7.5.2017 | 20:02
Hræðslubandalagið sigraði.
Og ljóst er að grámi dauðans hefur lagst á franskt lýðræði.
Eða hvernig á að túlka eða greina kosningar í rótgrónu lýðræðisríki þar sem valið stendur annars vegar á milli frambjóðenda með skýra stefnu, og hins vegar óttann við viðkomandi frambjóðenda??
Var þetta hið eina sem land hugmyndanna gat boðið almenningi uppá??
Hræðslu, ótta??
Og hver er hugmyndafræðilegur grundvöllur fólks sem telur sig standa fyrir jöfnuð og félagshyggju, að það eina sem það hefur til málanna að leggja, er að biðla til gamalla kjósenda sinna að kjósa nýríkan bankamann, fulltrúa alls hins versta í hinum alþjóðlega ræningjakapítalisma??
Svo er sagt að svik borgi sig, en það er afsannast á þessari háðung franska vinstrisins.
Það lofaði kjósendum sínum alltaf að berjast gegn nýfrjálshyggjunni, gegn ræningjakapítalismanum, en þegar á reyndi, þegar loforðin fleyttu því í ráðherrastól, að þá var það kaþólskara en frjálshyggjupáfinn í Chicago.
Gekk miklu lengra en frjálshyggjuflokkarnir þorðu nokkurn tímann.
Hvort sem það var að einkavæða almannaþjónustu, selja ríkiseignir eða skerða réttindi launafólks.
Það eru fleiri en Steingrímur Joð sem hafa logið sig til valda þó íslenskt vinstrifólk, ólíkt því frönsku, verðlauni Steingrími svikin.
Gjaldþrot hefðbundinna franskra stjórnmálamanna var löngu fyrirséð.
Of lengi hafði verið logið, of miklu, ítrekað.
Dauðateygjur þeirra var að sameinast um óttann.
Hann sigrað núna, en hann mun ekki sigra næst.
Frakkland á ekki viðreisnar von fyrr en það losar sig við hina dauðu hönd Evrópusambandsins, og það losar sig við ræningjakapítalistana, hugmyndafræði þeirra og efnahagsstefnu.
Síðan þarf að vinna að sátt á milli gamalla Frakka, og nýrra Frakka.
Hvað sem hægra lýðskrumið segir, þá er Ruanda leiðin ekki sú sem mun skapa frið og sátt til lengdar.
Aðeins samræðan, viðurkenning á sammannlegum gildum mun það gera.
En slík samræða, þó til staðar sé, hefur ekki náð því tungutaki að venjulegt fólk fylkir sér um hana.
En hún er lífsnauðsyn, ekki bara í Frakklandi, heimurinn allur þarf á henni að halda.
Og hún mun heyrast, hún mun ná að yfirgnæfa glymjanda tómhyggjunnar og hrópanda öfganna.
Því hún elur af sér líf.
Hitt deyðir líf.
Og lífið mun alltaf finna sér leið til að lifa af.
Kveðja að austan.
Unga gáfnaljósið tekur völdin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll.
Þú slærð enn um þið með hugtökum sem þú ýmist skilur ekki eða finnur upp.
Ég er þó sammála þér (af öðrum ástæðum þó en þú nefnir), Frakkland á sér ekki viðreisnarvon eftir þessar kosningar. Sennilega verður algert hrun í Frakklandi í valdatíð þessa manns. Þá fær Le Pen sjálfsagt tækifæri.
Svo er nokkuð merkilegt að franskir fjölmiðlar komust yfir tölvupósta Macron sem lekið var en var skipað af yfirvöldum í Frakklandi að birta þá ekki. Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta út af svona þvælu. Á sífellt fleiri stöðum sér maður hvers kyns svínastía fjölmiðlar eru orðnir.
Ég nefndi við þig um daginn öll slæmu lánin, skv. AGS, á evrusvæðinu og einnig hve stórt hið opinbera er um sig í Frakklandi (57%). Stærð þess gerir franska einkageirann ósamkeppnisfæran eins og sjá má á öllu þessu atvinnuleysi. Reglufargan frá jafnaðarmönnum ýmist í París eða Brussel gerir svo illt verra.
Atvinnuleysi er um 10% í Frakklandi og atvinnuleysi meðal ungs fólks er um 24%. Hvorugt mun batna undir Macron.
Margar franskar borgir munu verða óþekkjanlegar í lok forsetatíðar þessa manns vegna innflytjenda sem ekki laga sig að frönsku samfélagi. Frakkar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn í þetta.
Verulegur halli hefur verið á rekstri franska ríkisins árum saman og eru skuldir franska ríkisins orðnar nánast þær sömu og þjóðarframleiðsla þar í landi. Ljóst er að með útgöngu Breta og stælum ESB við þá að atvinnuleysi í ESB mun aukast vegna útgöngu Breta. Elítan í ESB sættir sig ekki við úrslitin og hegðar sér þá eins og sjá má. Elítan í ESB áttar sig ekki á því að Bretar eru með alla ásana á hendi.
Frakkar sendu um 19 milljarða evra til ESB árið 2015. Það er ekkert klink. Þeir fá ekkert í staðinn :-(
Helgi (IP-tala skráð) 7.5.2017 kl. 21:10
GAman að heyra í þér Helgi.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.5.2017 kl. 21:27
Nú eru Frakkar búnir að styrkja stöðu sína sem helsti "kjölturakki" Þjóðverja innan ESB.....
Jóhann Elíasson, 8.5.2017 kl. 00:16
Viðbrögð formanns Íslensku þjóðfylkingarinnar við kosningaúrslitunum er að finna hér :
http://thjodfylking.blog.is/blog/thjodfylking/entry/2195530/
Jón Valur Jensson, 8.5.2017 kl. 05:57
Takk fyrir innlitið félagar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 06:05
Vive la France, vive la démocratie....lengi lifi Frakkland...lengi lifi lýðræðið...lengi lifi Evrópusambandið...lengi lifi Jafnaðarmennskan...Hið góða sigraði hið illa...góða fólkið vann og vonda fólkið á að skríða í rasistaholuna sína og skammast sín....ESB vann...Jafnaðarmenn unnu...hið góða sigraði....vive la France.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 8.5.2017 kl. 08:19
Amen.
En mér finnst Helgi að þú hefðir líka mátt telja Óttann upp sem einn af sigurvegurunum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 09:15
Þú meinar þá óttann við vitleysinging og öfganöttaran Le Pen
DoctorE (IP-tala skráð) 8.5.2017 kl. 09:23
Ef Le Pen hefði sigrað, þá hefði óttinn sigrað....þannig að nú legg ég til að rasistarnir skríði núna ofan í rasistaholurnar sínar og athugi hvort að óttinn hverfi við það.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 8.5.2017 kl. 09:43
Helgi
það er ekki hægt að mála þetta svona eins og baráttu milli góða og vonda fólksins, þetta er bara barnaleg einföldun á pólitíska veruleikanum í Frakklandi. Það stendur upp úr að Marine nær þriðjung atkvæða sem er betri útkoma en nokkru sinni fyrir FN og það er amk hæpið að telja Macron jafnaðarmann, mann sem kemur úr röðum auðvaldsins og bankafursta. Ómar er miklu nær því sem er satt, einhver ótti við hið óþekkta sem hefur gripið um sig meðal Frakka
Böðvar (IP-tala skráð) 8.5.2017 kl. 09:53
Nei kæri DoktorE, ég talaði um óttan, hefði kannski átt að hafa hann með stórum staf, er eiginlega vanur því í svona tilvikum.
Eins og þú veist þá er ótti eitthvað ákveðið, sem við upplifum, en upplifun okkar getur verið mismunandi. Um hana er ég ekki að tjá mig, legg ekki fólki orð í munn.
Reikna samt með að fleira en eitt og fleira en tvennt valdi því að svona ólíkt fólki sameinist svona um eitt framboð.
Ég er meira svona að fjalla um það gjaldþrot lýðræðisins sem að baki býr.
Það er bautasteinn frjálshyggjubandalagsins.
Sigur Macrons var ekki einu sinni Pyrrhosarsigur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 09:54
Blessaður Helgi.
Held að þú sért ekki alveg að ná pistlinum, það má vel vera að ótti við ótta hafi ráðið þessu hræðslubandalagi, en það breytir því ekki að það eina sem var í framboði gegn Le Pen, var óttinn við hana og hugsanlegan sigur hennar.
Fyrir lýðræðið, fyrir hugsjónirnar um betri heim, betra mannlíf, þá hefði verið skemmtilegra að valkosturinn hefði verið eitthvað, eitthvað innihald, ekki hönnun ímyndar hjá einhverju markaðsfyrirtæki.
Þetta voru jú kosningar, en ekki atlaga Pepsi að Kók.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 09:59
Takk fyrir innlitið Bövar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 10:00
Málið er, að franskt vinstrifólk hefur einmitt verðlaunað sína stjórnmálamenn fyrir svikin. Macron var ráðherra í stjórn Hollande. Þegar hann sá að Hollande-skipið var að sökkva, stökk hann frá borði. Stofnaði nýjan flokk og fór í ný jakkaföt. Nýjar umbúðir um sama úlnda innihaldið. Það virkaði í Frakklandi rétt eins og á Íslandi.
Theódór Norðkvist, 8.5.2017 kl. 11:33
Blessaður Tehodór.
Ef fjárúlfur er vinstri maður þá er ég eskimói og þú Kínverji.
Þá er ekkert það sem það er.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 11:44
Lýðræðið er ekki upp á marga fiska ef menn geta leikið sér að þessu
með þessum hætti, þetta er orðið nær leikhúsinu heldur en raunverulegri
starfsgrein. Sömu leikarar í nýjum búningum á sama gamla sviðinu
kveðja böðvar
böðvar (IP-tala skráð) 8.5.2017 kl. 11:49
Af hverju getur fjárúlfur ekki verið vinstri maður? Voru ekki ólígarkarnir allir meðlimir í kommúnistaflokknum? Þú meinar, kannski að þeir hafi verið svona plat vinstrimenn, bara á pappírnum, en ætli það eigi ekki við um a.m.k. 90% þeirra sem kalla sig vinstrimenn?
Nær er skinnið en skyrtan - þegar valið stendur á milli eigin hagsmuna og hagsmuna þjóðarinnar, eða jafnvel bara kjósenda sinna og einhverra hugsjóna, þá eru nú fleiri sem velja hið fyrst nefnda og gefa skít í allt hitt. Þeir þurfa ekki einu sinni að heita Steingrímur Jóhann Sigfússon til þess.
Annars var það nú ekki aðalatriðið í minni athugasemd, hvort Macron væri ólígarki eða vinstri maður, en samt góð ábending hjá þér.
Theódór Norðkvist, 8.5.2017 kl. 12:21
Vegna þess Thedór að þú verður ekki Kínverji þó segist vera Kínverji og ég verð ekki eskimói þó ég kaupi mér skinnföt.
Og þó upprunalega hafi margir kommunistar verið í sovéska kommúnistaflokknum, þá var orðin leitun af þeim undir það síðasta, tækifærin til að komast áfram voru tengd aðild að honum.
Það þarf ekki að efa að hugmyndafræðilegar rætur Jóhönnu er í jafnaðar og félagshyggju, og Steingríms hjá rótækari framsóknarmönnum sem gátu ekki lengur kallað sig framsóknarmenn, þó þeir væru það genetískt. Eitthvað spilaði lestur á ritum Leníns og Marx þar inní.
En þegar hið svokallað vinstrifólk framkvæmir stefnu sem er últra hægri, í þágu auðs og auðmanna, geta þeir áfram kallað sig vinstrimenn??
Svarið er augljóslega nei, en út frá flokkunaráráttuinni þá kallar maður þau ennþá vinstrisinna, en á einhverju tímapunkti þarf að uppfæra stöðu þeirra, og þá út frá gjörðum nútíðar, en ekki einhvers sem sagt var á fyrri tímum. Þegar völdin voru engin og reyndi ekki á hinar raunverulegar pólitískar skoðanir.
Macron er tilbúningur, algjör tilbúningur, það er stjórnmálamaðurinn Macron. Undir býr mjög ákveðinn einstaklingur sem ætlar sér á toppinn, valdatoppinn.
Og hans bakland er valdaelítan.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 13:06
Ég er sammála þér, en til að einfalda málið, vil ég spyrja þig einnar spurningar. Hvaða stjórnmálamaður á Íslandi, eða úti í heimi, hefur alltaf og algjörlega staðið með þeim hugsjónum sem hann segist aðhyllast, á borði og ekki aðeins í orði?
Ég veit ekki um neinn, þannig að samkvæmt þinni mælistiku, þá er ekki til einn vinstrisinni og ekki neinn hægrisinni heldur, ef út í það er farið. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hægriflokkur, hann stendur fyrir ríkisreknum kapítalisma, svipaða stefnu og kínverski kommúnistaflokkurinn. Oft kallað einkavinavæðing, stundum pilsfaldakapítalismi, gróðinn einkavæddur, tapið ríkisvætt.
Theódór Norðkvist, 8.5.2017 kl. 14:46
þetta eru áhugaverðar pælingar, ég sé ekki hvernig þessi stefna á að ganga upp, að
einkavæða ríkiseigur, þær síðan blóðmjólkaðar og skildar eftir í rúst en svo er
lokareikningurinn sendur á ríkið og almenning!? það er ekki heil brú í þessa stefnu,
ekki það að ríkisbankakerfið hafi verið gallalaust en þó milljón sinnum betra
en það sem kom síðar.
böðvar (IP-tala skráð) 8.5.2017 kl. 15:49
Ég var nú reyndar ekki að tala um hugsjónir, heldur stjórnmálastefnu Theódór.
Vinstrimenn eiga rætur í kenningar Marx og Engels, og öll þróun þeirra hefur ofist um hvernig eigi að túlka þær, og framkvæma.
Niðurstaða jafnaðarmanna var sterkt ríkisvald, með öflugu kerfi til að dreifa út gæðum (velferðakerfið), ásamt því að lykilatvinnugreinar áttu að vera í eigu ríkisins, eða nátengdar því. Til dæmis raforku, samgöngur, bankastarfsemi, í Frakklandi til dæmis bílaiðnaðurinn og svo framvegis. En efnahagsumgjörðin átti alltaf að vera hinn borgaralegi kapítalismi.
Kommúnistarnir hins vegar vildu ekki kapítalismann, allar megin atvinnugreinar áttu að vera á forræði ríkisins. Þess vegna tóku þeir sér alræði því þeir gátu þetta ekki komið þessu í framkvæmd innan lýðræðislegs kosningakerfis.
Raunveruleikinn og aðstæður hafa svo ráðið því hvað jafnaðarmenn hafa verið róttækir, og eins ákváðu kommúnistaflokkar Vestur Evrópu að starfa innan hins borgarlega lýðræðis, en það hefur hins vegar alltaf verið þráður í hinar sósíalísku rætur.
Vinstrimenn sem taka upp efnahagskenningar Friedmans og Hayek í þágu auðs og auðmanna, geta hins vegar aldrei kallað sig vinstrimenn, jafnvel þó þeir segist gera það í góðum tilgangi, til dæmis að styrkja velferðarkerfið. Þá eru þeir einmitt hægri menn sem vilja styrkja velferðarkerfið, þeir eru margir, til dæmis kristilegir íhaldsflokkar hafa lengi haft slíkt á stefnuskrá sinni.
Hægrimenn hins vegar leggja út frá borgarlegum kapítalisma, þar sem eignarhald fyrirtækja á að mestu eða öllu að vera í eigu einkaaðila. Þeim greinir mjög á um umsvif ríkisins og hlutverk, og það er til dæmis himinn og haf á milli frjálshyggjuflokka og kristilegra íhaldsflokka. Að öllu jöfnu ganga hagsmunir borgarastéttarinnar, þeirra sem eiga, fyrir í stefnu hægri flokka. Og þar sem þeir ráða ríkisvaldinu, þá getur það litið út sem ríkisvaldið og kapítalið sé eitt.
Ég held að það sé það sem þú ert að vísa í Theodór, en það hefur ekkert með hægri og vinstri að gera.
Varðandi kínverska kommúnistaflokkinn þá er það eina sem eftir er að kommúnískri stefnu hans, nafnið og alræðið. Svona mikil ríkisumsvif og gíganískt eignarhald ríkisins á framleiðslufyrirtækjum er þekkt í mannkynssögunni löngu áður en Marx og Engels fæddust.
Í kommúnismanum var eignarhald ríkisins á framleiðslutækjum hugsuð sem leiðin að því marki að koma á alræði öreiganna þar sem öll framleiðslutækin væru í eigu kommúna verkafólks. Og að nafninu til var það lengi stefnan í Kína, en það er löngu liðin tíð.
Það er enginn kommúnistaflokkur við stjórnvölina í neinu landi í dag.
Sem betur fer.
Og Sjálfstæðisflokkurinn er púra hægri flokkur, en ekki lengur kristilegur íhaldsflokkur.
En vinstriflokkur er hann ekki, ekki frekar en ég sé hæna og þú köttur Theodór.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 15:50
Tja böðvar, menn sjá afleiðingarnar um allan hinn vestræna heim.
Heimur á heljarþröm.
En það fyndna er að vinnumenn ræningjakapítalistanna þeir reyna núna að telja fólki í trú um að þetta sé afleiðing af einhverri vinstrimennsku, með þeim rökum að vinstrimenn hefðu gengist undir þessa stefnu þeirra Friedmans og Hayek.
Sem er rétt eins langt og það nær, nema að vinstriflokkar hafa örsjaldan stjórnað meginríkjum Vestulanda, sé litið til valdatíma hægriflokka, sem og eins og ég er að reyna að útskýra hér fyrir ofan, að það er stefna sem dæmir flokka, ekki heiti þeirra eða orðagjálfur forystumanna þeirra.
Ég man ekki einu sinni eftir því hvenær síðasta vinstristjórnin ríkti á meginlandi Evrópu, var það stjórn Helmut Schmith í Þýskalandi sem náði eitthvað inná níunda áratuginn??
Allavega var frjálshyggjupestin búin að sýkja alla helstu jafnaðarflokka Evrópu þegar komið var fram á níunda áratuginn, og þegar líða tók á þá urðu þeir verri ef eitthvað var við að festa kennisetningar frjálshyggjunnar í sessi.
Og urðu þar með að örgustu hægri flokkum.
En Ögmundur er vinstrimaður, höldum því til haga.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.5.2017 kl. 16:01
Það er rétt hjá þér, að það er og hefur kannski aldrei verið, kommúnistaflokkur við völd neins staðar, í þeim skilningi að þeir fari 100% eftir Kommúnistaávarpi Marx og Engels. Enda er það líklega ekki hægt.
Það er ekki algjörlega vegna aumingjaskapar, skítlegs eðlis, eða fals, að vinstri menn sem hafa komist til valda, svíki sínar yfirlýstu hugsjónir fyrir 30 eða fleiri silfurpeninga, stundum færri. Kenningarnar eru bara þess eðlis, að þær geta gengið upp í Disney-bíómyndum, en ekki á þeim leiðindastað sem við öll búum á, raunveruleikanum. Mannlegt eðli er bara ekki betra en mannkynssagan hefur sýnt okkur.
Einmitt þess vegna er ég frekar hægri maður, þó ég sé bláfátækur. Ég viðurkenni að hver og einn maður ber ábyrgð á sínu eigin lífi og getur ekki ætlast til að stóra mamma, ríkið, færi sér allt upp í hendurnar. Ég vil frekar aðhyllast kenningar sem eru líklegri til að ganga upp og taka mið af raunveruleikanum, þó þær séu ekki alveg eins sykurhúðaðar og Disneybíómyndavænar, en kenningar sem eru fallegar á pappírnum, en koma aldrei til með að leiða til neins nema fátæktar og upplausnar.
Theódór Norðkvist, 9.5.2017 kl. 12:23
Ég skil alveg hvert þú ert að fara Theodór, en þar sem kemur á eftir hjá þér eftir að þú segir að þetta sé rétt hjá mér, er ekki alveg það sem ég sagði.
Kommúnistaflokkar voru skilgreindir og metnir út frá því að þeir stefndu á kommúnismann. Og einmitt þar sem lífið er ekki kvikmyndahandrit, og kommúnisma varð ekki komið á í einum hvelli, þá var millistigið það sem þeir kölluðu sósíalisma (sbr. kenningar Leníns), þar sem fyrsta stigið var að koma öllum framleiðslutækjum í eigu ríkisins. Á einhverjum tímapunkti var ljóst að þeir döguðu upp í því ástandi og stefna þeirra snérist greinilega um allt annað en en að stefna að kommúnisma. Orwell náði ágætlega að lýsa vegferð þeirra í Animal Farm. Þá er líklegast rangnefni að tala um kommúnistaflokka, en þar sem einhvers konar sósíalismi var við lýði, þá var það samt gert.
Síðan er það harður dómur að segja að vinstrimenn hafi alltaf svikið eða hugsjónir þeirra gangi ekki upp. Öll velferð sem þú hefur, átt þú þeim að þakka. Hvort sem það er aðgangur að menntun án gjalds, heilsugæslu fyrir alla, eða öryggisnet þegar á bjátar. Vissulega hafa hægri menn komið að verki við uppbyggingu velferðarkerfisins, sérstaklega kristilegir íhaldsflokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn var, en ástæða þess var hin sífelldi ótti við byltingu rauðliðana. Hvar er rússneska yfirstéttin núna spurði Churchill samflokksmenn sína sem mögluðu gegn frumvarpi hans um atvinnuleysistryggingar í byrjun kreppunnar 1929 þegar hann var fjármáalráðherra í ríkisstjórn íhaldsflokksins. Og jafnaðarmenn höfðu aldrei hugsað sér að koma á sósíalisma, hvað þá kommúnisma, enda lögðu þýskir kommúnistar meiri áherslu á að lemja á þeim en nasistunum, sögðu áherslu þeirra á borgarlegt efnahagskerfi vera svik við byltinguna.
Jafnaðarmenn lentu vissulega í ógöngum vegna áherslna sinna á ofurskattlagningu og á tímabili virtist vera að þeir ætluðu að leysa allt með tilfærslum skriffinnskunnar, en hin sameiginlega sátt þeirra við borgaralega íhaldsmenn um hið blandaða hagkerfi hefur skilað mestri velmegun og jöfnustu lífskjörum sem heimurinn hefur þekkt til dagsins í dag.
Og á einhverjum tímapunkti hefur einhver sem hefur átt mikla hagsmuna að gæta (þá hagsmuni er hægt að sjá á línuriti um veldisaukningu á eignum 1% elítunnar) platað þig Theodór til að trúa bábiljum um eðli velferðar og velmegunar og hlutverk ríkisins í því dæmi. Þetta; "getur ekki ætlast til að stóra mamma, ríkið, færi sér allt upp í hendurnar." er frjálshyggjufrasi sem á enga stoð í raunveruleikanum. Og í þeim ríkjum þar sem ríkið hefur engin afskipti á að veita þá þjónustu velferðarinnar sem ég taldi upp, og einkaaðilar veita hana eftir efnahag fólks, að þar hefur fátækt fólk það skítt, og það er fast í vítahring fátæktar. Mest vegna þess að það getur ekki menntað börnin sín, og síðan eru lífslíkur þeirra mun skemmri en hjá fátæku fólki í þeim löndum þar sem nokkuð veginn ókeypis heilbrigðisþjónusta er til staðar.
Vandséð af hverju þú ættir að vilja þér slíkt hlutskipti Theodór, í alvöru.
Og þetta er ekki varanlegt ástand, í þessum ríkjum upplifir yfirstéttin sig æ meir umsetna af fátækum múg, sem hún telur að vilji sér illt. Og óttinn eykst þrátt fyrir allar víggirðingarnar, alla öryggisverðina og lífverðina, þrátt fyrir að her og lögregla sé hluti af varnarkerfinu.
Og þessi ótti er ekki að ástæðulausu, sagan kennir að um leið og hinn bláfátæki múgur fær leiðtoga, þá sækir hann fram, byltir með tilheyrandi blóði og drápum, á yfirstéttinni.
Velferðarkerfið var nefnilega hannað til að koma í veg fyrir þessi sífelldu stéttarátök, og sú samfélagssátt var rofin þegar hluti peningastéttarinnar fjármagnaði frjálshyggjuna til valda, líkt og þeir fjármögnuðu nasistana og kommúnistana (það er bissness í ófriði og þar með var það góð fjárfesting að fjármagna herská öfgaöfl) á sínum tíma.
Þess vegna er heimurinn á heljarþröm í dag, og ætti öllum að vera ljóst sem eiga líf sem þarf að vernda.
Svik vinstrimanna eru hluti af skýringu þess sem varð. En við hin sögulegu svik, þá missti fólkið sem sveik í þágu valdafíknar sinnar, réttinn til að kalla sig vinstri fólk. Og um leið þá vanvirti það aldalanga baráttu áa sinna fyrir betra mannlífi, sem byggðist á manngildi, og rétti einstaklings til að hafa í sig og á.
Án arðráns og kúgunar yfirstéttarinnar.
Hún er ekkert lögmál Theodór, hún er ekkert lögmál.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.5.2017 kl. 13:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.