11.3.2017 | 14:53
Stöðugleikinn ógnar innviðum þjóðarinnar.
Og þar sem öflugir innviðir, eins og samgöngur, menntun eða heilsugæsla eru forsendur velferðar og velmegunar þá er stöðugleikinn að ógna velferð þjóðarinnar.
Og framtíð barna okkar.
Hinn meinti stöðugleiki byggist á því að viðhalda verðgildi gjaldmiðla, halda niðri verðbólgu og skapa sem bestu skilyrði fyrir peningalegar eignir til að ávaxtast með einhverjum margfeldis hraða.
Fáráð þessarar hugsunar er sá að ef þjóðin þyrfti nauðsynlega að taka upp föggur sínar og setjast að á óbyggðri eyju þar sem ekkert væri til neins, og þyrfti að velja á milli þess að taka með sér peningalegar eignir sínar, líkt og verðbréf lífeyrissjóðanna, sparfé sitt í bönkunum, tortillaeignir auðmanna eða hvað þetta heitir allt saman, og þess að taka með sér öll framleiðslutækin sín, eins og fiskiskip, búfénað, virkjanir, útsæði, vinnuvélar, eða allt það sem við notum til að hafa í okkur og á, að þá væri vandfundinn sá asni sem legði til að veðjað yrði á peningalegar eignir því það væri til dæmis alltaf hægt að bjóða fiskinum í sjónum aur fyrir að láta veiða sig, eða borga ólögðum vegum pening til að leggja sig sjálfa.
Samt er þetta kjarni efnahagsstefnu þjóðarinnar í dag.
Fyrir nokkru heyrði ég á tal tveggja Þingeyinga í afmæli norður á Akureyri. Þeir voru að velta því fyrir sig hvenær rauða mölin var lögð á einhvern sveitaveg í Aðaldalnum, höfðu báðir komið að því sem kornungir menn. Líklegast var það rétt fyrir 1980. En tilefni umræðunnar var að sameiginlegur sveitungi þeirra hafði sagt öðrum frá því að þegar hann var að bleyta upp malarveginn fyrir heflun, að þá hefði þessi rauða möl komið upp.
Sem sagt rúmlega 30 ára uppbygging og endurbætur höfðu horfið á þessum örfáum árum frá Hruni.
Og því miður hefur víða verið heflað niður á rauðu mölina í Aðaldalnum. Frá Hruni hefur ekki einu sinni verið haldið í horfinu, hvað þá ráðist í nauðsynlegar endurbætur eða uppbyggingu. Skiptir ekki máli hvort við erum að tala um vegakerfið eða byggingar hins opinbera, eða þann nauðsynlega rekstur sem hið opinbera innir af hendi.
Með öðrum orðum þá lifum við á útsæðinu, við erum hætt að sá til framtíðar.
Allt í nafni stöðugleikans.
En hver er þessi stöðugleiki, hvaðan kom hann, og af hverju er hann svona mikilvægur??
Ef fólk yrði spurt þessara spurninga þá yrði fátt um svör hjá flestum nema kannski endurtekningar síbyljunnar sem dynur á fólki að hann sé svo nauðsynlegur svo fjármunir megi vaxa og dafna. Og það þarf ekki að taka fram að þeir sem halda þessari síbylju að þjóðinni, eru vinnumenn þessar sömu fjármuna. Líkt og fólk eru í vinnu við að afneita skaðsemi sígarettunnar, eða markaðssetja rafrettur hjá unglingum, í að selja því E-töflur eða afneita hlýnun jarðar að völdum jarðeldsneytisiðnaðarins.
Það er eins og fólk sjái ekki þversögnina, sem til dæmis Martin Wolf (fjármálaritstjóri Financial Times) skrifaði í Morgunblaðið rétt fyrir áramót, þegar hann benti á að fólk á Vesturlöndum væru búið að gefast upp á stjórnmálamönnum sem ekkert gætu gert á krepputímum því ekki mætti safna skuldum því það ógnaði hinum meinta stöðugleika, og það mætti heldur ekki gera neitt á góðæristíma, því þá ætti að halda ríkisútgjöldum í skefjum svo ekki yrði þensla, því hún ógnaði líka stöðugleikanum.
Svo spurningin er þá, hvenær á að framkvæma, hvenær á að byggja upp, bæta og lagfæra og leggja drög að lífskjörum morgundagsins??
Það er ekkert að stöðugleika sem slíkum.
En það er spurning hvernig hann er útfærður. Og á hvaða forsendum hann er byggður.
Stöðugleiki án innviðauppbyggingar, án nauðsynlegra fjárfestinga, eða þar sem stórir hópar eru skyldir eftir á gaddinum, er í raun ekki stöðugleiki, í fyrra tilvikinu er hann hnignun og afturför, í seinna tilvikinu er hann arðrán og misskipting.
Í raun ójafnvægi, ekki jafnvægi.
Samgönguráðherra segir að hann þurfi að skera niður, að það séu ekki til peningar. Nema þá að til komi ný skattheimta. Og í raun eru vinstri menn alveg sammála honum, deilan snýst um eðli skattheimtunnar, samgönguráðherra vill vegtolla og þá jafnvel í formi einkaframkvæmdar, en vinstri flokkarnir vilja finna einhverja óvinsæla hópa og skattleggja þá.
Eins og einhver ofurskattlagning sé eitthvað svar við hnignun og afturför.
En það er eins og enginn stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur sjái að fjárskorturinn stafi af því að kerfið okkur lekur fjármunum, sem og að menn fatti þá grunnspeki að uppskeru er ekki hægt að borða, fyrr en útsæði hefur verið sáð, og uppskeran fer síðan eftir því hvernig hlúð er að akrinum.
Átti sig ekki á því að það næst aldrei stöðugleiki í kerfi sem er í ójafnvægi.
Eða þætti sá maður góður hirðir sem kæmi heim að kveldi með færri ær en hann lagði af stað með á morgni, og segði, við verðum bara að láta það duga sem við eigum í dag, og ef þær verða færri á morgun, þá verðum við líka láta þann fjölda duga. En staðreyndin væri sú að hann bætti auðlegð sína með því að selja alltaf úr hjörðinni. Og ekki þætti það góður umsjónarmaður vatnsbirgða í eyðimörkinni sem útdeildi alltaf minna og minna vatni því hann nennti ekki að þétta kerið þegar það fór að leka.
Það eru til nægir fjármunir á Íslandi í dag, vegna ferðamannanna streymir gjaldeyrir inní landið. Í raun gætum við framkvæmt fyrir tugmilljarða á ári því við eigum nægan gjaldeyri til að borga fyrir erlend aðföng. Annað en í kreppunni á síðustu öld þegar markaðir lokuðust og gjaldeyrir var af skornum skammti. Þá var samt sáð inní framtíðina með því að leggja vegi og byggja brýr, reisa skóla og sjúkrahús.
En hirðirinn, stjórnmálamenn okkar, kusu að nota þennan gjaldeyrir okkar til að borga út verðlausar bólukrónur útrásaráranna á yfirverði, í stað þess að afskrifa þær með einu pennastriki.
Síðan þarf að eiga til gjaldeyri til að auðmennirnir okkar geti flutt út tilbúnu krónur sínar í skattaskjól erlendis. Kallast afnám gjaldeyrishafta.
Ójafnvægið er því valkostur, er mannanna verk.
Það er ekkert sem segir að þetta þurfi að vera svona. Þvert á móti, það er alltaf feigðarflan skammtímagróðans að lifa á útsæði í stað þess að sá því til að fá margfalda uppskeru.
Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég horfði á frjálshyggjuglottið á samgönguráðherra vorum, lítil frétt sem ég las í Mogganum á æskuárum mínum. Hún fjallaði um 2 bræður í Frakklandi, sem erfðu stöndugt iðnfyrirtæki eftir föður sinn, og höfðu rekið það í þrot. Aðdragandinn var að þrátt fyrir bullandi sölu og ágóða, þá varð alltaf erfiðara og erfiðara fyrir rekstrarstjórann að fá fjármuni í nauðsynlegt viðhald og endurbætur, hvað þá að fjármunir væru lagðir í vöruþróun og endurnýjun vélakostar. Svo smán sama hvarf samkeppnisforskotið, erfiðlegra gekk að selja framleiðsluna, og loks var ekki til fjármunir að borga út full laun. En þar sem þetta var eina framleiðslufyrirtækið í viðkomandi bæjarfélagi, þá sætti fólk sig við það, þar til það fékk engin laun útborgað. Skattar voru ógreiddir, allt var ógreitt.
Fyrirtækið fór í þrot, en þegar ein vöruskemma þess var opnuð, þá blasti svarið við. Bræðurnir voru forfallnir bílasafnarar, bæði á fornbíla sem og sjaldgæfa eðalvagna sem kostuðu stórfé. Til að fjármagna þetta áhugamál sitt, þá tóku þeir fjármuni úr rekstrinum, og þegar ástríðan tók yfirhöndinni, þá var enginn afgangur til að reka samfélagið, eða fyrirgefið, fyrirtækið.
Þetta var fyrir daga alræði auðsins sem kennt er við frjálshyggju, og því voru bræðurnir handteknir, dæmdir í fangelsi, og bílasafnið þeirra selt uppí skuldir og ógreidd laun.
Á Íslandi í dag hefðu þeir haldið sínu og verkafólkinu sagt að éta það sem úti frýs.
Og Seðlabankinn hefði örugglega hækkað vextina og fyrirskipað launalækkun til að tryggja stöðugleikann í rekstri fyrirtækisins. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefði gefið út opinbera yfirlýsingu um að það væri enginn rekstrarafgangur til að endurnýja framleiðslutækin, gjaldkerin yrði bara að gera gott úr þeim peningum sem hann hefði til ráðstöfunar. Hann yrði að hagræða og skera niður, og ef það væri ekki til fjármunir til að endurnýja lyftarann, þá yrðu menn bara að nota hjólbörur, og láta sér kertaljós duga þegar síðasta ljósaperan hætti að virka.
Á Íslandi myndi enginn benda á að það væri rangt að taka út fjármuni úr rekstri, að það væri heimskulegt að endurnýja ekki framleiðslutæki, og aðeins hreinræktuð fífl héldu að það væri hægt að reka fyrirtæki til lengri tíma í samkeppnisumhverfi án þess að fjárfesta í nýrri tækni og framleiðsluháttum.
Á Íslandi þykir okkur þessir rekstrarhættir svo sjálfsagðir að við rekum þjóðfélag okkar á þennan hátt.
Þess vegna snúast stjórnmál á Íslandi um hverjir eigi að vera bræðurnir, en ekki um að svona eigi ekki að reka fyrirtækið sem við köllum samfélag okkar.
Í íslenskum stjórnmálum er í raun aðeins ein skotgröf, þar sem menn vissulega deila með kjafthátt og látum sín á milli um forræðið skotgrafarinnar, en sameinast síðan allir sem einn þegar að henni er sótt.
Það er þegar almenningur sækir að henni og segir að það sé eitthvað mikið að, að það sé vitlaust gefið, að þetta eigi ekki að vera svona.
Þá á einn eða annan hátt sameinast stjórnmálamennirnir okkar um það meginmarkmið að vernda sjálftöku kerfi bræðranna, það er auðsins á Íslandi.
Þá er skjaldborgin sleginn.
Það er samstaða um afnám gjaldeyrishaftanna, það var full samstaða um Gjöfina einu sem var kölluð stöðugleikasáttmáli við kröfuhafa þrotabúa gömlu bankanna, það var full samstaða um allar þessar ívilnanir og undanþágur sem hrægammarnir fengu á gjaldeyrishöftunum, það var full samstaða um að breyta fyrst reglunum sem gerðu auðnum kleyft að flytja óskattlagt fé í skúffufyrirtæki í skattaskjólum, þegar allir slíkir fjárflutningar höfðu átt sér stað og svo framvegis.
Og það þarf ekki að minnast á hina miklu samstöðu í skotgröfum stjórnmálanna um viðhalda og tryggja sjálfstæði Seðlabankans og algjört sjálfræði hans að okurpeningamálastefnu sinni.
Og ekki má hrófla við verðtryggingunni eða önnur þau tæki sem blóðmjólka almenning.
Skjaldborgin er nefnilega slegin um þá sem fóðra stjórnmálin, og sú fóðurgjöf er öll á einni hendi.
Hendi auðsins.
Skotgröfin á móti, skotgröfin sem ógnar sjálftökunni og samtryggingunni, hún hefur ekki ennþá verið grafin.
Og hafi einhver reynt að grafa hana, þá hefur auðurinn um leið sent útsendara sína til rugla og afvegleiða. Um það eru mörg dæmi, bæði ný og gömul.
Eða af hverju halda menn að flokkarnir sem tóku upp málstað Hagsmunasamtaka heimilanna og börðust gegn okurvöxtum og verðtryggingu, hafi alltí einu farið að tala um stjórnarskrá. Eða þessi sömu hagsmunasamtök, hafi hætt að sækja að innlendum stjórnmálamönnum þegar þeir stóðu veikir fyrir, næstum hálfdrukknaðir í spillingarfeninu, og reyndi að sækja rétt sinn með tilvísun í evrópska reglugerð??
Nei, skotgröfin hefur aldrei verið grafin.
Og enginn gerir sig líklegan til að hefja þann gröft.
Tuðið er það ópíum sem heldur öllu í föstum skorðum.
Auðurinn fer sínu fram.
Ekkert ógnar alræði hans, ekki einu sinni síljúgandi stjórnmálamenn sem lofa öllu fögru en standa ekki við neitt.
Því það gæti ógnað stöðugleikanum.
Stöðugleika hins meingallaða sjálftökukerfis.
Skítt með innviðina.
Skítt með framtíðina.
Skítt með börnin okkar.
Guð blessi stöðugleikann.
Guð blessi Mammon.
Þannig er Ísland í dag.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 449
- Frá upphafi: 1412811
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 388
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar, þetta á eftir að glatast altsaman. Við höfum ekki tilgang til forystumanna sem eru viðsýnir nok til að geta haldið í spaðana fyrir okkur, þessháttar menn eru hægt og rólega að hverfa. Ein af þeim stæðsu og kannski, vanmetnaðasti var sköpunarfrömuðurinn Egill Thorarinsen á Selfossi og held ég að það séu ansi margir í Flóanum sem sakna hans og taka undir með mér í þessari einkun minni á þeim manni.
Eyjólfur Jónsson, 11.3.2017 kl. 22:50
Frábær pistill.
Amen.
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 12.3.2017 kl. 00:10
Takk fyrir innlitið félagar.
Eyjólfur, ég las alltaf stöðuna þannig að hópur öflugra kvenna myndi sameinast gegn Svörtu pestinni, og keyra á hugmyndafræði mannúðar og mennsku.
En ég las þá stöðu rangt og núna veit ég ekki alveg hvað mun gerast.
Við erum föst í ránskerfi sem enginn þorir gegn.
Og svo sem lítt hægt að gera í því í augnablikinu.
En uppreisn er hafin gegn þessu ránskerfi víða um hinn vestræna heim, þó vagninn sem fólk hoppar á er bein ávísun á þriðju heimsstyrjöldina.
Það er bara svo og fátt í sjónmáli sem fær því breytt.
En Lífið mun finna sér leið.
Það er mín trú og vissa.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.3.2017 kl. 19:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.