, og notað það sem réttlætingu að það hefði betur verið gert í Indónesíu á sínum tíma.
Vegna þess að það er ekki til sá voveiflegi atburður að hann hafi ekki gerst einhvers staðar.
Og hann gæti alveg gerst hérna, þannig séð.
Án þess að nokkuð sé gert lítið úr ógninni sem siðmenningunni stafar af miðaldamönnum trúarofstækisins, þá er það þannig að íslamistar spretta ekki upp úr jörðinni eins og Orkar gerðu í Hringadróttamyndum Jackssons.
Telji menn að hér sé að myndast sá jarðvegur að hryðjuverkmenn spretti uppúr honum, þá á að höggva þær rætur, og moka jarðveginum burt.
Menn gætu til dæmis spurt sig hvað við sem samfélag höfum að gera við trúarmiðstöð þar sem prelátinn neitar að taka í höndina á helming mannkyns, og þar að auki fær sá helmingur ekki að hlýða á Orðið nema hann sé geymdur afsíðis í einhverskonar griparétt. Því þessi miðaldamennska er alltaf undanfari hinna fullsprottnu sem myrða og drepa í nafni trúarofstækisins.
Þegar menn hins vegar nýta óttann sem tækifæri til að hræða almenning, skapa andrúmsloft ótta og óöryggis, þá er kristaltært að eitthvað annað býr undir.
Þá er gott að spyrja sólina hvort hún hafi séð eitthvað viðlíka, hvort hún viti til þess að öfgar sem stefna á alræði, hafi áður náð yfirráðum yfir öryggistólum lýðræðisríkja, og notað þau tól, til að vega að lýðræði viðkomandi lands.
Án þess að hugsa sig um gæti sólin bent á hvernig kommúnistar fengu innanríkisráðuneytið í Tékkóslóvakíu í fyrstu ríkisstjórn landsins eftir stríðslok 1945.
Og hvernig þeir urðu fljótt að ríki í ríkinu sem nýtti sér lögreglu og her til að ganga að lýðræðinu dauðu. Nutu við reyndar smá hjálp Stóra bróður í austri.
Í dag eru aðrir tímar, og vissulega ógnar alræði öreiganna ekki almenningi vestrænna lýðræðisríkja, en í stað þess er komin ógnin af alræði auðsins, og hægriöfgar eru hans verkfæri til að tryggja hinu algjöru völd fjármagns yfir mannlífi öllu.
En líkindin eru sláandi.
Tvær manneskjur, bugtandi sig og beygjandi fyrir kenningum Hayeks og Friedmans, tóku upp á sitt eigið einsdæmi, að breyta samfélagsgerðinni á þann hátt, að vopnað lögreglulið, svona svipaður hópur og öryggissveitirnar voru þarna austur frá, gangi um og hræði fólk á tyllidögum. Hugmyndin er sú að venja fólk við og stíga svo næsta skref. Skref sem mun herða enn tök alræðisins á lýðræðinu.
Og alltaf vitnað í rök sem Iðnaður óttans framleiðir þessa dagana.
Kannski saklaust, að breyta friðsömu samfélagi fyrirfram í mögulegan vígvöll vopnaðra átaka.
Það er ekki verið að drepa neinn, ennþá.
Og önnur lýðréttindi halda, ennþá.
En í ljósi þess að hægriöfgarnar eru nýbúnir að vega að réttarkerfi þjóðarinnar með því að breyta Landsrétti í Flokksrétt, að þá er full ástæða til að staldra við og spyrja;
HVAÐ NÆST??
Gleymum aldrei að ef hinn minnst vottur af sannleik streymdi af tungum hægriöfga, þá hefði fyrsta verk fjölskyldfyrirtækisins, Engey ehf ekki verið að skera niður framlög til löggæslunnar, hvort sem það er lands eða sjávar. Því það er öflug löggæsla sem tryggir öryggi borgaranna, ekki vopnaburður sérsveitar innanríkisráðuneytisins.
Nei það er full ástæða til að spyrja hvað næst?
Munum að hægri öfgar hata stéttarfélög, þeim er mjög í nöp við mannréttindi, og ekki hvað síst þá þola þeir ekki þann jöfnuð að allir hafi rétt á menntun og heilbrigðisþjónustu.
Á bak við alræði öreiganna í Tékkóslóvakíu 1948 var ferli sem hófst á fyrsta skrefinu og síðan í fleirtölu, fyrstu skrefunum. Munum að þar var samt alltaf lýðræði af nafninu til, þar var alltaf kosið en kosningarnar breyttu ekki neinu, eitthvað sem íslenskur almenningur er farinn að kannast óbærilega við.
Við upplifum í dag fyrstu skrefin á Íslandi.
Hengingarólin er hert að almannaþjónustu svo liggur við köfnun.
Og í síauknu mæli er almannfjármunum beint í vasa hins síspræka einkaframtaks fjárfestanna svokölluðu.
Við erum leiguliðar kvótans, og innan ekki svo margra ára verður unga kynslóðin leiguliðar örfárra risaleigufélaga sem eiga obbann af leigumarkaðnum. Skrifræði fáránleikans ásamt vaxtastefnu andskotans sér til þess að ungt fólk getur ekki lengur eignast sitt eigið húsnæði.
Og geðþótti hægriöfganna hefur vopnavætt sína eigin sveit, vélbyssan hefur tekið yfir lögreglukylfuna.
Og hvað svo??
Hvað svo??
Við tengjum kannski ekki.
En sólin veit.
Hún hefur séð þetta allt áður.
Kveðja að austan.
Verkefnum sérsveitar fjölgað hratt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 9
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 455
- Frá upphafi: 1412817
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 394
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Og sólin sá að fasisminn og kommúnisminn voru af hinu sama
og nómenklatúran sú sama
og sólin sá þegar sú æpti báknið burt þá varð sú sjálft báknið
og einn maður stóð einhverju sinni á stól og kallaði að samtryggingin væri augljós
jafn augljós og að sá maður hengdi sig ... því við ramman reip var að draga.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 19.6.2017 kl. 13:55
Blessaður Pétur, var að koma úr Víkinni minni.
Alræði auðsins, alræði öreiganna, eða alræði hinna bestu eins og fasisminn taldi sig vera, allt er þetta að sama meiði.
Atlaga að samfélagi hins venjulega fólks.
Sem vill það eitt að fá að vera í friði með sig og sína, með lífsbaráttu sína og hina sameiginlegu auðlegð sem við eigum öll.
Og núna er gert út á óttann.
Óttann sem er þeirra eigin sköpunarverk.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.6.2017 kl. 22:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.