20.1.2013 | 14:18
Þegar fjármálamafían yfirtók Andófið.
Hét niðurstaðan Dögun.
Hvernig gat það gerst, hvað þurfti til þess?? Eru spurningar sem ég hef oft spurt mig að.
Vegna þess að í Dögun er mikið af fólki sem strax reis upp til varnar þjóðinni gegn fyrirhuguðum skuldaþrælkun þjóðarinnar sem stjórnmálaelítan samdi um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðeins einörð andstaða þjóðarinnar hefur frestað að gengi eftir. Fólki, sem ekki er hægt að afgreiða sem fávíst eða innantómt, enda er það ekki í Bjartri Framtíð, og það er ekki hægt að saka það um að vita ekki hvað er að gerast alltí kringum okkur þar sem hervirki fjármálamafíunnar blasa allsstaðar við.
Það vildi vel en endar svona, hvað veldur???
Dögunarmenn hafa margar sjálfsréttlætinguna skrifað til að réttlæta stuðning sinn við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir eða snatahlutverk sitt í aðförinni að stjórnarskránni.
Flestar eiga þær það sammerkt að halda hvorki þræði rökhugsunar eða tengingu við raunveruleikann, og skrifaðar af fólki sem heldur að Jóhanna Sigurðardóttir sé í Sjálfstæðisflokknum.
En feisið vakti athygli mína á bloggpistli eftir einn mætasta mann andófsins, Gunnars Skúla Ármannsson læknis, mann sem hefur ötullega unnið að því að kynna samsvaranirnar við óhæfu AGS hér á landi og í öðrum löndum þar sem skítugar krumlur hans hafa komist í að taka samfélög fólks kverkataki. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu reyndi að eyðileggja áratuga uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu á landsbyggðinni, þá var Gunnar ötull í baráttunni gegn því hervirki, "lífið getur verið styttra en ferðin suður" er slagorð sem honum er eignað. Hann er einn af stofnendum Attac á Íslandi og það er ekkert nema gott um hans baráttu að segja.
Þess vegna tel ég að ég sé ekki að ráðast á garðinn lægstan þó ég taki skrif hans fyrir og noti þau sem grunn til að fjalla um rökleysuna sem knýr baráttu Dögunar áfram í dag. Þetta rökleysi er í þágu fjármálamafíunnar og er mesta ógn sem blasir við þjóðinni í dag. Það er svo mikill misskilningur að halda að ógnin felist í óvininum, hann er þekkt stærð. Og honum þarf að verjast, yfirbuga, sigra.
Hin raunverulega ógn felst í þeim sem sundra vörninni og tryggja þannig sigur fjármálamafíunnar.
Pistillinn heitir Það sem er í askana látið... og má lesa um á Eyjunni þar sem Gunnar bloggar reglulega.
Fyrst skal telja Bullið;
"Var í Portúgal um daginn og hitti fólk frá ýmsum löndum. Hef verið á ýmsum fundum í Evrópu og það sem mest er spurt um er nýja stjórnarskráin okkar Íslendinga. Evrópubúum finnst fáranlegt að valdið, Alþingi, skuli hafa eitthvað um stjórnrskrána að segja. Hef þurft að útskýra fyrir þeim ferlið og að hópur þingmanna er að sinna skyldum sínum við auðvaldið og er með öllum ráðum að koma í veg fyrir að ný stjórnarskrá líti dagsins ljós. Stjórnarskrá snýst um það að setja valdinu skorður og því líkar það illa og berst þess vegna gegn þjóð sinni, að sjálfsögðu. Þeir Evrópubúar sem ég hef hitt á fundum mínum eru grænir af öfund út í nýju stjórnarskránna okkar og bíða spenntir eftir niðurtöðu. Ef íslenska þjóðin sigrar þá mun það verða byr í seglin fyrir álíka umbætur á lýðræðislegum réttindum almennings innan Evrópu. Eitt sterkasta ákallið í Evrópu í dag er aukið lýðræði því upplifun flestra er að bankarnir og stórfyrirtækin stjórni öllu en almenningur blæðir.".
Ég ætla ekki að draga í efa að Gunnar hafi hitt fólk sem hafi rætt við hann um stjórnarskrár, en fólk í Evrópu er ekki að berjast við stjórnarskrár sinna landa, þó það yrði talað við milljón manns þá myndi enginn minnast á það. Það er annað sem hrjáir íbúa Evrópu og það er yfirtaka fjármálamafíunnar á þjóðfélögum þeirra. Fólk lítur til Íslands eftir Nei-ið við ICEsave, og tilgangur fjármálamafíunnar með því að siga Dögun á stjórnarskrána er einmitt að koma í veg fyrir að svona Nei berist aftur um Evrópu.
Rökleysan í þessu er svo að hin svokallaða nútímavæðing stjórnarskráarinnar sækir fyrirmyndir til Evrópu, einmitt þar sem hervirki fjármálamafíunnar eru komin lengst. Neyð almennings í Grikklandi er vegna yfirráða fjármálakerfisins yfir stofnunum ESB, og þrátt fyrir hina ítarlegu mannréttindalöggjöf sem kveður á um öll heimsins réttindi fólks í löndum ESB.
Eitt Bull getur ekki verið augljósara þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar.
Kjarninn í sjálfsréttlætingunni kemur síðan fram í þessari klausu;
"Lýðræðisleg réttindi eru mikilvæg og aukið vald almennings skapar réttlæti til framtíðar. Samtímis þurfa að koma til pólitískar hugsjónir og ákvarðanir til að rétta hlut þeirra sem farið hafa halloka.".
Hver getur ekki tekið undir þessi orð, en þessum orðum þarf að fylgja framkvæmdir, annars eru þau innantóm. Og þá framkvæmdir í þágu þeirra hugsjóna sem þau tjá.
Eins og andefni er andstæða þess sem við köllum efni, þá er atlagan að stjórnarskránni algjörlega andstæð innihaldi þessara orða.
Tökum fyrst fyrir vinnubrögðin.
Ofríki meirihlutans gagnvart minnihluta er einn helsti ágalli vestræns lýðræðis og er því verri sem ákvarðanir eru keyrðar í gegn með "minni" meirihluta.
Slíkt ofríki meirihlutans var ein helsta meinsemd áranna fyrir Hrun, og við þekkjum afleiðingarnar þegar aldrei var hlustað, en þjóðin klofin í herðar niður með einstrengilegum ákvörðunum.
Andóf sem gerir það sama hefur glatað siðferðislegri skírskotun sinni. Það er ekkert betra en það sem það gagnrýnir, og þessi eina ástæða er næg til að fordæma allt bröltið með stjórnaskrána.
Síðan ef menn virkilega trúa að þeir berjist fyrri nauðsynlegum breytingum, þá þurfa þeir að afla því fylgis, það sem er samþykkt í ófriði með minnsta mögulega meirihluta er dæmt til að falla þegar pendúll hins þrönga meirihluta sveiflast í hina áttina.
Vinnubrögðin eru því ekki bara siðferðislega röng, þau eru líka heimsk.
Næst er það innihald hinnar nýju stjórnarskrár.
Stjórnarskrá er umgjörð um stjórnskipan landsins og hún er líka grunnplagg um ákveðna samfélagssátt.
Stjórnskipuninni er umbylt án umræðu, og án þess að menn hafi nokkra hugmynd um útkomuna. Það út af fyrir sig gerir ekki vitiborið fólk, ekki nema það hafi hagsmuni af upplausninni sem fylgir í kjölfarið, eða hagsmuni af hinni nýju stjórnskipan.
Hverjir græða á upplausninni??? Fjármálamafían.
Hverjir græða á hinu nýja fyrirkomulagi? Fjármálamafían.
Hið svokallaða beina lýðræði og persónukjör, eins falleg og hugsunin er, nýtist í raunveruleika lífsins fyrst og fremst þeim sem hafa aðgang að fjármagni eða aðgang að öflugum hagsmunasamtökum. Eitthvað sem er veikleiki flokkakerfisins í dag en verður algild regla með hinu nýja kerfi.
Þess vegna hefur beint lýðræði hvergi gengið upp, hagsmunir fárra eiga svo auðvelt með að yfirtaka það.
Samfélagssáttin er síðan rofin.
Það eru skýringar á ójafnvægi í atkvæðum, skýringar sem þarf þá að takast á við á annan hátt, til dæmis með aukinni sjálfsstjórn líkt og tillögur um þriðja stjórnsýslustigið er hugsað að gera. Ef menn hundsa þetta og leggja áherslu á jöfnuð, þá verður sá jöfnuður að gilda á öllum sviðum. Þá taka Reykvíkingar ekki ákvarðanir um nýtingu auðlinda, þeir ráða ekki fiskveiðistjórnarkerfinu á Vestfjarðarmiðum, á Austfjarðarmiðum svo dæmi sé tekið.
Landshlutarnir ráða þá sinni auðlindanotkun og þeir ráða hvað þeir gera við þann gjaldeyri sem auðlindir þeirra skapa. Af hverju ættu þeir að sætta sig við ranga gengisskráningu krónunnar í þágu innflutningshagkerfis Reykjavíkur??? Af hverju ætti sunnlendingar að sætta sig við að orka Þjórsár sé nýtt á höfuðborgarsvæðinu?? Af hverju ætti bóndi sem sætir jöfnuði í aðra áttina og ójöfnuði í hina að sætta sig við smánarverð fyrir land sitt sem tekið er eignarnámi fyrir vegi eða raflínur???
Sá sem rífur samfélagssátt, hvort sem það er í nafni frjálshyggju eða lýðskrums, hann opnar öskju Pandóru sem enginn ræður við.
Þriðja sem ætla að nefna og það sárasta við fall þessa ágæta baráttufólks, er lýðskrumið.
Aðför auðstéttanna undir merkjum frjálshyggjunnar er beintengd við stjórnarskrá þjóðarinnar, alveg litið fram hjá að ólíkar þjóðir, ólík menning, mismunandi stjórnarform hafa sætt sömu kárínum, og það geisar stríð í heiminum í dag þar sem fjármálakerfið er að leggja undir sig samfélög fólks, eyða innviðum þeirra og skuldaþrælka hinn venjulega mann.
Allt sem miður hefur farið í alþjóðvæðingunni, í frelsisvæðingu braskaraviðskiptanna er tengt inní stjórnarskrána, eins og eitthvað orðalag þar beri ábyrgð, eða geti hindrað það sem hefur átt sér stað. Og ekki bara það, ófullkomleiki raunveruleikans, kerfismistök, misrétti, misskipting, fátækt, sukk og svínarí auðmanna, allt þetta er tengt við núverandi stjórnarskrá, og á að lagast ef við fáum nýja.
Fyrir utan þessi þekktu vinnubrögð sem Göbbels gerði að list og kommúnistar beittu óspart í áróðri sínum, þá er þetta svo mikil lítilsvirðing gagnvart vitsmunum fólks, og svo mikil vanvirða gagnvart þeim sem hafa farið hallloka í núverandi kerfi, að nýta sér þjáningar þeirra til að skapa svona múgæsingu gagnvart alls ótengdum hlut og beina væntingum fólks inn í fals valdabröltsins.
Þetta er ámælisverðast í málflutningi Dögunarfólks, mun alvarlegri en samstarfið við þau öfl sem ógna þjóðinni. Því þetta er eiginlega það lægsta af því lægsta. Göbbel á ekki að vera fyrirmynd andófsmanna sem þykjast berjast fyrir bættum heimi.
Ekkert af þessum vinnubrögðum tengjast bættu lýðræði eða lýðræði yfir höfuð.
Síðan má ræða félagsskap Dögunar.
Fyrir hvað standa Þorvaldur Gylfason, Illugi Jökulsson, Guðmundur Andri Thorsson, Eiríkur Bergmann, Hallgrímur Helgason eða Jónas Kristjánsson???
Stuðning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ICEsave fjárkúgun breta.
Fyrir hvað stóð Attac og stendur???
Andstöðu við AGS og ofbeldi fjármagnsins.
Þetta er eitthvað sem er ósamræmanlegt en Dögunarliðar þykjast ekki sjá það. Þeir átta sig ekki á hvað félagsskapurinn segir um þá og trúverðugleik þeirra.
Er líklegt að slíkur trúverðugleiki dugi til að afla flokknum fjöldafylgi fólks sem berst við þessi ógnaröfl?? Svarið er Nei, og í því Nei-i er mikill skaði fólginn fyrir andófið og er aðeins ávinningur fjármálaaflanna. Hverju skilar það baráttunni fyrir betri heimi???
Loks er það brandarinn, brandarinn eini.
"Samtímis þarf að gera grundvallarbreytingar á lánamálum landsmanna. Afnema verður verðtrygginguna og leiðrétta lán þeirra sem veðjuðu ekki á kreppuna. Útrýma verður fátækt hvað sem það kostar og skapa börnum örugg upvaxtarskilyrði".
Hver er það sem ógnar almenningi á Íslandi í dag?? Neitar að leiðrétta lán fólks, ýtir undir misskiptingu og fátækt. Hefur endurreist hið gamla kerfi auðróna.
Svarið er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir sem þjónar fjármálaöflunum dyggilega.
Með hverjum starfar Dögun í stjórnarskráarmálinu??? Hver mótaði vinnubrögð sundrungar og ósamlyndis í þessu annars ágæta máli???
Svarið er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir.
Þingmenn hvaða flokks verja þessa sömu ríkisstjórn falli þegar hennar eigin þingmenn gátu ekki lengur unað samstarfinu við AGS???
Svarið er þingmenn Dögunar.
Enginn er svo vitlaus, enginn þjáist af þvílíku vanviti að sjá ekki þetta samhengi, að þeir sem þykjast vera á móti, að þeir í raun styðja óhæfuna.
Enda mælist Dögun aðeins með um 3% fylgi, og það er líklegast allt komið frá kjarnafylgi gamla Frjálslyndisflokksins.
Til hvers er þá leikurinn gerður, hvað býr undir???
Hvað fjármálaöflin varða þá skiptir það þau miklu máli að andófið nái ekki að mynda sterkt afl sem hindrar yfirtöku vogunarsjóðanna á efnahagslífi landsmanna.
Dögun fellur eins og flís við rass við þau áform.
Það er Dögunarmanna að játa þau tengsl eða gera sér upp hið vanvit sem aldrei hefur verið skilgreint áður í 5.000 ára sögu mannsins.
Þeirra er valið.
En aumt er það val.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.1.2013 kl. 07:00 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 446
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 385
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Aðal ástæðan fyrir lélegri útkomu Dögun í þessum síðustu skoðunarkönnunum má rekja til þeirra þriggja; Margrét, Birgittu og Þór.
Jóhanna Sig. og Steingrímur J. eru þau sem hafa verið að leifa hrægammasjóðum að hrifsa eignir fjölda landsmanna.
Og þegar þau hjúin voru að missa völdin af því að þingmenn Ríkisstjórnarflokkana yfirgáfu flokkana, hver kom þeim JS og SJS til bjargar?
Hreyfinginn; Margrét, Birgitta og Þór.
Og af hverju seldu þremennigarnir sálu sína?
Fyrir stjórnarskrá sem meirihluti landsmanna vill ekert með hafa. Stjórnarskráin er eins og ESB, meiri hluti landsmanna vill ekkert með þau mál gera og það sýnir að Dögun er tóndauf og skilur ekki að fjármál heimilana er meira áríðandi en þessi lélega nýja stjórnarskrá.
Ekki voru þau þremenningarnir í Hreyfingunni að hugsa um erfiðleika heimilina þegar þau seldu sál sína fyrir gylliboð JS og SJS og það gleymist sennilega aldrei.
Meðan að þau þremenningarnir eru meðlimir í Dögun, þá kemur fylgi Dögunar ekki til með að aukast að mínu mati, af því að þremenningarnir lengdu þjáningar heimilana um rúmt ár.
Kveðja frá Saudi Arabíu.
Jóhann Kristinsson, 20.1.2013 kl. 16:04
Skeleggur bistill Ómar, kveðja frá Noregi.
Magnús Sigurðsson, 20.1.2013 kl. 17:49
Takk fyrir innlitið félagar.
Jóhann, við skulum vona það þjóðarinnar vegna að það sér málflutningur Dögunar sem fær ekki hljómgrunn, Dögun hefur ekki gert neinn ágreining við þingmenn sína.
Þetta er svo aumt allt saman að það hálfa væri nóg.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.1.2013 kl. 18:34
Því miður þá hefur þú rétt fyrir Ómar, ekki síst hvað varðar sundrunguna.
En hvers vegna nýtur þessi nýja stjórnarskrá ekki meiri stuðnings en raun ber vitni?
Hvað er í þessum stjórnarskrárdrögum sem fólk getur ekki sameinast um?
Og ekki síst. Hvað vantar í drögin sem fólk gæti sameinast um?
Ég held að stjórnlagaráðsfulltrúarnir mættu að spyrja sig þessara spurninga. það krefst að vísu smá auðmýktar svo það er alveg óvist að þeir geti það.
Toni (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 19:28
Það er ein spurning sem mér vitanlega hefur ekki verið fram borin varðandi stjórnarskrármálið.
Hefur meirihluti fólks yfir höfuð eitthvað við stjórnarskrána aðathuga þannig að það þurfi að umbilta henni?
Í aðdraganda fyrstu stjórnarskrár kosningana las ég stjórnarskrána og gat með engu móti séð að hún hefði eitthvað með hrunið að gera og það sem mest væri aðkallandi á Íslandi.
Stjórnarskráin í mínum huga á að vernda rétt borgarana gagnvart ríkisvaldinu. Ég hef ekki séð að ný stjórnaskrár drög geri það betur en núverandi stjórnarskrá nema síður sé.
Magnús Sigurðsson, 20.1.2013 kl. 19:56
Rétt hjá þér Magnús, það hefði alveg mátt byrja á því að spyrja hvort breyta þyrfti núverandi stjórnarskrá og þá t.d. hvort það mætti bæta einhverju við hana.
Stjórnarskráin ætti að mínu mati að verja rétt hins almenna borgara gagnvart öllu valdi, þ.m.t. peningavaldinu, en því er ekki til að dreifa í stjórnarskrárdrögum stjórnlagaráðsliða. Enda ekki við slíku að búast í stjórnarskrá Þorvaldar Gylfasonar IMF manns og Vilhjálms Þorsteinssonar gjaldmiðla spákaupmanns.
Toni (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 20:28
Því miður kemst hnífurinn ekki á milli ríkisvalds og peningavalds, þegar svo ber undir var það kallað fasismi á árum áður. En því má einnig líkja við skipulega glæpastarfsemi ganvart almenningi.
Magnús Sigurðsson, 20.1.2013 kl. 21:10
Spurningin hjá þér Toni í #4 er auðvitað mjög aðkallandi þ.e.a.s. hvað er það í stjórnarskrárdrögunum sem menn geta ekki sameinast um?
Fyrir mitt leyti þá hef ég með tímanum þróað með mér tortryggni gagnvart öllu ferlinu. Mér líður eins og að stjórnarskrár málinu hafi verið rænt af ESB sinnum sem reyna að nýta sér andófs- eða búsáhaldakraftana til þess að ná fram breytingum til þess að undirstinga pólitísk markmið.
Ég held að besta leiðin til þess að sjá hver eru raunveruleg markmið flokkana í stjórnarskrármálinu, væri sú að leyfa þeim öllum að velja sér tvö ákvæði sem þeir myndu vilja breyta. Ég er nokkuð viss um að þá kæmu hinir raunverulegu drifkraftar á bakvið ferlið í ljós.
Úr því sem komið er þá væri ég til í að sjá menn sameinast um að setja örfá atkvæði í þjóðaratkvæði. Ef einhver þeirra næðu í gegn þá myndi það sýna okkur öllum að við getum breytt stjórnarskránni ef við viljum. Í því væri í sjálfu sér nokkur ávinningur að mínu mati.
Seiken (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 21:36
Takk fyrir innlitið og umræðuna félagar.
Vil aðeins benda á að stjórnarskrá er valdatæki þeirra sem eiga, og höfðu efni á að fá stjórnmálamenn til að breyta leikreglum þannig að siðlaust varð löglegt.
Svo þegar almenningur ætlar að sækja rétt sinn, þá vísa þeir í stjórnarskrána, og nota hana sem skálkaskjól til að verja rán sitt og rupl.
Stjórnarskrá á að kveða á um stjórnskipan, grunnmannréttindi, og búið.
Restin er í venjulegum lögum, og lögum sem geta aldrei verið rétthærri en almannahagur. Átakalínur eru svo í pólitíkinni, ekki í samfélagssáttinni.
En þetta er mitt mat, og ef mér er svo mikið í mun að þetta sjónarmið verði ofaná, þá finn ég að framgangi þess með rökum og umræðu, ekki með ofríki valdahópa gegn almenningi eins og núverandi ferli er.
Þjóðin greiddi ekki atkvæði um stjórnarskrána, þetta var stuðningshópur ríkisstjórnarinnar að greiða atkvæði um ESB, og sá fjöldi sem mætti, þriðjungur þjóðarinnar, mætti vegna samstillts smölunarátaks fjölmiðla Jóns Ásgeirs og Ruv.
Stjórnarskrá!!!, hún hefur aldrei verið í miðdepli þess sem gerðist. Nema hugsanlega hjá örfáum einstaklingum sem tengjast Dögun.
Og af hverju þeir hugsa svona mikið um stjórnarskrána, getur aðeins fær sálfræðingur skorið úr um.
Þetta er duld sem á sér einhverjar djúpar skýringar í fortíð viðkomandi einstaklinga, líklegast hafa þeir séð aðeins of margar myndir í æsku þar sem fólk stóð alltí einu upp og sór eið að bandarísku stjórnarskránni.
Minning sem hefur setið eftir í undirmeðvitundinni og braust síðan fram við hrunið.
En mér er alveg sama, það þarf að verjast vogunarsjóðunum, og það þarf að verjast ICEsave 4.
Og verðtryggingin er barnaníð af verstu gerð, hana þarf að afnema.
Bið að heilsa ykkur félagar, og góða nótt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.1.2013 kl. 22:42
"Og verðtryggingin er barnaníð af verstu gerð" Ómar mér varð verulega óglatt af þessum samanburði og hef ég lesið margt ógeðfelt. Sem fínn penni og í mörgu hægt að vera sammála þér í því sem þú hefur skrifað í gegnum tíðina þá verð ég að segja hér hefur þú gert þig ómartækan.
Rannveig H, 21.1.2013 kl. 09:23
Ómarktækan.
Rannveig H, 21.1.2013 kl. 09:25
Ómarktækan
Rannveig H, 21.1.2013 kl. 10:28
Verðtryggingin er fjármálaníð. Ræðst að fólki sem hefur ekki vald til þess að verja sig. Verðtryggingin er núna m.a. notuð til þess að fylla á sjóði launþega sem útrásarvíkingarnir stálu úr. Fjármagn sem finnst m.a á aflandseyjum. Í stað þess að opinbera hvað gekk á í lífeyrissjóðunum og láta þá sem bera ábyrgð taka pokann er nýðst á barnafjölskyldum. Kannski mætti kalla þetta barnafjölskyldunýð. En eins og kunnugt er þá er búið að gera kynslóð barnafjölskyldna að öreigum. Það liggur fyrir í opinberum gögnum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.1.2013 kl. 10:49
Blessuð Rannveig.
Það versta við klámvæðinguna, af mörgu slæmu, er gengisfelling tungumálsins, það er eins og fólk ráði ekki lengur við algeng orð nema tengja þau við eitthvað neðan mittis.
Ég reikna með hin meintu hörðu viðbrögð þín, og ég skal útskýra fyrir þér á eftir afhverju þau eru tilbúin, stafi af því að þú rugli orðinu barnaníð við kynferðislega misnotkun á börnum, sem er alvarlegt barnaníð en aðeins eitt níð af mörgu sem hægt er að gera börnum.
Níð er fornt orð yfir ákveðna gjörð, og af því orði er sögnin að níðast á dregin af, og lýsir gjörð sem inniheldur níð. Menn voru farnir að skrifa um barnaníð löngu áður en menn leiddu hugann af alverleika þess að misnota börn á kynferðislegan hátt. Í bók sinn Karamazov bræður tekur Fyodor Dostoyevsky nokkur dæmi, og ekki þau verstu, úr samtímaskýrslum, um illa meðferð á börnum. Það er hrollköld lesning, og út frá þeim dæmum lét hann söguhetju sína efast um eðli skaparans, svona gjörðir væru það illar að aðeins illskan gæti útskýrt þær.
En þessar sögur voru raunverulegar sögur um mjög alvarlegt barnaníð, og þó kom orðið kyn ekki fyrir í þeim.
Þegar menn lesa um óhugnaðinn sem átti sér stað undir yfirskyni vísindanna í útrýmingarbúðum Þjóðverja í seinna stríði, þá á ég við meintar tilraunir á fólki, segi meintar því þetta var hreinræktaður sadismi án nokkurs tilgangs, þá lesa menn meðal annars um tilraunir á börnum sem er líklegast versta gerð af barnaníði sem ég hef lesið um því það var svo mikill kuldi á bak við mannvonskuna. En hugtakið kynferðisleg misnotkun kom ekki við sögu. Hefur örugglega átt sér stað, en það gerðist bara annað svo miklu verra.
Og það er þannig Rannveig að það er hægt að gera börnum meira illt en misnota þau kynferðislega þó ég sé ekki að draga á neinn hátt úr alvarleik þess.
En kynferðisleg misnotkun á börnum er því fyrst níð ef hún útilokar að það sé ekki hægt að fjalla um annað níð sem beinist gegn börnum.
Sú aðferðarfræði að þrælka skuldara og selja síðan ofan af þeim ef þrælkunin dugar ekki til á rætur sínar að rekja til harðneskju Rómverja hinna forna sem litu á þrælahald og vonda meðferð á fólki sem sjálfsagðan hlut. Þeir voru líka mjög umburðarlyndir gagnvart kynferðislegri misnotkun svona til að halda því til haga sem telja ekkert níð nema það sé kynferðislegt.
Mannvonska, mannhatur er siðferðisleg undirstaða þessa kerfis, andstæða hennar er svo sú sem við lærðum í æsku, "svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldanautum".
Það er níð að þrælka fólk og svipta það heimilum sínum, kjölfestu fjölskyldunnar, athvarfið sem það verndar og elur upp hið nýja líf sem er eini raunverulegi tilgangur okkar sem lífveru.
Að ráðast á þetta athvarf, að brjóta það niður, er níð af verstu gerð, það vegur að forsendum lífsins. Eitthvað sem allir skilja nema siðferðislega brenglað fólk og nánasir af verstu gerð.
Börnin eru síðan fórnarlömb þessarar harðneskju, þau eru svipt heimilum sínum, svipt athvarfinu, sett á gaddinn vegna gjörða sem þau bera enga ábyrgð á. Það er það sem fólk gleymir alltaf þegar er gerð aðför að heimilum skuldara, að sú gjörð beinist af fleirum en skuldurunum, saklausir, og sakleysið sem okkur ber skyldu til að verja, eru fórnarlömb þeirrar gjörðar.
Það er níðst á þeim sem enga ábyrgð bera og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Og þegar börn eiga í hlut, þá er slíkt níð barnaníð.
Það þarf ekki mikla rökhugsun til að átta sig á þessari rökfærslu Rannveig, maður þarf aðeins að vera siðaður, að vita hvað má gera og hvað má ekki gera.
Víkjum síðan af ógleði þinni, að sú fullyrðing að verðtryggingin sé slíkt níð af verstu gerð.
Rökin eru ákaflega einföld. Verðtryggingin er mannanna verk sem hrekur fólk skipulega af heimilum sínum. Hún býr til og eykur við skuldir á krepputímum þegar einmitt skiptir máli að heimili fólks séu vernduð, að lífið sem við ólum fái tækifæri að komast á legg. Án þess að vera forsmáð og hætt, hrakið á vergang tilbúinna skulda.
Ef menn efast um tilvist þess í neðra, þá nægir að benda á verðtrygginguna sem sönnun þess að hann lifir góðu lífi. Hún er ekki brenglun eða sjúkleiki eins og það sem knýr kynferðisbrotamanninn áfram. Hún er tæki kaldrifjaðra manna sem taka gróða fram yfir líf, og telja sig mega gera hvað sem er til að fullnægja gróðafíkn sinni.
Fólk gat notað það sem afsökun að það vissi ekki, en það veit í dag, það veit um hermdarverk hennar og eyðingaráhrif hennar á samfélagið og efnahagslífið.
Og alveg eins og við líðum ekki lengur hina fornkveðnu kynferðislega misnotkun á börnum, og við líðum ekki útburð kornabarna, þá líðum við ekki lengur útburð barna af heimilum sínum undir yfirskini skuldauppgjörs.
Það er rangt, og þegar það er einu sinni búið að benda á það, þá er afstaða okkar til þeirrar staðreyndar mælikvarði á siðferðisvitund okkar.
Ég vona að þú lítir ekki í spegil Rannveig, svona af umhyggju fyrir ógleði þinni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.1.2013 kl. 10:59
Og þá skulum við taka fyrir hina meintu hneykslun þína Rannveig.
Stundum held ég að fólk sem gengur erinda fjármálamafíunnar haldi að hjólið hafi verið fundið upp svo það geti fundið það upp aftur.
Ég veit ekki hvað margir sem hafa vomað yfir blogginu hjá mér, hvínandi af bræði yfir því sem ég segi, en þora ekki fyrir sitt litla líf að mæta mér á vígvelli rökræðunnar, grípa svo eitthvað á loft og koma svo inn með þeirri aðferðafræði sem þú gerir Rannveig.
Það er ekkert af því að hnjóta um orðalag, rökfærslu eða myndrænni líkingu, og spyrja um skýringar, eða benda á það sem fólk er ekki sátt um. Oftar verið gert en tala er á í athugasemdum þessa bloggkerfis því hér er ekki bloggað út frá hefðbundinni hugsun hérans. Ég hef alltaf gefið mér tíma til að útskýra hvað að baki býr og athugasemdarkerfið er alltaf opið þeim sem vilja tjá sig um sama hlut á annan hátt, eða allt annan hátt. Gagnkvæm kurteisi og mannasiðir heitir þetta í umræðunni.
En svo er það aðferðafræði þess sem er fæddur í gær, og heldur að allir aðrir eigi sér sama fæðingardag, að fæðast í gær.
Hann byrjar bömmið sitt alltaf á því að hrósa fyrir eitthvað sem á að vera svakalega gott í fortíð, las sér til gagns og ánægju, og ég veit ekki hvað og hvað, stöðugt álag á háræðarnar að lesa lofmælið. Og svo kemur Núna, ég er svo hneykslaður, ómarktækur, les aldrei aftur..
Eins og mér sé ekki alveg nákvæmlega sama.
Ég hef það fyrir reglu að lesa ekki þann sem mér finnst ómarktækur, eða leiðinlegur, eða þann sem hefur ekkert að segja. Og ég hef meiri sjálfsvirðingu en það að ganga hér um netheima, bjóða mér í heimsókn og setja persónulega út á húsráðendur. Þetta kallast að kunna sig.
Ef mér finnst ólyktin það mikil að mér verður óglatt, þá yfirgef ég húsið um leið og ég get, og forðast það í framtíðinni.
Þetta er hinn alvarlegi rökveill hjá fólki sem telur sig vera gera málstað sínum gagn með svona innkomu. Bæði afhjúpar það sína eigin dýpt, og þá skort á henni, sem og það afhjúpar rökskortinn.
Það þorir ekki í rökræðuna. Og hefur ekki vit á að þegja.
Dögun er enginn greiði gerður með afskiptum þínum Rannveig.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.1.2013 kl. 11:43
Blessuð Jakobína.
Verðtryggingin er Níð með stóru Enni og núna þegar hún vegur að sjálfri tilveru samfélagsins, þá á hún að njóta þess sannmælis að vera lýst eins og hún er.
Og skynheilagt fólk á ekki að komast upp með hneykslun sína þegar ljótleiki kerfis þess er orðaður á nákvæmlega þann hátt sem hann er.
Þessi hneykslun hinna skinheilögu viðhélt þögguninni í mörg mörg ár varðandi þann ljótleika sem kynferðisleg misnotkun er. Menn máttu ekki orða svona ljótt um góðborgarana.
Það er heimsendir í nánd Jakobína. Gamli heimurinn sem villimennska og siðleysi skóp, mun falla, því forsendur hans ganga ekki upp.
Skuldaþrælkunin, fjármálaníðið, aðför fjármálamafíunnar að samfélögum fólks, þetta leiðir til átaka og sundrungar sem krefst þess að hinn siðaði maður grípi inní. Það er ekkert val eftir að vopn hættu að vera vopn, og urðu að gjöreyðingarvopnum.
Það er okkar að tryggja að þegar gamli heimurinn hrynur, að nýr og betri heimur taki við, heimur þar sem lífið á framtíð.
Elsti hluti heila okkar, kenndur við skriðdýrið, mótaði hinn gamla heim.
Öll þróun heilans í milljónir ára, þegar við breyttumst úr skriðdýri í spendýr, úr spendýri í píramída, úr píramída í mannapa, úr mannapa í steinaldarmann, úr steinaldarmann í nútímamann, hefur skilað okkur skynsemi, tilfinningum, samkennd, samúð, rökhugsun.
En hið frumstæða, skriðdýraheilinn hefur alltaf stjórnað. Mótað heiminn eftir sínu höfði. Siðmenningin er tilraun þróunarinnar til að vinna bug á hinu frumstæða, villimennsku þess og ófullkomleika.
Hápunktur þessa átaka var uppgjörið við nasismans sem lauk með sigri lífsins, með sigri siðmenningarinnar.
Átökin núna við frjálshyggjuna er lokaátökin, þau eru átök milli skriðdýrsins og mannsins, milli lífs og dauða.
Hinn siðaði maður lifir af þau átök, hið tæknivædda skriðdýr er endastöð þróunarinnar, það hefur ekki vit á að viðhalda sér sem tegund.
Kjarni baráttunnar er því uppgjör hins venjulega manns hvort hann telur sig eðlu eða siðmenntaðan mann.
Tungumálið er tæki hins siðmenntaða manns til að takast á við hið tæknivædda skriðdýr, sem þekkir ekki muninn á réttu og röngu, því það heili þess er ófær að nema forsendur slíks mats, hvað þá að kunna að meta slíkar forsendur eða draga réttar ályktanir til að geta metið hið rétta frá röngu.
Tungumálið notum við til að orða staðreyndir eins og þær eru og treystum svo á að örheilinn sem kenndur er við skriðdýrið, láti undan gjöfum skaparans, heila hins vitiborna, homo sapiens.
Tungumálið er vopn okkar gegn fjármálaníðungunum, gegn frjálshyggjunni, gegn óvininum eina.
Þess vegna tjái ég mig með orðum, ekki vopnum.
Alveg eins og þú Jakobína.
Og við munum sigra.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.1.2013 kl. 12:21
Ég var einmitt að hugsa um þetta Ómar. Var t.d. að velta fyrir mér hvernig orðið skítapakk var mótað og hversu gagnlegt að er nú við þessar samfélagsaðstæður.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.1.2013 kl. 16:36
Sæll Ómar,
takk fyrir að greina bloggið mitt. Vonandi verður gagnsemi Dögunar meiri en þú telur í augnablikinu. Verum bjartsýn því það er forsenda framfara. Ég hef hingað til talið mig samherja þinn og vonandi mun svo vera um framtíð. Í raun er ekki hægt að skrifa söguna fyrr en hún er yfirstaðin.
kær kveðja
GSA
Gunnar Skúli Ármannsson, 21.1.2013 kl. 19:08
Nei Gunnar, samherjar mínir starfa ekki með óvininum, aldrei, án undantekninga. Það er sótt af sjálfri mennskunni um allan heim, og sjálf siðmenningin er í húfi.
Og þetta er ekki spurning um að skrá söguna, hún hefur þegar verið skráð. Norðmenn gerðu það þegar þeir réttuðu yfir Hamsun.
Samstarf við ógnaröfl, þó það sé undir yfirskyni þess að vinna land og þjóð gagn, er samstarf við ógnaröfl, ekki vinna í þágu lands og þjóðar.
Það er óþarfi að skrá þá sögu aftur.
Ég spurði hinsvegar;
Og hef ekki ennþá fengið svör við því.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.1.2013 kl. 20:01
Blessuð Jakobína.
Það er margt sem kemur upp í huga minn þegar ég íhuga það orð.
Mikið af þessu liði sem við glímum við er svo vitlaust að það veit ekki hvað það er að gera, slíkur er máttur innrætingar græðginnar.
En erfiðast á ég með að þola liðið sem svipar til prestsins í Heimsljósi, sem fékk sér kleinu og hélt svo ræðu um dyggðir fátækra.
Nútímaútgáfan er fólkið með sælusvip sem digrir eftirlaunasjóðir veita, talar um óöldina og skilur ekkert í að fólki skuli ekki vilja sátt og samlyndi, sátt um rán og rupl, auðróna og verðtryggingar.
Þá hugsa ég um skítapakk, en um leið hugsa ég um lýsingar fortíðar á slíku fólki, sbr upprifjunin á hinum skinheilaga presti sem fann ekki til með sínum minni bróður.
Ég hugsa líka um persónur Dickens, eins og Fagin eða Skrögg, eða rifja upp lýsingar á fátækrahælum Englands á 19. öldinni. Hugsa svo um nútímaútgáfu Íslands í dag, skuldaaðlögunina eða hvað sem þessi mannvonska heitir.
Tungumálið á hafsjó af sögum sem við upplifum í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.1.2013 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.