7.5.2016 | 11:51
Uppreisn gegn kerfinu.
Getur fundið sér marga farvegi, misárangursríka og mistrúverðuga.
Og það þarf ekki alltaf að fara vel saman.
Helgi Hóseasson var ætíð trú sjálfum sér þegar hann stóð með skilti sitt við Langholtsveginn, en um árangurinn má deila. Hann skapaði þó umræðu sem er til alls fyrst.
Barátta Mývetninga fyrir verndun Laxár var mjög árangursrík þegar þeir sprengdu upp stífluna í Laxá.
En þegar um stóru baráttuna er að ræða, að breyta sjálfu kerfinu, að þá getur aðeins einbeittur vilji sem er trúr sjálfum sér, haft erindi sem erfiði.
Má þar nefna kvennabaráttuna sem hefur tekið áratugi, en skilað alveg ótrúlega miklu, sé miðað við samfélagið sem var þegar konur tóku sér frí á kvennafrídaginn 24. okt 1975. Eldmóður frumkvöðlanna, elja kvennanna í Kvennaframboðunum og síðan baráttan á vettvangi, inná heimilunum, úti í atvinnulífinu, innan stjórnkerfisins, allt myndaði þetta eina heild samfelldrar baráttu þar alltaf var reynt að takast á við aðstæður hvers tíma, og þoka fram breytingum, jafnt í viðhorfum fólks sem og í laga og regluumhverfinu.
Baráttan við auðkerfið sem féll haustið 2008 er hins vegar dæmi þar sem ekkert hefur áunnist.
Auðmennirnir eru komnir til baka, andlitslausir í skjóli aflandsfélaga, en stjórna algjörlega stjórnkerfinu og Alþingi. Annað getur ekki skýrt bæði Gjöfina einu, sem og hið algjörlega andstöðuleysi gagnvart þeirri gjörð.
Og þeir eru í nánu sambandi við seðlabankann um peningaþvætti árþúsundsins sem gárungi í þeirra röðum ákvað að skýra Afnám gjaldeyrishafta. Og allir þegja, nema nokkrir borgarlegir íhaldsmenn, sem ofbíður spillingin, en brauð og leikar auðmannanna, tuð og röfl, tryggir að Andófið er gjammandi útí móum, engum til gagns nema þá hugsanlega mófuglum því hávaðinn fælir varginn frá.
Ég ætla ekki að rekja í þessum pistli hvað fór úrskeiðis, vil aðeins minna á einn gagnlausasta farveginn, þann að starfa með og styðja fólkið sem maður þykist vera að berjast gegn.
Auðklíkan ákvað að fella Bessastaði, síðustu hindrunina á algjörum yfirráðum hennar yfir samfélaginu. Annars vegar var mögnuð upp rógsherferð á hendur maka sitjandi forseta og hins vegar var fundinn sætur strákur, sem átti með kynþokka sínum að tryggja sér kosningu á Bessastaði. Drengurinn er sóttur í eigin raðir, einn af landráðagenginu sem barðist með bretum í ICEsave stríðunum.
Sumir gætu sagt að slíkt væri algjört fáráð, en markaðsfræðingar aflandsfélaganna unnu sína heimavinnu. Eftir hið harðvítuga borgarastríð í El Salvador sem kostaði tugi þúsunda lífið, var samið um frið og boðað til fyrstu lýðræðislegu kosninga þar sem allar stríðandi fylkingar tóku þátt í. Auðklíkan þar í landi bauð fram yfirmann dauðasveita hersins í forsetaembættið, margfaldan morðingja sem bar ábyrgð á drápum og pyntingum á þúsundum samlanda sinna, öll fórnarlömbin úr röðum fátækrar alþýðu sem var meirihluti kjósenda. Við fyrstu sýn alveg glatað en dauðamaðurinn vann kosningarnar með þó nokkuð yfirburðum, hann fékk sem sagt atkvæði fyrrum fórnarlamba sinna. Máttur auglýsinga og lýðskrums sögðu pólitískir stjórnmálaskýrendur, en markaðsfræðingar CIA vissu betur. Konur kusu með öðrum líkamshluta en höfðinu, dauðamaðurinn var nefnilega þrælmyndarlegur. Með kynþokka.
Og þetta þrælvirkar, fyrrum baráttufólk gegn auðræðinu, keppist við að lýsa yfir stuðningi sínum við þann sæta, og með þeim rökum að það sé að berjast gegn kerfinu.
Það fyndnasta sem ég las í gær, las ég hjá góðri baráttukonu sem réttlæti stuðning sinn við frambjóðanda auðklíkunnar með rökum að það þyrfti að hreina út það gamla, og sá sæti væri nýtt blóð.
Svo er fólk hissa á að ekkert breytist, það sem er svo einart í andstöðu sinni og harðduglegt í baráttunni. Skilur svo ekkert í að trúverðugleiki þess mælist ekki. Að það skuli ekki fá atkvæðavægi til breytinga.
Ég heyrði einu sinni sögu um af hverju ekkert breyttist í Harlem. Það var verið að mótmæla fyrir utan félagsmiðstöð aðgerðaleysi lögreglunnar gagnvart dópsölum. Fréttamaður tók einn mótmælanda tali sem lýsti alvöruþrunginni röddu þeim skaðlegu áhrifum sem dópið hafði á hið svarta samfélag. Og við hvað starfar þú spurði svo fréttamaðurinn? "Ha ég, ég er díler".
Spurningin er síðan sú, voru mótmælin shov, eða voru þau yfirtekin af þeim sem höfðu hagsmuni að gæta við að viðhalda óbreyttu ástandi??
Alalvega breytist ekkert með svona vinnubrögðum.
Þú fellir ekki óvininn ef þú lætur óvininn stjórna baráttu þinni.
Sama hvað sjálfsblekkingin reynir að telja fólki trú um annað, þá er það bara þannig.
Og hávaði og læti út í móum breytir engu þar um.
Hvert framhaldið verður, hvort vitleysan haldi áfram að toppa sjálfa sig, eða hvort hópur fólks með sterka sýn á réttlátt samfélag, nái að koma sér saman um trúverðugan valkost fyrir þann stóra hóp þjóðarinnar sem virkilega vill lýðræði en ekki auðræði, veit ég ekki.
Það vill oft eitthvað gerast í aðdraganda kosninga.
Og þó fólk sé brennt eftir fyrri tilraunir, þá er það þannig með eldinn, að hann brennur aðeins þegar hendi er stungið í hann.
Og ef ekkert er reynt, þá breytist ekkert.
Gjöfin eina er að baki, en peningaþvættið er eftir.
Þeir sem berjast gegn þeirri gjörspillingu, krefjast glæparannsóknar eins og Ragnar Önundarson benti á að þyrfti að eiga sér stað, krefjast afhjúpunar á andlitunum að baki aflandseigandafélagsins, og krefjast að menn sæti ábyrgð á misgjörðum sínum, þeir munu erfa landið.
Það er ekkert flóknara en það.
Hvort það verði, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.
Og ekki á ég kristalkúlu.
En maður veit aldrei.
Maður veit aldrei.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:56 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 434
- Sl. sólarhring: 714
- Sl. viku: 6018
- Frá upphafi: 1399957
Annað
- Innlit í dag: 391
- Innlit sl. viku: 5155
- Gestir í dag: 379
- IP-tölur í dag: 376
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar Geirsson,
það að Bjarni Benediktsson sé skattamála- og fjármálaráðherra ríkisins er vitaskuld bilun, stjórnkerfisleg bilun
og það að Seðlabankinn stundi peningaþvætti er vitaskuld stjórnkerfisleg geðveiki. Hvers og hverjum á þjóðin að gjalda?
Og hvað á þjóðin að gera, ýta Bjarna og Má vinsamlegast út með höndunum? Nei, þá kemur löggan og handtekur þjóðina.
Er þá þjóðin bófinn, að mati löggunnar? Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða? Hvernig?
Virðingarfyllst
Dr. Símon Jónsson
Dr. Símon Jónsson (IP-tala skráð) 7.5.2016 kl. 13:03
Blessaður dr. Símon.
Ef nóg er þrýst á réttarkerfið, þá virkar það.
Ef fólk gerir sér grein fyrir því að stjórnmálabarátta á Ögurstundum er ekki skátastarf eða saumklúbbur, þá kemur það sér saman um ákveðin grundvallarmál sem það getur sameinast um, en lætur það sem skilur á milli liggja á milli hluta.
Þannig var það til dæmis með Samstöðu, það er hina Pólsku. Þar stóðu menn saman á meðan þeir losuðu sig við rússneska hernámið, og síðan héldu menn í ýmsar áttir eftir því sem stjórnmálaviðhorf buðu.
Og rifust þá eins og hundar og kettir. Ekki á meðan grundvallarbaráttan stóð yfir.
Þetta er ekki svo flókið og snýst ekki um einhverja fjöldahreyfingu, heldur einbeittan hóp manna sem veit hvað hann er að gera.
Og alveg eins og ég sagði fyrir síðustu kosningar, að sá sem hefur kjark til að setja það á oddinn, að allir væru jafnir fyrir lögum, og lög giltu um alla, og þar með tilkynnt að allt samstarfsfólk breta ætti að draga fyrir dóm eftir landslögum, að hann fengi athyglina, og í framhaldi fylgið.
Að þá segi ég núna að alvöru andstaðan þekkist á því að "krefjast glæparannsóknar eins og Ragnar Önundarson benti á að þyrfti að eiga sér stað, krefjast afhjúpunar á andlitunum að baki aflandseigandafélagsins, og krefjast að menn sæti ábyrgð á misgjörðum sínum".
Þetta er ekki flókið. Það gilda lög í landinu, og alveg eins og samvinna og samstarf með erlendum fjárkúgurum varðar við landráðakafla hegningarlaganna, að þá varðar gjaldeyrisútboð Seðlabankans við lög um peningaþvætti. Það er að segja þar sem um innlent aflandfé er að ræða.
Verðlaus froða breytt í beinharðan gjaldeyri, jafnvel rússneska mafían var ekki svona hugmyndarík á dögum Jeltsíns.
Á gjörðunum skulið þið þekkja þá, var sagt einu sinni.
Og það gildir ennþá.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.5.2016 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.