17.1.2013 | 09:32
O Brother, Where Art Thou
Er dásamleg kvikmynd um ferðina að draumnum.
Erfiðleikana sem þarf að yfirstíga, raunveruleikann sem menn þurfa að sætta sig við, aðstæður sem þarf að spila úr, vináttu, togstreitu, von og óbilandi trú um að menn komist á leiðarenda.
Hún byrjar á flótta þriggja manna úr fangabúðum valdsins í einhverjum útnára Suðurríkjanna. Þeir eru festir við keðju og þurfa því að halda hópinn. Þegar þeir losna úr fjötrunum þá er þeir bundnir ósýnilegum böndum hins sameiginlega draums að komast á enda regnbogans þar sem mikill fjársjóður á að vera grafinn í jörðu. Hefst þá mikið ferðalag þar sem svik, mikill söngur og samheldni koma við sögu.
Upphafalega var það valdið sem tengdi þá saman óviljuga, síðan náðu þeir saman um draum, og að leiðarlokum voru það bönd vináttunnar, sem tíminn hafði ofið um sálu þeirra, sem tengdi þá saman, viljuga.
"Both" er orðið sem kom uppí huga mér í gærkveldi þegar ég frétti af endalokum Samstöðu. "Both" er kveikja þessa pistils.
Þetta orð er komið úr O Brother, Where Art Thou, og er mælt þegar átakapólarnir tveir á sitt hvorum enda keðjunnar, vildu halda í sitt hvora áttina, og þar sem þeir gátu ekki leyst deilu sína með átökum, eðli málsins vegna, þá var sá þriðji látinn skera úr. Hann var rólegur, jákvæður og hinum stríðandi pólum fannst hann hálfgerður einfeldningur. Biðluðu báðir til hans, vissir um að hann myndi fylgja sér, ekki hinum.
En hann fylgdi báðum, svar hans var "Both".
Sem er augljóst mál þegar menn eru tengdir saman við eina keðju.
Menn fara ekki í sitthvora áttina, menn fara sömu leið, menn fara þá leið sem liggur til frelsis.
Það er deilt í dag í Samstöðu og báðir aðilar hafa rétt fyrir sér.
Flokkur sem hefur ekki náð að virkja fjöldann er dæmdur til að deyja, og málstaðnum, sem fékk fólk upphaflega til að vinna saman, er enginn greiði gerður að þeir einstaklingar sem bera alla vinnuna á herðum sínum, koðni niður í vonlausri baráttu við að fara hina hefðbundnu leið framboðs þegar enginn vill starfa, þegar enginn vill bjóða sig fram.
Augljóst mál, þarf ekki að deila um.
Og það útskýrir punktinn yfir I-ið sem var samþykktur á félagsfundi Samstöðu.
Kallast raunsæi eftir margar marbletti við að berja hausinn við stein í þeirri von að steinninn brotni.
Hópurinn sem gekk út, vildi halda áfram baráttunni, hefur líka rétt fyrir sér.
Því þegar lífið sjálft, líf þjóðar okkar, líf barna okkar er í húfi, þá er seinna ekki valkostur.
Það er staðreynd, sem aðeins þeir sem eiga hagsmuna að gæta rífast um, að verðtryggingin er efnahagslegt gjöreyðingarvopn sem mun ganga frá þjóðinni ef hún er ekki tekin úr sambandi. Baráttan við hana, eina og sér, krefst þess að fólk standi saman, og vinni af afnámi hennar ásamt leiðréttingu á þeirri gífurlegu eignartilfærslu sem hún hefur þegar valdið.
En hún er ekki lífsháskinn sem blasir við þjóðinni, lífsháskinn er yfirtaka vogunarsjóðanna á efnahagslífinu eftir kosningar í gegnum eignarhald þeirra á bönkunum ásamt því að þeir munu flytja gífurlega fjármuni úr landi og eftir stendur strípuð þjóð án nokkurs möguleika að halda uppi nútíma þjóðfélagi, hvort sem það er varðandi bein lífskjör eða velferð eða heilsugæslu.
Þegar hagfræðingur sem jafnframt er þingmaður Sjálfstæðisflokksins mælir þessi orð;
"Lífskjör myndu versna eftir því. Í mínum huga er sú leið algjörlega ófær. Hún myndi leiða til efnahagslegrar gjöreyðingar og fólksflótta. Þetta eru stór orð en því miður sönn. ",.
og bætir síðan við að sú leið sem flokkur hans, og þar með hann sjálfur hafi lagt til, virki ekki vegna þeirra upphæða sem munu leita úr landi, að þá ekki lengur hægt að loka augunum fyrir þeirri ógn sem blasir við.
Fjármagnið ætlar að gera út af við þjóðina, og þá flýja menn ekki.
Og þegar það er ljóst að svipað á sér stað í Evrópu, að nú þegar eru sum lönd álfunnar orðin að neyðarsvæðum af mannavöldum, og það er aðeins byrjunin, þá er ljóst, að jafnvel þeir sem kjósa að flýja, að þeir geta ekkert flúið. Óreiðan mun alltaf soga til sín fleiri og fleiri lönd, og líkt og svartholið mun hún gleypa allt að lokum.
Sú ógn sem blasir við okkur er sama ógnin og blasir við útí Evrópu, ógnarvaldurinn er sá sami.
Menn geta stungið höfðinu í sandinn og muldrað, "ekki ég, ekki ég", eða beitt sig sjálfsblekkingu og fullyrt að það muni ekkert gerast, að þetta sé aðeins enn ein kreppan sem muni leysast eftir smá erfileika og aðhald.
En svo er ekki, stríðið fyrir tilveru hins venjulega manns er hafið.
"Þetta er barátta fyrir framtíð þjóðar" og sú barátta er ekki háð í málfundafélögum.
Svarið er Bæði, því við erum öll tengd í keðju lífsins og getum ekki haldið í sitthvora áttina.
Og ólíkt keðjunni sem flóttamennirnir voru tengdir með, er ekki hægt að rjúfa keðju lífsins.
Ekki ef maður á börn, ekki ef maður á líf sem þarf að vernda.
Við getum ekki flúið baráttuna en við getum valið hvort við viljum eiga von um að vinna hana, eða tapa henni fyrirfram.
Það er okkar eina val, annað er ekki í boði.
Og það er aðeins ein leið, aðeins ein leið til sigur, Aðferðarfræði lífsins undir merkjum Hreyfingar lífsins.
Því lífið er það eina sem sameinar okkur, allt annað sem við höfum er einstaklingsbundið.
Á næstu dögum þarf fólk að gera upp við sig hvað það vill, það eru kosningar eftir nokkrar vikur.
Staðan í dag í skoðanakönnunum er 98-2 fyrir ógnaröflin, yfirtaka vogunarsjóðanna er fyrirsjáanleg.
En ekki óumflýjanleg, ekki ef Stund sannleikans rennur upp fyrir fólki.
Og um þá stund mun ég fjalla um í næsta pistli, og ljúka þar með skyldu minni gagnvart Samstöðunni um lífið.
Síðan er það fólks að ákveða hvað það gerir.
Baráttan heldur alltaf áfram, hvort sem hún er í liði með voninni eða á vergangi sundrungarinnar.
Menn berjast fyrir lífinu óháð því hvað náunginn kýs að gera.
Því manndómurinn kemur innan frá, ekki utan.
Og getur ekki bent á aðra.
Ekki notað aðra sem afsökun fyrir sínum eigin skorti.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 649
- Sl. sólarhring: 749
- Sl. viku: 6233
- Frá upphafi: 1400172
Annað
- Innlit í dag: 592
- Innlit sl. viku: 5356
- Gestir í dag: 563
- IP-tölur í dag: 551
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.