1.3.2013 | 08:41
Vanvirðing við vitsmuni kjósenda.
Í stíl yfirborðskennds froðusnakks líkt og hér sé ennþá 2007, kemur Sjálfstæðisflokknum um koll.
Óhætt er að segja að aldrei hafa eins margir komið saman, á eins litlum stað, eins og á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, og gert jafnmikla gloríu.
Að grafa gröf fyrir flokkinn sem hefur verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum.
Undir yfirskriftinni, "Í þágu heimilanna" er keyrt með stefnu sem er síst gáfulegri en sú fleyga athugasemd Maríu Antoinettu Frakkadrottningu þegar hún spurði í forundran, "geta þau ekki borðað kökur", þegar henni var sagt að fólk hefði ekki brauð til að fæða börnin sín.
Fólk hefur ekki fjármuni til að greiða hinar stökkbreyttu skuldir, og fólk veit að þessar stökkbreyttu skuldir eru ranglátar, og sterk rök benda til þess að þær séu ólöglegar í þokkabót.
Fólk tók lán og vill greiða sín lán til baka, en það tók ekki lán á þeim forsendum að bankarnir myndu keyra hagkerfið í kaf, og senda síðan almenningi reikninginn í gegnum verðtrygginguna.
Verðtryggingin var hugsuð til að vernda lánveitendur gegn víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds, að lánin sætu ekki eftir í slíkum eltingarleik. Hún var ekki hugsuð sem tæki sem gerði heimili og fyrirtæki landsins gjaldþrota.
Við sérstakar aðstæður getur gengið fallið án þess að kaupgjald fylgi á eftir.
Þær aðstæður eru til dæmis hrun á álmörkuðum, hrun fiskistofna líkt og gerðis á árunum 1968 og 1969, þá dragast tekjur þjóðarbúsins skarpt saman og gengið verður að falla á móti til að aðlaga kaupmátt þjóðarinnar að minnkandi tekjum. Þá hækkar vöruverð og neysla dregst saman.
Svipað gæti gerst ef stór jarðskjálfti eða aðrar náttúruhamfarir eyða eða skemma þéttbýls svæði. Kostnaður við uppbyggingu hlýtur þá að dragast frá annarri eyðslu þjóðarbúsins, gengið er sá sveiflujafnari sem nær því jafnvægi.
Og slíkt gerist þegar fjármálakerfi hrynur í kjölfar mikils viðskiptahalla og skammtímafjármögnunar á honum erlendis frá. Í stað þess að safna skuldum, þarf að borga skuldir.
Sveiflan eftir Hrun var hátt í 200 milljarðar og slík sveiflu er aðeins hægt að ná með skarpri lækkun gjaldmiðilsins. Vöruverð hækkar, og neysla fólks lækkar á móti.
Að mæla slíkt sem verðbólgu, er rangt.
Það er þjófnaður.
Verðtryggingin í dag er þjófnaður, og það er móðgun við vitsmuni fólks að kalla hækkanir lána af hennar völdum, skuld.
Og það er móðgun á vitsmunum fólks að segjast ætla auðvelda því að borga hina meintu skuld.
Það er móðgun á vitsmunum fólks að segja því að það eigi eign, séreignarsparnað, sem ekki sé hægt að hirða af því við gjaldþrot þess, þess vegna eigi að gera því kleyft að nýta þennan séreignarsparnað til greiða þjófnaðinn.
Það er móðgun á vitsmunum fólks að skera niður almannaþjónustu svo hægt sé að nýta skatta þess til að greiða þjófnaðinn.
Og það er móðgun á vitsmunum fólks að tala við fólk eins og það sé vanvitar, eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerir í auglýsingum sínum.
Enda styðja aðeins tryggustu flokksmenn flokkinn í dag, og þeim fer fækkandi.
Þrátt fyrir að dæmdir vaxtaþjófar og dæmdir fjárkúgarar stýri þjóðinni í dag.
Fólk vill ekki kökur, það vill brauð, og það vill réttlæti.
Og það er tími til kominn að konurnar í pelsunum átti sig á því.
Þarna úti er fólk, og það á erfitt.
Og það vill réttlæti.
Kveðja að austan.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:33 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 448
- Frá upphafi: 1412810
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 387
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll.
Spurningin sem enginn leitar svara við er: Hvað gerist ef við afnemum verðtrygginguna? Verður framboð lánsfjár það sama eða minna? Þetta skiptir máli. Hver er kostnaðurinn við afnám verðtryggingar? Hver borgar? Hvað með áhrif á þau lán sem þegar hafa verið veitt (verið er að breyta forsendum)?
Svo er enginn sem spyr hvað húsnæðiseigendur í öðrum löndum eru að greiða í raunvexti af sínum lánum. Gleymum verðtryggingunni eitt andartak, hvað með raunvexti? Af hverju greiða Íslendingar í kringum 5% raunvexti af sínum lánum þegar erlendir íbúðareigendur greiða 1-2% vexti? Skortir ekki eitthvað upp á samkeppni hér? Auðvitað!!
Almenna reglan ætti að vera sú að þegar tveir fullveðja aðilar gera með sér samning á hann að gilda - hvort sem útkoman er góð eða slæm fyrir annan aðilann. Fólk sem semur af sér verður að taka afleiðingum þess.
Vandinn er sá að varðandi húsnæðislánin er ekki jafnræði milli aðila. Eins og ég skil ástandið er það þannig að ef ég get ekki greitt af mínu láni og húsnæði mitt er yfirveðsett er ég fastur í húsi mínu og get ekkert gert. Hér hallar augljóslega mjög á lántaka. Sjallarnir komu með tillögu fyrir að verða tveimur árum sem er mjög góð: Lántakinn geti skilað lánastofnun sinni lykum að eigninni og verið þar með laus allra mála. Þá er það lánastofnunarinnar að koma húsnæðinu í verð og þar með er hún látin taka ábyrgð á eigin útlánastefnu. Lántakinn verður svo sjálfur að finna sér þak yfir höfuðið en hann er í það minnsta ekki þræll. Ef málin væru svona væri það báðum í hag að lenda einhverju samkomulagi enda lánastofnunum dýrt að sitja uppi með margar eignir sem engar tekjur eru af.
Hlutverk hins opinbera er ekki að skipta sér af heldur að sjá til þess að jafnræði sé milli aðila - afskiptasemi stjórn- og embættismanna hefur valdið ómældum skaða undanfarna áratugi bæði hérlendis og erlendis.
Nýlega sá ég að íbúðalánasjóður ætti um 2200 húseignir, hinir bankarnir eiga saman sjálfsagt eitthvað svipað saman. Af hverju eru lánastofnananir ekki skyldaðar til þess að setja þessar eignir á markað? Af hverju liggja lánastofnanir á hundruðum íbúða sem standa auðar? Þær eru að krukka í markaðinn - draga úr framboði og slíkt kemur beinlínis niður á neytendum. Af hverju gera þingmenn ekkert? Vilja þeir það ekki eða skilja þeir ekki vandann? Ég veit ekki hvort er verra? Anyone?
Helgi (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 09:46
Verðtrygging hefur fyrst og fremst tryggt hagsmuni lánveitenda með því að lántakendur bera alla áhættuna vegna verðþróunar, 100%. Það er ekki sanngjarnt og því fyrirkomulagi lánamála þarf að breyta. Er ekki sanngjarnt að lánveitendur og lánþegar skipti þessari áhættu jafnt á milli sín?
Annað mál er, það sem Ómar færir hér í tal enn einu sinni og óteljandi fleiri aðrir undanfarin ár, að þetta fyrirkomulag 100% verðtryggingar (að viðbættum vöxtum og þóknunum) sem er 100% á kostnað lántaka orsakaði stökkbreytingu allra verðtryggðra skulda við hrunið 2008. Lánveitendur voru ekki þar með að afhenda skuldurum fyrirliggjandi lána meira lánsfé í hendur, heldur var reiknuðum verðbótum bætt við skuldina. Bókfærð upphæð skuldar jókst snögglega stórum umfram væntingar tilsvarandi þannig að lántakar töldust þá skulda allt í einu miklu meira. Málið snýst um að bakfæra þennan verðbólgu-útreikning skuldurum til góða, sem var ekkert nema tölur í tölvum. Þessu réttlætismáli vilja baráttumenn verðtryggingar og lánveitenda ekki snerta á.
Sighvatur Björgvinsson fyrrv. ráðherra Alþýðuflokksins talar í greinum sínum í Fréttablaðinu undanfarið (m.a. í gær) einvörðungu um hvernig og hver eigi að "borga" fyrir þessa leiðréttingu lána og bendir þar fyrst og síðast á skattgreiðendur og lífeyrisþega sem fórnarlömb. Hann sleppir alveg að nefna það að lífeyrissjóðirnir og aðrir lánveitendur bókuðu við hrunið, sem endranær, tilsvarandi TEKJUR sér til góða jafnframt því að breyta skuldastöðu skuldaranna. Málið snýst um að bakfæra þessar óréttlátu tekjufærslur í bókhaldi lánveitenda. Þaðan kemur greiðslan í fyrstu umferð fyrir leiðréttingu hinna stökkbreyttu og forsendubrostnu lána. Þá þurfa stjórnendur á þeim bæjum náttúrulega jafnframt að svara fyrir það hvernig það kom til að þeir töpuðu því sem því nemur á sínum tíma. Það er önnur saga.
Kristinn Snævar Jónsson, 1.3.2013 kl. 10:48
@2:
Ég ætla svosem ekki að fara að verja núverandi kerfi en gallinn við að kenna lífeyrissjóðunum um hitt og þetta er að þeim er sagt af löggjafanum hvernig eigi að fjárfesta og slíkt bjó til heilmikinn vanda. Stjórnendur lífeyrissjóðanna munu því geta bent á þær skyldur sem löggjafinn setti þeim á herðar - gott dæmi um slæm afskipti hins opinbera. Þeir virðast samt enga ábyrgð bera (hefur einhver stjórnandi lífeyrissjóðs verið látinn fara?) og ekki hafa þingmenn í huga að viðurkenna að þeir hafi gert mistök með því að fella þessi lög úr gildi.
Ef lífeyrissjóðirnir verða látnir taka á sig kostnað þurfa þeir að skerða lífeyri, ekki satt? Lífeyrisgreiðslur hafa nú þegar verið skertar þannig að þetta eru ekki bara tölur í tölvum.
Besta leiðin er að draga saman í opinbera geiranum og lækka skatta verulega, þá geta fyrirtæki ráðið til sín fólk og/eða hækkað laun. Einnig þurfa lánveitendur að bera ábyrgð á sinni útlánastefnu en það hafa þeir ekki verið látnir gera.
Enginn sem talar um skaðsemi verðtryggingarinnar hugleiðir að hugsanlegt er að með afnámi hennar muni framboð lánsfjár dragast saman.
Af hverju skulu gerðir samningar ekki standa? Af hverju getur annar aðili samnings allt í einu farið í fýlu og látið breyta ákvæðum samnings sem hann sjálfur skrifaði undir?
Svo skulum við forðast notkun orða, eins og t.d. "sanngjarnt" sem enga merkingu hafa. Það er "sanngjarnt" að lágmarkslaun séu 400.000 krónur - ekki satt? Vandinn er bara sá að sú "sanngirni" hefur afleiðingar sem margir gera sér ekki grein fyrir.
Helgi (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 11:38
Ég tek eftir því að vinsælasta pikkupplínan hjá tilberum hrægammanna í fjölmiðlum núna er:
"Vandamálið er ekki verðtryggingin - Vandamálið er verðbólgan!"
Eins má segja um óðan hund sem snýst bara kringum skottið á sér og týnir fénu. "Hundurinn er ekki vandamálið, heldur skottið!"
Hrúturinn (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 12:18
Illugi Gunnarsson mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun til þess að lýsa því í smáatriðum hvernig sjallarnir ætla að standa að því að skila auðu í skuldamálum heimilanna.
Kannski er það bara ég en mín tilfinning er sú að það sé einhvern veginn ekki stemming fyrir því á meðal kjósenda að þingmenn eins og Illugi, eða aðrir sem annað hvort þáðu laun eða styrki til kosningabaráttu frá fjármálastofnunum sem enduðu á lista yfir 20 stærstu gjaldþrot viðskiptasögunnar, séu að lýsa því í smáatriðum hversu lítið þeir geti gert til þess að bjarga fólki úr þeirri erfiðu stöðu sem þeir áttu stóran þátt í að skapa.
Seiken (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 12:55
Skrif Ólafs Margeirssonar doktorsnema er skýr og skorinorð. Hann rústar rógberum hrægammanna með rökum.
http://www.pressan.is/pressupennar/Olafur_Margeirsson
Almenningur (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 14:45
Blessaður Helgi.
Réttmætar ábendingar hjá þér og fólk sem tekst á við vandamál þarf að hafa þessi sjónarmið í huga. Menn mega ekki að falla í þá gildru að leiðrétta eitt vandamál með því að leggja drög að því næsta, jafnvel ennþá svæsnara en það fyrra.
En í einu atriði er nálgun þín algjörlega röng.
Samningar eru aldrei rétthærri almannaheill, og samningar sem hafa ófyrirséð áhrif, sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi, þeim ber að breyta. Og samningar sem brjóta gegn helgi mannsins, eru líka rangir, og eiga ekki að standa.
Þess vegna þýðir til dæmis ekki fyrir snuffmyndaframleiðendur að fara með samninga sína fyrir dómsstóla, þó þeir geti sýnt fram á að sá sem ætlaði að láta drepa sig, hafa skrifað undir samning, og þegið fyrir hann greiðslu.
Samningar sem valda samfélagslegu tjóni, er líka rift af löggjafarvaldinu.
Þetta er grundvallaratriði þess að geta rekið samfélag að átta sig á því að það er ekkert æðra en "fólkið". Og réttur fólks til að hnekkja óréttlæti er viðurkenndur.
En síðan er það alltaf matsatriði um bætur og svo framvegis, en það er önnur saga.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.3.2013 kl. 15:26
Blessaður Kristinn.
Verðtryggingin er skaðræði sem þarf að leiðrétta. En við þurfum að passa okkur á því að gera það ekki beint á kostnað annarra.
Kostnaðurinn við það er samfélagslegur og lendir á samfélaginu.
Ekki í formi skattgreiðslna, heldur með peningastjórnun.
Bæði Hægri Grænir, og Samstaða, hafa bent á fullgildar leiðir. Gunnar Tómasson hagfræðingur kom strax með raunhæfa lausn, og svo framvegis.
Fólk ætti að kynna sér vel hvernig þetta var gert í Bandaríkjunum, Guðmundur Franklín mótar sínar tillögur eftir þarlendum aðgerðum. Sem virka, sem halda lífi bæði í fjármálakerfinu, sem og húsnæðismarkaðnum.
Það er enginn akkur í því að skaða þá sem lána, heldur enginn akkur í því að skapa úlfúð með einhliða aðgerðum þar sem einhver annar er látinn borga kostnaðinn.
Málið er að þeir sem eru á móti verðtryggingunni hafa ekki sameinast um leið, og síðan einsett sér í að kynna hana.
Þeir eru eins og músartíst í fuglabjargi, varðhundar verðtryggingarinnar stjórna umræðunni.
Hér á þessu bloggi hefur þetta verið margítrekað, en ég hef ekki einu sinni orðið var við að lesendur bloggsins kveiki á þessum punkti.
Þeir sem eru á móti verðtryggingunni eru endalaust að gefa höggstað á sér með því að stilla lífeyrissjóðunum upp sem andstæðum, en málið er að þeir hafa sömu hagsmuni að gæta.
Því ef verðtryggingin verður ekki leiðrétt, þá hrynur allt kerfið til grunna innan ekki svo skamms tíma.
Forystuleysi er eina skýring þess að hinar stökkbreyttu skuldir hafa ekki verið leiðréttar í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.3.2013 kl. 15:35
Blessaður Hrútur.
Nákvæmlega.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.3.2013 kl. 15:37
Blessaður Seiken.
Hvað sem sagt verður um Sjálfstæðismenn, þá kunna þeir áróður.
En í dag virðast þeir ekki skynja hvað gengur í fólk, og hvað ekki.
Þetta er ótrúlegt klúður, hreint út sagt.
Hvort það dugi að Framsóknarflokkurinn fylli uppí skarðið, er mér mjög til efs.
Hef ekki séð þann kjark sem þarf hjá Sigmundi Davíð.
Hann er allavega búinn að vera á athugunarlista hjá mér eftir að hann tók þátt í ICEsave samningunum eftir fyrra Nei-ið.
Síðan hef ég haft hann sterklegan grunaðan um að taka þátt í leikriti, svo taktlaus hefur hann verið í að nýta öll afglöp Jógrímu.
En sjáum til.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.3.2013 kl. 15:42
Blessaður Almenningur.
Ólafur er flottur, einn af mörgum með því nafni sem berjast gegn skrímslinu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.3.2013 kl. 15:43
Það er mótsögn fólgin í því að segja annars vegar að "krónan hafi bjargað okkur" í hruninu með því að fara í frjálst fall hálfa leið niður og segja hins vegar að þetta fall megi ekki hafa nein áhrif.
Ómar Ragnarsson, 1.3.2013 kl. 19:10
Blessaður nafni.
Þú ættir að vita að ef þú gefur þér ranga forsendu, þá færð út ranga niðurstöðu.
Það hefur enginn sagt að fall krónunnar hafi ekki áhrif, þvert á móti hefur það mikil áhrif, bæði til góðs og ills.
Góðu áhrifin eru að hún styrkir útflutning á kostnað innflutnings, slæmu áhrifin eru lífskjaraskerðingin sem því fylgir.
Verðtryggingin er hins vegar mannanna verk, og reynir að viðhalda verðgildi verðmæta sem eru töpuð. Og skekkir þar með það jafnvægi sem fæst við gengisfellinguna.
Skaðar atvinnulífið og veldur samfélagslegri upplausn.
Verðtryggingin tengist krónunni ekki á neinn hátt, ekki frekar en löggjöf sem kvæði á um að ef tveir hvítir hrafnar sæjust á flugi, að þá ætti hver lögráða einstaklingur gjalda auðmönnum helming eigna sinna.
Hún er sett til að verja hagsmuni, sérhóps, á kostnað heildarinnar.
Er því röng.
Verður að víkja.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.3.2013 kl. 19:17
Mjög góður pistill hjá þér Ómar og umræður. Þið eruð samt á einhverri undarlegri villuslóð að halda að grundvallarvandamálið sé ekki verðbólgan. Hún er stóra meinið. Engin verðbólga engin þörf á verðtryggingu. Þar fyrir er verðtryggingin slæm af mörgum orsökum og vel mögulegt að það að leggja hana niður sé liður í að allir taki þátt í að hveða niður grundvallarmeinið, verðbólguna. Því hvers vegna ættu bankar að vilja afnema verðbólgu ef þeir græða á henni (svo og peningaútgáfunni).
Ómar Ragnarsson þetta er ekki mótsögn ef rétt er frá greint.
1. Krónan sem gjaldmiðill var að mestu eyðilögð í aðdraganda hruns og er nú næstum ónýt. Henni þarf að skifta út.
2. Það að hafa sjálfstæða mynt er þrátt fyrir allt okkar bjargvættur vegna þess að við byggjum okkar efnahag á útfluttningi og þess vegna ganga vélar þjóðarskútunnar fyrir fullu afli þótt þær mættu vera aflmeiri.Af því að krónan er komin í rugl þarf að fanga hluta hennar í gjaldeyrishöftum.
3. Vegna verðtryggingar þá lentu lántakendur í því að tryggja lánveitendur (sem eru að mestu fjármálastofnanir en minna sparifjáreigendur nema í gegn um lífeyrissjóði)fyrir þeim samdrætti hagkerfisins sem fram kom við gengisfallið. Þarna var áfallinu semsagt misjafnað niður undir jafnaðarmannastjórninni!
4. Vegna þess að krónan er komin í rugl og hinar "vönkuðu" krónur sem liggja í dvala gjaldeyrishafta, reyna að rísa upp eins og uppvakningar m.a. fyrir tilverknað seðlabankans sem eys gjaldeyrisvaraforðanum í þær, þá veldur það verðbólgu þegar þessar ónýtu krónur koma inn í hagkerfið. Þessi verðbólga lækkar laun fólks og veldur verðhækkunum þannig að launþegum er nauðugur einn kostur að fara í baráttu fyrir LAUNALEIÐRÉTTINGU (skil ekki afhverju þeir eru að kalla þetta launahækkanir). Við þetta er búið að starta hinni gömlu vítisvél víxlverkunarhækkanna launa og verðlags. Þjóðarsáttin endanlega farin í vaskinn!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 19:43
Maður segir "vanvirðing við vitsmuni kjósenda." Það veit ég, þó ég sé enginn fræðimaður.
Þetta hefur fólk uppúr að læra málfræði af fjölmiðlum.
Ásgrímur Hartmannsson, 1.3.2013 kl. 20:13
Verðtryggingin er vandamálið. Hef ég reynt það á eigin skinni. Ég gerði eins og sjálfstæðismenn eru að predika núna. Tók út allan viðbótar-lífeyrissparnaðinn til að halda húskofanum en það dugði skammt og var horfið í svartholið á einu ári. Ég missti kofan fyrir rest og það munu aðrir gera líka með tímanum. Höfuðstóll sem hækkar og hækkar og enginn sér fyrir endan á er RÁN og ekkert nema RÁN. Við kjósendur erum ekki heimsk og höfum reynslu na í því að vera arðrænd. En fólkið í fílabeinsturnum skilur þetta ekki. Þeir sem boða afnám verðtryggingar, verða hesturinn sem allir vilja veðja á. Þannig er staðan í dag.
Margrét (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 21:51
Takk Ásgrímur.
Að sjálfsögðu, mistökin mín, þegar drögin voru lögð að þessum pistli þá hét hann þetta, en málvillan lenti á prenti.
Á enga afsökun.
Takk fyrir.
Og leiðréttist hér með.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.3.2013 kl. 22:32
Sæll Ómar og þú ert með góðan pistil sem endran nær.
Ég hefði vilja sjá umræðu um verðbólgu hér á Íslandi og orsakir hennar,og sérstaklega eftir hrun. Það væri gott að hressileg umræða um verðbætur og áhrif þeirra á lán,fyrirtækja og heimila, færi fram og þá í samhengi við peningamálastefnu Seðlabanka Íslands.
Að mínu viti er peningamálastefan Más Guðmundssonar galin (jafnvel landráðastefna, en það gæti verið að aðrir hefðu aðra skoðun en ég og því væri gott að fá umræður um hans stefnu.
ÞAð hafa komið lausnir fram frá ýmsum mönnum á vandamálum heimila og fyrirtækja vegna hrunsins. Þá má nefna Hægri græna, Lilju Mósesdóttur og Ólaf Margeirsson, ungan hagfræðing í námi. Þjóðin verður að hlusta eftirþeim lausnum sem fram hafa verið boðnar, og þá heldur stærsti stjórnmálaflokkur landsins
Verðtrygging er ekki vandamál ef hagstjórn er í lagi.
Vandamálið er að hagstjórn hefur ekki verið í lagi síðan lögin umverðtryggingu var sett. Við höfum notið þess að vera rík þjóð og hafa gnæftir auðlinda til að brúa bil heimskunnar.
Við megum þó ekki gleyma því heldur að við erum búinn að byggja upp alla innviði lands okkar með "slæmri" hagstjórn og með Íslenska krónu sem gjaldmiðil, á undraverðum tíma, eða frá 1945 (líklega erum við heimsmeistarar á þessum mælikvarða). Við erum stolt af okkar uppbyggingu, sem hefur sett okkur meðal fremslu þjóða heims.
Sú Vá sem við blasir þjóðinni er ekki óyfirstíganleg. Réttar ákvarðanir þarf að taka, og ég persónulega vill að þær verði teknar af stærsta stjónmálaafli þjóðarinnar. Stjórnmálaflokkur sem hefur í haft velferð þjóðarinnar í fararbroddi frá stofnun hans og hefur verið með velferðarmál sem sinn stærsta málaflokk.Málaflokk sem hefur endurspeglað sig í skattstofni Ríkis og sveitafélaga frá upphafi.
Eggert Guðmundsson, 1.3.2013 kl. 23:41
(hugleiðingar leikmanns sem gæti haft rangt fyrir sér)
Verðbólgan er marghöfða þurs, verðtryggingin er aðeins eitt höfuð þessa þurs og dugir ekki að höggva það af og halda að allt lagist við það.
Annað höfuð eru vextirnir, sem þyrftu miklu meiri athygli okkar almennings. Háir vextir eiga í orði kveðnu að slá á þennslu og þar með verðbólgu en geta í raun valdið henni. (sbr. aðsog fjármagns frá útlöndum vegna hárra vaxta á Íslandi).
Ef vextir verða of háir þá breytast þeir úr því að vera sanngjarnt gjald fyrir afnot peninganna og í að verða eignaupptaka auk þess sem háir vextir valda því að pappírshagkerfið (og þar með verðbólgudraugurinn) blæs út ef raunhagkerfið nær ekki að fylgja veldisfalli vaxtanna eftir. Sem er til langs tíma - Aldrei.
Ef peningakerfið er svo galið að bankarnir sjálfir gefa út peningana sem þeir lána og hirða háa vexti fyrir (sbr Frosta ) og nota svo þennan vaxtagróða til útlána þá valda vextirnir verðbólgu, því peningamagnið eykst bæði af útgefnu peningunum svo og af vöxtunum af þeim án þess að raunveruleg verðmæti fylgi.
Ef á hinn bóginn seðlabankinn gefur út peningana og útdeilir þeim til bankanna og tekur mis háa vexti fyrir eftir því hvað hagkerfið er "heitt" þá þarf hann að gæta að því að þessi vaxtagróði getur verið sýndargróði sem alsekki má fara í umferð heldur beri að eyða fylgi hagvöxturinn ekki eftir.
Einnig hlýtur seðlabankinn að þurfa að nota nauðsynleg tæki og tól til að halda niðri almennum vöxtum svo peningamagnið fari ekki að aukast umfram hagvöxtinn. Vera sem sagt svipa sverð og skjöldur þeim sem lána og taka lán.
Hvort seðlabankinn sinnir þessum hlutverkum sínum rétt, hef ég í raun hvorki hugmynd um né þekkingu, en ef mið er tekið af því hve skuldir Íslendinga hafa aukist umfram landsframleiðslu frá því sérstaklega að verðtrygging var tekin upp þá sýnist mér svo ekki vera.Sjá línurit.
Ég hef heldur enga trú á að fyrst flotgengisstefna og svo gamblið með gjaldeyrisvaraforðann bendi til að Már sé hæfur í starfið, held að hann sé þjóðhættulegur en hann er jú ekki einn.
Eins má benda á ummæli Más varðandi tillögu ágæts fólks um að auka bindiskildu bankanna til að þeir gætu síður gefið út rafkrónur ekki til mikils hæfis eða skilnings á grundvallarvanda efnahagsins. Þau voru á þá leið að þetta drægi úr tækifærum útlánastofnanna.
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/avoxtunarkrafa-og-vidmid-lifeyrissjoda-?Pressandate=20090416+and+user%3D0+and+1%3D1
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 03:00
Línuritið fór óvart tvisvar en það undirstrikar bara mikilvægið ;-)
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 03:03
ps. það getur verið að þetta línurit sé örlítið mengað þar sem á þessum tíma hélu Íslendingar að þeir ættu eignir í útlöndum á móti hluta þessara sklulda, eignir hverra arður kæmi ekki inn í mælda þjóðarframleiðslu. Þessu hélt t.d. Lobbi nokkur (sá sami og lofsyngur verðtryggingu) fram fyrir hrun og taldi allt vera í góðu lagi með þetta. Eignirnar reyndust svo vera að mestu plat útrásarvíkinga en eftir stendur hismi allt of stórs krónuhagkerfis.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 03:10
Takk fyrir þennan Ómar ;)
Með bestu kveðju frá Noregi.
Magnús Sigurðsson, 2.3.2013 kl. 06:01
Takk fyrir Margrét.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 08:59
Blessaður Bjarni.
Margt fróðlegt hjá þér um orsakir verðbólgu og nauðsynlegt að almenningur leggist undir feld og íhugi vel hvort hann eigi að fylgja áfram hinni hefðbundnu hugsun eftir gjaldþrot fjármálakerfisins.
Á hvað leið er hið hefðbundna?? Í nýtt og endanlegt þrot??
Ef menn vilja ekki þá vegferð, þá hefst langt og strangt nám í að kynna sér nýja hugsun, nýjar leiðir, nýjar nálganir, og þeir sem tala fyrir nýju peningakerfi, eru allrar athygli verðir.
Aðeins tvennt varðandi efni pistilsins.
1. Verðtryggingin og barátta við verðbólgu er sitt hvor hluturinn, nema að því leit að verðtryggingin er sjálfstæð uppspretta verðbólgu eins og hún er uppbyggð í dag. Þjóðfélagið nær ekki tökum á verðbólgunni með núverandi verðtryggingu.
2. Verðhækkanirnar sem urðu eftir gengisfall krónunnar, þegar hún leitaði í nýtt jafnvægi þar sem útflutningstekjur urðu að duga fyrir innflutningi auk afborgana af erlendum lánum, eru ekki verðbólga.
Þær eru verðhækkanir.
Verðbólgan frá Hruni er nokkurn veginn ígildi launahækkana frá sama tíma, svo skeikar varla prósenti.
Það var ekki innistæða fyrir launhækkunum, þær gátu ekki leitað annað en útí verðlagið.
Kjarabarátta felst í að ná tökum á kostnaði, ekki að hækka laun umfram framleiðni, eins útjaskað og það blessaða orð er.
Takk fyrir góða og málefnalega umræðu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 09:12
Blessaður Eggert.
Takk fyrir þitt góða innlegg og ég vísa í Bjarna, og svar mitt til hans.
Vissulega hefði skilningurinn á samhengi hlutanna mátt vera betri á Íslandi, sérstaklega hefur verið glatað að viðhalda fölsku gengi krónunnar.
Til dæmis eftir bæði stríðin, þá drógust tekjur þjóðarbúsins saman, og það átti að láta krónuna endurspegla þann raunveruleik, ekki halda gengi hennar uppi með höftum. Eða mikilli skuldasöfnun eins og gert var hér á árunum fyrir Hrun.
Staðreyndin er sú að tekjur þjóðarbúsins sveiflast mikið og gjaldmiðillinn getur ekki annað en endurspeglað þær sveiflur. Það er lögmál sem ekki er hægt að komast framhjá, þú eyðir ekki meir en þú aflar.
En samt hefur margt líka gott verið gert.
Og þá sérstaklega mikil fjárfesting í innviðum, hvort sem það var vegna menntunar, samgangna, heilsugæslu og öðru sem er forsenda nútíma hagkerfis.
Og þó við höfum stundum farið fram úr okkur í sjávarútveginum eins og þegar það átti að endurnýja vertíðarbáta með skuttogurum, þá er sjávarútvegurinn flott atvinnugrein sem skilar miklum arði.
Aðeins sníkjulifnaður kvótabraskara dregur úr honum þrótt í dag.
En við höfum alla burði til að lifa hér góðu lífi, það þarf aðeins að losa um hengingaról braskarana á efnahagslífinu.
Og stilla deilum um hið augljósa í hóf.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 09:21
Takk fyrir innlitið Magnús.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 09:21
Flottur Ómar að vanda. Framsóknarflokkurinn er, eini fjórflokkurinn sem hefur staðið í lappirnar með heimilum landsins þó án þess að geta hingað til komið þeim til bjargar og lofar aö standa með heimilunum eftir næstu kosningar ef þeir komast til valda. En þá kemur stóra spurningin, með hvaða stjórnmálaflokki ætlar Framsóknarflokkurinn að ná þessum göfugu markmiðum fram. Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei, aldrei láta Framsókn verða þann flokk sem neyðir Sjálfstæðisflokkinn til að afnema verðtrygginguna og leiðrétta skuldir heimilana því þá mun Framsókn sitja eftir með pálmann í höndunum sem drottnari Sjálfstæðisflokksins og þá mun Sjálfstæðisflokkurinn frekar fórna heimilum landsins. Samfylkingin og útfrymið þeirra Björt framtíð hafa enga aðra sín en að ganga í Evrópusambandið sem allir sem vilja horfast í augu við það vita að Evran verður ekki tekin upp hér fyrr en eftir 4 til 8 ár og þann tíma hafa heimilin ekki og brenna upp á meðan. Vinstri grænir vilja ekki að það sé neitt fyrirtæki rekið með gróða og þá geta þau ekki borgað fyrirvinnum heimilanna laun á meðan og heimilin brenna upp. Heimilin eru ekki að treysta hinum nýju framboðunum og þeim sem að þeim standa til að gera það sem þarf að gera, sum framboðin töpuðu sér í stjórnarskrármálinu og önnur eiga bara dýra ljósritunarvél til að kópera góðar hugmyndir annara en eru á meðan fjármagnaðar af sjávarútvegsfyrirtæki og þar að auki með fortíðardraugsformann og á meðan brenna heimilin upp. Ég hvet fólk til að hugsa málið til enda, festa Framsóknar í þessum málum er að skila þeim sennilega bestu kosningu sögunnar en þó hafa þeir líka áhveðna drauga sem dúkka upp á móti manni á kjörseælinum þó manni langi til að merkja við Framsókn sem mun valda því að Framsókn mun aldrei fá meira en 25 % fylgi er ég hræddur um og hvernig ætlum við þeim þá að geta staðið við loforðin, eins og ég sagði hér fyrr þá verður þeim ekki leyft að vera sigurverararnir sem björguðu heimilum landsins og heimilin verða því miður látin brenna upp á því pólitíska hráskinnabáli. Það vantar að mínu mati afl sem mun geta hjálpað Framsókn til að bjarga heimilum landsins af þessu pólitíska báli.
Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 2.3.2013 kl. 09:56
Sú fullyrðing að viðskiptabankar gefi út peninga er algjör fjarstæða. Engir peningar verða til við innlán eða útlán í banka. Menn eru að rugla um að velta peninga í hagkerfinu sé peningaprentun og að mishröð velta sé mismikil peningaprentun. Sá sem er handfljótastur ætti þá að búa til mest af peningum! Af sama meiði er sú ranga hugmynd að aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabanka lágmarki áhættu almennings. Sjá umfjöllun hér: http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1277671/
Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 2.3.2013 kl. 10:04
Verðbólga í smáum hagkerfum með flotgengi, stafar ekki af launahækkunum eða miklu framboði af peningum heldur gengisfellingum. Leiðin til að stöðva verðbólgu á Íslandi er því að koma á fastgengi. Þetta er hægt að gera með upptöku erlends gjaldmiðils til dæmis Kanadadals, eða undir stjórn myntráðs, sem notar erlendan gjaldmiðil sem stoðmynt við innlendan gjaldmiðil, til dæmis Ríkisdal. Þeir sem vilja eitthvað botna í hagkerfi Íslands verða að skilja að smá hagkerfi lúta að verulegu leyti öðrum lögmálum en stór hagkerfi. Margir Íslendskir hagfræðingar flaska á þessu og þylja bara upp það sem stendur í erlendum kennslubókum. Þetta er megin orsök þess að Íslendskir hagfræðingar hafa að undanförnu orðið uppvísir að bulli um efnahagsmál. Loftur Altice Þorsteinsson.
Samstaða þjóðar, 2.3.2013 kl. 10:26
Sæll Ómar.
Það kom þá að því að ég; já ég sem þú kallar lesblinda bjánann yrðum sammála. Takk fyrir skrif þín.
Ég veð samt að segja þér að það er ljótt hjá þér að kalla fólk öllum illum nöfnum þó að sé ekki alltaf sammála þér.
Það sem ég átti við í bloggfærslu um daginn en kom ekki orðum alveg eins vel fyrir og Bjarni Gunnlaugur gerir og þú kallaðir mig bjána fyrir er akkurat það sem ég meinti en það er færsla nr 19 með viðl. línurit. Og viðleggur línuritið aftur til að sýna fram á mikilvægi þess.
Endilega lestu líka þessi stórgóðu skrif Ólafs M ( þ.e.a.s. ef þú ert ekki búin að því )
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/avoxtunarkrafa-og-vidmid-lifeyrissjoda-?Pressandate=20090416+and+user%3D0+and+1%3D1
Kristinn J (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 11:21
Ómar @24. Ég er sammála þér að gengisfall hrunsins orsaki verðhækkanir en ekki verðbólgu. Enda stafar hin ósanngjarna stökkbreyting lánanna einmitt af því að láta vísitölur mæla þetta sem verðbólgu og hækka lánin í samræmi við það.
Það er á hinn bóginn verðbólgan eftir hrun sem ég er að gagrýna. Sú verðbóga stafar, held ég , minnst af launahækkunum. Þetta voru nefnilega ekki launahækkanir heldur launaleiðréttingar gagnvart verðbólgu. Ágætu bloggari (sem ég þekki hvorki haus né sporð á að öðru leiti en bloggið) reiknaði út að maður með 400.000 króna laun (t.d. hjúkrunarfræðingur) þyrfti 10% launahækkun til að halda í við verðbólguna 2012 - 2013. http://koala.blog.is/blog/koala/entry/1282802/#comment3410169
Ef almennir launþegar hafa sin föstu laun í krónum og verðbólga grasserar, þá neyðast þeir til að krefjast launaleiðréttingar. Annars lækka bara og lækka launin að raungildi. Svo þegar þeir fá einhverja leiðréttingu þá er rekið upp ramakvein og sagt að þeir valdi verðbólgunni.
Þarna er verið að fela hina raunverulegu orsök. Það er í raun verið að koma gjaldeyrisvaraforðanum í umferð í hagkerfinu í formi aflandskróna. Þegar allar þessar krónur koma inn í hagkerfið án þess að vera ávísun á nein verðmæti þá rírnar gildi hinna sem eru fyrir. Verðmæti varasjóðsins gufar á hinn bóginn upp við að blása lífi í hinar ónýtu krónur. (Fer í vasa þeirra sem áttu ónýtu krónurnar.) Eftir situr skuld þjóðarinnar við þá sem lánuðu sjóðinn en hún fær ekkiert í staðinn nema pappír sem að auki veldur hér verðbólgu.
Þannig hafa skuldir einkaaðila verið gerðar að skuldum skattgreiðenda. Þetta vil ég kalla að tapa Icesave bakdyrameginn. (Lilja Mósesdóttir var búin að vara við þessu).
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 12:37
Þrælgóður pistill,
Tek undir með meistara Seiken, að Illugi kom afskaplega ílla út úr viðtalinu á Bylgjunni.
Kom til að leiðrétta rangærslur Ólafanna, en gerði ekkert annað en að staðfesta allt sem nafnarnir höfðu sagt daginn áður.
Sjálfstæðisflokkurinn skilar auðu í skuldamálum heimila og fyrirtækja, auðu í snjóhengjunni, auðu í höftunum, auðu í atvinnumálum og reyndar auðu í bókstaflega ÖLLU nema því að lækka skatta á einu fyrirtækin sem mylja gull í dag.
Útgerðirnar.
Það virðist vera það eina sem er búið að lofa, að lækka skatta á arðinn hjá LÍÚ kóngunum.
Sigurður (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 14:36
...mala gull átti þetta að sjálfsögðu að vera, þeir mylja það ekki nema til að krydda matinn sinn þessir gæðingar.
Sigurður (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 14:37
Blessaður Vilhjálmur Ekki fjárfestir.
Öll svörin við spurningum þínum færðu þegar hinn venjulegi maður rís uppúr hægindi sínu og sér að það ætlar enginn annar að bjarga honum, hann verður að gera það sjálfur.
Það gerist þegar einhver boðar til borgarafundar um Samstöðu um lífið.
Og lætur síðan sverfa til stáls við handahafa hins dauða fjármagns sem öllu ætla í Hel koma.
Aðeins þannig, og aðeins þannig munu heimili landsins fá lifað af.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 16:20
Blessaður Loftur, og takk einu sinni enn fyrir hafa eljuna til að prédika yfir fólki.
Frekar vildi ég að þú nýttir elju þína til að klára ICEsave málið, með því að láta fjárkúgarana sæta ábyrgð gjörða sinna.
Skýr rökfastur hugi kæmi saman ákæru sem enginn dómsstóll gæti hundsað.
Á meðan það er ekki gert, þá heldur þetta lið bara áfram með ný og ný launráð.
Eins og ég hef áður sagt við þig Loftur, þá skil ég vel hvert markmið myntráðs er, en myntráð jafnar ekki út tekjusveiflur í hagkerfinu. Gengissveiflan færist einfaldlega inní það.
Og ég tel að dauðlegt fólk eigi ekki að hafa slíkt vald.
En það er mitt mat, og hvorugur hefur getað sannfært hinn um sín sjónarmið.
En við þurfum hvorki myntráð eða krónu, ef ICEsave þjófarnir verða ekki stöðvaðir, eftir málamyndagjörning við vogunarsjóðina, mun efnahagsleg nauðung reka þjóðina í þrotameðferð undir handleiðslu Brusselvaldsins.
Þá verður ekki lengur neitt til að deila um.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 16:28
Blessaður Kristinn.
Ég kalla aldrei fólk bjána nema að gefnu tilefni, það er þegar það hagar sér eins og bjánar.
Skoðaðu innslag Bjarna, og svo þitt, og ef þú sérð diffinn, þá hefur eitthvað lagast af lesblindu þinni.
Annars verður þú bara að lifa með þessu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 16:30
Blessaður Bjarni.
Þetta með stökkbreyttu skuldirnar eru kjarni málsins, sem á að vera óumdeilt. Ég vildi bara hnykkja á þessu, svo þetta færi ekki milli mála.
Hin eiginlega verðbólga er næstum því sama tala og launhækkanirnar. Það varð sveifla uppá 200 milljarða, og þar með ljóst kaupmáttur fólks myndi skerðast verulega.
Ekki bara vegna þess að við fjármögnuðum ekki lengur falskt gengi með skuldsöfnun, heldur líka vegna hinnar þungu greiðslubyrði sem var af öllum þessum erlendum skuldum. Ef ég man það rétt, þá hefur viðskiptajöfnuður verið í járnum þrátt fyrir hinn gífurlega afgang sem hefur verið á vöruskiptajöfnuðinum.
Og það er raunveruleiki sem engar launhækkanir komast fram hjá.
En vissulega á verðbólgan sér fleiri rætur, skatthækkanir ríkisstjórnarinnar, hávaxtastefna Seðlabankans og svo framvegis. En ef það hefði ekki verið til staðar, þá hefði einfaldlega verið minna atvinnuleysi, það er þeir sem voru á atvinnuleysisbótum hefðu haft hærri ráðstöfunartekjur.
En gagnvart útlöndum er ekki og var ekki meira svigrúm.
Lífskjör gátu aðeins verið betri ef fjármagnið hefði fengið minna.
Þess vegna átti að leiðrétta hinar stökkbreyttu skuldir, og banna skattahækkanir.
Keyneisminn hefði síðan séð fljótlega til þess að hagkerfið næði jafnvægi, bæði fjármál ríkisins, sem og hefði gengið fljótlega orðið sjálfbært, ekki í höftum eins og í dag.
Og þaðan hefði leiðin aðeins legið uppá við.
Á þetta var margbent af færustu hagfræðingum en ekki hlustað.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 16:46
Ómar, v/@36. Þú ert þar væntanlega að gera athugasemdir þann sem kallar sig Kristinn J. um lesblindu, ekki satt?
Kristinn Snævar Jónsson, 2.3.2013 kl. 16:47
Blessaður Sigurður.
Því miður held ég að óvinurinn eini sé ekki útgerðir landsins.
Við erum ekki ein á báti með að verjast fjármagninu, þetta er alþjóðlegur vandi þar sem framtíð mannsins er undir.
Birtingarmynd óvinarins hér á landi eru AGS og vogunarsjóðirnir, þeirra strengir skýra niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Útgerðarmennirnir eru fórnarlömb eins og við.
Hinar stökkbreyttu skuldir hafa farið mjög illa með fjárhag hins venjulega útgerðarmanns. Sem er fyrir yfirskuldsettur vegna frjálshyggjunnar í kvótanum.
Við erum öll á sama báti, fólk þarf aðeins að fatta það.
Og það er óvinurinn eini sem egnir fólki gegn hvort öðru.
Og við megum ekki láta hann komast upp með það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 16:51
Fyrirgefðu Kristinn, þetta er svo langur þráður og ég eins og oft áður í algjöru tímahraki að reyna að sinna honum, mér yfirsást að þú varst hér inni.
Annars hefði ég látið J fylgja með.
Og þetta með lesblinduna er smá Snatatamning sem nafni þinn hefur ekki ennþá gleymt, enda tamningin til þess gerð.
Og virðist hafa virkað.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2013 kl. 16:53
Þetta er góð grein og hefur hreyft við fólki. Þessi verðtrygging lána er hreinn og beinn þjófnaður. Kannski lifi ég ekki að það náist réttlæti, en það hlítur að koma. Og þá njóta aðrir þess sem ég berst fyrir.
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 2.3.2013 kl. 23:46
Blessuð Sigrún.
Við erum ekkert að fara að deyja á morgun.
Óréttlætið í skuldamálum hefur gengið sína götu á enda, og þar með er það úr leik í þjóðmálaumræðunni.
Það stenst ekkert þjóð sem snýr bökum saman.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.3.2013 kl. 09:52
Til margra ára hefi ég lagt það til að sett verði ný lög þar sem verðtryggingar eftir vísitölureglum verði afnumdar. Öll lán sem hafa verið bundin slíkum hækkunum, verði endurreiknuð frá og með 1, janúar 2008. Sú upphæð sem reiknuð var til hækkunar, beinlínis vegna vísitöluútreiknings, frá þeim tíma, bæði á höfuðstóli og vöxtum, - og sem lántakandi var látinn greiða á þeim gjalddaga, - verði endurgreiddur til lántakandans.
Endurgreiðslan verði í því formi að sú upphæð, í krónum, sem reiknuð var til hækkunar vegna vísitölu útreiknings, (og sem lántakandinn greiddi á gjalddaga) verði fyrst dreginn frá höfuðstólnum, og höfuðstóllinn þar með lækkaður, en síðan reiknaðir fjögur prósent flatir vextir ofan á hinn ný-útreiknaða höfuðstól.
Þannig verði framreiknað til dagsins í dag. Sú upphæð sem þá kann enn að vera umfram greiðslur, skal látin renna upp í næstu greiðslur, eða þar til allar umframgreiðslur eru að fullu uppnotaðar.
Að mínu mati þá á banna með lögum að lánasjóðir eigi húseignir og fyrirtæki. Jafnframt á að setja lög sem fyrirskipa sjóðunum að selja allar húseignir sem þeir eiga í dag.
Tryggvi Helgason, 3.3.2013 kl. 21:06
Takk fyrir þitt ágæta innlegg Tryggvi.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.3.2013 kl. 08:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.