3.3.2013 | 09:46
Vaxtaverkir verðtryggingarinnar.
Verðtryggingin er tæki sem á sjálfvirkan hátt magnar upp skuldir.
Hún er hugsuð til að vernda verðgildi lána gegn verðbólgu, það er víxlhækkunum launa og verðlags, en hún mælir allar hækkanir óháð hvort um slíka víxlhækkun er að ræða.
Uppskerubrestur, hækkun á orkugjöfum, rýra kaupmátt, en hækka lán. Kaupmátturinn næst ekki til baka með launahækkunum, heldur með aukinni framleiðni en eftir stendur hærra lán, lánveitandinn græðir á atriðum sem hvorki hann eða lántakandinn hafa nokkuð með að gera.
Verðtryggingin getur þarna orðið sjálfstæður þrýstivaldur á launahækkanir, kaupkröfur aukast í atvinnulífinu vegna hækkunar lána.
Verðtryggingin mælir einnig sína eigin hækkanir, hún sem slík er orðinn sjálfstæður hækkunarvaldur á verðlagi, sem aftur mælist í hækkun lána.
Svona sjálfvirkt hækkunarferli magnar upp skuldir þar til að á ákveðnum tímapunkti eru þær hættar að endurspegla raunverðmæti í samfélaginu og árlegar hækkanir verðbóta er langt umfram fjármunamyndun í hagkerfinu.
Það er verið að búa til eitthvað sem er ekki til, og slíkt endar alltaf á einn hátt, raunveruleikinn nær tökum á hinu tilbúna, skuldir eru afskrifaðar þar til raunhæft er að þær verði borgaðar.
En eftir að þetta ferli er orðið ósjálfbært, og þar til hin verðtryggðu lán eru aðlöguð að raunveruleikanum, þá sýgur of mikla fjármuni út úr efnahagslífinu miðað við verðmætasköpun svo bæði dregur úr neyslu sem og fjárfestingum. Hún ýtir undir óstöðugleika, þrýstir á launhækkanir, og veldur óróa bæði í samfélaginu og í stjórnmálum.
Órói sem slíkur er kostnaður fyrir hagkerfið, og getur stórskaðað atvinnulífið. Gott dæmi er útbreiddur stuðningur við ofurskattlagningu á sjávarútveginn sem á rætur sínar í pirring með verðtrygginguna.
Verðtryggingin er orðin sjálfstæður skaðvaldur, þvert á upphafleg markmið hennar að stuðla að stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum.
Í ferlinu áður en kemur að almennum afskriftum verða þeir verst úti sem fyrir stóðu höllum fæti. Það er mikill og útbreiddur misskilningur að fjármálakerfið gangi að þeim sem skulda mest, það eru þeir sem eru bestu viðskiptavinirnir því á bak við skuldir þeirra er mikið tekjuflæði eða einhver ítök í því kerfi sem lánaði þeim.
Fjármálakerfið gengur fyrst og fremst af þeim sem hafa meðaltekjur eða minna, og þeim sem eiga ekki miklar eignir.
Samfélagslegt óréttlæti, samfélagslegt misrétti, það eru orðin sem lýsa dauðstríði hins sjálfvirka skuldahækkunarferlis sem verðtryggingin er.
Á Íslandi í dag, blasir þetta við.
Alvarlegasti ágalli verðtryggingarinnar er samt að hún reynir að vernda tilbúin verðmæta sem verða til í verðbólum. Verðbóla er það þegar efnisleg verðmæti fá nafnvirði langt umfram raunvirði.
Frægasta dæmið er frá Hollandi á sautjándu öld þar sem einn túlípani kostaði meir en ein höll.
Menn geta ímyndað sér hvernig ástandið hefði verið ef þessar glórulausu hækkanir á túlípönum hefðu sjálfvirkt verið tengdar við allar skuldir landsmanna, og þær hefðu staðið eftir eftir að hin meintu túlípana verðmæti þurrkuðust úr. Landið hefði orðið gjaldþrota og þurrkast út af landkortum heimsins.
Í verðbólum tapast alltaf fjármunir og sú staðreynd er ákveðinn öryggisventill á stjórnlausar lánveitingar í slíkar bólur. Ef sá öryggisventill er fjarlægður, að lánveitandi telji sér í trú um að hann geti alltaf innheimt lán sín óháð hinum glötuðu verðmætum, þá lánar hann bara og lánar, græðir á bólunni en er öruggur að aðrir beri tapið.
Aðrir bera þá hans tap, og sitt tap líka.
Eitthvað sem getur aldrei gengið þegar samfélagið er allt undir.
Þetta er það sem gerðist í aðdraganda Hrunsins, bankarnir lánuðu stjórnlaust í verðbólur, bæði á fasteignamarkaði sem og á hlutabréfamarkaði, í trausti þess að verðtryggingin verndaði lánasafn þeirra.
Þess vegna óttuðust þeir ekki skarpa gengisleiðréttingu þegar verðbólan springi og hagkerfið leitaði jafnvægis. Þá fóru þeir aðeins úr einum ábátasömu viðskiptum í önnur.
Þeir töpuðu vissulega fjármunum, sem lánardrottnar þeirra þurftu að afskrifa, en í staðinn þurrkuðu þeir upp eigið fé heimila og fyrirtækja.
Eignuðust í raun samfélagið.
Og það er þessi eign sem barist er um eftir Hrunið.
Fjársterkir aðilar, sem má kenna við vogunarsjóði þó slíkt sé einföldun á flóknum veruleik, ætla sér að eignast bankana til að geta drottnað yfir íslensku samfélagi og auðlindum þess.
Þetta er Stríðið um Ísland sem Michael Hudson lýsti svo vel í góðri grein sinni í Fréttablaðinu vorið 2009.
Þetta eru vaxtaverkir verðtryggingarinnar, að erlent fjármagn ætlar sér að yfirtaka samfélag okkar, sér til góðs en okkur til tjóns.
Um þessa vaxtaverki verðtryggingarinnar snúast næstu kosningar.
Þær eru síðasta hálmstráið okkar til að hindra að þjóðin verði tekin yfir.
Baráttan gegn verðtryggingunni er því ekki aðeins barátta gegn skuldaánauð, heldur líka barátta um framtíð okkar sem þjóðar. Hvort við lifum hér frjáls, eða hvort við lifum í ánauð.
Í dag erum við sundruð.
Sundruð verðum við sigruð.
Aðeins Samstaða um lífið fær okkur bjargað.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 618
- Sl. sólarhring: 636
- Sl. viku: 6349
- Frá upphafi: 1399517
Annað
- Innlit í dag: 530
- Innlit sl. viku: 5385
- Gestir í dag: 485
- IP-tölur í dag: 479
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gamli sorrí Gráni
er gagnslaus og smáður
gisinn og snjáður
meðferð illri af.
Hann er feyskinn og fúinn
og farinn og lúinn
og brotinn og búinn að vera.
Hann er þreyttur og þvældur og
þunglyndur spældur
og beizkur og bældur í huga.
Gamli sorrí Gráni
er gagnslaus og smáður
gisinn og snjáður
meðferð illri af.
Hann er beygður og barinn
og brotinn og marinn
og feigur og farinn á taugum.
Hann er knýttur og kalinn
og karoni falinn
ó hvað hann er kvalinn af öllum.
Gamli sorrí Gráni
er gagnslaus og smáður
gisinn og snjáður
meðferð illri af.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 3.3.2013 kl. 13:27
Sæll.
Eins og ég nefndi hér:
http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1285555/ í nr. 1 þarf að vera jafnræði á milli aðila - lántaka og lánveitanda. Því er ekki til að dreifa núna. Verðtryggingin er tvíeggjað sverð, þegar lán verða lántaka ofviða getur hann ekki borgað og lánastofnunin situr uppi með tapið. Þannig á það að vera. Báðir aðilar þurfa á bera ábyrgð.
Sjallarnir komu með tillögu fyrir að verða tveimur árum sem er mjög góð: Lántakinn geti skilað lánastofnun sinni lykum að eigninni og verið þar með laus allra mála. Þá er það lánastofnunarinnar að koma húsnæðinu í verð og þar með er hún látin taka ábyrgð á eigin útlánastefnu. Lántakinn verður svo sjálfur að finna sér þak yfir höfuðið en hann er í það minnsta ekki þræll. Ef málin væru svona væri það báðum í hag að lenda einhverju samkomulagi enda lánastofnunum dýrt að sitja uppi með margar eignir sem engar tekjur eru af.
Mér finnst rangt að breyta atriði í samningi eftir á, samningar skulu standa og þriðji aðili á ekki að skipta sér af - allra síst ef þriðji aðili er stjórnmálaafl.
Í þessari sömu færslu þinni er hinn ágæti Loftur A.Þ. að tala um að leiðin til að stöðva verðbólgu sé að koma á fastgengi. Slíkt gengur ekki, sveifluáhrifin kæmu þá fram í auknu atvinnuleysi. Fyrir þessu finna nú Grikkir. Loftur vill kannski svara því hvers vegna ferðamenn flykkjast hingað? Ef SÍ hunskaðist til að hætta afskiptum sínum af gengi krónunnar myndi ferðamönnum fjölga enn meira enda krónan kolvitlaust skráð. Hvaða munur er á peningamálanefnd SÍ og myntráði? Miðstýrðar efnahagsáætlanir virka ekki, við höfum áratuga reynslu af því víðs vegar um heiminn - samt lætur Loftur sér ekki segjast. Ríkisdalur reddar sömuleiðis engu en ég fer ekki út í það hér.
Bjarni Gunnlaugur talar um að krónan hafi verið eyðilögð í aðdraganda hrunsins. Þetta rökstyður hann ekki enda er þetta bara tóm fullyrðing. Ætli Bjarni Gunnlaugur viti hvað t.d. dollarinn hefur glatað miklu verðgildi undanfarin 100 ár? Sennilega ekki. Er evran frábær vegna þess að gengi hennar er hátt/sterkt? Ætli Bjarni Gunnlaugur viti hvað evran býr til mikið atvinnuleysi í Evrópu? Hvert er meðalatvinnuleysið innan ESB núna? Hvað var það fyrir 2 árum?
Helgi (IP-tala skráð) 3.3.2013 kl. 14:35
Segðu Elín um meðferðina á gamla Grána.
Blessaður Helgi, þú ert eiginlega á vitlausum þráð, Loftur hefði haft gaman að smá rimmu við þig.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.3.2013 kl. 08:35
Þetta er glimrandi pistill hjá þér Ómar og gengur ekki hnífurinn milli okkar þar á skilningi á gangverki efnahagslífsins.
Helgi @2, einhvernveginn fannst mér óþarfi að lengja athugasemd með rökstuðningi fyrir því sem ég hélt að flestir sæmilega meðvitaðir menn vissu þ.e. að krónan sé ónýt eftir hrunið.
Það er búið að fjölga svo krónum í umferð og þær eru svo margar ávísun á verðmæti sem eru ekki (voru líklega aldrei) til að til þess að þær næðu að endurspegla raunhagkerfið þá yrðu þær að falla gríðarlega í verði frá því sem nú er talið nauðsynlegt til að hagkerfið gangi. Lestu t.d. greinar Friðriks Guðnasonar og/eða sjáðu viðtal við hann í síðasta silfri. Það að peningaprentvélarnar voru á fullu í bílskúrum fyrir hrun orsakar eyðileggingu krónunnar.
Það er t.d. fullkomnlega óverjandi stuldur á eigum heiðarlegra krónueigenda að taka innistæðulausu gerfikrónurnar með sem fullgildar á móti í krónupottinn áður en verðbólgan yrði látin þynna hann niður í jafnvirði við raunhagkerfið!
Friðrik nefnir aðeins í silfrinu líklega einu raunhæfu lausnina en sú er að skifta um gjaldmiðil - strax. Taka upp nýja krónu en menn skila þeirri gömlu inn á mismundandi gengi.
Var þetta nógu skýrt?
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 4.3.2013 kl. 17:02
Blessaður Bjarni.
Veistu, eiginlega er ég alveg sammála þér. Pistillinn er firna vel heppnaður, flokkast undir svo kallaða grunnpistla þar sem ég geymi röksemdir komandi debata þegar ég er í áreitinu.
Og hugsaður til að gagnast öðrum sem vilja taka rökslaginn.
Ég er mikið mikið sammála þér líka um nýkrónuna, hvaða form nákvæmlega sem verður valið.
Síðan verðum að læra af reynslunni.
Það þýðir ekki endalaust til dæmis að gera kjarasamninga sem ávísa á ætlaðan hagvöxt, eitthvað af honum verður að vera komið fram.
Og það verður að stöðva peningavél bankanna.
Ekki væri heldur verra að leyfa genginu að safna örlítið í sjóði, það er að hafa gengisskráninguna hagfellda útflutningi, en ekki innflutningi. Til skamms tíma þýðir það lægri kaupmáttur gagnvart útlöndum, en til lengri tíma styrkir það raunverðmætasköpun, og á ákveðnum tímapunkti taka raunlaun slíkra aðferðafræði fram úr raunlaunum innflutningsnálgunarinnar.
Auk margs annars, sem verður rætt þegar að heiðarlega fólkið, og heiðarlegu krónurnar hafa hrakið hinar á flótta.
Næstu kosningar eru örlagastund þjóðarinnar.
Ef okkur mistekst að skapa sjálfstæðan flokk um heiðarlegt fólk, líf þess og lífsbaráttu, þá verður rosalega erfitt að spóla til baka.
En að sjálfsögðu verður barist á meðan einhver baráttumaður dregur lífsandann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.3.2013 kl. 18:02
Slagurinn stóri og efiði verður um/við lífeyrissjóðskerfið. Þar munu þeir áfram höggva er hlífa skyldu.
Sannleikurinn er sá að ef lífeyrissjóðskerfið fær ekki lengur að skreyta sig með fölskum fjöðrum (krónum) þá kemur í ljós að það er með öllu ófært að standa undir loforðum sínum. Þá kemur hinn napri sannleikur í ljós að þeir sem eru að greiða inn í kerfið í dag eru ekki að leggja inn fyrir eigin framtíð heldur að taka þátt í falsmyndinni svo að lífeyrisþegar dagsins í dag fái þó eitthvað út úr ónýtu kerfi.
Frekar enn að horfast í augu við vandann og leggja kerfið af, þá skulu þeir sem áttu að berjast fyrir hagsmunum almennings, verkalýðsforkólfar eins og t.d. Gylfi Arnbjörnsson og Guðmundur Gunnarsson tala sig rauða fyrir hagsmunum þessa ónýta kerfis. Hagsmunir sem felast í að liggja eins og ormur á gulli á fölskum ávinningi stökkbreytingarinnar en loka um leið augunum fyrir yfirgengilegum stuldi úr kerfinu af hálfu þeirra er áttu að gæta þess!
Ein lausn væri að gera kerfið þannig upp að þegar rétt hefur verið reiknað um raunverulega eignastöðu sjóðanna þá verði öllum sem hafa unnið sér inn réttindi greidd út þessi inneign. (Nema þeir kjósi að treysta sjóðunun að gæta þessa fjár áfram.)
Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna yrði svo skertur til jafns við meðalskerðingu einkasjóðanna og meðhöndlaður á sama hátt.
Eftir þetta yrði tekið upp gegnumstreymiskerfi þar sem þeir fjámunir sem menn eru skuldbundir til að greiða í lífeyri í dag fara til ríkisins sem greiðir síðan út lífeyri til þeirra sem þurfa.
Þetta er lausnin í grófum dráttum, mér dettur ekki í hug að ætla að útfæra þetta í smáatriðum ;-)
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 4.3.2013 kl. 19:55
Blessaður Bjarni.
Það er margt í þessu.
Lífeyriskerfið held ég að sé skálkaskjól hinna raunverulegra hagsmuna, menn etja fram meintum skálduðum hagsmunum eldra fólksins.
Þess vegna er lykilatriðið að boða ekki kerfisbreytingar, þegar menn ráðast á verðtryggingarþursinn.
Hins vegar segir reynslan að margt hafi ekki virkað nógu vel, sumt þarf að bæta, öðru þarf að skipta út.
En menn eiga að taka þá umræðu á þeim forsendum, eftir að þjóðin er komin í var.
Og ef menn ná samstöðu um þjóðarbjörgun, sem þýðir að ólíkt fólk með ólíkar lífsskoðanir kemur að málum, þá tel ég að menn hafi náð þeim þroska að ræða mál út frá forsendum þeirra, og nái saman um úrbætur.
Eitt leiðir að öðru, en ef allt á að gera í einu, þá standa menn annað hvort í stað, eða halda aftur á bak.
En það var ekki að ástæðulausu að við fórum í þrot.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.3.2013 kl. 20:27
@4:
Segðu útflutningsatvinnuvegum okkar að krónan sé ónýt.
Gaman væri að sjá heimild þína um aukið peningamagn í umferð, hér er hið opinbera með allt á hælunum og slíkt hefur áhrif á gengi gjaldmiðilsins. Það jafngildir ekki því að gjaldmiðillinn sé ónýtur heldur er um falleinkunn að ræða hjá þeim sem stjórna peningamálum þjóðarinnar. Hvað hefur dollarinn misst mikið af verðgildi sínu undanfarin 100 ár?
Annars skautar þú alveg framhjá öðru sem ég nefni.
Helgi (IP-tala skráð) 4.3.2013 kl. 23:22
@8
Við björguðum okkur fyrir horn eftir hrun, með því að setja stóran hluta krónanna í bönd (gjaldeyrishöftin) svo þær illu ekki enn frekari gengislækkun. Sú gengislækkun sem varð, kom sér vel fyrir útflutninginn en það er ekki þar með sagt að öll gengislækkun sé góð, að þar gildi því meira því betra. Eitt er að hafa of hátt gengi krónunnar, annað að hafa of lágt gengi, hvorugt er gott. Það gengi sem nú er reynt að halda uppi gæti vel verið eitthvað nærri því sem gilti við eðliegar aðstæður, þó kanski full lágt ef borin eru saman t.d. vinnulaun hjúkrunarfræðinga hér og í nágrannalöndum. Það er bara ekki nokkurn lifandis skelfingar skapaðann hlut að marka þetta gengi vegna snjóhengjunnar, umframkrónanna. Þetta gengi er hannað af seðlabankanum þar sem hann er að sullast með risalán sem þjóðin var látin taka í erlendum gjaldeyri.
Hér er ágæt heimild um umframkrónurnar í hagkerfinu. http://blog.pressan.is/fridrik/2013/02/09/peningamagn-vs-raunverdmaeti/
Þú virðist vera að rugla þessari umræðu við umræðuna um sjálfstæðan gjaldmiðil, þar sem sumir telja að íslenska krónan sé ónýt af því hve hún hafi fallið mikið þessi c.a. 100 ár sem hún hefur verið notuð. Það er reyndar hægt að hafa ákveðna samúð með því sjónarmiði og hinu að fullreynt sé með að við Íslendingar séum færir að stjórna okkar peningakerfi. Ég vil nú samt vera bjartsýnn og telja að við getum þetta vel enda hafi krónan ekki reynst okkur verr en svo að við höfum náð að byggja hér upp ágætis þjóðfélag á sama tíma og hún hefur verið í notkun. Kanski vegna hennar!
Það eru þessi síðustu 10 ár eða svo sem við mistum illilega tökin á krónunni. Aðalega vegna skelfilega mislukkaðrar frjálshyggjutilraunar þar sem menn rugluðu sig svo í ríminu að þeir mistóku sig á muninum á því að prenta peninga og skapa verðmæti. Afleiðingin er sú að nú sitjum við uppi með svo illa farinn gjaldmiðil þar sem vonlítið er að greina á milli króna sem urðu til vegna loftbóluverðmæta og annara sem voru bara venjulegar og saklausar krónur, að lausnin verður líklega sú skárst að taka upp nýja krónu þar sem menn fá mismikið fyrir gömlu krónurnar!
Þannig að þú sérð að ekki er ég að tala á móti því að við Íslendingar séum með sjálfstæða mynt. Þvert á móti!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.3.2013 kl. 00:15
Ómar @7.
Það má vel vera að það sé vænlegra til árangurs að berja í brestinn. Hamast í verðtryggingunni þar til hún lætur undan og þá komi hitt af sjálfu sér. Ekki skal ég gera lítið úr því sjónarmiði.
Reynslan sýnir þó annað í þessu máli.
Margir málsmetandi og ráðandi menn hafa nefnt stökkbreytingu lánanna og jafnvel talið hana óréttláta en það sé bara ekki til peningur til að leiðrétta þetta. Vinstristjórnarnefnan setti þó nefnd í að athuga málið (hvort sem nokkur raunverulegur hugur fylgdi þar máli) þar sem blátt nei var sagt við þvi að taka vísitöluna úr sambandi vegna hrunsins. Þar fór fremstur í flokki Gylfi Arnbjörnsson vegna meintra lífeyrishagsmuna sinna umbjóðenda.
Enn hef ég engan heyrt nefna hvernig meðhöndla skyldi opinbera lífeyriskerfið í þessu sambandi t.d. að það tæki sambærilegri "skerðingu" og leiðrétting stökkbreytingarinnar ylli hjá almenna kerfinu, sem væri sanngjarnt. Þú getur rétt ímyndað þér hversu erfitt yrði að fá valdakerfið til að gefa eftir í sínum eigin uppsöfnuðu einkahagsmunum,meintu.
Kanski er því rétt hjá þér að málið eigi ekki séns nema að menn láti sem þeir berjist við verðtrygginguna eina. En líklegt þykir mér þó að hagsmunaöflin séu einmitt með þetta á hreinu, því ef það er eitthvað sem flestir þeirra sem settir eru á vakt fyrir hagsmunum þessarar þjóðar,fylgjast alveg sérstaklega vel með, þá er það hvað þeir fá í launaumslagið.
Það er þessi blinda á hagsmuni heildarinnar sem er að draga þjóðina niður í skítinn.
Lífeyrissjóðskerfið íslenska er ein af stóru vitleysunum sem þessi þjóð hefur framkvæmt. Enda afurð 68 kynslóðarinnar sjálfhverfu. Þeirra sem lifðu á foreldrum sínum í gegn um verðbólgu og ætla svo að lifa á börnunum í gegnum verðtryggingu. Kynslóðar sem misti svo fótanna varðandi uppruna sinn þegar hún fór að menntast í útlenskum kjaftafögum að hún fór að trúa því að hægt væri að lifa af peningum einum saman. Þá aðeins gerist hún þjóðleg þegar hún vill fá sinn skerf í sjávarútvegsauðlindinni á grundvelli þjóðernis sem hún fyrirlítur í annan tíma en horfir í andakt til Brussel í von um nógu þægilegt sæti við kjötkatlana sem hún lét segja sér að þar væru.
Lítill hluti þessarar kynslóðar fór reyndar vestur um haf og gerðist trúuð á frelsi hins stóra til að kúga undir sig þann litla. Svo mættust þessir aðilar og fóru að stjórna Íslandi í anda Blairismans og heimkapítalsimans og töldu sig menn.
Nú fer aldurinn að segja til sín og þú getur bókað það að þeir munu allir sem einn standa saman um þann ásettning að lifa áhyggjulaust ævikvöld í pilsfaldi fjallkonunnar með sinn verðtryggða lífeyri fyrir sitt vitaganslausa lífshlaup.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.3.2013 kl. 01:04
Blessaður Bjarni.
Það eru skiptar skoðanir um lífeyrissjóðskerfið, það eru líka skiptar skoðanir um þá lausn sem þú bendir á. Mjög skiptar skoðanir, og vísa ég þá í umræðu þar sem þetta kerfi er við líði.
Málið er að allt hefur sína kosti, og allt hefur sína galla, og síðan er eitthvað sem heitir þróun, menn þróa hluti áfram.
En menn ræða ekki ógn, menn hundsa ekki ógn.
Og menn geta sameinast um að mæta ógninni, og forða samfélaginu frá hörmungum.
Að fatta þessa einfalda staðreynd, er lykillinn að framtíð þjóðarinnar.
Ógnin er ekki bara verðtryggingin, hún er angi að miklu alvarlegri máli.
Sem er árás fjármálaafla á þjóðina á árunum fyrir Hrun. Og það markmið þeirra að yfirtaka efnahagslífið, nýta til þess þrotabú gömlu bankanna.
Michael Hudson lýsti þessu ákaflega vel í grein sinni, Stríðið gegn Íslandi, John Perkins útskýrði hlutverk efnahagsböðla í slíku stríði.
Það þarf að verjast þessu áhlaupi.
Hávaxtastefna AGS hefur sogið milljarða úr íslensku efnahagslífi, verðtryggingin hefur sogið milljarða úr íslensku efnahagslífi, og eftir kosningarnar á að klára dæmið, vogunarsjóðirnir yfirtaka bankanna.
Fjórflokkurinn segist ætla að verjast þeim, en það er ekki trúverðugt að uppgötva hættuna af þeim nokkrum dögum fyrir kosningar. Í fjögur ár var þögn um snjóhengjuna, þögn mætti því fólki sem ræddi um þann vanda sem blasir við.
Núna er eitthvað sagt, seðlabankastjóri, formaður Sjálfstæðisflokksins, eitthvað humm hjá öðrum.
Þeir sem trúa að þetta fólk ætli að verja þjóðina, þeir trúa öllu.
Það er hægt að segja þeim allt, þeir telja orð vegi þyngra en þekkt aðgerðarleysi.
Þess vegna þarf samstöðu þjóðarinnar, Bjarni.
Samstöðu um lífið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.3.2013 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.