11.5.2017 | 09:57
Við sviptum fólk voninni.
Við leyfum glæpamönnum að ráðskast með samfélög þeirra, hvort sem það eru löglegir hvítflibbagangster eða ennþá ólöglegir fíknsalar.
Afleiðingarnar gerum við refsiverðar.
Og nú á að ofsækja þá sem verða fíkninni að bráð.
Við skulum ekki halda að það komi ekki fleiri sálarleysingjar á eftir þeim fyrsta.
En það er eins og við, góða fólkið sem hefur allt okkar á þurru, að við vitum ekki að þeir sem verða undir, geta snúist til varnar.
Ef kerfið útskúfar fólki, hvað tilgang hefur það þá að virða reglur þess samfélags sem útskúfaði því?
Þessi litla frétt er aðeins birtingarmynd þess innanmeins sem er að éta upp vestræn samfélög.
Við höfum leyft sálarlausu fólki að yfirtaka öll völd í samfélögum okkar, líklegast vegna þess að það sagðist geta útvega okkur ódýrari jeppa, meiri lúxus.
Og sálarleysi fylgir sviðin jörð, og fólk á flótta svo ég grípi til líkindamáls.
Og við sem höfum ennþá allt okkar á þurru, lítum undan.
Við spáum ekkert í til dæmis hvað varð um fólkið sem flutti frá verðlausum heimilum í kjölfar kvótakerfisins, það eina sem hvarflaði ekki að okkur var að það hlyti einhverjar bætur fyrir það tjón sem kerfi hagræðingarinnar olli þeim. Við vildum ávinninginn, þau máttu eiga tjónið.
Hvað varð um hinar 10.000 fjölskyldur sem misstu heimilin sín í kjölfar Hrunsins sem þetta fólk bara enga ábyrgð á, sökin er okkar sem leyfðu hina evrópsku reglugerð um frjálst flæði fjármagns?
Er það þarna ekki einhvers staðar?? Örugglega flest hafa komið undir sig fótunum á ný.
En það gerðu líka flestir sem komu að heimilum sínum í rúst eftir morðæði seinni heimsstyrjaldar en það réttlætir ekki morðæðið. Og það er ekkert sem réttlætir að 10.000 fjölskyldur séu hraktar af heimilum sínum svo hrægammapúkinn fari feitur úr landi.
Ekkert nema sálarleysið.
Við heyrum líka fréttir að það sé verið að skera niður krónur hér og þar, til dæmis til Hugarafls eða námsmöguleika fatlaðra einstaklinga, krónur sem margfaldast ef í Exelinn er líka skráð bati, bót meina sinna, tækifæri til lífs, til betra mannlífs, gleði, fegurð.
En sálarleysið telur slíkt óþarfa útgjöld, og kemst upp með niðurrif sinn.
Við heyrum líka fréttir að gamalmenni fái ekki að borða ætan mat, nema stundum. því fullt fæði kostar of mikið, og við heyrum fréttir af öryrkjum sem dæmdir eru til viðvarandi fátæktar, þeir geta ekkert, því þeir hafa ekkert milli handanna eins og sagt var hér áður fyrr.
Á sama tíma heyrum við fréttir af því hvað við höfum það gott, að kaupmáttur snaraukist milli ára, hagsæld sé í hæstu hæðum, að við höfum aldrei haft það betra.
En þá er samt eins og það hvarfli ekki að neinum að það sé þá birtingarmynd einhvers óeðlis að heyra hinar fréttirnar, af fjárskortinum, af fjársveltinu, af þjáningum þeirra sem ættu ekki að þurfa þjást.
Við getum ekki kennt hinum sálarlausu um, þeir eru í okkar umboði, þeir eru okkar menn eða þannig.
Og það dugar ekki að horfa út um gluggann, og segja, "Djöfull hef ég það gott".
Það dugar ekki því það er í eðli fólks að snúast til varnar.
Sérstaklega þegar það hefur misst vonina, misst trúna á samfélagið, misst trúna á kerfið.
Og það dugar ekki heldur að fara háðulegum orðum um andóf þeirra hver svo sem birtingarmynd þess er.
Fólk kaus ekki Trump vegna þess að það var lítt menntað eða eitthvað undirmálfólk sem kunni ekki að fóta sig á gósenlendum hins frjálsa flæðis, hinna frjálsu viðskipta. Og hrakfarir þess væri því að kenna.
Fólk kaus Trump vegna þess að það vissi að hann myndi ráðast gegn kerfinu, kerfinu sem hafði afmennskað það sem einhvern kostnað í Exel.
Ekki vegna þess að það batt einhverjar vonir við hann, vonin er löngu flúin til fjalla, þetta fólk er að bíta frá sér.
Og það er rétt að byrja.
Einhverjir varnarsigrar elítunnar fá þar engu breytt.
Og ef hinir svo kölluðu popúlistar sigra ekki, þá verður það næst maðurinn með járnhnefann sem ræðst til atlögu.
Því sá sem er útskúfaður, sá sem hefur engu að tapa, hann finnur sér sinn farveg, hann finnur sína rödd.
Og það verður ekki rödd sáttar og samlyndis.
Umrót og upplausn verða ekki umflúin.
Það hafa of margir verið dæmdir úr leik.
Þess vegna ættum við að íhuga svona fréttir.
Hvort sem þær eru frá Ástralíu eða Breiðholtinu.
Spyrja hvað fór úrskeiðis.
Við höfum það vissulega gott, að meðaltali, það er faktur.
Annars hefði hinni fyrstu atlögu popúlistanna ekki verið hrundið.
Annars væri kerfi hinna sálarlausu ekki við völd.
En það er eitthvað að, eitthvað mikið.
Það er ekki efnahagslegt, ekki pólitískt, heldur siðferðislegt.
Og það snýr að okkur, sem höfum alltaf snúið okkur undan.
Annars lytum við ekki stjórn manna sem telja kærleik vera villu í bókhaldinu.
Villu sem þarf að leiðrétta.
Svo hagnaður þeirra aukist.
Við höfum tíma.
En hann er að renna út.
Og kemur aldrei aftur.
Kveðja að austan.
Atvinnulausir sendir í lyfjapróf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 6
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 452
- Frá upphafi: 1412814
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 391
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Og þingið, löggjafar- og fjárveitingarvaldið, er myrkur hellir með 63 Gollum sem stynja í kór
... þakklátir sjálfum sér og kjararáði sínu um 45% launahækkun, teljandi peningana lon og don: "My Preciousssssss."
Og þjóðin skilur ekkert í því af hverju hún kýs þetta alltaf yfir sig, aftur og aftur.
Og þú svarar mér Ómar minn, það vantar hreyfingu lífins, það vantar að fólk sameinist um lífið
... líf okkar allra, en ekki bara Gollumannanna sem stynja í kór, teljandi í sífellu sinn aur: "My Preciousssssss."
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.5.2017 kl. 12:42
Áður en tíminn rennur út.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.5.2017 kl. 13:02
Við góða fólkið. Erum svo vond.
En réttlætið. Mun sigra. Að lokum.
Nema það sé. Of seint.
Og gleymum ekki að hugsa. Um börnin. Og aldraða. Og þá sem eiga. Um sárt. Að binda.
Nú árið. Er liðið.
Og aldrei. Það. Kemur. Til baka
Wilhelm Emilsson, 11.5.2017 kl. 14:06
Blessaður Wilhelm.
Það er alltaf sönn ánægja að fá þig í heimsókn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.5.2017 kl. 14:22
Takk fyrir góðar móttökur, Ómar Þú lætur smá stríðni ekki slá þig út af laginu sem betur fer.
Wilhelm Emilsson, 11.5.2017 kl. 20:39
Bros eru dýrmæt Wilhelm, og maður á að þakka fyrir þegar manni er þau gefin.
Og þar sem ég er fjöldaframleiðandi, þá eru góðar tillögur alltaf vel þegnar.
Það má t.d nýta þetta með Það-ið, svona þegar ég er í vandræðum með að finna skiptinguna.
Takk fyrir innlitið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.5.2017 kl. 22:49
Sammála. Bros eru dýrmæt.
Wilhelm Emilsson, 12.5.2017 kl. 01:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.