Gjöf fyrir opnum tjöldum.

 

Og enginn segir neitt.

 

Hvar eru allir þeir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem sættu sig ekki við meint landráð Jóhönnu og Steingríms í ICEsave fjárkúguninni?

Hvar er Andstaðan??, er hún öll komin í netheima með Pírötum??

Hvar eru fjölmiðlarnir, hvar eru Verðir þjóðarinnar, öldungarnir, allir þeir sem skylt er að koma þjóð sinni til varnar á Ögurstundu???

 

Er þögnin keypt??, er þögnin vegna ógnar og ótta??

 

Ef við látum það liggja milli hluta að nokkrir tugir milljarðar sem taldir eru til stöðugleika framlagsins eiga ekki heima í þeirri upptalningu, gerum ekki ágreining um blekkingarnar og tökum líka fullt mark á þeirri fullyrðingu fjármálaráðherra að vegna styrkingar krónunnar hafi áætlaður stöðugleikaskattur lækkað úr tæpum 900 milljörðum í 770 milljarða, að þá standa út af borðinu 385 milljarðar.

385 milljarðar er gjöf fámennrar klíku til húsbænda sinna og velunnara.

Og þá er miðað við skammarlegan lágan stöðugleikaskatt sem tók ekki tillit til þess stórfelda tjóns sem fjármálabrask gömlu bankanna olli þjóðinni og þjóðarbúinu.

Fjármálabrask sem nota bene var í skjóli þessara sömu fámennu klíku.

 

Og hver eru rök klíkunnar???

Í svari fjármálaráðherra til Katrínar Jakobsdóttur þann 19. nóvember 2015 má finna þessa endurvinnslu frá Seðlabanka Íslands;

 

Sá munur sem er á fjárhæðum stöðugleikaskatts og stöðugleikaframlags endurspeglar það að leið nauðasamninga á grundvelli stöðugleikaskilyrða er talin áhættuminni, m.a. með tilliti til hættu á dómsmálum og stöðugleika á fjármálamarkaði. Ágreiningur um skattinn kynni að tefja fyrir bata á öðrum sviðum, t.d. bættu lánshæfismati ríkissjóðs. Greiðsla stöðugleikaframlags bindur enda á þátt slitabúanna þriggja í þeim greiðslujafnaðarvanda sem stendur í vegi fyrir losun hafta og greiðir fyrir því að hægt sé að ráðast í næstu þætti afnámsáætlunar stjórnvalda. Það er mat Seðlabankans að bæði fjármálastöðugleika og greiðslujafnaðarstöðugleika sé betur borgið ef kröfuhafar ganga til nauðasamninga sem uppfylla stöðugleikaskilyrði á grundvelli fyrirliggjandi frumvarpa en ef kæmi til skattlagningar.

 

Endurunnið úr gömlum ICEsave röksemdum bankans.  ""Hætta á dómsmálum", "stöðugleiki", "áhættuminna", "tefja fyrir bættu lánshæfimati ríkissjóðs"".

Tilbúnar röksemdir sem notaðar voru til að réttlæta fjárkúgun erlendra ríkja, núna notaðar til að réttlæta stórfelldan þjófnað innlendra og erlendra fjárglæframanna.

Furðulegt reyndar að Seðlabankinn gangi ekki alla leið og færi rök fyrir því að fyrst að það styrki svo hinn meinta fjármálastöðugleika og greiðslujafnaðarstöðugleika að lækka framlög þrotabúanna um 385 milljarða, að þá sé farsælast að lækka þau ennþá meir, jafnvel afnema þau, þá fyrst ætti stöðugleikinn að vera algerlega tryggður.

Það er stöðugleiki vogunarsjóðanna, ekki stöðugleiki almennings og fyrirtækja hans.

 

Í svari fjármálaráðherra er hnykkt á sömu röksemdum án rökstuðnings;

 

Þar seg­ir að leið nauðasamn­inga á grund­velli und­anþágu að upp­fyllt­um stöðug­leika­skil­yrðum sé met­in skil­virk­ari og áhættu­minni en leið stöðug­leika skatts að sömu mark­miðum. Sú leið flýti fyr­ir því að hægt verði að hrinda í fram­kvæmd næstu skref­um áætl­un­ar um los­un fjár­mangs­hafta.

 

Gleymdar eru röksemdirnar úr frumvarpinu um stöðugleikaskattinn þar sem segir;

 

Markmið laga þessara er að stuðla að losun fjármagnshafta með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi. Í því skyni er mælt fyrir um skattlagningu sem ætlað er að mæta neikvæðum áhrifum í tengslum við lok slitameðferðar skattskyldra aðila.

 

Eða fólust mistökin í því að minnast á almannahag sem leiðarljós?

 

Einnig má spyrja að fyrst fjármálaráðherra telur gjöf sína uppá 385 milljarða vera skilvirkari leið til að ná hinum meinta fjármálastöðugleika, af hverju var hann að láta forsætisráðherrann gera sig að fífli á blaðamannafundinum í Hörpu þann 6. júní 2015, þar sem hann var látinn kynna stöðugleikaskattinn;

Sig­mund­ur seg­ir að með þeirri áætl­un sem lögð hafi verið fram sé passað upp á að verðmæta­sköp­un sem verði til hér á landi hald­ist í landi og muni ýta und­ir frek­ari verðmæta­sköp­un, „í stað þess að renna úr landi til að standa straum af skuld­um fall­inna einka­fyr­ir­tækja.“

Í kynn­ing­unni kom fram að gert sé ráð fyr­ir því að stöðug­leika­skatt­ur­inn verði um 850 millj­arðar, en ef kröfu­haf­ar velja að fara leið stöðug­leikafram­lags nemi áhrif­in um 900 millj­örðum. Stór hluti þess­ar­ar upp­hæðar mun fara til að greiða niður skuld­ir við Seðlabank­ann og ríkið, en fram kom að skuld­ir rík­is­ins gætu lækkað um tugi pró­senta.

 

Til hvers er Sigmundur látinn fabúlera um 850 milljarða eða 900 milljarða þegar slíkar risaupphæðir ógna hinum meinta fjármálastöðugleika en hin hógværa upphæð, 385 milljarðar, tryggja hann.

Og af hverju er verið að fjalla um slíkar risafjárhæðir þegar aldrei stóð til að innheimta nema innan við helmingsbrot af þeim?

Annað hvort er Sigmundur blekktur illilega eða hann tók að sér það hlutverk að ljúga í þjóðina til að skapa frið um leyniaðgerðir litlu ljótu klíkunnar.

Hans er að svara hvort hann sé ginningarfífl eða lygari.

 

Hin æpandi þögn er hins vegar ekki aðalsorg þjóðarinnar í þessum gjörningi öllum.

Hið skítuga fjármagn hefur áður keypt upp stjórnmálamenn og fjölmiðla.

Við munum öll eftir þögninni í veislunni miklu í aðdraganda Hrunsins.

 

Þá hins vegar var farið eftir lögum og reglum samfélagsins, innan gæsalappa þó.

Í dag er fjármálaráðherra þjóðarinnar beintengdur aðilum sem græða milljarða á hinni rausnarlegu gjöf.

Og hann sætir ekki rannsókn, hvorki að hálfu Alþingis eða hins opinbera réttarkerfis.

Ísraelar dæmdu forseta sinn til fangelsisvistar fyrir prómil af þeirri spillingu sem hér á sér stað.

 

Sem hlutfall af þjóðarframleiðslu er gjöfin eitt stærsta spillingarmál nútímasögu,og þá erum við að tala um í alheiminum, ekki á Íslandi.

Og réttarkerfið, sem á að vera óháð framkvæmdarvaldinu, lyftir ekki litla fingri til að rannsaka málið.

Sem þýðir að litla ljóta klíkan má gera hvað sem henni dettur í hug.

 

Sem þýðir að við erum ekki einu sinni bananalýðveldi.

Við erum ekki til.

Ekki sem sjálfstæð þjóð.

 

Við erum eign.

Færð til bókar hjá vogunarsjóðum.

 

Sorglegt en satt.

Kveðja að austan.


mbl.is Stöðugleikaframlög 384 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Heill og sæll Ómar.  Það var alltaf torskilið hvað Sjálfstæðisflokkurinn væri að gera með Bjarna Ben í embætti eða í stjórnmálum yfirleitt.  Það ætti ekki að vera með hann neinsstaðar í stjórnmálum.  Þetta hljómar alltof líkt skýringunum fyrir ICESAVE og sem hann jú líka vildi semja um.  

Elle_, 30.1.2016 kl. 11:38

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Og ganga í ESB á landsfundinum 2009, ekki má gleyma því.

Ergo, sömu leikendurnar, aðeins hlutverkaskipan hefur breyst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.1.2016 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 31
  • Sl. sólarhring: 770
  • Sl. viku: 5570
  • Frá upphafi: 1400327

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 4784
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband