2.2.2016 | 08:50
Klárinn leitar þangað sem hann er sárkvaldastur.
Engin önnur orð er hægt að nota yfir þann stóra hóp eldri borgara sem ennþá lýsir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn.
Grein Kára Stefánssonar segir á mannamáli allt sem segja þarf um þann orðavaðal lyga og blekkinga sem fjármálaráðherra og fjárlaganefnd ástundar gagnvart þjóð sinni.
Dæmi um muninn á því sem þessi ríkisstjórn segir og gerir þegar kemur að heilbrigðismálum má sækja í gerð fjárlaga fyrir 2016. Undir lokin var tekist á um það hvort það ætti að veita því fé til Landspítalans að það væri hægt að reka hann á svipaðan máta og 2015, ekki bæta hann heldur halda í horfinu. Það var tekist á um það hvort það ætti að reka hann í þeim lamasessi sem hann var búinn að vera í um hríð eða láta honum hnigna enn meira.
Í raun er rifist um hvort haldi eigi lífi í horriminni eða slá hana endanlega af.
Það var mat þeirra sem stjórna sjúkrahúsinu að það þyrfti 2,5 milljarða króna í viðbót til þess að ná því markmiði. Þegar málið kom á borð fjármálaráðherra féllst hann ekki á að bæta við meira en helmingi af upphæðinni. Því var auðvitað haldið fram að það væru ekki til peningur fyrir meiru.
Og niðurstaðan að láta hana verða sjálfdauða, og það kallað stóraukin framlög spítalans.
Þessi sami fjármálaráðherra hefur síðan blekkt Alþingi til að veita þrotabúum gömlu bankanna undanþágu frá gjaldeyrishöftum með frumvarpi sínu um stöðugleikaskatt. Án þess að nokkurn tímann stæði til að innheimta þann skatt.
Eftirgjöfin til kröfuhafana nemur 500-600 milljörðum þegar allt er grandskoðað, og ávinningur fjármálaveldis Engeyjarættarinnar er hærri en sú upphæð stjórnmáladeild þeirra í fjármálaráðuneytinu sveik Landsspítalann um.
Að ekki sé minnst á aðra vini og vildarvini flokksins.
Samt mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 25% fylgi, að uppstöðu frá eldri borgurum sem þurfa mest á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.
Að kjósa fólk sem er vont við náungann, en er ekki vont við þig, ber ekki vott um gott siðferði. Kallast að láta stjórnast af eiginhagsmunum, og jafnvel græðgi. En virðist vera manninum eðlislægt, annars hefði frjálshyggjan ekki náð öllum völdum í hinum vestræna heimi.
En að kjósa fólk sem er vont við þig sjálft, það er fáheyrt. Kommúnistar fölsuðu alltaf niðurstöður kosninga fyrirfram, það hvarflaði aldrei að þeim að það fyndist einhvern nógu vitlaus til að kjósa þá, fyrir utan hina fámennu elítu sem naut arðsins af striti fjöldans.
Það voru hestar sem leituðu þangað sem þeir voru kvaldastir, ekki fólk.
Ekki fólk með sjálfstæðan vilja.
Slík fjarstæða þekktist hvergi á byggðu bóli.
Ekki þá, ekki áður, en er beisk staðreynd barna okkar á Íslandi á því herrans ári 2016.
Þjóðin er rænd og rupluð.
Vaxtaokrið kreistir hverja umframkrónu úr hagkerfinu þannig að stór hluti þjóðarinnar kemur aldrei til með að eignast í raun fátt annað en fötin utan á sér. Með öðrum orðum, þjóðin er aftur að verða þjóð öreiga eins og var um og uppúr aldamótunum 1900.
Misskipting eigna og tekna er á því stigi að stórir þjóðfélagshópar líða efnislegan og félagslegan skort. Samt hefur þjóðin aldrei verið ríkari, aldrei aflað meira. Aldrei ráðið yfir meiri þekkingu eða tækni.
Og innviðir hennar hafa hlotið hlutskipti sultarfanga útrýmingarbúðanna, að fá ekki nægjanlegt fjármagn til að reka sig, til að halda í horfinu, til að endurnýja sig.
Og nægilega margir veita vinnumönnum ruplarana stuðning svo þeir hrökklast ekki frá völdum.
Fremstir í flokki eru hinir sárkvöldu eldri borgarar, sem kjósa minninguna um það sem var, en ekki hinn bitra raunveruleik sem er.
Það er sorglegt að óhæfufólk komist upp með verk sín með beinum stuðningi hluta þjóðarinnar.
Að það þurfi ekki að nota byssur og skriðdreka við rán sitt og rupl. Að eyða því velmegunarsamfélagi sem gegnar kynslóðir strituðu við að byggja upp á síðustu öld.
En það er líka birta og von á meðan til eru menn eins og Kári Stefánsson sem þora að andæfa, þora að svara orðavaðli síblekkjandi stjórnmálamanna fullum hálsi.
Vonandi mun Kári sjá samhengi á milli fjárskortsins og ruplsins.
Þó stjórnmáladeild fjármálveldis Engeyjarættarinnar hafi komist upp með Gjöf sína, lögin fyrir ruplinu eru þegar samþykkt, þá á hún ekki að sleppa án ábyrgðar.
Það þarf einhver að rjúfa þögnina.
Að ákæra.
Að krefjast réttlætis.
Annað er eins og að vera líkt og klárinn sem leitar þangað sem hann er sárkvaldastur.
Að gefast upp fyrir kvölurum sínum.
Í von um heytuggu.
Eins og enginn sé morgundagurinn.
Og engir séu afkomendurnir.
Kveðja að austan.
![]() |
Ekkert að marka ríkisstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 9
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 64
- Frá upphafi: 1438800
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 53
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar
Hvaða aðrir valkostir eru nothæfir?
kv kbk.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 2.2.2016 kl. 10:28
Vovnandi fáum við ríkisstjórn sem hugsar um fólkið en ekki vini, vandamenn og klíkubræður. Sammála þetta er óþolandi ástand að eldra fólk sé svo fast í stuðningi við ráðamenn að ekkert hreyfir þeim úr stað. Ef til vill væri til bóta að banna stjórnmálamönnum að vasast í örvasa fólki á elliheimilum á kjördag og dagana fyrir, þar leiggur ein meinlokan.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.2.2016 kl. 10:31
Blessaður Kristján.
Þú meinar þegar þetta fer í hringi, skipt um flokka en efnislega sama stefnu.
Ég á því miður reyndar ekki svar við því, ekki út frá þeim pólitískum raunveruleik sem við búum við í dag. Ef menn vilja fyrst kynnast hvað felst í orðtakinu, "fara úr öskunni í eldinn", þá geta menn prófað Píratana.
Eigum við ekki frekar að segja, að ef svona athæfi er harkalega gagnrýnt, sem ég veit að er til dæmis gert innan Sjálfstæðisflokksins, að þá aukast líkur á að flokkarnir endurskoða stefnu sína, séu ekki bara einhliða fyrir fjármagnið og búið.
Ég veit að gagnrýni mín er hvöss, og því miður ekkert ofsagt, en ég veit líka að mjög margir í öllum flokkum vilja vel, en þeim skortir kjark, til dæmis vegna þess að þeir fá ekki undirtektir hins almenna borgara, og segja; "svona gerum við ekki".
Eiginlega vil ég meina að 98% af ábyrgðinni sé okkar, hins almenna borgara.
Það erum við sem látum glepjast.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.2.2016 kl. 13:51
Blessuð Ásthildur.
Þetta er fjarlægur draumur, sem ég sé ekki í sjónmáli, nema að kaldakolin verði notuð til upphitunar á þjóðarheimilinu.
Það er það versta við þetta, raunhæfar breytingar geta verið of dýru verði keyptar. Og þá er ég að vísa í það skelfilega ástand sem verður áður en fólk rís upp og segir;
Ég er manneskja, ekki kostnaður.
Ég er launþegi, ekki neytandi.
Og ég læt mig aðra varða um leið og ég huga að sjálfum mér.
Þá rætist draumurinn, en dýrkeyptur verður hann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.2.2016 kl. 13:58
"fara úr öskunni í eldinn", þá geta menn prófað Píratana.
"Ætli sé ekki best að fara biðja Guð að hjálpa sér" bætti Jón Aðils við textann í Mann og konu og ég geri það við þessa framtíðarsýn
Grímur (IP-tala skráð) 2.2.2016 kl. 19:12
Þetta var kannski martröð Grímur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.2.2016 kl. 22:34
Sæll.
Það sem þú segir í athugasemd nr. 3 er algert lykilatriði. Það er í raun það sama og Kári segir. Ég er í sjálfu sér ekki ósammála KS um að meira fé þurfi í heilbrigðiskerfið en ótrúlega margir virðast ekki skilja að maður eyðir ekki sömu krónunni tvisvar.
Finnst þér málefnalegt af hálfu KS að fara í manninn frekar en rökin í þessari umræðu?
Miklu heiðarlegra væri af hálfu KS að segja að þessi eða hinn málaflokkurinn þurfi að taka á sig skerðingu svo hægt sé að efla heilbrigðiskerfið. Það gerir KS hins vegar ekki. Hvers vegna? Vill hann auka á skuldir okkar? Er honum sama um þá miklu launahækkun sem læknar og hjúkrunarfræðingar hafa fengið undanfarið?
Eru tillögur KS kannski ætlaðar sem högg á ríkisstjórnina frekar en úrbætur í heilbrigðismálum þjóðarinnar? Hvað heldur þú?
Helgi (IP-tala skráð) 13.2.2016 kl. 09:27
Ég veit ekki hvað Kári er að hugsa Helgi, held ekki að hann sé neitt að spá í dýpri rökin í pólitískum refskap, frekar að hann sé eins og þeir sem reyna að bjarga skipi í stórsjó og veðravíti, að gera eitthvað sem menn halda að komi að gagni.
Ekki bara fallast hendur og gefast upp.
Þú myndi skilja hann Helgi ef þú hefðir séð barn þitt þurfa á bráðri læknisaðstoð að halda.
Þá tækir þú velferð fólks fram yfir velferð fjármagnsins.
Fjárskorturinn er tilbúningur mergsjúgandi fjármagns.
Og helsti veikleiki Kára er ekki að benda á þá staðreynd.
Eins og hann sé hræddur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 13.2.2016 kl. 17:40
Rétt sem Ómar segir, það eru til nógir peningar, þeim er bara útdeilt vitlaust. Sem sagt í gæluverkefni ráðamanna. Kári hefur auk þess minnt okkur á að þegar Bjarni Ben. sagði að ekki væri til meira fé í Landspítalann lísti hann svo yfir 300 mill. króna afgang á fjárlögum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2016 kl. 08:37
Blessuð Ásthildur.
Fólk er orðið það samdauna klisjum frjálshyggjunnar, að það sér ekki fjárstreymi hins mergsjúgandi fjármagns út úr hagkerfinu.
Ætli ríkisbáknið eitt og sér hafi ekki tapað um 1.000 milljörðum út úr hagkerfinu frá Hruni, vegna vaxtastigsins, sem á sér enga hagfræðilega réttlætingu.
Þarna er fjármagnið,og þeir sem benda ekki á það, en fjalla um eitthvað allt annað, eru í raun í vasa fjármagnsins.
Þess vegna set ég spurningarmerki við heilindi Kára, er í raun eins og Gorbatchev sem ætlaði bjarga dauðadæmdu illu kerfi með umbótum innan frá.
En ég styð hann heilshugar, eins og allt annað Andóf.
En við verðum ekki frjáls fyrr en við losum okkur við Helsi hinna Örfáu. Hugmyndafræði þeirra og arðránshagskerfi.
Þar stendur hnífurinn í kúnni, það vill enginn slá hana af,umræðan snýst öll um að lappa uppá hana.
Ekki fá sér nýja sem mjólkar fyrir alla.
Fyrir náungan eins og mann sjálfan.
Og á meðan breytist ekkert í raun.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.2.2016 kl. 10:57
Já því miður það þarf að höggva villigróðurinn af ávaxtatrénu svo það geti vaxið og dafnað og gefið öllum af sér en ekki bara mergsjúgandi græðgi, sem allt vilja gleypa og komast yfir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2016 kl. 15:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.