Boðar tíma aðgerða.

 

Svona kynnir hópur milljarðamæringa, sem sölsað hafa undir sig bandaríska lýðræðið, sig fyrir umheiminum.

Þeir eru hættir að tala, þeir ætla að framkvæma.

 

Og margir stuðningsmenn þeirra bíða með öndina í hálsinum, ætla þeir að gera eitthvað fyrir mig, eða hina sem þeir lofuðu einhverju allt öðru, því jafnvel sá hrekklausasti áttar sig á því að þegar er lofað í hring, þá er ekki hægt að uppfylla öll loforð því þau ganga gegn hvort öðru.

Eins og við Íslendingar vitum með Bjarna Benediktsson sem lofar alltaf fyrir hverjar kosningar að efla heilbrigðiskerfið og styrkja innviði, en þar sem hann lofaði um leið fjármagninu fjármálastöðugleika og hárri arðsemi, og fjármagnið fjármagnar hann, þá gengur það loforð fyrir.  Sem aftur hefur þann kost að fyrir næstu kosningar mun Bjarni aftur getað lofað eflingu heilbrigðiskerfisins og eflingu innviða í stað þess að þurfa að finna uppá nýjum kosningaloforðum.  Og kjósendur hans þurfa ekki einu sinni að hlusta á hann eða lesa greinar hans, þeir kunna hvort sem er rökstuðning hans utanbókar.  

 

Og einhvern veginn þannig mun þetta ganga fyrir sig í Bandaríkjunum, vissulega var fátækum almenningi lofað ýmsu, en hans framlag var bara að kjósa, en fjármagninu sem fjármagnaði var líka lofað ýmsu, og þau loforð munu ganga fyrir.

Eins er það þannig að mörg loforð eru óefnanleg fyrir þessa milljarðamæringa því þó þeir hafi forsetann, þá hafa þeir ekki þing og dómskerfið. 

Því lýðskrum er ekki alræði þó það láti svo.

 

Það verða vissulega stefnubreytingar í Bandaríkjunum, flestar úr ranni öfga og forheimskunnar. 

En viðskiptasamningum er ekki hægt að rifta, eða setja ný lög nema slíkt fari í gegnum lýðræðislegt ferli.

Og lög þarf að virða, eftirlit með því er mjög sterkt í Bandaríkjunum, dómsstólar eru þar sjálfstæðir og stjórnarskráin er ekki sniðgengin.

Þó Trump tali eins og Mússólíni, þá hefur hann ekki bakland hans. 

 

Síðan má ekki gleyma að þó Trump virki vígreifur, að þá kemst forseti Bandaríkjanna ekki upp með eitt eða neitt ef herinn er því ekki samþykkur.

Trump er ekki Erdogan, hann getur skipað nokkrum hermönnum að keyra skriðdreka um götur Washington, kallað það stjórnarbyltingu og notað slíkt sem átyllu til að útrýma allri andstöðu gegn sér.

Síðan má heldur ekki gleyma því að bandaríski heraflinn er algjörlega háður hinum fátækari hluta þjóðarinnar um nýliða, þeir eru trúir ríkinu en ekki einhverjum hópi milljarðamæringa.  Í dag allavega eru Bandaríkin ekkert Rómarveldi þar sem hægt var að opna gullkistur til að kaupa sér tryggð hermanna. 

 

Allt þetta vita milljarðamæringarnir mætavel. 

Þeir sem fjármagna lýðskrum eru sjaldan svo vitlausir að trúa orði af því sem þar er sagt.

Þeirra markmið er gróði, og ennþá meiri gróði.

 

Og það er eitt sem forseti Bandaríkjanna getur gert strax með tilskipun sínum.

Það er að opna Pandóru öskju jarðeldsneytisiðnaðarins.

Hann mun fá frítt spil til að menga og sóða sem aldrei fyrr.

 

Og það sem verra er, rannsóknarréttinum verður sigað á loftslagsvísindin.

Það er hin raunveruleg ógn sem stafar af Trump og hans mönnum.

Það þjónar hagsmunum þeirra að halda fram að jörðin sé flöt.

Galileó okkar tíma mun ofsóttur verða.

 

Hvað um það mun margur spyrja?

Jörðin er hnöttótt og bálið gat ekki stöðvað framþróun vísindanna.

Eins munu kaffærðar strendur opna augu fólks, fellibylurinn Katrín á sér margar systur, og þær munu sigra fávísa hægriöfgamenn frjálshyggjunnar.

 

Og það er rétt.

Raunveruleikinn en ennþá ósigraður, og orðvaðall heimskunnar hefur aldrei haggað honum hið minnsta.

Málið er að æ fleiri vísindamenn eru farnir að átta sig á spárnar um hægt vaxandi hlýnun eru rangar, það er allt sem bendir til stigmögnunar.

Þeir sem horfðu á heimildarmyndina um jöklana sem sýnd var síðasta sunnudag á Ruv ættu að vita allt um ástandið á Grænlandsjökli, það virðist vera að hann sé bókstaflega að fljóta út í sjó.

 

Siðmenningin mun ekki lifa þau flóð af.

Það er ekki þannig að milljarðar bjargarlausa mun deyja drottni sínum án þess að bögga okkur hin sem teljum okkur örugg í skjóli velmegunar okkar.

Og það er fátt til varnar því það fyrsta sem hinir frjálslyndu í þágu auðsóknar auðmanna lögðu niður var hið ríkisrekna öryggiskerfi svo aurinn flæddi í hið einkarekna.

Síðan er vandséð, þó velmegunin hafi gert fólk það sjúkt í sinni að því sé nákvæmlega sama um örlög náungans, hvernig hægt sé að skjóta milljónir sem leita yfir landamæri í leit af björg.

Svo gætu hinir bjarglausu líka vopnast.

 

Heimskra manna ráð ná ekki einu sinni að útskýra þá blindu okkar að halda áfram eins og ekkert sé framundan annað en ótæmandi neysla og velmegun þegar ógnin við líf barna okkar eru orðin svona áþreifanleg.

Afkristnun hins vestræna heims ekki heldur.

Þó frjálshyggjan hafi afsiðað okkur, að við þekkjum ekki lengur muninn á réttu og röngu, hvað þá að við teljum örlög náungans koma okkur eitthvað við í heimi þar sem sérhyggjan og síngirni eru æðstar dyggða, að þá erum við þrátt fyrir allt aðeins eitt form af lífi, við erum lífverur.

Og markmið alls lífs er að líf þess lifi af.

Það er lögmál náttúrunnar sem nú virðist hafa brostið.

 

Hvað veldur veit ég ekki.

Efa að skaparinn sjálfur viti hvað hefur brugðist.

Heimurinn byggist jú á náttúrulögmálum.

 

En hvað er til ráða veit ég.

Og það vita margir.

Það þarf að vernda líf sem við ólum.

 

Flóknara er það ekki.

Og innst inni vitum við það öll.

Kveðja að austan.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allt eru þetta þarfar ábendingar í þessum pistli og varúðarorðin sönn.

Við deilum ekki um það Ómar.

En ef ég má mæla þá hef ég meiri áhyggjur af birtingarmyndinni hér á landi.

Hér getum við kannski einhverju um ráðið að breytt verði um kúrs til verndar landi okkar.

Hef meiri áhyggjur í augnablikinu af landakaupum James Ratcliffe á Norð-Austurlandi

og því að smátt og smátt og meir og meir verði landinu rænt undan fótum okkar.

Hverjir enda þá sem flóttamenn, dætur mínar og synir þínir?  Við höfum líf þar að verja, fyrst og fremst.

Að halda hér landi í byggð.  Já, að því leyti er ég "hriflungur" sem þú, minn kæri og góði fóstbróðir.

Maður líttu þér á sér margar skírskotanir og fleiri en í fljótu bragði virðist augljóst.

Að berjast við mann í fjarskistan er samt vafalaust þarft verk, en nokkuð í ætt við Don Kíkóta.

Og ég get svo sem fylgt þér sem Sancho Pansa og reynt að benda þér á það sem nær okkur er.

Við höfum brátt líf að verja, okkar eigið og barna okkar og barnabarna ... hér á landi.

Með kærri kveðju, eiginlega sem hver vegur að heiman sé ætíð og þaðan séð, úr norð-vestri.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2017 kl. 14:18

2 identicon

Leiðrétt og rétt er 9. línan:

Maður líttu þér nær á sér margar skírskotanir og fleiri en í fljótu bragði virðist augljóst.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2017 kl. 14:20

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er einfaldlega vegna þess að þú áttar þig ekki á alvarleik loftlagsbreytinganna Pétur, sú umræða hefur farið fram hjá þér.

En sú Ógn er áþreifanleg og óumdeilanleg, og tíminn það knappur að þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af landakaupum eða gróðafíkn Engeyinga, eða annað það sem sækir að landslýð.

Sagan segir að þeir gyðingar sem sögðu annars vegar að ofsóknir nasista væru eins allar hinar, leiðinlegar meðan þær stæðu yfir, en þær gengu yfir, og hins vegar að meira máli skipti að hugsa um stundarhag eins og árferði, það væri erfitt, en að huga að stærri málum eins og stjórnmálum, að þeir höfðu rangt fyrir sér. 

Ógnin sem ógnaði gekk næstum af öllum dauðum, nema helst þeim sem náðu að forða sér í tíma.

Og sú ógn, þó umfangsmikil væri gagnvart gyðingum, var aðeins sunnudagsskóli eldri borgara miðað við þá Ógn sem núna ógnar öllu lífi.

Því aldrei áður hefur sjálf siðmenningin verið undir.

Hins vegar skal ég játa að áherslur mínar á þá Ógn sem stafar af hugmyndafræði Svörtu pestarinnar, sem og hinni tæru illsku sem drífur áfram hið Svarta peningavald Wall Street, eru umdeilanlegar, og ekki allra að sjá samhengið.

En hins vegar býr ekkert frumlegt að baki, sá mikli hugsuður, J.R. Tolkien tók sig til og lýsti þessari styrjöld mennskunnar við Illskuna einu, og strax í  fyrstu bók benti hann á það sem ég greyið er alltaf að segja.

"... Vandi ykkar er aðeins angi af vandræðum alls Vesturheims. ....... Það er einmitt Hringurinn (hin algjöra illska) sem veldur því að þið eruð allir tilkallaðir til fundar hér.  Tilkallaðir, segi ég, -og þó hef ég ekki kvatt ykkur alla til, þið framendur frá fjarlægum slóðum.  Svo gæti virst að þið séu hér saman komnir af stakri hendingu.  En það skuluð þið þó eigi ætla.  Örlagastund er upp runnin, svo að sjálf forlögin munu hafa haft hönd í bagga með því að við söfnumst hér saman til að leita ráða um, hvernig sporna mætti við þeirri vá, sem nú vofir yfir heiminum."

Og einhvers staðar annars staðar benti hann á að sama valdið stæði að baki ásókninni sem hinar ýmsar frjálsar þjóðir Miðgarðs urðu fyrir.

Það er ekki til nein staðbundin lausn lengur Pétur.

Það á aðeins eftir að boða til fundar, þá fer lífið að skipuleggja sig gegn óvininum eina, og það sem sameinar, mun drífa þá andstöðu áfram.

Eftir því bíð ég í rólegheitum, og ég skal alveg játa að mér er slétt sama hvaða andlit hins þríhöfða þurs hrægammanna sér um ruplið.  Málið er að fólk hefur ekki sameinast um að verja sig og sína.

Eitthvað sem ég get ekkert að gert, en ólíkt mörgum öðrum, þá reyndi ég þó.

Ég get nefnilega svarað spurningu sona minna, Ég reyndi.

Síðan hvað á eftir að gerast, það kemur bara í ljós.

Félagi Trump á allavega eftir að halda mér í æfingu.

Hann er ekki alslæmur kallinn, það má hann eiga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2017 kl. 15:51

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Trump setti allt í uppnám því hann var ekki útvalinn af ráðaöflum.  Heldur eins konar Jóker sem almenningi tókst að stinga í rúllettuna.  Sjáum svo til með eftirleikinn.

Kolbrún Hilmars, 22.1.2017 kl. 16:05

5 identicon

Hver orusta er ætíð lókal

enda þótt striðið sé glóbal ... :-)

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2017 kl. 16:07

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er allavega erfitt að berjst annars staðar en maður er Pétur, svo mikið er víst.

Hins vegar sé ég í augnablikinu ekkert stríð hér á Íslandi, síðast þegar ég vissi þá þarf alltaf 2 til.

Til að stríða.

Hitt kallast innbyrðis deilur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2017 kl. 17:08

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Kolbrún.

Ég held að nákvæmara orðalag sé að Trump hafi farið gegn stjórnmálastéttinni en mér er mjög til efs að milljarðamæringur fari gegn ráðandi öflum.

Ætli mætti ekki frekar segja að stjórnmálastéttin sé munaðarlaus, að höndin sem fæddi hina Svörtu pest, hafi kastað hugmyndafræði hennar á haugana þegar ljóst var að óánægja almennings með afleiðingar hinnar frjálslyndu óheftrar auðsöfnunar auðmanna, sem kallast frjálshyggja í daglegu tali, gæti ógnað völdum hennar.

Því almenningur hefur jú síðasta orðið, því hann er jú í meirihluta og slíkt telur í lýðræði.

Krókurinn á móti bragðinu var þá að loka á lýðræðið með því að virkja lýðskrumið.

Í lýðskrumi er sagt það sem fólk vill heyra, en það þarf meiriháttar trúgirni til að trúa að sá sem segir, meini eitt orð af því.

Þá trúgirni deilir til dæmis ekki stofnandi stærsta vogunarsjóðs í heimi en þetta er haft eftir honum í Morgunblaðinu í dag; "„Ég held að hann (Trump)sé ekki endi­lega vernd­artollas­inni og hann er mjög viðskipta­hlynnt­ur í stefn­um sín­um.“".

Enda hverjum dettur í hug að hópur milljarðamæringa leiði byltingu fólksins??

Hvað er þá eftir af mannlegir skynsemi??

Hinsvegar þarf ekki að spyrja um neinn eftirleik Kolbrún, annað hvort verður illskan sem knýr áfram þetta miskunnarlausa peningavald stöðvuð núna, eða mannkynið mun upplifa áður óþekktur hörmungar.

Og þeir sem vilja verða öruggir með að lifa af, ættu að sækja um genaíbreytingargræðslu.

Kakkalakkarnir ættu að eiga góða lífsmöguleika.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2017 kl. 17:32

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll aftur Ómar.  Af öllum merkjum má dæma að Trump hafi bæði farið fram gegn stjórnmálastéttinni og auðvaldinu.  Vissulega er hann sjálfur einhvers konar auðvald, en hann notaði þó eigin peninga til sem var að því leytinu til óvenjulegt.  Hvað samt sem okkur finnst, þá er greinilegt að kjósendur hans kunnu vel að meta og að lokum skipti það mestu máli.
Demokratar hafa amk vonandi lært þá lexíu að útiloka ekki sinn Sanders þegar þeim býðst hann!

Kolbrún Hilmars, 22.1.2017 kl. 17:42

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Kolbrún.

Ég get ekki gert ágreining við það sem fólk trúir, hér í þessum pistlum mínum fjalla ég um það sem blasir við mér, sem og ég tæpi á sögulegum tengingum.

Ég hef svo sem lent í mörgum rökræðum hér, jafnvel rætt kurteislega við afneitara helfararinnar.  Og varð um margt fróðari um þann rökheim sem að baki lág.

En varðandi félaga Trump, þá ætla ég ekki að taka rökræðuna um hvort hann sé svona eða hinsvegin, því málið er það alvarlegt að fólk verður að nota sína eigin dómgreind, að virkja sinn eigin Homo Sapiens.

Sem ég efa ekki að allir geri að lokum, því fólk getur ekki lengi horft á afkomendur sína og horft síðan í spegil, og verið sátt við sálft sig. 

Þá hættir lýðskrumið að virka.  Fellur niður steindautt.

En hvað um það, ég er sammála um að kjósendur hans kunnu að meta hann, og það var að gefnu tilefni.

Varðandi demókrata og Sanders, þá var útilokað að elítan hleypti honum að gegn sínum manni.  En útslagið gerði samt kyn hans.

Sem og það var skrifað í skýin að núna væri komið að Ögurstund mannkyns.

Við höfum haft tæp 2.000 ár til að læra, og nú er kennslunni lokið.

Lokaprófið er framundan.

Og það verður ekki boðið uppá endurupptöku.

Því miður Kolbrún.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2017 kl. 23:09

10 identicon

Einhvern veginn þá virðist sem að um allar jarðir séu popúlistar (nytsamir sakleysingjar græðginnar) með sín loforð um einfaldar sársaukalausar lausnir að ná völdum jafnvel í ágætlega grundvölluðum lýðræðisríkjum kosnir af fólkinu. Kannski er mankyninu ekki viðbjargandi. Hugsunin þróaðist síðast með okkur en allt hvatakerfi okkar er knúið af nautnum, samkvæmt þeirri kenningu erum við dæmd til tortímingar af því að hugsunin fær engu ráðið um hegðunina og við nánast áhrifalausir áhorfendur að eigin útdauða. Ég vona að þessi kenning sé röng en nútiminn gerir fátt annað en að staðfesta hana.

P.S. Mætur maður sagði að ómöguleikinn á að skilja veldisvöxt yrði mannkyninu að falli. Það gæti orðið raunin hvað loftslagsbreytingar varðar. 

Kristján T. Högnason (IP-tala skráð) 23.1.2017 kl. 09:15

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kitti.

Ég held að ég hafi sofið frekar rólegur yfir hlýnun loftshjúpsins þar til ég las tengingu hennar við veldisvöxt, kannski skildi ég það betur vegna þess að ég lærði eitthvað í stærðfræði í gamla daga.

Ég hélt alltaf að atlaga Svörtu pestarinnar að siðmenningunni myndi valda þeim óróa sem leiddi til þriðju heimsstyrjaldarinnar. Eða þess Harmageddon sem býður mannkynsins.

Það var ekki fyrr en ég kynnti mér loftlagsfeikarana sem skítuga fjármagnið þarna vestra fjármagnar, sem augu mín opnuðustu fyrir veldisáhrifunum og ég sá að þó allir yrðu vinir á morgun, en létu samt örfáa auðmenn vestra hindra lífsnauðsynlega aðgerðir gegn vánni, að þá yrði næsti áratugur örlagaáratugur mannkyns.  Og allt gæti hrunið sem hrunið gæti.

Einnig áttaði ég mig á að versta mögulega niðurstaðan yrðu svona hálfkák aðgerðir, menn vildu vel en gerðu lítið, og þá alltaf of seint miðað við alvarleik málsins.

Og meðan við látum siðblindingja vega að siðmenningunni með hugmyndafræði sinni, þá var ekki beint við að búast að farið yrði gegn hagsmunum skammtímagróðans.

En bein stríðsyfirlýsing við mannkynið, hún gat hugsanlega hreift við fólki.

Hana höfum við fengið, sem er enn eitt dæmi um Galdur lífsins, að lífið finnur sér alltaf leið til að lifa af.

Sjáum hvað setur en varðandi tilhneigingu fólks til að kjósa einfaldar lausnir, þá er á því ein mjög góð skýring og hún er sú að vitborið fólk hefur ekki haft tötsið til að fara gegn frjálshyggjunni og bjóða almenningi uppá siðlega lausn.

Okkur er tíðrætt um Trump, en hann hefur ekki ennþá sýnt þá siðblindu sem valdaelíta Evrópu, með því sem næst algjörum stuðningi hinnar menntuðu yfirstéttar, gerði eftir fjármálahrunið 2008 þegar fólki og jafnvel heilum samfélögum var fórnað fyrir tilbúinn gjaldmiðil.

Síðan var ICEsave siðferðislegt gjaldþrot Evrópusambandsins þó auðveldara sé að líta í annarra barm.

Fólkið sem kaus Trump var ekki endilega að kjósa hann, eða allt ruglið sem kom út úr honum, það var að kjósa gegn elítu sem taldi svo sem allt vera í lagi, á meðan hún sjálf hefði það gott.

Þrælarnir risu upp í Róm, þó það hafi ekki verið sérstaklega vitrænt, og stórskaðaði efnahaginn, og þrælar rísa uppí dag.

Það er nefnilega í eðli fólks að rísa upp gegn arðráni og kúgun Kitti.

Og það vissir þú sem ungur maður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2017 kl. 11:37

12 identicon

Takk kærlega fyrir athugasemd þína númer 11 Ómar, hún er sönn, hún er sanngjörn

og skrifuð af greinandi viti í framhaldi af mjög góðri athugasemd Kristjáns.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.1.2017 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 451
  • Frá upphafi: 1412813

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 390
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband