Trump er ekki alls varnað.

 

Hann stjórnar umræðunni með furðulegum hugmyndum og vægast sagt óvæntum útspilum.

Hvað gera menn til dæmis þegar fáir mæta við innsetningarathöfn hans??  Jú, segja fjölmiðlamenn ljúga og þar með er miðpunktur umræðunnar deilur hans við hóp fólks sem fólk hefur gaman af að einhver þorir í því ægivald fjölmiðlanna hefur fyrir löngu gert þá að einhverju ósnertanlegu ríki í ríkinu. 

Enginn man hins vegar messufallið.

 

Síðan kemur þessi umræða um múrinn.

Absúrd og algjörlega fáránleg í alla staði, bæði framkvæmdin og eins hin meinta fjármögnun.

Það þætti engum það gáfulegt ef nágranninn sendi þeim reikninginn fyrir nýbyggðum bílskúr sínum og hann hótaði síðan í kjölfarði að loka innkeyrslunni ef hann væri ekki greiddur.  Það gilda jú lög og reglur, líka í alþjóðasamskiptum. 

 

En á meðan er enginn að tala um það sem Trump er raunverulega að gera.

Það er enginn að tala um hið opna veiðileyfi jarðeldsneytisiðnaðarins á viðkvæm landssvæði, og það er enginn að tala um hina fyrirhuguðu skattalækkun á stórfyrirtæki undir yfirskininu "Störfin heim".

Það er enginn að ræða um það sem er, heldur um það sem virðist. 

Ekki um raunveruleikann heldur ruglið.

Og það er ekki annað en hægt að dást að manninum hvernig hann spilar með allt og alla.

 

Trump afhjúpar líka fólk.

Fordóma þess og þar með viljann til að trúa, til að trúa öllu því foringinn sagði.

Þessi sem nærir fordómana.

 

Fólkið sem var sundurtætt og kvalið af handhöfum hins pólitíska rétttrúnaðar, fékk loksins leiðtoga sinn.  Manninn sem þorði að segja það sem það vildi alltaf sagt hafa, en var hætt að segja því ljóti putti ritskoðunarinnar var strax mættur bendandi, sussandi, þaggandi.

Það fagnar kjöri hans, og styður hann.

Líka þegar hann bullar.

Líka þegar hann gerir eitthvað allt annað en hann hafði lofað.  Það er lofa þeim því sá sem lofar í hring getur eðli málsins vegna ekki staðið við öll sín loforð.

 

Þetta er fólkið sem Trump er að gera að fífli þessa dagana.

Og þá er ég ekki að vísa í brostin loforð, heldur fylgispekt þess við ruglið, það trúir að manninum sé alvara, og reynir eftir bestu getu að finna eitthvað skynsamlegt við það sem ættað er af víðáttulendum vitleysunnar.

Og sá sem ekki hefur verið snortinn af töfrasprotanum, hristir höfuð í forundran, og hugsar

með sér, var þá vitglóran ekki meir eftir allt saman.

Sorgleg örlög margra góðra hægri manna þessa dagana.

 

En Trump afhjúpar fleiri.

Til dæmis alla þá borgarlegu stjórnmálamenn sem vita að maðurinn er alls óhæfur að sitja í þessu embætti, en þora ekki annað en að spila með. 

Eitthvað sem var skiljanlegt þegar hinir veruleikafirrtu valdhafar voru með slíkt alræðisvald að þeir gátu gert menn höfðinu styttri á staðnum, en afhjúpar í dag fyrst og síðast skort á staðfestu eða undirlægju hátt gagnvart valdinu.

Ein af forsendum lýðræðisins er jú að vitleysingar stjórni ekki umræðunni, og ef menn haga sér eins og kenjóttir krakkar, eða illa upp alinn rumpulýður, þá á að umgangast þá sem slíka. 

Það er ekkert sem neyðir aðra til að taka dansinn með Trump.

 

Fjölmiðlar þurfa líka að passa sig vel á að falla ekki í gryfju forheimskunnar.

Eins og blaðamaður Mbl gerir í þessarri litlu frétt. 

Hann talar um að forseti Mexikó hafi aflýst fundi með Trump vegna deilna um múrinn, eins og um einhverjar deilur sé að ræða.  Ef nágranni blaðamannsins hótaði að rukka hann með handafli vegna einhverra útgjalda hans sem blaðamaðurinn bæri enga ábyrgð á, þá myndi hann ekki flokka það sem deilur þó hann stæði á rétti sínum.  Hann á ekki í deilum við innbrotsþjóf þó hann hringi á lögregluna þegar hann stæði þjófinn að verki.

Það þarf allavega 2 til að deila, og forseti Mexikó stendur ekki í deilum við Trump þó hann verji sjálfstæði þjóðar sinnar.  Ekki frekar en Pólverjar stóðu í deilum við Þýskaland haustið 1939, þeir voru fórnarlömb yfirgangsseggja og reyndu að verjast þeim.

Þá hins vegar reyndu Þjóðverjar að telja heimsbyggðinni í trú um að þeir stæðu í deilum við Pólverja, og settu á svið ýmsa atburði því til staðfestingar. 

En þá lét Morgunblaðið ekki glepjast, það sagði rétt frá.

 

Í dag reynir á frjálsa fjölmiðla að samdaunast ekki orðræðu yfirgangsseminnar og fáráðunnar.

Það er í raun verra en beinn stuðningur við hana því þá getur fólk tekið afstöðu, séð í gegnum vitleysuna.

Hitt er eins og vírus sem smitar alla umræðu.  Og við þekkjum þann vírus, ofbeldismenn gátu til dæmis lengi haldið lögum og reglum frá heimili sínu.  Þá voru þetta bara svona deilur, eitthvað persónulegt, eitthvað sem öðrum kom eiginlega ekki við.  Og þetta var bara eitthvað svona einka sem ekki mátti fjalla um.

Og fólk var samdauna, það kom ekki fórnarlömbum heimilisofbeldis til bjargar. 

 

Í dag er staðan 1-0 fyrir Trump, og líklegra en hitt að hann bæti við marki en að það halli á hann í umræðu dagsins.

Þó veit upplýst fólk á hvaða vegferð þessi maður er.

Og við öll eigum mikið undir að sú vegferð sé stöðvuð í tíma.

 

Þess vegna er ekki hægt að láta hann spila með allt og alla.

Það er nóg að hann spili með sína, algjör óþarfi að hann spili líka með okkur hin.

 

Nú reynir á manninn.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Múrinn greiddur með vöruskatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 436
  • Sl. sólarhring: 732
  • Sl. viku: 6167
  • Frá upphafi: 1399335

Annað

  • Innlit í dag: 368
  • Innlit sl. viku: 5223
  • Gestir í dag: 339
  • IP-tölur í dag: 334

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband