14.5.2017 | 12:41
Milljarðamæringur fjárfestir í frambjóðendum.
Þetta ætti þeir að hafa í huga sem biðja um beint lýðræði.
Lýðræðið myndi kannski lifa í 2 daga á eftir.
Það er ekki að ástæðulausu að vitrir menn, feður nútímalýðræðis, sem þekktu söguna vel, enda lesnir og fróðir, hönnuðu nútímalýðræði út frá sjónarmiðum valddreifingar, það er að ekkert eitt fengi öll völd, og út frá fulltrúalýðræði, það er að fjöldinn kjósi einhverja, sem síðan bera ábyrgðina.
Ábyrgð á á ákvörðunartöku, og ábyrgð á framkvæmd.
En geirnaglinn er sá að þeir þurfa reglulega að leita sér umboðs fjöldans.
Þess vegna hefur nútímalýðræðið, með sínum kostum og ókostum, haldið í yfir 200 ár.
Þess vegna sækir auðurinn að því með skrumi sínu um beinar kosningar, eða atkvæðagreiðslu fjöldans yfir öllum ákvörðunum, jafnt stórum sem smáum.
Því hannaðir frambjóðendur auðsins, sem hafa fullan aðgang að fjölmiðlum hans, yfirskyggja alltaf rödd heiðarleikans og skynseminnar.
Því sú rödd tengist einstaklingnum sem vill vel, en enginn þekkir nema hans nánasta umhverfi.
Af hverju halda menn að til dæmis Dögun, sem ræðst að einum af meginstoðum arðránsins, verðtryggingunni, sé þögguð, en hvert minnsta gól í Pírötum, hins hreina frjálshyggjuafls á þingi, fái greiðan aðgang að eyrum landsmanna.
Af hverju halda menn að þegar skynsemisrödd kemur fram, eins og til dæmis Lilja Mósesdóttir og Samstaða hennar, að þá spretta um leið upp ótal fyrirbrigði, sem hávaða út í eitt, án nokkurs innihalds.
Og fjöldinn upplifir andófið sem raðröð rugludalla. Flýr því í hið örugga skjól auðflokksins sem hann þó þekkir, og veit hvað hann á von á.
Nei, það er ekki nóg að vilja vel, og vera á móti.
Velvilji leysir til dæmis ekki einföld dæmi í hornafræði, það þarf líka þekkingu til þess arna, og það er síðan ákaflega seinlegt að hver og einn reyni að finna út reglu, eins og það hafi aldrei verið gert áður.
Þess vegna setti Pythagoras fram reglu sína, sem í árþúsundir hefur hjálpað stærðfræðingum að leysa dæmi. Þeir þurftu ekki að finna upp hjólið, og þeir vissu að fyrri þekking, var forsenda nýrrar.
Ekki velvilji eða að vera á móti.
Við eigum í dag í stríði við ógnaröfl sem leynt og ljóst leitast við að steypa mannkyninu fram af heljarbrú.
Og þó það sé ljótt að segja það, þá gerir hluti auðsins þessi ógnaröfl út.
Af hverju er spurning, ef menn trúa ekki á tilvist hinnar tæru illsku, þá er fátt um svör.
En þetta er svona.
Og það er okkar að bregðast við því.
Viljum við ráða okkur sjálf?
Eða viljum við að hið svarta fjármagn mannvonskunnar ráði okkur?
Útibú þess stjórnar Íslandi í dag.
Hrægammar og innlendir þjónar þeirra, sem eru á fullu að hirða upp mola, stjórna þjóðinni í dag.
Og auðurinn fjármagnar andófið svo það ógnar honum ekki á einn eða neinn hátt.
Gjaldþrot hins borgaralega samfélags er það algjört að ríkisstjórn Íslands er fjölskyldufyrirtæki, Engey ehf.
Grímulaust eru innviðir sveltir svo hægt sé að bjóða vildarvinum beina áskrift að skattfé almennings.
Fjármunir eru fluttir úr landi í massavís og atvinnulífið er aftur að verða leikvöllur hinna svokölluðu fjárfesta.
Við höfum aldrei verið svona rík, en um leið aldrei svona fátæk þegar kemur að uppbyggingu innviða og eða veita almenning nauðsynlega þjónustu.
Á sama tíma fær evrópska regluverkið í gegnum óbeina aðild okkar að Evrópusambandinu, að þrengja æ meir að sjálfstæðri starfsemi einstaklingsins. Endalausar girðingar og hindranir, settar í þágu stórfyrirtækja, til að draga úr samkeppni, gera einstaklingnum illkleyft að bjarga sér á annan hátt en að vera þjónn hinna stóru.
Og ef evrópska regluverkið hefur ekki náð að úthugsa kæfingu á einhverju sviði þá gerir fjölskyldufyrirtækið betur, og setur reglugerð um eitthvað sem heitir jafnlaunavottun, og lofar síðan fleirum vottunum.
Við erum rænd, við erum rupluð.
Við höfum alla burði til að hafa hér gott samfélag þar sem fólki liður vel, en sálarleysið knýr kerfið áfram. Það vogar sér að skerða framlög til frjálsra samtaka sem lyfta grettistaki fyrir svo marga, eins og Hugarafl gerir fyrir geðsjúklinga.
Hollur matur er síðan kommúnismi, lýðheilsa, eða annað sem er fyrirbyggjandi.
Viðlagatrygging sem á að grípa inní þegar tryggingar ná ekki yfir hamfarir, er ekki viðlagatrygging ef embættismaður hafi ekki fyrirfram skilgreint þá hamfarir sem tryggingin nær yfir.
Samúð, samhygð, að hjálpa í neyð, helvítis kommúnismi.
Sálarlaust samfélag.
Stjórnað af sálarlausu fólki.
Sem telur kærleik vera villu sem þarf að leiðrétta, sem þarf að útrýma.
En þetta fólk náði ekki völdum með vopnavaldi.
Það laug sig reyndar til valda.
En umboð þess til að stjórna, er umboð sem var okkar að veita.
Og hvað gerum við til að hamla á móti?
Í alvöru, hvað gerum við??
Annað en að rífast í skotgröfum sem auðurinn gróf fyrir okkur.
Svo ekkert muni breytast, svo bátnum sem rekur að heljarós, verði ekki ruggað.
Það skiptir engu máli hvað við köllum þessa sálarlausu mannvonsku.
Á meðan við leyfum henni að ráða, þá endar allt illa.
Fólk sem getur ekki gengið fram á fallegt blóm, án þess að taka sér krók til að traðka það niður, ráðskast með heiminn í dag.
Ekkert okkar mun hafa það afl í glímu ef við ráðumst á það eitt og sér, en saman þá getum við lagt það, því þó það virki vígalegt, með sínum ótal glyrnum og lafandi tungum, þá er það þannig með allt sem sækir afl sitt í rotnun og viðbjóð, að það er fúið og feyskið að innan.
Og fellur við minnsta mótbyr.
Fjölskyldufyrirtækið laug sig til valda.
Það á að sæta ábyrgð lyga sinna.
Við eigum að losa okkur við það.
Tendra síðan ljós sem lýsir.
Það mun verða öðrum hvatning til að fara eins að.
Látum ekki auðinn fjárfesta í ágreiningi okkar og sundurlyndi.
Gleymum fornum væringum.
Sameinust um það eina sem við eigum sameiginlegt.
Um framtíð lífsins sem við ólum.
Í því mega allir fjárfesta.
Í því eiga allir að fjárfesta.
Því það er það eina sem við eigum í raun.
Kveðja að austan.
Milljarðamæringur fjárfestir í frambjóðendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.5.2017 kl. 18:12 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 13
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 459
- Frá upphafi: 1412821
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 398
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hafðu mikla þökk fyrir þennan magnaða og sanna pistil Ómar.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 14.5.2017 kl. 13:33
Takk fyrir það Pétur.
Þessi nálgun er nú reyndar ekki allra, og örugglega leitun að fólki sem tekur undir þessi orð þín.
Breytir samt ekki því að það þarf að orða af hverju ekkert hefur breyst þó margir hafi verið ofsalega mikið á móti frá Hruni, og stór hluti almennings kalli eftir breytingum.
Eitthvað er að, eitthvað hefur mistekist fyrst Hrunvaldarnir stjórna öllu, reyndar reynslunni ríkari, en það er þetta með kerfisvilluna, henni hættir alltaf að leiða til kerfishruns.
Við trúum því Pétur að einn daginn stigi fram fólk, sem vill vel og er ekki hluti af spilerí auðræningjanna.
Og það hafi áttað sig á þeirri kerfisvillu andófsins að eltast sífelt við eitthvað sem sundrar, í stað þess að finna hinn sammannlega þráð sem sameinar okkur öll.
Þetta fólk er þarna, og einn daginn lætur það í sér heyra.
Þá veður gaman hjá okkur skæruliðunum, þá verða eldræður samdar.
Þangað til er það þolinmæðin og þrautseigjan.
Ég bið að heilsa suður, ef ekkert kemur uppá, þá verður smá hlé hjá mér.
En ekki til eilífðar, það er öruggt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.5.2017 kl. 20:14
Takk Ómar, bið að heilsa austur.
Með kveðju að sunnan.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 15.5.2017 kl. 00:06
Sæll.
Píratar hreint frjálshyggjuafl á þingi? Hvernig færðu það út?
Það er afar vont, eins og ég hef reynt að benda þér á í mýmörg skipti, að skilja ekki hugtök sem þú notar.
Vald spillir og algert vald spillir algerlega. Þú kannast sjálfsagt við þessi orð. Ef við viljum koma í veg fyrir spillingu, óráðsíu og annað slíkt er tiltölulega einfalt að leysa vandann. Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir vandanum. Völd geta spillt og oft virðist það vera þannig að einstaklingar setjast á þing og ætla sér að gera eitthvað en svo gerist ekki neitt eða þessir einstaklingar skipta alveg um skoðun. Það er vandamál því þá eru þeir að svíkja kjósendur.
Hvernig komum við í veg fyrir að t.d. Engey ehf., ef við gefum okkur að þetta sé rétt hjá þér, stjórni landinu? Ef rétt er hjá þér er þetta mikið vandamál og ekki eðlilegt - við erum sennilega sammála um það.
Lausnin er að minnka báknið, við takmörkum verulega völd hins opinbera. Það er t.d. ekki eðlilegt að leggja mismunandi vsk á mismunandi atvinnugreinar. Allar atvinnugreinar eiga að sitja við sama borð og hið opinbera á ekki að vera í liði með einni eða neinni atvinnugrein.
Lausnin er frjálshyggja, grimmur niðurskurður á opinberum útgjöldum og lækkun skatta. Minni afskipti hins opinbera af öllu. Þú ert að rugla saman frjálshyggju og sósíal demókrötum.
Mér finnst svolítið merkilegt að þú skulir ekki hafa fyrir því að kynna þér málin aðeins heldur blogga kinnroðalaust um málefni sem þú hefur ekki haft fyrir að kynna þér. Hvers vegna kynnir þú þér ekki merkingu hugaka? Steingrímur Joð er ekki heimild um frjálshyggju og það var raunar afar furðulegt að fylgjast með sumum fréttasnápum koma fram við hann eins og Messías sjálfan þegar Steingrímur komst í stjórn eftir hrun.
Helgi (IP-tala skráð) 25.5.2017 kl. 10:02
Blessaður Helgi.
Ég setti Pírata inní reiknivél, og þetta var útkoman. Þér til huggunar, þá eru þeir meir ósammála þessari skilgreiningu en þú.
Sem aftur bendir til þess, að menn ættu að íhuga forsendur niðurstöðunnar.
Um annað sem þú segir hér að ofan, þá er það eins og það er.
"Ég berst gegn kommúnismanum", sagði júðinn á dánarstund sinni, þegar baráttufélagar hans settu hann í gasklefann.
Helgi minn, ég vona þín vegna að þjónkun þín við hið svarta fjármagn leiði til annarrar niðurstöðu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.5.2017 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.