25.2.2013 | 12:14
Þú átt að gæta bróður þíns.
Og þú átt ekki að gera öðrum það sem þú vilt ekki að þér sé gert.
Þessi afdráttarlausa krafa kristinnar er höfuðógn frjálshyggjunnar í dag og skýrir af hverju frjálshyggjufólk í Sjálfstæðisflokknum brást við eins og andsetinn manneskja sem fær skvett á sig vígt vatn, þegar tillaga um kristin gildi yrði í heiðri höfð við lagasetningu á Alþingi.
Þar með var úti um þjófnað verðtryggingarinnar, úti um skuldaánauð vogunarsjóðanna, úti um eyðingu innviða samfélagsins.
Draumaríki frjálshyggjunnar sem átti að reisa hér á næstu árum með aðstoð vogunarsjóða og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var fyrir bí.
Menn hafa formælt faðirvorinu af minna tilefni.
Því andkristni í raun aðeins einn óvin, kristni.
Ótti frjálshyggjunnar er ekki huglægur, hann byggist á þekkingu sögunnar.
Frjálshyggjan var langt komin með að reisa sitt draumland á Englandi á fyrri hluta 19. aldar.
Laissez-faire, afskiptaleysi ríkisvaldsins var opinber stefna stjórnvalda, það voru engin lágmarkslaun, engin lög um vinnutíma, engin lög sem bönnuðu erfiðisvinnu barna, erfiðisvinna kvenna í námum á hálfu kaupi þótti sjálfsögð, það voru engin lög um aðbúnað, öryggi á vinnustað, ekkert sem hlóð óþarfa kostnað ofan á "eðlilegan" framleiðslukostnað vörunnar.
Það voru engar almannatryggingar, engar sjúkratryggingar, engin opinber heilsugæsla, engir opinberir skólar.
Vinnan var frjáls markaðsvara, fyrir hana voru greidd laun, og fyrir þau laun framfleytti fólk sér, og borgaði fyrir þá þjónustu sem það þurfti að nota, hvort sem það var heilsugæsla, húsnæði, menntun, tómstundir.
"Hin ósýnilega hönd markaðarins" sem Adam Smith lýsti svo vel í bók sinni Auðlegð þjóðanna, fékk nokkuð óhefti að skipa málum í verksmiðju borgum Englands, og almannavaldið gætti þess að halda uppi lögum og reglu. Bannaði stéttarfélög, bannaði andóf, bannaði allt sem ógnaði hinni ósýnilegu hönd.
En þetta draumríki fékk aðeins að þróast í nokkra áratugi, þegar ríkisvaldið hóf afskipti af skipan mála, afskipti sem endaði með þeim óskapnaði sem kallast velferðarkerfi nútímans.
Og þessar breytingar í landi kapítalistanna byrjuðu áður en nokkur hafði heyrst minnst á orðið stéttarbaráttu.
Hvað var það, hvað gerðist???
Mig langar að vitna í Örlagaborgina eftir Einar Már Jónsson.
Fyrir hugmyndir af þessu tagi var nú góður jarðvegur í Englandi. Því má ekki gleyma að þar bjó þjóð sem taldi sig kristna og kristin viðhorf áttu sterk ítök í, hvað sem öðru leið. Það voru kvekarar sem stóðu einna fremstir í flokki í baráttunni gegn þrælahaldi. Eftir því sem "enska iðnaðarborgin" efldist hlutu margir glöggir menn að sjá að sú meðferð á mönnum sem þar tíðkaðist var í beinni andstöðu við kristið siðferði. .....
Af þessu öllu spruttu hreyfingar sem miðuðu að því að stytta vinnutíma barna og kvenna. ..
Og það var aðeins upphafið.
Þó reyndu frjálshyggjumenn að verjast. Þeir skyldu að sjálf hagsældin var í húfi, að ríkisvaldið myndi enda með að gera alla að þrælum, þeir skyldu að það var andstætt lögmálum náttúrunnar að bæta kjör fólks með lagasetningu, þeir skyldu þessi orð Herbert Spencer um félagslegan Darvinisma.
"Fátækt hins ófæra, eymd hins óforsjála, hungur iðjuleysingjans, og það hvernig hinir sterku olnboga hinum veiku til hliðar - allt þetta, sem veldur því að svo margir liggja í eymd og volæði, er lögmál góðvildar sem horfir langt fram á leið. " Þetta staðfesti auk þess bæði trúarbrögð og vísindi, boðorðið, "ef einhver vill ekki vinna á hann heldur ekki að borða" er ekki annað en kristileg framsetning á því lögmáli náttúrunnar sem hefur lyft lífinu hæst, því lögmáli að sá sem hefur ekki orku til að bjarga sér verði að deyja. (Örlagaborgin)
En kristið fólk sagði bara Ha, og hélt áfram að vinna að umbótum.
Gegn andstöðu frjálshyggjunnar.
Aftur er fróðlegt að vitna í Örlagaborgina.
Í stjórnum borga og bæja stóðu frjálshyggjumenn jafnan í vegi fyrir hverjum þeim aðgerðum sem miðuðu að því að bæta heilbrigðisástandið í fátækrahverfum, að láta menn borga skatta til slíkra framkvæmda var í þeirra augum ekki annað en þjófnaður.
... og þar er því haldið fram að lagafrumvarp um styttingu vinnutíma í verksmiðjum verði tortímandi fyrir efnahaginn ef það nái fram að ganga. Hagfræðingurinn sýnir þar fram á með augljósum rökum að allur hagnaður í baðmullariðnaði verði til á síðustu vinnustundunum dag hvern, með því að stytta vinnudaginn verði hagnaðurinn enginn.
Ýmsir þingmenn vilja að löggjafarvaldið grípi inní og bæti kjör verkamanna sem eru orðin verulega slæm. ... eru því með öllu andvígir, þeir líta svo á að kjör verkamanna séu best tryggð með því að þingið skipti sér sem allra minnst af þeim. "Það væri gagnslaust að láta laun verkamanna af hvaða tagi sem er ráðast af nokkru öðru en náttúrulegri eftirspurn eftir vinnu þeirra" segir einn þingmaðurinn. Hann segist skammast sín fyrir að þurfa að vitna í svo viðurkennda og útþvælda reglu - reglu sem hver einasti maður sem skrifar um hagfræði telur rétta. Ef þessi tillaga væri samþykkt væri hætta á að það boðaði endalok frjálsrar vinnu í landinu.
Furðulegt hvað umræðan er svipuð, sama fólkið á móti réttlæti, vitnar í hagfræði ómennsku sinni til stuðnings. Þá var það arðrán á verkafólki, í dag er það arðrán á skuldurum.
Frjálshyggjan tapaði þessu stríði, smán saman bötnuðu kjörin, lög voru sett um aðbúnaði, um lágmarkslaun, og drög voru lögð að velferð nútímans.
Munar þar mestu um stéttarbaráttuna, þar sem sósíalistar hótuðu að yfirtaka samfélagið og gera eigur borgaranna upptækar. Óttinn við sömu örlög og yfirstétt Rússlands hlaut eftir byltingu bolsévika vó þungt í hugarfarsbreytingu valdastéttarinnar.
En kristin lífsviðhorf hófu stríðið, og kristilegir íhaldsflokkar tóku höndum saman við sósíaldemókrataíska flokka um að móta lausn sem batt enda á stéttarstríðið.
Sú lausn heitir velferðarkerfi og það er það kerfi sem frjálshyggjan sækir nú að.
Það er engin tilviljun að áður blómstrandi iðnaðarsvæði Vesturlanda eru núna hálfgerðar rústir, framleiðslan varð undir í samkeppni við framleiðslu sem þarf ekki að lúta lögum um lágmarkslaun, um vinnutíma, um aðbúnað og öryggi.
Hvað þá kröfum um mengunarvarnir, um umhverfisvernd, eða annað sem þykir sjálfsagt í hinum þróuðu ríkjum.
Og hún er ekki íþyng með sköttum sem fjármagna velferð, heilbrigðisþjónustu, menntun.
Svar frjálshyggjunnar við þjóðfélagssáttinni var að útvista framleiðslunni til landa þar sem hún fékk frítt spil eins og hún hafði á fyrra gósenskeiði sínu í upphafi nítjándu aldar.
Hún hefur hafið gagnsókn gegn réttindum verkafólks, lögum um lágmarkslaun, um aðbúnað, um félagsleg réttindi.
Fjármálabraski sýndarviðskipta hefur hún komið yfir á almannasjóði svo þeir megna ekki að reka innviði samfélaga. Þar sem ástandið er verst, hafa þeir verið brotnir niður.
Og þetta er aðeins byrjunin.
Allar helfarir eiga sitt upphaf.
Og það er aðeins í upphafinu sem hægt er að stöðva þær án þess að óbætanlegur skaði, og hörmungar hafi hlotist af þeim.
Ef hinn siðaði maður hefði risið upp eftir Kristalnóttina frægu, þá hefði engin ofn verið kynntur með fólki nokkrum árum síðar.
Hryllingur frjálshyggjunnar var stöðvaður á sínum tíma af kristnu fólki, af siðuðu fólki, sem sagði einfaldlega að hagfræði andskotans væri ekki hagfræði mannsins.
Ekki hagfræði lífsins.
Að svona gerði maður ekki meðbróður sínum.
Að maður ætti að gæta bróður síns.
Þetta veit frjálshyggjan, þetta veit andkristnin.
Hún þekkir sinn forna óvin.
Og hún óttast hann.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:59 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 396
- Sl. sólarhring: 750
- Sl. viku: 6127
- Frá upphafi: 1399295
Annað
- Innlit í dag: 335
- Innlit sl. viku: 5190
- Gestir í dag: 309
- IP-tölur í dag: 305
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð grein og skilmerkileg og segir söguna vel að þvi sem þú kallar kristnina frjáshyggju sem er rétt,að hluta ekki ölli leyti!!!að mér finnst,ég er mjög Kristin maður og ólst upp við það reyndar í Fríkirkju í R.vik,en gerðist fljótt um 1950 einn af stofnendum Ó.H.S.í R.vik og er þar enn,en ég er jafnframt frá únga aldri baráttumaður fyrir algjörum aðskilnaði ríkis og kirkju og geri það enn,á fullu!!!En það ættlar ekki að takast þrátt fyrir meirihluta þjóðarinar!!!en þetta breytir ekki trúnni og að gæta bróður sins/Kveðja að sunnan
Haraldur Haraldsson, 25.2.2013 kl. 16:57
Takk Haraldur.
En ég vona að þú gerir þér grein fyrir að ég er að stefna saman kristni og frjálshyggju sem tveimur algjörum andstæðum.
Að kristin trú og kristin gildi eru höfuðóvinur frjálshyggjunnar.
Að það var kristin siðfræði sem hóf andófið gegn þeim hrylling sem var í verksmiðjuborgum Englands á fyrri hluta 19. aldar.
Og að það er jafn viðeigandi að frjálshyggjufólk sé í kristilegum íhaldsflokki eins og að djöfladýrkendur séu í kaþólsku kirkjunni.
Þú ert kristilegur íhaldsmaður Haraldur, og einn daginn áttar þú þig á að það er hyldýpi milli lífsskoðana þinna og þeirra sem hneppa almenning í ánauð skulda og fjármagns.
Það að þú ert ennþá að lesa mig, bendir til að það sé stutt í að þú áttir þig á að kristilegir íhaldsmenn stjórna ekki Sjálfstæðisflokknum í dag.
Hið svarta fjármagn getur blekkt, en það getur aldrei til lengdar bælt hinn innri mann.
Þá verður frjálshyggjunni úthýst úr Sjálfstæðisflokknum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 17:17
Eimitt það sem ég er samt að segja að ég við aðskilnað og er Kristinn!!!Kveðja að sunnan
Haraldur Haraldsson, 25.2.2013 kl. 21:22
Blessaður Haraldur.
Ætli flestir séu ekki sammála þér með það, þessi tillaga var vanhugsuð þó ég efi ekki að tilgangur hennar hafi verið góður.
En hún var góð fyrir mig, gaf mér tækifæri til að draga fram átakalínur siðmenningarinnar við hið svarta fjármagn sem í dag ríður röftum í flokknum.
Það var margt gott í ræðu Bjarna, en Helið kemur á undan uppbyggingunni.
Og hvort sem menn eru að gera það viljandi eða ekki, þá eru menn að eyða samfélaginu sem þú tókst þátt í á langri ævi að byggja upp.
Samfélaginu sem hefur reynst börnunum mínum vel, þrátt fyrir Hrunið og erfiðleikana.
Þetta fjármagn sem við glímum við er ekki fjármagn atvinnu og uppbyggingar, heldur sígur það blóð úr efnahagslífinu.
Það er eins og engisprettufaraldur, eða Mongólarnir sem eirðu fáu.
Og það ætlar að gera okkur, hinn almanna mann að þrælum.
Þetta er ekki sú stefna sem hreif þig ungan og þú hefur stutt alla þína ævi.
Þetta er ekki stefna þeirra Bjarna og Ólafs, heldur er þetta eitthvað sem þeir fyrirlitu og börðust gegn alla sína ævi.
Ég hef enga hagsmuni Haraldur að halda öðru fram en því sem ég best veit.
Eins og ég hef reynt að gera í öðrum málum sem upp hafa komið frá Hruni.
Mínu einu hagsmunir eru að strákarnir mínir fái lifað í mannsæmandi þjóðfélagi, eins og þjóðfélaginu sem ég ólst upp í.
Það stýrir penna mínum Haraldur, ekkert annað.
En allavega tel ég þig góðan að hafa fylgt mér þrátt fyrir allar mínar skammir á þína menn. Það er einhver þráður sem við eigum sameiginlegan.
Ég vona að ég sé bara svartsýnn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 22:11
Þakka hlý orð til mín gamla mansins/Kveðja að sunnan!!!
Haraldur Haraldsson, 26.2.2013 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.