25.2.2013 | 09:30
Tími hinna hefðbundnu lausna er liðinn.
Þegar ríkisstjóri Illions ríkis í Bandaríkjunum var spurður hvernig hefði gengið að virkja samtakamátt fólks til að takast á við hörmungarnar sem fylgdu miklum flóðum sem urðu þar fyrir nokkrum árum, þá sagði hann að allir sem einn hefðu staðið saman og fólk hefði hjálpað eftir getu og aðstæðum. Þetta þótti merkilegt í einni háborg einstaklingshyggjunnar hvað vel gekk að fá þá sem betur stóðu, að koma þeim sem misstu hús og eigur, til aðstoðar.
Fólk stóð saman þegar á reyndi.
Það bjargaði þeim sem þurfti að bjarga og það spurði ekki um laun.
Þegar hildarleikur seinna stríðs hófst og Þjóðverjar gerðu loftárásir á London, þá sprengdu þeir upp fátæktarbæli Austur London og einnig hverfi betri borgara þar rétt hjá. Að sjálfsögðu voru öll verðmæti fólgin í hverfi betri borgara, og þangað fór meginhluti slökkvi og björgunarliðs, þeir fátæku voru hvort sem er vanir neyðinni.
Churchil brást æfur við, fór með yfirmann almannavarna til fátæklinganna og sagði honum að þeir væru líka þegnar konungs, þó þeir hefðu kannski ekki greitt eins mikinn skatt og hinir betur stæðu. Hann sagði að samstaða væri eina von þjóðarinnar til að sigrast á hörmungunum og hinum illskeytta óvini.
England þyrfti líka á kröftum hinna fátæku að halda, og það yrði ekki liðið að þeir væru meðhöndlaðir eins og þriðja flokks fólk.
Þetta er grundvallarmál hins siðaða manns, að bregðast rétt við á neyðarstundu, að nota alla sína krafta og alla sína orku til að bjarga öllum, líka þeim sem áttu ekki ofaní sig að éta, líka þeim sem voru svo sjúkir að þeim var hvort sem er ekki hugað líf.
Því á neyðarstundu er maðurinn ekki guð, hann getur ekki handvalið þá sem á að bjarga og þá sem á ekki að bjarga.
Sé það gert, þá er forsenda samstöðunnar brostinn, átök brjótast út, hver reynir að bjarga sjálfum sér án tillit til annarra.
Íslenska yfirstéttin segir að þeir sem séu veikir og sjúkir (í fjárhagslegu tilliti), megi missa sig. Og að þeir sem geti skrimt, að þeir fái engar bætur vegna þess tjóns sem fjármálahamfarirnar ollu.
Samt biður hún þetta fólk um samstöðu. Hún biður kennara að sætta sig við kjararýrnun en ætlast til að þeir kenni börnum sínum. Hún biður hjúkrunarfræðinga um að vinna meir fyrir minni pening, og ætlast að þeir séu til staðar þegar hún veikist.
En af hverju ættu þessar stéttir að gera það???
Af hverju ættu þær að sýna tryggð og trúnað á meðan þær borga Hrunskuldir yfirstéttarinnar með kaupmáttarrýrnun, lækkun á fasteignum sem þurrka út eigið sparnað þess, með beinni tekjuskerðingu og fá þar að auki á sig hækkun lána vegna verð og gengistrygginga.
Það er ekkert svar að segja að svona séu leikreglurnar.
Leikreglurnar eru líka að þeir sem koma heilu þjóðfélagi á hausinn eru hengdir upp í næsta tré, og það voru alþingismenn, forkólfar atvinnulífsins, forsvarsmenn lífeyrissjóða, banka, það voru ekki bara auðmenn. Það er ekki hægt að fremja stærri glæp en að setja þjóð sína á hausinn með öllum þeim hörmungum sem því fylgir.
Á að grípa til hefðbundna lausna og afhausa þetta lið sem ábyrgðina ber???
Á að gripa til verkfalla og óeirða, það er hin hefðbundna leið þegar réttlætiskennd fólks er ofboðið???
Nei vissulega á það ekki. Borgarastríð mun aðeins gera illt verra, auka hörmungar fólks og valda þjóðinni ómældum skaða.
En það á heldur ekki að koma Hrunskuldum á saklausan almenning.
Það verður ekki gert eitt en öðru sleppt.
Vilji yfirstéttin borgarstyrjöld, þá fær hún hana.
Það er óhjákvæmileg afleiðing af því mannhatri sem Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, þeir flokkar sem báru ábyrgð á Hruninu, eru að berja í gegnum Alþingi að boði hinnar íslensku yfirstéttar.
Sé til góðgjarnt fólk í þessum flokkum sem vill þjóðinni vel, þá grípur það í taumanna og fjarlægir þessa illu anda sem vilja þjóðina á kaldan klaka setja.
Og það grípur til óhefðbundna lausna, þeirra lausna sem alltaf er gripið til á neyðarstundu.
Það reynir að bjarga öllum og bæta öllum tjón sitt eftir bestu getu.
Þetta kallast siðmenning, mennska og mannúð.
Sterkasta vopn mannsandans gegn hörmungum og neyð.
Og það vopn þarf að notast núna.
Kveðja að austan.
ps. Áður birtur 11.11.2010, en má hafa í huga þegar fólk slær í gegn í dag með því að boða samstöðu um hörmungar, og afskriftir yfirstétarinnar.
Meira en ég hefði þorað að vona | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:33 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 446
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 385
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þó ég segi sjálfur frá þá finnst mér þessi pistill hér að ofan einn af mínum betri, mér tókst að segja eitthvað í ekki alltof löngu máli á þokkalegri íslensku.
Þetta eitthvað fjallar um kjarna þess sem fólk skilur ekki hvað er forsenda endurreisnar eftir hamfarir, að eitt sé látið yfir alla ganga. Ef einum er hjálpað, þá er öllum hjálpað, ef engum er hjálpað, þá er visst réttlæti í því fólgið, en við slíkt stjórnvald er alltaf sett spurningu siðmenningarinnar, "hvaða ómenni eru þetta".
En ef sumu er hjálpað, þá er eins gott að öflugur her, eða vald haldi hinum hjálparlausum í skefjum, þeir sætta sig aldrei við óréttlætið.
Ég fékk ágætis athugasemd við þennan pistil, athugasemdirnar bæta oft mjög við efni pistlanna. Ég birti hana hér í næstu athugasemd, og að sjálfsögðu mína í þar næstu athugasemd.
Í þeirri veiku von að fólk skilji áður en yfir líkur að hávaði mun engu breyta, það er valdið sem dreifir gjallarhornunum, en skilningur mun öllu breyta.
Þess vegna skrifa ég þessa pistla, þess vegna reyni ég að vanda mig í athugasemdunum þegar mál eru rædd.
Það er hlutverk garðyrkjumanna lífsins.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 09:44
Heyr heyr.
Ég vil ekki fara héðan það er minn síðasti kostur,en ég er samt tilbúinn og verð klár þegar ég sé hvaða aðgerðir verður gripið til varðandi heimili og fyrirtæki landsins.
Og það er einmitt þetta vandamál sem við okkur blasir fólk með fulla starfsorku,getur og hefur unnið 60 stundir plús vinnuviku árum saman og borgað vel til skatta og lífeyrissjóða alla sína tíð.
Stjórn þessa lands verður að gera sér grein fyrir þörfinni sem í þessu fólki er fyrir samfélagið,og fólkið verður að fá grundvöll fyrir að borga sín gjöld svo endurreisnin muni skila sér.Það mun þurfa að kúpla systeminu og enginn ráðamaður virðist hreinlega skilja að það þarf kjark og dug til að segja já við sumu og nei við öðru.
Það er alveg sama hversu oft þú ýtir á refresh þú færð sama svar system feil,og það er einmitt málið það kom system krash og þá er ekki hægt að endurræsa sama kerfið með öllum sínum villum,það mun krassa með reglulegu bili endalaust.
Númer eitt núna er að stoppa uppboð ganga í málin og þá mun flóttinn hægast og smátt og smátt rofar til.Við erum að keyra þetta samfélag,með kerfinu það er þjóðhagslega hagkvæmt að þegnarnir deyji svo gjöld þeirra renni í hítuna,en samt gleyma þessir vitleysingar hjá sjóðunum að þegar engir greiðir lengur til þeirra munu þeir vissulega tæmast eins og bankarnir gerðu.
Úlfar Þór Birgisson Aspar,Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 09:45
Takk Úlfar.
Ég orðaði þetta þannig vorið 2009 þegar ég reyndi að setja saman hugleiðingar mínar um að mennskan væri eina leiðin til að skapa þá samstöðu sem þyrfti til að þjóðin næði að vinna sig út úr erfiðleikunum.
Ég hugsaði þetta út frá siðfræðinni sem ríkir þegar skip farast, þá er reynt að bjarga öllum. Það tekst kannski ekki, en það er reynt. Líka drullusokkunum og föntunum, veikum og lasburða. Þegar skip farast þá er ekki lengur manngreinaálit, þá vinna allir saman. Og ef það er ekki hægt að bjarga öllum, þá ganga konur og börn fyrir, og nægilega margir karlar til að koma þeim í öruggt skjól. Þess vegna fóru yfirmaður og hásetar um borð í alla björgunarbáta Titanic, ásamt konum og börnum, milljarðamæringarnir, og það var nóg af þeim um borð, fyrir utan alla milljónamæringana, þeir sátu í borðsalnum og biðu sinna örlaga.
Þetta er aldagömul siðfræði sem hefur þróast út frá þeirri heilbrigðu skynsemi að þannig ná menn að bjarga sem flestum, jafnvel öllum. Ef einhver er fyrirfram dæmdur úr leik, þá notar hann hnefaaflið til að komast í hóp hinna útvöldu. Og þegar menn berjast innbyrðis, þá er hættan á að allir drepist eða þá aðeins örfáir bjargist, og það eru ekki alltaf þeir sem eru í hópi hinna útvöldu.
Út frá þessari jarðbundnu skynsemi orðaði ég þessa hugsun;
Það er mikill grunnmisskilningur í gangi þegar menn láta hagfræðinga móta markmið og stefnu. Þeir eru bara eins og hverjir aðrir tæknimenn, þeirra hlutverk er að koma með ráð og tillögur til að markmið samfélagsins gangi upp.
Þeir eiga ekki að komast upp með að móta efnahagsstefnu sem fórnar hluta samfélagsins (sbr eyðingu grunnþjónustu landsbyggðarinnar) eða einstökum hópum þess (sbr skuldug heimili). Slík stefna leið undir lok þegar Spánverjar útrýmdu prestum Azteca. Eftir það hafa opinberar blóðfórnir ekki verið stundaðar, eða alveg þar til siðleysi Nýfrjálshyggjunnar reis til valda. Eða hin hagfræðilega réttlæting þrælahaldsins.
Fólk heldur að AGS sé hagfræðileg stofnun, en það er rangt, þetta er pólitísk stofnun með það pólitíska markmið að vernda dautt fjármagn, og til þess er það tilbúið að fórna fólki.
En vandi dagsins í dag eru ekki stjórnmálamenn, þeir eru eins og þeir eru.
Vandinn er við sjálf, við látum þá komast upp með það. Meðal annars vegna þess að ómennska okkar er komin á það stig, að þegar fólk telur sjálft sig hólpið, þá lætur það sig hina og örlög þeirra ekki neinu varða.
Það áttar sig ekki á því að þetta er leiðin að deila og drottna, að það er friðþægt meðan einstakar hópar eru kúgaðir, en svo kemur að því, fer eftir röð og styrkleika ómennskunnar.
Að lokum verður samfélag þar sem það eina sem lifir, er dautt fjármagn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 09:45
Þetta hefði líka mátt fljóta með.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 09:45
Mannhatur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hvorki meira né minna. Þú gleymir alveg Framsóknarflokknum. Grín dagsins er að Framsóknarflokkurinn ætlar ekki lengur að svara fyrir spillingu annarra flokka. Kóngunum er nóg boðið.
http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/02/25/framsokn-svarar-ekki-lengur-fyrir-erfidu-malin-fyrir-sjalfstaedisflokkinn/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 25.2.2013 kl. 11:58
Er það Elín??
Er sá flokkur að leggjast gegn leiðréttingu hinna stökkbreyttu skulda, stóð hann fyrir AGS láninu sem átti að nota til að borga út krónubraskara á yfirgengi??
Þessi spillingarumræða fortíðarinnar er tæki þrælahaldaranna til að setja almenning í skuldahlekki um aldur og ævi.
Og ég er ekki svo vitlaus að falla fyrir því.
Þó get ég verið óttalega vitlaus.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 13:48
Leitið að ljósinu í Framsóknarfjósinu. Þér munuð finna Finn. Þú ert skemmtilegur í dag Ómar.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 25.2.2013 kl. 15:09
Sem er líklegast skýring þess að ég styð ekki Framsóknarflokkinn Elín.
En spillingin sem þú vísar í, og mannvonskan sem ég tala um, er hvorki á sama tímaskeiði, eða sama eðlis.
Og aðeins þeir sem eru svag fyrir fólskuverkum, sjá það ekki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.