9.3.2013 | 12:02
"Við höfum fengið nóg."
Jamm, við strákarnir vorum að hlusta á Grýlurnar kyrja þetta lag í myndinni Með allt á hreinu.
Drengjunum fannst það óheyrilega fyndið þegar þær kyrjuðu, "karlpungar, pungrottur", eru komnir á þann aldur að hlæja að stelpum sem brúka tungumálið.
Þessi texti kom upp í huga mér seint á fimmtudagskvöldið þegar ég las í þeirri ágætu bók, Morðið á Bessastöðum, en ég hef alltaf haft gaman að bókasyrpunni um Stellu Blómkvist, súpergellulögmann.
Ég ætlaði samt ekki að nenna að taka hana á bókasafninu því hún fékk lélega dóma, Stella sögð þreytt, og lítt spennandi. En maður svíkur ekki vini sína í mótbyr, svo ég sló til. Og var sleginn því bókin var góð, reyndar ekki búinn, en góð það sem af er.
Af hverju voru dómarnir svona slakir, af hverju var verið fæla fólk frá að kaupa þennan saklausa reyfara.
Þegar ég las, þá smán saman kveikti ég á perunni. Peningavaldið sem á fjölmiðilinn (þeir þykjast vera margir en eru í raun aðeins einn, fjölmiðill peninganna) hefur líklegast ekki líkað bókin, og nytsamur sakleysingi með engan smekk fyrir kaldhæðinni súperlögmannsgellu fenginn til að dæma.
Og á blaðsíðu 133 sagði ég út í loftið (sem er minn aðal viðræðuvettvangur), "nú er komið nóg, við höfum fengið nóg, karlpungar, pungrottur".
Höfundur Stellu hefur alltaf krítiserað valdið og spillinguna, og reynst um margt forspár um það sem átti eftir að gerast. Á sinn hátt góður þjóðfélagsrýnir, þó frasinn stjórni stílnum. En fyrir þá sem ekki vita, þá er Stella gangandi frasi.
Sagan er látin gerast í byrjun árs 2009, og Hrunið er í bakgrunninum, því peningahýena var myrt.
Það er ekki það að maður viti þetta ekki, og að maður hafi ekki þúsund sinnum lesið um þetta áður, og það sem sagt er í bókinni eru engar nýjar fréttir.
En ég fékk alltí einu bara nóg, fékk alltí einu nóg.
Nóg af því fólki auðs og valda sem sakar mig um lýðskrum vegna þess að ég vill að það sé viðurkennt að þeir sem stjórnuðu landinu, brugðust, og mistök þeirra öllu mörgum miklu tjóni.
Og þegar menn viðurkenna þau mistök, biðjast menn fyrirgefningar, og reyna fram í rauðan dauðan að bæta fyrir þau mistök, reyna að bæta fórnarlömbum Hrunsins það tjón sem þau urðu fyrir.
Það kallast siðuð hegðun í réttlátum samfélagi.
Ekki lýðskrum.
Ég ætla ekki að rekja söguna, hún er algjört aukaatriði málsins.
Mig langar hinsvegar til að vitna í nokkrar setningar sem líklegast fylltu bikar þolinmæði minnar, þær segja sem slíkt ekkert nýtt, en þær kveiktu á hugrenningartengslum sem er kveikja þessa pistils, þessa uppgjörs við ræfildóm þjóðarinnar að líða órétt, að telja jarm mótmæli, að telja sundrungu vopn gegn hinum sírænandi peningaöflum.
Þekkir því betur en flestir aðrir ranghala samfélagsins þar sem stjórnmál og peningar ráða ríkjum á bak við tjöldin. Í reykfylltum herbergjum valdsins. (bls 114)
Benedikt stundaði verðbréfaviðskipti hjá Búnaðarbankanum á tíunda áratugnum og þegar sá banki var einkavinavæddur og sameinaður Kaupþingi varð Bensi einn af yfirmönnum nýja bankans. Hann rak jafnframt eigið verðbréfafyrirtæki og græddi á tá og fingri, meðal annars á braski með hlutabréf í DeCode og OZ á gráa markaðnum, en þá blekkti hann fullt af fólki til að kaupa slík bréf á fáránlegu yfirverði. Sjálfur leit hann aldrei til baka og margfaldaði gróða sinn á endalausum hlutabréfabraski hér heima og erlendis í nafni óteljandi einkahlutafélaga. Útrásarvíkingar notuðu hann mikið til að leppa fyrir sig þegar þeir þurftu að að halda uppi gengi hlutabréfa í fyrirtækjum sem voru í reynd gjaldþrota skeljar. (bls 115).
Hrólfur var líka einn þeirra stjórnenda og eigenda íslensku bankanna sem fóru um miðja nótt til London í einkaþotum með margar ferðatöskur fullar af pundum, dollurum, evrum og svissneskum frönkum í farangrinum. Öllum þeim erlendum peningaseðlum sem þeir gátu hreinsað út úr hvelfingum bankanna fyrir flóttann. Úttroðnu ferðatöskurnar voru auðvitað smáaurar miðað við milljarðana sem eigendur og stjórnendur íslensku bankanna mokuðu út úr fyrirtækjunum síðustu vikur og mánuði fyrir hrunið. Engu að síður varð seðlaburður stjóranna inn í einkaþotur eiganda bankanna táknrænn í hugum almennings fyrir bankarán aldarinnar. (bls 133).
Ég fékk nóg að þessir menn bakherbergja auðs og valda gátu samið við forystufólk Sjálfstæðisflokksins um afskriftir útvaldra og í stað þess myndi flokkurinn styðja skuldaánauð þjóðarinnar, skuldaánauð kjósenda sinna.
Ég fékk nóg af þeirri fyrirlitningu á vitsmunum heiðarlegs fólks sem endurspeglast í auglýsingaherferð flokksins, Fyrirheit í þágu heimilanna. Fólk kýs Sjálfstæðisflokkinn vegna grunn lífsskoðana sinna, ekki vegna þess að heili þeirra er á stærð við litla valhnetu.
Ég fékk nóg af baktjaldamakkinu sem olli því að vinstri flokkarnir sviku lífsskoðanir sínar og hugsjónir, og tóku að sér böðulsverkin fyrir fjármagnið þegar Sjálfstæðisflokkurinn heltist úr lestinni.
Smánuðu þar með alla baráttu undangenginna kynslóða fyrir rétti alþýðunnar, fyrir réttinum til mannsæmandi lífs.
Ég fékk nóg af þráðum valdsins sem hafa náð að sundra andófinu gegn þeim með því að nýta sér hégómagirni og valdafíkn þess fólks sem taldi sig sjálfskipað til að leiða vörn þjóðarinnar gegn hinu sírænandi valdi þannig að krafan um réttlæti er orðin krafa um breytingu á orðum á blaði sem valdið hefur aldrei farið eftir og mun aldrei fara eftir.
Barátta gegn ofríki og skuldaánauð er ekki barátta fyrir breytingu á stjórnarskrá, barátta gegn ofríki og skuldaánauð er að hrekja þá frá völdum sem styðja ofríki og ánauð, hrekja þá frá völdum neita fórnarlömbum Hrunsins um réttlæti, um sanngirni, um framtíð.
Þess vegna er ekki nóg að fá nóg á hinum sírænandi rumpulýð sem rændi fólk og fénað fyrir Hrun, gerði þjóð sína gjaldþrota, og komst upp með það, það þarf að mæta þessum lýð.
Það þarf að láta hann sæta ábyrgð.
Það þarf að hrekja hann úr skúmaskotum valdsins, hrekja hann úr reykfylltum bakherbergjum, afhjúpa meðreiðarsveina hans, stefna honum til dóms, og dæma.
Þegar þessi lýður snérist gegn þjóð sinni eftir Hrun, lagðist á náinn til að ræna og rupla, seldi börn okkar í skuldaánauð vogunarsjóðanna, þá fyrirgerði hann rétti sínum til að kallast fólk.
Til að teljast borgari þessa lands.
Til að ganga laus.
Það þarf að láta hart mæta hörðu.
Jafnframt því þarf að tryggja öllum fórnarlömbum þessa lýðs réttlæti.
Ekki bara þeim sem urðu fyrir skaða vegna Hrunsins, heldur líka þeim sem féflettir voru fyrir Hrun.
Samfélagið leyfði þetta rán, og þetta rupl.
Samfélagið þarf að axla ábyrgð.
Einu sinni.
Annars er úti um okkur sem þjóð.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:08 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 448
- Frá upphafi: 1412810
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 387
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
þú ert verulega steiktur. Góðan bata.
Bjarni (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 01:27
Takk fyrir góðar óskir Bjarni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.3.2013 kl. 09:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.