24.2.2013 | 22:00
Kristið fólk varð undir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Ekki vegna þess að tillaga um kristin gildi var felld út úr samþykktum flokksins, slík tillaga var bjarnargreiði við kristna menn, hefði orðið uppspretta endalausra deilna um hvað kristin gildi eru og hvernig skuli taka mið af þeim. Um það hafa kristnir menn deilt, mishart frá því í árdaga kristninnar.
Heldur vegna þess að siðuð lausn á vítisvél verðtryggingarinnar og siðuð lausn á vanda heimilanna, sem samþykkt var á síðasta landsfundi, var hafnað á núverandi landsfund af kröfu fólksins sem hafði fengi sínar skuldir afskrifaðar. Gjaldið fyrir þær afskriftir var skuldafangelsi almennings. Skuldafangelsi hinna venjulega flokksmanna, heimila þeirra og fyrirtækja.
Slíkt er ekki siðað, og ósiðað fólk getur ekki kennt sig við kristni, eða barist fyrir kristnum gildum.
Næg var smán þessa landsfundar þó hann hefði ekki kristna trú í flimtingum líka.
Siðaður maður kemur náunga sínum í neyð til hjálpar, það er skylda hans.
Siðaður maður lætur ekki sálarlausa reiknivél ræna þjóð sína, heimili landsins og fyrirtæki.
Siðaður maður hrekur ekki fjölskyldur á vergang.
Siðaður maður kýs ekki Sjálfstæðisflokkinn í dag.
Hvað þá að vera í honum.
En allir hinir geta verið í honum með góðri samvisku, varið siðleysið, reynt að útskýra hina efnahagslegu heimsku.
En ekki sem þjónar hinna afskrifuðu.
Heldur sem sjálfstæðir þrælar verðtryggingarinnar.
Kveðja að austan.
Tillaga um kristin gildi felld út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 2
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 1226
- Frá upphafi: 1412780
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 1085
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ekki veit ég hver þú ert ----- en ef þessi skrif eru ekki TRÚAROFSTÆKI í sinni verstu mynd ....ÞÁ HVAÐ ????
Magnús Jónasson (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 22:33
Blessaður Magnús.
Sár má sá kaunn vera sem kennir einfalda siðlega ábendingu við TRÚAROFSTÆKI, hvað þá í sinni verstu mynd.
Það má vera að hundheiðið fólk bregðist ókvæða við þeirri forsendu að kristið fólk sé siðað, það er að boðskapur kristinnar feli í sér siðleg gildi.
En það ekki bara þeirra vandamál??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.2.2013 kl. 22:40
Þvílíkar eldgamlar gúngur sem (S) hefur innanborðs, sem eru svo ekkert betri en (VG) og (SF) þegar kemur að hinum almenna borgara.
En auðmanna elítan fær að hlada sinni verðtryggingu og ekkert breytist, heimilum verður rústað eins og þeim var rústað undir núverandi Ríkisstjórn.
Vonandi sér fólk að sér og kýs ekki (S) í næstu kosningu.
Til hamingju Sigmundur Davíð með Forsetaráðherastólinn, sem þú færð sem gjöf frá (S) vegna elliærra gúngna (S).
Kveðja frá London Gatwick
Jóhann Kristinsson, 25.2.2013 kl. 00:26
Ekki get ég séð að þessi pistill Ómars fjalli um trúarofstæki, nema síður sé.
Vona að Magnús sjái það ef hann les pistilinn yfir í ró og næði að hér er fjallað um hvað er siðrænt og hvað ekki.
Ætíð er gott að lesa pistilinn allan, en ekki bara fyrirsögnina, áður en maður dæmir skrif annarra.
The Deep Throat (IP-tala skráð) 25.2.2013 kl. 00:42
Ég var að skrifa fyrr í dag bloggpistil og rökstyðja það af hverju hvorki væri gerlegt né skynsamlegt að skylda þingmenn til að fara gegn þingmannseiði sínum um að fara aðeins eftir sannfæringu og samvisku og engu öðru.
Samkvæmt skilgreiningu nafna míns sýnist mér að með þessu verðskuldi ég að vera kallaður ókristinn maður, gott ef ekki heiðingi.
Og ég, sem hef verið í stjórn kristins safnaðar og samið á þriðgja tug sálma!
Ómar Ragnarsson, 25.2.2013 kl. 01:47
Blessaður nafni.
Mér vitanlega er þessi skilgreining á siðaðri forsendu kristninnar ekki fundin upp hér fyrir austan, gamli fermingarpresturinn minn, séra Jón Kr. Ísfeld var að vísu úr Mjóafirðinum, en þjónaði víða um landi og var náinn vinur biskupsins okkar, Sigurbjörns Einarssonar.
Ég held að hann hafi byggt visku sína á eldri visku frá því í árdaga kristinnar trúar, en vissulega er um þetta ágreiningur, ber ekki á móti því. Frá fyrsta degi hefur bókstafurinn tekist á við inntakið, fordæmingin tekist á við fyrirgefninguna, siðuð hegðun glímt við yfirdrepsskapinn.
Skil því vel sárindi þín að uppgötva þetta á gamals aldri að það er ekki nóg að yrkja sálma og mæta í kirkju til að teljast kristinn. En þú ættir þá að geta sett þig í spor faríseanna sem iðkuðu sína trú af mikilli samviskusemi, en var þá bent á að trúin væri í hjartanu, ekki í tungunni. Maður getur alveg skilið að þeir hafi orðið fúlir.
En þeir sem illt hyggja og helfarir skipuleggja, átta sig vel á þeim ógnarmætti sem býr í þeim boðskap að þú eigir að gæta bróður þíns og ekki gera öðrum vísvitandi illt. Þess vegna dóu milljónir kristinna manna í helför nasista, þess vegna réðust bolsévikar á kirkjur og brenndu, þess vegna ýtir Evrópusambandið undir trúleysi.
Þess vegna er hið svarta fjármagn að afsiða Vesturlönd.
Afsiðun er forsenda ICEsave, afsiðun er forsenda vítisvélar verðtryggingarinnar, afsiðun er forsenda helfarar grísku þjóðarinnar.
Afsiðun er forsenda þess að gera sjálfstætt fólk að þrælum fjármagns.
Og gegn þeirri synd dugar ekki sálmasöngur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 08:56
Blessaður þú sem ógnar valdinu úr djúpinu með þekkingu þinni.
Það er önnur hlið á þessum heiftarviðbrögðum gegn smá siðlegri ádrepu.
Og mig minnir að hún hafi sést í Rosemary´s baby, en það voru viðbrögð andans við faðirvorinu.
Hvílíkt argasta klám og formælingar, það er faðirvorið, og hrein mannvonska að kyrja það yfir honum.
Það eru nefnilega misjöfn augun sem fólk notar til að skoða heiminn með.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 09:03
Blessaður Jóhann.
Það er rétt, Sigmundur er að styrkja sig.
Og vonandi hægri grænir líka, þeir eru heilir í þessu máli, og tillaga þeirra um kynslóðasátt er allrar athygli verðar.
En á meðan áróðursmaskínu valdsins, sem núna böðlast á andstæðingum verðtryggingarinnar, er ekki mætt með kæru í ICEsave fjárkúguninni, þá er baráttan töpuð.
Valdið heldur meirihluta sínum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 09:07
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ákvað að "fella niður" áður samþykkta tilögu um að - taka skyldi "mið" af kristnum gildum - við lagasetningu.
Það er nú svo gott að jafnvel þeir sem kalla sig trúlausa, vinna og starfa í samræmi við "kristin gildi" þótt þeir kalli það auðvitað eitthvað annað.
Vafalaust eru margir í þessum flokki sem aðhyllast kristna trú og eru ekki ánægðir með þessi málalok.
Og þeir hinir sömu hafa sinn fulla rétt, ... kosningarétt, ... þegar kemur að næstu kosningum. Hvernig kæmi það nú út, ef margir af þeim myndu ákveða að nýta kosningarétt sinn með þeim hætti að "fella niður" nafn Sjálfstæðisflokksins og kjósa ekki þann flokk í þetta sinn ?
Hvernig yrði útkoman þá, ... ég bara spyr ?
Tryggvi Helgason, 25.2.2013 kl. 14:12
Blessaður Tryggvi.
Vafalaust ræður margt hvernig fólk greiðir atkvæði sitt.
En þegar sá dagur rennur upp að kristið fólk áttar sig á að frjálshyggjan er andkristni, þá mun Sjálfstæðisflokkurinn á ný verða kristilegur íhaldsflokkur, líkt og til hans var stofnað í upphafi.
Eða enda sem örflokkur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2013 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.