Draumurinn eini. Draumur okkar allra.

 

Pabbi, viltu sjá afabörn þín????

 

Þegar 5 ára drengurinn finnst pabbi sinn vera ósanngjarn fram úr hófi, og ekki skilja gjörðir og tilfinningar lítils drengs, þá spyr hann mig þessarar spurningar, "pabbi viltu ekki sjá afabörn þín" og hótar mér því að flytja af heiman og þar með ég muni ekki sjá þau börn sem framtíðin mun ala. Þau hafi ekkert að gera við að hitta svona vondan afa sem skammar börnin sín.

Í þessari stóru spurningu lítils barns felst kjarni þess sem gefur lífi okkar tilgang. Við viljum ala af okkur líf, og sjá það líf ala af sér líf. Og við viljum að það líf alist upp við þau skilyrði að þá fá að blómstra og dafna án stöðugs ótta við manngerðar hörmungar, hvort sem það eru stríð og ófriður, eða arðrán og kúgun, eða siðleysi og grimmd.

 

Í dag eru ýmsar blikur á lofti að þessi hótun sonar míns gangi eftir. Ekki vegna þess að ég óttast ekki að ná sátt við son minn, heldur vegna þess að ég óttast það átakaferli sem heimurinn er í og ég óttast uppgjör kúgaðra við skipulegt arðrán og siðlausa kúgun hins alþjóðlegs auðvalds, sem skipulega vinnur að því að gera hina ofurríku, ofurofurríka, og okkur hin miklu fátækari, jafnvel allslaus.

Fyrir um tveimur árum las ég grein þar sem einhver mætur maður benti á að lognmolla upphafsára þessarar aldar væri um margt keimlík og var í aðdraganda fyrra stríðs. Almenningur lifði í þokkalegri velmegun (miðað við aldirnar á undan) og framfarir blöstu við hvar sem litið var. En á skákborði stjórnmálanna ríkti spenna, og þar sem maðurinn þekkti bara eina leið til að leysa þá spennu, þá fór allt í bál og brand. Ég í sjálfu sér gaf ekki þessari samsvörun gaum, hafði um annað að hugsa. En síðan kom Hrunið, nýfrjálshyggjan hikstaði, og tók þjóðarauð margra landa með sér í fallinu.

 

Aðvörun, lærdómur??? Eða verður hún endurreist aftur, ennþá illskeyttari en fyrr????

 

En samt var þetta ekki mér efst í huga, heldur þær hörmungar sem yfir okkur gengu, og þær gerðu mig áhyggjufullan. En ég var það barnalegur að halda að þjóðin myndi læra af Hruninu jafnframt því hún einsetti sér að skipta byrðum Hrunsins á allar herðar, og þeir sem urðu fyrir áföllum (atvinnuleysi, skuldakreppa) fengju þá hjálp sem allir fá á hörmungatímum.Ég trúði því að enginn yrði skilinn eftir í þeim skít sem frjálshyggjan skóp þjóðinni.

Ég hafði svo innilega rangt fyrir mér. Ábyrgðarmenn Hrunsins, þeir voru fljótir að ná vopnum sínum, og með nýjum leikendum þá hófu þeir markvissa endurreisn hins gamla kerfis, aðeins verra og siðspilltara en áður hafði þekkst. Því aðeins gjörspillt fólk, sem aðhyllist algjörlega siðblint þjóðfélag, skilur ungt fólk eftir á vergangi vegna afleiðinga mannlegra hörmunga, hörmunga sem unga fólkið bar enga ábyrgð á.

 

Upp í huga mér kom stefið "bræður munu berjast og af bönum verðast", og það stef hefur ekki vikið þar út síðan.

 

Fyrst ég upplifði tíma goðsagnanna á Íslandi, hvað þá um þær goðsagnir sem alltí einu virtust spretta upp úr gráma forneskunnar og voru að öðlast sjálfstætt líf. Er tími Ragnarrakanna upp runninn???? Hvernig getur líf okkar alið af sér líf, ef við látum höfðingjanna endalaust leysa mál sín á okkar kostnað, og ef við leyfum þeim að grípa til vopna til að vernda stöðu sína og hagsmuni. Hvað þá ef kúgaður lýður rís upp og hrekur þetta lið af höndum sér.

Gömul saga og ný, en í fyrsta sinn í sögu mannkyns, hefur það getu til að há sitt lokastríð, og mannkyn sem kann ekki aðra lausn á átökum, en að drepa náungann, það hlýtur að há þetta lokastríð. Og um þau endalok fjalla hinu fornu goðsagnir. Goðsagnir, raunveruleiki, skilin eru orðin óljós. Og öll fljót falla að Heljarósi.

 

Ekki svo sem nýtt, nema vegna þess að ég spurður spurningar sem allt mitt sjálf, öll mín mennska vill svara játandi. Já, sonur minn, ég vill sjá afabörn mín.

Þess vegna settist ég hikandi við tölvuna, og fór að blogga. Að hluta til gegn siðleysi þess að neita ungu fólki um aðstoð, um siðleysi þess að gera það að listíðarskuldaþrælum, að hluta til gegn þeim ógnaröflum sem hafa ráðist á þjóð okkar og ætla að knésetja hana í þrælkun og örbirgð, en að hluta til vegna þess að ég taldi og tel, að það þarf að orða nýja hugsun, nýjar lausnir.

 

Það þarf að orða gildi mannúðar og mennsku, og orða þá heilbrigðu skynsemi sem mun koma okkur út úr þrengingum okkar án þess að við fórnum því þjóðfélagi sem tók áa okkar áratugi að byggja upp með þrotlausri vinnu og erfiði.Þjóðfélag velferðar og mennsku.

Það þarf að horfast í augun á þeirri miklu ógn sem upplausnaröfl Tregðunnar skapa mannkyninu á komandi árum.

Það þarf að skapa mótvægi gegn þeirri upplausn, skapa jákvæða ferla sem vinna gegn þeim öflum sem eru okkur svo skeinuhætt. Öflum sundurlyndis, siðblindrar græðgi og ómennsku.

 

Þess vegna hef ég mótað hugsanir mínar um Byltingu lífsins, og um þær hugsanir má víða lesa, bæði á mínu bloggi og annarra sem vilja það sama og ég. Að líf afkomenda þeirra sé tryggt. Bylting lífsins snýst um að við finnum aðrar lausnir á deilum, en átök, þróun tækni mannsins hefur útilokað þá deilulausn.

Við þurfum að viðurkenna rétt allra til mannsæmandi lífs, og við eigum að nota heilbrigða skynsemi og mannvit til að byggja upp samfélag þar sem allir njóta slíkra réttinda. Og fyrir þá sem sjá ekki heiminn án stríða og átaka, þá eigum við að skera upp herör gegn fátækt og örbirgð, gegn spillingu og glæpum, gegn umhverfisógn og loftlagsbreytingum. Þegar þau stríð eru búin, þá má alltaf finna önnur, án þess að þau feli í sér endalok mannkyns.

 

Um allan heim er fólk að orða svipaðar hugsanir. Páfinn kom inn á kjarna málsins þegar hann sagði í páskaávarpi sínu að við stefndum að feigðarósi, nema við sjálf gerðum eitthvað í málinu, að við horfðumst inn á við og tækjum okkur sjálf taki. Að viðurkenndum að forsenda framtíðar er hin siðaða manneskja, ekki hið taumlausa villidýr græðginnar sem gerir allt sem það kemst upp með.

Biskup Íslands lagði einnig margt þarft til málanna í páskaguðþjónustu sinni. Hann bar saman þjóðfélag villidýra og þjóðfélag mennskunnar, þjóðfélag hins siðaða manns.

 

Allt hefur þetta verið sagt áður. En eini munurinn er sá að ef við hlustum ekki núna, þá verða þessar ræður aldrei fluttar aftur, svona af gefnu tilefni þess að það verður hvorki nokkur til að flytja þær, eða nokkur til að hlusta á.

Það vill svo til að það varð okkar hlutskipti að hlusta, það var okkar að gera það upp við okkur hvort við vildum sjá barna eða barnabörn okkar. Við báðum ekki um það hlutskipti en tíminn lét það verða okkar.

Það er ekkert val, það er engin leið B út úr vandanum. Augljóst mál, því annars sæti ekki feiminn, fælinn maður eins og ég, með öll sín vandamál, fyrir framan tölvuna, og eyddi tíma mínum í að gera mig að fífli með því að tala um mannúð og mennsku, að tala um að núna verðum við sjálf að gera eitthvað í málinu.

Hrunið mikla 2008 sýndi fram á í eitt skipti fyrir öll, að höfðingjunum er ekki treystandi fyrir framtíð mannkyns.

 

En hvað get ég gert hugsar lesandi þessa pistils, hvað get ég gert?? Jafnvel þó ég samþykki forsendur hans, og vilji það sama og pistlahöfundur, þá náum við varla tylftinni, allavega ekki stórtylft, og fleiri þarf til að brjóta Tregðuna á bak aftur.

En í þessari afstöðu liggur einmitt von Tregðunnar, Tregðu upplausnar og óreiðu, um hinn endalega sigur.

Að fólk fatti ekki að þessi Bylting byltinganna er eins og að drekka vatn. Auðveld í framkvæmd og sigurinn er vís, eins og í öðrum þeim stríðum þar sem réttlæti og mennska er með í för.

 

Vegna þess að þessi Bylting, að þessi sigur, þarf aðeins eina forsendu, og hún er eins auðveld og nokkur forsenda getur verið. Það eina sem þarf er að hver og einn horfi í sinn eigin barm, og spyrji sig spurningar um hvað það er sem skiptir hann máli í lífinu.

Og ég hygg að svarið sé í anda þess sem fyrirsögn þessa pistils tjáir. Það eins sem skiptir hvern og einn máli, er líf og velferð afkomenda sinna. Það er ekki jeppi, eða fallegt hús, þægilegt líf eða öryggi þess að vera með hausinn í kafi í sandi á meðan villidýr ómennskunnar æða um organdi um grundir, allt þetta er í raun hégómi miðað við hinn raunverulega tilgang okkar.

Það erum aðeins við sem getum svarað þessari spurningu. Bæði þess að spyrja hennar og svara henni, það er mál hvers og eins.

Þegar hver og einn hefur spurt hennar og svarað, þá leitar hann þá upp sem eins er háttað.

 

Þannig myndast afl sem Tregðan ræður ekki við.

Afl hins siðaða manns sem gefur skít í hið viðtekna að svona er þetta og hefur alltaf verið, og við því sé ekkert að gera.

Afl hins siðaða mann sem tekur illsku og spillingu í bóndabeygju, og segir henni að hafa sig hægan. Vegna þess að núna þarf að sinna mikilvægari málum og það mun verða gert.

Vegna þess að það þarf að gera það sem þarf að gera.

 

Eina forsendan er að hver og einn taki afstöðu með framtíðinni.

Það er ekki undir neinum öðrum komið, það er ekki til minni heil tala en einn, og fjöldinn er myndaður úr mörgum einum.

Við eru ekki tvö eða milljón, við erum við.

Upphaf og endir Byltingarinnar er því undir okkur sjálfum komið. Engum öðrum.

 

En af hverju ég, af hverju þar ég að svara þessari spurningu, núna, spyr íslenskur lesandi þessa pistils. Við erum svo agnarsmá í heimsins hafi, hvernig getum við orðið það korn sem kemur skriðu byltingar mannsandans af stað???

 

Svarið er líka mjög einfalt, vegna þess að harmur okkar er brot af heimsins harmi. Og vinnumenn Tregðunnar, siðblint auðvald er að rústa framtíð barna okkar.

Vörn okkar, byggð á mennsku og mannúð hins siðaða manns, byggð á viti og þekkingu hins skynsama manns mun tryggja okkur sigur.

Sá sigur mun gefa öðrum manneskjum, sem líka glíma við þursa Tregðunnar, þá von og þá hvöt sem þarf til að líta í sinn eigin barm, og segja Nei við þeirri lygi, að við hinn venjulegi maður séum aðeins leiksoppar höfðingja og auðmanna, og Já við þeirri staðreynd að við erum upphaf og endir alls.

Að vilji okkar til lífs og framtíðar sé það afl sem siðmenningin hefur til að viðhalda sér. Að það séu við sem munum sigra Tregðuna, og skapa börnum okkar framtíð.

 

Framtíð í mannsæmandi samfélagi þar sem fólk lifir við frið og öryggi. Vissulega getur okkar kynslóð ekki tryggt það um aldur og ævi mannsins. Hún getur tryggt að á einhverjum tímapunkti framtíðarinnar, þá þurfi önnur kynslóð að spyrja sig sömu spurningar.

Hvernig hún svarar, veit enginn, en okkar lausn er þá allavega þekkt. Lausnin snýst um hina miklu gjöf sem okkur var gefin og Steinn orðaði svo vel:

 

Það stendur af sér allra veðra gný

í annarlegri þrjósku, veilt og hálft,

með ólán sitt og afglöp forn og ný,

hinn einskisverði maður;

Lífið sjálft.

 

Þegar við áttum okkur á þessari grunnstaðreynd, þá er eftirleikurinn leikur einn.

 

Það eina sem þarf er vilji okkar sjálfra til að breyta hlutunum, að við áttum okkur á að við séum ekki fórnarlömb illskuafla, við eru gerendur framtíðarinnar.

Já, ég vil sjá barnabörn mín.

Kveðja að austan.

 

P.s.  Beinagrind þessa pistils er orðin 7 ára gömul, og eins og lesa má þá er hann skrifaður í eftirhreytum Hrunsins, líklegast snemma vors 2010.  En ég tel að hugsun hans eigi ennþá betur við í dag, en þá, og læt hann því standa óbreyttan, í stað þess að uppfæra hann í takt við tímann.  Það er í raun fátt sem skiptir okkur máli, og það er ekki hið ytra, eða sífellda löngun okkar til að þrasa og þrátta fram í rauðan dauðann. 

Nema að við erum ekki ein, við höfum öll getið af okkur líf, og það er í raun það eina sem skiptir máli.

Síðan er eftirleikurinn aðeins handavinna.

Þess vegna er þessi pistill ágætur punktur yfir i-ið.

Og aftur er það kveðjan;

Að austan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þulan mín langa var skrifuð um svipað leyti, þó líkast til vel rúmu ári fyrr, rétt fyrir jólin 2008:

LÍFIÐ er LÍFIÐ er

LÍF okkar ALLRA

Ólitgreindur
geng ég um
með gleðileg jólin
pokann minn
fullan af fræi mínu
- póesíu og pælingum
um himinskautin
og skrautlegar stjörnur
og glæðurnar allar
og leiftrandi speki
frá liðinni tíð
og púlsandi
hjörtu okkar
og hugi okkar
í endalausu flæði
og ferðalagi okkar
hér á jörðinni
á sam-mannlegri
leið okkar
og með stefið okkar
að treysta hvert öðru
og rökræða okkur
enn og aftur
og endalaust
til vits okkar
með vegferðina alla
til okkar
bestu framtíðar
draumsýna
og með virkjun allra
heila-búa okkar
til athafna
og til sköpunar
og með bú-sældarlega
framtíð okkar
allra - saman
að leiðarljósi
og án vald-boðanna
að ofan
frá þeim stein-runnu
og berg-numdu
og ná-bleiku
þursunum öllum
sem telja sig guði

Þeir hafa flokkað allt
niður og bútað
okkur niður
í litla og mislita
og aflokaða
stakstæða hringi
sinnar drottnunar
kerfis-kjafta-sögu
og segja svo vinstri
og segja svo hægri
og segja svo hókus
og segja svo pókus
bíbberíbí
og múlbinda okkur
í norðri
í austri
í suðri
í vestri
og segja svo jókus
gírivíriví
og setja á okkur klafa
eins og flokka
af uxum
af þrælum
að hringsnúast
um þeirra eigin
tilbúnu hugmynd
um fræðilega
framleidda miðju
þar sem þeir sitja
í hásætum sínum
í turnum sínum
þursarnir sjálfir
sem telja sig guði.

Þeir framleiða
heilu milljarðana
af múl-böndum
og þræla-klöfum
í stofnunum þeirra
og verksmiðjum
valdakerfa þeirra
sem allt er kostað
af okkur uxunum
af okkur þrælunum
sem hringsnúumst
nákvæmlega eins
þreyttir og úrvinda
og þeir vilja hafa okkur
í hringsnúningunum
kringum glans-myndir
helgislepju þeirra
valdaþorsta þeirra
og græðgi þeirra.

NEI,
minnumst nú gamalla orða:

“Experience hath shewn,
that even under the best forms
of governments - those entrusted
with power have, in time, and by slow
operations, perverted it into tyranny.”

NEI,
hræðumst ekki, heldur fræðumst
um helstu framleiðslu-tækin og tólin
sem þursarnir beita
til að múlbinda okkur
og setja á okkur klafa
skulda, okurs og skatta
með skinhelgum svip
til að viðhalda sjálfum sér
í yfirbyggð sinnar guða-tölu:

Þeir beita valdakerfi flokkanna
þeir beita valdakerfi laganna
þeir beita valdakerfi framkvæmda
þeir beita valdakerfi dómsmála
þeir beita valdakerfi trúarmála
þeir beita valdakerfi menntunar
þeir beita valdakerfi menningar
þeir beita valdakerfi fjármála
þeir beita valdakerfi fjölmiðlunar

allt í einni sápu-froðu-sátt
valdakerfis atvinnulífsins
í samtökum fursta & greifa
og hring-lokaðrar
sérhyglis forustu
sambandsins mikla
okkar alþýðunnar
um hvað við öll
séum svo frjáls og jöfn
þó við vitum það öll
við uxarnar
við þrælarnir
innst í hjörtum okkar
innst í hugum okkar
að sumir eru svo miklu
frjálsari og jafnari en við
og að þeir sitja
í hásætum sínum
í turnum sínum
þursarnir sjálfir
sem hringsnúa okkur
með spuna og galdri
og kjafta-vaðli
og múlbinda okkur
og setja á okkur klafa
skatta sinna og skulda
með græðgi sinni
til að viðhalda
öllu sínu valdi
með því að beita
öllu sínu valdi
til að viðhalda
öllu sínu hringa-valdi.

NEI,
látum ekki blekkjast
af sápu-froðu-sáttinni miklu
því þar hafa þeir lengi dafnað
furstarnir og greifarnir
í frí-ríkis há-sælu sinni
innan yfirbyggðar þursanna
og hafa þar ráðið því öllu
sem sér-hyglis-klíkur þeirra
hafa girnst, nauðgað og fengið
hvort heldur er
til lands eða sjávar
og skiptir þá engu
þó allt hafi hrunið
hjá Jóni og Gunnu
því alltaf fá þeir veiðileyfin
að drepa sem hákarlar
að drepa sem ránfuglar
og sem slátrarar
í innantökum
í bútunum
að stela auðlindunum
að stela bönkunum
að stela sparisjóðunum
og að verðbæta sér útlánin
og að okur-vaxta Jón og Gunnu
miskunnarlaust
til galeiðu-þrældóms
með sérstöku veiðileyfunum
sem allir þursarnir virðast alltaf
vera svo sammála um - að sé
hin eina rétta einsýni - til að vera

stjórntækir - fyrir hverja?

NEI,
látum ekki blekkjast
af öllum valdakerfum þursanna
sem notast enn sem fyrr
við hrotu-vaktar-hruna-liðið
og ríkis-verð-tryggðu meistarana
að bukka sig fyrir hrægömmum
og auð-hringa drottnum
að fórna landi og þjóð
á altari valdakerfa
allra yfirbyggða
allra þursa ríkja
- í glottandi fortíðar-geiflunni
að guð blessi Ísland
- að drottnarnir blessi heimilin
til dýrðar fyrir hrægamma
og auð-hringa drottna
og til blessunar fyrir valdakerfi
allra yfirbyggða þursanna
að selja hvað sem er
að skuldsetja hvað sem er
til að viðhalda og samtryggja
alla gíruga valda-hringina
í allri spena-dýrðinni
með furstum og greifum
og slátrunar elítunni
í hinni einka-vina-væddu
-nú síðast- Ísbjarga dýrð
og hvernig enn á ný
má múl-binda
og fórna íslenskum lýð
fyrir endur-fléttun vafninga
slátraranna og þursanna
í áframhaldi skinhelginnar.

NEI,
látum ekki blekkjast
en gleymum samt aldrei
að yfir okkur öllum
og þursunum
berg-numdu
og ná-bleiku
líka
voma þeir hrægammarnir
og sjálfir
auð-hringa drottnarnir
stökkbreyttir
og umbreyttir
í allra plágu
og kvikinda líki
lána “dílerarnir”
og innantöku
maðka kóngarnir
sjálfir
sem engu eira
í gírugri og trylltri
græðgi sinni
og maðk-éta allt
og stýra öllum
yfirbyggðum
með spottum sínum
til norðurs
til austurs
til suðurs
til vesturs
og sundra okkur öllum
og etja okkur saman
í blóði drifna slóð
sinnar stríðs-óðu græðgi.

NEI,
látum ekki blekkjast
og munum það öll og alltaf
að þursarnir eru
engir guðir
að þursarnir eru
bara af holdi og blóði
nákvæmlega eins og við öll
og að framleiðslu-
tæki og tól
þeirra
þursanna
eru
bara skinhelgur vaðall
bara spuna-vaðall
allra ríkis-verð-tryggðra
valda-kerfis-stofnana
til að viðhalda sjálfum sér
og öllu sínu hringa-valdi
með furstum og greifum.

NEI,
látum ekki blekkjast
og óttumst ekki
heldur vitum það alltaf
að meira að segja
hrægammarnir
og auð-hringa drottnarnir
stökkbreyttu
og umbreyttu
í allra plágu og kvikinda líki
eru bara af holdi og blóði
mannlegir -þrátt fyrir allt-
eins og við öll
og svo ofur-einfalt er þetta allt.

Þess vegna er glas!
Glennum upp augun
og glaðvöknum

og sjá:

JÁ!

Núna er glas!
Nú er tími okkar
runninn upp
í norðri
í austri
í suðri
í vestri
þegar við þrælarnir
þegar við uxarnir
umbreytumst í menn
og af-flokkum allt
og af-máum þá alla
drottnunar-hringina
og opnum allt upp á gátt
í púlsandi flæði
blóðs okkar
í hjörtum okkar
þegar við umbreytum
sögu okkar í mennska


JÁ, sam-mannlega
framtíðar sögu okkar
allra saman og =
verður
til frelsis okkar
til jafnréttis okkar
í samtvinnuðu glitri
samfélagslegrar ábyrgðar
okkar allra til fegurðarinnar
sem býr í hjörtum okkar
sem býr í hugum okkar

JÁ, okkar allra
hér á jörð okkar.

Með þetta eina leiðarljós
og með stefið okkar
að treysta hvert öðru
án allra vald-boða
að ofan
geng ég um
ólitgreindur
með gleðileg jólin
pokann minn
fullan af fræi mínu
og svo þaninn
og svo þrútinn
að hann skyndilega
og púlsandi
hvell-springur
...
eins og aldin
belgjurtar
hvell-springur
og þeytir fræi sínu
út í vindinn
og feykist
og fellur svo
til jarðar
- einhvers staðar -
og blómgast
- um stund -
...
eins og belgjurt
með aldin
fullt af fræi sínu
- póesíu og pælingum
um að þegar öllu er
á botninn hvolft
er hún ósköp
lítils virði
strit-rænan
ef engin er
vit-rænan
okkar að muna
að eftir höfðum
okkar sjálfra
eiga limir okkar
að dansa
því það er svo
augljóst
að einungis
með virkjunum
á heila-búunum
þrútnum og þöndum
springa þær út
hugsjónir okkar
athafnir okkar
og sjálf sköpunin
á sögu okkar
og ljóðum okkar
með aldin
full af fræjum sínum
um bú-sældarlega
framtíð okkar
allra - saman
í ríki fegurðarinnar
í aldingarði okkar
í öllu glitrandi
litrófi lífs okkar
í aldanna sköpun
lífs okkar
allra – saman
og hjartanu skyldast –
hér á okkar gósenlandi

Megi nú loksins rofa til.
JÁ, megi nú lífsins ljósin
kvikna í hjörtum okkar

JÁ, kvikni nú lífsins ljós
Í hjörtum okkar
og gleymum því aldrei:

Lífið er lífið er líf okkar
allra – um líf okkar
frá og til okkar allra

í aldanna sköpun
lífs okkar
allra – saman.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 5.2.2017 kl. 22:42

2 identicon

JÁ!

Núna er glas!
Nú er tími okkar
runninn upp
í norðri
í austri
í suðri
í vestri
þegar við þrælarnir
þegar við uxarnir
umbreytumst í menn
og af-flokkum allt
og af-máum þá alla
drottnunar-hringina
og opnum allt upp á gátt
í púlsandi flæði
blóðs okkar
í hjörtum okkar
þegar við umbreytum
sögu okkar í mennska


JÁ, sam-mannlega
framtíðar sögu okkar
allra saman og =
verður
til frelsis okkar
til jafnréttis okkar
í samtvinnuðu glitri
samfélagslegrar ábyrgðar
okkar allra til fegurðarinnar
sem býr í hjörtum okkar
sem býr í hugum okkar

JÁ, okkar allra
hér á jörð okkar.

Með þetta eina leiðarljós
og með stefið okkar
að treysta hvert öðru
án allra vald-boða
að ofan
geng ég um
ólitgreindur
með gleðileg jólin
pokann minn
fullan af fræi mínu
og svo þaninn
og svo þrútinn
að hann skyndilega
og púlsandi
hvell-springur
...
eins og aldin
belgjurtar
hvell-springur
og þeytir fræi sínu
út í vindinn
og feykist
og fellur svo
til jarðar
- einhvers staðar -
og blómgast
- um stund -
...
eins og belgjurt
með aldin
fullt af fræi sínu
- póesíu og pælingum
um að þegar öllu er
á botninn hvolft
er hún ósköp
lítils virði
strit-rænan
ef engin er
vit-rænan
okkar að muna
að eftir höfðum
okkar sjálfra
eiga limir okkar
að dansa
því það er svo
augljóst
að einungis
með virkjunum
á heila-búunum
þrútnum og þöndum
springa þær út
hugsjónir okkar
athafnir okkar
og sjálf sköpunin
á sögu okkar
og ljóðum okkar
með aldin
full af fræjum sínum
um bú-sældarlega
framtíð okkar
allra - saman
í ríki fegurðarinnar
í aldingarði okkar
í öllu glitrandi
litrófi lífs okkar
í aldanna sköpun
lífs okkar
allra - saman
og hjartanu skyldast -
hér á okkar gósenlandi

Megi nú loksins rofa til.
JÁ, megi nú lífsins ljósin
kvikna í hjörtum okkar

JÁ, kvikni nú lífsins ljós
Í hjörtum okkar
og gleymum því aldrei

Lífið er lífið er líf okkar
allra - um líf okkar
frá og til okkar allra

í aldanna sköpun
lífs okkar
allra - saman.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 5.2.2017 kl. 22:52

3 identicon

Mín lokaorð að sinni:

Bið að heilsa voninni og sólinni, hún dvelur nú á ströndu hinna drifhvítu sanda.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 5.2.2017 kl. 22:55

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Svona mæla Skáld lífsins.

Núna held ég að Punkturinn minn yfir I-ið sé loksins í höfn.

Bið að heilsa Pétur minn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.2.2017 kl. 22:58

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Ps.  Já og hafðu mikla þökk fyrir.

Ómar Geirsson, 5.2.2017 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 451
  • Frá upphafi: 1412813

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 390
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband