5.2.2017 | 11:17
Lærdómur sögunnar.
Er lúxus sem öllum kynslóðum er ekki gefið.
Í dag til dæmis vitum við hvað gerðist fyrir 80 árum síðan, við þekkjum einkennin, og við vitum niðurstöðu sögunnar,.
En sá lærdómur er háður því að hann sé þekktur, að vitneskjan um hann sé það almenn að í það minnsta endurtaki hörmungarnar sig ekki í bráð.
Og i raun var það sú arfleið sem olli því að kalda stríðið var alltaf bar kalt, en ekki sú dauðans alvara sem stríð með gjöreyðingarvopnum er.
Það tók nefnilega tvær kynslóðir að gleyma þessum lærdómi sögunnar.
Að láta dægurmálin taka yfir alvöru lífsins.
Á meðan fólk man þá var útilokað að trítilóður maður hefði verið kosinn forseti Bandaríkjanna, og í kringum hann hefðu verið lykilmenn sem hefðu haft þriðja heimsstríð í flimtingum líkt og núna er gert varðandi fyrirhugaða styrjöld við Kína.
Þó Bandaríkjamenn hefðu ekki upplifað brenndar borgir, þá sögðu hermennirnir sem snéru aftur sögur af brenndum borgum Þýskalands og hörmungum hinna eftirlifandi. Allur dauðinn, allar hörmungarnar vegna þeirrar áráttu miðaldra karlmanna að vilja marséra gæsagang með trítilóðum leiðtogum fram af brún heljargljúfursins.
Síðan vissu allir hvað gerðist í Nagasaki og Hiroshima.
Stríð var ekki valkostur, trítilóður forseti með alræðistilhneigingar var ekki valkostur.
Síðan dóu þeir sem vissu þetta, og friður ógnarjafnvægisins hafði alið af sér kynslóð kalkúna sem höfðu misst skynbragð á það sem gerir lífveru að lífveru, það er viljinn til að lifa, viljinn til að geta af sér líf, en ekki hvötin að éta og lifa fyrir líðandi stund.
Og eins og fyrirmyndin þá eru þeir veisluföng hinnar siðblindu sígræðgi sem telur að núna sé meiri bissness í ófriði en friði, og hefur því fjármagnað massíft gjöreyðingarferli siðmenningarinnar.
En það er ekki bara hinn forheimski miðaldra hvíti karlmaður sem upplifir sína sögulega endurtekningu, hinn vinstrisinnaði afneitari sem á í endalausu stríði við borgarastéttina, og getur ekki lyft höfði sínu uppúr þeim skotgröfum þegar sú sama borgarastétt elur af sér illfylgi sem eiga sér enga skírskotun í hið "venjulega" atferli ráðandi stétta í gegnum aldirnar.
Lengi framan af valdatíma þess sem ekki má nefna þá sönglaði þetta lið stefið um að hann væri aðeins framlenging af þýskri hernaðarhyggju, vissulega ýktari, en samt hluti af kúgun borgarastéttarinnar og þess stríðs sem hún háði við hinar vinnandi stéttir. Ekkert nýtt þar á ferðinni og aðeins sigur sósíalismans (þar var ágreiningurinn, hvernig hann átti að útfærasta og hvort Sovétið væri draumríkið) yfir borgarastéttinni myndi skapa frið.
Þessi hópur, afneitarinn er líklegast skýring þess að sá sem má ekki nefna, náði eins langt og hann náði, því það náðist aldrei samstaða um stoppa illsku hans í fæðingu, borgarstéttin var klofin, hluti hennar sannarlega hafði mikla samúð með nasismanum vegna hörku hans og ákveðni gegn kommúnistahættunni svokölluðu, og því þurfti samstöðu vinstri fólks til að mynda nægilega sterka andstöðu gegn uppgangi nasismans. Sú samstaða náðist ekki fyrr en Þjóðverjar réðust inní Sovétríkin.
Svo spyrja má hvor hópurinn eigi stærri hlut, hinir meðvirku sem studdu illskuna, eða þeir sem snérust ekki gegn henni í tíma.
Spurning sem afneitarar dagsins í dag gagnvart Trump þurfa virkilega að spyrja sig. Það er ekki nóg að kalla manninn fasista en svo í öðru orðinu halda því fram að stefna hans sé aðeins framlenging á heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Hún sé óvinurinn sem þarf að slást við. Aflið sem kom Trump til valda er vissulega fjárhagslegt öflugt, en hefur ekki sterka skírskotun út í vestræn samfélög, það eru ekki margir í raun sem færu í kjörklefann og kysu flokk sem boðaði tortímingu siðmenningarinnar til að auka skammtímagróða hinna Örfáu.
Þess vegna vefur það ásýnd sína í blekkingarhulu lýðskrumsins, og elur á sundrungu í andstöðunni, elur hana á samsæriskenningum og allskonar rugli sem aðeins órar sjá samhengi í. Síðan eru strútarnir, afneitarnir, upphafnir á veraldarvefnum, lærðar greinar þeirra um að Trump, þó ýktur sé, sé aðeins hluti af bandarískri hernaðarhyggju, eru ópíum andstöðunnar, slæva dómgreind hennar, og ýta undir andvaraleysi.
Þetta er jú fólk sem kann sitt fag.
Loks er það almenningur sem upplifir sitt Flashback, myndir af áhyggjulausu fólki á baðströndum Evrópu, sumarið 1939, þar sem mæður léku við börnin sín og feður sötruðu bjór og þrösuðu um fótbolta síns tíma, eru sláandi miðað við hörmungar sem voru í vændum. Mikið af þessu fólki lifði ekki hörmungarnar af, eftirlifendur voru markaðir á sál og líkama um allan aldur.
Það hefði mikið viljað að hafa ekki hlustað á þær raddir sem sögðu að allt hefur sinn gang, og höfðingjanna deilur séu eitthvað sem það gat ekkert haft nein áhrif á.
Þetta er lærdómur fjöldans, og í dag er öruggt að handan við hornið eru hörmungar af áður óþekktri stærðargráðu.
Og allir eru ligeglad, eða því sem næst. Áhyggjurnar eru allavega ekki það miklar að fólk skipuleggi sig á sínum eigin forsendum heldur leitar það með áhyggjur sínar í farvegi sem eru undir fullum kontról valdsins sem ógnar tilveru þess.
Þegar Grænlandsjökull er að fljóta út í sjó, þá heldur fólk að það sér að berjast gegn hlýnun jarðar með því að flokka sorp.
Allavega þarf ekki kristalkúlu til að spá fyrir atburði morgundagsins, þeir eru þegar skráðir á spjöld sögunnar, og forspáin um atburði dagsins í dag er aldagömul, skráð á fornar bókrullur horfinna tíma.
Og þeir sem benda á illskuna sem eigi sér fá fordæmi, og gegn henni þarf mannkynið að sameinast gegn, þeir vita líka eins og er, að bara við það eitt að orða það, eru þeir búnir að mála sig út í horn í umræðunni. Meira að segja mesti málsnillingur sinnar tíðar á enskri tungu, náði ekki að sleppa út úr því horni, þó var hann fyrrum innanríkisráðherra og þar á undan flotamálaráðherra, maður sem hafði haft völd og áhrif, og maður sem sannarlega kunni að beita penna sínum. Og eftir dauða sinn þarf hann að upplifa það háð, að fylgismenn illskunnar, hvort sem þeir eru beinir gerendur eða meðvirkir kalkúnar, vitna óspart í skrif hans. Og talið þeim til tekna.
Það er bara svo, það rífst enginn við endurtekningu sögunnar, jafnvel harðasti steinn er sem meyrt pappírsblað miðað við hörku hennar.
Þessir pistlar mínir um félaga Trump eru allir tengdir hinu sögulega samhengi, ásamt því að það er ekki hægt að horfa framhjá kólgubökkunum sem hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Það fórust margir í sjóróðrum sem lutu stjórn formanna sem virtu ekki slíka skýjabakka viðlits.
Það eina sem kemur á óvart er að yfir höfuð nokkur maður skuli lesa þá, svona nálgun er einfaldlega ekki efst í huga fólks í dag. En Moggabloggið er sérviskuheimur og menn virðast dálítið fylgjast með hvorum öðrum þó ekki sé nema vegna gamals vana.
Núna verður hlé á vegna fjarverunnar einu, fríið sem manni er búinn að dreyma um í mörg ár, er orðið að veruleika. Ferð á sólarstrendur með fjölskyldunni áður en strákarnir eru orðnir of stórir til að nenna að leika við pabba sinn. Slapp fyrir horn vegna dugnaðar betri helmingsins.
Á meðan ætla ég að láta gamlan pistil um Drauminn eina standa sem lokafærslu þessarar umræðu. Efni hans skýrir sig sjálft, og því miður forspá hans líka.
Dægurmálin eru því miður mikilvægari í huga fólks en viljinn til að vernda lífið sem það ól.
Þess vegna fer sem fer.
En maður þarf ekki að þegja fyrir því.
Það þarf þess enginn.
Því annað orð yfir þögn;
Er samþykki.
Og ég samþykki ekki.
Kveðja að austan.
Frá ferðabanni til lögbanns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 429
- Sl. sólarhring: 713
- Sl. viku: 6013
- Frá upphafi: 1399952
Annað
- Innlit í dag: 386
- Innlit sl. viku: 5150
- Gestir í dag: 374
- IP-tölur í dag: 371
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góða ferð í sólina félagi.
Borgþór Jónsson (IP-tala skráð) 5.2.2017 kl. 13:01
Hafðu það gott með fjölskyldunni á sólarströndu Ómar minn.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 5.2.2017 kl. 13:08
Takk félagar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.2.2017 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.