Hreppaflutningar hinir síðari.


Í boði formanns nýstofnaðra samtaka fyrirtækja í sjávarútveginum.
 
Eins og það sé eitthvað skrýtið að fleira sé hagrætt en kvótinn.
 
 
Það er ekki skrýtið, það er rökrétt.
 
Það skrýtna í málinu er að fólk sem hefur til valda Snata fjármagnsins, skuli vera hissa þegar þeirra meðöl hittir það sjálft fyrir. 
 
Hvort sú hissa leiði til frekari mótmæla á eftir að koma í ljós, til dæmis gætu aðrir byggðakjarnar áttað sig á að hið beiska meðal hagræðingarinnar stendur öllum til boða, og er í raun eina meðalið sem í boði er.
 
 
Skrýtnara er samt takleysi forframaðra manna að bögga fleiri en eitt byggðarlag í einu.
 
Hefði það minnsta verið skorið, þá hefðu íbúar stærri byggðakjarna samsinnað sig hagræðingarrökum  frjálshyggjunnar.  
 
Hún er þannig séð skynsamleg þegar hún bitnar á öðrum.
 
Er það til dæmis ekki ósköp notalegt að lifa góðu lífi á arðráni þrælavinnuafls í bláfátækum löndum Fjarskaistan???   Eða fylltust ekki fjárhirslur af gulli þegar þúsundir eigna á landsbyggðinni urðu verðlausar í kjölfar kvótahagræðingu sægreifanna???
 
Grímurnar tvær birtast aðeins þegar Mammon er fóðraður á manns eigin blóði, þá birtist efinn, og jafnvel mótmælin í kjölfarið.
 
 
Í árdaga frjálshyggjunnar var víða reitt til höggs, vissulega með góðum árangri, en lýðræðið sú skrýtna skeppna var illa taminn og vildi refsa frjálshyggjunni með skóggangi.
 
Síðan þá hefur lýðræðið verið tamið og í dag er í flestum vestrænum löndum aðeins einn flokkur í framboði.  Reyndar í mörgum deildum, sem bera mismunandi nöfn, en með sömu hugmyndafræði, lúta sama valdinu.
 
Samt þarf að sýna vissa aðgát,  hin skrýtna skepna er ennþá óútreiknaleg.  
 
Offors og yfirgangur vilja oft vekja upp andspyrnu, mótspyrnu.
 
Mótmæli og jafnvel refsingu.
 
 
Og þetta  veit flokkurinn, þetta veit flokksforystan.
 
Hægt og hljótt er hennar söngur.
 
 
Þess vegna er gönuhlaup hins nýja formanns dálítið skrýtið því þingmaðurinn sem hann gengur með í maganum átti að fæðast 2017.
 
Einörð mótmæli fórnarlambanna, og hugsanlegur stuðningur verðandi fórnarlamba, gæti gert þá fæðingu mun erfiðari.
 
Og jafnvel komið í veg fyrir hana, því á meðan kokgleyping þjóðarinnar stendur yfir, þá hefur valdið ekki efni á taktlausum krökkum.
 
Þeirra tími er liðinn, árdagar frjálshyggjunnar eru löngu liðnir.
 
 
Þess vegna munu mótmæli skila árangri, það er ef einhver nennir að mótmæla.
 
Og þessi mótmæli gætu seinna meir verið talin tímamótamótmæli, þau síðustu gegn hagræðingunni sem valdið hlustaði á.
 
 
Hver veit,  hver veit?
 
Þau gætu líka orðið þau fyrstu af mörgum gegn hinni dauðu hönd frjálshyggjunnar.
 
Þess vegna er taktleysið svo skrýtið, vekur upp spurninguna um dómgreind þeirra sem eiga og stýra sjávarútveginum.
 
 
Þar syngja menn ekki hægt og hljótt.
 
Kveðja að austan. 
 
 
 
 
 
 
 
 

mbl.is Vilja ekki flytja nemendurna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar og velkominn aftur á bloggið.

Það er margt satt í þessum pistli þínum og ekki bregst orðfærið hjá þér. Vissulega má margt slæmt segja um frjálshyggjuna, sérstaklega nýfrjálshyggjuna. Hvort sá sem nú mun taka við yfirvaldi sjávarútvegs á landi og legi, er sýktur nýfrjálshyggju þekki ég ekki, þekki engin störf þessa manns. En ef svo er, er ekki von á góðu. 

Hvað frjálhyggja eða nýfrjálshyggja á tengt við þá frétt sem þessi pistill þinn er hengdur við, átta ég mig ekki. Þarna er verið að tala um að sameina kennslu tveggja ellstu bekkja grunnskóla á Austurlandi. Vegalengdin sem börnin þurfa að ferðast er mest 40 km.

Víða um land þurfa börn að ferðast lengri leið en þetta, ekki bara ellstu börn grunnskóla, heldur alveg niður í fyrsta bekk. Veðurfar og færð á sumum þessara staða er engu betri en á Austfjörðum. Sum staðar hefur þetta fyrirkomulag verið í áratugi, eða frá því heimavistir voru aflagðar, annarstaðar hefur fjárskortur sveitarfélaga valdið því að þau neyðast til sameiningar á skólastarfi.

Nú þekki ég ekki hvernig þessu hefur verið háttað þarna fyrir austan og því síður fjárhag sveitarfélaga þar. En ég á erfitt með að vorkenna þessum elstubekkingum smá ferðalag til og frá skóla. 

Kannski er staða sveitarfélaganna þarna góð og kannski er ástæða sameiningar skólastarfs til þess eins að peningum geti verið varið til annarra og veigaminni verkefna. Sé svo, má vissulega kalla þetta frjálshyggju, jafnvel nýfrjálshyggju.  

Gunnar Heiðarsson, 3.11.2014 kl. 12:11

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar.

Það er lágmarksrefsing fyrir þann asnaskap að hafa forvitnast hvort þetta blogg virkaði ennþá, að láta alla pistla falla að ósum frjálshyggjunnar, eða allt þar til ég lem saman leshæfum pistli um Hægt og hljótt, sem verður vonandi í fyrramálið, því langir lífdagar fara ekki vel uppvakningum.

Áður en lengra er haldið þá verð ég að leiðrétta þig lítillega, það má ekki margt slæmt segja um frjálshyggjuna, hún er slæm, í eðli sínu, ill, enda upphaflega sprottin af þeirri viðleitni þess í neðra að skapa um sig ný trúarbrögð. Sem mistókst reyndar hrapalega, enda hefur hann fyrir löngu þvegið hendur sínar af þessum óskapnaði.

Einnig verð ég að leiðrétta þann misskilning þinn að fréttinn fjalli um sameiningu eldri bekkja grunnskóla hér í Fjarðabyggð. Fréttinn fjallar um mótmæli vegna þeirra, og augljóst að þau mótmæli eru tilefni pistils míns, ég varpa ljósi á þá satíru að fólkið sem hóf formanninn til valda í Fjarðabyggð, fúlsar mjög við meðölum hans, þegar það sjálft þarf að taka þau inn.

Hefði ég séð ástæðu til að fjalla efnislega um þessa sameiningu, þá hefði ég að sjálfsögðu tengt við frétt þar um. Og efnislega hefði ég bent á að Eskfirðingum væri engin vorkun að senda börn sín til Reyðarfjarðar, það gæti þeim meira að segja verið til góðs, því allir sem þekkja til mála vita að Grunnskólinn á Eskifirði sérhæfir sig í að útskrifa börn sem eru óalandi og óferjandi.

En ég gerið það ekki því ég er ekki lesinn local, og því ekki fyrirhafnarinnar virði að standa í ergingum við mína ágætu nágranna. Sem og hitt að málið er of alvarlegt til að hafa það í flimtingum, hið alvarlega í málinu er Náðarhöggið sem á að greiða Stöðvfirðingum. Og hinn meinti hagnaður er fljótur að étast upp þegar menn bregðast við þeim afleiðingum.

Varðandi rök þín Gunnar um ávinning af hagræðingum ýmiskonar að þá gleyma því þeir oft sem trúa á ávinning hagræðingar, að hin eina sanna hagræðing, sú sem toppar alla hagkvæmi, það er hagkvæmi reiknistokksins, er ein allsherjar búseta mannsins, á þegar ónumdu landi þar sem allt er hægt að hanna út frá grunni hagkvæminnar, og kostar þar að auki lítið per fermeter.

Það er á sjálfri Sahara eyðimörkinni og líklegast í einu stóru húsi.

Og okkar framlag, okkar skref gæti verið að hanna eitt stórt hús í Breiðholti fyrir alla þessa þorpara landsbyggðarinnar sem eru ekkert annað en kostnaður, og ef hagræðingartrúin er ennþá jafn sterk, þá má byggja annað, miklu stærra á víðáttum öræfanna og hýsa þar alla þjóðina.

Og sparnaðurinn gæti verið ljósið sem fengi allan heiminn til að stefna að hagræðingunni einu.

Mannlíf, hvað er það???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.11.2014 kl. 15:17

3 identicon

"Og efnislega hefði ég bent á að Eskfirðingum væri engin vorkun að senda börn sín til Reyðarfjarðar, það gæti þeim meira að segja verið til góðs, því allir sem þekkja til mála vita að Grunnskólinn á Eskifirði sérhæfir sig í að útskrifa börn sem eru óalandi og óferjandi."

Hvernig færðu þetta út Ómar minn?
Eru ég og konan þín óalandi og óferjandi?

Kv. Maria Lind.

Maria Lind Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2014 kl. 23:23

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð María mín.

Takk fyrir að koma hérna inn, þó seint sé, bloggið löngu sofnað.

En vænna hefði mér þótt að þú hefðir komið inn vegna efnisatriða pistilsins, sem annars vegar er pínu pons háð á frjálshyggjuna í Sjálfstæðisflokknum og hins vegar hið grafalvarlega mál að fólk mótmælir sjaldnast niðurskurði nema það lendi sjálft í honum.

Virðist eiga erfitt með að setja sig í spor náungans, sérstaklega ef náunginn á heima í eða tengist einhverju sem er "smærra".

En það er ekki á allt kosið í bloggheimum og svo sem á maður ekki að hrista hausinn yfir viðbrögðum fólks vegna einhvers sem er sagt í umræðu í athugasemdarkerfinu.

En þar sem þetta ert þú María Lind, þá skal ég gefa mér tíma núna fyrir náttmál, og útskýra fyrir þér hvernig svona blogg virkar.

Við sem bloggum hérna á Moggablogginu eigum okkar föstu lesendur og fjöldi þeirra tengist því hvernig fólk samsinnar sig skoðunum okkar, efnistökum, framsetningu og svo framvegis.

Föstu lesendurnir vita af hverju þeir ganga, þeir taka þátt í umræðu eftir því hvernig liggur á þeim, og við sem skrifum pistlana, þekkjum okkar fólk, og þeir þekkja okkur.

Umræðan er milli þeirra einstaklinga sem taka þátt í henni, hún er vissulega öllum opin til lestrar, en skoðanaskiptin eru á milli þeirra sem taka þátt í þeim.  

Ég sem pistlahöfundur þarf oft að verja pistla mína og efnistök, og í sjálfu sér fer það eftir viðmælanda mínum hvernig ég tekst á við það hverju sinni.  

Í þessu tilviki hér að ofan er ég að svara ágætum manni sem ég hef oft spjallað við áður.  Hann þekkir mig út og inn, bæði pistla mína sem eru hugsaðir sem málefnalegt innlegg í umræðuna, og aðra pistla þar sem ég er augljóslega að stríða, bæði í merkingunni að stríða fólki, sem og að ég stend í stríði út af einhverju máli eða málefnum.  Hann las jú fyrsta pistil minn, "Í upphafi skyldi endinn skoða" þar sem ég tók það skýrt fram að þetta blogg mitt væri skæruliðablogg, hugsað til að herja og lemja á valdhöfum.  

Við Gunnar vorum samstíga í ICESave átökunum, sem og í harðskeyttri gagnrýni á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, en eftir að hans menn komust í ríkisstjórn, þá er hann ekki alltaf sammála framsetningu minni og mætir hér oft og spjallar um það sem hann telur að mætti réttara vera. 

Gunnar er vel læs á þetta blogg, og skildi allar pílur mínar hér að ofan, og kaus því að taka fyrir þann veikleika að ég fjalla ekki efnislega um hvort þessi meinta hagræðing meirihlutans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar eigi hugsanlega sínar málsbætur. Og sé jafnvel skiljanleg út frá ákveðnum forsendum.

Sem er alveg rök í sjálfu sér.

En ég nennti ekki að ræða þær forsendur, því pílur mínar á frjálshyggjuna voru eiginlega aðalatriði pistilsins.  Og hafði engan áhuga að beina athyglinni frá þeim pílum.

Þess vegna snéri ég mér út úr því á þann hátt sem ég gerði, að benda Gunnari á að fréttin fjallaði um mótmæli, og ef ég hefði verið að fjalla um hina meintu hagræðingu, þá hefði ég að sjálfsögðu ekki setið á strák mínum, stráksskap sem Gunnar þekki mjög vel til því eins og ég segi, þá hefur hann lesið blogg mitt áður, svona á þriðja þúsund pistla telst mér til þegar upp er staðið, auk þúsunda innslaga í athugasemdarkerfinu, heldur tekið þann pólinn í hæðina að ergja nágranna mína.

Því eina sem er bannað á þessu bloggi er lognmolla.  

Mér leiðist nefnilega ekki að ergja fólk, en held mig yfirleitt við stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. 

Að sjálfsögðu þurfti ég ekki að hafa mörg orð um þetta María Lind,  en ég hafði þau þó nokkur samt.

Og þau orð á að lesa í samhengi, ekki að grípa eina setningu úr samhengi.

Og það sem ég sagði við Gunnar var þetta;

"Hefði ég séð ástæðu til að fjalla efnislega um þessa sameiningu, þá hefði ég að sjálfsögðu tengt við frétt þar um. Og efnislega hefði ég bent á að Eskfirðingum væri engin vorkun að senda börn sín til Reyðarfjarðar, það gæti þeim meira að segja verið til góðs, því allir sem þekkja til mála vita að Grunnskólinn á Eskifirði sérhæfir sig í að útskrifa börn sem eru óalandi og óferjandi.

En ég gerið það ekki því ég er ekki lesinn local, og því ekki fyrirhafnarinnar virði að standa í ergingum við mína ágætu nágranna. Sem og hitt að málið er of alvarlegt til að hafa það í flimtingum, hið alvarlega í málinu er Náðarhöggið sem á að greiða Stöðfirðingum. Og hinn meinti hagnaður er fljótur að étast upp þegar menn bregðast við þeim afleiðingum.".

Ég tek það fram að ég er að tala við Gunnar, þessi tilvitnuðu orð þín koma ekki fram í pistli mínum, og hann skilur vel merkingu orðasambandsins "að hafa eitthvað í flimtingum", og hann skilur örugglega orð mín  hér að ofan á þann hátt að ef mér þætti málið ekki grafalvarlegt, það er "náðarhöggið" gagnvart byggðinni á Stöðvarfirði, þá hefði mér alveg verið trúandi til að skrifa einhvern pistil sem hefði þann eina tilgang að erta og stríða mínum ágætu nágrönnum hinum megin við fjallið.  Sérstaklega vegna míns stóra frændgarðs þar sem og eins og þú bendir réttilega á, þá er ég giftur inní rótgróna Eskfirska ætt.

En Gunnar veit líka María Lind að ég er nógu ritfær til að gera það á þann hátt að þeir sem láta ertast eða ergjast eins og ég orðaði það víst, geta ekki hankað mig á svona alhæfingu.  Vegna þess að þær gefa alltaf andmælendum vígstöðu til að svara fyrir sig.  

Með öðrum orðum, hann hefði alveg getað trúað mér til þess.

Það sem hann vissi hins vegar ekki, er að ég hefði aldrei skrifað svoleiðis pistil, einmitt vegna þeirra tengsla sem þú réttilega bendir á.

Maður heldur jú friðinn við sitt heimafólk.

Og þar með tók hann athugasemd mína góða og gilda, hélt ekki áfram að benda á hina augljósu veikleika rökfærslu minnar.

Sem er að þessi ákvörðun Jens Garðars og félaga gat verið skynsamleg, og ef hún er skynsamleg, þá er frjálshyggjutenging mín dulítið út úr kú.

Ég treysti því hins vegar María Lind að Gunnar sé hættur að lesa, að þessi nýtilkomni  áhugi á þessum pistli fari algjörlega framhjá honum, annars er ég ekki í góðum málum, eftir að hafa útskýrt fyrir þér gang mála á þessu bloggi mínum, sem alveg óvart vaknaði við einhverja sprengingu fyrir um hálfum mánuði síðan, og var þá aðeins hugsað til að auka þrýsting á ríkisstjórnina vegna ósveigjanleika hennar í læknadeilunni.

Að lokum María Lind verð ég að benda þér á eina augljósa rökvillu sem hefur kviknað hjá þér þegar þú last þessa "útslitnu" setningu.

Sem er, að ef einhver skóli sérhæfir sig í að útskrifa óalandi og óferjandi nemendur, að þá felst ekkert í þeirri fullyrðingu um útkomuna. 

Það er hvernig nemendurnir eru sem útskrifast.

Bæði geta nemendur verið mismóttækilegir fyrir kennslu, hvort sem það er að læra að lesa texta, eða tileinka sér hegðun sem er óalandi og óferjandi, sem og að skólinn sjálfur getur verið mjög mistækur í að framkvæma markmiðasetningu sína, hvort sem það er að kenna Eskfirðingum að lesa texta, eða kennum börnum að vera óalandi og óferjandi.

Ég þekki til dæmis nokkur börn á Eskifirði sem eru ekki óalandi og óferjandi, og mér skilst víst að til sé stór hópur á Eskifirði sem er ekki vel læst á efni sem fellur til í bloggheimum.

Ég gæti samt alhæft að Eskifjarðarskóli sérhæfði sig í að útskrifa fólk sem er læst á texta, eða börn sem er óalandi og óferjandi.  Því sú alhæfing hefur ekkert með útkomuna að gera.

Veikleiki hennar felst í forsendum hennar.

En að ég sé að eyða tíma mínum í það!!!

Hvernig dettur þér það í hug María Lind mín????????

Kveðja úr næsta nágrenni.

Ómar Geirsson, 14.11.2014 kl. 01:06

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð aftur María Lind.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að ég svaraði þér í gærkveldi, hef ég fengið útskýringar á (gettu frá hverjum?) af hverju þú fékkst þá flugu í hausinn að ég teldi bæði þig og Guðnýju óalandi og óferjandi.  Ég hélt að þú værir að fíflast í mér eftir að einhver á feisinu hefði rekið nefið í þessa setningu og þú síðan ákveðið að atast í mér.  

Hafði hreinlega ekki hugmyndaflug að hægt væri að efna til múgæsingar út af tveggja manna tali hér á bloggsíðu minni.

En það er víst raunin og skýrir hina miklu umferð sem er hér á bloggsíðunni í gær og í morgun.

Þess vegna ætla ég að draga efnisatriði þess sem ég sagði í mínu löngu máli hér að ofan, í númeruð efnisatriði, ef ske kynni að einhver læsi sem ætti erfitt með að tileinka sér efnisatriði texta sem settur er fram í löngu máli með mörgum útidúrum.

1. Í fyrsta lagi María Lind þá hef ég hvergi sagt að grunnskólabörn á Eskifirði séu óalandi og óferjandi.  Pistill minn fjallar um allt annað, og á aðeins einum stað slæ ég fram alhæfingu sem hægt er að tengja við íbúa Eskifjarðar.  Og þá með hliðsjón að fréttin sem ég tengi við fjallar um ályktun Íbúasamtaka Eskifjarðar.

Það skrýtna í málinu er að fólk sem hefur til valda Snata fjármagnsins, skuli vera hissa þegar þeirra meðöl hittir það sjálft fyrir

Ég hef náttúrulega ekki hugmynd um pólitískar skoðanir þeirra sem mótmæla hinum fyrirhugaða niðurskurði.

2. Setningin sem þú grípur á lofti er slitin úr samhengi þar sem ég svara andmælum viðmælanda míns á þann hátt að ég hefði ekki fjallað efnislega um þessa hagræðingu Fjarðabyggðar því fréttin hefði ekki fjallað um hana, heldur mótmælin við henni.

Ég sagði honum hinsvegar að ef ég hefði pistlað um slíka frétt, að þá hefði ég tekið undir hana á þeim forsendum sem tilvitnuð setning þín vitnar í.

3.  Það á ekki að þurfa að útskýra fyrir fullorðnu fólki María Lind að ég er að fíflast í tveggja manna tali, nánar til tekið að benda viðmælenda mínum á að ég vilji ekki fjalla um þetta mál sem er grafalvarlegt fyrir nokkra íbúakjarna í Fjarðabyggð, á þessum nótum hagræðingar.  Fyrir utan það að það er takmörk á allri trúgirni fólks, að þá veit viðmælandi minn að ég hefði aldrei fjallað um þessa hagræðingu á þessum nótum, því hann þekkir til skrifa minna og veit engin þess dæmi í mínum pistlum að ég noti slík efnistök.

4.Síðan er það alvarlegur skortur á rökhugsun að tengja þessa fullyrðingu " að Grunnskólinn á Eskifirði sérhæfir sig í að útskrifa börn sem eru óalandi og óferjandi" við þig eða Guðnýju, eða nokkurn annan sem útskrifast út Grunnskólanum á Eskifirði.  

Bæði er tímalína hennar í núinu og segir ekkert til um hve langt hún nær aftur, sem og hitt að hún fjallar um gjörðir Grunnskólans á Eskifirði, ekki börnin sem hafa verið í honum.

Þó þú tínir til öll börnin sem eru í honum í dag, og færir fyrir því óhyggjandi rök að þau séu vel upp alin og til fyrirmyndar í alla staði, sem og að þú tínir til öll börn sem hafa verið í honum, þess vegna allt frá árdaga skólans, þá hnekkir sú rökfærsla á engan hátt þessari alhæfingu. Staðfestir aðeins þá meinta vanhæfni skólans í að útskrifa óalandi og óferjandi börn.

5.  Alhæfingin fellur hins vegar um sjálfa sig ef sármóðgaður kennari kæmi inní athugasemdarkerfið og spyrði um rökin fyrir þessari alhæfingu.  Þó börnin væru misjöfn eins og gengur, þá vissi hann ekki til þess að hann ynni eftir þessum markmiðum.  Og þá reikna ég með að yrði fátt um svör hjá þeim sem setti fram svona alhæfingu.

Alhæfingu sem hvarflar ekki að mér að setja fram, ekki vegna þess að málið er mér skylt, heldur vegna þess að ég gæti engan veginn staðið við hana í rökræðum.

Því eins og allar aðrar alhæfingar, þá er hún svo augljóslega röng.

Nei, María Lind, þú ert ekki óalandi og óferjandi.

En þú ert dálítið trúgjörn, og ert svag fyrir múgæsingu.

Það getur samt hent besta fólk, og taktu það ekki mjög nærri þér.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 14.11.2014 kl. 09:21

6 identicon

Ómar gætir þú ekki svarað henni Maríu Lind málefnalega og kannski í aðeins fleiri orðum :)

Boggi Tona (IP-tala skráð) 14.11.2014 kl. 13:03

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Boggi.

Í sjálfu sér er ekki hægt að svara fólki sem kýs að misskilja hluti á annan hátt en þann að útskýra fyrir því um hvað málið snýst.  Stundum er það þannig að sumt er sagt í fleirum en tveimur setningum, en í ljósi þess að hin útúrsnúna setning er grafin langt inní löngu liðnum bloggpistli, í athugasemd sem er löng og tyrfin, og fjallar um allt annað en það sem fólk hnýtur um, að þá er því engin vorkunn að lesa hið lengra mál, ef það á annað borð vill vita hið rétta i málinu.

Það er ekki þannig að ég sé beint að blogga um ástand Grunnskólans á Eskifirði eða reyna að útvega mér kúlu á hausinn af völdum kökukeflis heima fyrir.

Þar sem það vill svo vel til að ég þekki Maríu Lind, og veit að hún er fullfær um að mæta hér og benda mér á eitthvað sem hún telur ómálefnalegt, og þarf ekki neinn snata til þess, þá velti ég fyrir mér hvað þú ert að gera hérna Boggi með gálgahúmor þinn??

Hélstu að þú væri að uppgötva þessa fyndni í fyrsta sinn og teldir þig því knúinn til að finna bloggara sem hefur aldrei heyrt hana áður, eða ertu á því að það sem þér finnst mjög fyndið, eigi skilið sína tækifæri til að heyrast, og að þú hafir núna séð færi sem þú þurftir að skora úr??

Ég hef nefnilega alveg hugmyndaflug til að skilja hvatir þínar og get alveg rætt þær, því skyldmenni Bárðar hafa áður kíkt við á þessu bloggi, og leyft mér að vera memm í þankagang sínum.

Svo orðið er frjálst Boggi, ég kíki aftur við hér seinnipartinn í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.11.2014 kl. 13:45

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja Boggi, það liggur við að ég hafi orðið hissa að sjá að þú nýttir þér ekki hið frjálsa orð.

Til að tjá þig.

Því hér var í boði skilningur á þankagang þínum.

En það er víst svo að ekki er öllum gefið hugrekki hinnar norðfirsku skjaldmeyjar sem þú hélst að væri ekki læs á mikið fleiri en tvær setningar.

Og vitandi það, þá náði ég ekki að verða hissa, en reyndi samt, alveg satt.

Veit að þú munt reyna aftur, og aftur, og þetta mun örugglega allt koma hjá þér.

Sannaðu til.

Þetta er hægt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.11.2014 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 451
  • Frá upphafi: 1412813

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 390
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband