Þetta er barátta um framtíð þjóðar.

 

Einfaldara er ekki hægt að orða kjarna þeirrar baráttu sem þjóðin á við ógnaröfl hins skítuga fjármagns og mun enda í algjörum yfirráðum vogunarsjóða yfir efnahag landsins og þar með þjóðfélaginu öllu.

Kjarni sem fólk á ennþá mjög erfitt að átta sig á, og ennþá erfiðara að skilja að sú barátta er töpuð ef það sjálft stígur ekki fram.

Í pistli mínum Upprisan tók ég þeim grunnþáttum sem þurfa að vera til staðar ef fólk ætlar að eiga von í þessu stríði, við þessi ógnaröfl mannvonsku og mannhaturs sem víla ekkert fyrir sér í taumlausri gróðafíkn. 

Ég ætla að endurtaka  lokakafla þess pistils, og ítreka, það er engin önnur leið.  Ekki fyrir þá sem eiga líf sem þarf að vernda.

 

Við erum að tala um sjálfa Upprisu mannsins, þegar hinn venjulegi maður rís á fætur og tekur örlög sín í eigin hendur.  Hættir að vera leiksoppur höfðingja, siðspillts fjármagns, siðblindra manna.

 

Upprisa mannsins í víðustu merkingu á sér stað þegar hann stígur næsta skref siðmenningarinnar og hættir að líta á dráp sem valkost í deilum.  Um þá upprisu hef ég skrifað áður og ætla ekki að endurtaka hér, ef reynt er að stíga of stórt skref mun klofið klofna og fóturinn því strax dreginn til baka. 

Upprisan gegn vogunarsjóðunum, gegn valdinu sem þeir hafa keypt, gegn fólkinu sem seldi okkur í  þrældóm skuldanna, er upprisan sem þessi pistill fjallar um.

 

Hvaða skilyrði þurfa vera til staðar, og eru ekki þegar nefnd, til að fólk rísi upp, og rísi upp saman svo afl þess verði valdinu yfirsterkara??

Svarið er ákaflega einfalt, því eftir því hefur verið leitað áður.  Og það þótti nógu merkilegt til að vera skráð niður í bók sem er ennþá lesin.

Það er svarið sem ríki maðurinn fékk á sínum tíma.

"Eins er þér vant; far þú og sel allar eigur þínar og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni; kom síðan og fylg mér.".

En þetta var ekki svarið sem ríki maðurinn vildi heyra, það er sagt að hann hefði orðið dapur og farið sína leið, hann vildi himnasæluna en vildi ekki fórna eigum sínum fyrir hana.

 

Það sama gildir um manninn sem rís upp.  Ef hann vill virkilega í hjarta sínum verja framtíð barna sinna, þá setur hann ekki skilyrðin, hann verður að sætta sig við þau skilyrði sem baráttan krefst af honum.  Annars getur hann látið ógert að spyrja.

Hann getur ekki bent á aðra, hann getur ekki notað skálkaskjól, að hann vilji en það sé svo mikið í húfi að hann geri ekki.  Hann verður að sætta sig við að það gerir þetta enginn annar fyrri hann.

Hann verður sætta sig við staðreyndir, hætta að rífast við þær, hætta að halda fram sínum skoðunum gangi þær gegn raunveruleikanum.

Hann á í stríði og hann verður að sætta sig við lögmál stríðsrekstrar.  Líklegast er þetta það sem fólk á erfiðast með að sætta sig við.  Að það þurfi að standa saman, að það þurfi að gera það sem þarf að gera, það þarf að lúta forystu, og það þarf að lúta aga.  "Mér finnst", "ég held", "ég tel" eru ekki gild orð lengur, heldur "hvað þarf að gera", "hvað get ég gert","hvernig get ég hjálpað".

Og átta sig á þessari einföldu staðreynd sem ég benti á í pistli mínum um skæruliðann.

 Í stríði gilda einföld lögmál, þú berst við óvininn þar sem hann er veikastur, með þeim tækjum og tólum sem þú hefur yfir að ráða. Þú myndar bandalag við óvini óvinar þíns, alveg óháð fyrri ágreiningi við þann sama óvin óvinarins þíns, og þú herjar á þá sem starfa með óvini þínum, alveg óháð því hvort þú hafir áður átt samleið með þessum vini óvinar þíns. Þeir sem skilja þetta ekki, þeir tapa stríðum.

Þetta skildi Churchil, þess vegna var Hitler gjörsigraður, bandamenn lögðu til hliðar allan sinn ágreining á meðan stríðinu stóð.

Og hann skildi líka annað lykilatriði, þú semur ekki við illskuna, þú semur aldrei, eða átt aldrei neitt samstarf við fólk sem ætlar sér að skuldaþrælka börnin þín.  Þú getur sýnt því miskunn þegar það er sigrað, en þú sýnir enga miskunn í stríðinu.  Við illskuna er aldrei samið, hún heldur aldrei neina samninga, hún semur því aðeins ef hún stendur höllum fæti og þarf að kaupa sér tíma.

Eitthvað sem Hagsmunasamtök heimilanna áttuðu sig ekki á haustið 2010 þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var komin upp að vegg, og hefði ekki lifað af ef einbeitt forysta hefði leitt andóf fólksins.

 

Það er sagt að það sé auðveldara fyrir úlfalda að ganga í gegnum  nálarauga en fyrir venjulegan mann að sætta sig við svarið við þessari spurningu.

Ég ætla því ekki að ræða þetta mál neitt frekar, hef aðeins svarað þeirri spurningu hvað hægt er að gera eftir að Liljur Vallarins fölnuðu.

Það þjónar engum tilgangi að ræða þessa spurningu frekar því þetta er eina svarið sem þeir sem spyrja vilja ekki heyra.  Almennt sér vilja þeir heyra hvað þeirra menn eru góðir en hinir eru vondir.  Og ef þeirra menn lenda óvart í þeirri stöðu að vera vondu karlarnir, þá er því alltaf sýndur skilningur og umburðarlyndi.  

Menn kjósa sinn flokk þó hann stefni þeim í glötun.

 

Eini tilgangurinn við að skrifa svona pistil er að til sé svar fyrir leitandi fólk sem vill ekki aftur og aftur gera sömu mistökin, þegar það áttar sig á að allt það sem það hélt og taldi, að það gekk ekki upp.

Það myndaðist ekki neitt afl á móti valdinu, vogunarsjóðirnir tóku yfir þjóðfélagið.  Þeir eru líka lúmskir og munu draga til baka sínar ýtrustu kröfur.  Eins munu þeir ekki rífa þjóðina á hol í fyrstu atlögu, hún mjólkar betur í hægt kyrkjandi hengingaról vaxta og verðtryggingar, með ríkisfjármál sem smán saman standa ekki undir útgjöldum velferðarinnar.

Jafnvel eftir kosningarnar þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar tekur við, þá mun einhverju verða lofað, eitthvað útspil með verðtrygginguna, einhverjar hömlur á gjaldeyrisútstreyminu.

Svo smá saman versnar ástandið, það þarf að gera þetta og hitt, skera niður hér, einkavæða þar.

 

Vogunarsjóðirnir eru nefnilega ekki nein fífl, þeir kunna sitt starf.

Við erum heldur ekkert fífl, en Upprisan gerir of miklar kröfur til okkar.  Hugsanlega verður það þessi næsti og næsti sem breyta einhverju að lokum.  

En það er langlíklegast að öfgar mæti öfgunum, að hatur spretti upp af kúgun.

 

Það verður ekki gott þjóðfélag sem kemur út úr þeirri baráttu, ekki fallegt á neinn hátt.

En það er þannig þegar fallega fólkið kýs flóttann, afneitunina, telur sig ekki hafa styrk til að rísa upp.  Eða það telur skotgrafir lífsins það skítugar og óhreinar að það sé ekki þess að standa þar vaktina.

Ég veit það ekki, ég veit að fallega fólkið er þarna úti í ómældu magni, en ekki mjög sýnilegt.  Ekki í stríðinu við amerísku vogunarsjóðina.  

 

En fallegt fólk er forsenda fallegs þjóðfélags.

Þessi pistill er ekki ákall til þess, aðeins samin til að láta vita að ég veit að það er til.

Maður skilur ekki mat eftir á stein handa huldufólki ef maður trúir ekki á tilveru þeirra.  Það hef ég heyrt sagt eftir ömmu minni.  Sem var falleg kona, falleg manneskja.

 

Við sjáumst í Byltingu lífsins.  

Innan um Liljur Vallarins, með Valkyrjum Vallarins sem fóstra von lífsins.

 

Því lífið mun lifa af.

Galdur lífsins mun sjá til þess.

Upprisa mannsins mun sjá til þess.

 

Einn daginn, einn daginn.

 

 

Ef við nennum ekki að hugleiða þetta þá munum við aldrei gera það sem þarf að gera til að brjóta ægivald vogunarsjóðanna á bak aftur. 

Vegna þess að aðeins eitt afl sameinaðar andstöðu mun brjóta niður múra valdsins, og þess þarf, valdið mun ekki semja, það mun ekki gefa eftir verðtrygginguna eða vernda þjóðina gegn kröfu vogunarsjóðanna um að fá að fara með snjóhengjuna úr landi með því að breyta froðu í beinharðan gjaldeyri.

 

Sundruð gerum við það aldrei.

 

Kveðja að austan.


mbl.is Framtíð Samstöðu verði ákveðin á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að stofna stjórnmálasamtök á Íslandi er ekki gamanmál því það þarf að finna það marga hugsjónamenn sem eru tilbúnir að fórna sér og sínum fjármunum til að koma slíku afli á koppinn þannig að árangur sé í kortunum. Íslenska þjóðin meirihlutin vill óbreytt ástand svo það er ekkert óeðlilegt við það að örfáir einstaklingar hugsi sig vel um áður en þeir kasti sér í djúpu laugina. Mér finnst það virðingarvert að þetta fólk í Samstöðu lagði af stað með ekkert í höndunum nema von í hjarta að þjóðin væri að kalla eftir breytingum sem er meira en þeir gera sem ekkert gera. 

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 22:09

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Mikið er ég þarna sammála þér Baldvin.

Þetta er gott fólk, mjög gott fólk, hef hitt það veit hvað ég er að segja.

Og ég veit líka að slíkt fólk er út um allt.  En það nær ekki saman um þá hugsun að á neyðartímum standa menn saman í vörn fyrir framtíð þjóðarinnar um það sem máli skiptir, og það leggur áherslu á það sem sameinar, ekki sundrar.

Og það er aldrei valkostur að starfa með óvininum, hans samstarf er aðeins ein leið að algjörum sigri hans.

Fyrirsögnin orðar kjarna málsins mjög vel, þú orðar líka ákveðna staðreynd mjög vel.

"Mér finnst það virðingarvert að þetta fólk í Samstöðu lagði af stað með ekkert í höndunum nema von í hjarta að þjóðin væri að kalla eftir breytingum sem er meira en þeir gera sem ekkert gera.  "

Takk fyrir Baldvin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2013 kl. 22:19

3 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Þetta kemur Ómar minn !

Guðni Karl Harðarson, 17.1.2013 kl. 01:23

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er of seint að þetta komi í næsta lífi Guðni.

Útrýmingarbúðir þjóðarinnar blasa við eftir næstu kosningar.  

Og ef ég kann söguna rétt þá voru útrýmingarbúðir ekki góðar búðir, þó fólk hefði næga vinnu.

Vissulega lifðu sumir af, en grindhoraðir, sviptir allri reisn.

Það er endalaust hægt að tala Guðni, en nú er tími talsins, tími málfunda, tími umræðunnar, liðinn.

Óvinurinn hefur blásið í herlúðra sína og þá þarf að verjast.  

Menn ráða hvort þeir verjast standandi, liggjandi, á hnjánum, saman eða sundraðir, en menn verjast.

Menn verjast ekki á flótta, ekki með því að starfa með óvininum, eða lúta stjórn fólks sem starfar með óvininum.

"Ég hélt að það væri á móti hinum löglega þjófnaði sem kallast verðtrygging.  Að það væri á móti hinni gífurlegu eignartilfærslu sem hefur átt sér stað í skjóli hennar.

Að það væri á móti því að blóð þjóðarinnar hefði verið notað til að fita fjármálapúkana sem eru nú þegar orðnir feitari en púkinn á fjósabitanum.

Einnig hélt ég að það hefði annan metnað fyrir hönd barna sinna en að láta þau þræla í arðránsnámum amerísku vogunarsjóðanna."

Þessi orð lét ég falla í pistli í gær, þau draga upp stöðuna.  

Þeir sem skilja þetta þeir vita að þeir eiga í höggi við það svarta af öllu hinum svarta, sjálfa illskuna holdi klædda.  

Hinn venjulegi maður er að berjast fyrir frelsi sínu, og núna í eitt skipti fyrir öll.

Og sú barátta er núna, ekki seinna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.1.2013 kl. 08:04

5 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ég þarf að senda þér póst

Guðni Karl Harðarson, 17.1.2013 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 4185
  • Frá upphafi: 1338884

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 3749
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband