29.12.2016 | 17:33
"Sjúklingnum heilsast vel".
Má lesa á vef ríkisútvarpsins á meðan Morgunblaðið reynir að upplýsa þjóðina um alvarleika þess að á ögurstundu í lífi fólks, getur það ekki komist undir læknishendur vegna þess að þjóðin lét ógæfufólk komast upp með að loka neyðarbraut höfuðborgarinnar án þess að hafa aðra braut tilbúna í hennar stað.
Morgunblaðið spyr spurninga sem skriffinnurinn, þessi í hvítu skyrtunni með bindið svo ég vitni í Ove, telur fyrir neðan virðingu sína að svara. Sjálfsagt mun hann segja að lokum að Hæstiréttur hafi fyrirskipað þessa meinta tilraun til manndrápa, eins og að dómurinn muni stefna íslenska ríkinu fyrir að hafa neyðarbrautina opna.
Ríkisútvarpið telur það aðalatriði málsins að stóru flugvélar flugfélags Íslands hefðu ekki notað neyðarbrautina. Eða svo segir í fyrirsögn fréttarinnar á Ruv.is; "FÍ hefði ekki notað þriðju flugbrautina í gær ".
Eins og það komi málinu eitthvað við.
Hvað höfum við landsbyggðarmenn upplifað oft að sjá sjúkraflugvél á frumstæðum flugvöllum okkar, þó farþegaflug hafi legið niðri?? Þúsund sinnum, fimm þúsund sinnum? Hver veit, nema þeir sem hafa flogið sjúkraflugvélum í gegnum tíðina, og hafa með hæfni sinni og þori bjargað hundruðum mannslífa, þegar annar möguleiki var ekki í boði til að bjarga mannslífi en að fljúga í kolbrjáluðum veðrum.
Ríkisútvarpið leggur sig ekki niður við að spyrja þá menn, en það gat upplýst þjóðina að farþegaflug hefði legið niðri, og er þá sjálfsagt að ýja að Fokkerinn sjái um sjúkraflugið.
Og ríkisútvarpið gengur lengra, það upplýsir í frétt sinni að lokun neyðarbrautarinnar minnki "nýtingarhlutfallið aðeins lítillega og þá aðallega í þeim vindáttum sem voru í gær".
Gefið í skyn að málið sé eiginlega stormur í vatnsglasi.
Lægra er ekki hægt að leggjast.
Neyðarbrautin er einmitt neyðarbraut vegna þess að hún er eina flugbrautin sem nýtist í stífri suðvestan átt, og ekki er um aðra braut að ræða á suðvesturhluta landsins.
Og það er í eðli neyðar, að vera undantekning, eitthvað sem er notað í neyð. Eins og til dæmis nýtísku björgunarbúnaður í borð í fiskiskipum, fullkomin eldvarnarkerfi í verslunar og iðnaðarhúsnæði og svo framvegis.
Og á neyðarstundu skiptir slíkt öllu máli og getur bjargað mannslífum við aðstæður sem annars hefðu kostað mannslíf.
Það er engin tilviljun að sjóslysum hefur fækkað, að færri látast í umferðarslysum, heldur er það vegna þess að markvisst hefur verið unnið að koma í veg fyrir þessi slys.
Nema í höfuðborg okkar, þar telja ráðamenn það tölfræðilega viðunandi að auka dánarlíkur fólks.
Og eru ekki einir um þá siðblindu eins og frétt ríkisútvarpsins staðfestir, þar er Vöggur greyið tíndur til svo hægt sé að réttlæta hið óverjanlega.
Heiðarlegur, hlutlaus fjölmiðill, sem ríkisútvarpið er náttúrulega ekki, hefði rannsakað málið.
Spurt af hverju neyðarbrautin er lokuð.
Og spurt reynda sjúkraflugmenn hvað þeir hafa oft upplifað að þessi braut skipti sköpum.
Hvað hefur hún í raun bjargað mörgum mannslífum??
Er svo flókið að spyrja þeirrar spurningar, og afla sér upplýsinga um það?
Í stað þess að gefa í skyn að einhverjar annarlegar hvatir búi að baki málefnalegrar gagnrýni sjúkraflugmanna, eða þeirra lækna á landsbyggðinni sem taka undir að það sé mjög mikilvægt að hægt sé að senda bráðveika og eða illa slasaða sjúklinga suður á Landspítalann þar bestu aðstæður eru fyrir hendi til að bjarga lífi fólks, og eða tryggja því sem besta heilsu.
Eða halda menn að það sé spurning um dagpeninga eða stubb að sjúkraflugmenn vilja fljúga í kolvitlausum veðrum??
Mikil er firring þeirra sem verja hið óverjanlega.
Mikil siðblinda hlýtur að búa að baki.
Morgunblaðið á hins vegar heiður skilið fyrir fréttaflutning sinn, og vonandi nær blaðið að fylgja málinu alla leið, að það hætti ekki þegar ljóst er að boltinn er ekki hjá ógæfufólkinu í borgarstjórn Reykjavíkur.
Vissulega hafa krakkarnir þar mikil völd, en þau stjórna ekki landinu.
Og stundum þarf að spyrja eigin flokksmen óþægilegra spurninga.
Þó ríkisútvarpið sé fast í forarpytti flokkshollustunnar, að þá vonandi gildir það ekki sama um Morgunblaðið.
Á næstu dögum þarf að lenda þessu máli á þann hátt að sjúkraflugmenn fái lent með sína sjúklinga.
Að það séu þá veðurguðirnir sem stöðvi þá, ekki forheimska mannanna.
Því þetta er spurning um mennskuna.
Um það að vera maður.
Að vera manneskja.
Kveðja að austan.
Brautin hefur ekkert breyst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 16
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 2656
- Frá upphafi: 1412714
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2318
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
ÞAÐ Á AÐ SÆMA SJÚKRAFLUGMENN ORÐU- ÞEIR LEGGJA SITT LÍF Í HÆTTU VIÐ AÐ BJARGA FÓLKI MEÐAN RÁÐUNEITI Á OFURLAUNUM VIRÐIST VINNA AÐ ÞVÍ AÐ DREPA SJÍKLINGA ?
ER EKKI GEÐHEILSAN Í LAGI HJÁ RÍKISSTJÓRN OG RÁÐAMÖNNUM ?
Erla Magna Alexandersdóttir, 29.12.2016 kl. 19:16
Það má allavega efast um "siðheilsu" þeirra Erla.
Og já, ég er mikið sammála þér um orðuveitingu handa sjúkraflugmönnum, þeir eru einir af mörgum sem skipa þann úrvalshóp sem má kalla Þöglar hetjur Íslands.
Og vonandi verður það einhvern tímann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.12.2016 kl. 20:49
Neyðarbrautin er neyðarbraut vegna þess að henni var gefið það nafn af Framsóknarflokknum í einni kosningarbaráttunni. Neyðarbrautin hefur aldrei bjargað mannslífi og þar hefur aldrei lent sjúkraflugvél með sjúkling í lífshættu. Það er mat lækna. Sjúkraflugmenn, skósmiðir og bakarar geta gefið þér annað mat. En þar sem þekking þeirra er ekki á því hvenær sjúklingar eru í lífshættu eða ekki þá er það lítils virði. Sjúkraflugmenn eru fyrst og fremst að verja sína tekjulind, upphefja sjálfa sig og leika sér í pólitík. Þeir hafa enga þekkingu á því sem þeir eru að tjá sig um og fara iðulega með rangt mál.
Þetta er ekki spurning um mennskuna, þetta er spurning um hvort lýðskrum og rangfærslur skuli ráða í sjúkraflugi. Hvort sjúklingar eigi að vera vopn sérhagsmunahópa í pólitískri refskák.
Davíð12 (IP-tala skráð) 29.12.2016 kl. 22:34
Blessaður Davíð 12.
Ekki veit ég hvort þú vitir að nettröllin fengu nafngift sína vegna þess að tröll eru heimsk og leiðinleg, en ekki vegna þess að þau eru stór og ljót. Og ekki veit ég hvort þú sért slíkt tröll í þjónustu einhverra hagsmuna en það blasir við hér að ofan að þú ert óttalegur bjánabelgur en virði þér það kannski til vorkunnar að það helst oft í hendur heimskan og heimskur málstaður.
Hvernig dettur þér í hug að segja að neyðarbrautin sé kölluð neyðarbraut vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafi gefið henni það nafn?? Er það vegna þess að þú manst ekki lengra aftur í tímann???
Vissulega er það rétt að það er ekki sérstaklega langt síðan að það var farið að tala um neyðarbraut en það á sér þá einfaldlega skýringu að braut sem er í almennri notkun fær ekki þá nafngift. Það er fyrst þegar dró úr notkun á henni að farið var að tala um neyðarnotkun og þá vísað til þess að í stífri suðvestan átt var ekki um aðra braut að ræða.
Ég ætla að vitna í viðtal við Norðfirðinginn Kolbein Arason sem Morgunblaðið tók við hann eftir að hann flaug sitt síðasta flug fyrir Flugfélag Íslands;
"Stærsta áhyggjuefnið varðandi flugöryggi á Íslandi í dag, að mati Kolbeins, er lokun NA-/SV-flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, sem oft er kölluð neyðarbrautin. „Ég er mjög ósáttur við að verið sé að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll. Það er skelfilegt að meirihlutinn í borgarstjórn sé að komast upp með þetta skemmdarverk, ákvörðun sem byggð er á röngum upplýsingum. Þessi gjörningur mun draga verulega úr flugöryggi á Íslandi, ekki síst þegar kemur að sjúkraflugi. Eins og við þekkjum getur vindátt breyst á augabragði og með þessu er verið að taka af okkur einn valkostinn. Neyðarbrautin er oft og tíðum eina brautin sem hægt er að lenda á í stífri suð-vestanátt. Það er líka áhyggjuefni að ekkert bólar á samsvarandi braut í Keflavík sem búið var að lofa. "
Kolbeinn mælir af reynslu því það eru ófá mannslífin sem hann hefur komið að bjarga því hann var farsæll sjúkraflugmaður hér fyrir austan í ótalmörg ár. Hann er einn af þessum mönnum sem þú vogar þér að gera lítið úr, að vit hans á þessum málum mælist í þekkingu skósmiða, en við sem höfum notið þjónustu Kolbeins vitum betur. Og ég fullyrði að það er leitun á fólki á landsbyggðinni sem þekkir ekki til tilvika þar sem sjúkraflugið var spurning um líf, og þó við höfum ekki nein gögn í höndum um á hvaða flugbraut var lent með sjúklingana, þá erum við ekki svo skini skroppin að gera okkur ekki grein fyrir því dauðinn kíkir ekki á veðurspána áður en hann bankar á dyr, hann hættir ekki við ef það er stíf suðvestan átt í kortunum.
Hve þetta er oft tilfellið vitum við hins vegar ekki, og í pistli mínum hér að ofan þá bendi ég á að hlutlaus fjölmiðill myndi spyrja þeirra spurningar,og reyna að fá svar við henni. Ætti að vera auðvelt þar sem þú virðist hafa aðgang að rannsókn þar um. Það þarf aðeins að komast að því hvað þú heitir.
En þó það sé mat allra þeirra lækna sem hafa þjónustað bráðadeildir höfuðborgarsjúkrahúsanna frá því í árdaga sjúkraflugsins á Íslandi að aldrei hafi verið lent með sjúklinga í lífshættu á NA/SV flugbrautinni (ætli sjúklingarnir séu með spjald á tánni þar sem upplýsingar um á hvaða flugbraut sjúkraflugvélin hafi lent svo læknirinn geti fært það inná sjúkraskýrslu viðkomandi sjúklings?) þá felst ekkert í þeim fortíðarupplýsingum um hvað gerist í framtíðinni, eða svo ég vitni í Sigurð E. Sigurðsson, framkvæmdarstjóra lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri að þá segir hann í viðtali við Mbl.is í gær að;
"Við skildum þetta samkomulag þannig að lokanir flugbrauta ættu ekki að koma til, nema það kæmi eitthvað sambærilegt í staðinn sem myndi tryggja öryggi og skilvirkni í sjúkraflutningum. Nú er búið að taka þetta fyrsta skref og það hefur ekkert sambærilegt komið í staðin,“ segir Sigurður og kveðst ekki vera að leita að blóraböggli. Upp sé hins vegar komin sú staða að það muni koma upp tilfelli þar sem lokun brautarinnar hefur þessi áhrif.
„Við höfum ekkert í höndunum, hvorki nýjan flugvöll eða neinar aðrar aðgerðir þar sem komið er til móts við þetta. Það er bara tímaspursmál hvenær eitthvað gerist og við vitum það flest.“".
Og ekki er Sigurður skósmiður. Og virðist ekki vera kunnugt um þá rannsókn sem þú byggir fullyrðingu þína á að það sé mat lækna að aldrei hafi sjúkraflugvél með sjúkling í lífshættu lent á neyðarbrautinni.
Að lokum Davíð 12. langar mig að benda þér á mótsögnina sem felst í málflutningi þínum þegar þú segir að "sjúkraflugmenn eru fyrst og fremst að verja sína tekjulind". Ég hélt reyndar að flakk um landið til að leita að lendingarhæfri flugbraut væri tekjuauki fyrir þá en ég held að þú sért að gefa í skyn að það dragi úr sjúkraflugi þegar Reykjavíkurflugvöllur sé lokaður.
Minna flug, minni tekjur.
En hvernig getur þú þá fullyrt að þá sé verið að rúnta um loftið með sjúklinga sem hafa svo sem enga þörf á að komast til Reykjavíkur??
Ef svar þitt er að þessi tilvik séu svo sjaldgæf að áhættan sé hverfandi, hvernig getur þá meint tekjutap knúið áfram þessa umræðu lýðskrums og rangfærslna og fær sjúkraflugmenn fara iðulega með rangt mál á máli sem þeir hafa enga þekkingu á svo ég vitni í orð þín hér að ofan.
Ég vona það þín vegna Davíð 12. að þú sért á góðum launum sem verktaki að bulla svona í netheimum, það væri ákaflega sorglegt að um gönuhlaup unggæðingsins væri að ræða, vegna einhverrar misskilinnar tryggðar við ógæfufólkið í borgarstjórn Reykjavíkur. Nettröll hafa jú þann tilgang að moka skít og dreifa bulli og vitleysu sem víðast í þágu þeirra hagsmuna sem borgar þeim kaup hverju sinni.
Sálarlaust vissulega en vinna er jú vinna.
En að vega að mannslífum að pólitískum hugsjónarástæðum, það er ekki fallegt.
O nei, o nei.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 08:59
Sæll Ómar, skeleggur pistill eins og oft áður. Varðandi lýðskrum og rangfærslur þá langar mig til að segja eftirfarandi ;
Fyrir tveimur árum varð ég þess aðnjótandi að lenda á "neyðarbraut Framsóknarflokksins". Ég hafði fengið svokallað hjartaáfall í rólegheitum heima í stofu. Þar sem ég bý á Egilsstöðum var stutt á flugvöll og lítil bið eftir sjúkravél með áhöfn og hjartalækni frá Akureyri. Farþegaflug hafði stöðvast um allt land þegar þarna var komið dags þar sem að flugvöllurinn í Reykjavík var lokaður vegna veðurs. Flugið suður tók einn og hálfan tíma þar sem það þurfti að hringsóla yfir Reykjavík og sæta lagi við að lenda á svokallaðri "neyðarbraut Framsóknarflokksins", en á þá braut fékkst lendingarleyfi þrátt fyrir að ég væri ekki flokksbundinn framsóknarmaður.
Þetta var á seinni part sunnudags þannig að það þurfti að kalla út og manna hjartaþræðingadeild Landspítalans, með fullri áhöfn sem gæti verið á milli 5 og 10 manns, án þess að ég viti það nákvæmlega þar sem ég var ekki í ástandi til að telja. Í stuttu máli sagt þá hjarnaði ég við. Samkvæmt því sem annar læknirinn sem tók þátt í þræðingunni tjáði mér þá skipta mínútur máli, og lét mig jafnframt vita af því í leiðinni að ég hefði eyðilagt fyrir honum fjölskylduboð á hans frídegi því hjartaþræðingadeildin væri lokuð á sunnudögum nema í neyðartilfellum.
Ég ætla ekki að halda því fram á ég sé mikið betur staddur þó svo að "neyðarbrautar Framsóknaflokksins" hefði ekki notið við, en það liðu aðeins nokkra mínútur frá því að vélin lenti þar til að ég hafði verið þræddur og blásin. Daginn eftir kom í ljós að ég hafði fengið drep í hjartað þar sem ég komst ekki í réttar hendur í tæka tíð, þannig er dæligeta hjartans út í líkamann kominn niður í 40 % og við það er mér sagt að ég þurfi að lifa.
Rétt eins og þér þá finnst mér sem mennskum íslendingi það vera undarleg pólitísk ákvörðun um að loka flugbraut sem ennþá er hægt að lenda á vandkvæðalaust ef þeir sem dómbærir eru telji að líf liggi við.
Magnús Sigurðsson, 30.12.2016 kl. 09:15
Þessi 40% eiga greinilega að duga vel og lengi þar sem þú varst greinilega ekki í lífshættu fyrst lent var með þig á þessari braut (skv. Davíð allavega). Samkæmt öðrum sem hefur tjáð sig í athugasemdum varst þú heldur greinilega ekki í lífshættu fyrst ekki var send þyrla eftir þér, en samkvæmt honum er sjúkraflug bara fyrir sportreisur en ef sjúklingur er í lífshættu er kallað á þyrluna.
Er þetta ekki bara tómur misskilningur hjá þér allt saman? ....
ls (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 09:27
Takk Magnús kærlega fyrir að deila þessu hérna með okkur.
Ég veit að það er erfitt að tjá sig svona opinberlega um manns eigin viðkvæmustu mál, en þetta er púslið sem allavega mig vantaði gegn hinni lúmsku framsetningu tölfræðinnar sem Ruv birti í frétt sinni.
" Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia segir að vitað hafi verið fyrirfram að lokunin hefði áhrif. „Nýtingarhlutfall flugvallarins minnkar lítillega og þá aðallega í þeim vindáttum sem voru í gær.“
Þar vísar Guðni í skýrslu verkfræðistofunnar EFLU, þar sem kom fram að hlutfallið minnkaði úr 99,5% í 97%, sem telst þó viðunandi nýting.".
Hvað er þessi viðunandi nýting mæld í mörgum mannslífum??
Og á meðan það er ekki rannsakað, þá er hægt að fullyrða að það skipti ekki máli.
Eða það sem verra er, að gefa það í skyn eins og Ruv gerir á svo lúmskan hátt þegar það styður sína menn í borgarstjórn.
Morgunblaðið á heiður skilið fyrir að halda lífi í þessari umræðu, þó mig gruni lítillega að það sé að þessu til að koma höggi á borgarstjórnarmeirihlutann, og þegi þegar það áttar sig á að afglöp fortíðar réttlæta aldrei afglöp nútíðar, fortíðin knýr menn ekki í núinu að taka ranga ákvörðun sem varðar líf og limi fólks, ekki einu sinni hæstiréttur, eða halda menn að hæstiréttur geti látið fangelsa innanríkisráðherra. Eða Reykjavíkurborg standi fyrir réttarhöldum til að innheimta blóðpeninga frá ríkinu?? Og hvaða ríkisvald myndi ekki greiða slíka blóðpeninga ef það myndi bjarga mannslífum.
Nei, ég held að þræðir hinna fjárhagslegu hagsmuna liggi víða, og það útskýri hina þegjandi sátt um blóðdóm hæstaréttar, og þegar spjótin beinast að ráðherra Sjálfstæðisflokksins, að þá muni Mogginn fella niður þau spjót.
Og ég er ekki að sjá neitt gerast á landsbyggðinni sem heldur umræðunni gangandi, ekki á meðan þetta sleppur til. Það eru bara svo margir í sveitarstjórnum sem ganga með þingmanninn í maganum og þeir fara ekki gegn flokksvaldinu í Reykjavík.
Það er liðin tíð að skörungar ríði um héruð.
En ef umræðan lifir, þá er allavega gott fyrir mig að hafa þessa frásögn í baklandi mínu, þau dæmi sem ég þekki um mínútuspursmál, lentu ekki á hinni meintu framsóknarbraut og "hvað ef" er alltaf hvað ef og léttvægt fundið hjá þeim sem hafa vondan málstað að verja.
Því það er ekki "rétt eða rangt" sem knýr þessa umræðu áfram, heldur byggist ákvörðunartakan á fjárhagslegum forsendum verktaka sem mega ekki sjá auðan blett án þess að vilja byggja á honum, og þegar aur hefur skipt um hendur og hefur áhrif á pólitíska ákvörðunartöku, þá er sú pólitíska ákvörðun varin fram í rauðan dauðann.
Og margir koma að því skítajobbi, meira að segja ríkisfjölmiðill okkar.
Enda er þetta ekki sama liðið og ICEsave þjófarnir?? Allavega er stórt sniðmengi þarna á milli.
En kjarni málsins er samt sá að þegjandi fólk ver aldrei hagsmuni sína.
Þess vegna er svo mikilvægt að einhver tjái sig.
Hafðu enn og aftur mikla þökk fyrir Magnús.
Kveðja að austan, uppí Hérað.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 10:08
"... bið eftir sjúkravél með áhöfn og hjartalækni frá Akureyri. ... Flugið suður tók einn og hálfan tíma þar sem það þurfti að hringsóla yfir Reykjavík...tjáði mér þá skipta mínútur máli...Daginn eftir kom í ljós að ég hafði fengið drep í hjartað þar sem ég komst ekki í réttar hendur í tæka tíð..."
Varð ofuráherslan á að koma sjúklingi til Reykjavíkur til þess að önnur úrræði voru hundsuð sjúklingnum til skaða? Það eru sjúkrahús á landsbyggðinni þó landsbyggðafólk tali eins og aðeins sé eitt sjúkrahús á landinu. Hefðu önnur viðbrögð komið í veg fyrir drep í hjarta? Hvað hefði flugvél staðsett á Egilstöðum sparað mikinn tíma? Er verið að fórna mannslífum með því að vera ekki með sjúkraflugvél eða tvær á öllum flugvöllum og flugvöll í hverjum bæ og þorpi? Er það næsta krafa?
Davíð12 (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 11:09
Hjartaþræðingatæki er ekki nema í Reykjavík.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/29/fleiri_tilfelli_muni_koma_upp/
Nema þú vitir betur en læknirinn á Akureyri.
ls (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 11:12
Ég krefst þess að Davíð12 drulli sér heim við höfum ekki list a því að tala við glymverur her
Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 11:30
Auðvitað væri til bóta að hafa sjúkraflugvélar staðsettar á fleiri stöðum en Akureyri, en þetta er staðan sem okkur er boðið uppá. Enginn, ENGINN læknir sendir sjúkling að þarflausu til Reykjavíkur, en staðreynd málsins er sú að það eru ekki til nauðsynleg tæki á neinu sjúkrahúsi NEMA Landsspítalanum í mörgum tilfellum. Hjartaþræðingar eru ekki framkvæmanlegar nema þar.
Dagný (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 11:57
lll
Takk fyrir innlitið Is.
En Davíð 12., hvað knýr þig áfram skrifum þínum??
"Það eru sjúkrahús á landsbyggðinni þó landsbyggðafólk tali eins og aðeins sé eitt sjúkrahús á landinu. Hefðu önnur viðbrögð komið í veg fyrir drep í hjarta? Hvað hefði flugvél staðsett á Egilstöðum sparað mikinn tíma? Er verið að fórna mannslífum með því að vera ekki með sjúkraflugvél eða tvær á öllum flugvöllum og flugvöll í hverjum bæ og þorpi? Er það næsta krafa? ".
Lestu ekki það sem þú skrifar, af hverju bættirðu ekki við hvort það ætti að vera nauðsynlegur neyðarbúnaður í hverjum bæ, eða jafnvel hverju húsi. Bráðaskurðstofa, myndgreingartæki, búnaður til hjartaþræðingar, 10 sett af sérfræðilæknum og svo framvegis. Svona í ljósi þess að þú ert að leika algjört fífl.
En jafnvel fífl eiga sér takmörk sem þau flest virða, en þér er greinilega ókunnugt um, ella hefðir þú aldrei látið út úr þér fyrra hluta skrifa þinna hér að ofan. Þú ert að gera grín að dauðanum og því fólki sem gerir sitt besta til að bjarga lífi samborgara sinna.
Aðstæður ráða hve langan tíma tekur að koma veiku fólki undir læknishendur. Það eru ekki allir svo lánsamir að búa við hliðina á flugvell, hér fyrir austan þurfa björgunarsveitarmenn með aðstoð vegargerðarinnar oft að brjótast yfir ófæra fjallvegi til að koma sjúklingum á flugvöllinn á Egilstöðum. Stundum líður of langur tími, og það er ekkert við því að gera, það sem var í mannanna valdi var gert. Stundum dugar ekki einu sinni að vera rétt við flugvöll, ekki frekar en það dugar til að eiga heima í Reykjavík.
En stundum bjargar að eiga heima nálægt flugvelli eins og Magnús lýsti hér að ofan, og ég get alveg bætt við að faðir minn fékk 11 viðbótarár vegna þess að aldrei þessu vant þá var flugvöllurinn hér á Norðfirði opinn þegar lífgjöf hans fólst í aðstöðunni og þekkingunni sem er til staðar á Landsspítalanum. Og hann hefði ekki lifað af ferðina ef það hefði ekki verið sendur með sjúkraflugvélinni hjartalæknir. Sem er jú skýring þess að þeir eru sendir með þegar um hjartatilvik er að ræða, en ekki til dæmis bæklunarlæknir. Það var pabba gamla líka til lífs að eiga heima í bæ þar sem er vel búið sjúkrahús með hæfu starfsfólki. Því fyrsta endurlífgunin átti sér stað hérna á spítalanum, og einhverjar voru þær víst á leiðinni suður.
En ekkert af þessu hefði dugað til ef hann hefði ekki komist í tíma á Landsspítalann.
Svo getur fólk eins og þú bullað svona.
Hverjum telur þú þig vera að gera greiða með þessu?? Er það Björt Framtíð, Píratar, VG, eða Samfylkingin. Eða ertu í Gísla arminum í Sjálfstæðisflokknum??
Og heldurðu að þínum mönnum sé gerður einhver greiði með svona lágkúru??
Fyrst þú berð mannsnafn Davíð 12. þá hlýtur þú að vera í mannsmynd.
Og svona gera menn ekki.
Trúðu mér.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 11:59
Davíð 12, það væri smekklegra af þér að koma fram undir nafni. En eins og komið hefur fram þá er hjartaþræðingin einungis í Reykjavík. Eins var það svo fyrir nokkrum árum síðan að fleiri en ein sjúkraflugvél var staðsett á Egilsstöðum, það sama átti við Ísafjörð og Akureyri ef ég man rétt. Það var jú í gegnum pólitík sem tókst að reikna það út í krónum, aurum og hugsanlega nýtingarhlutfalli að nægilegt væri að hafa sjúkraflugvélar staðsettar á Akureyri.
Magnús Sigurðsson, 30.12.2016 kl. 12:02
Það er endalaust hægt að gera kröfur undir því yfirskini að einhverntíman gæti það mögulega bjargað mannslífi. Það verða því ekki marktæk rök fyrir opnun brautarinnar eða fyrir neyðarbúnaði á hverjum bæ, eða jafnvel í hverju húsi. Bráðaskurðstofu, myndgreingartæki, búnaði til hjartaþræðinga, 10 sett af sérfræðilæknum og svo framvegis.
Krafa landsbyggðarinnar um að Reykjavík haldi brautinni opinni er eins fáránleg og ef Reykvíkingar krefðust þess að landsbyggðarmönnum væri bannað að búa fjær en í 10 mínútna akstri frá flugvelli. Mínútur skipta máli og það gæti bjargað fleirum en opnun brautarinnar.
Bullið og vitleysan, heimtufrekjan og afskiptasemin sem vellur úr landsbyggðarfólki þegar rætt er um þessa aukabraut er svo yfirgengileg að það er varla hægt að sitja bara hljóður og brosa.
Davíð12 (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 12:18
Það er munur á því að heimta eitthvað sem kostar helling að gera (eins og flugvél í hvern landshluta) eða vera á móti því að einhvað sé tekið í burtu (eins og þessari flugbraut er lokað), og ekkert komi í staðinn.
Tala nú ekki um þegar mönnum finnst ávinningurinn frekar takmarkaður, í þessu tilviki þegar mönnum sýnist sá helsti að tilteknir kallar í Reykjavík geti grætt meiri pening á að byggja. Það er nóg byggingarland á höfuðborgarsvæðinu og ekkert sem hamlar því að beðið sé með að byggja þarna þar til flugvöllurinn er sannanlega orðinn óþarfur (sem gerist örugglega einhverntímann þó ekki væri nema vegna batnandi tækni). Þar að auki er lítið mál að breyta skipulaginu aðeins til að ekki þurfi að leggja þessa braut af.
Verst er þó þegar beitt er ósannindum til að láta líta út eins og þessi lokun skipti engu máli og hafi engin áhrif. Betra væri að menn viðurkenndu áhrifin og færðu þá rök fyrir því að ávinningurinn sé meiri.
ls (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 13:37
Takk Magnús og Is.
Eiginlega held ég Is að innslag þitt hér að ofan botni þessa umræðu. Og það er því miður sorgleg staðreynd að stuðningsmenn þess ógæfufólks sem beitti sér fyrir lokun neyðarbrautarinnar, að þeir treysta sér ekki í rökræna umræðu.
Því þrátt fyrir allt er firringin í samfélaginu ekki búin að ná því stigi að reynt sé að réttlæta viljandi tilraunir til manndráps.
Þess vegna er kallað á skítadreifarana og þeir lánir um að matreiða ósannindi og rangfærslur ofaní flokkshestana.
Það er sorglegt en þetta er fólkið sem stjórnar höfuðborginni okkar.
En það afsakar ekki hina áberandi þögn þingmanna okkar, það eru svona mál sem sýna úr hverju menn eru gerðir, og hverjum þeim þjóna.
Einfalt próf.
Og allir með falleinkunn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 14:04
Blessaður Davíð 12.
Ég sé að þú hefur litið í segil og séð einhverja mannsmynd.
Þú heldur þig núna við bullið, en bakkar með skítinn sem ekki var hægt að verja.
Framför.
Trúðu mér.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 14:06
Og takk fyrir innlit ykkar Dagný og Helgi.
Það er alltaf gott að nettröllin sjái að þau eru ekki ein í umræðunni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 14:08
Takk Ómar Geirsson. Sem fyrr, verður engu tauti komið við þá sem sjá sóma sinn stærstan í þvælu og rangfærslum og viðbrögð flestra eru "Don´t feed the Trolls" = að sitja hjá svo þeir næri ekki net-tröllin. Það er þakkarvert þegar svona skeleggir menn nenna að kafreka þvæluna ofan í slík tröll og glefsitíkur.
Þorkell Guðnason, 30.12.2016 kl. 15:54
Takk fyrir þetta Þorkell.
Og ég skal játa að það kom mér þægilega á ávart hvað margir komu hér inn og héldu uppi málefnalegum vörnum fyrir mennskuna.
Ekki það að ég sé ekki fullfæri að snúa niður nettröll, en vigtin er svo miklu meiri þegar maður fær svona gott fólk í heimsókn, sem talar út frá sannfæringu hjartans.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 16:29
Takk fyrir góð skrif Ómar Geirsson.
Því miður hefur meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur hunsað allar faglegar ráðleggingar vegna neyðarbrautarinnar svokölluðu og fengu meðbyr Isavia þegar áhættumatsnefndinni var slúttað þar sem fagaðilarnir stóðu á sínu en það hugnaðist Isavia illa og er þá spurning fyrir hvern Isavia var að vinna enda var þeim aðila er stýrði þessari nefnd verðlaunað með góðri stöðu þegar upp var staðið.
Valur Stefansson (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 18:59
Takk Valur fyrir innlitið.
Ekki skal ég fullyrða um hvað Isavia gekk til.
En í útlöndum myndi ekki nokkur maður veljast í vafa um frjálshyggjuvædda starfsemi, og aurinn sem knýr allt ferlið áfram.
Persónulega held ég að Valsmenn gætu útskýrt margt af því sem gerst hefur síðustu ár varðandi Reykjavíkurflugvöll.
Enda benti ég á að hugsanleg skýring hinnar miklu þagnar þingmanna landsbyggðarinnar gæti verið sú að þeir vildu yfirtaka sess Valsmanna í komandi orðabók íslenskrar tungu þar sem í fyrsta sinn í íslensku máli fengi siðblind græðgi eitt orð sem táknaði hana.
En í dag eru Valsmenn sterkir kandídatar um þann sess.
En láttu þér ekki detta í eina einustu mínútu Valur að eitthvað eðlilegt búi að baki.
Þannig ganga kaupin á eyrinni ekki fyrir sig.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 19:20
Sæll Ómar.
Nei það er alveg klárt að það býr ekkert eðlilegt að baki þessum gjörningum. Þetta er mjög einfalt "money talks", það eru peningar í spilinu og þeir knýja þetta áfram = græðgi.
Bestu kveðjur austur frá Selfossi.
VS
Valur Stefansson (IP-tala skráð) 30.12.2016 kl. 19:37
Sæll Ómar síðustjóri. Ef einhver tjaldar í Heiðmörk, eftir ólöglegt banka/lífeyrissóða-rán, þá finnast engar björgunarsveitir?
Banka/kauphallarstýrðir, siðferðis/ó-lög-réttarfars sjálfsverjandi, og helsjúkir/helherteknir ómeðvitaðir sjúkir Háskólaspítalans sprautukúganastjórar, bjarga ekki húsnæðis og matarlausum Heiðmerkurinnar hellis/tjaldbúum heimsins.
Tvöfalt siðferði embættis-stjórnsýslu spillingarinnar virkar varla nokkurn staðar á jörðinni betur í raun, heldur en á löglausa og réttafars-spillta Íslandi.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.12.2016 kl. 22:05
Blessuð Anna mín.
Því miður er þetta sorglega rétt hjá þér.
Mig minnir að á sínum tíma fyrir kosningarnr 2013, hafi ég orðað það þannig að fólk gæti þekkt alvöru andófsflokk á því að hann boðaði réttlæti, rétttlæti fyrir alla þá sem höfðu beðið skaða af völdum bankaræningjanna kennda við útrás og frjálshyggju.
Enginn slíkur flokkur bauð fram.
Þá, og ekki núna heldur.
Og því miður þá er ekki bara við yfirstétt okkar að sakast.
Grunnvandinn er sá að fólk vill réttlæti handa sér og sínum, en er gott sama um réttlæti náungans. Þess vegna er endalaust hægt að etja fólki saman.
Sami kuldin og skeytingarleysið skýrir því miður að ógæfufólk skuli komast upp með að loka neyðarbraut án þess að annar möguleiki sé í boði.
Eins og mannslíf skipti engu máli lengur, bara ef það uppfyllir það skilyrði að vera líf einshverrra annarra. Einhverra í Fjarskaistan eins og langt langt út á landi.
Og því miður nær þessi kuldi til landsbyggðarinnar líka, annars kæmust þingmenn okkar ekki upp með þögn sína.
En hins vegar Anna er nóg til af góðu og heiðarlegu fólki, og einn daginn, einn daginn mun birta til.
Það er mín trú, og það er mín vissa.
Takk fyrir árið sem er að líða Anna, og gleðilegt nýtt ár.
Kveðja,
Ómar.
Ómar Geirsson, 30.12.2016 kl. 22:32
Takk fyrir Ómar. Það birtir alltaf upp eftir öll él í öllum æðrulausum, lítillátum og heiðarlegum hjörtum.
Það dimmir alltaf meir og meir í siðblindusjúkum og villuráfani óheiðarlegum hjörtum, sem telja sig vera að gera rétt með því að láta borga sér fyrir að hóta varnarlausum samfélagseinstaklingum með valdmisbeittu lögmanna/dómsstóla-ofbeldi.
Þannig hefur lífið á jörðinni verið í miljónir ára, og heilaþvotta-tamið mannlegt eðli er í grunninn alveg óbreytt eftir öll miljón árin.
Raunverulega verðmæta valdið og viskan er utan jarðvíddarinnar.
Enginn mannlegur máttur getur neitt án utanjarðarvíddar-hjálpar. Spurning hvort fólk vill þiggja hjálp púkanna eða englanna þarna að utan.
Ef fólk biður ekki andana miklu og góðu um leiðbeiningar og vernd af heiðarleika og til góðs, þá troða illu púkarnir sér alls staðar að villuráfandi mannsálunum á jörðinni.
Heiðarleg hreinskilni og gagnrýni byggir fólk og samfélög upp, á meðan bakferli, hræsni og óheiðarleiki brýtur fólk og samfélög niður.
Allir hafa sálarfrelsis val til að vera tryggir sinni eigin sál og sannfæringu, hér á jörðinni. Ekkert réttæti fæst án stórra eiginhagmuna-veraldar fórna, og ekkert er ókeypis í lífreynslu-grunnskólanum JÖRÐINNI.
Nelson Mandela sagðist vera jafn ófrjáls utan fangelsismúranna sem innan, meðan réttindi blökkumanna væru enn skert utan fangelsismúranna.
Ég er sammála Nelson Mandela heitnum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.12.2016 kl. 23:29
Fyrir kosninguna, sagði borgarstjórn:
að þær yrðu ekki bindandi nema,
að þrír fjórðu (75%) á kjörskrá í Reykjavík
greiddu atkvæði.
Eftir þessi skilaboð frá Borgarstjórn, var sagt að þessi kjörsókn næðist aldrei,
svo að það þyrfti ekki að mæta á kjörstað, þetta væri fyrir fram fallið.
Það mættu aðeins 18,35 %, það er 14.913 kjósendur,
af 81.258 kjósendum., á kjörskrá.
sem vildu flugvöllinn burt,
og
17,88 %, eða 14.529 kjósendur,
af af 81.258 kjósendum, á kjörskrá.
sem vildu flugvöllinn áfram.
MISMUNUR 384 kjósendur.
Eftir kosninguna sagði Borgarstjórn,
að kosningin skildi gilda.
slóð
Hvaða vald er það, sem hamast við að ná Flugvellinum af borgarbúum og landsmönnum öllum. Stjórnsýslan, það er Borgarstjórn og Alþingi og embættismenn, virðist ekki hafa bolmagn til að stöðva þessa valdbeitingu.
Egilsstaðir, 04.01.2017 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 4.1.2017 kl. 12:39
Blessaður Jónas.
Þetta vald er Vald peningann, og það er núna rétt í þessu að mynda nýja ríkisstjórn.
Og kosningaúrslitin voru ekki fölsuð.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.1.2017 kl. 16:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.