Það þarf sérstakt hugarfar að breyta því sem virkar.

 

Breytinganna vegna.

Tilgangurinn er ekki að bæta, heldur að breyta, af því bara.

 

Þetta hugarfar getur verið úr ranni frjálshyggjunnar, kennt við uppáhalds ess-in hennar þrjú; Sérhyggju, samviskuleysi, siðblindu.

Það getur verið úr ranni forheimskunnar, há-in hennar þrjú; hégómi, heimska, hroki.

En tengist aldrei viti, skynsemi eða heilbrigðri hugsun.

 

Út um allt samfélagið eru svona breytingar, breytinganna vegna. 

Illa ígrundaðar, mismunandi misheppnaðar, ætíð dýrari en það sem fyrir var.

 

Hvað græddi samfélagið á að leggja niður Landakotsspítala eða Sankti Jósefsspítala??  Eða á allri hagræðingu Steingríms Joð á heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar?

Hver er ávinningurinn við að minnka kostnað örlítið á einu stað en magna hann uppi á öðrum, hvort sem það er hjá þeim aðila (ríki eða sveitarfélagi) sem ætlaði sér að spara aurinn, eða þeim aðilum sem nutu þjónustunnar og höfðu greitt fyrir hana með skattpeningum sínum??

Hvernig er hægt að líta á allt báknið sem heldur utan um skrifræði breytinganna, hagræðingarinnar eða endurskipulagningarnar sem meintan sparnað, eða góða nýtingu skattpeninga?

 

Er ekki tími til kominn að tengja við þá einföldu staðreynd að ágallar hins nýja kerfis Ferðaþjónustu fatlaðra eru ekki tilfallandi, heldur óhjákvæmilegir, vegna þeirra vinnubragða að ekki er byggt á genginni reynslu og þekkingu, heldur er öllu því sem læra má á, hent út um gluggann, og þess í stað er vit Exelsins látið um að móta hið nýja, hið hagkvæma, og raunveruleikanum síðan skipað að beygja sig undir forsendur hans og framkvæmd.

Nema raunveruleikinn á alltaf síðasta orðið.

Og orðið klúður kemur æ og æ upp í umræðunni.

 

Og gerir á meðan enginn er lærdómurinn.

 

Að skera niður, að hagræða, að endurskipuleggja.

Þessar þrjár sagnir munnræpast frá því sem næst öllum stjórnmálamönnum okkar í dag nema vera skyldi Ögmundi Jónassyni, enda er þegar búið að taka frá pláss í hillum Þjóðminjasafnsins þegar hann lætur af þingstörfum.  Í hilluplássi sem ætlað er steingervingum, geirfuglum og öðrum fornum fyrirbærum.

Kristallast í hinu vanheilaga bandalagi forheimskunnar og frjálshyggjunnar.

Bandalaginu sem stýrir hinum vestræna heimi í dag.

 

Heilbrigð hugsun búhyggjunnar: að bæta og betra, að sá og uppskera, að byggja upp; er argasta níð og ónefni hjá hinni sömu munnræpu.

Eitthvað sem er úrelt, tengist fortíð, eitthvað sem ól upp og fóstraði þá kynslóð sem er uppúr miðjum aldri og þaðan af eldri.

Eitthvað sem nútímamaðurinn lætur aldrei bendla sig við.

Á tímum þegar guð og góðir siðir eru á safni en peningar og græðgi á stalli.

 

Þess vegna er hugarfarið sem ég minnist á hér að ofan, almennt, þó það sé vissulega sérstakt.

Svo almennt að stjórnmálamennirnir sem ábyrgðina bera, skera sig ekki á nokkurn hátt úr, hvorki úr hópi annarra stjórnmálamanna eða frá kjósendum sínum.

Mötun hinna nýju trúarbragða, peningahyggjunnar, er það djúprist að enginn efast lengur um að Mammon sé æðstur guða, og þjónar hans auki auðlegð og hagsæld með niðurskurði sínum, hagræðingu og endurskiplagningu.

Og mistökin, klúðrið, verri þjónusta, dýrara bákn, verri lífskjör, skuldaánauðin, sífelldar fjármálakreppur; aðeins þyrnar á hinni dýrlegu braut til himnaríkis peninga og peningamanna.

 

Þyrnar sem ekki eru einstakir í sögu hinnar algjöru heimsku hugmyndakerfanna, sæla öreiganna í Sovétinu á sínum tíma átti að nást í gegnum fátækt, örbirgð og kúgunar fjöldans.

Enda eru þær systur, alræði öreiganna og alræði peninganna.

Og stefna að algjörum yfirráðum örfárra yfir fjöldanum.

Áttu það sammerkt að hefja sinn ferill á því að lýsa því yfir að guð kristinna manna væri dauður.

Enda þrífst alræði ekki í heimi þar sem fólk trúir á guð og góða siði.  Hvað þá að það telji sig skylt að gæta bróður síns.

 

Ekkert er nýtt undir sólinni, og Mammon mun falla af stalli líkt og frændi hans Marx gerði á sínum tíma.

Einn daginn verður aftur tekin upp sú iðja að bæta og betra.

Að byggja upp, að hlúa að, að sá og uppskera.

Skynsemin mun kasta tötrum sínum og betlistaf og verða aftur gildandi við stjórn samfélags okkar.

 

Peningahyggjan mun víkja, frjálshyggjan deyja.

Og hin tilbúnu vandamál hagræðingarinnar og niðurskurðar verða minning ein.

 

Og fyrirsögn fréttarinnar stytt í;

"Engin vandamál".

 

Því sem betur fer er heimskan algjör lúser.

Kveðja að austan.


mbl.is Engin vandamál á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Virkilega góður pistill. Er reyndar svo lygilegur að hann ætti að vera súrrealísk skáldsaga, en er því miður sorglega sannur.

Vona að rétt reynist að heimskan tapi að lokum.

Stefán Jónsson (IP-tala skráð) 7.2.2015 kl. 15:20

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Hún er allavega lúser Stefán.

En takk fyrir innlitið, reiknaði ekki með að margir myndu láta sig hafa að lesa niður pistilinn því eins og þú réttilega segir þá er hann súrelísk nálgun á vanda sem ég upplifi að sé alltaf að koma fyrir aftur og aftur.

Ásamt því að vera kominn með ofnæmi fyrir orðinu "hagræðing".

Lofaði kaffigesti mínum í vikunni að bögga hana aðeins, greip því gæsina sem dægurumræðan gaf.

Mér til ánægju, og ekki verra ef fleiri hafi haft gaman af.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.2.2015 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 459
  • Frá upphafi: 1412821

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 398
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband