15.3.2015 | 12:48
Það hélar á síðum Moggans.
Og einhverjir sneplar frjálshyggjunnar í Evrópu, og hægriöfganna í USA eru einnig gegnumfrosnir, en á öðrum stöðum sjást engin merki um þetta grimmdarfrost sem hinir keyptu eða trúuðu þjónar Mammons þykjast sjá merki um.
Fullvita fólk deilir ekki um staðreyndir, það ræðir þær, reynir að túlka, setja í samhengi, afla sér gagna um þær, og svo framvegis.
En það véfengir ekki staðreyndir, eða reynir að telja fólk í trú um að það sé deilt um þær.
Blaðamenn Morgunblaðsins sýndu óvenjulegt hugrekki þegar þeir fjölluðu ítarlega, og á málefnalegan hátt um nýlegt málþing sem haldið var hér á landi um loftlagsvána, og afleiðingar hennar.
Hugrekki vegna þess að pólitískur ritstjóri blaðsins beit það í sig eftir að Bush yngri vinur hans trúði honum fyrir því, þegar ritstjórinn gegndi öðru og veigameiri embætti og fékk að heimsækja Bush á búgarð hans í Texas, að Cheney hefði sagt honum að það væri vinstrakjaftæði að mennirnir hefðu áhrif á loftslag jarðar, og ef það væru einhverjar marktækar breytingar, þá væri um að kenna gasi úr kýrrössum, ekki neinu sem kæmi frá kostunaraðilum hægri manna, vopna og olíuiðnaðinum.
Bush trúði Cheney, og Davíð trúði Bush.
Og hefur síðan ekki legið á þeirri sannfæringu sinni.
Loftlagsbreytingarnar hafa hins vegar áhrif á framtíð okkar allra, og það er dauðahvöt að láta peningahagsmuni örfárra, og almenna forheimsku hægri manna hafa þau áhrif að vandanum sé afneitað, eða tilbúnar deilur séu keyptar til að hindra markvissar aðgerðir mannsins gegn vánni sem ógnar lífi hans og tilveru.
Þess vegna hélar á síðum Morgunblaðsins þegar svona fréttaskýring er skrifuð, sem hefur öll einkenni hins tilbúna áróðurs, og hvort sem hún er skrifuð til að þóknast ritstjóranum, eða vegna forheimskunnar einnar samann, skiptir ekki máli.
Hún er jafn sorgleg fyrir það.
Ég ætla ekki að taka hana efnislega fyrir, vísa í ágæta frétt hinna hugrökku blaðamanna sem birt var 28. feb. síðastliðinn og heitir Reykurinn mengar enn loftið.
http://www.mbl.is/frettir/taekni/2015/02/28/reykurinn_mengar_enn_loftid/
þar sem meðal annars má lesa þetta;
Tóbaksiðnaðurinn mótaði aðferðirnar sem afneitunarsinnar nota um þessar mundir til þess að skapa ásýnd þess að enn sé deilt um loftslagsvísindin. Fólk er móttækilegt fyrir því þar sem það vill ekki trúa því að þeirra eigin lífsstíll sé orsök vandamálsins, að mati Eriks Conway, vísindasagnfræðings. .......
Þetta skapar ímynd rökræðu. Ég segi ímynd rökræðu því það eru í raun engar deilur innan vísindasamfélagsins. Því á rökræðan sér stað í opinberri umræðu, ekki í vísindatímaritum. Þess vegna er þetta ekki vísindaleg rökræða lengur. Þetta er opinber umræða og pólitísk umræða. Það er tilgangurinn. Ef þú vilt koma í veg fyrir lausnir þarftu að halda áfram að sannfæra fólk um að vísindin hafi ekki komist að niðurstöðu, að enn séu deilur í gangi og því sé ekki ástæða til að bregðast við strax. Til að halda uppi ásýnd rökræðu, segir Conway.
Það er nefnilega ekkert nýtt undir sólinni hjá hægriöfgamönnum, guðfaðir áróðurstækni þeirra, Göbbels, fullmótaði næstum tæknina þegar á fjórða áratug síðustu aldar.
Mig langar hinsvegar að fjalla um tvennt sem stingur almenna rökhugsun.
Það fyrra má finna í þessum orðum;
Þeir taka ekki afstöðu, vilja ekki taka þátt í leðjuslag þar sem efasemdamenn eru sakaðir um að vera ómerkileg leiguþý fégráðugra olíufyrirtækja. Þeir falsi rannsóknir sínar. Slík rök duga mörgum, hver vill vera í liði með svo vondu fólki? Mestu ætti þó að skipta hvort niðurstöður leiguþýjanna séu studdar vísindarökum.
Getur keyptur maður haft rétt fyrir sér, og á ekki að taka mark á því þegar hann vísar í sannanleg vísindaleg gögn??
Hið augljósa í þessu samhengi er það að ef það er sannarleg vísindaleg umræða um vafa þá þarf hagsmunaaðili ekki að kaupa hina tilbúna deilu, eða kosta umræðu rangtúlkunar og útúrsnúninga.
Saklaus maður þarf ekki að kaupa dýran lögfræðing sem byggir málsvörnina á að varpa rýrð á rannsóknaraðila, eða skapa efa um það sem alltaf er hægt að efast um, svo ég vitni í fræga málsvörn O.J. Simpsonar.
Sem þýðir að þegar vísindaleg rök s liggja til grundvallar, þá er það samhengið eða túlkun þeirra sem þjónar gildi áróðursins, eða hinnar fyrirfram tilbúnu niðurstöðu.
Þó staðreyndum sé hafnað, og þó það sé logið og rangtúlkað, þá þýðir það ekki samt ekki að viðkomandi geti ekki sagt satt og rétt frá, þegar hann þarf ekki að ljúga.
Svo ég vitni í guðfaðirinn sjálfan, þá hafði hann vit á því að fá fulltrúa Rauða krossins til að kanna vegsummerki fjöldarmorða Sovétmanna á pólskum liðsforingjum í Katynskógi, og fá þá til að staðfesta að Þjóðverjar voru saklausir af þeim óhæfuverkum. En sú staðreynd, var ekki staðfesting þess að þeir væru saklausir af öðrum óhæfuverkum sínum. En þessa staðreynd hafa aðrir afneitunarsinnar, þeir sem afneita helförinni, notað grimmt til að sanna að Auswitch og aðrar útrýmingarbúðir hafi verið nett sögufölsun bandamanna.
Það er nefnilega þannig að þegar ósvífinn hagsmunaaðili kaupir lygar, þá gjalda þeir sem efast, og færa fyrir því rök. Það var ekki þannig að allir Þjóðverjar sem ferðuðust um Bretland, og tóku myndir af hernaðarmannvirkjum væru njósnarar, bara allflestir, og bresk stjórnvöld gátu því ekki látið þá njóta vafans. Hinir saklausu voru líka teknir.
Hinsvegar þekkjast alvöru fræðimenn strax, líkt og alvöru blaðamaður sem efast, þekkist frá þeim sem skrifar áróðursgrein. Þeir þekkjast á því að þeir skrifa ekki staðleysur, rangtúlka ekki þekktar staðreyndir, hundsa ekki rök á móti, yrkja ekki óð til forheimskunnar.
Þeir skrifa ekki grein eins og þessa sem Mogginn birti í Sunnudagsblaði sínu.
Seinna atriðið sem ég vil benda á er hið mikla mál um efann.
Sem er alltaf til staðar, sem er alltaf hægt að rökstyðja.
Séu vísindamenn trúir sinni köllun, heiðarlegri sannleiksleit, eins og þeir eru vafalaust langflestir, eru þeir varfærnir. Og þá er komið að því sem margir efasemdarmenn úr röðum loftslagsfræðinga, óþægu þrjú prósentin, segja. Þeir segja að við ráðum ekki enn yfir þekkingu sem hægt sé að nota til að fullyrða með vissu eitthvað um hlýnun og orsakir hennar. Menn byggi á getgátum. Einn þáttur valdi mikilli óvissu, vatnsgufa sem er áhrifamesta gróðurhúsalofttegundin.
Raunveruleikinn á samt svar við efanum, það gerist sem gerist.
Stundum reynist efinn réttmætur, stundum ekki.
Efinn til dæmis varðandi skaðsemi tóbaksreykinga dó út þegar flestir þeir sem trúðu hinum keyptu efasemdarmönnum, féllu frá úr krabbameini. Þar með svaraði það ekki kostnaði að halda úti hinum tilbúnu efasemdum.
En efi er aldrei réttlæting þess að grípa ekki til aðgerða, þegar um alvarlegar afleiðingar er að ræða, afleiðingar sem eru jafnvel óafturkræfar.
Hagsmunaaðilar í kjarnorkuiðnaði gerðu út efa um að framleiðsluaðferðir þeirra væru svo öruggar, að óþarfi væri að íþyngja iðnaðinum með það sem þeir kölluðu óþarfa kostnaði svo sem mengunarvörnum, tvöföldum öryggisbúnaði, styrkleika mannvirkja og svo framvegis.
Bandaríkjamenn sáu að sér eftir að morðið á Karen Silkwood komst í hámæli, heimsbyggðin stóð á öndinni eftir slysið í Chernobyl, og Japan slapp fyrir horn eftir jarðskjálftann mikla fyrir nokkrum árum.
Sumt er nefnilega það alvarlegt að það má ekki gerast, og það er aldrei of miklu kostað til að hindra að svo verði.
Loftslagsváin er dæmi um slíkt.
Það hafa þegar komið alvarlegar vísbendingar fram um að maðurinn sé að kynda upp jörðina, þó vissulega séu fleiri sökudólgar en kolefnisiðnaðurinn, og það er öruggt að það muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð mannsins.
Og við höfum ekki efni á að hundsa þessar hættur.
Eins og réttilega er bent á í áróðrinum, þá er ekki allt vitað, eiginlega er það fátt sem við vitum um veðrakerfin og samspil þeirra.
Hverjar eru afleiðingarnar af eyðingu regnskóganna??
Mun stóraukið rennsli á ferskvatni í Norður höf, stöðva Golfstrauminn eða hnika honum til, og hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér?
Er Grænlandsjökull að fljóta upp og renna eins og leggur sig á haf út?
Verður sprenging á metangasi í andrúmslofti jarðar þegar freðmýrar Síberíu byrja að bráðna??
Við vitum það ekki en við vitum að þetta er ekki gott.
Ekkert frekar en ef stórveldin ákveða að sprengja allar kjarnorkusprengjur sínar í einu.
Því afneitunarsinnar sem keyra á efann, þeir sleppa því vísvitandi (og þar með er það blekking áróðursins) að minnast á hina hliðina á efanum.
Hvað ef líkönin hafa ekki rétt fyrir sér í hina áttina.
Að hækkun hitastigs jarðar hafi í för með stigmögnun sem umbreytir veðrakerfum heims í verðavíti, líkt og forsagan kann svo mörg dæmi um.
Og í þessum veðravítum liggja engin tækifæri, aðeins hörmungar.
Hörmungar sem benda enda á núverandi siðmenningu, en gætu vissulega verið upphaf aldar kakkalakkans, eða rottunnar.
Efinn er nefnilega oft þannig, að við höfum ekki efni á honum.
Og það felst í því að vera vitiborinn maður, að gera sér grein fyrir því.
Og bregðast við í tíma.
En ekki svo seint að annað tækifæri er ekki í boði.
Í sumu er nefnilega ekkert val.
Ekki ef þú átt líf sem þarf að vernda.
Kveðja að austan.
Grimmdarfrost í deilu um hlýnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 473
- Sl. sólarhring: 708
- Sl. viku: 6204
- Frá upphafi: 1399372
Annað
- Innlit í dag: 401
- Innlit sl. viku: 5256
- Gestir í dag: 369
- IP-tölur í dag: 364
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hér er tengillinn virkur á greinina Reykurinn mengar enn loftið.
Ómar Geirsson, 15.3.2015 kl. 12:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.