3.1.2014 | 08:01
Er nýtt gullæði í uppsiglingu??
Á hlutabréfamarkaði og öðrum pappírsviðskiptum?
Maður spyr sig þegar svona fréttir berast.
Algjöru hruni fjármálamarkaða var vissulega afstýrt með inngripum seðlabanka bæði vestan hafs og austan, en leikreglum spilavítanna var ekki breytt.
Svo af hverju ætti gamblið ekki að halda áfram??
Af hverju ætti frjálshyggjan ekki að hafa sinn gang.
Stela sífelt meir úr raunhagkerfinu og láta svo skuldir sínar falla á almenning.
Kerfinu hefur hvergi verið breytt.
Þjónar hinna Örfáu stjórna Vesturlöndum, samþjöppun auðs með aukinni fátækt fjöldans er það eina sem er í spákortunum.
Hér á Íslandi lútum við stjórn þeirra, hert er að almenningi með auknum álögum skatta og vaxtaokurs.
Almannasjóðir eru rændir til að fjármagna vaxtaspilavítið.
Verðtryggingin sýgur til sín alla eignamyndun einstaklinga og fyrirtækja, eina sambærilega dæmið um slíkt arðrán er þjóðnýting Leníns eftir valdatöku kommúnista í Rússlandi á sínum tíma.
Lénsherrar fjármagnsins yfirtaka hvert fyrirtækið á öðru, njóta til þess aðstoðar Seðlabankans með hinni svokölluðu fjárfestingarleið sem er fínt nafn yfir þjófnað fjármagns.
Allt er við sama og fyrir Hrun, spilavítið hefur verið reykhreinsað og bíður gesta sinna, hinir Örfáu munu fylla sali þess.
Þjóðin hímir döpur á spilaborðinu, hún er lögð undir í gambli eignar og auðs. Eigur hennar, samfélag, lífsafkoma.
Það er kallað á sátt um þetta gambl.
Sátt um nýtt rán, sátt um hina endanlega örbirgð fjöldans.
Sátt um algjör yfirráð fjármagns, að launatekjur séu afgangsstærð þegar vextir og verðtrygging hafa fengið sitt.
Sátt um ónýta innviði, sátt um stóriðju og arðrán náttúrunnar, sátt um lénskerfi kvótaeiganda, sátt um þjóðfélag húsbænda og hjúa.
Sátt um leiguokur og matarbiðraðir, sátt um skemmdar tennur og vont mataræði.
Og sátt um nýtt gullæði hinna örfáu.
Ekki má gleyma því þó ekki hafi verið minnst á það í sáttarræðum valdsmanna.
Og þjóðin er sátt, það er það fyndna í stöðunni.
Hún vill ekki breytingar, vill hafa það sem hún þekkir, og óttast ekki stigann sem klifinn er til sæluríkis hinna Örfáu.
Hún lifið af síðasta Hrun, og óttast ekki hið næsta.
Þetta reddast, þetta reddast.
Það er herinn sem er vandinn.
Og lausnin er í sjónmáli.
Björt Framtíð um evru og herlaus borg.
Og fátt við því að segja.
Það eru engar byssur sem knýja þjóðina áfram.
Það eru engar byssur sem skapa sáttina.
Það er lýðræði.
Það erum við.
Kveðja að austan.
Gullverð hrundi árið 2013 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 295
- Sl. sólarhring: 787
- Sl. viku: 6026
- Frá upphafi: 1399194
Annað
- Innlit í dag: 253
- Innlit sl. viku: 5108
- Gestir í dag: 238
- IP-tölur í dag: 235
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Fylgstu með peningunum sem flæða í orkugeiranum
Watergate-"follow the money" eða hverjir hafa efni á klárustu lögfræðingunum sbr.
http://orkustofnun.is/orkustofnun/frettir/nr/1523
Grímur (IP-tala skráð) 3.1.2014 kl. 20:30
Þetta myndband segir það sama. Og meira. Hrún er á leiðini.
http://www.wimp.com/economicsituation/
Andrés.si, 4.1.2014 kl. 03:49
Sæll.
Það er pottþétt blaðra að myndast á hlutabréfamarkaðinum enda engin innistæða fyrir hækkunum þar því atvinnuleysi er mikið og almenningur skuldsettur sem hefur augljóstlega neikvæð áhrif á getu almennings til að kaupa vöru og þjónustu. Spurningin er hins vegar hvers vegna myndast þessi bóla? Hverjir skyldu nú blása hana upp? Þegar hún springur lendum við í slæmri kreppu og þá skiptir mjög miklu að menn kunni að bregðast rétt við. Keynsismi hefur komið okkur í þessi vandræði.
Ef fyrirtæki geta látið skuldir sínar falla á almenning er það vegna þess að stjórnmálamenn hafa ákveðið að hlaupa undir bagga og slíkt heitir hvorki frjálshyggja né kapítalismi. TARP er gott dæmi um þetta. Slíkt heitir pilsfaldakapítalismi. Þetta er ég búinn að segja þér oft og þér er í lófa lagið að fletta þessu upp - kallað crony capitalism á ensku ef ég fer rétt með. Frjálshyggjan mælir fyrir frálsum mörkuðum en í dag eru þeir ekki frjálsir heldur er þeim miðstýrt. Hverjir heldur þú að stýri mörkuðum?
Já, allt er líkt og fyrir hrun og því mun annað hrun eiga sér stað innan ekki svo langs tíma. Já, almannasjóðir eru tæmdir vegna þess að menn sem vilja stöðugt reka hið opinbera með tapi stjórna og hafa stjórnað í of langan tíma. Það kostar að skulda og einhvern tíman þarf að borga lán til baka með vöxtum. Of margir virðast ekki átta sig á því og fara þá að bölsóttast út í þá sem lánuðu. Merkileg illskan í þeim sem vilja fá sitt fé til baka.
Okkur eru nánast allar bjargir bannaðar vegna gjaldþrota hugmyndafræði og misskilinnar umhverfisverndar - talað er um arðrán náttúrunnar og fleira slíkt. Ekki má virkja og LV heimtar orkuverð sem er fullkomlega óraunsætt. Þeir sem skapa verðmæti eru nánast ofsóttir og ofurskattar lagðir á þá.
Menn djöflast í útgerðinni án þess að átta sig á því að hugtakið "þjóðareign" er lagalega algerlega merkingarlaust. Skynsamir menn eru sjálfsagt hræddir við að fjárfesta í útgerðinni þegar aðstæður geta breyst með skömmum fyrirvara. Það hefur neikvæðar afleiðingar fyrir greinina og þjóðarbúið.
Ef LV menn hefðu nú haft nógu mikið bein í nefinu til að semja um raunhæft orkuverð væri sennilega núna verið að byggja álver á Bakka og gagnaver á Suðurnesjum. Fólk fengi vinnu og hið opinbera skatttekjur þannig að það gæti staðið mannsæmandi að rekstri heilbrigðiskerfisins. Orkusölumarkaðurinn er samkeppnismarkaður eins og gagnaversmenn sýndu með því að fara og taka sitt fé með sér. Aðrir fá þá vinnu og þakka ég LV kærlega fyrir að klúðra þessu máli. Þessi mistök HA og LV kosta almenning mikið bæði í glötuðum skatttekjum sem og glötuðum störfum.
Ef við eigum að hafa sæmilegan möguleika á að standa næsta hrun sæmilega af okkur þurfum við að framleiða mikið af verðmætum og þurfum að lokka til okkar erlenda fjárfestingu. Stór opinber geiri er gífurlegt vandamál viða á Vesturlöndum og alltof margir sem átta sig ekki á því að hið opinbera framleiðir ekki verðmæti - það gerir bara einkageirinn.
Helgi (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 15:19
Skynsemi
http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/
Skynsemi og gagnsær rekstur getur gefið mikinn auð og blessun.
Ríkisfyrirtæki geta og hafa skapað mikil gæði og miklar tekjur til Íslendinga.
En, gæta mjög vel að því að reka þau skuld lítil.
Greiða sem minnst, helst ekkert til fjárfesta.
Sett á bloggið hjá Halldóri Jónssyni.
http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1343065/#comments
Helgi, ég vil mynna þig á KREPPUFLÉTTUNA, fyrst VERÐBÓLGU og svo VERÐHJÖÐNUN.
Lestu bloggið hjá mér.
Við skulum muna eftir Rarik, Rafmagnsveitum Ríkisins, og Landsvirkjun,
og svo öllum hitaveitum landssins, með "OR" Orkuveitu Reykjavíkur
sem samnefnara.
Þessar orkulindir hafa skapað okkur ómæld gæði í áratugi.
Við skulum muna að þessi fyrirtæki hafa framleitt mikil verðmæti, gæði fyrir okkur.
Við skulum muna að Ríkis og Bæjarfyrirtæki geta og hafa skapað okkur mikinn auð og mikla blessun.
Við erum að sjálfsögðu ekki á móti einkafyrirtækjum, sem skapa ódýra vöru og þjónustu.
---
Það var einhver í útvarpinu fyrir fáum dögum, að segja að greiðslan fyrir upphitun í Svíþjóð væri ca. 8 sinnum greiðslan á Íslandi
og í Noregi væri greiðslan fyrir hitan ca. 12 sinnum það sem er greitt á Íslandi.
Annan hitti ég sem sagði að sínir ættingjar greiddu ígildi 110 þúsund íslenskra króna á mánuði, fyrir hitan, orkuna á norðurlöndum.
Þessi lága greiðsla, þessi miklu hlunnindi koma trúlega fram sem minni framleiðni hjá orkufyrirtækjunum og þá á Íslandi.
Egilsstaðir, 04.01.2014 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 5.1.2014 kl. 00:34
„.....og alltof margir sem átta sig ekki á því að hið opinbera framleiðir ekki verðmæti - það gerir bara einkageirinn.“ Ríkið gegnir mikilvægu hlutverki í verðmætasköpun samfélaganna. Það gerir það m.a. gegnum velferðarkerfið með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun og er hvoru tveggja grundvallaratriði þegar kemur að velmegun þjóðanna. Aftur á móti getur báknið sem slíkt verið of stórt og reglugerðarfarganið getur hæglega dregið máttinn úr framtakinu og gef ég mér að það er það sem þú átt við þegar þú segir: „Stór opinber geiri er gífurlegt vandamál víða á Vesturlöndum....“ Hvað ísland varðar og reglugerðarfarganið, þá er það vandamál upprunnið í EES - samningnum með afreglun í fjármálageiranum annarsvegar og reglugerðarfrumskógi gagnvart einyrkjum og smáum fyrirtækjum hinsvegar. Þetta hefur valdið 95% þjóðarinnar miklum búsifjum en fært örfáum auðmönnum og þjónum þeirra, stærstu fyrirtækin og stóran hluta af náttúruauðlindunum. Þetta er þróun sem á sér stað í skjóli frjálshyggjunnar (eða með frjálshyggjuna sem yfirvarp ef þér líkar það orðalag betur) og sér ekki í endann þeirri þróun.
Toni (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 09:32
....og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun vildi ég sagt hafa.
Toni (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 09:35
@5: Sæll.
Hið opinbera framleiðir ekki verðmæti. Það hefur nokkru hlutverki að gegna í mannlegu samfélagi en framleiðir ekki verðmæti. Um leið og þú áttar þig á þessu mun skilingur þinn á efnahagslífinu aukast verulega.
Ef það framleiddi verðmæti ættu lönd með stóran opinberan geira að verða stöðugt ríkari. Því er hins vegar ekki að heilsa heldur sökkva slík lönd sífellt dýpra í skuldafen og slíkt hefur afleiðingar - sem senn koma í ljós.
Frjálshyggjan hefur ekkert með komandi kreppu að gera og hefur heldur ekkert með sístækkandi opinberan geira og sístækkandi opinberar skuldir að gera.
EES samningurinn hefur líka neikvæðar afleiðingar fyrir okkur eins og þú bendir réttilega á. Ég sjálfur held við ættum alvarlega að losa okkur út úr honum. Langstærstur hluti þeirrar erlendu fjárfestingar sem hingað hefur komið hefur komið frá N-Ameríku.
Helgi (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 10:55
Takk fyrir innlitið félagar.
Ágætar umræður hér en ég get ekki annað en glott Helgi þegar ég les andstæðurnar í málflutningi þínum, bölsóttast út í ríkið út í eitt, síðan vilt þú niðurgreiddan ríkiskapítalisma á kostnað almennings.
Hins vegar fær það því ekki breitt, að hafa skoðanir, og hafa kjark til að tjá þær, er forsenda þess að þjóðin lyfti heljartakinu sem á henni hvílir þessa dagana.
Þó umræðan hér sé ekki fjölmenn, þá er hún góðmenn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.1.2014 kl. 22:53
@8:
Ekki skil ég hvernig þú færð það út, ágæti Ómar, að ég vilji niðurgreiddan ríkiskapítalisma á kostnað almennings. Ég hef hvergi sagt neitt slíkt né ýjað að slíku. Er nú ekki orðið tímabært að hætta að gera mér upp skoðanir? Ég hef ekki gert þér upp skoðanir þannig að þú hlýtur að geta gert slíkt hið sama fyrir mig, ekki satt ? :-)
Mér virðist þú vera að tala um pilsfaldakapítalisma en honum er ég algerlega mótfallinn og hef margsinnis sagt það. Pilsfaldakapítalismi er gott dæmi um misnotkun á ríkisvaldinu.
Helgi (IP-tala skráð) 6.1.2014 kl. 06:40
Jamm og jæja Helgi, ég vona samt ekki að ég sé að gera þér upp skoðanir þó ég taki mark á undirskrift þinni og kalli þig Helga??
Inngrip stjórnvalda til að neyða stjórn Landsvirkjunar til niðurgreiða orku til stórfyrirtækis, sem nýtur velþóknunar stjórnvalda, er það sem þú segist vera algerlega mótfallinn.
En það er rétt, þú talaðir um að þeir hefðu nógu mikið bein til að semja um það sem þú kallar raunhæft orkuverð, en þeir segja að sé undir arðsemiskröfum þá ert þú að mæla með ríkiskapítalisma, því LV er almannafyrirtæki, og stjórnarmenn eru ekki að gambla með sitt eigið fé.
Það þarf bein til að tapa sínu eigin fé, ekki annarra.
Það vita stjórnarmenn LV, og þess vegna semja þeir ekki nema að fá ásættanlegt verð. Og skipta ekki um skoðun, nema þeim sé skipt út og taglhnýtingar settir inní staðinn.
Spurningin er því í hnotskurn, drap Hinrik II Thomas erkibiskup??
Um það eru svo sem skiptar skoðanir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.1.2014 kl. 13:58
@10:
Vandinn er að núverandi stjórn og forstjóri LV eru fullkomlega vanhæf. Þú sérð það strax á þeim skýjaborgum sem verið er að byggja um sæstreng. Norski sæstrengurinn hefur t.a.m. ekki reynst eins áreiðanlegur og áætlað var og hann hann þó mun styttri og liggur á mun minna dýpi en sá sem toppar LV láta sig dreyma um. Svo er nú ýmislegt sem bendir til þess að svona langur sæstrengur sé ekki tæknilega raunhæfur í bili. Hvað ætlar þú svo að gera ef strengurinn bilar um hávetur og ekki reynist unnt að laga hann í nokkra daga vegna veðurs? Eigum við að leggja tvo? Hver á að fjármagna þetta? Hver á að eiga strenginn og þau mannvirki sem honum fylgja? Engir einkaaðilar munu vilja koma nálægt þessu.
Ég er ekki að mæla með því að LV selji raforku undir kostnaðarverði - þú gefur þér það. HA hefur sett út á arðsemina af Kárahnjúkum en samt er það nú þannig að við eigum þá virkjun skuldlausa eftir um 10 ár og þá fyrst fer sú virkjun að framleiða gull fyrir alla landsmenn - líka skammsýna umhverfisverndarsinna. Það er afskaplega erfitt að bera traust til manns sem segir svona hluti og situr á bleiku skýi og lætur sig dreyma um sæstreng. Hvaða orkusölusamninga hefur HA annars klárað? Ég veit ekki betur en hann hafi bara þegið laun í nokkur ár án þess að landa neinum samningum. Í raun hefur hann fælt áhugasama héðan, ekkert álver á Bakka og ekkert gagnaver. Hvað skyldi nú sú snilld kosta þjóðarbúið á t.d. næstu 10 árum? Sú tala hleypur án efa á milljarða tugum.
LV hefur áður samið um skynsamlegt orkuverð og full ástæða til að ætla að slíkt sé hægt ef skipt er um í brúnni. Vandinn er að þetta þarf að gerast sem fyrst því orkuverð í heiminum mun lækka og ekki viljum við hér missa af vagninum - á meðan við erum enn samkeppnishæf. Ef litið er til orða og verka HA og stjórnar LV sést að þar er á ferðinni fólk sem fælt hefur fjárfesta frá landinu og lætur sig dreyma um óraunsæ verkefni. Til hvers að hafa svoleiðis mannskap á launum hjá okkur? Hverju hefur þetta lið skilað?
@Toni: Hvaða verðmæti framleiðir t.d. landbúnaðarráðuneytið? En alþingi? En Byggðastofnun? En viðskiptaráðuneytið? En Seðlabankinn? Ef ríkið er svona frábært og framleiðir verðmæti þá getur þú sagt okkur hver þau eru, ekki satt?
Helgi (IP-tala skráð) 7.1.2014 kl. 04:02
Blessaður Helgi.
Þú ert að gefa þér það að stjórnmálamenn grípi fram fyrir hendur á stjórn og forstjóra sem rekur fyrirtækið á rekstrarlegum forsendum, annars ertu að fabúlera út í loftið.
Það sem þú leggur til gerist ekki öðruvísi.
Ég nenni ekki að leiðrétta þig, hef áður bent þér að lesa orkublogg Ketils Sigurjónssonar en þér virðist vera eitthvað nöp við fróðleik, virðist líklegast óttast um skoðanir þínar.
Varðandi spurningu þína til Tona, þá hafði Toni útskýrt fyrir þér dæmi um verðmætasköpun ríkisins, hann hefði líka getað sent þér þjóðhagsreikninga.
Ég veit ekki hvort þú ætlaðir þér að vera sniðugur, eða hvort þú varst óvart sniðugur þegar þú lagðir þig fram við að snúa út úr Tona með upptalningu þinni á stjórnsýslustofnunum sem þú taldir að hefðu ekki verðmætasköpun á sínum snærum, eins og það kæmi málinu eitthvað við.
En stundum hugsar þú ekki lengra en nef þitt Helgi, þú fékkst ágæt andmæli bæði frá öldruðum heiðursmanni sem man tímanna þrenna, sem og manni sem er þekktur fyrir málefnalega umfjöllun hér í bloggheimum.
Þú kaust útúrsnúninga, en í kappinu náði nef þitt ekki langt.
Stjórnsýslustofnanir eru jafngamlar siðmenningunni, ekki algengar í upphafi hennar, en þeim svæðum sem reyndu að þróa verðmætasköpun sína án þeirra, fækkaði í tímans rás, líklegast vegna þess að þau urðu undir í samkeppninni.
Í dag veit ég aðeins um þrjú svæði þar þú finnur slík samfélög, í frumskógum Amazon, á afskekktum eyjum í Indlandshafi, og í frumskógaeyjum í Austurhluta Indlandshafs. Eðli málsins vandfundin svæði, þannig lifðu þau siðmenninguna af, og héldu út samfélögum sínum án stjórnsýslu.
En ef þér finnst erfitt að fara þangað í pílagrímsferð, svona til að upplifa velmegun án stjórnsýslu, þá gætir þú tekið næst besta kosinn, og heimsótt Sómalíu, þar er ekki mikið um stjórnsýslu þessa dagana.
Allir frjálsir, enginn að láta ríkið stela af sér.
Gangi þér vel Helgi minn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.1.2014 kl. 21:36
@4: Þú ert að tala um opinber atvinnufyrirtæki - ég var að tala um aðeins annan hlut en gott og vel:
Þegar hið opinbera fer í atvinnurekstur eru allt aðrir hvatar þar að baki en þegar einkaaðilar gera slíkt hið sama. Þú getur talað um OR eins og þér dettur í hug en staðreyndin er sú að það batterí hefur verið einstaklega illa rekið. Kannast þú ekkert við hundruðir milljarða í skuldir og stöðugar verðhækkanir að kröfu lánveitenda? Það stoðar lítið að bera saman orkuverð hérlendis og á Norðurlöndunum og mér finnst skrýtið að þú skulir ekki átta þig á því. Ástæðan fyrir hærra orkuverði í Noregi en hér er einfaldlega sú að Norðmenn fóru ekki skynsamlega að ráði sínu. Kynntu þér þetta - reynslusögur eru ágætar en þær útskýra yfirleitt ekki neitt.
Það er þekkt fyrirbæri, og hefur raunar verið rannsakað í nokkur skipti, að þegar hið opinbera fer t.d. í sorphirðu kostar það u.þ.b. tvöfalt meira en þegar einkaaðilar gera það. Aðrir hvatar. Nýlega sá ég frétt sem greindi frá því að ríkisolíufélag nokkuð hefði staðið þannig að málum að þó nýjar olíulindir hefðu fundist sem það hefði getað nýtt hefðu þær ekki verið nýttar með tilheyrandi tekjutapi fyrir það. Aðrir hvatar. Þú kannast kannski ekkert við hvernig staðið var að atvinnumálum í Sovétríkjunum? Myndir þú mæla fyrir slíku fyrirkomulagi hérlendis eða á Norðurlöndunum?
@12: Ég er ekki að mæla fyrir engri stjórnsýslu - byrjar þú enn og aftur. Þetta er orðið broslegt og fyrirsjáanlegt.
Eru stjórnsýslustofnanir ekki hluti af ríkinu? Af hverju koma þær málinu ekki við? Ertu þú farinn að tala fyrir Toni?
Ríkið á passa upp á líf, frelsi og eigur einstaklinga. Við þurfum hið opinbera í fátt annað - nema þeir sem vilja stöðugt láta halda í hendina á sér og treysta sér ekki til að bera ábyrgð á sjálfum sér.
Þú talar um þjóðhagsreikning - farðu þá í þá og segðu mér hvaða verðmæti stofnanirnar sem ég nefni að ofan skapa. Ekki segja mér að skoða sjálfum því ég veit svarið.
Við skulum svo seinna taka umræðu um opinber atvinnufyrirtæki.
Helgi (IP-tala skráð) 9.1.2014 kl. 05:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.