Glæpur var framinn.

 

Í Reykjavík, í fyrradag.

Aldraður maður ákvað að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn og bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.

 

Og það varð bara allt stjörnuvitlaust.

Hamfarirnar í fjölmiðlum landsins minntu einna helst á flóðbylgjuna miklu sem eyddi byggðum við Indlandsstrendur.

Allskonar sótaraftar voru á flot dregnir, ég hélt til dæmis að Þorsteinn Pálsson væri kominn á elliheimili, til að rægja niður hinn aldraða mann, ákvörðun hans, persónu hans, feril, jafnvel hvort það hafi ekki verið minnst á atvik í sandkassa fyrir vestan forðum dag.

Álagið á Gúgla frænda var þvílíkt að hann brann næstum yfir, í fljótheitum voru ljótustu myndir af ljótustu einræðisherrum nútímans (sýnir flumbruganginn, nærtækara hefði verið að finna myndir af Stalín, Maó og Ivani grimma) og hinn aldraði spyrtur við þá kumpána, svo skítur þeirra yrði skítur hans.

Nærtækara hefði náttúrulega verið, fyrst á annað borð var búið að ná í skítadreifarana, að birta myndir af fína félagsskap Ólafs á útrásartímanum, sjúgandi kók í nös og beintengja við sukklíferni , en líklegast ekki praktískt fyrir fjölmiðlafólk að gera skuggastjórnendum sínum slíkan grikk.  Ólíklegra að þeir Mugabe og Lukachenko kippi í spottana.

 

Á netinu hófst undirskriftarsöfnun um að skora á Ólaf að endurskoða ákvörðun sína.  Líkt og fólk fatti ekki að það er engin skylda að kjósa hann.

Á netinu hófst rógsherferð, níðstangir reistar, frambjóðandann átti að fella áður en til kosninga kæmi.

Og fyrir einhverja skrýtna tilviljun er þetta sami hópurinn og ætlaði að selja þjóð sína í skuldaþrældóm svo hætt væri að segja upp sjálfstæði hennar í hendurnar á Brussel mafíunni.  Auk nokkurra sjálfstæðismanna sem geta ekki gleymt.

 

Og maður spyr sig, hver er glæpurinn??

Hvað gerði Ólafur Ragnar eiginlega sem framkallaði þessi harkalegu viðbrögð??

Óttast menn að nú neiti eldra fólk að víkja af vinnumarkaði við einhverja tilbúna dagsetningu Exel hagkerfisins?

Eða er eitthvað í bígerð?, stendur til dæmis til að koma landinu bakdyramegin í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili??  Breyta stjórnarskránni með handafli forræðishyggjunnar??

Eitthvað er það, annars færu menn ekki svona af límingunni.

 

Hans tími er liðinn er sagt.

Og það má rétt vera.

 

En það er aðeins ein leið til að komast að því.

Og sú leið heitir framboð, og síðan úrskurður kjósenda.

 

Kallast kosningar.

Kallast lýðræði.

 

Sem greinilega mörgum hugnast ekki.

Kveðja að austan.


mbl.is Fjölbreyttur ferill forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hressilega orðuð grein hjá þér, félagi, einu sinni enn, og fullkomin ástæða til að tugta þá til þessa níðhögga, sem nú hafa komið fram úr skúmaskotum sínum, tapsárir vegna Icesave-kosninganna o.fl.

En í raun er þó ekki rétt að tala um forsetann sem "aldraðan mann". Fólk lifir nú mun lengur en áður, síður slitið af erfiði og erfiðum aðstæðum, og Ólafur Ragnar stundar hollar göngur daglega, hvernig sem viðrar, sumar og vetur, og var í fínu formi í Bessastaðastofu sl. mánudag. smile

Ef hann ætti að ná sama aldri í sínu háa embætti og hinn vinsæli og trausti kanzlari Vestur-Þýzkalands, Konrad Adenauer (f. 5. jan. 1876, d. 19. apríl 1967), sem fyrst kosinn kanzlari 15. marz 1951 hálfáttræður, og þjónaði því til 16. október 1963, þá hátt í 88 ára gamall), þá þyrfti Ólafur Ragnar (73 ára í vor) að bjóða sig fram ekki aðeins einu sinni í viðbót, heldur FJÓRUM sinnum! Menn ættu því að láta af þessari uppgerðar-paník vegna aldurs Ólafs Ragnars.

Adenauer var engin skrautfígúra í sínu háa embætti, það var (og er) miklu fremur forseti þess lands; kanzlarinn er sjálfur forsætisráðherrann sem mest hvílir þar á í ábyrgðar- og skylduverkum.

En svo sannarlega er atgervismunur á mönnum í stjórnmálum, eins og dæmi Adenauers og Ólafs Ragnars Grímssonar sanna bæði, hvort um sig. Ólafur Ragnar gnæfir hér yfir alla aðra frambjóðendur að getu og reynslu, menntun og langreyndum hyggindum í starfi, fyrir utan að hann nýtur nú trausts rúmlega 60% landsmanna þrátt fyrir alla hina valkostina sem mönnum er frjálst að hafa í huga.

Jón Valur Jensson, 20.4.2016 kl. 13:46

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón Valur.

Takk fyrir athugasemdina og þann fróðleik sem þar er að finna.

Það er rétt að Ólafur er ekki aldraður, ekki frekar en að glæpur hafi verið framinn með framboði hans.

En byrjun pistilsins er stílbragð, byggt út frá þeirri umræðu og vandlætingu sem á þjóðinni hefur dunið, satíra sem síðan leiðir að erindi pistilsins.

Sem er náttúrlega að benda á hverjir að baki standa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.4.2016 kl. 14:34

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Einmitt, já, gott hjá þér. smile

Jón Valur Jensson, 20.4.2016 kl. 15:00

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Ég held að Þorsteinn Siglaugsson hafi einmitt bent á valdatíma Kekkonen Finnlandsforseta, sem var bæði langur og farsæll, án þess að nokkur hafi böggað hann með aldur.  Þegar ég las pistil hans, þá var mér einmitt hugsað til Adenauers.

En við megum heldur ekki gleyma brjóstvörn vestræns lýðræðis á síðustu öld, Winston Churchil.

Líkami hans var kannski gamall, en þróttur hans á við tvítugan afreksmann í tugþraut.

Aldur er afstæður.

En lýðræðið ræður.

Það ákvað að Ólafur yrði forseti, óháð aldri, og óháð fyrri störfum.

Og það mun ákveða hver verður næsti forseti.

Það skilja allir nema þeir sem vanir eru að ráða öllu í bakherbergjum valdsins.

Sem Ólafur var kannski hluti af, en ákvað á Ögurstundu þjóðarinnar að segja; "Nei, takk".

"Þjóðin ræður".

Ég held að það eitt skýri heift dagsins í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.4.2016 kl. 15:52

5 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Frábær pistill hjá þér.

Hreinn Sigurðsson, 21.4.2016 kl. 00:21

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Hreinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.4.2016 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 47
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 2066
  • Frá upphafi: 1412765

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 1819
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband