Glataða kynslóðin!!

 

Eru orð sem forystumenn Evrópusambandsins eru farnir að nota um þessi atvinnulausu ungmenni.

Það er ekki þannig að þeir vita ekki af vandanum.

 

Verst er ástandið í Grikklandi og á Spáni.

Þegar ástandið var sem verst í svörtustu Afríku, þá var ástandið samt ekki svona slæmt.  

Orðið "svartasta" vísaði ekki í húðlit íbúa álfunnar heldur ástandið, að það væri svo svart.

Og þetta svarta ástand stafaði af fátækt, vanþróun, spillingu.

 

Í Evrópu er skýringin mun einfaldari, hið svarta ástand er mannanna verk.

Verk þeirra íhaldsmanna sem tóku við völdum í þessum löndum eftir efnahagshrunið 2008.

Þeir áttu það allir sammerkt að boða niðurskurð og skattahækkanir til að mæta minnkandi tekjum ríkissjóðs, halda fast í fastgengi gjaldmiðils, og boða betri tíð þegar tökum væri náð á skuldasöfnun ríkissjóðs.

Og höfðu allir jafnt rangt fyrir sér, hafa steypt þjóðum sínum í glötun.

 

Á Íslandi gagnrýndu andstæðingar Evrópusambandsins þessa efnahagsstefnu harðlega.  

Bentu á ágalla hennar, bentu á afleiðingarnar.

Fremst má telja Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs Oddssonar, Evrópuvakt Styrmis Gunnarssonar og Heimssýn, regnhlífarsamtök Evrópuandstæðinga, lengi undir forystu Ásmundar Daða Einarssonar.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks,  tóku iðulega undir þennan málflutning, með einni undantekningu þó, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins varði alltaf þessa stefnu kollega sinna í Suður Evrópu, var sammála þeim í öllum meginatriðum.

 

Sjónarmið Bjarna urðu ofaná í Sjálfstæðisflokknum og í kosningabaráttu sinni lagði flokkurinn mikla áherslu á að "ná tökum á ríkisfjármálum", eins og það væri eitthvað að ríkisfjármálum en ekki að það væri rangt að láta ríkissjóð, en ekki Seðlabankann, fjármagna endurreisn bankakerfisins.

Þess má geta að ríkissjóður Bandaríkjanna hefur ekki lagt krónu í sambærilega endurreisn þar í landi, Seðlabanki landsins hefur alfarið séð um það.  Bandarískir skattgreiðendur voru ekki látnir greiða fyrir skuldir óreiðumanna.  Tek þetta fram til að sýna hversu óeðlilega eða hreinlega afbrigðileg þessi skoðun Bjarna Benediktssonar er, andstæð frjálsum viðskiptum í frjálsu markaðsþjóðfélagi.

 

Stefna Sjálfstæðisflokksins varð síðan að stefnu núverandi ríkisstjórnar, þrátt fyrir Keynískar áherslur Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni.  

Sjálfstæðisflokkurinn stóð við stefnu sína, Framsóknarflokkurinn sveik allt sem hann sagði.  Þekkt munstur frá síðustu ríkisstjórn þar sem VinstriGrænir voru í hlutverki þess flokks sem sveik.

 

En bregður svo við að hin áður gagnrýnda stefna leiðtoga þeirra ríkja Evrópusambandsins sem áttu í efnahagserfiðleikum, og hefur haft þær skelfilegar afleiðingar að atvinnuleysi ungmenna er verra en var í svörtustu Afríku á sínum tíma, að núna er hún talin skynsamleg og ábyrg af þeim sem áður gagnrýndu hana.

Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs Oddssonar gengur meir að segja svo langt að reyna að telja landsmönnum í trú um að fyrri ríkisstjórnir flokksins hafi sýnt þá lausung í ríkisfjármálum, að hægt sé að spara tugi milljarða í ríkiskerfinu, án þess að það skerði þjónustu ríkisins eða gera stofnunum þess ókleyft að sinna lögboðnu hlutverki sínu.

Aldrei í þekktri stjórnmálasögu hefur stjórnmálamaður kveðið upp eins harðan dóm yfir sjálfum sér eins og Davíð Oddson gerir í leiðurum Morgunblaðsins þessa dagana.  Að það hafi verið blekking ein að hann hafi haft tök á ríkisfjármálum og stjórn á útþenslu kerfisins.  

Eftir samfelldan fjögurra ára niðurskurð Steingríms Joð Sigfússonar sé ennþá hægt að skera niður kerfið sem stjórnmálamaðurinn Davíð Oddsson ber ábyrgð á, um tugi milljarða, án þess að hrófla við lögbundnu hlutverki ríkisins og ríkisstofnana.

 

Sjálfsagt má fær rök fyrir því að Davíð Oddsson viti hvað hann er að segja, hann þekkir jú til.

En það breytir samt ekki þeim hagfræðilegum rökum að niðurskurður á krepputímum eykur kreppuna en dregur ekki úr henni.

Þetta er hagfræðileg staðreynd sem menn þekktu fyrir fjármálahrunið 2008, og þó íhaldsmenn á Spáni og Grikklandi hafi haldið öðru fram, þá breyttu orð þeirra ekki raunveruleikanum.

Þeir hafa eyðilagt heila kynslóð ungmenna, þeir hafa stórskaðað þjóðir sínar, bæði í núi en sérstaklega í framtíð.

Og orð munu heldur ekki fá breytt þessari hagfræðilegu staðreynd á Íslandi.

 

Kreppan mun dýpka og atvinnuleysi aukast fyrir tilverknað núverandi ríkisstjórnar.  

Hún skaðar bæði samfélagið í núinu og skemmir fyrir framtíðinni.

En Evrópuandstæðingar þegja þegar þeirra menn eiga í hlut.

Núna virðist ekki lengur gagnrýni þeirra á Evrópusambandið byggjast á hagfræðilegum rökum, heldur sé ástandið svona slæmt því Evrópusambandið byrjar á E-i og gjaldmiðillinn á E-i.  

Slík samsvörun sé alltaf ávísun á kreppu.

 

Á Íslandi sé hins vegar alltí lagi að halda í verðtryggðan fastgengisgjaldmiðil, því hann heitir króna, og það sé alltílagi að skera niður og hækka skatta, því Ísland heitir Ísland, en ekki eitthvað nafn sem byrjar á E-i.

Eða hvernig á að útskýra þennan viðsnúning, þessa blindu, þessa áunnu heimsku??

Færi ICEsave í gegn í dag, myndu allir þessir fyrrum ICEsave andstæðingar þegja núna þegar þeirra menn eru í ríkisstjórn??  Væri lag fyrir breta að setja á önnur hryðjuverkalög??  Nýjar hótanir, nýjar fjárkúganir??

Hve langt gengur flokksmaðurinn stuðningi við sinn eigin flokk??

 

Ég vona að fólk velti þessu fyrir sér áður en við glötum líka heilli kynslóð.

Eða það sem verra er, glötum öllu, eigum okkar í hendur vogunarsjóða, og sjálfstæði þjóðarinnar til Brussel.  

 

Við höfum ekki langan tíma til að uppgötva vit okkar og skynsemi á ný.

En ég veit að það er þarna, við erum ekki svona vitlaus eins og við þykjumst vera.

 

Og við erum gott fólk, fólk sem vill börnum sínum allt hið besta.

En við þurfum að sýna það í verki.

Núna.

 

Ekki seinna.

Kveðja að austan.

 


mbl.is 7,5 milljón atvinnulaus ungmenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Já, staðan bæði fyrir austan og vestan okkur er mannanna verk.

Hins vegar má deila um hverjir á því bera ábyrgð. Cameron er t.d. að nafninu til íhaldsmaður en ekki hefur hann staðið fyrir almennilegum niðurskurði á opinberum útgjöldum í Bretlandi. Hann kom með þá "snildarhugmynd" nýlega að fólk gæti fengið 90% lán eða hvað hlutfallið nú var (markaðsafskipti). Fattaði greinilega ekki hvað gerðist t.d. hérlendis og í USA. Sömuleiðis er hann voðalega hrifinn af ESB (miðstýring) sem ég myndi ekki segja að væri siður íhaldsmanna. Hann er svo hrifinn af ESB að hann vill helst ekki halda atkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB (veruleg andstæða er við veru Breta í ESB innan Íhaldsflokksins).

Ég myndi segja að vandinn sé runninn undan rifjum demókrata og sósíal-demókrata enda vandinn fyrst og síðast vegna hins opinbera og afskipta þess. Cameron er ekki íhaldsmaður í minni bók þó hann vilji kalla sig það.

Vandinn við núverandi ríkisstjórn okkar er sá að hún er alltof lík þeirri fyrri. Bjarni og Sigmundur gagnrýndu raforkuskatta á stóriðju á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu en þegar þeir geta gert eitthvað í málunum hreyfa þeir hvorki legg né lið. Hljómar voðalega líkt Steingrími 180°.

Þú segir: " . . . . . niðurskurður á krepputímum eykur kreppuna en dregur ekki úr henni." Þetta er einungis að hluta til rétt. Ef við ætlum að beita þessu þá komum við okkur aldrei út úr kreppunni. Þá má ekki skera niður ríkisútgjöld. Skuldir hins opinbera halda áfram að vaxa og við höldum áfram að stela af komandi kynslóðum. Slíkt er auðvitað ekki boðlegt. Ég vil ekki að mín börn borgi fyrir sukk og svínarí fyrri kynslóða.

http://www.youtube.com/watch?v=D-PfZdUyMgE

Segja þarf upp verulegum fjölda opinberra starfsmanna og samhliða lækka skatta verulega (auk þess að losa okkur við slæmar reglur) svo einkageirinn hafi svigrúm til aukinnar verðmætasköpunar. Með niðurskurði ykist atvinnuleysi tímabundið þar til efnahagslífið lagar sig að breyttum aðstæðum og þeir sem misstu vinnu sína hjá hinu opinbera fengju vinnu í einkageiranum. Þetta sáum við nýlega í Puerto Rico. Þar varð ágætur viðsnúningur í efnahagslífinu þegar svona var farið að. 

Ekki gleyma því að opinberi geirinn hérlendis skuldar hundruðir milljarða umfram eignir. Að því kemur að fjárfestar fatta það og hætta að lána opinberum aðilum. Ekki er langt í þetta erlendis og þá kemur hvellur, opinberi geirinn verðu látinn skera mikið niður því lánsfé fæst ekki lengur (nema menn ætli að taka verðbólgu leiðina á þetta). Heldur þú að vextir verði endalaust 0%? Ef vinur þinn á íbúð sem metin er á 25 millur en hann skuldar 35 millur, myndir þú lána honum eina millu?

Vandinn hér og víða erlendis er stór og stækkandi opinber geiri (hann stækkaði á milli ára hérlendis). Hann þvælist fyrir verðmætamyndun m.a. vegna þess að hann notar fjármuni ekki með eins hagkvæmum hætti og einkageirinn. Afar mismunandi er hve stóran opinberan geira efnahagskerfi þola. Hjá okkur er opinberi geirinn rétt rúm 40% en í Danmörku og Frakklandi rúm 50%. Allt stefnir í mikil vandræði í Frakklandi eftir nokkur ár.

Helgi (IP-tala skráð) 13.11.2013 kl. 10:38

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi.

"Þú segir: " . . . . . niðurskurður á krepputímum eykur kreppuna en dregur ekki úr henni." Þetta er einungis að hluta til rétt. Ef við ætlum að beita þessu þá komum við okkur aldrei út úr kreppunni. Þá má ekki skera niður ríkisútgjöld. Skuldir hins opinbera halda áfram að vaxa og við höldum áfram að stela af komandi kynslóðum. Slíkt er auðvitað ekki boðlegt. Ég vil ekki að mín börn borgi fyrir sukk og svínarí fyrri kynslóða. "

Þetta er rökvilla, ásamt góðum skammti af vanþekkingu.

"Ekki gleyma því að opinberi geirinn hérlendis skuldar hundruðir milljarða umfram eignir. Að því kemur að fjárfestar fatta það og hætta að lána opinberum aðilum. Ekki er langt í þetta erlendis og þá kemur hvellur, opinberi geirinn verðu látinn skera mikið niður því lánsfé fæst ekki lengur (nema menn ætli að taka verðbólgu leiðina á þetta). Heldur þú að vextir verði endalaust 0%? Ef vinur þinn á íbúð sem metin er á 25 millur en hann skuldar 35 millur, myndir þú lána honum eina millu? "

Sama rökvillan, sama vanþekking.

Þar fyrir utan þá ertu sjálfum þér samkvæmur Helgi, og endilega komdu sem oftast inn og skammaðu ríkisstjórnina fyrir allt það mögulega sem þér dettur í hug.

Og þá vonandi út frá stefnu ykkar frjálshyggjumanna (he, he, stóðst freistinguna að nota "s" orðið).

Geir olli mér vonbrigðum í gær.  Eins og hann kunni ekki fræðin og sé í raun aðeins laumu sjálfstæðismaður.

En við getum sameinast um minna reglubákn, einfaldara kerfi.

Sem er ein af forsendum gróanda og grósku.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.11.2013 kl. 10:55

3 identicon

Skrítið að ástandið í Grikklandi og á Spáni sem hefur varað hefur nær mannsaldur með stuttum hléum skuli vera "Verk þeirra íhaldsmanna sem tóku við völdum í þessum löndum eftir efnahagshrunið 2008." Atvinnuleysi á Grikklandi og Spáni, þó mikið sé, er minna en það var oft áður en þeir tóku upp Evruna.

Og minna reglubákn, einfaldara kerfi sem fjármálaheimurinn kom sér upp undir forustu Bandaríkjamanna var ein af forsendum gróanda og grósku góðærisins fyrir hrun og ástæða hrunsins. Íslenskar eftirlitsstofnanir sáu framlög lækka og þurftu að taka við upplýsingum frá bönkunum án skoðunar. Enda gekk svo vel að eftirlitsstofnanir voru taldar óþarfar.

Hábeinn (IP-tala skráð) 14.11.2013 kl. 02:40

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Veistu það Hábeinn, meir að segja þeir bláeygðu með síða hárið stóðu sig betur í rökfærslu sinni þegar þeir vörðu sæluríki Hoxa, sem óvart mældist í hagtölum fátækasta ríki  Evrópu.

Það er sjaldan sem les svona varnarræðu sem nær ekki einni heilli brú og það er afrek út af fyrir sig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.11.2013 kl. 06:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 1226
  • Frá upphafi: 1412780

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1085
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband