5.3.2013 | 06:09
Fagleg lygi við Háskóla Íslands.
Þegar menn ástunda faglegt vændi vegna ávinnings þá dugar ekki alltaf fagleg vanhæfni, fagleg lygi er þá síðasta vopnið sem gripið er til.
Hálfsannleikurinn, blekkingarnar duga ekki.
Skoðum tilvitnun úr Vaxtaverkjum Gylfa Magnússonar.
Lækkun raunlauna á sér aftur tvær skýringar, annars vegar samdrátt efnahagslífsins og hins vegar hrun krónunnar. Hrun krónunnar olli því að lækkun raunlauna varð mun meiri en sem nam samdrætti efnahagslífisins. Það er skuggahliðin á hinum margrómaða sveigjanleika gjaldmiðilsins.
Ef þetta væri satt, að krónan hefði fallið meir en ástæða væri til, og þá líklegast annað hvort vegna vonsku hennar eða vonsku mannanna, þá hefði í fyrsta lagi ekki verið þörf á gjaldeyrishöftum, og í öðru lagi, þá þýðir gengislækkun umfram jafnvægisgengi jákvæðan viðskiptajöfnuð.
Gjaldeyrishöftin voru til að loka inni erlent skammtíma fjármagn, og viðskiptajöfnuður var neikvæður um 2,2% fyrsta árið eftir Hrun, 2009 og aðeins jákvæður þrjá ársfjórðunga af átta fyrir árin 2010 og 2011.
Með öðrum orðum, þjóðin er að safna skuldum, gengið ætti að vera lægra.
Þetta veit Gylfi Magnússon, og hann lýgur þarna blákalt.
Í þessu samhengi, þegar hann lýgur vandanum uppá krónuna, þá má aldrei gleymast að innri jöfnuður hagkerfa hefur sömu áhrif þó notuð sé sameiginleg mynt eins og evran er. Það borgar enginn annar skuldir hagkerfa, þær gufa ekkert upp þó myntin sé sameiginleg.
Þess vegna er gott að muna að upphaflega var fjármálavandræði þjóða eins og Grikkja og Íra aðeins brot af þeim vanda sem hér var. Hér hrundi mikilvæg atvinnugrein og tekjur ríkisins drógust mikið saman.
Slíku var ekki að dreifa, hvorki á Írlandi eða í Grikklandi. Upphaflegi vandi Grikkja var fjármögnunarvandi ríkissjóðs, þeim tókst ekki að fjármagna hallan á ríkissjóði, og gátu í kjölfarið ekki endurfjármagnað skuldir sínar. Á Írlandi þurfti ríkið að endurfjármagna bankakerfið, en tölurnar þar voru ekki viðlíka eins og hér, og stóru bankarnir þar fóru ekki í þrot.
Þar var jafnvægi náð með launalækkun og niðurskurði ríkisútgjalda, og stórfelldu atvinnuleysi. Í dag er Gríska hagkerfið gjaldþrota, og það er engin von framundan. Írar skrimta, almenningur berst í bökkum, og aðeins beðið eftir að næsti banki fari á hliðina. Írum er ómögulegt að greiða evruskuldir sínar á núverandi lánskjörum.
Þess vegna er það svo rangt að stimpla allt sem miður hefur farið eftir Hrun, á krónuna.
Það gilda sömu efnahagslögmál hvort sem þjóðir eru með sameiginlega mynt eða sjálfstæðan gjaldmiðil. Og það er ekkert samhengi á milli sjálfstæðrar myntar og verðtryggingar. Verðtrygging er pólitísk ákvörðun til að vernda hagsmuni eins hóps á kostnað annarra.
Þá er full ástæða að vekja athygli á annarri beinni lygi Gylfa Magnússonar, eins ómerkileg og hún er.
Hér duga hins vegar engar töfralausnir, þótt af þeim sé nægt framboð. Það er einfaldlega ekki hægt að færa byrðar af einum þjóðfélagshópi án þess að kostnaðurinn komi einhvers staðar niður.
Það er engir töfrar að baki þess að takast á við skuldavanda þjóðar.
Slíkt er nauðsyn ef þjóð ætlar að lifa af sem sjálfstæð þjóð, og þær sjálfstæðu þjóðir sem lent hafa í alvarlegum skuldavanda, hafa gert það til að lifa af. Þær sem ekki hafa gert það, eru ekki lengur sjálfstæðar þjóðir.
Það er hægt að nefna fjölmörg dæmi úr nútímasögunni, og eldri sögu, um aðgerðir sem hugsaðar hafa verið til að lækka skuldir almennt.
Gylfi Magnússon ætti hinsvegar í erfiðleikum um að tína til dæmi um hið gagnstæða.
Síðan eru það öfugmæli að tala um að færa byrðar af einum þjóðfélagshóp, verðtryggingin færir byrðar á einn þjóðfélagshóp með óréttmætum hætti. Þó hagsmunahópur nái að knýja fram slíkt óréttmæti í gegnum löggjöf, þá er það jafn óréttmætt fyrir það. Sagan kann fullt af dæmum um slíka lagasetningu, og réttindabarátta hins almenna manns er einmitt vörðuð baráttu gegn slíkum ólögum.
Og það að afnema slíka óréttmæta byrði, er ekki tilfærsla frá einum hóp til annars.
Þetta er grundvallarlygi þeirra sem ávinning þiggja fyrir að verja verðtrygginguna, og líklegast sú ómerkilegasta. Þeir reyna að skapa úlfúð milli hópa, og reyna að telja eldra fólki í trú um að þeir séu að verja þeirra hagsmuni, þegar sá sem hagsmuna hefur af varðgæslu þeirra, er sá sem fjárfest hefur í verðtryggingunni.
Samfélagið ber ábyrgð á löggjöfinni um verðtryggingu skulda, samfélagið ber kostnaðinn af leiðréttingu hennar. Enginn einn hópur gerir það umfram aðra.
Og til þess hafa verið útfærðar leiðir sem hafa langt um minni kostnað í för með sér en sú leið sem felst í því að gera ekki neitt. Kerfið er að hrynja út af of miklum skuldum, þjóðfélagið er að hrynja út af of miklum skuldum, þvingaðar afskriftir stefna í að verða langtum hærri upphæð en sú upphæð sem hlýst af leiðréttingu verðtryggingarinnar.
Að ekki sé minnst á mestan kostnaðinn, þann kostnað sem fylgir þjóðfélagi í upplausn og deilum, átök eru aldrei ókeypis, kúgun kostar.
Samfélagslegur kostnaður fellur til, það er rétt.
En rökin á bak við samfélagslegan kostnað eru þau, að það kostar meira að ráðast ekki í hann.
Menntakerfið kostar, en af menntun er ávinningur sem er meiri en kostnaðurinn við menntakerfið. Heilbrigðiskerfið kostar, en hagsæld fylgir heilbrigði.
Og samfélagsátt um réttlæti í skuldamálum heimilanna er hagkvæmasta fjárfesting sem ein þjóð getur ráðist í.
Og enginn faglegur lygari fær þeirri staðreynd breytt.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 336
- Sl. sólarhring: 782
- Sl. viku: 6067
- Frá upphafi: 1399235
Annað
- Innlit í dag: 286
- Innlit sl. viku: 5141
- Gestir í dag: 268
- IP-tölur í dag: 266
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.