Dagurinn í gær.

 

Er dagurinn sem sagan man á meðan einhver les sögu.

En það er ekki svo að hann eigi sér ekki bræður.

 

Á sólríkum degi fyrir um það bil 2.400 árum síðan fékk frægasti lýðskrumari fornaldar Aþeninga til að leggja uppí dauðadæmda herför til Sikileyjar sem endaði með þeim ósköpum að borgin missti flota sinn og flestir hennar bestu sona enduðu líf sitt í grjótnámum Syrakúsu (öflugasta gríska borgríkið á Sikiley).  Skynsamir menn vöruðu við þeirri feigðarför en lýðskrumarinn Alcibaeides hafði betur gegn Homo Sapiens með því að virkja tvíburana Homo Stupido og Homo Greedy, fyrirheitið um stórgróðann af ráni og rupli vó þyngra en sú heilbrigða skynsemi að yfirgefa ekki borg sína í miðju stríði við öflugasta herveldi hins gríska heims, Spörtu sem var með her sinn í túnfætinum.

Á þessum sólríka degi dó lýðræðið í Aþenu, þessari háborg hins fyrsta lýðræðis hins vestræna heims.  Því forsendur þess, hið vitræna og hið skynsama laut í lægra haldi fyrir forheimskunni og græðginni. 

Talandi hinna lægstu hvata yfirvann þá skynsemi sem menn eiga að hafa til að vernda sig og sína.

 

Þó lýðræðið hafi dáið í Bandaríkjunum í gær þá er samt einn reginmunur á þessum bræðradögum, að þá vissu menn ekki, en í dag vita menn.

Í Aþenu voru hlutirnir að gerast í fyrsta skiptið, það var við enga sögu að styðjast, en í dag vita menn betur.

Lýðræði er skilgreint, lýðskrum er skilgreint, og ennþá veit sagan ekki eitt dæmi að lýðræði hafi lifað af valdatöku manns eins sá ágæti maður Donald Trump er.

Því ef lýðræðið er einu sinni búið að sætta sig við umræðu ranginda og bábilju, þar sem fordómar og ótti er virkjaður til að búa til einhvern meintan óvin sem þurfi að berja á, þar sem það er sagt sem fólk vill heyra, algjörlega óháð raunverulegum skoðunum eða stefnu þess sem sækist eftir völdum, að þá er lýðræðið dottið ofaní hyldýpispytt þar sem sá næsti og þar næsti, og allir hinir sem eftir koma, munu beita sömu aðferðum til að ná völdum.

Eina spurningin er hvenær lýðskrumari stígur það skref sem þarf að stíga til að afnema lýðræðið til að tryggja sér völd um aldur og ævi.  Eins og til dæmis meintur tvíburi Trumps, Mussólíni gerði á sínum tíma.

 

Þar sem eru spurningar, þar er efinn sagði skáldið forðum í þýðingu Helga Hálfdanar.

Og því miður á Ögurstundu mannsins skipta þessar spurningar máli.

 

Mússólíni til dæmis vissi að þó hann þyrfti sigurfrægð handa múgnum, að þá þurfti hann að velja sér andstæðing sem ítalski herinn réði við.  Og fann þann andstæðing í svörtustu Afríku, spjótin dugðu skammt gegn stálinu.

Þegar Trump fetar fótspor hans þá er ekki víst að hann sér sitt Grenada til að ráðast á, hann gæti verið það vitlaus að ögra andstæðing sem gæti stigmagnað átök.

Ekki það að Trump sé eitthvað vitlaus, það þarf vissar gáfur til að virkja Homo Stupidos, en hann er greinilega hvatvís siðblindingi, og þeir eru eins og þeir eru.  Sítraðkandi á allt og öllu í kringum sig.

 

Koma tímar og koma ráð er sagt þegar menn vita ekki í augnablikinu hvernig þeir eiga að bregðast við vandamáli.

Í tilviki þess að lýðræðið dó í gær í háborg hins nútíma vestræna lýðræðis, þá er alveg öruggt að það koma tímar, en ekki eins víst með ráðin.

Á sínum tíma vildu margir eftirá hafa stoppað þá félaga Mussólíni og Hitler í fæðingu, en ekki daginn eftir að þeir komu heimsbyggðinni allri í eitt allsherjar stríð.

Þá var aðeins gæfan að gjöreyðingin var ennþá í fósturkviði en svo er ekki í dag.

Þá slapp allt fyrir horn þó einhver af þessum 80 til 100 milljónum sem dóu í þeim hildarleik myndu sagt hafa að fyrir hann hefði það verið fulldýru verði keypt.

 

En siðmenningin lifði af, og lifir enn.

En að andvaraleysi hennar gefi henni annað tækifæri, það þarf góðan skammt af bjartsýni til að treysta á slíkt lán.

Fólki þarf hreinlega að vera illa við börnin sín, barnabörn og í raun allt líf til að gefa slíkri bjartsýni séns.

 

En það er ekkert sem ógnar.

Það er ógnar þeim helöflum sem sjá gróðann í auðn og tortímingu.

Flokkur lífsins er ekki einu sinni fósturvísir.

Það er ekkert sem sameinar fólk að verja mennskuna.

Ekki einu sinni lífið sem við ólum.

 

Það er nú það.

Og fátt um það að segja.

 

Sumt er eins og það er.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað segirðu Ómar um það að Trump hefur nú aftur sett upp styttuna af Winston Churchill í Hvíta húsinu?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.1.2017 kl. 13:51

2 Smámynd: Ómar Geirsson

???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.1.2017 kl. 18:40

3 identicon

Obama lét fjarlægja hana en Trump hefur komið henni aftur fyrir í "The Oval Office".

???

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.1.2017 kl. 19:41

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Og ????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.1.2017 kl. 19:58

5 identicon

Hún flutti sig ekki aftur þangað sjálf.  Hið augljósa væri að lesa út úr því að ráðamenn Bandaríkjamanna og Breta hugi aftur að nánara samstarfi þjóða þeirra í milli.  Ég spyr hvort þú lesir eitthvað annað út úr því?  Hvaða leiki sé verið að leika á "The Great Chessboard" með því?

Væntanlega ekki árás á Sýrland sem Obama var þáttakandi að, "lýðræðislega vorið" sem aldrei kom í Mið-Austurlöndum, morðið á Gaddafi sem Obama var þáttakandi að og með frú Clinton sem Utanríkisráðherra þá, en hann fékk friðarverðlaunin fyrirfram vegna "dáða" sinna.  Pussy-riot aflar henni kannski viðlíkra verðlauna Nóbels, úthlutað af Thorbjörn Jagland og Jens Stoltenberg?

Ég veit það ekki Ómar, Trump er ekki normal en hverjir eru normal í þessum snargeggjaða hræsnisfulla valda- og græðgisheimi?

En hví skyldi hann verða verri á morgun en hann var í gær í heiminum öllum?  Það er stríð í heiminum, það verður það áfram um sinn, það eitt er því miður óhjákvæmilegt þar til nógu margir sjá hið augljósa, að það er siðlaust norm valdast´ttarinnar að drepa fólk, þjóðir til að græða á því.

Viðurkenni að ég er rgulaður sem fleiri á þessum tímum, en ég tel ekkki einn valda auðræðis klikkhausinn betri eða verri en annan  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.1.2017 kl. 20:19

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Svona ef það skyldi hafa farið fram hjá þér þá fjallar þessi pistill um daginn í gær, en í gær var dagurinn gær sá dagur sem lýðræðið dó í háborg hins vestræna lýðræðis.  Og menn hafa pistlað af minna tilefni.

Og þó ég opni stærstu hirslur ímyndunarafls míns þá get ég ekki séð hvað stytta af Winston Churchil hafi nokkuð með þann atburð að gera.  Ekki frekar en standmynd af Ciceró trufli mat manna á valdatöku Mussólínís eða málverk af Goethe breyti mati manni af fjármagnaðri yfirtöku lýðskrumsins í Þýskalandi 1933.

Síðan hélt ég að þú vissir Pétur að ég fékk nóg af því í ICEsave deilunni þegar vinstrimenn notuðu orðræðu fortíðar til að réttlæta stuðning sinn við þá tilraun til þjóðardráps, því bæði sjálfstæði þjóðarinnar og innviðir voru í húfi.

Þú metur ógn, og tekur afstöðu til hennar, út frá eðli hennar, umfangi og líklegum afleiðingum, þar koma vissulega fótspor að gagni því atburðarrásir eða ferlar sögunnar eru um margt líkir stærðfræðiformúlum þar sem ákveðnar breytur stýra framvindu.  En ágreiningur fortíðar á sér sínar forsendur, sem mynda bandalög og svo framvegis, og tilvísun orðræðunnar ræðst af þeim bakgrunni hugmynda og hugmyndaátaka sem voru þá til staðar.  Mér var til dæmis tíðrætt um Svörtu pestina enda sá ég hana sem birtingarmynd hins Svarta fjármagns Wall Street.  En þó Svarta pestin dómíneri ennþá hugmyndafræði Vesturlanda, og mjög margir séu sýktir af henni, þá er hún í raun ekki lengur íssjú í málinu.  Afleiðingar hennar gátu af sér ný veiðimið, nýjan markhóp, og orðræða hins algjöra lýðsskrums var nýtt til að koma nýrri leikbrúðu á valdastól.

Í heimi sem er á barmi upplausnar vegna afleiðinga Svörtu pestarinnar.

Að öðru leyti veit ég ekki hvað ég á að segja þér Pétur.  Á ákveðnum tímapunkti föttuðu menn að þeir rökræddu ekki við nasismann eða eltu ólar við alla vitleysuna sem valt uppúr fylgismönnum hans.  Hjá mér kemur ekki sá tímapunktur, ég geri mér strax grein fyrir því að tími rökræðunnar er liðinn, þó hver dagur væri sem þúsund ár, þá dygði sá dagur ekki gegn talanda vitleysunnar sem nærir lýðskrumið, því hún sækir í djúp óendanleikans.

Mig langar samt að benda þér á að Obama stjórnin var minnstur gerandi í þeirri atburðarrás sem kennd er við arabíska vorið. Um skortinn á afskiptum Obama má lesa margar lærðar greinar í leiðurum Moggans sem og í Reykjavíkurbréfum hans.  Það var Evrópudeild Nató sem réðst á Líbýu eftir að keyptir málaliðar þess voru að lúta í gras.  Hluti Evrópudeildarinnar er síðan helsti gerandinn í Sýrlandi, bæði með því að útvega fjármagn, vígamenn, sem og með máttlitlum loftárásum á hina svokallaða vígamenn.  

Undirliggjandi er síðan fjármagnaðir trúaröfgar ættaðir af Arabíuskaganum.  Vissulega liggja þræðir frá hinu skítuga fjármagni til Riyad líkt og lágu frá því til Munchen á sínum tíma, en ekkert bendir til þess að bandaríska stjórnkerfið komi beint þar að málum.

Eflaust má deila um hvort Obama átti að fá Nobelinn eða ekki, veiting hans var svona forspá á sínum tíma, en margur hefur samt fengið hann af minna tilefni. 

Obama hóf ekki ný stríð, hann reyndi að binda endi á þau stríð sem forveri hans bar ábyrgð á.  Undir hans stjórn þurfti hægri öfgamaðurinn Netanyahu að halda aftur af sér, munar mestu um að hann hleypti ekki öllu í bál og brand við Persaflóann með því að bomba Iran.  Eins hafa átök í Palestínu ekki stigmagnast, í raun hefur ekki verið friðsælla þar í áratugi.  Síðan hélt hann aftur af Evrópudeild Nató í Úkraínu deilunni, en valdarán þjóðernissinna þar var greinilega af undirlagi ESB. 

Obama hefur greinilega haldið aftur af stríðsæsingarmönnum í núningnum við Rússa.  Í raun hefur hann viðurkennt rétt þeirra til að deila og drottna í sínu nánasta umhverfi líkt og USA hefur alltaf gert í sínu nánasta umhverfi. 

Svo hefur Obama haldið friðinn við Kínverja.

Þannig að Pétur, að þetta gat verið verra.

En núna er komið af seinni pistlinum um dindil hins Svarta fjármagns.

Stuttur að venju því það skiptir nákvæmlega engu máli hvað ég segi.  Þetta er bara svona skylda, fyrir framtíðarspurninguna, "pabbi, hvað gerðir þú til að koma í veg fyrir þessar hörmungar??".

Við sem einstaklingar breytum engu.

En meðvirkni okkar er hin raun orsök ógæfunnar.

Þar felldi nefnilega hnífurinn kúna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2017 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 453
  • Frá upphafi: 1412815

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 392
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband