Hver er harmur þessa fólks??

 

Að það var ekki níðst á því??

Að það var ekki látið sæta vinnuþrælkun??

Að arfur þess var ekki stolinn??

Æska þess eyðilögð??

 

Það er ofsalega auðvelt að afgreiða einelti í skóla með því að tala við þau börn sem sættu ekki einelti??

Það er auðvelt fyrir kaþólsku kirkjuna að afgreiða ásakanir um níð og níðingsskap í skóla hennar með því að tala við allt það fólk sem var ánægt, svo ánægt að það sendi sín börn í skólann þegar þar að kom.

 

Hvenær ætlar fólk að átta sig á takmörkun svona fullyrðinga???

Það verður ekki sátt um Kumbaravog fyrr en heiðarleg opin rannsókn fer fram á þeim ásökunum sem fram hafa komið og það sé gengið þannig frá skýrslunni að þeir sem telja sig hafa sætt miska, séu sáttir við niðurstöður rannsóknarinnar.

Það er engin sátt ef bara er talað við ánægðu börnin.

Ekki frekar en kirkjan gat ekki afgreitt málefni Ólafs Skúlasonar með því að tala bara við þær ótal konur sem voru sáttar við prestskap hans.

Það eru þeir sem telja á sér brotið sem þurfa að ganga sáttir frá borði rannsóknarnefndarinnar, ekki hinir sem voru sáttir fyrir.

 

Og það er tími til kominn að fólk átti sig á því.

Kveðja að austan.


mbl.is Harma umfjöllun um Kumbaravog
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mofi

Þetta er nú frekar að þau vilja að rödd þeirra heyrist varðandi þeirra fósturforeldra sem þeim þykir vænt um og vilja koma þeim til varnar gagnvart ásökunum sem þau telja vera rangar.

Mofi, 11.1.2013 kl. 19:12

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Þá taka þau undir réttláta heiðarlega rannsókn á öllum þeim ásökunum sem hafa komið fram.

Þau taka ekki þátt í þöggun eins og þau gera með þessari yfirlýsingu.

Þau sem ásaka, eru ekki að halda því fram að þessir einstaklingar hafi sætt harðræði, heldur þau eða nánir ættingja þeirra.

Og það er það sem þarf að fá á hreynt, og bæta úr ef satt reynist.

Ásakanir þurfa ekki að vera sannar, en það gerir sér enginn upp sálarneyð.

Það er kjarni málsins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2013 kl. 19:51

3 Smámynd: Mofi

Fyrsta setningin er að þau fagna rannsókninni; hljómar ekki eins og þöggun.

Mofi, 11.1.2013 kl. 19:55

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Ekki gera þér upp ólæsi Mosi, þá leiðir umræða aldrei til neins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2013 kl. 22:29

5 Smámynd: Mofi

Þau sögðu:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/11/harma_umfjollun_um_kumbaravog/
Við fögnum því að skelfileg brotasaga Karls Vignis Þorsteinssonar sé dregin fram í dagsljósið og sæti nú rannsókn lögreglu.

Þau vilja rannsókn á þessu og umfjöllun. Ert það kannski þú sem vilt ekki rannsókn eða umfjöllun?  

Síðan endilega reyndu að forðast svona tvölfaldar neitanir, gerir þín skrif mjög torskilin.

Mofi, 11.1.2013 kl. 22:46

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Mofi, það þarf töluverða hæfni í ólæsi til að lesa orðið Kumbaravogur úr nafninu Karl Vignir Þorsteinsson.  Svona með fullri virðingu þá er ekki hægt að misskilja efnisatriði fréttarinnar eða um hvað þetta blogg fjallar.

Yfirlýsing snýr af því að hafna ásökun á hendur ákveðnum aðilum en með þeim rökum að þau fagna annarri rannsókn, sem tengist aðeins hinum meintum ásökunum en er annars um kynferðisbrot Karls Vignis, ekki um hið meinta harræði, vanhæfni við að bregðast við kynferðislegri misnoktun, vinnuþrælkun, illa meðferð, sálarmorð, þjófnað og fleira.

Í bloggi mínu bendi ég á rökvillu þessarar yfirlýsingar, viðkomandi fólk hefur ekki forsendur til að meta hvort eitthvað hefur miður farið. Það veit reyndar ekkert um málið, það eina sem það veit er að það sjálft fékk ágæta meðferð og á góðar minningar frá Kumbaravogi.  

Og ef það er rétt, þá ættu þau fagna ítarlegri heiðarlegri rannsókn á málefnum Kumbaravogs, og á hvaða stoðum þessar meintu ásakanir eru byggðar.  

En þau fagna ekki slíkri rannsókn, þau fagna annarri rannsókn.

Og til að hindra rannsókn á hinum meintu ásökunum, þá beita þau þekktu bragði þöggunar, að segja, "þetta fólk var gott við mig".  Sem segir ekki neitt.

Ég bendi á, án þess að fara ítarlega í þær staðreyndir, að þetta var gert bæði þegar ásakanirnar á hendur Ólafi biskup komu uppá, sem og þegar Landkotsskólamálið kom upp.  Í bæðum tilvikum steig fram fólk sem sagði, "ég hef ekkert annað en gott um þetta að segja", eins og það hafi ekki lesið söguna um Öskubusku, það töluðu ekki allir illa um stjúpuna, ekki dætur hennar.

Við vitum síðan hvað kom í ljós í rannsóknum á þessum málum.

Og fólk á að læra á því.

Svo þú gerir ekki sömu dómgreindarmistökin og þessir einstaklingar og vitna í kattarþvott  vistheimilanefndar, að þá ætti mál Karls Vignis að segja allt um hin alvöru afglöp þeirrar nefndar.  

Maðurinn fékk að halda áfram, og þetta er eiginlega fyrsta fólkið sem ætti að biðjast opinberar afsökunar.

Í bloggi mínu er ég ekki að fara fram á slíka afsökun, ég er ekki að kveða upp dóma á þessu stigi málsins, ég bendi aðeins réttilega á rökvillurnar, og að sálarneyð verður ekki til að sjálfu sér.  

Menn eiga að vera búnir að læra það eftir uppljóstrunina um Breiðavík, þetta voru ekki aumingjar, þetta voru ekki lúserar, þetta voru menn sem voru eyðilagðir í æsku, og samfélagið bar ábyrgðina.

Það kom eitthvað alvarlegt fyrir þessa krakka á Kumbaravogi, og það á að fá botn í málið.

Og það er ótrúlegt að kristin manneskja skuli ekki skilja það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.1.2013 kl. 00:11

7 Smámynd: Mofi

Ómar
Yfirlýsing snýr af því að hafna ásökun á hendur ákveðnum aðilum en með þeim rökum að þau fagna annarri rannsókn, sem tengist aðeins hinum meintum ásökunum en er annars um kynferðisbrot Karls Vignis, ekki um hið meinta harræði, vanhæfni við að bregðast við kynferðislegri misnotkun, vinnuþrælkun, illa meðferð, sálarmorð, þjófnað og fleira.

Umfjöllunin í Kastljósi var um afbrot Vignirs en í þeirri umfjöllun komu ærumeiðandi ummæli um forstöðuhjónin og þetta eru fósturbörn þeirra og þau eru þarna að koma þeim til varnar.  Ef að einhver ásakar foreldra þína um slæma hluti, er þá ekki skiljanlegt að þú viljir koma þeim til varnar?

Það er síðan búið að rannsaka hvað gerðist á Kumbaravogi, það var gerð skýrsla og tekin viðtöl við ótal aðila sem voru þarna. Þetta kom vel fram í Kastljósi. Í þessari yfirlýsingu þá er heldur ekkert verið að reyna að þagga neitt niður eða verið að segja að það ætti ekki að rannsaka mál Kumbaravogs enn frekar.

Ómar
Í bloggi mínu bendi ég á rökvillu þessarar yfirlýsingar, viðkomandi fólk hefur ekki forsendur til að meta hvort eitthvað hefur miður farið. Það veit reyndar ekkert um málið, það eina sem það veit er að það sjálft fékk ágæta meðferð og á góðar minningar frá Kumbaravogi. 

Þetta eru krakkar sem ólust upp á Kumbaravogi og þú heldur að þau viti ekkert um málið?  Lestu síðan fréttina aftur, það var gerð ýtarleg skýrsla um þetta mál og þau lásu hana og vísa í hana?  Hérna ert þú sem hvorki ólst þarna upp né last þessa skýrslu að tjá þig um þetta mál en kvartar yfir því að þetta fólk sem ólst þarna upp og kölluðu þessa fósturforeldra sína, mömmu og pabba, að þau tjái sig.  Þú vonandi sérð að það er eitthvað að þessari hegðun þinni.

Ómar
Það kom eitthvað alvarlegt fyrir þessa krakka á Kumbaravogi, og það á að fá botn í málið.

Og það er ótrúlegt að kristin manneskja skuli ekki skilja það.

Ég er ekkert á móti því að þetta sé rannsakað enn meira og veit ekki betur en þessi hópur þarna væri alveg hlynntur því.

Mofi, 12.1.2013 kl. 16:29

8 Smámynd: Elísa Elíasdóttir

Það er athyglisvert að Róbert Haraldsson sem skrifar undir yfirlýinguna er bróðir Maríu. En hún er einmitt búin að vera mest í sviðsljósinu og er ein þeirra tveggja kvenna sem fóru með földu myndavélina.

Elísa Elíasdóttir, 12.1.2013 kl. 20:45

9 identicon

Ég vill hér koma framm athugasemdum sem eru að börnin: Erna, María, Jóhanna og Elvar byggja fullyrðingar sínar um Kumbaravogsheimilið ekki einumgis á eigin upplifun á vist sinni á Kumbaravogi heldur og á skýrslum fengnum á Þjóðskjalasafni og Borgarskjalasafni, en skýrslunnar sýna frammá rangfærslur og beinar lygar forstöðumannsins Kristjáns Friðbertssonar um börn, foreldri, hæfi forstöðumannins sjálfs, hlutverk hans, fjármagnsþörf o.s.frv. Þá vill ég hér vekja sérstaka athygli á að allsherjarnefnd Alþingis sá sérstaka ástæðu til að grípa inní störf Vistheimilanefndar og kvað þar skýrt að börn vistuð að Kumbaravogi á árabilinu 1965-´74, hafi verið beytt vinnuþrælkun og hafi verið beitt kynferðisofbeldi.

Ragnar Kristján Agnarsson (IP-tala skráð) 12.1.2013 kl. 22:32

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Ragnar, ég veit það.

Mofi, í tengslum við mál Karl Vignis, hefur aftur blossað upp umræða um það sem gerðist á Kumbaraheimilinu.  

Þar voru vistuð börn sem var níðst á, þau sættu harðræði, þeim var meinað að hitta nána ættingja, og það var stolinn af þeim arfur.

Fyrir þessu hafa börnin fært rök sem hefur ekki verið svarað á málefnalegan og vitsmunalegan hátt, það sem hefur verið sagt á móti stenst ekki efnislega skoðun staðreynda.

Þessi mál hafa ekki verið rannsökuð á faglegan og heiðarlegan hátt, vistheimilanefndin gerði það ekki.  Hún spjallaði við krakkana, sem núna eru fullorðið fólk, fékk sjónarmið þeirra, kom þeim á blað, gerði svo ekki meir.  Ekkert í rannsókn hennar varðandi Kumbaravog getur kallast faglegt, vanhæfnin hennar kristallast svo í því að ekkert var gert varðandi Kristján Vignir, mál hans var hvorki rannsakað og síðan athugað hvort hann væri ennþá að.

Þetta eru staðreyndir málsins Mofi, staðreyndir sem þú tekur þátt í að þagga niður með málflutningi þínum.

Það að börn hafi sætt harðræði, þýðir ekki það sama að öll börn hafi sætt harðræði.  Það voru börn sem sættu kynferðislegri misnotkun í Landakotsskóla, en það sættu ekki öll börn misnotkun í Landakotaskóla.  Þeir sem áttu þar góðar minningar, komu þeim einstaklingum sem voru sakaðir um hina alvarlegu hluti, til varnar með nákvæmlega sömu aðferðarfræði og gert er í þeirri yfirlýsingu sem ánægðu börnin á Kumbaravogi sendu fjölmiðlum.

Það er þessi yfirlýsing sem var tilefni bloggs míns, og ég bendi á tvennt, á aðferðarfræðina, sem og að það verður ekki sátt um málefni Kumbaravogs fyrr en  "heiðarleg opin rannsókn fer fram á þeim ásökunum sem fram hafa komið og það sé gengið þannig frá skýrslunni að þeir sem telja sig hafa sætt miska, séu sáttir við niðurstöður rannsóknarinnar.".

Flóknara var það ekki, meir var ekki sagt.  

Þú kemur hér inní athugasemdarkerfið og bendir á að þau séu að koma til varnar fólki sem þeim þykir vænt um.

Ég bendi þér á um hvað málið snýst í athugasemd 2, og ítreka að þau eru ekki þeir einstaklingar sem telja sig hafa sætt harðræði, og ef þau vilja hreinsa fósturforeldra sína af þessum áskökunum, þá hljóti þau að styðja  "réttláta heiðarlega rannsókn á öllum þeim ásökunum sem hafa komið fram".  Fer ekki nánar út í vankanta yfirlýsingar þeirra, er ekki að persónugera málið gagnvart þeim, alvarleiki þess snýr að samfélaginu sem þegir.

Þá verður þér á Mofi, sem fékk til að efast að þú kæmir inn í þessa umræðu að heilindum, þú segir  "Fyrsta setningin er að þau fagna rannsókninni; hljómar ekki eins og þöggun."sem er augljóslega rangt ef miðað er við það sem kemur fram í frétt Mbl.is, þau eru að fagna annarri rannsókn.  Ég bendi þér á þetta góðfúslega með smá hæðni, gef þér tækifæri til að hugsa áður en þú tjáir þig næst.

Og þá komstu upp um þig, þú fattar ekki fljótfærni þína, og ákvaðst að tækla manninn.  Þú ert ekki hlutlaus, þú ert meðvirkur í þögguninni, af ástæðum sem ég þekki ekki.  Ég útskýrði málið fyrir þér, þú kýst að svara aftur.

Og hvernig er svar þitt???

Þú fattar loks afglöp þín með því að þau eru ekki að fagna rannsókn á Kumbaravogi og þú kýst að snúa út úr á þann hátt að  segja að "eða verið að segja að það ætti ekki að rannsaka mál Kumbaravogs enn frekar. " og bætir við seinna, "og veit ekki betur en þessi hópur þarna væri alveg hlynntur því. ".   Það má vel vera að þú vitir það, en ekki út frá þessari yfirlýsingu, það kemur ekki stafkrókur fram um slíkt í henni.

Þú tekur undir það að fram komi ærumeiðandi ummæli um forstöðuhjónin í umfjöllun Kastljós, en hvað veist þú um það??? Er napur sannleikur ærumeiðandi??? 

Ósannar fullyrðingar eru það en ekki sannar. 

Hvernig getur þú dæmt á milli??  Varstu á staðnum??  Hefur þú rannsakað málið???

 Þú segir að þessar ásakanir hafi verið rannsakaðar, hvar er sú rannsókn???  Spjallið hjá vistheimilanefnd er engin rannsókn, ef þú ert að meina það.  Og ásakanirnar eru það alvarlegar að það á að rannsaka þær.

En pyttur rökfærslu þinnar sem gerir málflutning þinn auman er þessi málsgrein;

"Hérna ert þú sem hvorki ólst þarna upp né last þessa skýrslu að tjá þig um þetta mál en kvartar yfir því að þetta fólk sem ólst þarna upp og kölluðu þessa fósturforeldra sína, mömmu og pabba, að þau tjái sig.  Þú vonandi sérð að það er eitthvað að þessari hegðun þinni." .

Og þar sem þetta er þegar orðið langt mál, þá ætla ég að taka þetta sérstaklega fyrir í öðru innslagi.

Ómar Geirsson, 13.1.2013 kl. 00:50

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Þurfti ég að vera í Landakostsskóla til að taka afstöðu til hvort krakkar hefðu verið þar misnotaðir eða ekki???

Og voru börn ekki misnotuð þar fyrst að þar voru krakkar sem sögðust ekki hafa verið misnotið eða ekki vitað til þess að önnur börn hafi verið misnotuð.  

Ég hélt að enginn léti þetta út úr sér eftir málin sem hafa komið upp hér á Íslandi og hafa leitt til rannsóknar þar sem fram kom að viðkomandi ásakanir væru sannar, þrátt fyrir að ekki hefðu allir verið misnotaðir eða hefðu haft vitneskju um það.  

Sambærileg mál hafa komið upp um allan hinn vestræna heim, og snerta kristin trúfélög, skóla, uppeldisheimili, fósturheimili, skátahreyfingar, spítala, að ekki sé minnst á heimili barna.  

Öll þessi mál eiga það sammerkt að þegar þau komu upp, þá reis alltaf upp einhver sem hafði góða sögu af brotafólkinu og sagði, "Nei, þetta getur ekki verið, ekki var ég misnotaður". Eða "þetta fólk er svo gott, þetta getur ekki verið satt".

En þetta var satt, ekki alltaf, en ákaflega oft.  Og tækið til að skera úr um heitir rannsókn, ekki þöggun eins og var beitt svo mikið hér á árum áður.

Og þöggun er ekki sama og þögn, þöggun er þegar reynt er með ýmsum ráðum að draga úr trúverðugleika þeirra sem ásaka, sem er auðvelt þegar um brotið fólk er að ræða, eða fólk úr svokölluðum lægri þjóðfélagsstéttum.  Sérstaklega ef það bætist við að gerandinn er virtur, í æðri hópnum eða með stöðu og svo framvegis.  

Síðan var dregið fram fólk sem hefur allt aðra sögu að segja en sá sem ásakar, og það notað sem röksemd.  

Sem er hin algjöra heimska því fáir væru ásakaðir um morð ef það dygði morðingjanum að draga fram vitni sem segði, "ha, nei þetta getur ekki verið satt, ég var á staðnum og ég er ennþá lifandi".  

Yfirlýsing þessa fólks er mörkuð þessari þöggun.

1. Þau tala um ærumeiðandi ummæli, án þess að nefna dæmi.  Jú, líklegast eitthvað með barnavændi, en draga ekki fram samhengi þeirrar fullyrðingar.  

Svo fatta þau ekki að fólk í miklu tilfinningauppnámi getur sagt ýmislegt sem stenst ekki nánari skoðun, en það dregur ekkert úr gildi annarra fullyrðinga.  Það þarf að sýna fram á að þær séu rangar, eða draga fram samhengi þar sem augljóst er að hagsmunir eða ranghugmyndir leiði líkur á að þetta sé rangt, eða upplifun sem eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum.

2. Þau tala um "ævistarf fósturforeldra" sinna til draga yfir þá staðreynd að allir bera konu Kristjáns góða sögu, en það gildir ekki það sama um Kristján.  Á þetta hefur eitt hið meinta fósturbarn borið vitni um, og útskýrt að gagnrýni hennar snúist að Kristjáni, ekki konu hans.  Eftir þann vitnisburð, er rangt farið með þegar talað er um "fósturforeldra".

Sá sem lýgur beint, er ekki að biðja um sannleika málsins, tilgangur hans er annarlegur.

3. Það er talað um "fósturforeldra okkar", látið þar í skína að þetta hafi verið foreldrar barnanna á Kumbaravogi.  Það má vel vera hjá þessu fólki, en þau hafa engan rétt til að gefa í skyn að svo hafi verið með aðra krakka.  Það gera þau sjálf.  Í bréfi Guðrúnar Sverrisdóttur kemur þetta meðal annars fram;

"Litlu frændsystkini mín voru alla barnæskuna og unglingsárin vistuð fjarri foreldrum og tveimur eldri bræðrum og setti það mark sitt á þau öll ævilangt. Bænarbréfi móður þeirra til „háttvirts Barnaverndarráðs“ þar sem hún reyndi að fá börnin sín „lánuð“ um jól var synjað. Þau fengu aldrei leyfi öll þessi ár til að dvelja hjá eða heimsækja daglangt foreldra sína og bræður. Hvorki á jólum, páskum, afmælisdögum né öðrum tyllidögum. Beiðni foreldranna um að þau kæmu í fermingu næstelsta bróðurins var synjað. Það var ekki talið óhætt að leyfa litlu systkinunum að fara í fermingu eldri bróður. Þannig voru Kumbaravogsreglurnar."

Hér er ekki verið að lýsa "fósturforeldrum", hér er frekar verið að lýsa nauðung, ígildi barnsráns.  

Og sá sem blekkir með rangri orðanotkun, hann er ekki að leita sannleikans.

4.  "óhæfuverk hans sé notuð til að sverta ævistarf fósturforeldra okkar".

Hér er verið að gefa í skyn að það sé verið að nota óhæfuverk Karls Vignis til að sverta ævistarf hinna meintu fósturforeldra, en hver er að því??

Óhæfuverk hans eru staðreynd, má ekki segja frá því sem hann gerði börnum á Kumbaravogi???

En umfjöllunin um Karl Vigni er aðeins kveikjan af öðrum og alvarlegum ásökunum, sem eru þau sem ég hef dregið fram hér að ofan; harðræði, misnotkun, sálarmorð, þjófnaður, vinnuþrælkun.

Þær snúa að Kumbaravogi, og er öllum ljóst með smá dómgreind að svo sé.  

Að gefa annað í skyn er ekki í þágu hins sanna.

5. Síðan er talað um einhliða og öfgafull ummæli, án þess að taka dæmi um þau, og færa síðan rök fyrir því að svo hafi ekki verið.  Aðeins er vísað í vistheimilanefndina, án þess að tilgreina viðkomandi ummæli og síðan hvernig sú nefnd  færði rök fyrir að þau stæðust ekki skoðun.

Það að gera slíkt ekki, er dylgjur, það er gefið eitthvað í skyn án þess að færa sönnur á eða rök fyrir.  Sá sem er sakaður um "einhliða og öfgafull ummæli" eða "sverta ævistarf" getur ekki svarað slíkum ásökunum því dæmi eru ekki tilgreind.  

Nema jú þetta með barnavændið, án þess að upptaka eða skriflegur texti fylgi.

6. "Þegar mál af þessum toga koma upp í fjölskyldum veldur það miklum sársauka sem ekki er á bætandi".

Þetta er lágpunkturinn í yfirlýsingunni, það er talað um fjölskyldu, sem hafi þurft að þola mikinn sársauka, og það eigi ekki að bæta á hann.

Kumbaraheimili var stofnun, ekki fjölskylda, og það var illa farið með krakka þar, ekki öll greinilega, en mörg, og það er verið að ræða um þau.

Þau voru ekki stjúpsystur Öskubusku, þau voru Öskubuska.  Þeim leið illa, og það er verið að ræða þeirra sársauka, ekki sársauka þeirra sem þola ekki þá umræðu.

Meira í næsta innslagi.

Ómar Geirsson, 13.1.2013 kl. 01:37

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Mofi, þú spyrð hvað ég hefði gert ef mínir foreldrar hefðu verið ásakaðir um slíka hluti eins og Kristján er ásakaður um. 

Ef ég vissi þau saklaus, þá bæði ég um heiðarlega rannsókn, og ég segði frá minni upplifun, og því sem ég best vissi.  

Ég myndi ekki ljúga, ekki segja að fyrst að ég hefði það gott, að þá færu þau sem ásökuðu með rangt mál, ég myndi ekki reyna að blekkja, ekki reyna að gera þeim sem ásakaði upp skoðanir.  

Ég bæði um réttláta heiðarlega rannsókn með þeirri ósk að sannleikurinn mætti koma fram.  

Ef þau væru sek um eitthvað misjafnt, þá vona ég að ég hefði líka þann innri styrk að biðja um sannleikann, en ég veit það ekki fyrir víst fyrr en ég lendi í þessari stöðu.

"en kvartar yfir því að þetta fólk sem ólst þarna upp og kölluðu þessa fósturforeldra sína, mömmu og pabba, að þau tjái sig.  Þú vonandi sérð að það er eitthvað að þessari hegðun þinni."

Þessu átti ég líka eftir að svara.  Hvar er ég að kvarta yfir að þau tjái sig????

Ég er að bregðast við hvernig þau tjá sig, og að þau taki þátt í þöggun á því sem gerðist á Kumbaravogi.  Þau eru ekkert að segja frá því hvað þeim leið vel, heldur eru þau að segja að fyrst þeim leið, þá eru hin að ljúga.

Sem þau höfðu enga forsendur til að fullyrða.  Þau voru ekki fórnarlömbin.  

Þau gátu sagt frá því hvað Kristján hefði reynst þeim vel, en það segir ekkert um hvernig hann reyndist hinum.

Og á það benti ég án þess að fara nokkuð nánar út í það fyrr en þú neyddir mig til þess. 

Þú spyrð hvernig maður ég er Mofi, og ég get alveg sagt þér að ég er óttalegt bjánaprik, ófullkominn og vitlaus.

En ég ræð við að halda mig við staðreyndir í rökræðum, að halda mig við það sem ég best veit, og leiðrétta mig ef sýnt er framá að ég fari með rangt mál. 

Og ég þekki muninn á réttri hegðun og rangri hegðun.  

Og ég þekki líka hvað var sagt í góðri bók um hvað það væri sem væri gert okkar minnstu bræðrum.  

Og ég er sammála því Mofi.

Alveg sammála.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.1.2013 kl. 01:55

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Og Mofi, lestu þessa grein, reyndu svo að skilja hvernig kristinn maður bregst við.

Kumbaravogsbörnin

Í minningu Einars Þórs Agnarssonar – og allra hinna

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðrúnu Sverrisdóttur Ég hitti hjónin Hönnu Halldórsdóttur og Kristján Friðbergsson fyrst árið 1965, en þau veittu uppeldisheimilinu á Kumbaravogi forstöðu.
Eftir Guðrúnu Sverrisdóttur

Ég hitti hjónin Hönnu Halldórsdóttur og Kristján Friðbergsson fyrst árið 1965, en þau veittu uppeldisheimilinu á Kumbaravogi forstöðu. Frændsystkini mín, fimm og níu ára gömul, voru vistuð á Kumbaravogi og ég hélt eins og staðan var að þetta væri börnunum fyrir bestu. Ég var unglingur og tók gæfuleysið á heimili þeirra afskaplega nærri mér. Við bjuggum í sama fjölbýlishúsinu

og þau voru eins og systkini mín. Engan óraði fyrir að þau yrðu þarna næstu 10 árin. Aðdragandi vistunar barnanna á vegum barnaverndarnefndar spannaði tvö til þrjú ár. Ástæðan var áfengisdrykkja foreldranna, brotið heimilislíf, veikindi, yfirvofandi hjónaskilnaður og fátækt. Úrræði voru ekki mörg á þessum árum. Stuðningur kerfisins við „brotin heimili“ var afskaplega fálmkenndur og ófaglegur. Börn voru miskunnarlaust tekin af foreldrum og systkinum sundrað, úrræði þeim til stuðnings voru lítil sem engin. Réttarstaða foreldra gagnvart „kerfinu“ og barnaverndarnefnd með upptöku mála og endurmat var afskaplega fjarlæg og veik, – réttarstaða barnanna sjálfra minni en engin.

Ég bar mjög mikla virðingu fyrir Kumbaravogshjónunum, sem voru aðventistar og ráku þetta upptökuheimili. Forstöðukonan, Hanna, fannst mér vera afskaplega viðkunnanleg með góða nærveru. Fjölskylda mín hélt að þarna fengju börnin gott atlæti og öryggi. Ég hélt alla tíð, öll þessi ár, að þau hjónin gerðu þetta af manngæsku og trúarlegri hugsjón. Heimsóknir fyrir aðstandendur voru eingöngu leyfðar fyrsta sunnudag hvers mánaðar. Mér var afskaplega vel tekið af húsráðendum og barnaskaranum. Þetta voru alltaf gleðistundir að sjá barnahópinn, hitta og faðma litlu frændsystkinin, sem hvorki kvörtuðu né sögðu frá neinu misjöfnu. Mikilvægasta mótunarskeið barna er frá vöggubarni til unglingsáranna. Litlu frændsystkini mín voru alla barnæskuna og unglingsárin vistuð fjarri foreldrum og tveimur eldri bræðrum og setti það mark sitt á þau öll ævilangt. Bænarbréfi móður þeirra til „háttvirts Barnaverndarráðs“ þar sem hún reyndi að fá börnin sín „lánuð“ um jól var synjað. Þau fengu aldrei leyfi öll þessi ár til að dvelja hjá eða heimsækja daglangt foreldra sína og bræður. Hvorki á jólum, páskum, afmælisdögum né öðrum tyllidögum. Beiðni foreldranna um að þau kæmu í fermingu næstelsta bróðurins var synjað. Það var ekki talið óhætt að leyfa litlu systkinunum að fara í fermingu eldri bróður. Þannig voru Kumbaravogsreglurnar. Á sama tíma var barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinsson, sem dvaldi árlega á Kumbaravogi, að misnota og nauðga litla frænda mínum, Einari Þór, átta ára gömlum, innan veggja upptökuheimilisins.

Þagnarmúrinn var ekki rofinn fyrr en nýverið. Enginn vissi neitt fyrr en nú 40 árum síðar – eða hvað? Að sögn Kristjáns á Kumbaravogi „sendi“ hann Karl Vigni á einhverjum tímapunkti, af því að hann hafði einhverja „ónáttúru“, til Þórðar Möller geðlæknis. Fáfræðin á fósturheimilinu virðist allsráðandi og blinda auganu snúið að börnunum. Barnaníðingurinn var sendur til geðlæknis en ekki börnin. Karl Vignir var „heimilisvinur“ og þrátt fyrir „ónáttúruna“ leyfðist honum áframhaldandi aðgangur að Kumbaravogi og börnunum. Eitt af mörgum vistbörnum Kumbaravogs var Elvar Jakobsson. Hann opnaði umræðuna í blaðaviðtali í febrúar sl. og sagði frá kynferðismisnotkun barnaníðingsins Karls Vignis á sér og öðrum börnum vistuðum á heimilinu. Elvar lagði fram ákæru á hendur Karli Vigni, sem í kjölfar yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi kynferðislega misnotkun sína til margra ára á Elvari og tveimur öðrum 8-10 ára gömlum drengjum á Kumbaravogi. Samviskulaus barnaníðingurinn var stundum með drengina þrjá samtímis. Hvernig varð svo lífshlaup litlu fórnarlambanna, sem engan talsmann höfðu? Tveir af þeim eru látnir, Þorsteinn Karl Eyland og frændi minn, Einar Þór Agnarsson, sem lést 24 ára gamall. Þeir voru báðir kynferðislega misnotaðir frá unga aldri á Kumbaravogi og skemmdir fyrir lífstíð. Sá þriðji, sem lifir, Elvar Jakobsson, byggði upp einskonar

sjálfsvarnarkerfi svo hann gæti lifað áfram og reynt að vera hamingjusamur eins og hann segir. Jafnframt að skuggi æskuáranna sé aldrei langt undan, sem slái hann ofan í botnlaust svartholið.

Karl Vignir talaði um börn á þessum aldri sem konfektið sitt

Ummæli Kristjáns á Kumbaravogi í DV frá 30. maí sl. um kynferðislega misnotkun Karls Vignis á börnunum eru mjög misvísandi og ótrúverðug. Þar neitar Kristján „...að hann hafi nokkurn tíma grunað Karl Vigni um barnagirnd“. Síðar „úthýsir“ hann Karli Vigni frá uppeldisheimilinu „...en ekki vegna barnagirndar mannsins“. Ástæðan er ekki gefin upp. Samt sem áður segir Kristján „...það ekki hafa komið sér á óvart að Karl Vignir hafi játað að hafa margsinnis misnotað kynferðislega dreng sem var vistaður á heimilinu“. Illmennið Karl Vignir hefur ekki oftalið fórnarlömbin og segir ekki frá ódæðisverkum á öðrum börnum frá Kumbaravogi í Vestmannaeyjum. Það skipti hann ekki máli hvort í hlut áttu stúlkur eða drengir. Í DV 30. maí sl. er sagt frá því að Karli Vigni hafi verið „vikið úr söfnuði“ aðventista fyrir um 10 árum, vegna stúlku sem hann misnotaði „margsinnis bæði áður og eftir að hún varð kynþroska“. Málið var ekki kært. Í sama blaði er haft eftir fyrrverandi aðventupresti að „Karl Vignir talaði um börn á þessum aldri sem konfektið sitt“. Hvað skyldi hann hafa misnotað mörg börn, skaddað margar barnssálir og lagt mörg líf í rúst undanfarin 40-50 ár? Karl Vignir var aldrei stoppaður af! Hvert sem hann fór skildi hann eftir sig sviðna jörð. Óþokkaverkin voru hvorki kærð né barnaníðingnum fylgt eftir. Einfaldlega var honum sagt upp störfum vegna „ónáttúru“ en þá skipti hann bara um vinnustað! Karl Vignir vissi sem var „að þeir fiska sem róa“. Hvar voru bestu miðin? Hvar var helst lítilmagnann að finna? Hvar er óskastaður barnaníðings? Starfa við eftirlit og umönnun á Sólheimum í Grímsnesi? Vinna við umsjón í kirkju sem fjöldi barna sækir? Vaða um óáreittur á barnaheimilinu Kumbaravogi? Vera yfirmaður unglingsdrengja, töskubera, á hóteli hér í bæ? Hvað skyldi barnaníðingurinn aðhafast í dag? Karl Vignir getur lagst á bæn og þakkað fyrir það að búa í vernduðu umhverfi íslenskra laga. Hvað skyldi hafa verið gert við mann eins og hann t.d. í Texas? Samkvæmt máttvana lagabókstaf íslenskum er Karl Vignir laus allra mála. Málin fyrnd! Í skjóli laganna getur trúrækni barnaníðingurinn Karl Vignir raulað fyrir munni sér: „Ó Jesús kastar öllum mínum syndum á bakvið sig/og ég sé þær aldrei meir.“

Háttvirt Alþingi

Talsvert af bréfum og skjölum hefur komið í ljós á Borgarskjalasafninu sem varðar persónulegar upplýsingar fyrrverandi vistbarna og hina ýmsu styrki til Kristjáns á Kumbaravogi. Í mars 1962 skrifar Kristján bréf til Símonar Jóh. Ágústssonar hjá Barnaverndarráði Íslands og leitar ráða hjá sálfræðingnum. Kristján vill fara í skóla og „læra það sem krafist er af forstöðumönnum uppeldisheimila í Danmörku sem er tveggja til þriggja ára nám“. Í sama bréfi segir Kristján: „En þar sem ég hef fyrir heimili að sjá [konu og tveim drengjum 6 og 8 ára] en er ekki efnaður maður, gæti ég þá fengið lán eða styrk til slíks náms hjá öðrum aðiljum en Menntamálaráði?“ Svo virðist sem hvorki lán né styrkur hafi gefist og ekkert varð úr tveggja til þriggja ára uppeldislegu sérnámi Kristjáns, sem starfaði um tíma hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur og árið 1963 félagasamtökunum Vernd. Árið 1964 festir hann kaup á Kumbaravogi og skv. bréfum er hann farinn að leita leiða til að fá peningastyrki og samþykki Barnaverndarráðs til að stofna og reka upptökuheimili fyrir börn. Kristján er mikill „peningamaður“ þótt engir séu peningarnir, en það er enginn bóndi nema hann barmi sér. Kristján á Kumbaravogi var iðinn við bréfaskriftir til að afla fjár til heimilisins. Áður en starfsemin byrjaði á Kumbaravogi 1965 varð hann sér úti um styrk frá „háttvirtri fjárveitingarnefnd Alþingis til að standa straum af stofnkostnaði við heimili á Kumbaravogi í Árnessýslu fyrir umkomulaus börn“. Kristján hafði hvorki menntun né mannúð til að veita uppeldisheimili forstöðu til að sinna fjölda niðurbrotinna barna. En hann var búinn að kaupa Kumbaravog og með fimm meðmælabréf upp á vasann, sjálfum sér til framdráttar, sem hann sendir Símoni Jóh. Ágústssyni, sálfræðingi hjá Barnaverndarráði Íslands. Barnaverndarráð Íslands lagði blessun sína yfir reksturinn og menntamálaráðuneytið gaf út starfsleyfi árið 1965 fyrir barnaupptökuheimili á Kumbaravogi. Kumbaravogshjónin höfðu enga menntun hlotið, hvorki til kennslu né uppeldisstarfa. Hvernig gátu alls ómenntaðir einstaklingar fengið leyfi barnaverndarnefndar til að taka að sér 14 börn? Börnin 14, sem vistuð voru á Kumbaravogi á þessum árum, voru öll á svipuðum aldri og komu flest af brotnum heimilum. Á Kumbaravogi bjuggu einnig tveir synir hjónanna svo alls voru börnin 16 talsins.

Tveimur árum eftir að starfsemin hófst var ráðist í viðbótarbyggingu við gamla húsið. Sumarið 1967 skrifar Símon Jóh. Ágústsson hjá Barnaverndarráði: „Viðbótarbygging er langt komin og verður tekin í notkun með haustinu. Fást þar leikstofur og húsnæði fyrir starfsfólk.“ Sú varð ekki raunin. Viðbótarbyggingin var tekin undir sérherbergi fyrir syni forstöðuhjónanna og sparistofu.

Sumarið 1970 var búið að byggja annað upptökuheimili á jörðinni. Í október 1970 biður Kristján um aukna fjárveitingu fyrir nýja húsið:

„...Fjárveitingarnefnd Alþingis hefur áður veitt mér styrk á fjárlögum, sem skylt er að þakka. Á þessu ári var mér veittur styrkur að fjárhæð kr. 75.000.00, en vegna mikilla útgjalda við að opna síðara heimilið er mér mjög mikil nauðsyn á að fá styrkinn hækkaðan í umbeðna fjárhæð... fer þess hér með á leit við fjárveitingarnefnd hæstvirts Alþingis að mér verði veittur styrkur á fjárlögum ársins 1971 að upphæð kr. 200.000.00 vegna stofnkostnaðar og reksturs barnaheimilisins í Kumbaravogi.“

Í dag er verðgildi 75 þúsund króna u.þ.b. 4,5 milljónir og verðgildi 200 þúsund króna er í kringum 12 milljónir. Allverulegar peningaupphæðir virðast hafa gengið til Kumbaravogsheimilisins í nafni meðlaga, hjálparkennslu- og húsbyggingastyrkja, fata- og peningagjafa.

26 fósturbörn

Nýbyggingin var ætluð 12 vistbörnum því fjöldinn var kominn í 26 börn. Umsjón með þeim rekstri höfðu hjón úr aðventistasöfnuðinum, maðurinn kennari, sem átti m.a. að sjá um hjálparkennslu beggja upptökuheimilanna. Hugsjónin um vernduð upptökuheimili með umhyggjusömum fósturforeldrum var ákaflega falleg en fjarlæg mynd. Upptökuheimili með fagmenntuðum stjórnendum hefði eflaust nýst fáeinum börnum, en ekki 14 eða 26 börnum. Hvað var haft að leiðarljósi á upptökuheimilinu, velferð barnanna eða var fégræðgin orðin hugsjóninni yfirsterkari? Venja var að ríkið borgaði tvöfalt eða þrefalt meðlag með barni sem var í barnaverndarforsjá. Í upplýsingum frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur árið 1970 „fær Kristján Friðbergsson 7-8 þúsund krónur með hverju barni á mánuði“, sem að verðgildi dagsins í dag væri 50- 60 þúsund krónur á barn. Miðað við 26 börn gerir það u.þ.b. 1,5 milljónir á mánuði.

Í skjölum sem fundust á Borgarskjalasafninu má lesa hin ýmsu betlibréf undirrituð af Kristjáni Friðbergssyni m.a. til Barnaverndarráðs Íslands, fjárveitingarnefndar Alþingis, menntamálaráðuneytisins, fræðslumálastjóra og Félagsmálastofnunar Reykjavíkur. Hann fór afskaplega frjálslega með sannleikann og beitti vistbörnunum óhikað fyrir vagninn, þessum „tornæmu“ og „greindarskertu“, sem þyrftu hjálparkennslu. Kristján harkaði út ár eftir ár sporslur og styrki m.a. til hjálparkennslu og húsbygginga. Forstöðumaðurinn sagði ekki frá daglegri vinnuskyldu vistbarnanna á upptökuheimilinu í umsóknunum og styrkjabeiðnunum til ríkisins. Vinnuskyldu við þúsund pútna hænsnabúið, heimilisþrifin, búrekstur rófu- og kartöfluræktunar, byggingarvinnuna og saumaverkstæðið og að vinnan hafi gengið fyrir lærdómnum.

Vinnuskylda

Lífsbaráttan hefur verið hörð og frásagnir fyrrverandi vistbarna Kumbaravogs líkjast helst völdum köflum úr Oliver Twist. Þrjár uppeldissystur, Erna Agnarsdóttir, María Haraldsdóttir og Jóhanna Agnarsdóttir, staðfesta frásögn Elvars á heimasíðu Breiðavíkursamtakanna sem ber yfirskriftina „Launalaus vinnuþrælkun til margra ára“.

„Á Kumbaravogi störfuðum við krakkarnir við hænsnarækt (ég var ekki nema 11 ára þegar ég var látinn snúa hænur úr hálslið), rófurækt, kartöflurækt og ýmis önnur tilfallandi garðyrkju- og bústörf. Við byggðum þar að auki tvö stór hús með mörgum herbergjum á þremur árum, sem í dag eru notuð sem húsnæði fyrir dvalar- og hjúkrunarheimilið Kumbaravog. Við smíðuðum, einangruðum með glerull, skófum timbur, lögðum tjörupappa, negldum þakplötur og gengum í öll þau störf sem okkur var sagt að vinna, sama hvernig viðraði. Til viðbótar stóðum við vaktir við saumavélarnar í poka- og ábreiðuverksmiðjunni. Ef við vorum ekki að vinna fyrir forstöðumanninn við bústörf, byggingarvinnu eða framleiðslu sendi hann okkur á aðra bæi til að vinna sambærileg störf. Allt þetta gerðum við án þess að fá nokkurn tíma borgaða eina einustu krónu. Forstöðumaðurinn fékk hins vegar borgað með okkur frá Reykjavíkurborg, fékk greiðslur af fjárlögum, auk þess að fá greiðslur frá sveitungum sínum þegar hann sendi okkur í vinnu til þeirra. Um helgar var okkur ekið út um allt Suðurland til að betla pening fyrir einhverja góðgerðarstarfsemi. Ég á erfitt með að trúa því að allt það sem við krakkarnir söfnuðum á þeim ferðum hafi farið eitthvað annað en í vasa forstöðumannsins. Það var ekki nóg að borgin greiddi með okkur fullt gjald heldur gerði forstöðumaðurinn þar að auki stöðugt kröfur á föður minn um greiðslu fyrir skólagjöldum, fatnaði og öðru sem hann tíndi til. Að auki sendi hann reglulega greinar í dagblöð á þessum tíma og bað um styrk og aðstoð frá almenningi til að sjá barnaskaranum farborða. Þrátt fyrir góð viðbrögð fengum við fósturbörnin aldrei nokkurn tíma ný föt eða nýja skó. Við gengum allan tímann í fatnaði frá Hjálpræðishernum eða öðrum samtökum sem réttu honum hjálparhönd.“

Arfurinn

Jóhanna Agnarsdóttir var elst þriggja systkina á aldrinum sjö ára, fimm ára og tveggja ára þegar þau voru vistuð á Kumbaravogi. Hún og bróðir hennar voru þar í 10 og 15 ár, en miðbarnið, litla systirin, var fljótlega sett í fóstur á einkaheimili. Við andlát afa þeirra árið 1978, sem var efnaður maður, tók forstöðumaðurinn yfir arf systkinanna fyrir þeirra hönd sem fjárhaldsmaður án þeirra vitundar og samþykkis. Tveir erfingjanna voru ekki lögráða og því hefði dánarbúið átt að fara í opinber skipti. Annar erfinginn ólst ekki upp á Kumbarvogi heldur á einkaheimili. Í DV-viðtali frá 9. mars sl. segir Jóhanna frá samskiptum sínum við Kristján Friðbergsson og nokkurra ára málaferlum varðandi arfinn.

Systkinin fjögur

Erna segir frá systkinunum fjórum, þegar þau voru fyrst tekin út af heimili foreldranna árið 1962. „Sá elsti, Ævar, 11 ára, var sendur á Jaðar en hin á Silungapoll í viku. Raggi var níu ára, ég sex ára og Einar á öðru árinu. Einar var oft með eyrnabólgu og grét mikið. Þá nægði að halda á honum til að hann róaðist. Á Silungapolli var hann hafður einn í lokuðu herbergi frá átta á kvöldin til átta næsta morgun. Hann vaknaði upp og grét þar til hann sofnaði, vaknaði aftur grátandi og þannig gekk þetta alla nóttina. Við systkini hans lágum hinum megin við þilið og máttum hlusta á grátinn í honum. Hurðarhúnarnir voru svo hátt uppi að börn náðu ekki upp í þá svo að ekki gat ég stolist til hans. Föðursystir okkar gekk í málið og við komumst heim. Þessi tími þarna var ólýsanleg kvöl. Ekki liðu þó nema þrjú ár þar til við komum á Silungapoll aftur.“ [Þá var Einar fimm ára og Erna níu ára þegar þau voru vistuð seinna skiptið á Silungapolli.] „Aginn var strangur og refsingarnar harðar. Eitt sinn þegar ég braut af mér var farið með mig út í skúr og ég látin afklæðast. Síðan var farið með mig allsnakta út á tún og köldu vatni sprautað yfir mig. Niðurlægingin var algjör og ég þorði ekki að vera óþekk þessa daga sem eftir voru. Konurnar frá Barnaverndarnefnd komu eftir viku og sóttu okkur til að fara með í aðra vistun, eða á Kumbaravog. Sú vistun stóð í tíu ár.“

Kumbaravogsárin

Elvar og Jóhanna hafa lýst lífinu á Kumbaravogi í blöðum og viðtölum sl. mánuði. Erna bregður upp svipaðri mynd í sínum frásögnum:

„Stórtæk atvinnustarfsemi var rekin á staðnum. Lítil sem engin utanaðkomandi hjálp var keypt inn á upptökuheimilið. Vinnan var látin ganga fyrir lærdómnum og hjálp við heimalærdóm var engin. Börnin urðu ókeypis vinnukraftur við heimilisþrifin, hænsnabúið, saumaverkstæðið, rófu- og kartöflurækt vor, sumar og haust, og síðar meir unnu börnin í byggingarvinnu við nýbyggingar Kumbaravogs. Erna, María og Jóhanna, átta og níu ára gamlar, sáu yfirleitt um dagleg þrif á heimilinu. Hænsnabúið taldi um eitt þúsund hænsni. Börnin sáu um að skófla hænsnaskítnum úr húsi, safna eggjum, þvo, flokka þau undir sölu sem og deyða hænsnin. Pokaverksmiðjan var í sérstöku húsi. Börnin voru látin vinna við saumavélarnar, þótt þau næðu varla niður á pedalann. Afurðirnar, kartöflupokar og heyyfirbreiðslur, voru seldar til bænda. Börnin sköpuðu mikil verðmæti með vinnuframlagi sínu sem aðalstarfskrafturinn og voru undirstaða bú- og atvinnurekstursins á Kumbaravogi.“

Einar Þór og „mamma litla“

Lífsferill litla frænda míns, Einars Þórs, á 24 ára stuttri ævi var ekki öfundsverður. Hann var fyrst tekinn af heimili sínu tæplega tveggja ára og aftur fimm ára. Hann var afskaplega mikill fjörkálfur, skýr, ljúfur og hláturmildur. Erna, systir hans, sem var fjórum árum eldri, varð strax hin ábyrgðarfulla „litla mamma“ gagnvart bróður sínum. Hún varð kjölfestan í lífi hans og verndari. Litla hetjan, níu ára að aldri, reyndi að hlífa honum með því að taka skellina á sig. Hún tók móðurhlutverkið alvarlega og verndaði hann á allan þann hátt sem hún gat. Það dugði samt ekki til. Barnaníðingurinn, sem lék lausum hala inni á upptökuheimilinu, misnotaði Einar Þór frá átta ára aldri. Erna segir frá mikilli hörku forstöðumannsins gagnvart Einari allt frá því hann kom á Kumbaravog fimm ára gamall. Hann lét illa að stjórn og það var alltaf verið að hegna honum. Ef hann ærslaðist og hló við matarborðið var hann lokaður inni á klósetti með matinn sinn. Að sjálfsögðu hefur þurft reglur og aga á þennan barnafjölda og ekki öfundsvert hlutverk, en refsingarnar urði þyngri með hverju árinu. Einu sinni sem oftar áttu börnin að vinna við byggingu nýja hússins. Einar var átta ára og hlýddi ekki. Þá tók Kristján hann upp á eyra og hnakka svo fæturnir snertu ekki jörðina og þannig var hann borinn fleiri tugi metra í ásýnd hinna barnanna. Oftar en ekki var höndum snúið aftur fyrir bak enda var hann alla tíð að fara úr axlarlið. „Brotnu börnin“ urðu „brotnir unglingar“. Unglingsárin komu með fullum þunga hjá Einari Þór sem var laskaður á sál og líkama og fullur mótþróa. Hann stalst á samkundu inni í þorpinu 13 ára gamall ásamt nokkrum öðrum unglingum frá Kumbaravogi. Þrír voru hirtir upp, tveimur var stungið inn á Litla-Hraun og einn var settur í fangageymslu lögreglunnar á Selfossi. Fyrsta áfengisdrykkjan hjá Einari var í kringum 14 ára aldurinn. Hann hafði strokið til Reykjavíkur og fann lögreglan hann drukkinn í miðborginni. Eftir samráð við forstöðumann Kumbaravogs var Einari Þór stungið inn á lokaða deild á Kleppsspítala. Deild 10 var lokuð deild fyrir langdrukkna fullorðna drykkjusjúklinga, þar var hann vistaður í nokkra daga. Seinna var hann sendur á unglingaheimili ríkisins og hámark refsingarinnar var þegar Einar Þór var sendur 14 ára gamall í nokkurra mánaða „hegningarvist“ í Breiðavík.

„Trúnaðarmál“

Sögusviðið er Daníelsslippur í Reykjavík fyrir 22 árum. Bíll stendur í slippnum miðjum, slanga frá púströri liggur inn í bílinn og það er breitt yfir hann með segldúk. Inni í bílnum hvíla tveir ungir menn, báðir látnir. Bíllinn var fjarlægður úr slippnum með dráttarbíl frá Vöku og farið með hann inn í port lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu með lík piltanna innanborðs. Rannsóknarlögreglan sagði þá hafa svipt sig lífi, dánarorsökina vera koltvísýringseitrun. Annar piltanna var Einar Þór Agnarsson, frændi minn, 24 ára gamall. Systkini Einars Þórs, Ævar, Ragnar og Erna, eru enn í dag að berjast fyrir því að fá niðurstöðu rannsóknarinnar í hendur. Rannsóknar- og krufningsskýrslur varðandi þennan harmleik og dauða ungu mannanna eru merktar „trúnaðarmál“ og eingöngu ætlaðar embætti ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra!

Ég er að reyna að skilja og hafa í huga að Kumbaravogsheimilið var barn síns tíma – en það eitt nægir ekki. Ótal spurningum er ósvarað. Það er löngu tímabært að fyrrverandi forstöðumaður Kumbaravogs, Kristján Friðbergsson, svari opinberlega lið fyrir lið hverjum þeim sakargiftum sem á hann eru bornar undanfarna mánuði og skýri sína hlið mála.

Ábyrgð hverra?

Mistökin voru margþætt. Foreldrarnir, sem fyrst og fremst báru ábyrgð á velferð barna sinna, brugðust þeim sökum vanmáttar og veikleika. Fósturforeldrarnir brugðust hugsjóninni – en fósturheimili af þessari stærðargráðu, með þennan barnafjölda, var dæmt til að mistakast. Barnaverndarráð, sem hafði vistunarmál og örlög barna og fjölskyldna í hendi sér, brást skjólsstæðingum sínum. Barnavernd stóð hvorki undir nafni né eftirlitsskyldu.

Það er skylda ríkisvaldsins að standa að baki þeim brotnu börnum upptökuheimilanna sem í dag eru fullorðnir einstaklingar. Jafnframt er það skylda þess að láta rannsaka Kumbaravogsheimilið jafnhliða Breiðavík, sem og önnur upptökuheimili frá þessum tíma. Það er ekki hægt að gefa þessu fólki bernskuárin aftur en það er hægt að viðurkenna misgjörðir gagnvart þeim og veita þeim fébætur sem vott um iðrun og virðingu samfélagsins.

Mér finnst ég skulda frænda mínum þessa grein. Ég vissi ekki þá – sem ég veit í dag. Í minningu Einars Þórs lýk ég þessum skrifum með broti úr eftirmælum mínum sem birtust í mars 1985 að honum látnum.

„Við fráfall frænda míns unga rifjast upp löngu liðnar stundir. Þegar Einar fæddist var ég unglingsstelpa, alls óvön svona lítilli mannveru. Hann varð mér strax mjög kær. Ég sá hann vaxa frá vöggubarni til lítils hnokka sem var fullur atorku og fjörs, viðkvæmni og væntumþykju. Atvikin höguðu því svo að Einar var tekinn í fóstur ungur að árum, fjarri foreldrum, eldri bræðrum og öðrum skyldmennum. Seint verður sú gáta ráðin hvort ein eða önnur tilvik í lífi mannsins breyti þar öllu um lífsbrautina – einstaklingnum til góðs eða ills – gæfu eða glötunar. Von mín er sú að frændi minn, Einar Þór, sé nú loksins genginn þær brautir gæfu og friðar sem hann höndlaði ekki í þessum heimi.“

Höfundur er hjúkrunarkona á endurkomudeild slysadeildar í Fossvogi.

Ómar Geirsson, 13.1.2013 kl. 01:57

14 identicon

Ég vil hér vekja athygli á því a.m.k. einn af þeim sem skrifar undir þessa grein sem birtist mbl. sl. föstudag, þáði fullar bætur fyrir illa meðferð og harðræði að Kumbaravogi, annar fór í dómsmál við forstöðumanninn Kristján Friðbergsson, vegna þjófnaðar á arfi. Tvær af þeim stúlkum sem skrifa undir koma að Kumbravogi 1972 og þekkja því ekki til lífs barnahópsins sem kom að Kumbravogi uppúr 1965 og geta því á engan hátt dæmt um þá vinnuþrælkun og annað ofbeldi sem átti sér stað að Kumbaravogi. Og að lokum vekja athygli á því að tveir þeirra sem rita nöfn sín gera það ekki með réttum hætti þar sem þeir fá að láni föðurnafn. Þessi strákar virðast bera meiri virðingu fyrir Kristjáni Friðbergssyni en sjálfum sér og væntanlega má þar kenna Stokkhólmsheilkennum þar um.

Ragnar Kristján Agnarsson (IP-tala skráð) 13.1.2013 kl. 15:50

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ragnar.

Mér datt eiginlega í hug að þetta snérist um lánamál í Landsbankanum, eða réttara sagt lánafyrirgreiðslu.

Og ég held að það sé líka skýring þess að fjölmiðlaumræða lognaðist út þegar umræðan snérist ekki bara um kyn eitthvað, heldur líka rökstuddar ásakanir um þjófnað, um fjármálamisferli þar sem fé var haft út úr ríkissjóð á röngum forsendum, og það sem var alvarlegast af öllu, um meint morð sem var afgreitt með þöggun.

Allavega vona ég að spilling sé skýring, ekki algjör vanhæfni íslensks fjölmiðlafólks.

En takk fyrir upplýsingarnar, sem slíkur getur bakgrunnur þessa fólks verið eins hlutlaus og hægt er miðað við aðstæður, en aðferðarfræðin er jafn röng fyrir því eins og ég rakti ýtarlega hér að ofan í andsvari mínu til Mofa.

Einnig væri fróðlegt að vita hvort botn fékkst í arfsmálið sem erfingjar gamla mannsins voru sáttir við.  Ekki það að náungi eins og ég get engu breytt, en við vissar aðstæður get ég vakið athygli á  þar sem þetta blogg hefur ágæta útbreiðslu þegar það er virkt.

Málið er að ég varð reiður þegar ég las þetta bréf Guðrúnar og er eiginlega bara ennþá reiður, og þá út í samfélagið sem brást, sem lét valdníðsluna viðgangast.

Þess vegna hef ég fylgst með þessari umræðu hér á Mbl.is, og pistlarnir mínir þrír sem tengjast umræðunni um misnotkun á börnum, eru skrifaðir vegna þess að ég vildi fá tækifæri til að vekja athygli á þessu.

Margt smátt getur vonandi haft einhver áhrif.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.1.2013 kl. 21:03

16 identicon

Ómar ég er þér þaklátur fyrir skrif þín og á vekja athygli á sinnuleysi stjórnvalda og er ég þér sammála um að það að vekja atygli á óréttlæti er varða á leið að réttlætinu.

Þöggun er slæmt óréttlæti og gerir vondan málstað verri, en þá er þöggun er nefnd að þá kemur dauði Einars bróður míns og Sturla vinar okkar bræðra upp í huga minn en sjálfur hef ég aldrei viljað tala um Kumbravogsgettoið og börnin þar í sambandi við dauða Einars og Sturlu sem voru drepnir og fundust á uppsettum vettvangi í Daníelslipp 1985, en ástæða þess að ég hvorki nefni Kumbravog né önnr tengsl út í samfélaginu er að alvarleiki mannsmorðs er svo mikill að eitthvað fast í hendi þarf að vera til staðar til að grunsetja menn eða kringumstæður.

 Varðandi arfinn sem hvaf í hendur Kumbaravogsfeðga að þá get ég upplýst að engi nðurstað hefur fengist í það mál og fæst kaski aldrei, en ég veit þó að Jóhanna Agnarsdóttir er ekki enn hætt að berjast fyrir þeim arfi sem henni og systkynnum hennar bar.

Ragnar Kristján Agnarsson (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 01:48

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Morð er víst hámark þöggunarinnar Ragnar.

En þetta er vandmeðfarið, ég tengi þetta ekki við umfjöllunina um Kumbaravog, en það má samt ekki gleymast að upphaf þess harmleiks sem endaði í Daníelsslipp er sú ákvörðun barnaverndunarnefndar að vista Einar í víti, og loka síðan augunum fyrir öllu sem þar gerðist.

Eins er þetta með þjófnaðinn á arfinum, og annað orð er ekki hægt að nota út frá gögnum málsins, að hann er líka á ábyrgð samfélagsins.

Það er ekki mikið hægt að gera annað en að taka afstöðu, og taka ekki þátt í þögguninni þegar svona mál koma upp.  Að hafa kjark til að tjá sig, að hafa manndóm til að þegja ekki.

Enda eins gott því þetta er eitt af þeim málum sem Lykla Pétur spyr um þegar þar að kemur.

Ég þakka þér fyrir upplýsingarnar og hvað mig varðar er þetta mál geymt, en alls ekki gleymt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2013 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 1226
  • Frá upphafi: 1412780

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1085
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband