15.1.2013 | 13:42
Betrun samfélagsins.
Það er óhætt að segja að Thelma Ásdísardóttir er sá einstaki einstaklingur sem mest áhrif hefur haft á íslenskt nútímaþjóðfélag.
Þegar hún steig fram og sagði sögu sína án þess að draga nokkuð undan, og án þess að skammast sín fyrir það sem henni var gert, þá gerðist eitthvað hjá þjóðinni.
Þá skildi fólk alltí einu að það var margt sem hafði ekki verið í lagi, og var ekki í lagi hjá þjóðinni.
Níðingarnir áttu ekki bara heima úti, þeir voru meðal okkar, og þöggunin og skömmin sem samfélagið umlukti fórnarlömb níðinganna, þetta voru ekki sögur úr fjarlægum tímum, frá fjarlægum löndum, þetta var Ísland í dag, ekki einangrað, ekki einstakt, heldur raunveruleiki hjá fjöldamörgum börnum og fjöldamörgum fullorðnum, sem voru að glíma við afleiðingar óhæfuverkanna árum og áratugum saman, í þögn og jafnvel í í skömm.
Vissulega voru þessi mál í umræðunni og þjóðin var oft reið, en eftir Thelmu var hún ekki söm.
Það gerðist eitthvað, þjóðin reyndi að bæta sig, að hjálpa, að bregðast við, að þegja ekki.
"Við ákváðum ekki að verða sofandi samfélag" segir forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðar.
Og óhætt er að segja að samfélagið hafi tekið svipaða ákvörðun og reynt að betra sig. Það ætlar ekki að líða þessi brot, og það ætlar að reyna að hjálpa.
Það er ekki það sama og ástandið sé orðið gott í dag, en það er á réttri leið.
Og ekki bara í sambandi við kynferðisbrot, einelti, ofsóknir, ofbeldi, þetta er ekki liðið eins og var.
Það er verið að reyna að takast á við þessa hluti.
Af alvöru og af heilindum hjá fullt af fólki um allt land. Hjá fólkinu í kerfinu, hjá fólkinu í skólunum, á heimilunum, út um allt samfélagið.
En það er ekki það sama og ástandið sé orðið gott, það tekur tíma að breyta, tíma að læra ný vinnubrögð, og rétt vinnubrögð, þau sem virka, bæði fyrirbyggjandi sem og þau sem takast á við vanda þegar hann kemur upp.
Líklegast er mesti sigurinn að sektin er ekki lengur hjá þolendum heldur gerandanum, og hjá þeim sem hafa ekki brugðist við þegar þeir áttu að bregðast við, þögðu eða litu í hina áttina, gerðu ekki sína skyldu.
En betur má ef duga skal.
Af hverju er ekki sett upp hjálparmiðstöð sem fær öll nauðsynleg fjárframlög frá hinu opinbera, líknarsamtökum, fyrirtækju, einstaklingum og öðrum sem láta sig málið varða, og þessi hjálparmiðstöð bíður öllum fórnarlömbum, sem eru lifandi á Íslandi í dag, alla þá nauðsynlega hjálp og aðstoð, sem þau telja sig þurfa til að ná aftur tökum á lífi sínu.
Mikið af þessu fólki er hvort sem er viðloðandi heilbrigðiskerfið því afleiðingar níðsins leita út í allskonar sjúkdóma, vanlíðan, heilsuleysi, heilsubresti, sem fólk leitar sér hjálpar við án þess að það sé tekið á grunnmeininu. Fyrir þá sem virða engin rök önnur en fjárhagsleg, þá benda á að svona hjálp sparar þjóðfélaginu pening til lengri tíma, og eykur tekjur þess því bætt heilsa skilar sér í auknu vinnuframlagi.
Af hverju eru Stígamót ekki með ríflegan fjárstuðning frá hinu opinbera til að geta sinnt öllum þeim sem þangað leitað á þann hátt sem þau telja bestan. Stígamót eru engu minni líknarsamtök en Rauði krossinn eða Hjálparsamtök kirkjunnar. Þau brugðu við þegar aðrir brugðust.
Af hverju eru fórnarlömb kynferðisbrotamanna ekki kortlögð og boðin hjálp og "meðferð" að fyrra bragði. Kynferðisbrot eru oft vítahringur sem eiga sér rætur langt aftur í tímann, fórnarlamb í dag getur orðið gerandi á morgun. Öll þekkjum við þessa góðu sögu Milenium sem var að benda á slík tengsl, að löngu dáið skrímsli gæti stýrt atburðum dagsins í dag.
Það er ekkert samasem merki þarna á milli en það eru tengsl, tengsl sem hægt er að rekja, og rjúfa.
Og þar með er komið að mesta tabúi umræðunnar, af hverju er hefnd og reiði látin stjórna umræðunni???? Refsa, hegna, gelda, gera líf afbrotamannanna af algjöru helvíti.
Réttlætingin er að þeir hafa gert líf annarra af algjöru helvíti. Hið hundheiðna viðhorf Gamla Testamentisins í sinni tærustu mynd. Að launa illt með illu, að vera verri en sá sem var vondur.
Að fordæma ekki verknaðinn heldur gerandann. Að viðhalda vítahring illskunnar út í hið óendanlega því illskan finnur sér alltaf farveg. Eða allt þar til hún mætir kærleik, við honum á illskan ekkert svar.
Mig langar að vitna í viðtal við Gunnar Hansson, eitt fórnarlamba Karls Vignis, en því viðtali gaf ein af Valkyrjum vallarins að þar færi ein af perlum lífsins.
"Gunnar hefur áhyggjur af því að samfélagið komist ekki nógu langt í að takast á við umræðu af þessu tagi. Það þarf að fara í grunninn á þessu, hvernig við getum tekist á við þetta. Það fer rosalega mikil orka í reiðina sem blossar upp, í því að kalla þessa menn skrímsli eða að þeir séu af hinu illa. Aftur segi ég að ég skil þessi viðbrögð, en ég hræðist þau líka. Ég sé veika einstaklinga sem þarf að koma af þessari braut," segir Gunnar. Fyrst og fremst þurfi þó að vernda börnin. Ég er ekki með neina töfralausn, en ég vona að við náum að komast í einhverja átt fyrir börnin til þess að koma í veg fyrir að svona lagað komi fyrir aftur. Við þurfum að láta okkur aðeins renna reiðin og skoða þessi mál af yfirvegun," segir Gunnar. Þetta eru svo hrikaleg og erfið mál að við þurfum að komast eitthvað lengra, eitthvað áfram" bætir hann við.
Ég er ekkert rosalega refsiglaður. Mér er miklu meira í mun að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur," segir hann. Það þurfi að taka á málum gagnvart þolendum. Að þeir þori að koma fram með hluti sem þessa og þeim verði hjálpað," segir hann. Einnig að tekið verði á málum gerenda. Þá er ég ekki að meina að það eigi að hengja þá upp á torgum. Í mínum augum eru þetta bara sjúkir einstaklingar sem þarf að takast á við. Við erum samfélag og við þurfum að takast á við það," segir Gunnar að lokum.".
Þetta eru sjúkir einstaklingar og siðað samfélag hjálpar sjúkum einstaklingum.
Aðeins þannig náum við tökum á vandanum, aðeins þannig náum við að rjúfa vítahringinn.
Siðað samfélag verndar líka börnin sín, það hlusta á þau, og það hlustar á foreldra þeirra þegar þeir vekja máls á níði, hvort sem það er kynferðislegt, einelti, misbeiting, eða það sem er útbreiddasta barnaníðið í dag, óttast að börnin fái ekki að sofa í rúmum sínum því rukkari verðtryggingarinnar ætlar að bera þau út á gaddinn.
Það er nefnilega meira barnaníð en það sem er kynferðislegt.
Alvarlegasta barnaníðið er að svipta börn heimilum sínum vegna tilbúinna tækja manna eins og verðtryggingar, eða vegna ólöglegrar gengistryggingar.
Að koma börnum og heimilum landsins ekki til hjálpar eftir fjármálahamfarir er mesta smán í ellefu hundruð ára sögu landsins. Áður fór fólk á vergang vegna fátæktar, og vegna samfélagsgerðar liðinna alda. Í dag er vergangurinn stjórnvaldaðgerð, og slík stjórnvaldsaðgerð er því mesta níð Íslandssögunnar.
Og við sem þjóð þegjum.
Kveðja að austan.
Barnaníðingur versti stimpillinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 557
- Sl. sólarhring: 644
- Sl. viku: 6288
- Frá upphafi: 1399456
Annað
- Innlit í dag: 475
- Innlit sl. viku: 5330
- Gestir í dag: 436
- IP-tölur í dag: 429
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Faðir minn var sendur á Breiðuvík fyrir að stela þegar hann var 10 eða 11 ára gamall. Hann var þar í nokkur ár og hefur hann aldrei borið þess bætur. Ég var 11 ára þegar hann gafst upp á baslinu og yfirgaf fjölskyldu sína. Við vorum þrjú systkinin á aldrinum 7 til 11 ára. Og ég veit að þetta voru þung skref fyrir hann því ekkert elskaði hann meira en börnin sín. En þegar hann var sendur í vistina á Breiðuvík voru örlög hans ákvörðuð. Hann átti engan möguleika eftir það að lifa eðlilegu lífi, að vera faðir barnanna sinna, að vera þeim skjól og klettur eins allir feður vilja vera. Ég man ennþá þegar hann fór og hvernig hann bara hvarf úr lífi okkar þrátt fyrir að hann byggi í sömu borg og við. Það var síðan fyrir tilviljun eina að ég fékk vitneskju um að hann hefði verið vistaður á Breiðuvík þegar hann var aðeins lítill drengur og að eitthvað hræðilegt hafði komið fyrir hann í þeirri vist. Hvað það var vissi ég ekki fyrr enn nokkrum árum síðar þegar fjallað var um vistheimilið á Breiðuvík. Ég grét í margar vikur eftir kastljósþáttinn og það kemur enn fyrir að ég gráti vegna þjáninganna sem lagðar voru á föður minn.
Faðir minn fæddist hæfileikaríkur, gáfaður, sterkur og góður maður. Líf hans var eyðilagt, hann var rændur framtíð sinni, hamingju sinni og afkomendum sínum af kerfi sem níðist á þeim sem ekki geta varið sig. Og þegar kerfið er neytt til að horfast í augu við hvað það hefur gert, snýr það sér undan og reynir að varpa sök sinni og ábyrgð á aðra, eins og t.d. samfélagið.
Þjáningin sem kerfið lagði á föður minn og önnur börn sem vistuð voru á þessum myrkrastofnunum er ævilöng og hún flyst frá einni kynslóð til þeirrar næstu.
Og kerfið hefur ekki breyst eins og þú bendir á Ómar. „Alvarlegasta barnaníðið er að svipta börn heimilum sínum vegna tilbúinna tækja manna eins og verðtryggingar, eða vegna ólöglegrar gengistryggingar.
Að koma börnum og heimilum landsins ekki til hjálpar eftir fjármálahamfarir er mesta smán í ellefu hundruð ára sögu landsins. Áður fór fólk á vergang vegna fátæktar, og vegna samfélagsgerðar liðinna alda. Í dag er vergangurinn stjórnvaldaðgerð, og slík stjórnvaldsaðgerð er því mesta níð Íslandssögunnar.“
Toni (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 21:27
Að lifa með því að hafa verið misnotaður í æsku er hroði sem enginn ætti að þurfa að lifa með nokkurn tíma! Sérstaklega í ljósi þess að þolendur flestir gera sér ekki grein fyrir því hvers vegna þeir eru með skerta sjáfsmynd og innbyggða hræðslu gagnvart lífinu og öllu sem það hefur upp á að bjóða!
Sigurður Haraldsson, 15.1.2013 kl. 22:31
Og við sem þjóð þegjum Toni, það er það alvarlegast.
Á einhverjum tímapunkti verðum við að horfast í augun á sjálfum okkur og hætta að kenna alltaf einhverju öðru um, kerfinu, stjórnmálamönnum, auðmönnum.
Það er við sem látum þetta viðgangast, það erum við sem öxlum ekki ábyrgð á þeim hörmungum sem samfélagið hefur gert lítilmagnanum, biðjumst kannski seint og illa afsökunar, en neitum um réttlæti, neitum um yfirbót.
Og það er ekki stjórnmálamönnunum að kenna að heimilum landsins er ekki komið til hjálpar, það er sundurlyndi okkar og vanþroski sem skýrir það.
Það á ekki að duga að kasta beini út í móa og segja, "Snati, gríptu" til að vörn þjóðarinnar tvístrist.
Mig svíður af frásögn þinni Toni, meir en þig grunar. Dagsdaglega er ég ánægður með tilveru mína en á svona stundum líður mér illa yfir vanmætti mínum til að geta breytt einhverju.
Ég hef einu sinni reynt að blogga vel, til að orða hlutina svo aðrir skyldu, til að það hefði áhrif á einhverja, að ef einhverjir læsu, að þá væri þeim ekki sama á eftir. Teldu að þetta væri ekki rétt, að það yrði að sýna sóma.
Það var bloggið mitt eftir að ég frétti að fráfalli eins Breiðavíkurdrengsins.
Mér tókst kannski ekki vel upp, en ekki illa, allavega ekki mjög illa þó ég segi sjálfur frá. En það las þetta náttúrulega enginn, hafði engin áhrif. Einhver óþekktur hreyfir ekki við svona málum.
En ég reyndi þó, í einlægni.
Þessi pistill hér að ofan er lítt breyttur frá pistli 10.01 sem hét Samfélag í betrun, og var svar mitt við umræðunni um hina svokölluðu smán samfélagsins. Undirliggjandi var síðan málefni þeirra Agnarsbarna sem lentu svo illa út úr Kumbaravogsdvölinni, vildi fá tækifæri til að vekja athygli á þeim harmleik.
Þetta urðu 4 pistlar, sá síðasti hét Hver er harmur þessa fólks, slóðin
http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1276583/
og þar fékk ég viðbrögð. Þá í átt til þöggunar en um leið upplýsingar að kerfið lítur algjörlega framhjá ábyrgð sinni á þjófnaðinum á arfi þeirra systkina. Það er bara mál milli þeirra og Kristjáns, milli Golíats og hinna smæstu.
Kerfið fjarlægir þau af heimili sínu, neitar þeim um að umgangast móður sína og fjölskyldu, gerir óskyldan aðila, á vegum kerfisins að fjárhaldsmanni, og lætur hann komast upp með að ræna þau.
Getur ein þjóð lagst lægra en að láta þetta viðgangast??
Ég held ekki og mér ofbýður þögnin.
Er öllum sama eða er fólk hrætt við eitthvað???
Ég vona að það verði eitthvað framhald á þessari umfjöllun og núna taki fjölmiðlar við sér. Jafnvel að Ögmundur grípi inní og fyrirskipi rannsókn, bæði á þessum þjófnaði sem og þögguninni á hinum meintu morðum í Daníelsslippi.
Ef þetta er látið kjurt liggja, þá er svona mál, eins og krabbameinsæxli sem dreifir sig um þjóðarlíkamann. Samdaunninn nær alltaf til stærri og stærri mála.
Þú mælir siðferði þjóða á því hvað menn gera sínum minnstu bræðrum.
Á árum áður sá kannski fólk þetta ekki, þess vegna eigum við harmleiki eins og Breiðuvík og Kumbaravog.
En við vitum betur í dag og við þurfum að gera upp við fortíðina, að sættast við hana.
Takk Toni, ég er snortinn af innslagi þínu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.1.2013 kl. 23:09
Takk Sigurður, ég er mikið sammála þér.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.1.2013 kl. 23:09
Zuddalega vel zkrifaður piztill, & athugazemdir í líkum máta...
Steingrímur Helgason, 16.1.2013 kl. 00:32
Sammála Zteingrímur....
GB (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 09:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.