Ógnin.

 

"Það er með miklum þunga sem ég skrifa þessi orð. Undanfarnar vikur hafa komið fram trúverðugir aðilar sem bent hafa á þá miklu hættu sem felst í að við Íslendingar undirgöngumst að fullu þær kröfur sem erlendir aðilar eiga á þjóð okkar. Mér hefur fundist sem ekki gæti fulls skilnings hjá stjórnvöldum og sumum embættismönnum á þeim hættum sem nú steðja að Íslandi – því þessi skrif.

Vandamálið sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er að landið framleiðir ekki nægan gjaldeyri til að standa undir skuldbindingum gagnvart erlendum kröfuhöfum og jöklabréfaeigendum. Skuldbindingarnar nema í dag um 1.200 milljörðum króna og við eigum ekki gjaldeyri til að mæta þeim. Gjaldeyrisforðinn (sem er tekinn að láni) og jákvæður viðskiptajöfnuður standa sennilega undir greiðslum sem tengjast afborgunum af erlendum lánum atvinnulífsins og opinberra aðila næstu ár – en rétt svo. Til að borga kröfuhöfum þyrftum við að hafa í handraðanum á næstu árum um 1.200 milljarða króna aukalega í erlendum gjaldeyri. Við þá upphæð bætast síðan árlega um 70 milljarða vextir og arður af hlutbréfum í bönkunum. Upphæðin fer því hækkandi eftir því sem tíminn líður bak við gjaldeyrishöft.". (Tryggvi Þór Herbertsson  - Að steðjar vá.)

 

Þessi orð Tryggva Þórs er besta lýsing hefðbundins hagfræðings úr röðum hins hefðbundna hagfræðiskóla á hinni miklu ógn sem blasir við þjóðinni og Lilja Mósesdóttir gaf nafnið Sjóhengja.

Verði ekkert að gert, gangi áform vogunarsjóðanna eftir þá blasir við svo ég vitni í Tryggva; 

 

"Lífskjör myndu versna eftir því. Í mínum huga er sú leið algjörlega ófær. Hún myndi leiða til efnahagslegrar gjöreyðingar og fólksflótta. Þetta eru stór orð en því miður sönn. Til samanburðar var fyrsta útgáfa Icesave „ekki nema“ 470 milljarðar króna þegar Alþingi samþykkti kröfuna og sú síðasta um 30 milljarðar. Óþarft er að taka fram að erlend lán til framkvæmda yrðu með öllu útilokuð við þessar kringumstæður vegna skuldastöðu landsins.".

 

Sem eru mörg orð yfir efnahagslega og samfélagslega AUÐN.

 

Ástæða þess að ég vitna í Tryggva er sú að fyrir utan að vera hefðbundin hagfræðingur hallur undir pólitísk hagtrúarbrögð Frjálshyggjunnar, þá er hann þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Það þarf mikið til þess að maður með hans bakgrunn mæli þessi orð, sérstaklega vegna þess að stefna flokksins er að láta eins og þessi vandi sé ekki til.  

Svo ég vitni aftur í Tryggva;

 

"Fram til þess hafa stjórnvöld að mestu litið á vandamálið sem hér er lýst sem endurfjármögnunarvanda. Við þyrftum einfaldlega að fá lánað fé erlendis, losa erlenda aðila út og síðan yrðu lánin greidd til baka á næstu árum og áratugum. Sú leið gengur hinsvegar ekki upp. Jafnframt eru hugmyndir, m.a. ég hef lagt þær fram, sem byggjast á að ríkið skipti á krónum og skuldabréfum í erlendri mynt óráð – gleymum þeim.".

 

Það á að gleyma tillögum flokksins, þær virka ekki.

Samt fær Sjálfstæðisflokkurinn 36% stuðning þjóðarinnar við að stuðla að efnahagslegu gjaldþroti hennar.

Sjálfstæðismenn virðast ekki eiga börn, virðast ekki eiga afkomendur, og eiga allir sem einn varasjóð sem gerir þeim kleyft að flýja land eftir að þeir hafa afhent amerískum vogunarsjóðum land okkar.

Í þessu eins og í ICEsave eða í skuldamálum heimilanna virðast þeir styðja ríkisstjórnina í þjónkun hennar við erlent fjármagn.

 

Sjálfstæðisflokkurinn er valkostur þjóðarinnar gagnvart ríkisstjórnarflokkunum, Samfylkinguna, VinstriGræna, Bjarta Framtíð og Dögun.

Askan eða eldurinn, vont eða verra.

Efnahagsleg örbirgð, landflótti er niðurstaða beggja kosta.

 

Ég minni á lýsingu Michael Hudson á því sem býður þjóðarinnar þegar stríðinu um Ísland er lokið með fullum sigri vogunarsjóðanna.

 

"að landsmenn tapi unnvörpum eignum sínum og félagslega kerfið verði lagt í rúst, ..... og koma hér á samfélagi örfárra ofurríkra lánadrottna og svo örsnauðs almennings? Það er raunveruleg hætta á að hér myndist ný stétt fjármagnseigenda sem stjórna muni landinu næstu öldina eða svo...... að leggja samfélagið í rúst, selja auðlindir sínar eða koma á gríðarlegri stéttaskiptingu fjármagnseigenda og skuldara.".

 

Efnahagsleg gjöreyðing, landflótti, ekki mín orð heldur þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem að einhverjum ástæðum þorði að segja satt.  Og er ennþá lifandi, en umlukinn þagnarmúr valdsins, þagnarmúr flokkseiganda.

 

Þetta er ógnin, þetta er hinn alvarlegi veruleiki sem blasir við eftir kosningar.

Skátadrengirnir í andófinu sem halda að allir séu vinir bara ef þeir segjast vera á móti, óháð því hvort þeir í raun manni skotgrafirnar gegn vogunarsjóðunum eða eru í verktöku hjá þeim við að kasta umræðunni í fjósaflór hávaða og lýðskrums, þeir verða að gera það upp við sig hvort þeir séu feður eða drengir sem þurfa aldrei að fullorðnast.

Þeir verða átta sig á að það er enginn steinn þarna úti sem dropinn er að hola.  Valdið er ekki að láta undan, valdið er að undirbúa lokaatlögu sína að þjóðinni.

Og það er enginn dropi þarna út, hann er aðeins sýnd til að blekkja fólk á meðan valdið er að glíma við vanda sinn, lýðræðið.  Blekkingin felst í að telja fólki í trú um að einhverjir títuprjónar nái að rjúfa múra valdsins.

 

Málið er að það er holskefla þarna úti og hún er að skella á ströndum þjóðarinnar, mun færa hana í kaf, drekkja velferð og framtíð barna okkar.

Í dag erum við eins og túristarnir sem hlupu fagnandi niður ströndina að elta sjóinn sem virtist vera hverfa á braut, sjálfsagt trúandi því að þeir væru dropinn sem sjórinn hræddist.

Við erum eins og ómálga börn sem enga hættu skynjum því við trúum að við séum vernduð fyrir ógnum og hættum lífsins.

 

En ómálga börn eiga ekki líf sem þarf að vernda.

Saklausir skátadrengir eiga ekki líf sem vill fá að lifa.

Við fullorðnumst þegar við eignumst börnin okkar, þá berum við ábyrgð á lífi.

Lífi sem bað ekki um að verða til, en varð til vegna þess að við uppfylltum skyldur okkar við lífið með því að geta af okkur nýtt líf.

 

Öðluðumst þar með ábyrgð og skyldur.

Við uppfyllum ekki skyldur okkar með því að bjóða börnum okkar uppá framtíð skuldaþrælsins.

Ábyrgðin gagnvart lífinu sem við ólum krefst þess að við sameinumst og verjumst Ógninni sem amerísku vogunarsjóðirnir eru.

Að við leyfum ekki skuldareigendum föllnu bankanna að yfirtaka landið okkar.

Þess vegna verðum við núna, ekki seinna, að rísa upp og sýna kjark, hugrekki, þor.

 

Um þá upprisu mun síðasti pistill minn í þríleiknum sem hófst með Liljur Vallarins fölna, fjalla. 

Ef við skiljum ekki inntak hans, þá er þetta búið.

Flóknara er það ekki.

Kveðja að austan.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er alveg rosalegt Ómar og maður skilur bara ekki hvað er í hausnum á þessu

fólki sem er á þingi. Því virðist bara vera alveg sama um þjóðina svo lengi sem þau

fá allt sitt tryggt í eftirlaunum og allskonar fríðindum. Hvað þarf til svo það vakni

og fari að sinna sínum störfum í þágu þjóðar...??? Ég bara spyr. Á maður að trúa

því að þeim sé bara alveg sama..?? Ef svo er, er allur þingheimur landráðamenn.

Ég fæ ekki séð betur.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 15:45

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

22 Nov 2012
by lillo

Á félagsfundi Dögunar 30. október síðastliðinn kynnti málefnahópur um efnahagsmál drög að efnahagsstefnu og voru þau drög samþykkt með þeim formerkjum að áfram yrði unnið út frá þeim.

Hér eru helstu efnisatriði draganna:

Inngangur

— Ísland er ríkt land þegar mið er tekið af landsframleiðslu á hvern einstakling. Þess vegna eru forsendur fyrir því að allir á Íslandi hafi mannsæmandi kjör.

— Dögun metur almenna hagsæld en ekki gróða fárra.

— Hverfa þarf frá hugmyndum um að hagur banka eða annarra lánastofnana sé þungamiðja tilverunnar.

— Afrakstur framleiðandi atvinnugreina fer ekki í aukna framleiðslu og afrakstur almennings ekki í atvinnusköpun heldur rennur hvorutveggja í vasa banka og fjármagnseigenda.

Lýðræðisumbætur

— Skattgreiðendur eiga að hafa aðgang að upplýsingum um gjaldþrota fjármálafyrirtæki sem ætlast er til að þeir endurreisi.

— Þetta er krafa um gagnsæi almenningi til handa og um leið takmörkun á bankaleynd. Þetta er krafan um að lýðræðisleg gildi séu meira virði en gildi fjármagnsins.

— Við viljum sjá aukið vægi samvinnufélaga, gagnkvæm almannafélög (sparisjóði/tryggingafélög) og sjálfseignafélög (ekki hagnaðardrifin).

— Aukna lýðræðisvæðingu innan hagkerfisins/fyrirtækja.

— Dögun vill að bókhald ríkis og sveitarfélaga sé opið á netinu.

Eignarhald fyrirtækja

— Breyta þarf reglum þannig að alltaf sé auðvelt að rekja eignarhald fyrirtækja og koma þannig í veg fyrir leynt eignahald eða fléttur sem ekki er hægt að rekja.

— Fyrirtæki eiga ekki önnur fyrirtæki eða eignarhaldsfélög. Eingöngu einstaklingar og eignarhaldsfélög geta átt fyrirtæki. Eingöngu einstaklingar geta átt eignarhaldsfélög.

Skattaskjól

— Skattaskjól eru með mestu skaðvöldum í dag.

— Þau ryksuga til sín fjármuni sem eru aldrei skattlagðir.

— Skattar eru grundvöllur þjónustu hins opinbera og lykillinn að velferð og þróun.
Skattar eru í raun samfélagssáttmáli sem stuðlar að jöfnuði, réttlæti og að allir eigi möguleika á verðugu lífi.

— Við verðum að berjast gegn skattaskjólum og krefjast þess að opinberir aðilar geri aldrei samninga við fyrirtæki sem nýta sér skattaskjól.

Gjaldeyrishöftin

— Dögun vill afnema gjaldeyrishöftin ef það skaðar ekki almenning.

— Verðum að hafa gjaldeyrishöft áfram á skaðlegum gjaldeyrisflutningum en ekki venjulegri verslun.

— Ber okkur að greiða allar þessar skuldir-Skuldaendurskoðun?

— Upptaka nýkrónu-skiptigengisleiðin, þ.e. að leiðrétta óréttlæti með misgengi.

Atvinnumál og nýsköpun

— Dögun vill skilja að viðskipta- og fjárfestingabanka.

— Minnka og hagræða í bankakerfinu.

— Samfélagsbanka.

— Leggja megináherslu á lítil og meðalsór fyrirtæki frekar en stóriðju-efla frumkvöðlastarf.

— Sala rafmagns um sæstreng er ekki góð hugmynd.

— Nýta það rafmagn sem við höfum til nýsköpunar og að fullvinna ál.

— Lækka rafmagn til gróðurhúsabænda.

Fjármál hins opinbera

— Vaxtagreiðslur eru um 20% af skatttekjum.

— Skuldir opinbera aðila eru ósjálfbærar.

— Verðum að endursemja við lánadrottna.

— Hækka skattleysismörk.

— Ekki aukna skatta á almenning.

— Dögun hafnar alfarið frekari ríkisvæðingu skulda einkarekinna fjármálafyrirtækja.

Yfirlýsing um innistæðutryggingu

— Var gefin haustið 2008 og er enn í fullu gildi.

— Kostnaður skattgreiðenda mjög mikill.

— Við viljum afnema hana.

— Bankar hafa ekki greitt neitt fyrir þessa ríkisábyrgð en eiga að gera það samkvæmt lögum.

— Þess vegna skulda þeir okkur 300 milljarða ISK og við viljum innheimta þær krónur.

Fjármál hins opinbera

— Endurskoða söluverð á rafmagni til stóriðju.

— Tobin skatt á fjármagnsflutninga.

— Hvalrekaskatt.

— Leggja niður brotaforðakerfið við framleiðslu peninga og flytja peningamyndun frá einkabönkum til Seðlabankans.

Gjaldmiðill

— Það er augljóst að hagstjórn á Íslandi þarf að batna verulega og án tillits til þess hvort Ísland gengur í ESB eða ekki. Góð hagstjórn er forsenda fyrir því að gjaldmiðill Íslands sé trúverðugur og algjör forsenda fyrir upptöku evru ef þjóðin velur þá leið í gjaldmiðlamálum landsins.

— Við munum búa við íslenska krónu um óákveðinn tíma og þess vegna mun verkefnið vera að nýta sér kosti hennar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.1.2013 kl. 16:29

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Maður er alltaf að reyna að kaupa handa þeim vekjaraklukku en hún er víst ekki til sölu, allavega ekki lengur.  

Þá reynir maður að búa til svona vekjaraklukku en þeim sem mér tekst að klambra saman eru ekki á tíðnissviði sem eyra hins venjulega manns nemur.  

Mér finnst þær samt vera ágætar, sé að einn er sama sinnis um þessa þegar þessi orð eru rituð.

Hvernig þær verða háværari er svo önnur ella, markmið mitt var alltaf að nýta fréttabloggið til að vekja athygli á málinu en þá þarf að bjóða upp á leið. 

Og þar er hnífurinn í kúnni.

En varðandi þetta steinsofandi fólk þá hjó ég sérstaklega eftir því að enginn flokksformaður taldi þörf á að ræða þessa ógn, hvað þá að róa þjóðina með skynsamlegri umræðu og leiðir til úrbóta.

Það eina sem við fréttum er að þetta sé í þverpólitískri nefnd, líkt og ICEsave forðum.

Og það róar mig ekki neitt, svona að gefnu tilefni.

En Mogginn fjallar um þetta, og Lilja mín, og ég og nokkrir aðrir.

Svo við erum ekki öll landráðafólk.

En dugar það????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 17:19

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ásthildur.

Persónulega finnst mér að ef þú ætlar að nýta pistla mína sem hluta af heimasíðu Dögunar, að þú eigir að peista efni sem fútt er í.

Ég benti þér á góðan pistil eftir Halldór Jónsson, pistil sem ég lækaði.

Ég skal peista hann upp, Halldór hlýtur að fyrirgefa mér, við vorum dús í ICEsave.

Kveðja að austan.

Það er sögð SKÁK!

á Sjálfstæðisflokkinn samkvæmt heimasíðu nýja flokksins DÖGUNAR. Samkvæmt heimasíðu flokksins koma meðal annars fram eftirarandi atriði:

" 1) Að fullt jafnræði verði í aðgengi að veiðiheimildum.

2) Að greitt verði auðlindagjald fyrir afnotin sem renni til ríkis og sveitarfélaga.

3) Að framsal, framleiga og veðsetning veiðiheimilda verði óheimil.

4) Að aflahlutur sjávarbyggða sé tryggður og hluti veiðileyfa svæðisbundinn.

5) Að öllum nýtanlegum afla sé landað og enginn hvati verði til brottkasts m.a. með því að kvótasettum fisktegundum verði fækkað.

6) Að fjárhags- og rekstrarlegur aðskilnaður sé tryggður milli veiða og fiskvinnslu, allur afli fari á markað og verðmyndun sé 100% bundin fiskmörkuðum.

7) Að veiðiráðgjöf verði endurskoðuð og fleiri aðilar komi að ráðgjöfinni.

8 ) Að handfæraveiðar verði frjálsar.

9) Að settar verði framfylgjanlegar reglur um umgengni við auðlindina og hafsbotninn til að stuðla að endurnýjun, sjálfbærni og notkun umhverfisvænni veiðarfæra og aðferða við veiðar.

10) Að boðað verði til þjóðfundar sem fjalli um framtíðarkerfi fiskveiðistjórnunar og ráðstöfun arðs af auðlindum og tilnefni fulltrúa í nefnd til útfærslu á stefnunni."

Dögun vill ennfremur:

"Afnema verðtryggingu á neytendalánum
Leiðrétta húsnæðislán
Fjölga valkostum í nýju lánakerfi
Setja þak á vexti
Afnema stimpil- og uppgreiðslugjöld
Tryggja að veð takmarkist við veðandlag

.....Dögun lítur svo á að við hrunið og í aðdraganda þess hafi orðið forsendubrestur fyrir endurgreiðslu húsnæðislána heimilanna. Fyrir þeim forsendubresti beri að leiðrétta með almennum hætti. Þegar kemur að því að leggja mat á forsendubrestinn er eðlilegt að miða við áfallnar verðbætur umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans frá 1. janúar 2008. Leiði niðurstaða dómsmála til hagstæðari niðurstöðu fyrir lántakendur gildi hún. Þá verði leitað leiða til að útfæra slíka niðurstöðu eins og fordæmisgefandi dómur hafi fallið um öll húsnæðislán sem tekin voru fyrir 1. janúar 2008.

Í staðinn ákváðu stjórnvöld að tefla fram 110% leiðinni til viðbótar við sértæka nálgun þar sem greiðslugeta hvers og eins lántakanda er látin ráða för í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara, að því gefnu að samningar við kröfuhafa takist. Með þessu móti er virði krafna hámarkað en skuldurum gert að taka á sig þá höfuðstólshækkun sem orðið hefur upp að 110% virði eigna. 110% leiðin og verðtryggingin er eitraður kokteill. Því eftir að búið að færa skuld niður í 110% af verðmæti eignar heldur verðtrygginig áfram að skrúfa upp höfuðstólinn. Smátt og smátt verða 110% að 120%, 120% að 130% og svo koll af kolli...

...Banna skal verðtryggingu á neytenda-og húsnæðislán með lögum svo að enginn vafi leiki á til framtíðar. Lánakjör skulu vera svipuð og í nágrannalöndum okkar. Lögfest verði 5 – 6% þak á óverðtryggða vexti húsnæðislána....

— .....Endurskoða söluverð á rafmagni til stóriðju.
— Tobin skatt á fjármagnsflutninga.
— Hvalrekaskatt.
— Leggja niður brotaforðakerfið við framleiðslu peninga og flytja peningamyndun frá einkabönkum til Seðlabankans.

Gjaldmiðill

— Það er augljóst að hagstjórn á Íslandi þarf að batna verulega og án tillits til þess hvort Ísland gengur í ESB eða ekki. Góð hagstjórn er forsenda fyrir því að gjaldmiðill Íslands sé trúverðugur og algjör forsenda fyrir upptöku evru ef þjóðin velur þá leið í gjaldmiðlamálum landsins.
—
Við munum búa við íslenska krónu um óákveðinn tíma og þess vegna mun verkefnið vera að nýta sér kosti hennar.....

...— Hverfa þarf frá hugmyndum um að hagur banka eða annarra lánastofnana sé þungamiðja tilverunnar.....

....Dögun vill að vel sé tekið á móti flóttafólki og að Ísland virði flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna í hvívetna. Við leggjum áherslu á að þær stofnanir sem hafa með málefni flóttamanna að gera séu í stakk búnar til að afgreiða þau mál skjótt og örugglega. .....

......Flóttamenn eiga að hafa tækifæri til að sækja atvinnu á meðan mál þeirra eru til afgreiðslu í kerfinu, án þess að það skerði önnur félagsleg réttindi þeirra.

Dögun er fjölmenningarlega sinnað stjórnmálaafl sem vill vinna gegn fordómum. Við viljum að þeir sem vilja búa á Íslandi, koma hingað í heiðvirðum tilgangi og geta framfleytt sér, verði gert kleift að setjast hér að og taka þátt í íslensku samfélagi. Við viljum að öllum sé tryggður aðgangur að íslenskukennslu og stutt sé við erlenda foreldra sem vilja viðhalda móðurmáli barna sinna. Öllum á að vera kleift að rækta menningu sína og deila henni með landsmönnum.

Við teljum að tilkoma fólks af erlendu bergi brotið í íslensku samfélagi leiði til víðsýni meðal þjóðarinnar og auki samkeppnishæfni hennar á alþjóðavettvangi.

Tryggja ber að innflytjendur njóti félagslegs jafnréttis og geti tekið fullan þátt í samfélaginu, öllum til hagsbóta....
Við viljum að flóttamönnum sem bíða þess að mál þeirra séu afgreidd verði gert kleift að dvelja þar sem þeir kjósa meðan á því ferli stendur. Tryggja þarf gagnsæja stjórnsýslu, aukna upplýsingamiðlun og jafnræði í málsmeðferð.....

....Landspítali verði þannig áfram miðstöð lækninga á Íslandi og kennslusjúkrahús en hætt verði við byggingu nýs Landspítala að sinni.
Þess í stað verði bætt kjör heilbrigðis- og umönnunarstétta sem sinna grunnþjónustu um land allt....

— ....Dögun vill afnema gjaldeyrishöftin ef það skaðar ekki almenning.
— Verðum að hafa gjaldeyrishöft áfram á skaðlegum gjaldeyrisflutningum en ekki venjulegri verslun.
— Ber okkur að greiða allar þessar skuldir-Skuldaendurskoðun?
— Upptaka nýkrónu-skiptigengisleiðin, þ.e. að leiðrétta óréttlæti með misgengi....

....Við leggjum áherslu á opið og lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni. Ef aðildarviðræðum verður ekki lokið fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár og þjóðin ákveður að hætta aðildarviðræðum í samræmi við 66. grein frumvarps Stjórnlagaráðs, munum við styðja þá niðurstöðu. Að öðrum kosti verði aðildarviðræður við Evrópusambandið kláraðar og niðurstaðan borin undir þjóðaratkvæði...."

Sá sem hefur hlustað á raddir almennings eins og þær berast með blænum þarf ekki að fara í grafgötur með það að margt sem þarna heyrist á greiða leið að hjörtum fólks.

Hér er sögð SKÁK á taflborði stjórnmálanna!

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er þarna verkefni til að svara. Hvernig mun sjávarútvegsstefna flokksins frá Landsfundi í febrúar líta út? Ekki er líklegt til árangurs gegn þessari stefnu Dögunar að spila áfram sömu plötuna og gert hefur verið landsfund eftir landsfund. Verða menn ekki líka að hlusta?

Hvaða stefnu boðar flokkurinn í fjármálum heimilanna? Hvað ætlar flokkurinn að gera gagnvart stökkbreyttu húsnæðislánunum? Með hvorum stendur hann, bönkunum og sjóðunum eða fólkinu?

Hverju svarar Sjálfstæðisflokkurinn hann hugmyndum um nýkrónur(ríkisdal hægri grænna)? (Og meðfylgjandi eignakönnun?)

Hverju svarar hann beinni spurningu um brotaforðakerfið sem gefur bönkunum alræðisvald yfir peningamagninu?

Hvað stefnu ætlar flokkurinn að hafa í innflytjendamálum?

Það verða liðnir þeir tímar í vor að stjórnmálaflokkar geti gengið til kosninga undir gunnfánum almennra slagorða um að efla beri og styrkja beri þetta og hitt.

Fólkið mun krefjast skýrt orðaðra svara.

Það er komin meiri málefnaleg samkeppni í stjórnmálin sem forystumenn stóru flokkanna geta ekki leitt hjá sér. Það verður létt verk að eiga við ríkisstjórnarflokkanna. Þeir eru fastir í eigin svikavef. En nýju flokkarnir eru áskorun fyrir Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk.

Sjávarútvegsstefna Dögunar er djarft útspil sem krefst svara frá Sjálfstæðisflokknum.

Það er sögð SKÁK!

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 17:22

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Ath.

Pistillinn hér að ofan er eftir Halldór Jónsson, góða og gilda sjálfstæðismann og Moggabloggara.

Ekki eftir mig þó nafn mitt birtist neðst, þá er það vegna þess að athugasemdin er skrifuð að mér.

Bara svo enginn fari að saka mig um ritstuld.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 17:24

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, og ég veit að ég gæti ekki jafnræðis hér, sérstaklega alvarlegt gagnvart hinum ríkisstjórnarflokkunum, en hef ekki tíma að gúgla á álýktanir þeirra um fagurt mannlíf og blóm í haga.

Fólk verður bara að kíkja út um gluggann til að sjá þau fögru blóm.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 17:29

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

I rest my case Ómar minn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.1.2013 kl. 02:23

8 identicon

Dögun er full af fúskurum, og auðvitað góðu fólki þar inn á milli eins og allir flokkar, meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn, eru líka. Hún er bara Samfylkingin/Baugur og félagar, útibú númer þrjú, á eftir Bjartri framtíð. En nýtir sér auðvitað fjölda sakleysingja, auðtrúa manna sem auðveldlega trúa, láta leiðast af tilfinningum, en kunna hvorki að nota rökhugsun til að hjálpa sér í lífinu, rannsaka á réttan hátt, eða skoða hvað býr á bak við tjöldin. Ég vorkenni þessu blessaða fólki, en hef enga samúð með úlfunum í sauðargærunum sem allir sem vit var gefið frá náttúrunnar hendi sjá í gegnum, sem fara í forystu fyrir þann flokk. Samstaða meinar vel og ég myndi gjarnan vilja kjósa þann flokk, nú þegar ekki er lengur hægt að kjósa vinstri græna. Það sem þarf þó til að sá flokkur nái atkvæði mínu er einhver með gott hjartalag, en veraldarvanur og kænn, því það er of mikið af fólki í Samstöðu, Lilja með alla sína góðu kosti þar á meðal, sem þekkir ekki landslagið nógu vel og kann ekki að varast jarðsprengjubeltin. Slík fáviska getur nefnilega kostað þjóðina jafn mikið og Icesave. Það eru margir góðir menn sem hefðu getað komið miklu og góðu til leiðar, en það varð allt fyrir bý, því þeir fengu enga varkárari og veraldarvanari sem þekkja betur hið alþjóðlega landslag í lið með sér. Og óðu því inn á jarðsprengjusvæðin strax, svo allt sprakk í loft upp, og þeirra góðu mál unnust aldrei, og mörg hver töpuðust um aldur og æfi. Við þurfum einhvern víðlesinn, varkárann, þjóðhollan vinstrimann, sem er ekki tilbúinn að fórna þjóðinni, hvorki fyrir mútur eins og sumir, né fyrir stundar-ástríðu-brjálæði og fórna hagsmunum lands og þjóðar með að skipta sér um of af hlutum sem við getum ekki haft alvöru áhrif á, eigum ekki að vasast í of fljótt, og geta kostað okkur útþurrkun og gereyðingu. Setjum eigin hag fyrst. Það þarf þó að hugsa um helstu vandamál jarðarbúa, hungursneiðina sem til er komin út af þjóðarskuldum sem fyrrum nýlenduherrar þeirra hafa hlekkjað þær í, fyrrum nýlenduherrar sem nú vilja gjarnan taka til við að blóðmjólka okkur líka. Samstaða ætlar að hækka þá prósentu sem við verjum í þróunnaraðstoð, sem ólíkt því sem fáfróðir halda er ekki "góðgerðarstarfsemi" lengur, heldur fjárfesting, því heimurinn er í höndum fyrri fórnarlamba Evrópu, það eru að eiga sér stað valdaskipti ef rétt öfl vinna, og þá verður vald Evrópu að engu gjört. Skipt verður um ráðamenn og veldissprotinn færður af þeim sem sigraði í hendur Asíuþjóða og hinnar nýju rísandi Afríku, þegar jarðvegurinn þar hefur verið gerður tilbúinn og uppskeran hafist.

Innherji (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 07:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 1655
  • Frá upphafi: 1412769

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1475
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband