4.5.2016 | 09:12
Teboðshreyfingin tapar.
Sem er athyglisvert því þetta átti að vera hennar kosningar.
Og í kjölfarið átti fyrsti Púrítaninn að verma forsetastól Bandaríkjanna.
Spurning hvort maður sakni hennar miðað við það sem maður fær í staðinn.
En enginn sá fyrir hina óvæntu innkomu auðkýfingsins sem ákvað að endurgera söguna með svona dramatískum hætti.
Því Donald Trump er ekki fyrsti auðkýfingurinn, sem nýtir sér veikleika mannsins til að hlusta á bull, vitleysu og lýðskrum, og kaupir sér embætti í lýðræðislegum kosningum. Þetta hefur gerst í Thailandi og víðar, og til dæmis á Filippseyjum er ennþá ljótara afskræmi af Trump að komast til valda með stuðningi auðsins.
En söguleg skírskotun mín á sér eldri rætur, til vöggu vestrænnar menningu, hins grísk rómverska heims.
Það má segja að Bandaríkin séu fyrsta nútíma vestræna lýðræðisríkið og því táknrænt að það skuli fyrst falla fyrir algjöru lýðskrumi auðsins.
Með þekktu ferli frá því í Róm í gamla daga, og með smáfráviki frá endalokum beins lýðræðis í Aþenu, þar var lýðskrumarinn aðeins mælskur, og höfðaði til græðgi og heimsku kjóenda, en studdist þannig séð ekki við auð við það verk. Enda þurfti hann ekki að glíma við annað en múg manna á opnu torgi, en ekki að fífla heila þjóð í víðlendu ríki.
Sagan kennir að lýðræðið falli fyrir auðnum í vanheilögu bandalagi við forheimskuna og lýðskrumið. En hún hafði ekki mörg dæmi, lýðræðið er aðeins leiftur í sögu mannsandans.
En það er búið að vera nokkuð ljóst í töluverðan tíma að það stefndi í þetta í Bandaríkjunum, og þá er ég ekki að vísa í áhrif fjármagns á kosningaúrslit, heldur að vísa í þróun umræðuhefðarinnar í kringum stjórnmál og kosningabaráttu. Frá því að vera eitthvað sem má kalla vitræn umræða um stefnur og markmið, yfir í hina neikvæðu þar sem aðaláherslurnar snérust um að ná höggi á andstæðinginn með persónulegum rógi og skítkasti. Eitthvað sem repúblikanar sérhæfðu sig í og demókratar voru alls ekki saklausir af.
Núna þegar þetta virðist ætla að verða morgunljóst, þá hefur sagan endurtekið lærdóm sinn, og sett hann uppí jöfnuna, 2+2.
Í Evrópu eru þetta svo sem ekki miklar fréttir.
Hún hefur í töluverðan tíma búið við auðræði, eða alræði stórfyrirtækja, þar sem ekki skiptir máli hvort vinstri eða hægri flokkar eru kosnir, frjálshyggjan sem er innvinkluð í alla reglugerðir ESB um hinn innri markað, ræður öllu.
Kosningarnar hafa í raun snúist um hver á að sitja við háborðið, hver fær að halda skálræðuna í kokteilboðum, og hver má núna svíkja loforðin sem voru lofuð uppí ermina á sér.
En reglugerðin stjórnar.
Munurinn er kannski sá að Evrópa þurfti ekki að upplifa endalokin í gegnum lýðsskrumsferli auðsins eins og Bandaríkjamenn.
Og Evrópa var ekki vagga lýðræðisins, lýðræðisumbæturnar voru eftirgjöf aðals og yfirstéttar til borgarastéttarinnar, en ekki var eiginlega ætlast til að almenningur skipti sér mikið að málum.
Og um leið og ógnin af kommúnismanum hvarf, þá hvarf lýðræðið líka eins og döggin þegar sólin sækir á.
Við sjáum þetta líka á Íslandi.
Auðmenn keyptu upp stjórnmálaflokka um og uppúr aldamótunum, og það var ljóst eftir Hrun, að eignarhald þeirra er óskert.
Aðeins Bessastaðir voru ekki í þeirra hendi, en það má lengi læra af Trump, og Bessastaðir munu falla, líklegast í hendur á manni sem tók beinan þátt í ICEsave fjárkúgun breta.
Fyndnara getur það ekki orðið.
Teboðshreyfingin tapar voru upphafsorð þessa pistils.
Þeir sem þekkja til stjórnmálaskoðana minna vita að ég er lítt hrifinn af þeim boðskap sem hún stendur fyrir. Og algjöra skömm hef ég haft á vinnubrögðum hennar.
En hún hafði þó hugsjónir, og studdist við ákveðna hugmyndafræði.
Sigurvegari lýðskrumsins hefur enga hugmyndafræði, aðra en þá að tryggja sér völd.
Auðræðið sem stjórnar Íslandi hefur enga hugmyndfræði aðra en þá en að auka við auð sinn á kostnað þjóðar sinnar.
Og í Evrópu er engin önnur hugmyndafræði en sú að efla stórfyrirtækin í einhverju ímynduðu alheimsstríði við stórfyrirtæki Asíu og Norður Ameríku.
Hvort er betra, hvort er verra?
Teboðshreyfingin innspíraði fólk, fyllti það eldmóði, fékk það til að trúa að það hefði áhrif með samheldni sinni. Ekki svo ólíkt kommunum í gamla daga.
Eiginlega eina hugmyndafræðin sem eftir er lifandi í vestrænum stjórnmálum.
Það er ekki hugmyndafræði að berjast fyrir hagsmunum stórfyrirtækja og það er ekki hugmyndafræði að skunda á Þingvöll og afhenda auðmönnum öll völd.
Og það er engin hugmyndafræði að baki lýðskrumi.
Teboðshreyfingin tapaði.
Það eru alvarlegar fréttir.
Því þegar eitthvað er verra en amma andskotans, þá er það vont.
Virkilega vont.
Lýðræðið beið ósigur í dag.
Og gengur á vit feðra sinna daginn sem Trump verður kosinn forseti.
Já, ég held ég sakni Teboðshreyfingarinnar.
Kveðja að austan.
Cruz heltist úr lestinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 16
- Sl. sólarhring: 26
- Sl. viku: 2035
- Frá upphafi: 1412734
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 1788
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.