Hvaðan kemur þessi ljótleiki??

 

Og hvað fær fólk til að tala svona um annað fólk??

 

Þetta er  ekki stjórnmál, þetta er ekki vitrænt, en þetta er raunveruleiki.

Og á sína forsögu.

 

Það er óþarfi að fara aftur á fjórða áratug síðustu aldar til að rifja upp hvernig valdgírugir stjórnmálamenn kynntu undir rasisma til að komast í valdastólana.   Óþarfi að rifja upp hvernig þeir eignuðu heilum þjóðfélagshópum ákveðna dýrslega eiginleika, ómennsku, og allt það lægsta sem hægt var að ætla öðrum einstaklingum.

Við sjáum þetta í dag um alla Evrópu, hvernig ýtt er undir hatur og fordóma, gagnvart innflytjendum, gagnvart hinum meintu óæðri kynþáttum, eða gagnvart heilum starfstéttum eins og ríkisstarfsmönnum, sem eiga að þykja bæði latir, hysknir og óþarfir.

Og við sjáum þetta hér á Íslandi, allan óþverrann frá a til ö.

 

Í frétt Mbl.is um hið ógeðfelda kynþáttaníð sem Frakkar líða í nafni málfrelsis, að rætur þess er rakið til hægri öfgamanna.

Við Íslendingar höfum heyrt talað um þessa hægri öfgamenn, en höfum við hugleitt hvar þeir eru??

Eru þeir með sinn eigin flokk, sitt eigið málgagn, sínar eigin níðsveitir??

Hver er hið meinta últra hægri á Íslandi??

 

Ég fór að hugleiða þetta í morgun eftir að ég las góða status Guðmundar Franklín, formanns Hægri Græna, á feisbókinni, og mig langar að vitna í orð hans, því mér brá mjög þegar ég las þau.

Það er eins og eldingu hafi lostið í huga minn, og ég sá atburði síðustu vikna í skýrara ljósi.  Af hverju ég missti endilega þolinmæði á núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins þegar drengstauli  fékk að tjá sig í þingsal eins og hver annar bjáni, og eldri og vitrari menn létu kjurt liggja.  Ráku hann hvorki úr ræðustól eða settu hann á kné sér og flengdu. 

Áður en ég birti status Guðmundar þá langar mig að geta þess að margir stjórnmálaskýrendur hafa sett flokk hans, HægriGræna til hægri við Sjálfstæðisflokkinn, eins hlálegt það nú er því HægriGrænir kynntu vitræna leið, hina svokallaða Skiptileið, til að aflétta skuldaánauð almennings, á meðan forysta Sjálfstæðisflokksins telur eðlilegt að forsendubrestur verðtryggingarinnar þurrki millistéttina út.

Ég las ekki neitt últra hægri úr status Guðmundar, þvert á móti víðsýni og umburðarlyndi, og einmitt það vakti upp í huga mér spurningar, hvaðan kemur ljótleikinn??

 

En þetta er það sem Guðmundur Franklín sagði; 

 
Á Íslandi er allt öfugt eða á haus. Við berjumst á móti framförum, rannsóknum, hjálp við náungann og öllu sem viðkemur listum. Erum við svona lítil þjóð og vitlaus, eða eru þetta bara fáeinar háværar raddir. Hvað sem það er, þá getum við ekki staðið í þessu endalausa rifrildi um hluti sem flestir vilja og eru stoltir af að hafa og geta boðið uppá.
 

Hverjir eru þetta sem agnúast út í hjálp við náungann, leggja til að framlög til rannsókna og þróunar séu skorin við trog, siga stuðningsmönnum sínum á listir og menningu, níða niður ríkisstarfsmenn eða ástunda almennt rasisma við hið minnsta tækifæri??

 

Í huga mér fór til dæmis það broslega atvik  þegar Vigdís Hauksdóttir óð uppí ræðustól Alþingis og spurði heilbrigðisráðherra hvernig háttað væri læknisþjónustu fólks utan EES svæðisins.  Hvort kostnaður við það félli á ríkið.  Sem formaður fjárlaganefndar átti Vigdís að vita svar ráðherra, og ég hélt að einhverja leiksýningu væri að ræða, en þegar Kristján Þór Júlíusson útskýrði það kurteislega fyrir Vigdísi að þeir greiddu allan sinn kostnað, þá kom Vigdís uppí ræðustól og spurði hvort ekki væri hægt að hækka þann kostnað?!!!.

Eins og það sé hægt að hækka það sem þegar er að fullu greitt, eins og að veikindi fólks væru sérstakur skattstofn sem ríkið mætti hafa tekjur af.  

Og ég hætti að hlæja að Vigdísi, fattaði að að baki lá sá kaldi hugur að efna til ófriðar við fólk sem flokkast undir þann skelfilega hóp, útlendingar.  Og hún hljóp svona á sig þegar hún sá bombu sína renna út í sandinn, hinir meintu útlendingar greiddu fyrir þá þjónustu sem þeir fengu frá ríkinu.

 

Mér var líka hugsað til Ásthildar Friðriksdóttur, þegar hún réðist á þetta voðalega fólk, fólk á bótum.  Vildi bætur þess lækkaðar svo það færi að vinna.

Stimplaði heilan hóp sem ónytjunga, efndi til ófriðar við hann til að tryggja sér betri kosningu í komandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Fyrir utan ómerkilegheitin, þá kom þetta úr hörðustu átt því Sjálfstæðisflokkurinn ber meginábyrgð á óförum þessa fólks, hann byggði upp kerfið sem auðmenn nýttu sér, hann spornaði ekkert við ránskap þeirra, þvert á móti, hann kvatt þá áfram.

Í gamla daga þegar fólk var fólk, og viðrini viðrini, þá hét þetta að kunna ekki að skammast sín.

En ef sjálfsæðismenn tóku ekki undir orð Ásthildar, þá þögðu þeir.

Enginn sagði, "svona gera menn ekki", líkt og sagt var við föður hennar forðum.

Hvað segir þetta um móralinn í þeim ágæta flokki??  Er hann fallegur??

 

Þetta virkað sem undantekning þegar þetta gerðist, en ég lít það öðrum augum í dag.

Það er eins og einhver flóðgátt hafi opnast eftir að hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar birti tillögur sínar.

Flóðgátt ljótleika og skítkasts út í heila stétt fólks, sem mér vitanlega er eins misjöfn og almennt gengur og gerist, og ég fullyrði að þeir einstaklingar sem hana skipa, hafa ekki gert öðru fólki eitt eða neitt sem  réttlætir óhróðurinn og illmælin.

 

Ég fékk þessa athugasemd inná blogg mitt í gær, það skiptir ekki máli hver skrifaði hana, og ég vona að hún hafi verið sögð í fljótfærni, og að viðkomandi hafi ætlað sér að segja eitthvað allt annað, en það sem hann sagði.

 
Það skal enginn segja mér að eins og hægst hefu á hagkerfinu að allt það fók sem treður út stofnanir ríkisins hafi eitthvað að gera allann daginn og að þeim megi ekki fækka.
 

Það má endalaust rífast um hlutverk ríkisins, og hvort hinn alltum liggjandi faðmur sé ekki orðinn of þrúgandi, og það á að taka þá umræðu, á öllum tímum, en á faglegum forsendum, ekki á forsendum rasismans.

Það eru stjórnmálamenn sem ákveða kerfið og setja reglurnar, og það er við þá að sakast ef eitthvað má betur fara.  

En að ætla ríkisstarfsmönnum sem hóp að vara latir og hysknir, og í mörgum tilvikum óþarfir því þeir gera ekkert í vinnu sinni, er hreinræktaður rasismi.

Og er ástundaður mjög af mörgum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar í dag.

 

Bætum við ófriðnum gegn listum og menningu, gegn náttúruvernd og umhverfisfólki, gegn útlendingum, gegn öllum þeim sem liggja við höggi á akri fordómanna, og þá blasir við skelfileg mynd.

Ljótleikinn er meinstrím, hann er nýttur í þágu valda og hagsmuna.

Hann hvorki bundinn við últra hægri eitthvað eða á rætur að rekja þangað.

Upptökin eru hjá stærstu stjórnmálaflokkum þjóðarinnar, og þar má finna hljómgrunninn.

 

Þetta eru alvarleg orð, en þetta eru rétt orð.

Þetta er raunveruleikinn eins og hann blasir við í dag.

Og vitiborið fólk í Sjálfstæðisflokknum getur ekki hundsað þennan raunveruleika.

Hin æpandi þögn þess er í besta falli meðvirkni en úr henni er stutt í þögult samþykki.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður glímt við öfga og óþverra.

Fordómar þjóðernissósíalista bergmáluðu innan flokksins á fjórða áratug síðustu aldar.

Sérstaklega hjá ungliðum hans.

 

Þá bar flokknum gæfa að eiga alvöru menn, sem höfðu manndóm og kjark til að glíma við þessa fordóma, og einangra þá hjá fámennum flokki sérvitringa sem siðað fólk átti engin samskipti við.  Það er á stjórnmálasviðinu.

Fræg er ræða Bjarna Benediktssonar hjá Stúdentafélagi Reykjavíkur, þar sem hann ræðir lýðræði, forsendur þess, og þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn byggði stefnu sína á.

Gildi sem fordæmdu ljótleika rasismans, fordæmdi kuldann gegn náunganum, hafnaði öfgum og andsamfélagslegum áróðri (líkt og atlagan af listum og menningu er).

 

Sjálfstæðismenn ættu að finna þessa ræðu Bjarna Ben og lesa hana kvölds og morgna þar til þeir skilja hvað felst í því að vera sjálfstæður maður, gjörandi rétt og ekki þolandi órétt.

Mér er til efs að ljótleikinn myndi þola þann lestur.

 

En ég veit ekki.

Það eru aðrir tímar.

Aðrir forystumenn.

Og hið vitiborna fólk, öldungar flokksins, hafa misst málið.

 

En ræða Bjarna var sterk.

Það vegur á móti.

Sígild, og jafnmikið erindi í dag, og þá.

 

Og hver vill ljótleikann, eins ljótur og hann er

Svari hver fyrir sig, en ég veit samt það svar.

 

En veit ekki hvort aðrir viti það svar.

Kveðja að austan.


mbl.is Kynþáttaníð á forsíðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flowell

Sæll, Ómar.

Hvað Frakkland varðar er það víst svo að á sumum stöðum eru fasistaflokkar farnir að vinna smásigra í bæjar- og borgarpólitík.

Ég er sammála þér með ljótleikann hér á landi og hvar hljómgrunninn megi finna. Æ oftar heyri ég sett út á meinta óæðri kynþætti hér. Að "það pakk" sé orðið of fjölmennt og fleira viðbjóðslegt. Orðbragð í garð annarra versnar með hverju árinu.

Íslenskt stjórnmalafólk með hjarta þarf að standa upp og láta í sér heyra með ákveðnum hætti.

Flowell, 13.11.2013 kl. 17:37

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Flowell,  það á allt sitt upphaf, og það upphaf er löngu liðið hér.

Fordómar munu stýra umræðunni í æ ríkari mæli.

Og því miður eigum við ekki leiðtoga sem sem segja, "svona gerum við ekki".

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.11.2013 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 1226
  • Frá upphafi: 1412780

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1085
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband