"Það er neyðarástand í þjóðfé­lag­inu og sam­fé­lagið er klofið"

 

Hárrétt athugað hjá þingmanni Pírata.

Og þetta gerðist ekki upp úr engu.

Og þetta gerðist ekki að sjálfu sér.

En það er röng greining að bréf ráðherra hafi eitthvað með málið að gera, heldur er það tímasetning þess.

 

Af hverju var það sent til að hleypa öllu í bál og brand??  Með engu innihaldi. 

Mig langar að vitna í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins sem flengdi laumuESBsinnanna í ríkisstjórninni allhressilega, dró þá sundur og saman í háði;

 

Svo var allt í einu ákveðið að senda bréf með bænastefi til Brussel um að embættismenn þar yrðu svo liprir að sýna góðan skilning á því að Ísland vildi ekki lengur vera umsóknarríki. Það hafði stækkunarstjórinn þá vitað í tvö ár. Hann taldi því fyrst að flotið hefði til sín flöskupóstur. Í skýringum hér heima var tekið fram að að þetta undarlega afbrigði hefði verið brúkað til að forðast „offors“ við ESB. Hvernig gat það komið til? ESB hafði að eigin sögn beðið í tvö ár eftir því að Ísland tilkynnti sér að landið væri hætt við að sækja um aðild því. Embættismenn ESB höfðu beinlínis beðið um að slík tilkynning yrði ekki dregin. En svona varð þetta. Og þýðir ekki um að fást.

 

Ef allt væri eðlilegt í landinu, þá hefði stjórnarandstaðan velt ríkisstjórninni upp úr tjöru og fiðri háðsins, reisnin og stefnufestan væri ekki meiri en sú að senda bréf, 2 árum eftir valdatöku hennar, þar sem stefna ríkisstjórnarinnar væri áréttuð, og það væri tekið fram að hún ætti ekki í aðildarviðræðum. 

Eitthvað sem allir vissu, eitthvað sem lá alltaf fyrir.

En í stað þess hófst farsi uppnámsins, upphrópanir um landráð, aðför að þingræðinu, valdníðslu og svo framvegis. 

Svo augljóst leikrit að greinilegt var að stjórn og stjórnarandstaða voru fyrirfram búin að æfa handritið.

 

Það var greinilegt að friðsæld stjórnmálanna hafði farið í taugarnar á einhverjum sem átti hagsmuna að gæta, og hafði fjárhagslegan styrk til að setja á svið farsa á Austurvelli.

Einhverjir sem óttuðust friðsældina, því þá er alltaf hætta á að alvöru mál séu rædd af alvöru.

Og hafi einhver efast, sem hefur ekki staurblindu sér til afsökunar að sjá ekki, þá var launsátur auðtengslanna á flokksþingi Samfylkingarinnar staðfesting þess að undirróðursöfl ýttu undir, eða hreinlega bjuggu til ólgu í samfélaginu.

 

Á sama tíma var anarkista/frjálshyggjuflokknum hampað í fjölmiðlum svo öruggt væri að óánægjufylgið leitað ekki til vitiborins fólks sem spyrði spurninga.

Hið svokallaða tvöfalda öryggi, að lama hefðbundin stjórnmál, og ýta undir flokk taglhnýtinga sem héldu umræðunni frá hinni raunverulegu ógn sem blasir við þjóðinni, er aðeins skýrt með stýringu atburðarrásar, hið tilviljunarkennda getur aldrei framkallað slíka atburðarrás á svo skömmum tíma.

 

Enda kann sagan mörg slík dæmi, alltí einu fer allt í háaloft, ekki vegna þess að eitt leiði að öðru sem er eðlileg tímarás sögunnar, heldur að allt gerist í einu.

Súdetaþjóðverjar, sem höfðu átt friðsæla sambúð með nágrönnum sínum Tékkum, líka eftir að lýðveldið Tékkóslóvakía var stofnað eftir fyrra stríð úr rústum Austurríska-Ungverska keisaradæmisins, urðu alltí einu snarbrjálaðir, stofnuðu til óeirða og óaldar, og daginn eftir mættu nasistar og innlimuðu héraðið í Þýskaland, að sögn til að stilla til friðar.

Harmleikurinn í Chile, þar sem allt hljóp í bál og brand vegna þess að vinstrisinnaður forseti var kosinn til valda 1970, er einn svartasti blettur á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem gátu ekki unað niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, og skipulögðu valdarán Chilenska hersins, löngu áður en nokkur herforingi þar í landi taldi þörf á slíku.   Um þann harmleik má lesa í link sem ég ætla að setja í athugasemd, svona fyrir þá sem kjósa að ganga ekki staurblindir um, en mig langar að birta kjarna þess sem gerðist;

 

The other approach of the CIA, also known as the Track II approach, was an attempt to encourage a military coup, by creating a climate of crisis across the country.

 

Að skapa andrúmsloft upplausnar og óaldar.

Eitthvað sem undirróðursmenn gera og þiggja laun fyrir.

 

En hvað koma þessi líkindi við núverandi tilbúnu neyðarástandi kann einhver, sem hefur rifu á augu sínum, að spyrja og vill ekki alveg kasta frá sér svona rökfærslu?

Jú, strax haustið 2008, kom stétt manna til landsins, sem John Perkins gaf ódauðlegt nafn með bók sinni, "Játningar efnahagsböðuls", eða Confession of an Economic Hitman. 

 

Þessir menn hafa ráði til sín lögfræðinga, almannatengla, mútað stjórnmálamönnum, blaðamönnum, og öðrum þeim sem áhrif geta haft á atburðarás umræðunnar, á ákvörðunartöku stjórnmálamanna, og ef ástæða þykir til, hleypt öllu í bál og brand.

Skapað það sem taglhnýtingur þeirra kallar; "Það er neyðarástand í þjóðfé­lag­inu og sam­fé­lagið er klofið"

John Perkins kom til Íslands og útskýri í viðtölum við fjölmiðlamenn hvernig efnahagsböðlar í þjónustu hrægammasjóða sköpuðu upplaun og óöld, til að tryggja að ekki yrði snúist til varnar gegn fjárkröfum þeirra. 

Viðtal við hann í Silfri Egils má finna á netinu og í ritmiðlum bæði hjá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. 

Hann lýsir nákvæmlega vinnubrögðunum, og afleiðingum þeirra.  Lýsir nákvæmlega hvernig efnahagsböðlar vinna.

 

Með hlíðsjón af því er atburðarrás heimskunnar mjög skiljanleg, hvernig hægt er að stofna til deilna og múgæsingar út af engu, en eftir stendur af hverju núna???

Svarið er einfalt, það birtist grein í Fréttablaðinu sem gæti hugsanlega verið upphaf atburðarrásar sem leiddi að lokum til þess að fjárkúgun breta og Hollendinga var snúið til föðurhúsanna, og þar með eyðilögð aðgerðaráætlun AGS sem kvað á um risagjaldeyrislán ríkissjóðs til að borga út aflandskrónur.

Eigum við ekki að segja að brennt barn forðist eldinn, og nýti þekkta tækni efnahagsböðla til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.

 

Greinina skrifaði skjaldmey Íslands, Lilja Mósesdóttir, og vakti athygli á falsinu á bak við leiktjöldin um afnám gjaldeyrishafta. 

Ekki það að greinin hafi vakið athygli, en það gerði heldur ekki um fyrsta grein þeirra Stefáns og Lárusar, þegar þeir slátruðu lagarökum ICEsave fjárkúgunarinnar.  Þá grein lásu fáir, og hún var lengi að komast inní umræðuna, en að lokum urðu greinarskrif þeirra félaga brjóstvörn ICEsave varnarinnar, rökfærsla sem að lokum var staðfest af EFTA dómnum.

 

Hvort efnahagsböðlarnir hafi ekki vanmetið staurblindu íslensku þjóðarinnar, og ofmetið styrk þeirra sem þeir hafa ekki ennþá keypt, skal ósagt látið, en líklegast hefur það ekki verið málið, heldur það sem stóð í grein Lilju.

Það var innihald hennar sem þurfti að bregðast við, ekki hugsanlegt andóf þess hluta íslenska andófsins sem ekki er komið í Pírata.

 

Þessar beinhörðu staðreyndir;

 

Með því að hvetja kröfuhafa gömlu bankanna til að festa eignir sínar í 30 ára ríkisskuldabréfum er í raun verið að leggja til að skuldum einkafyrirtækja verði breytt í ríkisskuldir. ........

Stjórnvöld gætu notað lán í erlendum gjaldmiðlum frá AGS og norrænu þjóðunum til að fjármagna útstreymi peningahengjunnar og komið þannig í veg fyrir gengishrun. Ef þessi erlendu lán verða notuð eða genginu leyft að falla til að leysa peningahengjuvandann, þá er í raun verið að koma byrðum fjármálakreppunnar af baki hrægammasjóða og áhættufjárfesta yfir á herðar skattgreiðenda sem eru með laun í krónum og verðtryggð lán.

 

gátu vaknað til lífsins þegar áætlun um afnám gjaldeyrishafta yrði kynnt.

Og þá er ekki víst að Trójuhestur Andófsins dygði til að afvegleiða umræðuna.

 

Þetta skýrir óöldina, en hvort fólk er svo dautt í sinni að ef það fær aðeins tækifæri til að nöldra og tuða, þá kjósi það frekar þrælahlekki skuldanna en viðnám hins frjálsborna manns, mun tíminn einn leiða í ljós.

 

Ekki mitt að meta, mitt hlutverk var að byggja upp lestur svo þessi pistill yrði lesinn af fleirum en föstu lesendum þessa bloggs.

Hann er búinn að vera lengi í smíðum, ég ætlaði ekki að nenna að semja hann eins og planið var um þar síðustu helgi, en Sigríður Inga gaf mér tilefnið, og staðfestinguna, svo ég varð að koma honum frá mér.  Samt nenni ég ekki fyrir mitt litla líf að fletta uppí gagnasafninu og vitna orðrétt í John Perkins.

Það verður kannski gert ef Lilja nær að hreyfa upp í fólki og réttmætar efasemdir vakna um hina tilbúnu atburðarrás síðustu vikna.

 

Eins og staðan er í dag, er svo ekki, Morgunblaðið mátti eiga að það vakti athygli á málflutningi Lilju, en annað er það ekki.

Sama þögnin og þeir Stefán og Lárus mættu.

Þögnin sem efnahagsböðlar í vinnunni hjá hrægammasjóðum tryggðu.

Og einhver smáfugl fær ekki rofið.

 

En það er samt óþarfi að þegja.

Því þögnin er akurinn sem hrægammarnir uppskera gróða sinn.

 

Og við eyðilagða framtíð barna okkar.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Herra forseti, ég skil ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Hér er linkurinn valdaráni hersins í Chile.

http://en.wikipedia.org/wiki/1973_Chilean_coup_d%27%C3%A9tat

Ómar Geirsson, 24.3.2015 kl. 16:51

2 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar.

Góður pistill að venju. Ég hef því miður misst af grein Lilju Móselsdóttur og þætti vænt um að vita frá þér hvar ég gæti fundið hana. Hún er sú eina ásamt Ólafi Margeirssyni komið með lausnir á vanda íslendinga gagnvart böðlunum og gjaldmiðlinum okkar.

En ég verð þó að það kitlaði mínar hláturstaugar þessi uppákoma hjá Sigríði gegn Árna Páli. Niðurstaðan var alveg sprenghlæjileg og ég hló dátt.  Flokkurinn er kominn með að mínu mati tvær fylkingar og forustumenn sem ná því ekki að vera hálfir forustumenn (49.eitthvað %) í samstæðum Samfylkingarflokki, þar sem að sögn forustumann, leikur allt í lindi og allir eru vinir.

Þvílíkur brandari.

Það mun líða langur tími þar til þessi verður sleginn.

Eggert Guðmundsson, 25.3.2015 kl. 16:10

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Linkurinn á grein Lilju er hér;

 

Spáðu í dauðaþögninni sem umlykur hana, og síðan skrípóið sem yfirtók þjóðmálaurmæðuna rétt í kjölfarið.

 

Ég er sammála þér í því að það er leitun að fyndnari atburðarrás en þeirri sem átti sér stað á flokksþingi Samfylkingarinnar, enda naut ég mjög góðs af henni, þetta er eitthvað sem ég elska að hræra í.  Verst að Árni skyldi ekki hafa lesið pistil minn um Höfuðlausn sína, hann hefði getað risið upp eins og Fönix forðum daga ef hann hefði borið gæfu til að veðja á nýja tíma með því að gera upp við þá gömlu.

 

Það er greinilegt að þeir sem halda því fram að svona vígaferli séu hressandi fyrir flokkinn, hafa ekki alist upp við Lukku Láka, hafa ekki lesið meistaraverkið Karlarígur í Kveinabæli, sem er fyndnasta satíra sem ég hef lesið um svona hjaðningavíg.

 

Niðurstaðan verður alltaf örflokkur.

 

En við verðum að sjá hlutina í samhengi, fjandsamleg yfirtaka sprettur aldrei upp að sjálfu sér, þó flestir leikendur eru örugglega nytsamir sakleysingjar.  Og það er tilgangur hennar sem er ógn við framtíð þessar þjóðar.

 

Það er alltaf grafalvarlegt þegar peningaöfl sjá sér hag í að hræra upp í stjórnmálaflokkum, en ef við lítum til hægri þá er sama gæfuleysi þar til staðar, pólitísk leiðsögn sem er að gera stjórnarflokkana að örflokkum. 

 

Ég hef sjaldan lesið naprari texta en þegar ég las lýsingu Davíðs á framgöngu Bjarna Benediktssonar í afturköllun ESB umsóknarinnar, og því miður er hvert orð satt í þeirri lýsingu.  En hver sem skýringin er, þá heykist Davíð að benda á hið augljósa, það eina sem skýrir svona algjöran aulagang er sá vilji að umsóknin verði ekki afturkölluð, heldur verði aðildarumsóknin til staðar þegar næsta ríkisstjórn tekur við, en hún mun verða ESB ríkisstjórn.

 

En burtséð frá hálfkákinu þá var bréf utanríkisráðherra stórfurðulegt, bæði aðdragandi þess það er samráðið við skriffinna ESB, innihald þess því menn eru margsaga um hver tilgangur þess sé, og loks tímasetningin, af hverju núna???

 

Af hverju núna?????

 

Viðbrögðin svöruðu síðan þeirri spurningu.

 

Vandi hinna hefðbundnu flokka er sá Eggert að fólk styður alltaf sína menn, en sér hins vegar fíflaganginn hjá hinum. 

 

Menn standa svo og hía á hvora aðra.

 

Í sömu dýkinni sem er verið að grafa yfir.  Og allir verða kviksettir.

 

Og fyrst ég er farinn að vitna í heimsbókmenntirnar, þá er ekki úr vegi að vitna líka í snilldarþættina um He-Man, en einn þáttur hefur leitað mjög á mig eftir áramótin.  Ég sé alltaf myndina þegar Skeletor var að leiða íbúa tveggja þorpa í böndum í námur sínar.  Honum hafði vantað vinnuafl blessuðum, og dundaði við að etja leiðtogunum saman, hégómi þeirra var slíkur að þeir kusu frekar innbyrðis deilur í stað sameiginlegar varnar.  Og léttur leikur fyrir Skeletor að yfirvinna þorpin og þrælka íbúana.

 

En það sem ég sé alltaf fyrir mér er að jafnvel þegar leiðtogarnir tveir eru bandingjar á leið í námurnar, þá voru þeir samt að reyna að rífast og slást, skipti engu hvað þeir höfðu gert konum sínum og börnum eða fólkinu sem treysti á þá.

 

Svona er Ísland í dag. 

 

Svona erum við nákvæmlega Eggert.

 

Og því miður var það bara í He-Man þar sem hetjan stökk fram og kallaði;

 

HeeeeMaaann.

 

Og fékk hina þrasgjörnu til að hætta að þrátta, snúa bökum saman, og verja hendur sínar, og frelsa fólkið sitt úr þrældómi peningaaflanna.

 

Gerist ekki í raunveruleikanum þó ég skal játa að ég gæfi mikið fyrir að sjá einhvern mæta niður á Austurvöll og kalla HeeeMaaann.

 

Ég er viss um að hann fengi athygli.

 

En bíðum og sjáum, eitthvað mun gerast, einhverjar varnargirðingar verða reistar.  Á meðan ætla ég að láta þennan pistil standa, hér efst á blogginu.  Til leiðbeiningar fyrir þá sem ofbýður hringavitleysan, og fara að spá í að þegar öll vitleysa er ekki einleikin.

 

Að þá er hún ekki einleikin.

 

Og það er ekkert flókið við það.

 

Kveðja að austan.

 

 

Ómar Geirsson, 26.3.2015 kl. 09:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 269
  • Sl. sólarhring: 840
  • Sl. viku: 6000
  • Frá upphafi: 1399168

Annað

  • Innlit í dag: 228
  • Innlit sl. viku: 5083
  • Gestir í dag: 219
  • IP-tölur í dag: 216

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband