Örlagadómurinn.

 

Dómur EFTA dómsins í ICEsave er örlagadómur þar sem loksins, loksins verður skorið úr um lögmæti þess að ESB þjóð geti krafið EFTA þjóð um bætur vegna innstæðutryggingakerfis Evrópusambandsins.

Krafa breta var alltaf fjárkúgun samkvæmt breskum og íslenskum lögum, þeir löghelguðu hana ekki fyrir dómi áður en þeir hófu innheimtuaðgerðir sínar.

Innheimtuaðgerðir þeirra voru líka brot á stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins sem bannar fjandasamlegar aðgerðir einnar aðildarþjóðar gagnvart annarri.  

En það hefur aldrei verið skorið úr því hvort sjálf krafan, sjálf fjárkúgunin, hafi byggst á lögum og reglum Evrópusambandsins.

 

Fallist EFTA dómurinn á málflutning EFTA ríkjanna, sem sér vitandi hafa aldrei heimilað stofnunum Evrópusambandsins einhliða rétt til að ákveða ríkisábyrgðir EFTA ríkjanna, hvorki takmarkaðar eða ótakmarkaðar eins og ábyrgð á innlánstryggingum er, þá  er ljóst að lögleysa breskra stjórnvalda var algjör, þau eru skaðabótaskyld og þeir ráðamenn breskir sem ábyrgðina bera, sekir um tilraun til ráns og gripdeilda. 

Ótýndir þjófar eins og sagt er.

Eins er ljóst að það innlenda stjórnvald, sem samþykkti óséðan samning við breta um greiðslu á lögleysunni, að það hefur bæði brotið ákvæði hegningarlaga um fjárkúgun sem og ákvæði hegningarlaga um landráð.  

Eins er ljóst að þeir innlendu fræðimenn, til dæmis hjá Lagastofnun Háskóla Íslands, sem tóku undir það sjónarmið breta að krafa þeirri byggðist á EES samningnum, að þeir eru allavega sekir um yfirhilmingu, og að öllum líkindum hafa þeir brotið þetta ákvæði landráðakafla hegningarlaganna;     "Sé þetta í því skyni gert að koma erlendu ríki til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins á annan hát.".  Í ICEsave samningnum voru skýr ákvæði um slíka skerðingu, bæði var dómsvald framselt til breskra og hollenskra dómsstóla sem og að stjórnvöld viðkomandi ríkja fengu íhlutarrétt yfir fjármálastjórn íslenska ríkisins.  Eins voru eigur ríkisins lagðar að veði vegna ICEsave skuldbindinganna.

Og að lokum er það ljóst að þeir innlendu aðilar sem vegna annarlegs stuðnings við breta fullyrtu að kröfur þeirra byggðust án vafa á lagalegum grunni, að þeir haf brotið 86. gr, 87 gr. og 88. gr hegningarlaganna sem fjalla um meint landráð.  Sérstaklega má nefna 88. gr, þar sem stendur; "Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið eða hlutist til um málefni þess".

Um túlkun á þessari grein þarf ekki að deila, brotið er augljóst, það er aðeins spurning hvar á að hýsa allt brotafólkið eftir að dómur hefur fallið.

 

Í þessu samhengi er rétt að minna á þá fréttamenn sem lásu upp fréttatexta sem innhélt þessa fullyrðingu, "... samkvæmt ICEsave skuldbindingum  vegna EES samningsins ....".  

Falli dómur með íslenska ríkinu, þá þurfa þeir að sæta ábyrgð, annars gilda ekki lög í landinu.

 

Dómur sem sýknar íslensk stjórnvöld af kröfu ESA er því örlagadómur fyrir marga landa okkar, þó íslenska þjóðin fagni slíkum dómi.

Það er ljóst að eitthvað af hinum nýju framboðum mun kæra hina seku þingmenn, hina seku ráðherra, hina seku elítu, og öll þau handbendi sem bretar notuðu við að fá fjárkúgun sína samþykkta.

Samtökin Já Ísland munu leysast upp, hætt verður við aðildarumsóknina að ESB, ekki nema menn ætli að halda áfram aðlögunarferlinu úr fangaklefum Litla Hrauns, skipta þarf um forystu hjá Samtökum Atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, hjá Alþýðusambandinu auk þess sem Samfylkingin og VinstriGrænir hljóta að verða lögð niður.

Ekkert nýtt stjórnmálaafl mun láta slíkt tækifæri sér úr greipum renna.  Það verða allir að lúta landslögum, líka þeir sem völdin hafa.  

 

Augljóst mál, þess vegna er það jafn augljóst að EFTA dómurinn mun ekki dæma íslenska ríkinu í vil.  Þessi réttarhöld er leikrit með fyrirfram skrifuðu handriti.

EFTA dómurinn er ekki sjálfstæður dómsstóll, hann er leppur undir hæl Evrópusambandsins, alveg eins og ESA.

Eina spurningin hvernig snýr hann sig út úr dilemmunni, að kveða upp dóm sem á sér enga tilvísun í réttarheimild eða í EES samninginn sem er skýr um að hann sé á milli sjálfstæðra EFTA ríkja annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar.  

EFTA dómurinn hefur ekki vald til að skerða þetta sjálfstæði, hvernig sem hann reynir það.

Allar tilraunir í þá átt er skýrt brot á EES samningnum, á stjórnarskrám EFTA ríkjanna, og hvað Ísland varðar, skýrt brot á landráðakafla hegningarlaganna.

 

Þetta þýðir að ef íslenski dómarinn í EFTA dómnum ætlar að láta íslensku valdaelítuna sleppa við að sæta ábyrgð gjörða sinna, þá er hann sjálfur sekur um landráð.

Vissulega nýtur hann friðhelgi en það er hvergi kveðið á um það friðhelgi í lögum um landráð, hvergi kveðið á um slíkt friðhelgi í stjórnarskrá Íslands.  

Enda ætti hverju heilvita manni að vera ljóst að dómari getur ekki farið til útlanda og dæmt þar þjóð sína í sektir án lagastoða, eða kveðið upp dóm sem skerðir sjálfstæði þjóðar hans.

Þá þyrftu menn ekki her til að leggja undir sig aðrar þjóðir, dygði bara að múta dómaranum.

 

EFTA dómnum er því vandi á höndum, vandséð hvaða Salómonsdóm hann getur fellt.

Langlíklegast er að hann fallist á kröfu ESA í einhverri myndi og treysti svo á að handbendi breta á Alþingi Íslands fallist á dóminn og snúist ekki til varnar eftir ákvæðum EES samningsins og ákvæðum alþjóðalaga.   Að það verði ekki gefinn út alþjóðleg handtökuskipun á einstaka meðlimi dómsins.

Mörgum finnst þetta eflaust skrýtin fullyrðing en menn vilja alltaf gleyma því að fjárkúgun, hvort sem hún er innlend eða alþjóðleg, varðar allstaðar við lög og dómur sem reynir að löghelga slíka fjárkúgun án tilvísun í skýr lög og að þau lög hvíli á réttarheimild, hann er samsekur, og ef fjárkúgunin beinist gegn sjálfstæðu ríki, þá er gjörningurinn ígildi hryðjuverks.  Kúgun og hótanir gagnvart sjálfstæðu ríki til að ná fram ólögmætum markmiðum er skilgreint sem hryðjuverk.

Ekkert stjórnvald sjálfstæðs ríkis myndi líða slíkan dóm nema íslensk stjórnvöld, því þau styðja hina meintu hryðjuverkamenn.

 

Samt getur EFTA dómurinn ekki sett hvaða vitleysu sem er í dóm sinn, Evrópa er ennþá réttarsamfélag og í slíku samfélagi gilda strangar reglur, til dæmis um réttarheimild viðkomandi dóma.  Héraðsdómur í Noregi ákveður til dæmis ekki að setja af bresk stjórnvöld þó einhver breskur unglingur hafi migið á tröppur ráðhús í einhverju bæjarfélagi.

Að dæma gegn íslenska ríkinu setur allt réttarkerfi Evrópu í uppnám, því ef fordæmi er komið fyrir ólöglegum dómi, þá verður alltaf spurt, hvert verður næsta fórnarlamb lögleysunnar.  Auk ýmsa praktískra spurninga.

Mega stærri þjóðir Evrópusambandsins innheimta fjárkröfur hjá smáríkjum með hótunum án þess að fá þær löghelgaðar fyrst fyrir dómi??  Hver er þá stærðarmörkin á slíkum rétti??? Fer hann eftir fermetrafjölda eða íbúafjölda???  Og hver eru mörkin á stærð smáríkisins, sem nýtur ekki lagaverndar, er það líka fermetrafjöldi eða íbúafjöldi. 

Þarf að setja reglugerð um umgjörðina á slíkum fjárkúgunum??  Og svo framvegis.

 

Eins er það vald reglugerðavalds ESB til að ákveða ríkisábyrgðir einstakra aðildarríkja, án þess að taka það fram í reglugerð sinni, er þetta vald ótakmarkað, eða gildir það aðeins gagnvart smáríkjum??  Má hún skaða fjárhagslegt sjálfstæði einstakra ríkja, má taka allar eigur viðkomandi þjóðar uppí skuld, og svo framvegis???

Þarf reglugerð um slíkar ríkisábyrgðir???, ef það er geðþótti framkvæmdarvaldsins þá er ljóst að aðildarríki Evrópusambandsins hafa afsalað sér fullveldi sínu til Brussel, langt fram yfir það sem kveðið er á um stofnsáttmála sambandsins.

Og er það alltí lagi, gilda engir sáttmálar lengur, er búið að afnema lýðræðið og réttarríkið í Evrópu.  Taka upp alræðisvald skriffinnana í Brussel, alræðisvald Evrópudómsins til að dæma óháð gildandi lögum og reglum???

 

Málið er nefnilega miklu flóknara en það virðist í fljótu bragði. 

Það er ekki svo einfalt að hlífa íslensku stjórnmálastéttinni, íslensku valdastéttinni við ábyrgð sína í ICEsave.

Rangur dómur, án tilvísunar í lög og réttarheimildir, opnar flóðgátt spurninga og vafamála, auk þess að vega að undirstöðum réttarsamfélagsins sem Evrópa byggist á.

Sumir segja að það ferli sér þegar hafið, að fámenn valdaklíka hafi afsalað vald til Brussel langt umfram það sem leyft er í stjórnarskrám viðkomandi ríkja.  Það hafi verið gert til að reyna að bjarga evrunni.  

En það er himinn og haf milli slíks valdaafsals og þess glundroða sem getur hlotist af röngum dómi í ICEsave.

 

EFTA dómnum er því mikill vandi á höndum og vandséð hvernig hann getur landað Salómonsdómi sem nær bæði að bjarga bretum og bandamönnum þeirra á Íslandi, án þess að valda lagalegri upplausn í Evrópu.

Dómur hans er því örlagadómur í margskonar skilningi og það eina sem ljóst er að ICEsave málinu er ekki lokið við uppkvaðningu dómsins.

 

Vissulega vonar maður það að hann dæmi rétt, eftir lögum og reglum. 

Sýknar íslenska ríkið eins og Ísland, Noregur og Liechtenstein gera kröfu um. 

En maður óttast annað.  

 

En það gilda lög í landinu.

Og það er það eina sem skiptir máli þegar upp er staðið.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Ísland mun standa af sér slæma niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki skondið hvað nokkrir labbakútar í Landbankanum geta látið af sér leiða,

svona ekki bara nema 335 milljarða króna skuld, þar sem e.t.v. almenningur íslands ber ábyrgð á.

Þetta er nú skondið.  Hvað ætli sé hægt að gera margt gott fyrir einar 335 milljarða króna?

Jonsi (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 14:19

2 identicon

Það verður engin 335 milljarða skuld, út í hött sem kemur þarna frá AGS. Ef Ísland verður sakfellt fyrir að hafa mismunað/verið með ríkisábyrgð þá greiðum við samt *ekki eina krónu*. Til að fá borgað þá verða Bretar og Hollendingar að sækja málið fyrir *íslenskum dómsstól* með þeim rökum að þeir hafi orðið fyrir skaða.

Sem er enginn.

Kalli (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 14:24

3 identicon

Segið mér spekingar hvernig stendur á því að hér voru sett neyðarlög sem færðu þá sem áttu innistæður eins og Icesave fremst í kröfuröðina en sparkar aftur Seðlabanka Íslands sem tók á sig nærri því 450 milljarða tap vegna neyðarlaganna en samt eigum við að greiða meira. Fá ekki Bretlar og Hollendingar allar sínar kröfur greiddar og meira til? Það segja ráðmenn í dag og þeir sem sitja í slitastjórn bankans.

Ef ég skil þetta rétt þá tapaði seðlabankinn og ríkið á setningu neyðarlaga, Icesave hafa frá greidda peninga sem þeir annars hefðu aldrei fengið greidda og meira til en samt er verið að heimta meira af íslenskum skattgreiðendum. 

Þetta finnst mér bara vera frekja og ekkert annað.

Guðni Þór (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 14:53

4 identicon

Ég held að fíflin hjá EFTA verði aðeins að líta sér nær áður en þeir fara að dæma aðra, hvernig gátu þeir tildæmis litið framhjá því að bankastarfsemin hér á landi væri 12 sinnum stærri en landsframleiðslan og haldið því fram að hér væri allt í lagi, því voru þeir ekki búnir að bregðast fyrr við nema bara vegna þess að það var allt í klessu alls staðar annars staðar í evrópu og þeir þorðu ekkert að gera og þora því ekki ennnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnn.

valli (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 15:01

5 identicon

Guðni Þór. Seðlabankinn tapaði 800 milljörðum, Afþví Davíð Oddsson lánaði stóru bönkunum víkjandi lán en þau eru óheimiluð í áhættugrunni stóru bankanna Tier 1 og þess vegna er verið að halda búunum gangandi til þess að reyna ná þessum peningum og það er verið á sama tíma að taka yfir sparisjóðina útaf afskriftareikningum, þetta er út í hött, Seðlabankamenn voru, eru og koma örugglrga til með að vera alltaf fífl

valli (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 15:06

6 identicon

Jónsi þessi skuld nýja Landsbankans við gamla er 360 milljarðar og er í formi víkjandi skuldabréfs sem að þýðir að eigin fé Landsbankans (nýja) þarf að vera um 482 milljarðar miðað við það 122 milljarða hlutafé sem í hann var lagt. þetta þýðir á mannamáli að Nýji landsbankinn er gjaldþrota því eigið féð er 220 milljarðar og dugar ekki einu sinni fyrir skuldabréfinu, afhverju haldið þið að nýju bankarnir séu annars að gefa út sértryggð skuldabréf í lánasöfunum sem að gömlu bankarnir eru meira að segja enþá skráðir fyrir nema að nýju bankarnir séu bara búnir að falsa afkomutölur frá hruni

valli (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 15:13

7 identicon

Ja hérna....þvílíkt bull!!!!....þú ert refsiglaður í meira lagi og hatar greinilega ESB meira en pestina....aumkunarvert!!....

Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 15:59

8 Smámynd: Rafn Guðmundsson

þú vildir ekki semja, ég VILDI semja en ég vona að þú hafir rétt fyrir þér

Rafn Guðmundsson, 25.1.2013 kl. 16:26

9 identicon

ESB er bara fyrir fólk sem að hefur aldrei nokkurn tímann komið nálægt því að framleiða verðmæti, til hvers að henda frá okkur auðlindum fyrir einhverja arðætur Jón Kristjánsson

valli (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 16:35

10 identicon

Frábær pistill Ómar.  Glöggur og greinandi sem fyrr.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 17:53

11 identicon

Ómar, takk fyrir fínan pistil, þetta eru mjög þung orð og afar alvarlegt ef rétt reynist.

Það væri gleðilegt ef einhverjir löglærðir aðilar tækju hér þátt í þessum umræðum. Ef þetta er svona alvarlegt eins og þú nefnir, þá er ekki um annað að ræða en að Íslendingar, allir sem einn, taki saman höndum og fari að verja sig almennilega.

Mér hefur alltaf fundist Icesave málið vera í mjög þykkri þoku og eftir þennan lestur varð hún þykkari.

Flowell (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 21:12

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdir.

Flowell, það er bóndadagur, og ég vant viðlátinn.

Ég mun koma inn á nýjum degi og ræða málið betur, áður en næst síðasti pistill í aðdraganda upprisunnar verður saminn.

Málið er nefnilega augljóst ef menn skoða staðreyndir eins og saga hins vitiborna manns kennir okkur.  Glýjan sem hrjáir fólk, er maran sem óvinurinn eini náði að magna í lok síðustu aldar, þegar rétt hætti að vera rétt, og menn spurðu þess í stað um gróðann, ávinninginn, hagnaðinn, en ekki um lærdóm sögunnar um hvað má, og hvað má ekki.

ICEsave er framhald af því sem menn héldu að þeir höfðu kveðið í kútinn árið 1945, en magnaðist upp af fítonskrafti sem aldrei fyrr.

En meir um það seinna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.1.2013 kl. 21:38

13 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Örlagadómur segir þú Ómar.! og vitnar í Stjórnarskrá ESB sem okkur kemur okkur nánast ekkert við.

Ef við lítum einungis á Stjórnarskrá íslands, þá er það kristaltært að meirihluti Alþingis hefur framið landráð þrívegis gagnvart okkar þjóð. Tvívegis með samþykkt Icesave samninga gagnvart bretum og hollendingum og við samþykki þess við umleitan á  ESB samningi án samþykki þjóðarinnar. Sem betur fer þá var Icesave skotið til atkvæðagreiiðslu og þjóðin talaði mjög skýrt.

Það má segja með töluverðri vissu að meirihluti Alþingis hafi einnig framið landráð með aðgerðarleysi gagnvart vaxtastefnu Seðlabanka Íslands, sem stefnt hefur Íslandi í nanast gjaldþrota stöðu. Seðlabanki Íslands hefur haldið vaxtastefnu sem hefur verið á skjön við Íslenska hagsmuni.  VAxtastefnu sem hefur valdið þrýstingi á íslensku Krónuna og veigt- LANDRÁÐASTEFNA.  

Meirihluti Alþingi, hefur ekki beitt sér gegn seðlabankanum á neinn hátt til þess að skapa lífvænlegan grundvöll  fyrir þegna sína.

Meirihluti Alþingis hefur látið vera að agnúast í vaxtastefnu Seðlabankans, þrátt fyriri skuldaaukningu íslenskra þegna og íslendskra fyrirtækja vegna hennar. 

Meirihluti Alþingis hefur meira að segja fengið stuðning   frá verkalýðsforustunni, með þögn þeirra.

Nei og við gerum ei neitt, lýðurinn skal borga. Það er slagorð meirihluta Alþingis.

" En það gilda lög í landinu.

Og það er það eina sem skiptir máli þegar upp er staðið."

Þessi lokaorð þín í þessum pistli skulu okkur vera minnisstæð þegar við tökum á okkar kosnum herrum og við skulum vona fyrir þeirra hönd að pólitískir hagsmunir ESB muni ekki ráða.

Eggert Guðmundsson, 26.1.2013 kl. 00:42

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Flowell.

Ímyndaðu þér að þú sért á læknaráðstefnu einhvers staðar í biblíubeltinu, til dæmi í Kansas, og í miðjum fyrirlestri værir þú handtekinn uppá bandarískan máta og ákærður fyrir morð.

Hið meinta morð áttir þú að hafa framið á Landsspítalanum þegar þú þurftir í neyðaraðgerð að bjarga líf móður á kostnað fóstur sem er mjög sorglegur atburður en þetta var valið meðal annars vegna þess að fóstrið var ekki lífvænlegt. Tek þetta fram til að undirstrika allan vafa í málinu og líka til að það sé ljóst að þetta var ekki hefðbundin fóstureyðing.

En þarna í Kansas væri þú sem sagt ákærður fyrir morð og röksemdin væri að fóstureyðing væri bönnuð í Kansas.

Hvernig myndir þú bregðast við, sérstaklega þegar íslenski lögfræðingurinn sem sendiráðið útvegaði þér myndi fullyrða að líklegast yrði þú dæmdur sýkn, en það væri fyrirfram ekki hægt að segja um niðurstöðu dómsins, sérstaklega þar sem þessi saksóknari fengi yfirleitt sakfellingu í málum sínum, sem reyndar væru vegna ölvunaraksturs, og annarra smáglæpa.

Mér þætti líklegt að þú myndir spyrja nokkurra spurninga.

1. Eru fóstureyðingar skilgreind sem morð í Kansas.  Svarið væri Nei, þær eru bannaðar. Ekkert annað stendur í lögum, ákæran byggist á túlkun á þessum lögum.

2. Neyðaraðgerð mín var ekki fóstureyðing, hvernig er samt hægt að ákæra mig fyrir morð á grundvelli laga um bann við fóstureyðingu??  Svarið væri að það væri mjög auðvelt, það hefði verið gert.

3. Í hvaða lagaákvæði er þá vísað þar sem gjörð mín er bönnuð, og í hvaða lagaákvæði er vísað þar sem svona aðgerð er skilgreind sem morð??  Svarið er, þess þarf ekki, það er dómarans að túlka, og ef hann túlkar þetta sem morð, þá verður þú dæmdur fyrir morð.

4. Hefur dómarinn einhverja lögsögu gagnvart mér??  Já, þú ert á evrópska efnahagssvæðinu, fyrirgefðu Kansas og þar með má handtaka þig ef þú ert talinn hafa brotið lög ríkisins.

5. Hefur dómurinn einhverja réttarheimild til að handtaka mig, ég er íslenskur ríkisborgari og hið meinta afbrot mitt var framið á Íslandi þar sem ekkert að þessu varðar við lög, eða er skilgreint sem morð??? Og þar með kemur besta svarið, Réttarheimild, hvað er það??, lög í Kansas hljóta að gilda um allan heim, Kansas er aðili að USA sem er aðili að Sameinuðu þjóðunum og þar með getur Kansas ríki sett lög sem hljóta gildi hjá öllum löndum sem eru aðili að Sameinuðu þjóðunum.

Hvað myndir þú segja eftir að hafa hlustað á þessi svör Flowell??

Ákæra á glæp sem hvergi er skilgreindur í lögum, niðurstaða háð túlkun dómara og saksóknarinn hefur enga réttarheimild til að ákæra þig því á Íslandi gilda íslensk lög.  Samt segja íslensku lögfræðingarnir þér að þeir vita ekki fyrirfram um niðurstöðuna.  Ekki orð um að ákæran sé brot á öllum leikreglum réttarríkisins.  Hér væri um valdboð að ræða en ekki réttarboð.

Heimurinn hefur aðeins einu sinni séð slíka afskræmingu á reglum réttarríkisins áður, og þá þagði hann líka, hélt meira að segja Ólympíuleika í skugga þess  alræðis sem dæmdi eftir geðþótta, ekki réttarreglum.

ESB hefur ekki réttarheimild til að ákveða ríkisábyrgð fyrir hönd íslenska ríkisins, aðeins Alþingi Íslendinga hefur þá réttarheimild.  Og sú ríkisábyrgð þarf að vera fyrirfram skilgreind, og ná til fyrirfram ákveðinnar upphæðar.  Ríkisábyrgð getur aldrei verið óútfylltur tékki þar sem engin mörk eru á upphæð hennar.

Ríkisábyrgð getur aldrei dæmst út frá túlkun á lagagreinum, þetta fræga obligeison sem ESB vitnar svo í.  

Dómsstóll Evrópusambandsins getur aldrei dæmt ríkisábyrgð á ríki, hann hefur ekki til þess réttarheimild, ekki frekar en dómur í Kansas eða Norður Kóreu.

Neyðarréttur ríkja til að bregðast við ástandi sem þau skilgreina sem neyðarástand  er skýrt viðurkenndur í EES samningnum.  Ekkert utanaðkomandi vald getur metið slíkar aðstæður fyrir sjálfstæð ríki EFTA.

Þú spyrð Flowell af hverju löglærðir menn þegja um hið augljósa og láti eins og einhver vafi sé málinu, þá er svarið mjög einfalt.  Það er ekki vegna þess að bráðasótt heimsku og vanvits yfirtók alla lögfræðinga landsins, þeir þegja að sömu ástæðu og menn þögðu í Þýskalandi á sínum tíma.

Af ótta við kárínur valdsins.

Þess vegna er rangur dómur EFTA dómsins alræðisdómur sem Evrópa sá síðast í þriðja ríki nasismans á sínum tíma.

ICEsave fjárkúgunin er sama eðlis, hún er valdbeiting til að brjóta á bak aftur sjálfstætt ríki, og síðasta sambærilega dæmið í Evrópu var þegar Tékkar voru neyddir til að láta Súdetahéruðin að hendi við Þýskaland  1938.

Sagan er að endurtaka sig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.1.2013 kl. 08:36

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Eggert.

Ég vitnaði nú minnst í stjórnarskrá ESB en það er rangt hjá þér að hún komi okkur ekki við.  Við erum aðilar að evrópska efnahagssvæðinu og hún kemur okkur mjög mikið við.  

EES samningurinn er megin uppspretta nýrra laga á Íslandi í dag.

Þetta snýst ekki um mat, heldur hvað er.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.1.2013 kl. 08:38

16 identicon

Takk fyrir góðar útskýringar, Ómar. Vonum að litla þjóðin okkar nái að standa í lappirnar í þessu leiðindamáli, ef hún er enn standandi þ.e.a.s.

Það er eitt svolítið merkilegt með okkar sérfræðinga, t.d. lögfræðingana og hagfræðingana, þar sem hátt hlutfall mögulegra starfa eru hjá hinu opinbera. Það er afskaplega lítið um varnarorð frá þeim á þessum stórhættulegu tímum vegna hræðslu við hið opinbera, eins og þú nefndir réttilega. Slíkt ætti ekki að líðast í eðlilegu þjóðfélagi. Þ.a. það var kannski ekki við öðru að búast en að enginn myndi láta í sér heyra, þrátt fyrir tilraun mína í fyrri athugasemd minni.

Varðandi vörn okkar í Icesave málinu, voru einhverjar af ofangreindum fimm spurningum hluti af henni?

Flowell (IP-tala skráð) 26.1.2013 kl. 10:23

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Vörnin sem slík var um margt ágæt, svona lagatæknileg.

En ég veit ekki til þess að grundvallarspurningin hafi verið spurð, um réttarheimildina.   En ég byggi á fréttum, sem til dæmis í Mogganum voru ítarlegar, en ég hef ekki lesið sjálfa málsvörnina.

En það er augljóst að tæknileg útfærsluatriði eins og hvað stendur í viðkomandi tilskipun, er ekki rædd, ef réttarheimild er ekki til staðar.  Augljóst samhengi á öllum tímum, nema kannski núna á þessum síðustu og verstu.

Lárus og Stefán impra á þessu í einni grein, en fókusa samt ekki á aðalatriðið, að ESB gat aldrei sett slíkt ákvæði inní reglugerðina.  Sem ESB gerði ekki því reglumeistarar þeirra vissu að þeir höfðu ekki slíka réttarheimild.

En þetta sögðu Stefán og Lárus.

"Getur það staðist að fyrirtæki séu starfrækt víða um heim á ábyrgð íslenska ríkisins án þess að ríkið sjálft hafi nokkuð um það að segja? Auðvitað er það ekki svo. Ábyrgð ríkisins á skuldbindingum annarra getur í meginatriðum orðið til með þrennum hætti; á grundvelli laga, þar sem ábyrgð ríkisins er skýrt sett fram, á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga með heimild í lögum eða með því að ríkið verður bótaskylt vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis á grundvelli sakar.
Síðastnefnda atriðið er það eina sem gæti átt við hér, þ.e. að ríkið hafi látið undir höfuð leggjast að koma á innlánatryggingakerfi í samræmi við tilskipun ESB. Eins og rakið hefur verið hér að framan þá á það ekki við nein rök að styðjast.

Hvað segir tilskipunin?

Ef ætlunin hefði verið að aðildarríkin bæru ábyrgð á því að fjármögnun kerfisins dygði a.m.k. fyrir lágmarksgreiðslu samkvæmt tilskipuninni hefði það að sjálfsögðu átt að koma fram í henni. Þá hefði einnig þurft að koma fram hvaða úrræðum aðildarríkin ættu eða mættu beita til að takmarka þá ábyrgð sem þannig gæti fallið á þau. Ekkert kemur fram í tilskipuninni um þetta. Þvert á móti er sagt að innlánsfyrirtækin fjármagni tryggingakerfið og aðildarríkin beri ekki ábyrgð á innstæðum ef tryggingakerfið hefur verið innleitt og framkvæmt í samræmi við tilskipunina."

Einnig má minna á að LÍ var með fulla tryggingu hjá breska tryggingarsjóðnum, en það atriði virðist líka hafa skolast úr úr málsvörninni.   ESA minnist á þetta en mér vitanlega hefur enginn lögfræðilegur ráðunautur stjórnvalda haldið þessu til haga, en þetta er annað lykilatriði.

Þetta vekur náttúrulega upp spurningar um hinn dýpri tilgang varnarinnar, og að dómurinn verði á einhvern hátt pólitískur á anda þriðja ríkisins.

En eins og ég rek i greininni hér að ofan þá er það vandrataður stígur að feta án þess að um algjöra lögleysu verði að ræða.

Sjáum hvað setur á mánudaginn Flowell, annað hvort er siðmenningin undir eins og var fyrir 80 árum síðan, þegar menn þögðu þar til það var of seint, eða uppgjör við samverkamenn breta, hvorug tveggja krefst aðgerða fólks sem vill vernda líf og framtíð barna sinna.

Hvorugt má líðast ef ekki á illa að fara fyrir þjóðinni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.1.2013 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 446
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 385
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband