27.4.2013 | 09:06
Raunveruleikinn leggur alltaf lýðskrumið.
Þess vegna er sigur Sjálfstæðisflokksins endalokin fyrir gömlu valdablokkirnar sem urðu til í stéttaumróti kreppuáranna.
Af hverju mun Sjálfstæðisflokkurinn reka sig á raunveruleikann???, hver getur ekki tekið undir þessi orð formanns flokksins???
Það verður að lækka skatta og einfalda skatta- og regluverk atvinnulífsins að nýju. Ég nefni tryggingagjaldið hér alveg sérstaklega því það er hreinn skattur á að ráða fólk og vinnur gegn því að fyrirtæki geti fjölgað störfum. Það þarf líka að skapa frið um grunnatvinnuvegina sem óvissan nagar að innan. Þar er ég augljóslega að tala um sjávarútveginn, orkuvinnslu og nýtingu í landinu og ferðaþjónustuna. Við höfum staðið alltof lengi í átökum um auðlindanýtingu og þau átök hafa varpað skugga á umræðu um önnur sóknarfæri. Um leið og við hlúum að grunnatvinnugreinunum og hámörkum möguleika okkar í klösum sem þeim tengjast, þá verðum við að hlúa að sprotum og hugviti sem tengist þekkingargreinum og tryggja að við byggjum upp menntakerfi í landinu sem styður við þarfir atvinnulífsins. Við erum með nokkur dæmi um fyrirtæki sem hafa skotið rótum hér á landi og blómstrað, en til þess að fleiri slíkar hugmyndir nái að dafna þarf frjósaman jarðveg.
Þetta er góð lýsing á forsendum grósku og athafnasemi, eitthvað sem þarf ef við ætlum að lifa góðu lífi í landinu.
Af hverju mun þetta ekki virka??
Svarið er einfalt, það á fyrst að skera niður og dýpka þannig kreppuna, og það er ekki tekist á við grunnvanda efnahagslífsins, sem er ekki of mikil skattlagning heldur ofurskuldsetning heimila og atvinnulífsins, ofurskuldsetning sem er knúin áfram af hinni verðtryggðu krónu.
Í raun má segja að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins sé bein eftiröpun á kosningabaráttu hægri flokks Mariano Rajoy fyrir kosningarnar á Spáni í desember 2011.
Rajoy kenndi sósíalistum um efnahagserfiðleikana og hann ætlaði að örva hagkerfið með skattalækkunum og öðrum almennum aðgerðum í þágu atvinnulífsins. En fyrst ætlaði hann að skera niður til að ná jafnvægi á ríkisfjármálunum, og hann hróflaði ekki við evrunni.
Rajoy varð forsætisráðherra en efnahagsástandið hélt áfram að versna, þrátt fyrir hin fögru fyrirheit um grósku og endurreisn efnahagslífsins.
Grunnskýringarnar eru tvær, gjaldmiðillinn evran, aðlagaði sig ekki að raunveruleika efnahagslífsins niðurskurður ríkisútgjalda á krepputímum er það heimskasta sem hægt er að gera. Um það hafa hagfræðingar reyndar deilt, en raunveruleikinn skorið úr.
Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz útskýrði ágætlega rökvilluna á bak við slíkan niðurskurð í grein sem meðal annars var birt í Fréttablaðinu. Ágætt að vitna í hana svo Sjálfstæðismenn viti af hverju þeir hafa klúðrað málum með því að kjósa flokk sinn í dag.
Heimili er ekki ríki.
Fjármálageirinn predikaði ekki aðeins hvernig ætti að skapa kraftmikið hagkerfi, heldur líka hvernig ætti að bregðast við kreppu (sem ríkisvaldið gat aðeins orsakað, samkvæmt hugmyndafræðinni, ekki markaðurinn). Í samdrætti minnka ríkistekjur og útgjöld aukast, til dæmis vegna atvinnuleysisbóta. Í framhaldi af því eykst fjárlagahallinn. Harðlínumenn úr röðum fjármálageirans töldu að ríkisvaldið ætti að einblína á að eyða fjárlagahallanum, helst með því að halda aftur af útgjöldum. Niðurskurðurinn myndi endurreisa traust, sem myndi glæða fjárfestingar nýju lífi - og þar með vöxt. Þótt þessi röksemdarfærsla kunni að hljóma sannfærandi, hefur sagan ítrekað sýnt að hún gengur ekki upp.
Þegar Hernert Hoover Bandaríkjaforseti reyndi þessa forskrift, stuðlaði það að því að hrunið á verðbréfamörkuðum 1929 breyttist í Kreppuna miklu. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reyndi sömu formúlu í Austur-Asíu árið 1997, breyttist niðursveifla í samdrátt, sem varð að lokum að kreppu. Röksemdarfærslan fyrir þessari kenningu er gölluð. Heimili sem skuldar meiri peninga en það getur endurgreitt með góðu móti, verður að halda útgjöldunum í skefjum. En þegar ríkisvald gerir þetta, dregur úr framleiðslu og tekjum, atvinnuleysi eykst og ríkið hefur minna á milli handanna til að endurgreiða skuldirnar. Það sem á við heimili á ekki við um ríki.
Þetta er ekki flókið, og aðeins gróðafíkn hinna ofurríku sem græða á samdrættinum og þjáningum almennings, kemur í veg fyrir að menn sjá þetta ekki.
Raunveruleikinn sigraði lýðskrumið á Spáni, og raunveruleikinn mun leggja lýðskrum Sjálfstæðisflokksins þegar flokkurinn leiðir næstu ríkisstjórn.
Niðurskurður ríkisútgjalda mun draga úr tekjum ríkisins, hinar lofuðu skattalækkanir munu aldrei koma til framkvæmda líkt og reyndin varð á Spáni.
Síðan mun verðtryggða króna halda atvinnulífinu í heljargreipum skulda og allar umfram krónur munu fara í vexti og afborganir, ekki í fjárfestingar og framkvæmdir.
Þeir einu sem hagnast á þessari efnahagsstefnu hörmunganna eru hinir ofurríku, þeir fá eignir fólks fyrir slikk.
Eignir hins sjálfstæða manns.
Það er ironían í þessu.
Sjálfstæðismenn kjósa sína eigin feigð.
Kveðja að austan.
Landsmenn ganga að kjörborðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 1
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 1225
- Frá upphafi: 1412779
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1084
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.