30.1.2013 | 19:24
Stund sannleikans er runnin upp.
Tími lyga og blekkinga er liðinn.
Evrópa er orðin neyðarsvæði. Það er mat Alþjóða Rauða krossins að Evrópa þurfi þess vegna að búa sig undir uppreisnir, eins og þær sem skekið hafa Norður-Afríku. (Yves Daccord, forstjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins).
Ísland hefur orðið fyrir árás - ekki hernaðarárás, heldur fjármálaárás. Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða, einmitt þegar þær þurfa mest á því að halda.
Hvernig geta Íslendingar borgað á næstu árum án þess að landsmenn tapi unnvörpum eignum sínum og félagslega kerfið verði lagt í rúst? .. og koma hér á samfélagi örfárra ofurríkra lánadrottna og svo örsnauðs almennings? Það er raunveruleg hætta á að hér myndist ný stétt fjármagnseigenda sem stjórna muni landinu næstu öldina eða svo...... að leggja samfélagið í rúst, selja auðlindir sínar eða koma á gríðarlegri stéttaskiptingu fjármagnseigenda og skuldara. (Michael Hudson prófessor Columbia háskóla)
Til að borga kröfuhöfum þyrftum við að hafa í handraðanum á næstu árum um 1.200 milljarða króna aukalega í erlendum gjaldeyri. Við þá upphæð bætast síðan árlega um 70 milljarða vextir og arður af hlutbréfum í bönkunum. Upphæðin fer því hækkandi eftir því sem tíminn líður bak við gjaldeyrishöft. .... Lífskjör myndu versna eftir því. Í mínum huga er sú leið algjörlega ófær. Hún myndi leiða til efnahagslegrar gjöreyðingar og fólksflótta. Þetta eru stór orð en því miður sönn. (Tryggvi Þór Herbertsson Að steðjar vá.)
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, fengi kröfu upp á 700 milljarða punda: Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu langt hann kæmist legði hann til að Bretar ættu að fallast á slíka skuld til að endurgreiða innistæðueigendum erlendra útibúa gjaldþrota breskra banka". ... Og líklega dytti engum öðrum stjórnvöldum en þeim íslensku í hug að fara fram á það af skattgreiðendum að þeir tækju á sig - hver um sig - yfir tveggja milljóna króna skuld sem þeim ber ekki að greiða. (Martin Wolf fjármálaritstjóri Financial Times)
Þessar tilvitnanir lýsa óveðurskýjum sem ekki hafa sést í Evrópu frá því á fjórða áratug síðustu aldar. Að baki er sama ógnin, vald sem telur sig mega gera hvað sem er í þágu sinna hagsmuna, ef það hefur til þess afl.
Sagan segir að fólk hafi hundsað þau teikn sem það sá um hið væntanlega óveður, og var því við öllu óviðbúið. Gæfa þess var að í einu ríki var maður sem sá, og varaði við. Og til hans leituðu landar hans þegar á reyndi, og hann náði að stappa stál í fólk þegar öll von var dauð.
Og það stál dugði til sigurs.
Eftir miklar hörmungar, eftir miklar fórnir þá sigraði mennskan ómennsku siðleysisins sem taldi sig mega hvað sem er, ef það hefði til þess afl. Það mátti deyða, ræna, þrælka, fjárkúga, leggja undir sig lönd og lýð, og meðhöndla að vild. Því þess var aflið, það mátti sem það vildi.
En laut í gras fyrir samtakamætti fólks sem átti líf sem þurfti að vernda, og verndaði það þegar á reyndi.
En þó orð þessa manns hafi vegið þungt, þá var það sannleikurinn sem vó þyngra.
Það þurfti að gera það sem þurfti að gera með þeim tiltækum ráðum og krafti sem vörn mennskunnar bjó yfir gagnvart ógnarafli siðleysis og græðgi.
Staðreynd sem ég orðaði í pistli mínum Upprisan.
Hvaða skilyrði þurfa vera til staðar, og eru ekki þegar nefnd, til að fólk rísi upp, og rísi upp saman svo afl þess verði valdinu yfirsterkara?? Svarið er ákaflega einfalt, því eftir því hefur verið leitað áður. Og það þótti nógu merkilegt til að vera skráð niður í bók sem er ennþá lesin.
Það er svarið sem ríki maðurinn fékk á sínum tíma. "Eins er þér vant; far þú og sel allar eigur þínar og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni; kom síðan og fylg mér.".
En þetta var ekki svarið sem ríki maðurinn vildi heyra, það er sagt að hann hefði orðið dapur og farið sína leið, hann vildi himnasæluna en vildi ekki fórna eigum sínum fyrir hana. Það sama gildir um manninn sem rís upp.
Ef hann vill virkilega í hjarta sínum verja framtíð barna sinna, þá setur hann ekki skilyrðin, hann verður að sætta sig við þau skilyrði sem baráttan krefst af honum. Annars getur hann látið ógert að spyrja. Hann getur ekki bent á aðra, hann getur ekki notað skálkaskjól, að hann vilji en það sé svo mikið í húfi að hann geri ekki. Hann verður að sætta sig við að það gerir þetta enginn annar fyrri hann. Hann verður sætta sig við staðreyndir, hætta að rífast við þær, hætta að halda fram sínum skoðunum gangi þær gegn raunveruleikanum.
Hann á í stríði og hann verður að sætta sig við lögmál stríðsrekstrar. Líklegast er þetta það sem fólk á erfiðast með að sætta sig við. Að það þurfi að standa saman, að það þurfi að gera það sem þarf að gera, það þarf að lúta forystu, og það þarf að lúta aga. "Mér finnst", "ég held", "ég tel" eru ekki gild orð lengur, heldur "hvað þarf að gera", "hvað get ég gert","hvernig get ég hjálpað".
Og átta sig á þessari einföldu staðreynd sem ég benti á í pistli mínum um skæruliðann.
Í stríði gilda einföld lögmál, þú berst við óvininn þar sem hann er veikastur, með þeim tækjum og tólum sem þú hefur yfir að ráða. Þú myndar bandalag við óvini óvinar þíns, alveg óháð fyrri ágreiningi við þann sama óvin óvinarins þíns, og þú herjar á þá sem starfa með óvini þínum, alveg óháð því hvort þú hafir áður átt samleið með þessum vini óvinar þíns. Þeir sem skilja þetta ekki, þeir tapa stríðum.
Maðurinn sem skapaði stálið orðaði þessa nauðsyn í þingræðu.
Undanfarinn aldarfjórðung hefur enginn verið staðfastari andstæðingur kommúnsmans en ég, eg ég vildi ekkert látið ósagt, sem ég hef áður sagt um þá hluti. En slíkt hverfur í skugga þeirra tíðinda, sem nú eru að gerast. Fortíðin, glæpir hennar, harmleikur eða fíflaskapur, hverfur. .... En vér verðum að lýsa yfir þeirri ákvörðun nú, þegar í stað, án tafar. Getið þér efast um, hver verði stefna vor. Hver sá maður og hvert það ríki, sem berst gegn nazismanum, mun hljóta aðstoð vora. Hver sá maður og hvert það ríki, sem fylgir Hitler er óvinur. Þessi er stefna vor, þessi er yfirlýsing vor
Í stríði gilda ekki bandalög fortíðar, heldur þau bandalög sem beina afli sínu gegn óvininum eina.
Sannindi sem velmegun nútímans hefur þurrkað úr viti fólks.
Og þó, þetta vissi þjóðin í stríðinu um ICEsave. Þar stóðu menn saman þvert á flokkslínur, og menn létu undirróðursfólk óvinarins, eins og þau Jónas Kristjánsson, Láru Hönnu Einarsdóttir, Illuga Jökulsson, Einar Kárason, Guðmund Andra Thorsson og ótal mörg önnur verkfæri fjárkúgunarinnar ekki villa sér sýn. Þau hömruðu á "Fortíðin, glæpir hennar, harmleikur eða fíflaskapur" og við sem áttum líf sem þurfti að vernda, tókum það líf fram yfir átök þau sem tíminn hafði skilið að baki.
Þessi átök voru ekki uppgerð, þau voru einfaldlega ekki þau átök sem við háðum við fjárkúgara og ofbeldismenn.
En ICEsave stríðið var undantekningin sem sannaði regluna.
Fortíðin, með glæpum sínum, harmleikjum, eða fíflaskap sundrar vörn okkar fyrir tilveru barna okkar.
Fólk sem sér ógn vogunarsjóðanna, og skilur hvað fólst í orðum Tryggva Þórs Herbertssonar um efnahagslega gjöreyðingu, það ætlar samt að kjósa flokk sinn, því það heldur að vogunarsjóðirnir séu kommúnistar undir stjórn Steingríms J Sigfússonar. Það áttar sig ekki á því að Steingrímur er verkfæri, alveg eins og flokkur þess. Aðeins annar inngangur inní útrýmingarbúðirnar, en með sömu áletruninni, "Arbeit macht frei", stefna Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn gagnvart eyðingu verðtryggingarinnar eða yfirtöku vogunarsjóðanna. Þvílík er kaldhæðni sögunnar.
Þetta fólk áttar sig ekki á því að stund sannleikans er runnin upp. Það tekur flokk fram yfir fólk, sitt eigið fólk.
Fólk sem sá ógn frjálshyggjunnar og skyldi orð Michael Hudson "Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða, einmitt þegar þær þurfa mest á því að halda. " það fylgir foringjum sínum blindandi inní aðrar dyr á útrýmingarbúðum fjármagnsins, berst fyrir ICEsave og yfirtöku vogunarsjóðanna, því það er að berjast gegn frjálshyggjunni.
Fólk sem þóttist vera á móti kerfinu, það er samt mest Lost af öllum. Það veit ekki hvað það er raunveruleiki, og hvað er draumur. Það styður vanvit tómhyggjunnar í Bjarti Framtíð þó hún sé bein ávísun á vítisvit útrýmingarbúða evrunnar, og þó foringjarnir séu allir ICEsave þjófar.
Þetta fólk er það aumasta af öllu, það hefur misst alla hvöt til að verja lífið sem það ól, það er eins og kalkúnninn sem fæðir sig ekki þó matur sé allt um kring. Það er eins og líkami án hjarta, dæmdur til að deyja.
Önnur birtingarmynd þess fólks er fólkið sem heldur að það sé að berjast á móti kerfinu, en styður flokk sem vinnur fyrir kerfið, þjónar markmiðum þess og er ætlaður að hindra að fólki snúi við á leið sinni í útrýmingarbúðir vogunarsjóðanna.
Þetta er fólkið sem skilur ekki þau einföldu sannindi að sá sem vinnur með óvininum, er óvinur.
"Hver sá maður og hvert það ríki, sem fylgir Hitler er óvinur.. ", það þarf bara að skipta Hitler út fyrir ríkisstjórn Jóhönnu, og þessi gömlu sannindi eru sannindi varnar þjóðarinnar í dag.
Þriðja birtingarmyndin og sú sorglegasta er fólkið sem þykist vera á móti, en heldur að það sé ekkert stríð í gangi. Að það geti hagað sér eins og bjánar, verið út og suður í naflaskoðun sinni. Eða það geti mannað skotgrafirnar gegn óvininum eina, og látið sig hverfa þegar það þarf að sinna öðru. Eða það geti samfagnað með fólkinu sem ógnar tilveru barna þess, þegar það hefur varist atlögu þess, og óvinurinn kemur og spyr, "er ekki alltí lagi. Erum við ekki vinir, haltu á byssunni minni, ég þarf að fara að útvega mér meiri skotfæri, og ná í skriðdrekann í pósti, og svo kem ég aftur og legg hús þitt í rúst, og eyði tilveru barna þinna".
Stundum veit maður ekki hvort maður eigi að hlæja eða gráta þegar maður fylgist með fólki teygja fram hálsinn svo hann liggi vel við höggi.
Fólkið sem þykist vera á móti, skilur ekki alvöru lífsins, skilur ekki að það þarf að verja sig og sína með þeim ráðum og dáðum sem það býr yfir.
Og þess mesta ógæfa er að það getur ekki gengið í takt. Sem dugar ekki þegar við ógnaröfl er að etja.
En það þýðir ekki að gráta.
Það er sem er.
Sá sem skynjar stund sannleikans, hann spyr ekki um aðra, hann spyr um sjálfan sig.
Hann spyr, "Hver er ég??". Og svarið við því ræður gjörðum hans.
Ef hann vill ekki það sem verður ef enginn snýst til varnar, þá snýst hann til varnar.
Og gerir það á þann hátt sem þarf að gera.
Um það fjallar seinni hluti þessa pistils.
Á stund sannleikans.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 33
- Sl. sólarhring: 40
- Sl. viku: 2052
- Frá upphafi: 1412751
Annað
- Innlit í dag: 33
- Innlit sl. viku: 1805
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.