Góð Jóhanna.

 

Ekki reyndar fyrir að hækka skuldir heimilanna um 70 milljarða, heldur fyrir það að einu sinni skyldi hún hið öfugsnúna samhengi milli verðtryggingar og lána.

Og þar sem ég er búinn að hrósa Steingrími í dag, þá verð ég líka að hrósa Jóhönnu, sem hefur líka átt sína góðu takta.

 

Í grein sem Jóhanna skrifaði í Morgunblaðið 2. nóvember 1996 komst hún vel að orði og þau orð mega alveg lifa, og vera sögð aftur.  Greinin heitir  Ísland eina landið sem verðtryggir skuldir heimilanna og þar segir Jóhanna meðal annars;

 
RÍKISSTJÓRNIN telur að sívaxandi skuldir heimilanna séu merki um að heimilin eyði um efni fram. Ríkisstjórnin talar minna um að heimilin í landinu eru oft neydd til að taka lán til að eiga til hnífs og skeiðar frá degi til dags og fyrir gluggaumslögunum frá lánastofnunum vegna skulda sem sífellt vefja upp á sig. Ríkisstjórnin talar heldur ekki um hvernig verndarstefnan og ofurtollar í landbúnaði, sem heimilin eiga enga sök á, hafa aukið skuldir heimilanna.
Grænmetisverð eykur skuldir heimilanna.
Stöðugleiki hefur ríkt í efnahagslífinu á undanförnum árum- fyrir tilstuðlan launafólks og verðbólgan verið með því minnsta sem þekkist. Fólkið skilur því ekki hvernig höfuðstóll skuldanna vex sífellt. Er nema von að það skilji ekki ástæðurnar, eins og þegar kartöflur hækkuðu tímabundið í sumar, þá leiddi vísitalan og verðtrygging til þess að skuldir heimilanna jukust um 500 milljónir króna. Hækkun á grænmeti á einu ári, sem mörg heimili hafa ekki efni á að kaupa vegna ofurtolla og verndarstefnu ríkisstjórnarinnar, juku engu að síður skuldir heimilanna um 1300 milljónir króna.
Verðtryggð lán ekki afnumin.
Undirrituð beindi fyrirspurn til viðskiptaráðherra á Alþingi um verðtryggingu lána og skuldir heimilanna. Þar kom margt athyglisvert fram sem kallar á viðbrögð. Meginniðurstaðan er að verðtrygging er ekki á lánum til heimila í löndum OECD, að Íslandi undanskildu. Notkun hennar í öðrum löndum hefur einskorðast við ríkisskuldabréf en þó í mjög litlum mæli. Skuldir heimila í árslok verða 350 milljarðar króna og hafa aukist á þessu ári um 25 milljarða króna. 90% af lánunum eru verðtryggð, en einungis 10% óverðtryggð. Af hálfu stjórnvalda eru engin áform uppi um að takmarka verðtryggingu lána, umfram það sem þegar hefur verið ákveðið.
Staða heimilanna hér og á hinum Norðurlöndunum.
Skuldir heimilanna á hinum Norðurlöndum hafa farið hraðminnkandi frá 1986. Hér á landi hafa þær farið vaxandi á þessum tíma og voru á síðasta ári 125% af ráðstöfunartekjum eða 25% umfram það fé sem heimilin hafa til ráðstöfunar. Gjaldþrot heimilanna hafa vaxið gífurlega. Á árinu 1993 voru þau 414 ­ á árinu 1995 ­ 871 gjaldþrot. Þannig hafa gjaldþrot heimilanna meira en tvöfaldast á 2 árum. Laun og lífskjör eru hér með því lægsta sem þekkist og vinnutími hvað lengstur. Auk þess þurfa íslensk heimili að búa við verðtryggingu á lánaskuldbindingum sínum sem hvergi þekkist innan landa OECD. Því til viðbótar eru bæði raunvextir og nafnvextir mun hærri hér á landi. Þannig voru nafnvextir um 2­3% hærri á Íslandi, en hinum Norðurlöndum í október sl., þó verðbólgan sé svipuð í þessum löndum.
Ríkisstjórnin hefur enga trú á stöðugleikanum.
Stöðugleiki, lítil verðbólga og lengst af jákvæður viðskiptajöfnuður hefur ríkt hérlendis á síðustu misserum. Jafnframt sýna mörg fyrirtæki mikinn hagnað og greiða niður skuldir sínar. Þessi umskipti í efnahags- og atvinnulífi má að langmestu leyti þakka launafólki, en afleiðing þess hefur bitnað á launafólki, með auknum skuldum þeirra og litlum launahækkunum. Allt þetta ætti nú að skapa forsendur til að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna. En allt kemur fyrir ekki. Rökstuðningur ráðherrans í svari við fyrirspurn minni byggist á gamla verðbólguhugsunarhættinum, ­ sem ríkisstjórnin virðist föst í. Hún hefur enga trú á að stöðugleikinn haldist til frambúðar.
Er Ísland öðruvísi?
Það vekur líka athygli í svari ráðherrans að þó stjórnvöld hafi þegar ákveðið að banna verðtryggingu á sparifé landsmanna frá 1. janúar árið 2000 stendur ekki til að banna verðtryggingu útlána umfram það sem þegar hefur verið ákveðið á skammtímalánum. Það mæla bæði efnahagsleg rök og sanngirni með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð á næstu misserum. Við viljum ekki endurtaka leikinn frá 1983 að kippa úr sambandi verðtryggingu launa en ekki lána. Ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að svara af hverju Ísland, sem býr við svipað efnahagsumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við, hafi eitt landa verðtryggingu á lánum til heimilanna. Og það sem verra er. Ætli að viðhalda henni. Því verður að breyta.
 

Bara flott grein, góð spurning hvort Ísland sé nokkuð öðruvísi en önnur siðmenntuð ríki.  Og ég tek heilshugar undir lokaorð hennar.;

"Ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að svara af hverju Ísland, sem býr við svipað efnahagsumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við, hafi eitt landa verðtryggingu á lánum til heimilanna. Og það sem verra er. Ætli að viðhalda henni. Því verður að breyta."

Og segi eins og Jóhanna.

 

Því verður að breyta.

Kveðja að austan.


mbl.is Hið opinbera hækkar verðlag um 5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 453
  • Frá upphafi: 1412815

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 392
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband