28.2.2013 | 22:28
Gliðnun heilbrigðiskerfisins er orðin hyldýpisgjá.
Sem erfitt verður að laga ef skemmdaröflin verða ekki hrakin frá völdum.
Óheyrilegir fjármunir hafa runnið úr ríkissjóði í vexti á undanförnum árum vegna fáránlegrar vaxtastefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Á meðan er heilbrigðiskerfið svelt, vegirnir grotna niður, margir aldraðir og öryrkjar á hungurmörkum, líkt og drepsóttarsýkill hafi lagst á samfélagið.
Hið dauða fjármagn sýgur blóð úr hinu lifandi hagkerfi.
Fáráð þessarar stefnu er að forsenda hagvaxtar og velmegunar, er öflug samneysla. Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, almanna þjónusta, allt grunnþættir sem þurfa að vara í lagi svo ungt vel menntað fólk kjósi sér framtíð í landi forfeðra sinna.
Vextir vaxa ekki á trjánum, verðmætasköpun er þeirra uppspretta, alveg eins og launa og skattgreiðslna.
Vaxtaeigendur geta ekki níðst svona á samfélaginu.
Ríkisvaldið getur ekki níðst svona á samfélaginu.
Samfélagið er þeirra lífæð, ekki öfugt.
Þess vegna er fólkið sem stjórnar landinu í dag, ekki aðeins siðblint, það er siðblinda að leika sér að níðast á náunganum, heldur líka ákaflega heimskt.
Ákaflega heimskt fólk fóðrar fjármagn, fyrir utan að vera siðblint, með því að blóðmjólk almenning, með því mergsjúga almanna þjónustu.
Sama þjónusta fyrir miklu minna fé. Eitthvað sem gengur ekki upp nema til skamms tíma, svo hrynur allt innan frá.
Það er eins og þjóðin haldi að heilbrigðiskerfið sé fyrir einhverja aðra, ekki hana sjálfa.
Annars léti hún ekki ómennin leika það svona grátt.
Ekkert fólk hagar sér svona, ekkert fólk tekur dautt fjármagn fram yfir fólk.
Skriðdrekar sjá ekki um að framkvæma stefnu ríkisstjórnarinnar, engir vopnaðir hermenn.
Þetta eru dæmdir vaxtaþjófar og fjárkúgarar, hafnir yfir lög og rétt.
En sitja í umboði þjóðarinnar, þjóðin ber ábyrgð á misgjörðum þeirra.
Þjóðin ber ábyrgð á ástandinu á Landsspítalanum, þjóðin ber ábyrgð á sulti þeirra sem hafa ekkert annað en strípaðar bætur til að lifa af.
Þjóðin ber ábyrgð á að einn daginn verður ekki starfsfólk sem tekur á móti veiku barni, eða slasaðri móður. Að sjúkir fái ekki meðhöndlun, að aldraðir fái ekki umönnun.
Þjóðin sættir sig við ástandið.
Áratugauppbygging er að gufa upp fyrir framan augun á fólki.
Aðeins mánuðir eru í að óbætanlegur skaði verði sem seint verður bættur.
Í dag halda aldraðir læknar kerfinu gangandi, og einn daginn mæta þeir ekki í vinnu. Sem er gangur lífsins. Og hvað þá???
Og hvað þá???
Þá uppskera börnin okkar aumingjaskap okkar og nennuleysi.
Uppskeru sem við sáðum til strax eftir Hrunið haustið 2008.
Með því að láta blóðsugur stjórna endurreisn landsins.
Þær lugu í okkur og blekktu, en það þarf tvo til, líka þann sem lætur ljúga í sig og blekkja.
Í næstu kosningum verður okkur boðið uppá mismunandi útgáfur af þessum lygum og blekkingum, en allar með sömu niðurstöðunni, að hið blóðmjólkandi fjármagn mun ráða öllu eftir kosningar.
Svo mun verða á meðan við sendum ekki út ákall um eitt alvöru framboð sem býður aðeins fram eina stefnu.
Að vernda þjóðina fyrir fjármagninu.
Að vernda lífið fyrir dauðanum.
Að gefa þjóðinni von um framtíð.
Aðeins þannig verður hyldýpisgjáin brúuð.
Aðeins þannig verður lifandi fyrir venjulegt fólk hér á landi.
Í dag heyrist aðeins æpandi þögn.
Kveðja að austan.
20 læknar segja upp á Landspítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 446
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 385
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.