Orð Skáldsins hafa vægi.

 

Vekja menn til umhugsunar, fá menn til að kafa undir yfirborð hluta.

Maður verður fróðari eftir lestur þeirra.

 

Ég fékk þessa hugvekju inní athugasemdarkerfi mitt, frá Skáldi lífsins, og mig langar að auka veg hennar með því að birta hana hér undir meginpistlum þessa bloggs.

Tilefnið er skrifræðið og aðför þess að samfélaginu undir merkjum meintrar hagræðingar en Skáldið kemur víða við og er á köflum magnað, en alltaf viturt.

Gefum skáldið orðið.

 
VEGURINN EILÍFI EÐA VOTTUNARFERLI ESB.
 
Um 500 árum fyrir Krist sagði sá mikli spekingur Lao Tze okkur söguna um Veginn eilífa og sú saga var þýdd snemma á síðustu öld yfir á íslensku af þeim bræðrum Yngva og Jakobi Jóhannessonum sem Bókin um veginn. Á okkar tímum og í okkar landi er okkur nú þarft að minnast þessara sígildu og sönnu orða Lao Tze og draga af þeim lærdóm, sem hliðstæðu við okkar tíma og hvaða leið íslensk þjóð skuli velja, Veginn eilífa eða krókóttar gróðaleiðir hnattræðisins, skv. vottunarferli ESB:
 
1. Væri ég nógu vitur, myndi ég fara veginn eilífa.
2. Vegurinn eilífi er beinn og greiðfær,en mönnum eru krókaleiðirnar kærari
3. Höllin ljómar af skrauti, en akrarnir eru vanhirtir og hlöðurnar tómar. Að búast í skart og vera girtur biturlegu sverði, eta og drekka óhóflega og hafa fullar hendur fjár – það er ofmetnaður ræningja.        (Bókin um veginn, LIII)

 
Við þekkjum þetta allt. Hér varð hrun haustið 2008 og 4 árum síðar hefur hér ekkert breyst. Enn velja vanhæfir og drambsamir valdherrar stjórnsýslu ríkisins, samfylktir innan raða alls 4-flokksins, sér krókaleiðirnar fyrir hönd ofmetnaðarfullra ræningja. Nú heitir nýjasta krókaleiðin ESB. Þeir hafa gerst ofsatrúaðir ESB-Vottar til dýrðar sínum yfir-herrum. Ekkert hefur verið tekið á ræningjunum, enda voru þeir flestir drjúgir við að kaupa sér þingmenn innan raða samfylkts 4-flokksins og ræningjarnir voru vel tengdir hnattráðum auðdrottnum ofur-bankanna, þ.m.t. Deutsche Bank, sem gerir út á hnattræðis vísu, þó heimahöfnin sé skráð í Frankfurt þar sem höfuðstöðvar bankaveldis ESB eru. Allt skal gert til að forðast að taka á ofmetnaðarfullu ræningjunum, sem nú eru leppar ofur-bankanna.

Já áfram vilja valdherrar stjórnsýslu ríkisins, hinir ofsatrúuðu ESB-Vottar, velja sér krókaleiðina ESB og hneppa okkar litlu þjóð, okkur litla og venjulega fólkið í fjötra staðla og reglugerða og lagabálka og vottunarferla, í stíl kaþólskra kirkjuskipana páfans á myrkustu miðöldum, sem þjónar sem fyrr því gamla meginmarkmiði mið-evrópskra fursta og greifa og keisarahirða Habsburgara, að drepa niður alla millistétt og gera okkur öll að skattlögðum leiguliðum á okkar eigin landi.

Já áfram hljómar nú boðskapur hinna ofsatrúuðu ESB-Votta, sem velja sér krókaleiðina markaða gullbrydduðum og blóðrauðum Brusseldreglinum. Með gengdarlausum og tröllvöxnum áróðri, tilskipunum og reglugerðum og lagabálkum og vottunarferlum, skal nú drepa endanlega niður alla lifandi grósku einyrkja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja og heimila landsins.

Já áfram þjóna staðlaðar reglugerðir og lög ESB-Vottanna, fyrst og fremst ofmetnaðarfullu ræningjunum, sem fyrr. Í þessu samhengi er vert að minna enn á orð Lao Tze:

 
Því meira verður um þjófa og ræningja sem lög og reglugerðir eru fleiri. (Bókin um veginn, LVII, 2.)

 

Á sama tíma og valdherrar stjórnsýslu ríkisins … hvaða ríkis? Ríkis hverra? … hafa ekkert tekið á fjárglæpum hinna ofmetnaðarfullu ræningja, sem við vitum þó öll hverjir voru og hverjir eru, þá virðist það vera líf og yndi ESB-Vottanna að þrælpína almenning þessa lands með ofur-skattlagningu. Einnig um það hefur Lao Tze, vel kunnugur vondum verkum kínverskra keisara, skrifað um sem orsakir að ógæfu þjóða:

 
1. Þjóðin þolir hungur vegna þungra skatta, sem stjórnendurnir eyða. Þetta er orsök að hungursneyð.
2. Það er erfitt að stjórna þjóðinni vegna íhlutunarsemi stjórnendanna. Þetta veldur erfiðleikum við stjórnina.
3. Fólki veitist auðvelt að deyja, vegna þess að það erfiðar of mikið fyrir gæðum lífsins. Þess vegna lætur það sér dauðann í léttu rúmi liggja. Þess vegna er betra að láta sér lífið í léttu rúmi liggja, en gera of mikið úr því.   (Bókin um veginn, LXXV)

 

Með hliðsjón af þessari lokatilvitnun í speki Lao Tze, þá langar mig til að minnast á nýjustu tilskipun ESB-Vottanna um að votta skuli baðlaugar á hálendi Íslands. Detti nú af mér allar … Nei, nú er svo sannarlega löngu kominn tími til að láta sér lífið í skemmtilegu léttu rúmi liggja og hlæja opinberlega og hressilega að nakta keisaranum og öllum hans ofsatrúar ESB-Vottum.

Við skulum minnast þess að öll árátta ESB-Vottanna hefur það meginmarkmið að þjóna helst “sjálfbærni” gömlu auðhringadrottnanna og allra skriffinna hirða þeirra. Og við skulum einnig minnast þess að þetta er orðinn krókóttur gróðavegur hnattræðis auðræðis hringadrottnanna, sem hinir skinhelgu ofsatrúar ESB-Vottar boða okkur, alveg vinstri hægri til samfylkts moðsins í þeirra eigin svínastíum.

Og trúið mér, að ef fram heldur sem horfir, þá mun brátt sá verknaður að hlaupa berrassaður um íslenska náttúru verða settur í staðlað vottunarferli og form og svei mér þá ef það verður ekki líka staðlað samkvæmt samræmdu vottunarferli ESB-Vottanna hvernig venjulegt fólk megi og eigi að “geraða” í íslenskri náttúru. Og skriffinnarnir munu svo skrá það allt niður og skattleggja fyrir hönd hnattræðis auðræðis hringadrottnanna. Þá mun fólk minnast þess hvílík sæla það var þegar við fengum að vera í friði sem hobbitar, í friði og næði og að treysta bara hvert öðru án tilskipana og boðvaldsins að ofan, um það hvernig við megum eða eigum að “geraða” í okkar eigin náttúru.

Nú mæli ég með því að íslenskir karlar og íslenskar konur segi það hvert á sinn hátt og á hvaða hátt sem við viljum segja það, að við viljum bara fá að “geraða” á okkar eigin hátt í okkar eigin náttúru, í okkar eigin baðlaugum, til fullveldis, lýðræðis og velferðar og lífs fyrir börn okkar og barnabörn og alla ókomna framtíð íslenskrar þjóðar. Myndum nú SAMSTÖÐU um það – til fullveldis, lýðræðis og velferðar til lífs okkar um alla ókomna framtíð okkar sem þjóðar.

Vanhæfu Alþingi ber nú að hífa gungu og druslulegan sóma sinn eilítið upp og að vísa ESB-aðlöguninni til þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum öll að drepast úr leiðindum af völdum ESB-Vottanna. Við báðum aldrei um að fá þessa leiðinda gaura inn með gljáspeglandi og stálslegin leðurstígvélin milli stafs okkar og dyraops. Við höfum þraukað hér ein norður í Dumbshafi í nærfellt 1150 ár og skiljum ekki þennan undarlega áhuga sem hinir hnattráðu auðræðis hringadrottnar sýna okkur nú í gegnum sína ágengu ESB-Votta.

Höfnum krókóttum gróðavegum hnattræðisins og óhugnanlega ásælni auðdrottna ofur-bankanna og þeim yfirgangi sem þeir beita hér í gegnum leppa sína, ESB-Vottana, en veljum þann eina hreina og greiðfæra veg sem við þekkjum og höfum í gegnum sögu okkar lært að rata svo vel, veginn að heiman, sem er vegurinn okkar heim, til uppruna okkar, til ættlands okkar, móa, mela og smáblóma og hvítfyssandi lækja, hjalandi og flissandi af kátínu niður hlíðarnar og streymandi fram um láglendið og nærandi grasrót engja og túna, með tignarlegan fjallasalinn í bakgrunni með náttúrulegum fossaföllum og baðlaugum sínum og jarðhita. Og makrílinn og fjölbreytta fiskistofnana í 200 mílna landhelgi okkar, sem við háðum okkar einu stórstríð um, til lífsbjargar okkar, næringar og vaxtar. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill fá að slíta ESB aðlöguninni.

Yfirgnæfandi meirihluti íslensku þjóðarinnar vill fá að “geraða” í al-síðasta lagi – í desember 2012. En allra helst strax í nóvember 2012. Og ef nokkur kostur væri, þá vitaskuld strax nú í október. Nú þolum við ekki mikið lengur við. Alla okkar íslensku náttúru og allar okkar íslensku náttúrulegu auðlindir viljum við, sem höfum þraukað hér í nærfellt 1150 ár, eiga sjálf sem fullvalda þjóð og skila því þannig til barna okkar og barnabarna og til heilla til allrar ókominnar framtíðar íslenskrar þjóðar.

 

Hafi Skáldið þökk fyrir.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk Ómar fyrir hlý orð í minn garð.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 15.11.2013 kl. 14:19

2 identicon

Nú er nóvember 2013 og enn hefur hvorki aðlögunarferlinu verið formlega slitið

né þjóðin fengið nokkra aðkomu að málinu. 

Af hverju fær þjóðin ekki að svara þessari spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu, er ekki lýðræði hér?:

Vilt þú að Ísland gangi í ESB?  Já eða nei."

Er kannski Sjálfstæðis"flokkurinn í sínum innsta kjarna ESB flokkur?  Stendur hnífurinn þar í kúnni?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 15.11.2013 kl. 14:28

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Mín er þökkin Pétur.

Það þarf ekki að ræða það að kýrin sem hnífurinn er í er ESB draumur forystu Sjálfstæðisflokksins, svo augljóst er það og aðeins afneitað með órökum afneitunarinnar.

Forystan vildi inn í ESB á aukalandsfundi flokksins í janúar 2009, en lét í minni pokann fyrir grasrót flokksins sem Styrmir Gunnarsson leiddi.

Ósigurinn var afgerandi svo eitthvað varð að gera. 

Í það fyrsta var Samfylkingin fengin til að slíta stjórnarsamstarfinu eftir að Steingrímur gaf grænt ljós á svik og pretti, með því átti að refsa flokksmönnum fyrir sjálfstæðið sbr., "þarna sjáið þið, engin ríkisstjórn fyrst þið hlýðið ekki", eða þannig.

Og síðan var soðin vellingur, sem hét, "förum bakdyrameginn inní ESB, framhjá þjóðinni".  Og framhjá Landsfundi.

Forystunni skorti afl til að fara beinu leiðina, en ekki viljann, og það er það sem markar alla þessa moðsuðu sem kemur frá núverandi ríkisstjórn.

ESB málinu er haldið lifandi og síðan eftir stjórnarslitin, sem verða óhjákvæmilega ef Sigmundur Davíð heldur fast við áform sín um skuldaleiðréttingu handa heimilum landsins, þá er aðeins einn valkostur í stöðunni.

ESB ríkisstjórn.

Egill Helgason veit alveg hvað hann syngur.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 15.11.2013 kl. 15:28

4 identicon

Þetta er svaka texti og réttur.
Held með Sigmundi & Styrmi í þessu, en grunar nú að ansi margir Sjálfstæðismenn séu virkilega sjálfstæðismenn. Þarna er klofningur í uppsiglingu sýnist mér, en kannski er ákveðið uppgjör óhjákvæmilegt, og betra að fá það upp á borð fyrr en síðar.

Jón Logi (IP-tala skráð) 15.11.2013 kl. 17:04

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Jón Logi.

Mér finnst alltaf gott að fá staðfestingu á því að til sé fólk sem er tilbúið að hugsa málin  lengra, og leggur það á sig að lesa svona pistla.

Mælska Skáldsins svíkur ekki, og nálgun hans rétt, skrifræði Brussel elítunnar er að kæfa allt á meginlandinu, og þetta er það sísta sem íslenska þjóðin þarf á að halda.

Ég vona að þú hafir rétt fyrir þér með uppgjörið.  

Það er glapræði að vanmeta grasrót Sjálfstæðisflokksins, og hún hefur ekki sagt sitt síðasta.

Auðvita vildi ég að hún rifjaði upp inntak sjálfstæðisstefnunnar, að hún snúist um hinn sjálfstæða mann og samfélag hans, en ekki rétt auðmanna til að ræna okkur hin.

En sú mara villir ekki bara sýn á Íslandi, hún hefur lagst á öll Vesturlönd.

Og uppgjör við hana er lífsnauðsyn ef samfélög okkar eiga að lifa af.

Lærdómurinn af lénstímabili miðalda var ánauð, helsi, og fátækt fjöldans, með örfáum undantekningum eins og á Niðurlöndum.

En þar fékk hinn sjálfstæði maður andrými fyrir arðráni sníkjudýra.

Við þurfum ekki að endurtaka þessa sögu, frelsi frjálshyggjunnar, frelsi auðmanna til að ræna okkur hin, endar í ánauð og helsi.

Það er ekkert flóknara en það.

Við þurfum að endurreisa okkar borgarlega kapítalisma, þar sem virðing er borin fyrir einstaklingnum og samfélögum hans.  

Það er enginn eyland, hagur einstaklingsins er tengdur órjúfanlegum böndum við hag samfélagsins, stefna sem svíður samfélögin, er stefna sem svíður einstaklinginn.

Þess vegna vona ég að sjálfstætt fólk rísi upp, óháð flokkum, og óháð ESB deilunni, og segi, "hingað og ekki lengra".

Það er dagurinn sem við hættum að láta siðblint fólk bera út mæður og börn af heimilum sínum, líðum ekki lengur eyðingu heilbrigðiskerfisins, verjum samfélagssáttmálann sem batt á stéttarátökin, og höldum fram á við.

Undir merkjum gróanda og grósku.

Undir merkjum lífsins sjálfs, lífi hins sjálfstæða manns, fjölskyldu hans og samfélags.

Og vonandi gerist það fyrr en seinna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.11.2013 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 20
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 1244
  • Frá upphafi: 1412798

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1094
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband