8.1.2013 | 00:00
Upprisan.
Á ákveðnum tímapunktum þarf fólk að taka afstöðu hvernig manneskjur það er.
Við þekkjum þetta öll þegar við gerumst foreldrar, líka þegar við náum miðjum aldri og gerum upp hvað áunnist hefur á vegferð okkar, er sá ávinningur í samræmi við drauma okkar og þrár þegar lagt var að stað út í lífið, erum við þá ánægð eða er það eitthvað í lífi okkar eða persónu sem við viljum breyta og bæta.
Einnig má nefna þegar foreldrar okkar gerast gamlir, þá þurfum við oft að endurgjalda þeim ástúðina og alúðina sem við gátum gengið að vísu þegar við voru ung, sem og börnin okkar þegar þau komu í heiminn. Hvað erum við tilbúin að leggja á okkur, hvað getum við lagt á okkur??
Erfiðast er líklegast sá tímapunktur þegar börnin okkar missa fótfestuna í lífinu, vegna veikinda eða einhvers annars, til dæmis óreglu, hvað getum við þá gert, hvað erum við tilbúin að leggja á okkur.
Og þegar á reynir þá er það ótrúlega mikið, mun meira en fólk gat ímyndað sér áður en erfiðleikarnir bönkuðu á dyr.
Styrkur þess, seigla, hugrekki og þor, viljinn til að bæta úr, til að sigra erfiðleikana, það var alltaf eitthvað eftir þegar á reyndi, það var aldrei gefist upp.
Þannig er lífið, þannig er manneskjan, í kjarna sínum góð, og tilbúin að berjast fyrir sig og sína.
Og tilbúin að verja sig og sína.
Þessir eiginleikar okkar eru faktur, þeir eru staðreynd, þeir búa inní okkur, við getum ekki afneitað þeim.
Okkur er áskapað að verja lífið.
Einn svona tímapunktur blasir við okkur í dag, við okkur öllum, okkur öllum sem búa í þessu landi og eigum líf sem þarf að vernda.
Í tveimur pistlum í dag hef ég fjallað um Stríðið gegn Íslandi og um Ógnina sem mun eyðileggja framtíð barna okkar, fái hún óáreitt að ræna byggðir og ból.
Allt vitiborið fólk skilur efni þessara pistla, allir feður og allar mæður. Aðeins þeir sem mara tómsins hefur heltekið sýna ekki viðbrögð, en þeim er ekki sjálfrátt, vitund þeirra hefur yfirgefið raunveruleikann og horfið inní víðáttur tómsins.
Í fyrri pistli mínum um Samstöðu um lífið benti ég á þá nöturlegu staðreynd að íslenska stjórnmálastéttin hefði selt þjóð sína í skuldaánauð í samkomulagi sínu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
"Á Íslandi erum við með stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka sem sömdu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um skuldaánauð barna okkar um ókomna tíð. Greiðslubyrði ríkissjóðs vegna vaxta og afborgana átti að vera um 60%, strax og hefði farið mjög fljótlega yfir 70% þegar neikvæð áhrif slíkrar blóðtöku á hagkerfið hefðu komið fram.
Sagan kann aðeins tvö dæmi um hraklegri nauðsamninga, þegar AGS tók Argentínu á lífi um síðustu aldamót og þegar Rómverjar ætluðu að knésetja Karþagó eftir seinna Púnverska stríðið. Sagan kallar ekki allt ömmu sína en svona dæmi á hún fá, það eru takmörk fyrir hvað jafnvel hinir svívirðulegustu einvaldar hafa treyst sér til að leggja á þjóðir sínar.
En ekki íslensku stjórnmálamönnum, þeir seldu börn okkar án þess að blikna. Hvort sem rótin var illmennska, aumingjaskapur eða hrein og klár heimska, skiptir engu máli. Þeir gerðu þetta, þeir skrifuðu undir nauðasamninginn, þeir brutu allar brýr við siðað samfélag.".
Aðeins ICEsave andstaða þjóðarinnar kom í veg fyrir að þetta samkomulag gekk eftir, fyrsta andspyrna hins venjulega manns sem reis upp án nokkurs stuðnings frá elítu landsins.
En ástæða þessa pistils mátti rekja til samstöðuleysis innan Samstöðu, flokksins sem ég hafði kosið að ljá lið mitt.
Fólk mun samt kjósa þennan ljótleika yfir sig, alla vega eins og staðan er í dag. Andófið gegn fjórflokknum hefur ekki náð að móta valkost. Það er ótaktískt og í hreinskilni sagt heimskt. Eða hvernig á að túlka áherslu þess á nýja stjórnarskrá eða þjóðnýtingu kvótans???? Að velja mál sundrungar þegar það þarf svo mjög á að halda að ná samhljóman við hinn þögla meirihluta þjóðarinnar sem þráir valkost en mun aldrei kjósa rugl. Til þess eins að tryggja að valdinu verði ekki ógnað. Að skuldaánauðin gangi eftir.
Að ekki sé minnst ógrátandi á sundrunguna, öll flokksbrotin sem mynda aðeins eitt óskiljanlegt gjamm í eyrum venjulegs fólks. Eins og það sé nóg að segja eitthvað til að það gerist. Þess vegna er rifist um það sem er sagt og þar með tryggt að ekkert sé gert.
Síðasta dæmið um hina algjöra ógæfu Andófsins er afsögn Lilju Mósesdóttur vegna einhvers sýndartaps á fylgi Samstöðu. Fylgi er mælt í kosningum, ekki skoðanakönnunum. Fylgi er afleiðing stefnu og trúverðugleika, trúverðugleika sem Lilja gaf Samstöðu. Trúverðugleika meðal almennings sem hún ein hefur af öllu því góða fólki sem berst gegn óhæfu valdsins að ætla sér að skuldaþrælka börnin okkar um ókomna tíð. Trúðverðugleika sem Lilja ávann sér með því að þora rísa upp gegn valdinu, eitthvað sem engin önnur persóna innan þess hefur þorað eða gert. Og vegna þess að hún er sjálfum sér samkvæm í einörðum málflutningi sínum í þágu heimila landsins og í þágu framtíðar barna okkar.
Staðreynd, raunveruleiki sem Sýndin bar ofurliði. Sýndin, röflið, tuðið. Það þarf ákaflega mikla grunnhyggni til að halda að röfl og tuð muni ná til að fella valdið. Samt eru ákaflega margir í hópi Andófsins fastir í hjólfari hennar og það hjólfar tætir upp velli Samstöðunnar svo valdið þarf ekkert að óttast.
Liljur vallarins eru þagnaðar. Ljótleikinn blasir við.
Og fórnarlambið er lífið sem við sórum að vernda. Manndómur okkar er ekki meiri en það. Við kjósum að loka augum og sjá ekki það sem er. Að eina von þjóðarinnar, að eina von barna okkar felst í Samstöðu um lífið. Að allt þetta góða fólk sem er innan fjórflokksins og utan, að það nái að sameinast í staðfastri vörn fyrir framtíð barna okkar. Að það víki egóinu til hliðar og átti sig á að það er fullorðið fólk með aðeins eina skyldu. Að tryggja viðgang lífsins þegar að því er sótt.
Að fólk sameinist um það sem það getur sameinast um og láti hitt liggja milli hluta.
Að það sameinist um staðfasta vörn gegn skuldaánauðinni, að það sameinist um réttlæti handa almenningi, að það sameinist um Sýn á nýtt og betra Ísland.
Nýtt og betra Ísland er einfaldlega landið sem við viljum ala börn okkar uppí án átaka og sundrungar. Forsenda þess er réttlæti, sanngirni og að allir fái sitt tækifæri til mannsæmandi lífs. Að það sé þjóðfélag mannúðar og mennsku. Þjóðfélag sem bregst við kreppum og efnahagserfiðleikum með það skýra markmið að leiðarljósi að enginn farist vegna þess sem gerst hefur, að öllum sé hjálpað af þeim mætti sem þjóðin býr yfir á hverjum tíma. Að eitt sé yfir alla látið ganga, að við séum eitt, að við séum ein fjölskylda. Að þjóðfélag okkar sé fallegt og gott.
Eins og við erum öll.
Í mínum huga var Lilja Mósesdóttir eini stjórnmálamaðurinn með trúverðugleik til að leiða andóf hins venjulega manns gegn kerfi sem hafði selt börn hans í hendur skuldaeiganda gömul bankanna. Að fylkja sér um hana var okkar eina von um að geta skákað stjórnmálamönnunum sem gista vasa vogunarsjóðanna.
Jafnframt dró ég upp mynd af því sem fólk þyrfti að skilja ef það ætlað að mynda nógu sterkt afl til hrekja þrælahaldarana á flótta. Lykillinn er samstaða um það sem hægt er að sameinast um.
Og það eina sem fólk með ólíkan bakgrunn og ólíkar lífsskoðanir getur sameinast um er vörn á því góða þjóðfélagi sem við eigum í dag. Ekki til þess að varðveita það í núverandi mynd um aldur og ævi heldur til þess að við höfum eitthvað í höndunum til að bæta og betra framtíð barna okkar til heilla.
Kallast þróun þar sem mannúð og mennska er leiðarljósið sem lýsir ferðinni inní framtíðina.
Samstöðuleysið var meinsemd Samstöðu en fyrst og síðast var það einsemdin, margir vildu en fáir gerðu. Á svona tímum, þegar vörn mennskunnar skiptir svo miklu máli, þá sýgur þessi einsemd þrótt úr fólki, tærir það upp, þar til aðeins skelin ein er eftir.
Ég vissi af þessu, var fullkunnugt um hvert stefndi, hafði vitað það frá því í sumar.
Þegar skoðanakannanir sýndu ekkert fylgi þá sló ég inn þessa stemmu í öðrum pistli mínum um Samstöðu um lífið.
"Þögnin um Samstöðu sýnir að hún stendur fyrir eitthvað sem valdið óttast, sem hinir þúsund milljarðar óttast, sem verkfæri ESB óttast. Hún sýnir að það er von í samfélaginu, að vonin lifir í einhverjum grænum dal, vex þar og dafnar og hótar valdinu að einn daginn spretti hún fram, fullþroskuð eins og Liljur vallarins.
Þagnarmúrinn um Samstöðu er ekki sterkur. Hvert og eitt okkar sem eigum líf sem þarf að verja, getum rofið hann, klifið yfir hann, grafið okkur undir hann. Og tekið þátt í því merka starfi sem þar fer fram.
Að skapa von handa þjóð sem á enga framtíð ef vald fjármagnsins fær sitt fram. Að skapa valkost handa fólki sem er búið að fá nóg af bullinu og ruglinu, sem valdið samviskulega kostar, sem veður uppi í þjóðmálaumræðunni. Að skapa valkost handa fólki sem fram að þessu hefur stutt sinn flokk, en sér nú að sá flokkur muni ekki verja framtíð barna sinna, og tilveru og sjálfstæði þjóðar okkar. Að skapa tæki og tól sem hægt er að nota til að brjóta niður múra valdsins sem umlykja hið skítuga fjármagn sem nærist á blóði og þrælkun hins venjulega manns. Að skapa samstöðu fólks með ólíkan bakgrunn, með ólíkar lífsskoðanir en á það sameiginlegt að eiga líf sem þarf að vernda og vilja til að vernda það.
Og skapa þannig nýtt og betra samfélag, börnum okkar til heilla.
Þetta er hægt, það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það þarf aðeins að virkja andann í brjósti okkar, og finna fyrir trúnni á allt hið góða í þessum heimi, í sjálfum okkur, í náunganum, í almættinu. Þannig náum við að vernda sakleysið, lífið sem ekki ennþá hefur fengið tækifæri til að lifa lífinu með gleði sínu og sorgum, og uppgötva síðan hina tærustu tilfinningu af öllum, að eiga sjálft líf sem í sakleysi sínu hefur engum gert neitt illt, trúir á allt hið fallega og góða, og á sjálft framtíðina fyrir sér.
Þessa framtíð eigum við að verja með öllum okkar krafti, öllum okkar sálarstyrk, vitandi það að ef við gerum það ekki, þá mun enginn annar gera það fyrir okkur. Það er ekkert val, valdið hefur þegar ráðist á okkur, það hefur þegar hamrað skuldahlekkina sem það vill leggja á framtíð barna okkar. Það hefur þegar hafið borgarastyrjöldina um framtíð samfélags okkar, þjóðar og sjálfstæðis."
Og benti á valkostina, að deyja standandi eða falla sitjandi,
Sá fyrri þýðir að vonin lifir, að það sé möguleiki að verjast vogunarjóðunum, að það sé möguleiki að verja sjálfstæði þjóðarinnar, að það sé möguleiki að hægt sé hindra skuldaþrælkun barna okkar, sú seinni þýðir að það verður sem valdið vill. Og það verður ef við kjósum valdið af gömlum vana, sitjum hjá þegjandi og hljóð.
Með sjálfum mér ákvað ég allavega að halda í stríðið standandi og ætlaði að nýta þetta blogg sem vettvang til að herja á valdið.
En það er ekki nóg að herja ef enginn valkostur er í boði. Og tilkynning Lilju um að hún væri að hætta kom mér ekki á óvart.
En var jafn sár fyrir það.
Liljur Vallarins var upphaf af þríleik um vonina og það sem þyrfti að verða að veruleika til þess að þjóðin ætti þó ekki væri nema eina von um framtíð gegn þeirri Sýn sem Michael Hudson orðaði í skarpri greiningu á markmiðum hins skítuga fjármagns vogunarsjóðanna gegn íslensku þjóðinni.
"Því verra sem efnahagsástandið er, því sterkari eru lánveitendurnir. Þetta er ávísun á efnahagslegt sjálfsmorð þar sem dýpkandi kreppa hneppir æ fleiri í skuldafangelsi." að landsmenn tapi unnvörpum eignum sínum og félagslega kerfið verði lagt í rúst? ".
Hvernig getur hinn venjulegi maður sigrað ógnarafl sem hefur keypt upp stjórnmálin og fjölmiðla landsins, ógnarafl sem enginn málsmetandi maður þorir gegn??
Hvernig átti Samstaða að bregðast við þeirri staðreynd sem Styrmir Gunnarsson lýsti svo vel þegar hann mat stöðu Samstöðu eftir brotthvarf Lilju??
"Pólitískar afleiðingar þeirrar ákvörðunar Lilju Mósesdóttur að hætta afskiptum af stjórnmálum verða hins vegar þær að Samstaða hefur litla von um að ná sér á strik í kosningabaráttunni í vor nema einhverjar miklar breytingar verði á þeim mannafla, sem flokkurinn hefur yfir að ráða. Samstaða hefur ekki mælzt með fylgi sem máli skiptir síðustu mánuði og mikið þarf að gerast til að þar verði breyting á."
En aðalatriðið samt eins og Styrmir bendir réttilega á er að ný stjórnmálasamtök hafi eitthvað að segja.
Og Lilja Mósesdóttir hafði mikið að segja um allt sem skipti vörn þjóðarinnar máli. Vandi Samstöðu var því einsemdin, fólk vildi heyra þessa rödd, heyra þessa stefnu, en ekki nógu mikið, ekki það mikið að það vildi sjálft leggja eitthvað af mörkum.
Um það fjallar þríleikur minn sem þessi pistill er lokahnykkurinn á. Minn lengsti pistill sem ég hef samið á lífsleiðinni og um leið sá mikilvægasti til þessa. Því í honum kem ég frá mér hugsun sem hver og einn sem kallar sig faðir og hver og einn sem kallar sig móðir þarf að taka afstöðu til.
Þetta er pistill sem menn lesa á síðkvöldi og hugsa svo um næstu vikurnar. Sú hugsun og sú aðferðarfræði sem ég fjalla um og dreg hér saman er sú eina sem getur fellt valdið.
Það er engin önnur hugsun, það er engin önnur leið.
Það er ekkert val, eyðing þess samfélags sem við þekkjum og ólumst upp í er ekki valkostur, skuldaánauð barna okkar er ekki valkostur.
Í Liljum Vallarins benti ég á þessa staðreynd að það værum bara við, það væri enginn annar.
"Allt er forgengilegt, allt á sér sinn tíma.
Núna hafa Liljur Vallarins fölnað, fnykurinn sem leggur af skarnhaugnum hefur kæft þær. Græðlingur þeirra lifir í afskekktum dal þar sem Valkyrjur Vallarins hlúa að honum í akri vonar og trúar. Græðlingur innan um aðra græðlinga sem munu til samans mynda það afl, þann kraft sem þarf til að hinn venjulegi maður endurheimt samfélag sitt úr höndum Mammons.
Þó Liljurnar hafi fölnað þá er það okkar að blómstra. Því við öll erum innst inni eins og hið fegursta blóm. Sem býður þess að spretta upp á móti sólinni og lífinu. Vökvað af almættinu sem er uppspretta kærleikans, verndari sakleysisins. Það er okkar að mynda Samstöðuna um lífið. Og það munum við gera með hækkandi sól.
Allt á sér sitt upphaf. Okkar upphaf er þegar liðið.
Við erum ekki lengur sáðkorn lífsins, við erum græðlingar sem sprettum upp um allt samfélagið. Fólkið sem á líf sem þarf að vernda og hefur viljann til að vernda það. Við erum blómin. Blóm lífsins. Og vonin er okkar.".
Samstaðan um lífið, sú eina samstaða sem fólk getur náð.
Til þess þarf Hugrekki til að sýna rétta breytni, eða eins og pistillinn hét, Það krefst hugrekkis að sýna rétta breytni.
"Kjarkleysið, að þora ekki að breyta rétt, er eini vandi þjóðarinnar. Við vorum ekki alin upp við að horfa í hina áttina þegar náungi okkar á í neyð. Við vorum ekki alin upp til að lúta stjórn níðinga sem engu eira í þágu fjármagns og gróða. Við erum ekki svona, við höldum það bara. Við erum fólk, góðar manneskjur. Og nú er okkar tími runnin upp.
Fólkið sem reis upp fyrir okkar hönd, því er þrotinn kraftur því við þorðum ekki að styðja það.
Við óttuðumst aðhlátur myrkraraflanna, við óttuðumst að verða skotspæni keyptra sérfræðinga sem verja hina efnahagslegu hryðjuverkastarfsemi, sem verja hina efnahagslegu heimsku sem blóðmjólkun heimila og fyrirtækja er. Við vorum hrædd við "góða fólkið", góða samfylkingarfólkið sem er alltaf svo gott við fólkið nógu langt í burtu, að það myndi hlæja að okkur, gera grín að okkur þegar við segðum að svona er ekki gert við náungann í næsta húsi, að þetta er ekki rétt breytni þó að ríkisstjórn góða fólksins sé við völd. Við vorum hrædd að það myndi útskúfa okkur úr sína fína góða samfélagi, samfélagi hins rétthugsandi fólks.
Við erum eins og hvítu húsmæðurnar í Jackson Mississippi sem vissu innst inni að framkoma þess og breytni við litað vinnuafl sitt var röng, ókristileg, en þær þorðu ekki að segja skoðun sína og meiningu því þær óttuðust félagslega útskúfun. Við eins og þær, höfum ekki hugrekki til að sýna rétta breytni.
Þess vegna er þjóðfélagið á heljarþröm, reyrt niður á fórnaraltari dýrkenda Mammons, bíðandi eftir að amerísku vogunarsjóðirnir komi með krumlur sínar og taki úr því hjartað, heimili landsins. Vegna þess að okkur skortir kjark til að vera þær manneskjur sem við erum. Gott fólk sem þekkir muninn á réttu og röngu, og vill breyta rétt.
En þorðum ekki að hjálpa Liljum Vallarins þegar þær risu upp og gagnrýndu óréttlætið.
Nú er komið að okkur. Við getum ekki lengur flúið inní heim sjálfsblekkingarinnar. Við getum ekki lengur afsakað okkur með því að við erum bara venjulegt fólk. Ekki fræg, ekki góða fína fólkið, ekki fólkið sem er sjálfskipað að leiða baráttuna gegn ranglæti eða yfirgang valdaafla og valdsmanna. Það eru aðeins við, það er enginn annar. Það er enginn annar sem mun verja lífið sem við ólum. Og varnarlaust á vergangi getum við ekki skilið það eftir.
Kjarklaus, hrædd, það skiptir ekki máli. Frumhvötin sjálf, að verja líf sitt er öllu sterkari. Og það eina sem getur hamið og komið böndum á óargadýrin er krafa um rétta breytni, rétta hegðun. En við getum ekki krafist þess af öðrum ef við höfum ekki sjálf það hugrekki sem þarf til að sýna slíka breytni.
Við erum upphaf og endir alls. Við hin venjuleg manneskja.".
Þegar upp er staðið snýst Upprisa mannsins um rétta breytni, að hafa Hugrekki, kjark, þor.
Það þarf kjark til að vera manneskja, þor til að standa með mennskunni, hugrekki til að þegja ekki þegar það þarf að:
".... segja að svona geri maður ekki öðru fólki. Að maður svelti ekki samlanda sína í landi alsnægta, að maður hengi ekki fólk í skuldaról verðtryggingarinnar. Það þarf ekki að þekkja hin hagfræðilegu rök, það dugar kristinni manneskju að vita að þetta er rangt. Og það fyrirgerir sálarheill sinni ef það lítur undan á meðan náunginn er beittur rangindum. Það er ok kristninnar sem það getur ekki vikist undan. Því trúin gerir kröfu um rétta breytni gagnvart náunganum.
"Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig, Ekkert annað boðorð er þessum meira." Röng breytni er ekki valkostur".
Fólki finnst aðeins rangindi röng á meðan þau bitna á því sjálfu. Að rangt sé rangt, og rétt sé rétt, óháð aðstæðum þess, það er því fyrirmunað að skilja.
Þess vegna dafnar frjálshyggjan, þess vegna dafnar hið blóðuga fjármagn, þess vegna líðst þrælahald alþjóðavæðingarinnar. Þess vegna er heimurinn á heljarþröm. Því fólk skilur ekki inntak boðskap lífsins. Fólk vill vel en styður illt.
Ástandið væri ekki félegt ef manneskjan væri ekki í eðli sínu góð, með fallega sál, með bjarta áru. Þó hið rökræna skilji ekki Boðskap lífsins, þá skilur sálin hann. Þess vegna dó boðskapur lífsins ekki út, hann lifir í hjörtum okkar. Bíður þess að springa út í Byltingu lífsins. Bíður þess að einn stígi fram og játist honum, svo næst, og næsti og næsti.
Ferli sem er löngu hafið. Hófst fyrir 2.000 árum síðan. En vantar samt herslumuninn að verða raunverulegt afl í mótun tímans, í mótun þeirrar framtíðar sem við innst inni viljum börnum okkar og barnabörnum. Herslumun sem verður ekki nema ég og þú, við öll sem eigum líf sem þarf að vernda, stígum fram og styðjum þennan boðskap.
Fylkjum okkur um Aðferðafræði lífsins, Hagfræði lífsins, sem Boðskapur lífsins mótar og þróar.
Allir eiga rétt til lífs, það á ekki að gera öðrum það sem maður vill ekki að manni sjálfum sé gert, maður á að líta eftir bróðir sínum, maður á að elska náunga sinn.
Er ekki flókið, er svo einfalt. Til þess þarf aðeins kjark, þor, hugrekki. Til að breyta rétt, til að hafna röngu.
Þetta afl myndast þegar við hættum að benda á aðra, hættum að treysta á aðra. Þegar við sjálf stígum fram. Við hið venjulega fólk. Hættum að láta ráðskast með okkur, hættum að láta aðra móta samfélag okkar.
Við getum þetta, eina hindrunin er óttinn, óttinn að vera til. Hugrekkið sem þarf til að yfirvinna þennan ótta býr innra með okkur. Það varð til um leið og við ólum lífið sem þarf að vernda. Við þurfum aðeins að opna skápinn sem við geymum það í og hleypa því út. Þá fær ekkert staðist okkur, okkur hina venjulega manneskju.
Því við erum lífið sem vill lifa af. Og við munum lifa af. Þá og þegar við stígum fram. Og myndum aflið sem ekkert fær sigrað.
Lífið sjálf."
Við erum að tala um sjálfa Upprisu mannsins, þegar hinn venjulegi maður rís á fætur og tekur örlög sín í eigin hendur. Hættir að vera leiksoppur höfðingja, siðspillts fjármagns, siðblindra manna.
Upprisa mannsins í víðustu merkingu á sér stað þegar hann stígur næsta skref siðmenningarinnar og hættir að líta á dráp sem valkost í deilum. Um þá upprisu hef ég skrifað áður og ætla ekki að endurtaka hér, ef reynt er að stíga of stórt skref mun klofið klofna og fóturinn því strax dreginn til baka.
Upprisan gegn vogunarsjóðunum, gegn valdinu sem þeir hafa keypt, gegn fólkinu sem seldi okkur í þrældóm skuldanna, er upprisan sem þessi pistill fjallar um.
Hvaða skilyrði þurfa vera til staðar, og eru ekki þegar nefnd, til að fólk rísi upp, og rísi upp saman svo afl þess verði valdinu yfirsterkara??
Svarið er ákaflega einfalt, því eftir því hefur verið leitað áður. Og það þótti nógu merkilegt til að vera skráð niður í bók sem er ennþá lesin.
Það er svarið sem ríki maðurinn fékk á sínum tíma.
"Eins er þér vant; far þú og sel allar eigur þínar og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni; kom síðan og fylg mér.".
En þetta var ekki svarið sem ríki maðurinn vildi heyra, það er sagt að hann hefði orðið dapur og farið sína leið, hann vildi himnasæluna en vildi ekki fórna eigum sínum fyrir hana.
Það sama gildir um manninn sem rís upp. Ef hann vill virkilega í hjarta sínum verja framtíð barna sinna, þá setur hann ekki skilyrðin, hann verður að sætta sig við þau skilyrði sem baráttan krefst af honum. Annars getur hann látið ógert að spyrja.
Hann getur ekki bent á aðra, hann getur ekki notað skálkaskjól, að hann vilji en það sé svo mikið í húfi að hann geri ekki. Hann verður að sætta sig við að það gerir þetta enginn annar fyrri hann.
Hann verður sætta sig við staðreyndir, hætta að rífast við þær, hætta að halda fram sínum skoðunum gangi þær gegn raunveruleikanum.
Hann á í stríði og hann verður að sætta sig við lögmál stríðsrekstrar. Líklegast er þetta það sem fólk á erfiðast með að sætta sig við. Að það þurfi að standa saman, að það þurfi að gera það sem þarf að gera, það þarf að lúta forystu, og það þarf að lúta aga. "Mér finnst", "ég held", "ég tel" eru ekki gild orð lengur, heldur "hvað þarf að gera", "hvað get ég gert","hvernig get ég hjálpað".
Og átta sig á þessari einföldu staðreynd sem ég benti á í pistli mínum um skæruliðann.Í stríði gilda einföld lögmál, þú berst við óvininn þar sem hann er veikastur, með þeim tækjum og tólum sem þú hefur yfir að ráða. Þú myndar bandalag við óvini óvinar þíns, alveg óháð fyrri ágreiningi við þann sama óvin óvinarins þíns, og þú herjar á þá sem starfa með óvini þínum, alveg óháð því hvort þú hafir áður átt samleið með þessum vini óvinar þíns. Þeir sem skilja þetta ekki, þeir tapa stríðum.
Þetta skildi Churchil, þess vegna var Hitler gjörsigraður, bandamenn lögðu til hliðar allan sinn ágreining á meðan stríðinu stóð.
Og hann skildi líka annað lykilatriði, þú semur ekki við illskuna, þú semur aldrei, eða átt aldrei neitt samstarf við fólk sem ætlar sér að skuldaþrælka börnin þín. Þú getur sýnt því miskunn þegar það er sigrað, en þú sýnir enga miskunn í stríðinu. Við illskuna er aldrei samið, hún heldur aldrei neina samninga, hún semur því aðeins ef hún stendur höllum fæti og þarf að kaupa sér tíma.
Eitthvað sem Hagsmunasamtök heimilanna áttuðu sig ekki á haustið 2010 þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var komin upp að vegg, og hefði ekki lifað af ef einbeitt forysta hefði leitt andóf fólksins.
Það er sagt að það sé auðveldara fyrir úlfalda að ganga í gegnum nálarauga en fyrir venjulegan mann að sætta sig við svarið við þessari spurningu.
Ég ætla því ekki að ræða þetta mál neitt frekar, hef aðeins svarað þeirri spurningu hvað hægt er að gera eftir að Liljur Vallarins fölnuðu.
Það þjónar engum tilgangi að ræða þessa spurningu frekar því þetta er eina svarið sem þeir sem spyrja vilja ekki heyra. Almennt sér vilja þeir heyra hvað þeirra menn eru góðir en hinir eru vondir. Og ef þeirra menn lenda óvart í þeirri stöðu að vera vondu karlarnir, þá er því alltaf sýndur skilningur og umburðarlyndi.
Menn kjósa sinn flokk þó hann stefni þeim í glötun.
Eini tilgangurinn við að skrifa svona pistil er að til sé svar fyrir leitandi fólk sem vill ekki aftur og aftur gera sömu mistökin, þegar það áttar sig á að allt það sem það hélt og taldi, að það gekk ekki upp.
Það myndaðist ekki neitt afl á móti valdinu, vogunarsjóðirnir tóku yfir þjóðfélagið. Þeir eru líka lúmskir og munu draga til baka sínar ýtrustu kröfur. Eins munu þeir ekki rífa þjóðina á hol í fyrstu atlögu, hún mjólkar betur í hægt kyrkjandi hengingaról vaxta og verðtryggingar, með ríkisfjármál sem smán saman standa ekki undir útgjöldum velferðarinnar.
Jafnvel eftir kosningarnar þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar tekur við, þá mun einhverju verða lofað, eitthvað útspil með verðtrygginguna, einhverjar hömlur á gjaldeyrisútstreyminu.
Svo smá saman versnar ástandið, það þarf að gera þetta og hitt, skera niður hér, einkavæða þar.
Vogunarsjóðirnir eru nefnilega ekki nein fífl, þeir kunna sitt starf.
Við erum heldur ekkert fífl, en Upprisan gerir of miklar kröfur til okkar. Hugsanlega verður það þessi næsti og næsti sem breyta einhverju að lokum.
En það er langlíklegast að öfgar mæti öfgunum, að hatur spretti upp af kúgun.
Það verður ekki gott þjóðfélag sem kemur út úr þeirri baráttu, ekki fallegt á neinn hátt.
En það er þannig þegar fallega fólkið kýs flóttann, afneitunina, telur sig ekki hafa styrk til að rísa upp. Eða það telur skotgrafir lífsins það skítugar og óhreinar að það sé ekki þess að standa þar vaktina.
Ég veit það ekki, ég veit að fallega fólkið er þarna úti í ómældu magni, en ekki mjög sýnilegt. Ekki í stríðinu við amerísku vogunarsjóðina.
En fallegt fólk er forsenda fallegs þjóðfélags.
Þessi pistill er ekki ákall til þess, aðeins samin til að láta vita að ég veit að það er til.
Maður skilur ekki mat eftir á stein handa huldufólki ef maður trúir ekki á tilveru þeirra. Það hef ég heyrt sagt eftir ömmu minni. Sem var falleg kona, falleg manneskja.
Hvað um það, mál að linni.
Stríðið hefst 28. janúar hjá okkur skæruliðinum.
Eins er það fyrirliggjandi að hlúa að Hreyfingu lífsins, hliðarsjálfsins sem þessir pistlar mínir eiginlega tilheyra. Fer samt allt eftir veðrum og vindum, og hnykkjarunum.
Hafi einhver haft þá þolinmæði að lesa alla leið niður þá þakka ég honum fyrir samfylgdina og við sjáumst í Byltingu lífsins.
Innan um Liljur Vallarins, með Valkyrjum Vallarins sem fóstra von lífsins.
Því lífið mun lifa af.
Galdur lífsins mun sjá til þess.
Upprisa mannsins mun sjá til þess.
Einn daginn, einn daginn.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 190
- Sl. sólarhring: 657
- Sl. viku: 5774
- Frá upphafi: 1399713
Annað
- Innlit í dag: 161
- Innlit sl. viku: 4925
- Gestir í dag: 159
- IP-tölur í dag: 159
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Auðvitað las ég allan pistilinn til enda Ómar minn.
"Deyr fé, deyja frændr
deyr sjálfr hit sama
en góðr orðstír deyr aldregi
hveim sér góðan getr."
Nú verður spurt um þann orðstí sem hver og einn mun skapa, eða ekki skapa og dæmast eftir í dómi sögunnar.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 03:22
Orðstýr Lilju okkar mun lifa á meðan frjáls þjóð byggir landið. Og líka á meðal skuldaþrælana sem landið mun erfa.
Sönn og heil, en dagaði upp í einsemd tregðunnar.
Það er lítið við þessu að gera Pétur annað en að kveðja og halda á vit nýrra ævintýra lífsins, það er víða hægt að lemja það afl sem Heli býður heim.
Takk fyrir að lesa Pétur, ég hef ort mína Höfuðlausn, núna er ég frjáls frá þeim skuldbindingum sem ég undirgengst með því að koma Lilju til hjálpar.
Ég reis upp og tók afstöðu, núna get ég haldið áfram mínu egóflippi sem líf skæruliðans í holu andspyrnunnar er.
Það er óþarfi að vefa meir um Upprisuna, orkan sem fer í það skilar sér ekki til baka, en tuðið og vælið er ekki lengur umborið á þessari síðu, þó í nafni Samstöðu sé.
Núna er það ICEsave, sá haus hins þríhöfða skrímslis vakti upp þetta blogg, og það mun ekki deyja fyrr en það höfuð er skilið frá búknum.
Það þarf afl til að kljást við hin höfuðin tvö, en það afl er ekki til staðar, fólki í andófinu finnst skemmtilegra að standa í tuði en baráttu lífsins, þeirri einu sem mun höggva hin tvö höfuð skrímslisins.
En Samstaða um lífið lifir, eflist og dafnar því hinn upprisni maður mun leita til hennar um leiðsögn og von.
Og styrk til að höggva í herðar niður þá sem Helið dýrka í nafni siðlausar græðgi og sérhyggju.
Auf wiedersehen Pétur, við hittumst í ICEsave stríðinu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.1.2013 kl. 09:50
Ég er sammála Ómar.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 23:54
Ég efast ekki um að þetta sé mjög góður eða jafnvel frábær pistill. En ég gaf mér ekki tíma til að lesa meira en fyrsta þriðjung hans. Margur er mér líkur í þessu efni, menn fást ekki til að lesa langa pistla. Ég segi þetta ekki til að afsaka sjálfan mig heldur til þess að benda Ómari á, að vilji hann ná til fjöldans, þá eru styttri pistlar vænlegri til árangurs. Ég hef aldrei lesið nema góða pistla frá Ómari og því trúi ég því að þessi sé góður.
Magnús Óskar Ingvarsson, 9.1.2013 kl. 21:09
Blessaður Magnús.
Ég er ekki að skrifa svona pistla fyrir fjöldann, heldur þá sem málið varðar.
Þegar fólk sér árangursleysi baráttu sinnar, þá á það tvo valkosti, að gefast upp í einhverju allsherjartuði, eða setjast niður og spá í hvað er það sem fer alltaf úrskeiðis.
Þá koma svona pistlar að gagni, ef menn vilja á annað borð leggja valdið.
Það er engin önnur leið, en það þarf að skilja af hverju það er engin önnur leið.
Þess vegna var pistillinn aðeins brot af því sem hann þurfti að vera, en öll lykilatriðin voru nefnd, en mis útfærð.
Það fer eftir nennu minni hvað ég bæti við í næstu pistlum, þetta er ákveðin heilaleikfimi sem alltaf er gaman að kljást við.
Og gæti orðið einhverjum öðrum að gagni, en þeir eru aldrei margir eðli málsins vegna.
Hins vegar Magnús er barátta æsingarinnar komin á endastöð, hún hefur engu skilað í 4 ár, nema náttúrulega ICEsave, en það var aðeins áfall fyrir fjármagnið, áfall sem það lærði af.
En Andófið ekki.
En forsenda skamma er að maður geti bent á valkost.
Eftir að Lilja hætti þá er hann ekki til staðar í dag, þess vegna er ákveðið tómarúm á þessu bloggi, varla að ég nenni að lyfta fingri nema í ICEsave, það mál er geymt en ekki gleymt.
En til hvers að skamma eitt útibú frá vogunarsjóðunum, ef það skilar aðeins stuðningi við annað útbú frá þeim???
Þetta er öngstræti sem ég sé ekki alveg leiðina úr.
Það hvarflar ekki að mér sá möguleiki að fólk rísi upp með einhverjum árangri. Öll óánægja þess er í stýrðum farvegi valdsins. Og ekkert er í sjónmáli sem fær því breytt.
Það er ekki bjart framundan.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.1.2013 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.