Morgunblaðið er gott blað.

 

Það er fjölbreytt, það nær að taka púlsinn á samtímanum, og það hefur metnaði í að segja fréttir.  Bæði frá atburðum, hvað býr að baki, sem og að fræða með ítarlegum fréttasýringum. Lesandi Morgunblaðsins er miklu nær á eftir, hann er fróðari, og líklegri að láta ekki glepjast á allri froðunni og öllum tilbúningnum sem hönnuð fréttamennska hagsmuna ýmiskonar ber ábyrgð á.

Eftir ítarlegar umfjöllun blaðsins um loftslagsvána er til dæmis miklu erfiðara, það er þarf eindreginn vilja, að vera pólitískur ansi í afneitun sinni á yfirvofandi harmageddon mannkynsins.

Þarf eiginlega mikinn illvilja til gagnvart framtíð afkomenda sinna.

 

Hápunkturinn Moggans er hin prentaða Helgarútgáfa, stundum þarf heila kaffikönnu og mikinn flóarfrið frá skyldum heimilisins til að ná að lesa allt til hlítar.

Eins og til dæmis í morgun.

Viðtal Karl Blöndal við Robert Jervis, sem nær að útskýra ágætlega af hverju Trump forseti á að eiga sérstaka deild í almannavörnum, líkt og hvirfilbylur, fellibylir, jarðskjálftar eða hamafara eldgos, á að vera skyldulesning, eða réttara sagt, það á að vera skylda hjá Mogganum að láta Karl taka viðtöl í hverri viku, okkur öllum hinum til fróðleiks og ánægju.

Síðan eru Reykjavíkurbréfin sérstök klassísk, líkt og Black Label eða Síríus rjómasúkkulaði með rúsínum, eða Egils maltöl og appelsín.  Æ fleiri bréf, með auknum þroska bréfritara, eru farin að minna mig á tímalausar greinar sem lesa má í ritsöfnum Laxness eða Vilhjálms landlæknis forðum daga.  Þar sem umfjöllunarefnið sem slíkt er aukaatriði, en málið, tungumálið og notkun þess hrífur lesandann og fær hann til að vilja lesa meira af slíku gæðaefni.  Hér er til dæmis ein snilldin þar sem fá orð segja svo ofboðslega mikið; "Stór hópur fólks í lýðræðisríkjum Vesturlanda reynir af miklum ákafa að koma í veg fyrir það að yfirvofandi hætta sé rædd. Og það gerir það í góðri meiningu. En sú hin góða meining er nær því að vera meinsemd en meining".  Og hnitmiðuð rök fylgja svo í kjölfarið.

 

Svarta pestin, og sú leitni hennar að leita að samnefnara hins lægsta, fær líka sinn skerf, eins og oft áður í Mogganum.  Því blað sem segir frá, segir frá hlutunum eins og þeir eru, það þarf að vera autt ef það forðast að minnast á atlögu frjálshyggjunnar að mennsku og mannúð.  Í grein um siðleysi tískunnar og það mannhatur og græðgi sem drífur hana áfram má meðal annars lesa þessi orð; "Um þessar mundir auglýsir Primark kjól sem líkist hönnun Vogue. Primark-kjóllinn kostar 10 pund og lítur út á mynd ekki ósvipað og kjólar frá fyrirtækjum sem búa til metnaðarfulla gæðahönnun. En hvernig getur kjóll kostað 10 pund? Hvernig er hægt að búa til hráefni, spinna þráð, vefa efni, hanna, sníða og sauma kjól fyrir þetta verð? Það er augljóst mál að það eru einhverjir þarna sem ekki fá greitt fyrir sína vinnu. Þetta lága verð er aðeins tilkomið vegna þess að hraðtíska er framleidd af þrælum í löndum þar sem vinnulöggjöf er nánast ekki til.".

Greinin heitir Hættur hraðtískunnar og er þörf lesning öllum sem láta sig mannlíf og framtíð barna okkar varða.

 

Loks langar mig til að minnast á aðsenda grein eftir Guðmund Inga Kristinsson, sem fjallar um fátækravæðingu samfélagsins.  Þörf ádrepa um það mannhatur og siðleysi sem hrjáir yfirstétt okkar  og elítu.  Greinin heitir Keðjuverkandi skattaskerðingar og þar má lesa þetta meðal annars;

"Hækkun á framfærsluuppbót, sem skerðist »krónu á móti krónu« er ekkert annað en ólöglegur 100% skattur. Styrkir, t.d. frá verlýðsfélögum, fyrir lyfjum, lækniskostnaði, rekstri bifreiðar og fleiri styrkir valda bara keðjuverkandi skerðingum á lífeyrislaunin frá TR og á húsnæðisbótum, barnabótum og öllum öðrum bótaflokkum. Skatta- og skerðingalandið Ísland tekur til sín mun hærra hlutfall af lífeyrislaunum en önnur norræn lönd. Keðjuverkandi skerðingar eru ekkert annað en vondur skattur sem leggst á öll laun og styrki og dregur úr vinnu og veldur ekki bara aukinni fátækt, heldur leiðir einnig til sárafátæktar.".

Skyldi sál mælast hjá því fólki sem ábyrgðina ber??, og hvers eðlis er guðinn Mammon sem þetta fólk tilbiður, er hann eitthvað í ætt við Hvíta Krist?, á dýrkun á honum einhverja samleið með þeirri borgarlegri íhaldsmennsku, sem á rætur í vestrænni kristilegri menningu, sem Sjálfstæðisflokkurinn gefur sig út fyrir að fylgja??  Svarið er ekki að benda á að hundheiðnir vinstrimenn beri svipaða ábyrgð, ekki hafi þeir breytt neinu þegar þeir voru í ríkisstjórn, því hjáguðir þeirra, Lenín og Stalín, voru blóðugir upp fyrir axlir í drápum sínum og aðförum að friðsömum samfélögum fólks.

Spurningin er hvernig kristið borgarlega sinnað fólk getur látið verkfæri auðsins, skurðgoðadýrkendur Mammons, ráða öllu í flokknum sínum, og þess eina hlutverk er að mæta á kjörstað og festa óhugnaðinn og síránið í sessi.

Eins og þetta fólk viti ekki að það þurfi að standa ábyrgð gjörða sinna fyrir æðri dómi.

 

En hvað um það, ekki veit ég hvernig þetta fólk getur horfst í augun á samvisku sinni, eða horft framan í börn sín eða aðallega barnabörn eða barnabarnabörn, því það er aðallega eldra fólk sem styður ránshöndina, sem og sívælandi landsbyggðarmolbúar sem eru sídettandi ofaní holur á ónýtum þjóðvegum, og sá ekkert samhengi milli atkvæðis síns og raunveruleikans.

En ég skil vel þessi orð Guðmundar;

"Er verið að skattleggja fátækt? Eða er verið að skattleggja sárafátækt? Já, því miður er verið að því á Íslandi eins og hér að undan hefur komið fram. Lífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót voru við upphaf staðgreiðslu árið 1988 án skatts og það var afgangur af persónuafslættinum upp í aðrar tekjur, t.d. lífeyrissjóðgreiðslur. Spáið í það að þetta var hægt 1988 og á því vel að vera hægt í dag.

Skerðingar eru ekkert annað en skattur og keðjuverkandi skerðingar ekkert annað en keðjuverkandi skattur og hann þurfa þeir að þola hlutfallslega mest sem eru á lægsta lífeyrinum og launum.

Þetta er úthugsað refsikerfi »elítunnar« yfir okkur lífeyrislaunaþegum. Þ.e.a.s.: Samtök atvinnulífsins, verkalýðsforingjar, bankakerfið, embættismenn, stjórnmálamenn og sérfræðingar þeirra í atvinnulífinu og á Alþingi. Svívirðilegt refsikerfi mannvonskunnar sem bitnar illa á veiku fólk og eldri borgurum. Kerfi skerðinga og skatta sem gerir fólki ómögulegt að eiga til hnífs og skeiðar og hvað þá að lifa við reisn eins og stjórnarskráin boðar fyrir alla, en ekki bara fáa útvalda, »elítu«, eins og er í dag.".

 

Það þarf mikla mannvonsku til.

Og hún á það sameiginlegt með peningum, að af henni er nóg til á Íslandi í dag.

En mikið vill meira, og þess vegna fagnaði elítan ógurlega þegar fréttist af meintri fjárfestingu vogunarsjóða í bankakerfi sem er yfirfullt af peningum.

Tvær flugur i einu höggi.

Sem er snilld á vissan hátt.

 

Svona er Mogginn.

Alltaf eitthvað við hvers manns hæfi.

Hvort sem það er slúðrið í Smartlandi, girnilegur matur í matarhorninu, ítarlegar íþróttir alls staðar á vefmiðlinum, sem og sérstakur kálfur daglega, fréttir og fréttaskýringar.

Og endalausar umfjallanir og fréttir um aðför Svörtu pestarinnar, hagtrúar Mammons, að mannkyni öllu.

Allt á einu stað, ferskt og gott.

 

Já Morgunblaðið er gott blað.

Kveðja að austan.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekkert veit ég, en Ómar Geirsson er þó að mínu mati léttur í lundu í dag ... og besti moggabloggarinn.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.3.2017 kl. 14:57

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Og vonandi fer mogginn að banna nafnlaus blogg. 

Sigurður I B Guðmundsson, 26.3.2017 kl. 16:36

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Ja, allt sem vellur uppúr mér Sigurður, kemur undir nafni svo ekki er við mig að sakast.  Og ég hélt ekki Moggann heldur, því allavega er allt sem ég les, bloggað undir nafni.

En kannski áttu við athugasemdarkerfið, og það er önnur Ella, jafnvel tvær.

Sumt er reyndar hundleiðinlegt, og auðséð að illa launaður stúdent í aukavinnu er að leika aula fyrir einhverja hagsmuni, en annað er hreint ágætt, eins og sá heiðursmaður Skeggi Skeggjason var á sinni tíð. Og ekki má gleyma Predíkaranum, og einhverju latínunafni, og fleirum nafleysingjum sem voru og eru lúmskt fyndnir á sinn hátt.

En hroðinn er ekki hérna á Moggablogginu, það þarf að leita annað til að finna hann.

Það get ég svo svarið.

Kveðja að austan,.

Ómar Geirsson, 26.3.2017 kl. 21:47

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er húmor í þér í dag Pétur Örn.

Hér er hins vegar grafalvaran á ferðinni eins og svo oft áður.

Enda bloggað um grafalvarleg mál.

En hvað er að frétta þarna fyrir sunnan, ætliði aldrei að koma frá ykkur alvöru andófsflokki sem ástundar ekki kerfisjarm?

Hvernig væri að tilkynna kröfu um að vogunarsjóðir ætti að gerða útlægir úr öllum siðuðum samfélögum, og þar sem íslenska þjóðin telur sig siðaða, að þá sé þeim þar með bannað að eiga nokkurn einasta hlut hérna, ekki einu sinni teskeið í Kaffitári, hvað þá eignarhlut í banka.

Í stað þessa endalausa væls um upplýsingar um hina raunverulegu eigendur. 

Skiptir það fjárhirðirinn einhverju hvað hver úlfur í úlfahópnum heitir þegar hann verndar hjörð sína.  Dugar ekki fyrir hann að vita að úlfar éta sauði, séu þeir skildir eftir óvarðir á víðavangi?

Og væri ekki full ástæða að krefjast opinberar sakamálarannsóknar á hvað að baki lá þegar tilkynningin um komu úlfahópsins var ekki einu sinni orðin að bergmáli í hátölurum kallarans, að þá reis óumbeðið upp klapplið mikið og fagnaði hinu yfirvofandi drápi sauðanna.  Að því gefnu að menn trúi ekki skýringu minni hér að ofan, að menn fagni tveimur flugum í einu höggi, þá er full ástæða til að kanna aðrar skýringar, eins og til dæmis fjárfærslu milli vasa.

Eða krefjast þess að þeir menn sem plata sig inná þjóðina með allskonar lygaþvættingi, en geta ekki einu sinni haldið við innviðum hennar, hvað þá byggt húsnæði handa börnum okkar, að þeir verði gerðir burtrækir úr stjórnmálum, og í framhaldinu bannað að gefa sig að stjórnmálum næstu tvær kynslóðirnar hið minnsta.

Og svo framvegis.

Mannmál í stað jarms.

Jarms um formsatriði eða stærðinni á bótinni sem á að þétta lekann, þegar í fyrsta lagi er ljóst að hið hripleka ker er handónýtt, og í öðru lagi að þá eru allir jarmararnir sammála um eitt, og það er að bótin megi aldrei vera svo stór, að hún nái að hylja gatið.

Það vita þetta allir en samt steinhalda kjafti allir þarna fyrir sunnan sem tala mannamál, og ekkert gerist, því það er enginn valkostur í boði.

Enginn flokkur, engin samtök sem vilja berjast við auðinn til að verja framtíð barna okkar.

Aðeins biðraðir tuðandi fólks á færibandi auðsins, gerandi ekkert þó það viti innst inni að bandið leiði það í sláturhús, þegar búið er að rýja það inn að skinni.

Veistu hvað það er leiðinlegt til lengdar Pétur að halda úti bloggi sem endalaust er að skammast, eða á móti einhverju sem elítan er að gera í þetta og þetta skiptið??

Og hafa enga lausn til að vitna í.

Nei það vantar allt Malt í ykkur, og jafnvel smá slurk af Black Label.

Það er eins gott að sólin er hækkandi, og lyktin af gróandanum farin að berast af hafinu.

Vorið í nánd og breytingar að vænta.

Ég fylgist með og slæ inn einum og einum pistli þegar andinn kemur yfir mig.  Það á víst að holubæta eitthvað suður í Berufirði, svo hvötin sem rak mig áfram, er horfin í bili.

Við sjáumst allavega í byltingunni Pétur, og ef gott fólk blæs herkall lífsins í lúðra, þá verður örugglega eitthvað pikkað hér í afdölum.

Svo má ekki vanmeta andann, sá skálkur á það til að birtast úr lausu lofti og krefjast pistils.

Ætli ég láti það ekki eftir honum.

Bið að heilsa á meðan Pétur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.3.2017 kl. 22:29

5 identicon

Maður tekur sína spretti líka Ómar minn ...

en hví skyldi vera frekar blásið í lúðrana hér syðra en nyrðra, vestra eða austan?

Eða krafa um að aðrir blási í lúðra ... mér nægir blokkflautan mín gamla.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 27.3.2017 kl. 00:19

6 identicon

Best er samt að láta andann blása sér einhverju í brjóst ... líst vel á áframhald þess.

Bíð eftir herútboði þínu til okkar framhlaðningsmanna.  Mundu Ómar minn, þú ert hershöfðingi lífsins.

Mitt er að reyna að halda uppi þungu höfði mínu :-)

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 27.3.2017 kl. 00:24

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Vegna þess að til þess að geta kallast flokkur þarf a.m.k. þrjá á stofnfund, annars er ekki hægt að kljúfa hann sögðu marx-lénínistarnir hér forðum.

Þess vegna útilokar fólksfæð aðrar áttir.

Mér líst vel á blokkflautuna.

Hafðu það sem best Pétur.

Við eigum örugglega eftir að heyrast.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.3.2017 kl. 06:09

8 identicon

Morgunblaðið er einstaklega gott blað...sérstaklega eftir að wc pappírinn klárast...þá er gott að eiga moggann.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 27.3.2017 kl. 15:36

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi.

Pistill minn hefið orðið alltof langur í stað þess að vera langur, ef ég hefði talið upp alla kosti Moggans.

Og það er rétt þetta er einn af þeim.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.3.2017 kl. 21:40

10 identicon

Sæll ómar

ég myndi reyndar ganga aðeins lengra og segja þetta vera EINA blaðið sem

hægt er að lesa og finna einhverja umræðu af viti. Sem betur fer og þeim 

er líka umhugað um íslenskuna svo að þar getur maður lesið gæða íslensku.

Það er vonandi að hin blöðin reyni að klifra upp á sama plan og mogginn, 

það væri það alversta að mogginn hrapaði niður á sama plan og hin blöðin.

Þó er viðskiptablaðið bara nokkuð gott, en þó kannski heldur takmarkað

efni eins og nafnið gefur til kynna, kveðja Böðvar

böðvar (IP-tala skráð) 28.3.2017 kl. 22:15

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Böðvar og takk fyrir innlitið.

Ég er sammála orðum þínum og tel að það sé löngu tími til kominn að hugsandi fólk sem lætur sig þjóðmálin varða, slái skjaldborg um Moggann.  Í mínum huga er hann orðinn að stofnun sem er svona álíka og Ruv, með öllum sínum kostum og göllum, þá er Mogginn orðinn fyrir margt löngu að einhvers konar menningarverðmæti sem ber að varðveita.

Sérstaklega núna á tímum sýndarheims alnetsins.

Þegar ruglið er auðfundnara en gæðin.

Og fólk á öllu litrófi stjórnmálanna á að sannmælast um mikilvægi Morgunblaðsins fyrir stöðuga og vandaða þjóðmálaumræðu, sem og allt hitt.

Stjórnmálaskoðanir ritstjórnar Morgunblaðsins koma málinu ekkert við, þær eru settar fram á afmörkuðum vettvangi, og menn ættu að fagna að einhver er með skoðanir, aðrar en þær hvernig stendur á í fjármálabraski eigandans eins og akkilesarhæll Fréttablaðsins og tengdra miðla er.  Eða hver borgar málaliðanum á Fréttatímanum best hverju sinni.

Nei Mogginn á miklar þakkir skyldar, og megi þjóðinni bera sem lengst gæfu til að kaupa áskrift að honum, og vilji menn ekki fulla áskrift, þá er helgaráskriftin hverrar krónu virði, og rúmlega það.

Klettar eru alltaf nauðsynlegir innan um sandkorn tímans.  Þeir standa uppúr, eru kennileiti, og þeir feykjast ekki svo auðveldlega til í stormum tíðarandans, sem vill svo oft yfirtaka núið, en enginn man eftir þegar nýr tíðarandi hefur risið upp með sólu morgundagsins.

Mogginn er slíkur klettur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.3.2017 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 1225
  • Frá upphafi: 1412779

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1084
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband