"Stríðið gegn Íslandi".

 

"Ísland hefur orðið fyrir árás - ekki hernaðarárás, heldur fjármálaárás. Afleiðingarnar eru jafn banvænar þrátt fyrir það. Fleiri verða veikir, lifa í örvæntingu og deyja fyrir aldur fram ef þjóðin neitar ekki að greiða til baka megnið af þeim lánum sem prangað hefur verið inn á hana á síðustu átta árum. En leiðin til bjargar er þyrnum stráð. Voldugir skuldunautar á borð við Bandaríkin og Bretland munu siga áróðursmeisturum sínum, sem og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum á Íslendinga og krefjast þess að þeir verði hnepptir í skuldafangelsi með því að þvinga þá til að greiða skuldir sem þessar þjóðir myndu aldrei greiða sjálfar.".

 

Stríðið gegn Íslandi er heiti á grein eftir bandaríska hagfræðinginn og prófessorinn Michael Hudson og hófst á þeim  orðum sem hér er vitnað í að ofan.

Þessi grein er skrifuð vorið 2009 og er nöturleg lýsing á þeirri stöðu sem fjármálamafína hafði komið íslensku þjóðinni í.  

 

"Til að komast út úr skuldafeninu verða Íslendingar að átta sig á hvers konar efnahagsástand sjálfseyðingar íslenskir bankamenn hafa skapað. Þrátt fyrir að hafa eytt nærri hálfri öld í að rannsaka þjóðir í erfiðri skuldastöðu hef ég sjaldan eða aldrei séð neitt í líkingu við ástandið á Íslandi. Hér á landi hafa bankarnir steypt sér í svo gríðarlegar skuldir að verðgildi krónunnar mun rýrna til frambúðar og leiða af sér verðbólgu næstu áratugina. ".

 

Skuldastöðu sem þjóðin getur ekki unnið sig út úr vegna verðtryggingarinnar og vegna alræðis skuldaeiganda yfir íslenska stjórnkerfinu.

 

"Í gegnum söguna hafa skuldugar þjóðir oftast farið þá leið að losa sig við skuldirnar með hjálp verðbólgu, þ.e. borgað skuldirnar með „ódýrum peningum". Ríkisstjórnir prenta peninga og viðhalda fjárlagahalla til þess að hækka verðlag og þannig er meira fjármagn í boði, en vöruframboð óbreytt. Þessi verðbólga og gengisfall minnka skuldabyrðina svo framarlega sem laun og aðrar tekjur hækka samhliða.

Ísland hefur snúið þessari lausn á hvolf. Í stað þess að auðvelda hina hefðbundnu skuldaleiðréttingu hefur verið sköpuð paradís lánardrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánadrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.".

 

"Á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.", þessi einfalda staðreynd útskýrir af hverju verðtrygging getur aldrei gengið upp, hún sogar til sín hreyfiaflið í hagkerfinu.

Þetta vita hagfræðingar, það er enginn með þá náttúrulega heimsku að sjá þetta ekki, sú heimska dó út í þróunarsögu mannsins fyrir um 4 milljónum ára síðan.

Afneitun þeirra á raunveruleikanum á sér skýringu í öðru elementi sem þróaðist með mannapanum og siðmenningunni hefur ekki ennþá tekist að útrýma, græðginni, hinni siðlausu græðgi sem tekur skammtímaávinning fram yfir forsendur lífsins.  

Þeir eru málaliðar skuldaeiganda, þiggja laun fyrir að ljúga.

 

"Á síðustu árum hefur Ísland orðið fyrir árásum alþjóðlegra lánadrottna. Þeir hafa náð að sannfæra hóp lukkuriddara um að leiðin til auðs og hagvaxtar væri í skuldsetningu, en ekki ráðdeild. Bankar og spákaupmenn í innsta hring alþjóðafjármálakerfisins höfðu það að meginstarfi að selja skuldir og þurftu að búa sig undir það efnahagslega hrun sem sagan sýnir að fylgi óhjákvæmilega í kjölfar slíkrar ofurskuldsetningar. Það gerðu þeir með því að sá fræjum hugmyndafræði sem leit á keðjuverkandi skuldsetningu sem góða hagstjórn.

Stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum er að koma á stöðugleika og forðast kreppu með því að færa niður skuldir til jafns við lækkandi markaðsverð, en ekki síður að ná greiðslubyrði húsnæðislána niður á viðráðanlegt stig, þ.e. innan við 32% af tekjum heimilanna. Í öðrum löndum er einnig verið að færa niður skuldir svo fólk og fyrirtæki geti staðið í skilum. Á Íslandi er verðtryggingin hins vegar að belgja út skuldir og steypa húseigendum í neikvæða eiginfjárstöðu.

Það fyrsta sem Íslendingar verða að gera er að átta sig á að landið hefur orðið fyrir efnahagslegri árás útlendinga, sem studdir voru af íslenskum bankamönnum. Til að hafa sigur reyndu þessir lánadrottnar að sannfæra þjóðina um að skuldir væru framleiðsluhvetjandi og að hagkerfið efldist, þar sem verðmæti þess ykist - þ.e. eignir yxu umfram skuldir. Þannig var gert ráð fyrir að verð myndi aldrei lækka og við myndum aldrei standa eftir með skuldirnar einar og neikvæða eiginfjárstöðu. Þeir gerðu sitt besta til að sannfæra þjóðina um að það væri slys sem gerðist aðeins einu sinni á öld eða svo, en ekki óhjákvæmileg afleiðing gríðarlegrar skuldsetningar með samsettum vöxtum án tekjuaukningar sem stæði undir vaxtagreiðslum.

Þessari hugmyndafræði er nú fylgt eftir með því að telja íslenskum almenningi trú um að honum standi ekkert annað til boða en að borga skuldirnar sem örfáir einstaklingar hafa steypt sér í, skuldir sem safna vöxtum að öðrum kosti. Þjóðin þarf einfaldlega að gera sér grein fyrir því að þær skuldir sem krafist er að hún greiði, eru meiri en hún getur ráðið við.".

 

Skuldirnar eru hærri en  þjóðin ræður við, tekjumyndunin í þjóðfélaginu stendur ekki undir vaxtakostnaðinum sem verðtryggingin býr sjálfkrafa til.

Og hvað mun gerast, hvað hefur gerst áður???

Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða, einmitt þegar þær þurfa mest á því að halda. Þetta gildir þó aðeins um litlu þjóðirnar. Þær þjóðir sem hæst hrópa á Íslendinga að greiða lán spákaupmannanna eru undanskildar. Þar eru fremstar í flokki þær þjóðir sem eru skuldsettastar, Bandaríkin og Bretland, undir stjórn manna sem dytti aldrei í hug að leggja slíkar byrðar á eigin þegna. Um leið og þessar þjóðir lækka skatta og auka á fjarlagahallann reyna þær að kúga peninga út úr smærri og veikburða þjóðum, líkt og þær stunduðu gagnvart Þriðjaheimsríkjum á 9. og 10. áratug síðustu aldar.  

 

Hluti af þessum skollaleik sem hér er lýst að ofan var sú bábilja sem almenningi var talin í trú um að skuldir bankanna hafi fallið á lánardrottna þeirra.  

Hvílík firra, vissulega afskrifuðu upprunalegu lánardrottnar bankanna meginhluta af lánum sínum til íslensku bankanna, en það sem eftir stóð var selt vogunarsjóðum, sem mættu strax eftir Hrun til að innheimta þær að fullu.

 

Þögnin um þessa staðreynd á sér mjög einfalda skýringu.  

Vogunarsjóðirnir tryggðu sér strax yfirráð yfir fjölmiðlum landsins, og þeir tryggðu sér nauðsynleg ítök hjá fjórflokknum svo enginn þorir að ganga gegn hagsmunum þeirra.  

Eftir úrslit í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, auk forvals VinstriGrænna þá er ljóst að þeir eiga viðkomandi flokka.  Þeir munu aldrei ganga gegn hagsmunum vogunarsjóðanna.

Það hefur einnig verið þaggað niður í Sigmundi Davíð sem þó sýndi tilburði í upphafi ferils síns að berjast gegn þessu ógnarvaldi.

Til að tryggja að óánægjan í þjóðfélaginu myndi ekki leita sér farveg gegn þessu algjörum yfirráðum vogunarsjóðanna voru stofnuð "andófsframboð", annað um hina algjöru heimsku tómhyggjunnar, hitt um hávaða.  Plott sem virðist ætla að ganga upp.

 

Vogunarsjóðirnir vita hvað þeir eru að gera, vinnubrögð þeirra eru þegar þrautprófuð.

 

"Markmið þeirra er að tryggja völd sín í samfélaginu. Umfram allt vilja þeir hámarka vald skulda umfram verðmætasköpun. Þess vegna er verðtrygging lána notuð til að tryggja að bankarnir hagnist á hruni efnahagslífsins, en ekki almenningur, sem greiða þarf jafnt skuldirnar sem og kostnaðinn af hækkandi verðlagi og hruni krónunnar.  ..... Því verra sem efnahagsástandið er, því sterkari eru lánveitendurnir. Þetta er ávísun á efnahagslegt sjálfsmorð þar sem dýpkandi kreppa hneppir æ fleiri í skuldafangelsi." 

 

Og ef svo ólíklega vildi til að fyndist ærlegur maður í íslenskum stjórnmálum sem spyrði

"... hvernig í ósköpunum Íslendingar eigi að fara að því að borga og hverjar efnahagslegar afleiðingar þess verði. Hvernig geta Íslendingar borgað á næstu árum án þess að landsmenn tapi unnvörpum eignum sínum og félagslega kerfið verði lagt í rúst? Hvernig geta Íslendingar greitt skuldir sínar án þess að keyra sig í þrot, leggja niður þjóðfélag félagslegs jafnréttis???"

og vilji að "stjórnvöld komi böndum á óhefta lánastarfsemi og eignaupptöku" að þá munu "málpípur fjármagnseigenda saka þannig stjórnvöld um að hefta hinn frjálsa markað, þegar þau eru í raun eina aflið sem getur komið í veg fyrir að heilu þjóðirnar verði hnepptar í skuldafangelsi". 

 

Og hver er framtíð þjóðarinnar, hvaða líf eiga börn okkar í vændum?? 

 

"..... og koma hér á samfélagi örfárra ofurríkra lánadrottna og svo örsnauðs almennings? Það er raunveruleg hætta á að hér myndist ný stétt fjármagnseigenda sem stjórna muni landinu næstu öldina eða svo......  að leggja samfélagið í rúst, selja auðlindir sínar eða koma á gríðarlegri stéttaskiptingu fjármagnseigenda og skuldara.".

 

Þetta er framtíðin sem við viljum börnum okkar.

Þess vegna ætlum við að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, VinstriGræna.  Eða kostuðu andófsskrípin sem vogunarsjóðirnir gera út.

Í raun sem þjóð erum við orðin úrkynjaður kvistur á tré lífsins.

Við nennum ekki lengur að verja lífið sem við ólum.

 

Við erum endastöð.

Kveðja að austan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágætar tilvitnanir í Michael Hudson.  "Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða"

Það þarf að krefja sjálfstæðisflokkinn svara og þar duga engir vafningar eða undanbrögð, er þetta sú lausn sem hann mun færa okkur á efnahagsvandanum komist hann til valda? Eða ætlar hann að standa vörð um sameiginlegar eignir Íslendinga?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 11:47

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Bjarni spyrðu ekki eins og bjáni fyrst þú nenntir að lesa greinina.

"Eftir úrslit í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, auk forvals VinstriGrænna þá er ljóst að þeir eiga viðkomandi flokka.  Þeir munu aldrei ganga gegn hagsmunum vogunarsjóðanna. ".

Spurningin er hvað þú ætlar að gera.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 12:21

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Stríðið um Ísland er aðeins hluti af stríðinu sem geysar núna um allan heim við frjálshyggjuna.

Þessa nöturlegu staðreynd las á bloggi Samstöðu Þjóðar sem staðfestir aðeins lýsingu Michael Hudsons.

"Í kjölfarið kom útbreitt atvinnuleysi og hungursneyð, sem neytt hefur Rauða kross Grikklands að senda út SOS til umheimsins. Á eftir fylgdi einnig uppgangur Gylltrar dögunar (Nýnazista) með skipulögðu ofbeldi og morðum á innflytjendum. Það sama gildir um önnur Evruríki, sem sækja þurfa um neyðarlán, að þar eru skilmálarnir fyrst og fremst gerðir til að bjarga bönkum og fjármálastofnunum, en framtíð komandi kynslóða tekin í gíslingu með tilheyrandi atvinnuleysi og hungursneyð.

Á Spáni myndi mannfjöldi sem samsvarar allri Íslendsku þjóðinni deyja úr hungri, ef ekki væri vegna matargjafa Rauða krossins. Yfirmaður Alþjóða Rauða krossins hefur sent frá sér viðvörun til ráðamanna ESB, um að búast megi við þjóðfélagslegum óeirðum í Suður-Evrópu í stíl við Arabíska vorið.

Evrópusambandið veldur þjóðfélagslegri upplausn.

Stefna ESB að »bjarga Evrunni« og að bankar mega ekki fara í gjaldþrot hefur eyðilagt ríki Suður-Evrópu og splundrað sambandinu. Búið er að flytja skuldir fjármálafyrirtækja í eigu einkaaðila yfir á aðildarríkin í svo stórum stíl, að ýmsir telja það samsvara kostnaði ESB við eina heimsstyrjöld. Samt sem áður hafa vopnuð átök ekki átt sér stað, a.m.k. ekki ennþá. »Friðarsambandinu« í rukkunarhlutverki fyrir alþjóðlega fjárglæframenn hefur þegar tekist að valda aðildarríkjunum öllu þessu tjóni með Evruna og lýðræðishallann að vopni. Þessi efnahagsstyrjöld, sem hlotið hefur friðarverðlaun Nóbels, skapar í raun forsendur þjóðfélagslegra óeirða og vopnaðra átaka"


Rauði krossinn segir það sama.

"Yves Daccord, forstjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins, segir í viðtali við blaðið Politiken að í fyrsta sinn verði Rauði krossinn í nokkrum Evrópulöndum að einbeita sér að fátæklingum heima fyrir fremur en að aðstoða í löndum utan Evrópu. Hann nefnir sem dæmi að Rauði krossinn í Grikklandi sé að verða gjaldþrota og að allt það fé sem Rauði krossinn á Spáni safnaði á liðnu ári fór í aðstoð innanlands. Stjórnvöld í Evrópu megi búast við að það brjótist út óeirðir líkt og í löndum Norður Afríku."

Er ekki tími til kominn að tengja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 14:00

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Þetta má lesa á vinstrivaktinn gegn ESB, hvað fjórfrelsið þýðir í raun.

"Þar til viðbótar er hin nýi öreigalýður alþjóðavæðingarinnar. Frjálst flæði þjónustu er frelsi til undirboða svo skáka megi réttindalýðnum út af markaði. Frjálst flæði vinnuafls er annað heiti á frelsi til kúgunar. Frjálst flæði vöru er frelsi til að undirboða á markaði óháð kjörum þeirra sem framleiða. Frjálst flæði fjármagns er eins alþjóð hefur fengið að sjá og finna á undanförnum árum fyrst og síðast frelsi til að fela þýfi."

Segir allt sem segja þarf.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 14:03

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sæll bloggvinur það er fletst satt sem þú segir þarna,og alt það og erum við sammála um flrst þarna,fjármálin drottna þarna,og það ekki gott,mjög slæmt!!en þetta svar um að flokkarnir geti ekki bætt sig er ekki rétt,við verðum bara að breyta þvi!!!!þetta að kjósa bara menn ekki flokka fer í alveg sama farið,germ bara uppreyns innan þeirra,og það fyrir kosningar!!!!Kveðja að sunnan!!!

Haraldur Haraldsson, 7.1.2013 kl. 15:13

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haraldur.

Ég beið með þennan pistil fram yfir prófkjör flokkanna. 

Reyndar var eina óvissan með flokk þinn.

En hún er ekki til staðar lengur, þeir sem sáu vandann og vildu takast á við hann, hlutu ekki brautargengi.

Lestu næsta pistil, þá vitna ég í þinn eigin mann.

Lestu svo þann síðasta, þar færðu svar við spurningu þinni, svar sem er löngu gefið og er ekki gefið aftur, því það er svarið eina, sem ekki er hægt að skauta fram hjá.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 15:20

7 identicon

Ómar @2

Spurningin er nú alveg eins ; hvað get ég gert?    Ég sé ekki að það sé neitt í boði.  Fjórflokkurinn verður áfram við völd takandi á sig ýmsar myndir t.d. bjarta framtíðin, smáframboðin eru ófókusserað samsafn velmeinandi reynsluleysingja,flokkaflakkara,misheppnaðara flokksbrota og tækifærissinna.  Næsta ríkisstjórn verður  ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu sem aðalflokka, það þarf hvorki Ænstæn né Nostradamus til að sjá það! Alveg hárrétt hjá þér að skv. reynslunni munu þau standa vörð um hið ónýta fjármálakerfi. Helsta von um breytingu er sú að hún komi að utan, þ.e. að hér éti menn upp það sem vel er gert annarsstaða til að tolla í tískunni. Að einhver fari að hugsa sjálfstætt og vinni  þau verk sem þar að vinna í íslenskri pólitík og efnahagsstjórn, það er ekki í spilunum.

    Þó er mögulegt að við séum orðin svo djúpt sokkin í eitruðu faðmlagi ríkissjóðs,lífeyriskerfisins og bankakerfisins sem eru límd saman með verðtryggingu og innistæðulitlum pappírsverðmætum að hér verð ekkert gert þar til skútan sekkur endanlega.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 15:24

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Ja Bjarni, þú getur lesið síðasta pistil minn í þríleiknum um blóm lífsins a la hvað get ég gert.  Er reyndar ekki búinn að semja hann, en er sestur í stellingar.

Þar reikna ég með að taka aðra pistla með sem mynda þann þríleik.

Þú getur hugsað innihaldið, lokað á fyrri nálganir og gefið þessari hugsun tækifæri.

Og síðan svarað þessari spurningu.

Svarið verður alltaf að vera þitt.

En ég veit hvað ég geri, ég tala um byltingu lífsins í milli þess sem ég lem á öllum leppum og skreppum vogunarsjóðanna.

Ef fleiri fyndu hjá sér hvötina, þá væri allt auðveldara.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 17:11

9 identicon

Fyrir mér getur þú alveg skrifað þig til tunglsins og til baka í einhverjum himinskautspælingum um nýtt Ísland og dásamlega útópíska framtíð á aðra hliðina en heimsenda á hina. Ég hreint ekki viss um að ég nenni að lesa svoleiðis jukk. Mér leiðast trúmál. Framtíðin felst í praktískum lausnum og bætingu á því sem fyrir er frekar en að kollvarpa öllu og fleygja galvaskur barninu með baðvatninu.

Þeir sem t.d. ætla að treysta á Sjálfstæðisflokkinn (af ýmsum orsökum) til að taka við stjórnartaumunum kæmi betur að krefja þann flokk svara um hvort hans lausn felist í að selja þjóðareignir í nafni frjálshyggju eða hvort hann ætli í alvöru að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar.

Ég sé að þú varar við orðinu "fjárfesting" í þessu samhengi í gömlum pistli sem þú vitaðir nýlega í, sem er ágætt. Þetta orð hefur ansi vafasama merkingu við þær aðstæður í skuldastöðu þjóðarinnar sem uppi eru - ég hef sjálfur lengi haft ótrú á þessu fjárfestingatali sem er í raun ekkert annað en dulbúin landsala hvort sem menn gera sér grein fyrir því eða ekki.

Tilvitnanir þína í Tryggva Þór sína að þú hefur trú á möguleika manna til hugarfarsbreytinga og að þeir sjái "ljósið" jafnvel hörðustu frjálshyggjupostular eins og Tryggvi Þór. Þar með held ég að þú ættir að hleypa aðeins lofti úr mælskubelgnum og koma til jarðar, sætta þig við hinar praktísku aðstæður en reyna ekki að teyma t.d. sakleysingja eins og mig út í eitthvert útópískt forarfen.

Bestu kveðjur að sunnan.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 17:46

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Elsku besti Bjarni minn, gefðu sjálfum þér tækifæri, þú væri ekki á þessari síðu, hvað þá að lesa langhund frá mér um Ógn, nema að innst inni þráir þú að trúa.

Trúa á að það sé von um framtíðina.  

Tæmdu hugann og prófaðu aftur, ég er þegar búinn að hamra innganginn, sem er alltaf erfiðast því ég man aldrei þegar ég byrja hvað ég ætla að segja, hefur eitthvað með ellina að gera, en þessi pistill verður þín Upprisa ef þú aðeins, ef þú aðeins slakar á og hlustar á þinn innri mann.

Orð mín koma trú ekkert við, trú er einkamál hvers og eins.  Nema ég hef aldrei skilið fólk sem trúir ekki á álfa og huldufólk, en það er önnur saga, það eru ekki allir að austan.

Hagfræði lífsins, aðferðafræði lífsins, er aðferðafræði, byggð á reynslu siðmenningarinnar, og markast af þránni um að lífið sem við ólum, komist af á tímum þegar vopn hættu að vera vopn, og urðu gjöreyðingarvopn.

Eina trúin í henni er sú trú að lífið muni lifa af.

Byggð á von sem aðeins börnin okkar geta gefið okkur.

En ég fattaði ekki þetta með Tryggva, nálgun mín á hann var aðeins praktískt úrlausn á nálgun á ákveðinni hugsun sem ég þurfti að koma til skila.  Ég hef sagt þetta milljón sinnum, en það tekur enginn mark á orðum mínum, ekki einu sinni pabbi minn, sem náttúrulega staðfestir það að ég á ekki hund, þyrfti að bæta úr því svo einn hlustari sé vís.

Mér datt hins vegar aldrei í hug að Tryggvi gæti séð ljósið, pönkaraímynd hans er mér svo föst í minni.

En auðvitað getur hann það eins og allir aðrir.

Útópían á sér engin takmörk.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 1653
  • Frá upphafi: 1412767

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1473
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband