Framboð um réttlæti.

 

Handa heimilum landsins, um leiðréttingu hinna stökkbreyttu skulda, mun aldrei ná markmiði sínu nema það rífi sig uppúr hinni þröngu nálgun á hagsmuni eins hóps, og tali um réttlæti handa öllum.

Öllum fórnarlömbum hins sírænandi fjármagns og þess kerfis sjálftöku og fjármálabrasks sem byggt var upp á árunum fyrir Hrun.

Því sundrungin, að etja einum hópi gegn öðrum er forsenda valda auðklíkunnar.

 

Bolsévikar unnu borgarstríðið í Rússlandi þó þeir væru aðeins einn hópur af mörgum, en þeir útrýmdu hverjum hópnum á fætur öðrum á meðan hinir börðust innbyrðis.  Síðan tók við 70 ára kúgun orfríkismanna.  

Þjóðverjar töpuðu seinna stríði vegna þess að framferði þeirra var svo heiftúðugt, að það sameinaði ólíkar þjóðir gegn þeim, þeir náðu aldrei að sundra því bandalagi.

 

Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir ekki síður heiftugum óvini, sem mun ganga frá sjálfstæði hennar og skilja efnahagslífið eftir í rjúkandi rústum.  

Verðtryggingin er ekki gerandi sem slíkur.  Vissulega hefur hún rænt heimili landsins yfir 400 milljarða frá Hruni, en hún er aðeins tæki, og það er aflið á bak við hana sem ógnar þjóðinni.  Að afnema verðtrygginguna, leiðrétta hinar stökkbreyttu skuldir, það er markmið, en verður aldrei að veruleika nema þessu afli sé mætt.  Og þetta afl er þess eðlis, að þó það þurfi að gefa eftir tímabundið, þá sækir það fram aftur.  og aftur og aftur.   Og mun ætíð gera þar til það er stöðvað í eitt skipti fyrir allt.

 

Hinn heiftugi óvinur sem ógnar þjóðinni er hið vanheilaga bandalag innlendra auðmanna við hið svarta fjármagn vogunarsjóðanna.

Það er þetta bandalag sem skýrir öll svikin og allt óréttlætið frá Hruni.

 

Skjaldborgin um afskriftir auðmanna og svikin við heimilin er engin tilviljun.

Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem var svipan á þjóðina til að samþykkja ICEsave, til að sætta sig við glórulausa stóriðjuuppbyggingu (það átti að fjárfesta fyrir yfir 300 milljarða) í upphafi heimskreppunnar, uppbyggingu fjármagnaða fyrir lánfé sem þegar hálfgjaldþrota, eða alveg gjaldþrota orkufyrirtæki, áttu að sjá um.  Og þetta samkomulag löghelgaði verðtrygginguna og hávaxtastefnu sem hefur sogið hundruð milljarða úr atvinnulífinu í vasa þrotabúa bankanna.

Það var engin tilviljun að vogunarsjóðirnir komu til landsins, eða þeim var afhent íslenskt efnahagslíf á silfurfati.

Og það var engin tilviljun að þrotabú þjóðarinnar var látið sækja um aðild að ESB, sú aðild átti að innsigla hið endalega gjaldþrot þjóðarinnar, uppgjörið við lánadrottna útrásarinnar, og yfirráð alþjóðlegs fjármagns yfir auðlindum landsins.

Ekkert af þessu var tilviljun, og það var engin tilviljun hvernig gerendur Hrunsins, uppklapparar þess og meðreiðarsveinar yfirtóku þjóðmálaumræðuna eftir Hrun.  Að þjóðinni var talið í trú um að svipugöng Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru endurlausn hennar, að hún væri sek, og hennar dómur væri að þræla í skuldaánauð verðtryggingar og afborgana af lánum útrásarinnar um aldur og ævi.

 

Ekkert af þessu var tilviljun, þetta var hönnuð atburðarrás þeirra sem fjárfestu í hruni þjóðarinnar.

Tilviljunin var sú atburðarrás sem fékk Ólaf Ragnar Grímsson til að vísa ICEsave til þjóðarinnar.  Þar með riðlaðist hin skipulagða yfirtaka á þjóðinni, og þess vegna er ennþá von.

Vonin felst í næstu kosningum, að þjóðin nái að mynda afl sem getur nýtt sér lög og rétt til að afhjúpa samsærið, afhjúpa hinn sírænandi lýð og láta hann sæta ábyrgð gjörða sinna.

 

Hið vanheilaga bandalag vogunarsjóðanna og innlendra auðmanna mun formlega yfirtaka bankakerfið eftir kosningar, og eignast þar með hin verðtryggðu lán, og stjórna efnahagslífinu í gegnum eignarhald bankanna á helstu fyrirtækjum þjóðarinnar. 

Í raun eru fá  fyrirtæki sem eru ekki undir náð og miskunn bankanna komin.

Leikritið er þegar hafið, og sama handrit er notað og í aðdraganda ICEsave samninganna.  

Á Alþingi var samþykkt að framlengja gjaldeyrishöftin, samróma og gerendur ICEsave glæpsins notuðu sama orðalagið.  Þeir voru að gæta hagsmuna þjóðarinnar, gjaldeyrishöftunum yrði ekki aflétt fyrr en tryggt yrði að útstreymi til vogunarsjóðanna sköðuðu ekki efnahagslífið, og svo framvegis.

Allt mjög trúverðugt, ef ICEsave hefði ekki afhjúpað þennan orðvaðal og afhjúpað hina raunverulega hagsmuni sem núverandi alþingismenn þjóna.  Hagsmuni þjóðarinnar átti að gæta í hvívetna, svo kom samkomulag sem gerði þjóðina gjaldþrota á einni nóttu er það hefði verið samþykkt, og það var samþykkt.  Vissulega með smá leikþætti þar sem sumir þóttust vera á móti, en það var samþykkt.

Það er engin ástæða til að ætla að hið sama gerist ekki núna, því þetta eru sömu leikendur, sama leikritið.  

Sama markmiðið, að afhenda hinu svarta fjármagni algjör yfirráð yfir efnahagslífi þjóðarinnar, arðræna auðlindir hennar, breyta blómlegu velferðarsamfélagi í samfélag skuldaþræla þar sem fólk stritar fyrir tilbúnar skuldir verðtryggingarinnar, og skattar þess fara í hít erlendra skulda sem teknar voru að láni til að greiða út innlendar krónueignir braskara.

 

Þetta er nákvæmlega það sem samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fól í sér, aðeins ítrekað Nei þjóðarinnar gegn ICEsave fjárkúguninni frestaði þessum áforum.

Frestaði þeim fram yfir kosningar.

 

Framboð sem skilur ekki þessa atburðarrás, og gerir sér ekki grein fyrir því ógnarafli sem sækir að þjóðinni, er annað  hvort framboð heimskunnar, eða það sem líklegra er, framboð að undirlagi hins sírænandi rumpulýðs.  

Fólkið sem talar um stjórnarskrána, fólkið sem talar um ESB, fólkið sem reynir stanslaust að siga vörn þjóðarinnar í vestur þegar sótt er að henni úr austri, er fólkið sem flokkast undir hið síðar nefnda.  Það vinnur beint fyrir ógnaröflin sem sækja að þjóðinni.

Fólkið sem ætlar að einskorða sína baráttu gegn óréttlæti hinna stökkbreyttu skulda, án þess að setja baráttu sína í það heildarsamhengi sem ég lýsti hér að ofan, er fólkið sem flokkast undir það fyrrnefnda.  Aðferðafræði þess er aðferðafræði Dúdú fuglsins sem stillti sér alltaf upp fyrir veiðimanninn svo auðveldara væri að skjóta hann.  Það mun engum árangri ná því stríð þess er ekki þessa heims, það er í ímynduðum heimi þar sem allir eru góðir, og enginn ætlar eða hefur hag af að gera öðrum illt.

 

Von  þjóðarinnar felst í framboði um réttlæti.  Réttlæti öllum til handa.  Ekki bara sumum, "ekki bara handa mér og mínum, hinir voru eitthvað bara svo vitlausir eða á röngum stað á vitlausum tíma".

Sá sem skilur ekki þessa grunnstaðreynd mun engu breyta.

Framboð um réttlæti tilkynnir að allir sem misst hafa heimili sín eftir Hrun, fái heimili sín til baka.  Jafnt syndugir sem hinir vammlausu.  Síðan verði samið um skuldir fólks, þannig að fái haldið húsnæði sínu.  Það var hægt að afskrifa hjá auðmönnum, hjá ríka fólkinu sem á stjórnmálastéttina, það er líka hægt að afskrifa hjá hinum venjulega manni.  Og enn og aftur, alveg óháð hvort menn eru vammlausir eða syndugir.  

Að átta sig á þessari staðreynd, er forsenda þess að menn verjist sterkasta vopni ógnaraflsins, sundrunginni, að etja einu hópi gegn öðrum.

 

Framboð um réttlæti tilkynnir að það muni standa vörð um það samfélag sem ól okkur upp og fóstraði, um heilbrigðiskerfið, um menntakerfið, um umönnun aldraða og sjúkra.  

Framboð um réttlæti tilkynnir að það muni vinda ofanaf heljartökum óráða AGS og ýta undir grósku og velmegun, efla innlenda framleiðslu, ná niður matvælaverði og svo framvegis.  Ráðin eru þekkt og augljós, má lesa um þau í stefnuskrám margra stjórnmálaflokka (svo dæmi sé tekið þá er kaflinn um gróskuna í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins mjög skynsamur), aðeins brenglun hugarfarsins, sem á rætur sínar að rekja til hagsmuna þeirra sem ætla að arðræna þjóðina og skuldaþrælka,  útskýrir að þessar augljósu leiðir voru ekki farnar.

Brenglun hugarfarsins sem taldi fólki trú um að niðurskurður, ofurskuldsetning, skatthækkanir, væru leið uppbyggingar, en ekki samdráttar og kreppu eins og sagan kennir án undantekninga.

 

Framboð um réttlæti, um endurreisn landsins, um nýtt og betra Ísland, snýst gegn ógnaraflinu, hinu vanheilaga bandalagi innlendra auðmanna og vogunarsjóðanna.

Stór hluti af eignum þrotabúa bankanna er ránsfengur verðtryggingar og hávaxta AGS. 

Stór hluti  af eignarhaldi þrotabúanna á fyrirtækjum er tilkominn vegna ólöglegra gjörninga, eða vafasamra viðskiptahátta sem viðgengust vegna tengsla hins illa fengna auðs við stjórnmálastéttina.

Þessu eiga þrotabúin að skila, hvort sem þau gera það með samningum eða einhliða lögboði.

 

Framboð um réttlæti, um endurreisn landsins, um nýtt og betra Ísland tilkynnir að opinber rannsókn verði gerð á starfsemi þrotabúa eftir Hrun, hvort sem það er þrotabú gömlu bankanna, eða öðrum þeim þrotabúum sem hafa útdeilt eignum til vina og vandamanna.  Eða innan gömlu auðklíkunnar.

Framboðið tilkynnir um opinbera rannsókn á starfsháttum nýju bankanna, hvernig þeir innheimtu ólögleg lán, innheimtu ólöglega vexti, hvernig þeir settu heimilum og fyrirtækjum afarkosti, hvernig þeir útdeildu eignum á hrakvirði til vina og vandamanna, til meðlima gömlu auðklíkunnar.

Framboðið tilkynnir að skipuð verði rannsóknarnefnd sem rannsaki allt viðskiptalífið fyrir Hrun, þar sem allir fjármagnsflutningar, eignatilfærslur, sýndarviðskipti og annað verði rannsakað.  Sérstök árhersla verði lögð á ábyrgð endurskoðanda, lögmanna og annarra þeirra starfsmanna sem gerðu öll sýndarviðskiptin möguleg.  

 

Þessar rannsóknir verða gerðar á forsendum neyðarlaga sem heimila slíkar rannsóknir og byggja á þeirri forsendu að það er glæpsamlegt að setja heila þjóð á hausinn, að eyðileggja efnahagslíf hennar og mergsjúga helstu fyrirtæki hennar þannig að aðeins skuldug skel er eftir.

Þó glæpaklíkan sem gerði þetta hafi látið breyta lögum sér til hagsbóta þá munu neyðarlögin afturkalla þann gjörning, lög sem áttu að gilda í heiðarlegu og opnu þjóðfélagi, verða þau lög sem til viðmiðunar verða höfð.  Slíkt er nauðsynlegt til að hindra að glæpaklíkur kaupi upp stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka og geri eitthvað viðlíka í framtíðinni.  

Neyðarréttur þjóða er æðsti réttur, gegn honum geta lög spillingar og auðs ekki gengið.

 

Framboð um réttlæti, um endurreisn landsins, um nýtt og betra Ísland mun þekkjast á því að það boðar til opins borgarafundar um slíkt framboð.  Þar sem öllum flokkum, sem vilja nýtt og betra Ísland, sem vilja réttlæti handa heimilum landsins, sem vilja innlenda endurreisn á forsendum velferðar og heilbrigðs mannlífs, verði boðið að mæta og ná saman um eitt sameiginlegt, öflugt framboð þjóðarinnar gegn ógnaraflinu.

Hvort sem 5 eða 500 hundruð mæta er aukaatriði, framboðið er til.

Tilgangur þess og markmið mun tryggja að áður en yfir líkur muni það ná þeim árangri að vernda þjóðina gegn skuldaánauð og arðráni ógnaraflsins, og það mun tryggja mannsæmandi framtíð barna okkar.

 

Sá sem vill rétt, ætlar að gera rétt, mun gera rétt.

Og þegar þjóðin sér það, mun hún koma með í vegferðina miklu sem liggur að nýju og betra Íslandi.

 

Því það er upphafið sem ræður endinum.

Að menn haldi í rétt átt.

 

Hitt kemur að sjálfu sér.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þessu inntaki pistils; "Neyðarréttur þjóða er æðsti réttur, gegn honum geta lög spillingar og auðs ekki gengið."

Er ekki alveg að átta mig á andúð þinni á því að taka af tímasetningar á afnámi gjaldeyrishafta.  Það er skynsamlegt og veldur því að vogunarsjóðir missa taktinn og vita ekki hvort þeir nái að græða á krónunni,mýkir varnirnar (eins og Þorsteinn Jónsson sagði þegar hann var að bombardera þýskara í seinna stríði)!

Algerlega ósammála þér að fara eigi út í einhverja rannsókn á viðskiftalífinu og skilanefndum. Eða hvað sýnist þér vera að koma út úr sérstökum?    Eingöngu tíma og peningaeyðsla til þess fallin að fita lögfræðinga og rugla fókus þjóðarinnar,nóg komið af slíku. 

Eðlilegra að gangast í að loka hliðum og glufum á girðingum en liggja yfir því hvar,hvernig og hversvegna skepnurnar sluppu út, jú og slátra túnárum (þ.e. setja ekki kennitöluflakkara og hrunkónga til áhrifa á ný ).   

Aðalatriðið er að "gjöra rétt" og bera fyrir sig neyðarrétt þjóðarinnar. Leiðrétting stökkbreyttra skulda kemur þar í fyrsta sæti. Svo þarf að losa þjóðina úr viðjum snjóhengju og gjaldeyrisafta. Þar kemur til skiftimyntarleið sem sumir kenna við Friðrik Guðnason.

Afnema skyldu til að greiða í lífeyrissjóði og skylda lífeyrissjóði til að greiða fólki út rétt sinn ef það svo kýs! Skylda menn til að greiða sömu upphæð í skatt og taka upp gegnumstreymiskerfi.

Stokka spilin og gefa upp á nýtt. Leysa fólkið undan oki því sem á það hefur verið sett í nafni frelsis!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 14:01

2 identicon

Upplýsinga- og baráttusvæði fólks með lánsveð.

://www.facebook.com/groups/209585729108221/

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 17:14

3 identicon

Vel skrifaeð ...vildi óska þess að það yrðu fleiri sem gætu skrifað um hvað er búið að ganga á í þessu þjóðfélagi allt of lengi.....við eigum að geta sagt með stolti Ég er Islengur og er stolt af því,enn því miður hef ég ekki getað sagt þetta nema með þvílíka tregðu,þetta er andsk sárt aðþurfa að viðurkenna það að maður skuli hafa verið svona heimskur og trúblindur,þið sem lesið þetta hérna verðið að fyrirgefa skriftina hjá mér enn ,ég er ekki vön að skrifa um neitt hitunarmál,gerir bara eins og þessi venjulegi maður, sem sagt situr í sínu horni og kvartar ,takk fyrir að setja þetta fram Bjarni Gunnlaugur,ég vona svo sannanlega að fleiri muni taka i sama streng og við getum loks synt þjófunum hvað það þyðir í raun að vera Islendingur!STATTU UPP ÍSLENDINGUR!og syndu hvað í þér byr!

kristin helga jorgendottir (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 17:36

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Amen á eftir efninu.

Magnús Sigurðsson, 10.3.2013 kl. 19:43

5 identicon

Gjör rétt - þol ei órétt.

Segi svo sem Magnús:

"Amen eftir efninu."

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 20:09

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið kæra fólk.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.3.2013 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 628
  • Sl. sólarhring: 754
  • Sl. viku: 6212
  • Frá upphafi: 1400151

Annað

  • Innlit í dag: 572
  • Innlit sl. viku: 5336
  • Gestir í dag: 543
  • IP-tölur í dag: 533

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband