6.1.2013 | 10:55
Að gefnu tilefni um þetta blogg.
Reglulega eftir að ég hóf að blogga hef ég verið vændur um að hafa ekki réttar skoðanir eða ég sé ekki sjálfum mér samkvæmur í skoðunum mínum miðað við fyrri skoðanir eða ég ýti undir sundrungu og óeirð eða ég sé hreinræktað fífl sem eigi ekki að tjá mig eða eitthvað annað sem viðkomandi mislíkar og telur sig knúinn að mæta í athugasemdarkerfið og tjá mér og öðrum sem lesa bloggið þessa skoðun sína.
Sérstaklega hef ég lent í þessu þegar ég hef átt samleið með fólki í ákveðnum málum en þegar ég held mínu striki í öðrum málum, sem það er mér ósammála, þá telur það á einhvern hátt ég hafi brugðist því eða málstaðnum eða skoðunum mínum eða eitthvað sem fær það til að segja mér að þessar skoðanir eigi ég ekki að hafa.
Það er eins og fólk átti sig ekki á því að þetta blogg mitt er minn persónulegur vettvangur þar sem ég tjái mig um menn og málefni út frá ákveðnum forsendum sem ég hef alltaf verið trúr og hef aldrei farið leynt með.
Þetta blogg er ekki stuðningsvettvangur við ákveðna flokka eða ákveðnar pólitískar skoðanir, þetta er andspyrnublogg gegn ákveðnum aðstæðum sem komu upp við og eftir Hrunið haustið 2008.
Í upphafi þessa bloggs reit ég pistil undir heitinu "Í UPPHAFI SKAL MAÐUR ENDANN SKOÐA" þar sem ég gerði grein fyrir forsendum bloggsins og gegn hverju ég væri að blogga.
Þar sem þetta blogg á sér nokkra fasta lesendur, sem deila því að hafa gaman að lesa það en deila fáu öðru sameiginlega, þá sé ég ástæðu til að endurtaka það sem ég sagði í þessa fyrsta pistli mínum.
Hvað fær miðaldra, þreyttan karlmann til að setjast niður og fara að blogga um þjóðfélagsmál? Eftir 20 ára afskiptaleysi. Sjálfsagt sama ástæða og hjá svo mörgum öðrum, sem urðu virkir og fóru að tjá sig eftir hörmungarnar síðasta haust. Okkur er ofboðið og við erum reið. Og jafnvel síðustu vikurnar örvingluð, það virðist ekkert vera að gerast annað en mulningsvél eyðileggingarinnar fær að stunda sitt starf lítt óáreitt.
Til hvers bloggar maður? Per se þá höfum við ekki mikil áhrif sem einstaklingar en sem heild þá virkar þessi aðferð til að hafa áhrif á atburðarrásina. Og hvað mig varðar þá er þetta öryggisventill. Fyrst eftir áfallið var maður í losti en svo kom reiðin og þá kom löngunin til að lemja mann og annan. Bloggið var mín leið í reiðistjórnun. Ég reifst og skammaðist og stríddi og erti og reyndar hrósaði líka út um víðan völl netsins. Um leið var ég að athuga hvort ég gæti þetta, haldið þræði og staðið í rökræðu um eitthvað sem ég hef takmarkað vit á og tæknin til að skrifa var ónotuð í rúm 20 ár. Ég held að mér hafi tekist að vera, eins og sagt er á góðri íslensku, að vera verkur í rassi hjá mörgum bloggurum, hvort sem það var til góðs eða ills. Aldrei hvarflaði það að mér að blogga á minni eigin síðu, af mörgum ástæðum. Sá aðallega ekki tilganginn að vera skrifa eitthvað sem fáir lesa og ennþá færri eru sammála um, á einkasíðu sem enginn veit um.
Enn núna er komið að því hvort ég er maður eða mús. Andspyrnan krefst þess að fólk hætti að hugsa um eigin hag og láti hagsmuni þjóðar sinnar og föðurlands ganga fyrir. Þeir sem byrja að segja hingað og ekki lengra og grípa til vopna gegn yfirgangi og kúgun erlendra afla og innlendra leppa þeirra, eru oft taldi skrítnir og alveg lausir við allt skynsamlegt raunveruleikaskyn. Til hvers að berjast við alltof öflugan andstæðing, og sem malar þig mélum smærra?
Svarið er einfalt. Það þarf einhver að byrja. Unga fólkið sem hélt til fjalla í Frakklandi á fyrstu dögum Vichy stjórnarinnar, það naut lítils stuðnings og hafði enga von í baráttu sinni. Enda tortímdist það flest. En barátta þeirra gaf öðru fólki von. Sérstaklega öðru ungu fólki, sem vildi ekki lifa sem þrælar undir erlendri stjórn. Það skipti ekki máli þó hagsmunaaðilarnir og stjórnmálamennirnir sögðu að öll barátta væri vonlaust og víst væri hægt að lifa bærilegu lífi, sem þjónar erlendra innrásarmanna. Unga fólkið vildi frekar upplifa þjáninguna og erfiðleikana heldur en að börn þeirra myndu alast upp við kúgun og þrældóm erlendra afla. Barátta þessa fólks var uppistaðan af endurreisn Franskrar þjóðarsálar og sá vegvísir sem stuðlaði að falli illskunnar. En Andspyrnufólkið var ekki eitt í sinni baráttu. Illska vekur alltaf upp andstöðu, og eftir því sem illskan eflist, þá snúast fleiri gegn henni. Frjálsar þjóðir studdu andspyrnuna og loks var illskan sigruð og unga fólkið, það sem lifði af baráttuna, var frjálst á ný.
Eins er það með frjálshyggjuna. Þetta er deyjandi hugmyndafræði. Þeir ráðamenn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem skilja ekki vonsku sinna gjörða, þeir munu verða settir af á næstu misserum. Þeir ráðamenn í vestrænum ríkjum sem hafa stutt þessa hugmyndafræði munu þurfa að víkja. Fólk mun krefjast svara og fólk mun krefjast ábyrgðar. Nýir ráðamenn, hjá þjóðum sem eru í sömu klemmu og við, munu sína okkur skilning og ef þeir geta ekki hjálpað, þá munu þeir að minnsta kosti ekki styðja eyðingaröflin. Það er enginn eyland, ekki heldur þeir sem eiga um sárt að binda. Að lokum snýst þetta alltaf um frjálst val þjóðar. Hvað hún vill og hvað hún ætlar sér að gera. Kúgun og áþján er tímabundið ástand sem mun ekki vara um alla eilíf. Því fyrr sem er snúist gegn henni, því fyrr birtir til.
Mörgum mun finnast full mikið lagt í dramatíkina að líkja stöðu okkar við hernumda þjóðir seinna stríðs. Vissulega er það rétt að enginn er hér herinn (enda duga lepparnir vel til að kúga þjóð sína) og engum skotum hefur verið hleypt af. En það er hægt að leggja undir sig þjóðir og kúga þær án þess að nota til þess skriðdreka. Það er hægt að svelta þær til hlýðni. Neyða þær með efnahagsþvingunum að samþykkja drápsklyfjar sem þær rísa aldrei undir. Líka er hægt að þvinga þær til að rústa sínu eigin atvinnulífi og gera alla íbúa að eignalausum þrælum. Slíkt er að gerast í dag á Íslandi. Á Englandi í den þá tóku Normannar flestar jarðeignir af Söxum. Á Írlandi var kaþólikkum meinað að eiga jarðir og þeir sem áttu fyrir urðu að sætta sig við eignaupptöku. Allt þetta var gert með vopnavaldi sigurvegaranna. Á Íslandi voru landsmenn þvingaðir til að taka á sig skuldir auðmanna sinna án þess um það væri samið eða lög kvæðu á um það. Íslendingar voru þvingaðir til að gangast undir öfgastefnu vitleysinga (spyrjið bara söguna ef þið trúið mér ekki) í efnahagsstjórnun, sem hægt og örugglega er að ganga að hagkerfinu dauðu. Erlendar hýenur eru mættur til að hreinsa upp náinn og aðeins tímaspursmál hvenær þær eignast auðlyndir landsins. Jarðir, fiskimið, orkulindir, þetta mun allt falla þeim í skaut þegar fyrri eigendur eru orðnir gjaldþrota. Erlendar fjárfestingar er þetta kallað en það er ónefni á þvingun þar sem annar samningsaðilinn er neyddur til að láta eigur sínar á smánarverði því honum er meinað að bjarga sér sökum trúarbragða öfgafólks. Ef þetta er ekki hernám og landeyðing, hvað er þá hernám og landeyðing. Voru t.d Ísraelsmenn fyrst að hernema Gaza þegar þeir sendu skriðdreka sína inn til að sprengja upp mannvirki og börn? Voru þeir bara góðu gæjarnir fram að því þó þeir héldu Palintísku þjóðinni í herkví fátæktar og hungurs? Í mínum huga þá er svarið einfalt. Á þessu er kannski stigsmunur en enginn eðlismunur. Kúgun og ofríki er alltaf kúgun og ofríki þó þvingunaraðilinn beiti mismunandi ráðum til að ná fram markmiðum sínum.
Og það er rétt að í dag þarf hin Íslenska andspyrna ekki að hafa áhyggjur af byssukúlu í höfuð eins og hin frönsku ungmenni sem héldu til fjalla. En hver veit hvað gerist eftir nokkur ár þegar Íslensk ungmenni, þau sem eru börn í dag en erfa skuldir okkar og fjötra, rísa upp gegn örbrigðinni og kúguninni? Heimta land og eigur feðra sinna og réttin til að vera sjálfstæðir einstaklingar hjá sjálfstæðri þjóð? Hver veit hvað mun gerast þá.
Í dag er andstaðan þögguð niður með háði og spéi. Og ef það dugar ekki, þá erum við kallaðir lýðskrumarar fyrir að skilja ekki snillinganna ráð. En við þessa snillinga vil ég segja eitt og aðeins eitt. Ég skildi ekki ykkar ráð þegar þið komuð þjóð ykkar á kné og ég skil ykkur enn verr þegar þið meinið henni að rísa upp aftur. Slæm voru ykkar ráð, verri eru þau í dag.
En allt á sitt upphaf og sinn endi. Ég ætla að reyna að vera virkur næstu þrjá mánuðina. Þann 5. maí næstkomandi verða viss tímamót í lífi mínu og þá mun ég gera upp hug minn um áframhald. Heilsan eða annað óvænt getur bundið endið á þetta blogg mun fyrr en ég mun örugglega ekki hætta fyrr en ég kem frá mér stemmunni "Guð blessi Ísland" og fjallar um nauðsyn þjóðstjórnar og Andstöðugrein minni gegn ICEsave og IFM. Í báðum þessum greinum þá mun vera hægt að orða hlutina á betri veg og koma með skarpari greiningu á ástandinu. Það er ekki minn höfuðverkur, mér nægir að vita að ég hef rétt fyrir mér, alveg eins og litla stúlkan sem benti á fatalausa Keisarann. Það sem rétt er, er rétt, óháð því hver segir það. Verði þessar greinar og annað það sem ég skrifa á þessu bloggi mínum einhverjum innblástur til frekari skrifa og andstöðu, þá er það vel. En ef ekki þá eru mín viðbrögð ekki sú að segja að "það mátti alltaf reyna". Þetta snýst frekar um skyldu og ábyrgð gagnvart drengjunum mínum að pabbi þeirra hafi gert sitt besta í þeirri stöðu sem hann var í.
Hvernig framtíðin vinnur svo úr andstöðunni, er svo hennar mál, sem aðeins hún veit. Ég vona það besta fyrir hönd þjóðar minnar og barna. Í dag er reynt að ná samstöðu um ógæfu. Á morgun næst kannski samstaða um framtíðina. Það er mín von.
Það teygðist úr þessu bloggferli, stundum hef ég haft gaman að þessu, en oft hef ég aðeins bloggað af skyldu til að halda blogginu lifandi svo það væri tiltækt í stríðinu um ICEsave.
Eins tók ég ákvörðun síðasta vor að setja niður á blað nokkra pistla um þá hugmyndafræði sem ég tel nauðsynlega ef framtíð barna okkar eigi sér nokkra von. Í kjölfarið fór ég tvisvar suður að ræða þessa hugmyndafræði og þá nálgun á andófinu gegn yfirtöku hins skítuga fjármagns sem ég tel einu færu leiðina til að mynda nægjanlega sterkt afl gegn þeim öflum sem að baki standa helreiðin gegn framtíð lífs á jörðu. Hitti marga, spjallaði mikið og ekki nema gott um það að segja.
En þetta er hliðarsjálf sem breytir ekki tilgangi þessa bloggs sem er að berjast með kjafti og klóm gegn illsku fjármagnsins hvar sem hún birtist.
Ég ásamt þúsundum annar víðsvegar um heim, tek þátt í stríði þar sem undir er framtíð barna minna og framtíð allra barna hér á jörðu. Í stríði gilda einföld lögmál, þú berst við óvininn þar sem hann er veikastur, með þeim tækjum og tólum sem þú hefur yfir að ráða. Þú myndar bandalag við óvini óvinar þíns, alveg óháð fyrri ágreiningi við þann sama óvin óvinarins þíns, og þú herjar á þá sem starfa með óvini þínum, alveg óháð því hvort þú hafir áður átt samleið með þessum vini óvinar þíns.
Þeir sem skilja þetta ekki, þeir tapa stríðum.
Einnig er það algengur misskilningur að halda að það að segjast vera á móti, að þá sért þú sjálfkrafa á móti, og þá eigir þú friðheldi skilið þó gjörðir þínar gagnist óvininum eina í atlögum hans að lífi og limum hins venjulega manns.
Líklegast er þessi misskilningur megin ógæfa þess fólks sem þykist vera á móti og skýrir af hverju að sigur hins skítuga fjármagns verður algjör eftir næstu kosningar.
Við því er lítið að gera, á því eru skýringar. En fólkið sem er haldið þessum sára misskilningi getur ekki haldið andspyrnunni í gíslingu ranghugmynda sinna, að það megi ekki gagnrýna fólk sem starfar með ríkisstjórninni eða á annan hátt vinnur að framgangi þess að vogunarsjóðirnir yfirtaki Íslandi og skuldaþrælki almenning um ókomna tíð, bara vegna þess að þetta fólk segist vera á móti kerfinu, og talar hátt um andstöðu sína gegn því.
Þeir sem þekkja ekki muninn á gjörðum og orðum, verða að gera það upp við sig hvar þeir standa í þessu stríði um framtíð mannkyns. En þeir eru ekki að berjast gegn fjármagninu og skuldaþrælkun þess, á meðan þeir átta sig ekki á þessu.
Í besta falli flækjast þeir ekki fyrir, í versta falli er þeir ígildi gulls fyrir þrælahaldarana sem nú herja á strendur Íslands. Það er betra að sleppa að manna varnarvirkin en vera haldinn þeirri ónáttúru að vilja sífellt opna hliðin í nafni einhverrar misskilinnar samstöðu.
Samstaða um lífið felst í að verjast þrælahöldurunum, ekki í því að vera vinur hans, hvað þá að vera vinur vinar hans.
Því miður er flestir sem manna varnarvirki þjóðarinnar haldnir þessum meinlokum á einn eða annan hátt. Um það má aðeins eitt segja, Máttur fjármagnsins er mikill.
En ekki á þessu bloggi.
Ekki á þessu bloggi.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 490
- Sl. sólarhring: 716
- Sl. viku: 6074
- Frá upphafi: 1400013
Annað
- Innlit í dag: 446
- Innlit sl. viku: 5210
- Gestir í dag: 428
- IP-tölur í dag: 423
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar minn ég vona að mín skrif séu ekki tilefni þessa bloggs. Ég er þér oftast sammála í flestum málum, enda held ég að við séum tæknilega sammála um flest mál. Það sem greinir á er að við höfum hallað okkur sitt á hvora hliðina. Þó ég hafi svarað þér með Dögun þá þýðir það ekki að ég haldi ekki áfram að lesa bloggið þitt af ánægju vegna þess að það sem þú hefur fram að færa skiptir miklu máli fyrir almenning í þessu landi.
Mér er nefnilega sama hvaðan gott kemur, og fagna hverri rödd sem hljómar eins og mín. Þó skilji að sumstaðar, það er bara heilbrigt og gott að takast þannig á í sanngirni.
Bestu kveðjur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2013 kl. 12:35
Sæll Ómar og takk fyrir. Mér hefur liðið eins og þú lýsir ástandinu,en máttlítil í andófi. Ég sagði við ættingja minn á seinasta ári að ég væri að andæfa veikri röddu,(því ég sé þróunina eins og þú lýsir henni),vegna afkomenda minna og annara,unga fólksins. mér snerist ekkert hugur við það að svarið var;þú verður orðin fjarskyld barnabarnabörnum þínum,ert gleymd og grafin!! Ja maður en meðan ég tóri herja þessi ósköp á huga minn og ég er brotin yfir því að íslensk þjóð hafi alið slíka manneskjur,þarna er ég að dæma út frá mínum huga. Ég man ekki eftir þínu fyrsta bloggi, en komst fljótlega í samband við Elle og þaðan í þín,að verjast þrælahöldurunum. Baráttu kveðjur.
Helga Kristjánsdóttir, 6.1.2013 kl. 19:06
Gaza Schmaza. Nú þegar hefur Assad Sýrlandsforseti myrt fleiri Palestínumenn búsetta þar í landi, því þeir eru sérlega "óhlýðinn" hópur þar í landi, heldur en dáið hafa í átökum Ísraels og Palestínumanna, frá því Ísrael varð til árið 1948. Og hver er að blogga um "veslings Palestínumennina", nú eða önnur fórnarlömb Sýrlands? Hvar eru undirskriftirnir? Hvar eru mótmælin? Það er maðkur í mysunni í Palestínumálinu og umræðunni sem skapast kringum það er stírt af stóru bákni og skoðanir fjöldans fyrirfram mótaðar í ákveðnum tilgangi. Ísrael hefur hagað sér illa, en gyðingahatur er staðreynd. Og það er gyðingahatur sem veldur heiftinni og reiðinni út í Ísrael, en skeytingarleysinu þó Assad myrði mun fleiri Palestínumenn, systematískt og viljandi, og ekki í sjálfsvörn, þar af mest börn, og taki þá sérstaklega fyrir sem hóp eins og Saddam Hussein gasaði Kúrdana og framdi á þeim þjóðarmorð, og Tyrkir myrtu Armena, og ekki er um "stríðsátök" að ræða, hvað þá þjóðar umkringdrar óvinum sem býr við verra ástand en ríkti nokkurn tíman á Norður Írlandi, hálf-neydd til að búa þarna af alþjóðasamfélaginu, og þykir nú réttdræp fyrir að vera fædd þarna og vilja eiga sér tilverurétt eins og aðrir. Síðan byrja mannhatararnir með sitt "En þeir ættu að vita betur, þeir lentu í helförinni!".............Um hvaða annan hóp manna er talað svo? Þykir ekki almennt staðreynd að ofbeldismenn koma frekar af ofbeldisheimilum? Að þeir sem leiðast út í glæpagengji, eiturlyfjaneyslu og þann pakka koma flestir úr erfiðri æsku? Þykir ekki flestum einhvers konar afsökun fyrir stöðu svarta mannsins í Bandaríkjunum, glæpatíðnina meðal þeirra og fleira að þetta er fólk að rísa upp úr erfiðu þrælahaldi kynslóðum saman, og að sú afsökun gildi að einhverju leyti enn í dag? En við ætlumst til að barna og barnabörn fólk sem sá flesta ættingja sína myrta hegði sér sem einhvers konar siðferðilegar fyrirmyndir alls mannkynsins, við aðstæður sem flestum okkar þætti óhugsandi og er handan við ímyndunarafl okkar að geta sett sig inn í, að lifa í stöðugri hræðslu um líf sitt, og, vegna þess afi og amma vöruðu mann réttilega við, gereyðingu þjóðar sinnar og menningar? Svartir menn í Bandaríkjunum fengju betri meðferð en gyðingar á verstu tímum sögu þeirra í Evrópu, og Ísabella og fleiri fóru næstum jafn illa með þá og Hitler, sem lét flytja þá sem búfénað í lestm allsstaðar að, frá mörgum þjóðum, talandi mörg tungumál, smala þeim saman á einn stað, og gefa þeim númer í stað nafna, til að þræla þeim til dauða stórfyrirtækjum í hag, og búa síðan til sápur og fleira úr líkum þeirra og vanhelga restina í fjöldagröfum. Ef eitthvað er að gyðingum í dag er það okkar frændum, verstu og ógeðslegustu kvikindum sem hafa byggt þessa jörð, og gert mannkyninu mestan skaða af öllum, að kenna, og ekki þeim sjálfum. Enginn hópur manna getur farið í gegnum slíka reynslu án þess að bera þess ör, og reynslan sem við veittum þeim norrænir menn hefur kennt þeim að varast beri þá sem sýni þeim óvild. Margir helstu helfararsérfræðingar heims segja helstu ástæðu þess hversu illa helförin fór og hversu langt tilraunir til að útrýma gyðingum vera þá að gyðingar voru almennt of siðmenntað, of menntað fólk, sem kom úr menningu sem leggur of ríka áherslu á of vandað siðferði. Kristnum mönnum er bannað að ljúga. Gyðingar hafa um þetta fjölda aukaboðorða. Þeim er bannað að bera áfram sögu sem þeir vita ekki fyrir víst sé sönn, þeim er innrætt að fara beri með allt sem leyndarmál, nema sérstakt leyfi hafi verið gefið fyrir öðru, og tala aldrei um einkamál náungans við aðra án hans samþykkis, þeim er bannað að hrósa manni án þess að meina það, hversu saklaust og lítið sem hrósið er, því slíkt er flokkað sem lygi, og reglurnar halda áfram tugir talsins, og þessum reglum fara þeir eftir, þó margar aðrar reglur þeirra hafi runnið sitt skeið að mestu, svo sem varðandi klæðaburð, mat og annað sem nútímagyðingar eru frjálslegri með. Fáum þjóðum eru innrættar jafn stífar siðferðislegur um meðhöndlun sannleikans og virðingu náungans og gyðingum. Og þeim var innrætt friðsemi og sáttavilji. Og það varð þeim að dauða að þeir áttu í höggi við barbara sem ekki dugir að reyna að sættast við á friðsamlegum nótum. En menning þeirra var á of háu stigi til að ráða við það. Þeir voru eins og fínlegur heldri maður, vafinn í siðferðilega-bómull alla tíð meðal góðs fólks, vel að sér í heimspeki og háum fræðum, sem lendir í glæpagengi í Harlem, og reynir með rökum og því að höfða til mannúðar að tala sig út úr aðstæðum, þegar hnefarnir einir hefðu talað og enginn hlustar nema á þá rödd sem hæst öskrar. Og gyðingar hafa lært af reynslunni að gera aldrei aftur þau mistök sem þeir gerðu gagnvart frændum okkar, að reyna siðfáguðu leiðina til lausn á barbarísku vandamáli. Og hér á Moggablogginu þylja náfrændur nazistanna eins og Ásthildur þeim bölbænir og óska þeim í gröfina. Þetta eru þær aðstæður sem gyðingar kljást við nú, og þið getið ímyndað ykkur, ef minnstu greind hafið, hvernig myndi fara ef gyðingar myndu bara "spjalla" við liðið og líta út sem "aumingjar" í þeirra augum þar af leiðandi. Ribbaldar og misyndismenn ráða lögum og lofum í Palestínu og heilaþvo þjóðina til að hata gegnum sjónvarpsstöðvar, skóla og útvarpsstöðvar sem boða gereyðingu gyðinga á kerfisbundinn hátt. Þeir sem tala um Palestínumenn með sambærilegum hætti í Ísrael, og þeir eru fáir, á opinberum vettvangi, þeir eru settir í fangelsi bak við lás og slá. Og refsingar í Ísrael eru mun harðari en hér, þó dauðarefsingum sé almennt ekki beitt. Lágmarksrefsing í Ísrael fyrir nauðgun eða aðra grófa kynferðislega misnotkun er til dæmis 30 ár, og þá er mjög vel sloppið. Berið saman við Ísland og endalausa samúð með glæpamönnum þar. Margir hér á Moggablogginu með sín gífuryrði væru í fangelsi í Ísrael og það ekki fyrir tal um gyðinga. http://www.youtube.com/results?search_query=palestinian+children+taught+hatred&oq=palestinian+children&gs_l=youtube.1.1.0l10.130.5528.0.7446.38.25.7.2.5.0.257.2982.9j13j2.24.0...0.0...1ac.1.cnl0OMWH9wQ
Earl (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 22:07
http://www.youtube.com/watch?v=etDb5tXPawc
Gyðingaétandi Kanínan sem ætlar að gereyða gyðingum, vinsælli í Palestínu í "Stundinni okkar" þeirra, eða "Skoppu og skrýtlu" en Kalli kanína er á Vesturlöndum. http://www.youtube.com/watch?v=eeii225G-HM Meira að segja nazistar gengu aldrei svo langt í hatri, áður en helförin skall á, of fljótt, og of grimmt, afþví gyðingasamfélagið leitaði siðrænt fullkominna lausna til að kljást við vandann, í stað þess að fara aðeins niður á plan andstæðingsins og skilja alvöru málsins í tæka tíð.
Earl (IP-tala skráð) 6.1.2013 kl. 22:10
"Og hér á Moggablogginu þylja náfrændur nazistanna eins og Ásthildur þeim bölbænir og óska þeim í gröfina".
Ætlastu virkilega til að ég taki þessi orð alvarlega Earl? Ég hef megna andúð á Ísraelskum stjórnvöldum, en ég þekki nokkra gyðinga og ein góð vinkona mín bjó í Ísrael í 11 ár og á þar dóttir og barnabörn. Ég geri því skíran greinarmun á stjórnvöldum og hinum venjulega ísraelsmanni.
Svo sannarlega koma ísraelskir ráðamenn algjörlega fram eins og Hitler á sínum tíma, sem sýnir að þeir hafa nákvæmlega ekkert lært af sögunni. Og svo þjást þjóðverjar og austurríkismenn og fleiri af samviskubiti sem stjórnvöld í Ísrael viðhalda endalaust, af skömm yfir framkomu Hitlerlsstjórnarinnar á sínum tíma, en stjórnvöld í Ísrael kunna ekki að skammast sín meðan þeir murka lífið úr palestínumönnum, svei því bara.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2013 kl. 22:55
Takk fyrir innlitið kæra fólk.
Þar sem þetta blogg er samið að gefnu tilefni, þá vil ég taka það fram að gefnu tilefni að það fjallar ekki um hinar sorglegu deildur fyrir botni Miðjarðarhafs annað en það að þeir sem tileinka sér Aðferðarfræði lífsins vita hvernig á að leysa þær deilur.
Það er til fólk þarna niðurfrá sem skilur þessa aðferðafræði og það vill svo til að það sætir ofsóknum harðlínumanna í báðum fylkingum.
Earl, ég hjó ekki eftir persónuárás þinni á Ásthildi, en þar sem hún er búin að svara henni, þá læt ég innslag þitt standa.
Ég vil taka það skýrt fram að það gildir aðeins ein regla á þessu bloggi og hún er sú að persónulegar árásir á þá sem tjá sig í athugarsemdarkerfinu er bönnuð, það er aðeins leyfilegt á síðuhaldara.
Bið menn að virða það, ég hef einu sinni þurft að henda út athugasemd, þætti það mjög leiðinlegt að gera það aftur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.1.2013 kl. 23:11
"Some of my best friends are jewish" Aðalvörn hins dæmigerða gyðingahatara (og oftast ýkjur um léttvægan kunningaskap við örfáa aðila). Þetta er frasi sem er oft notaður í New York og hafður þar að gríni til að lýsa gyðingahatara "he is a "some of my best friends are jewish" kind of man". Orð Ásthildar dæma sig sjálf, í aumkunarverðri tilraun hennar til að verja sig. Hún segir engan mun þarna á. Það er dómur út af fyrir sig. Hún er það sem hún er og sannar það sjálf með orðum sínum. Sé ekki hvernig þetta eru persónuárásir af hálfu Earlsins. Ummæli þessara konu dæma sig sjálf og þau hafa oft verið ennþá grófari. Í Þýskalandi væri hún líklega komin í steininn eða búið að láta hana borga sekt.
Eyvör. (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 02:05
En ég er aftur á móti sammála þér Ómar. Það er ofstækið sjálft sem er óvinur bæði Ísraela og Palestínumanna, en hvorki Ísraelar né Palestínumenn. Ofstæki eins og birtist í því að hagræða sannleikanum, ýkja og fara með gífuryrði eins og Ásthildur og fleiri fórnarlömb gamals heilaþvotts kaþólsku kirkjunnar gegn gyðingum sem erfa þetta hatur vegna þess þeim var aldrei kennt rökhugsun og mennakerfið hér gengur út á utanbókarlærdóm og fjölmiðlarnir nærast á tilfinningasemi og slúðri. Hún er bara ein af milljónum líttmenntaðra. Á ofstæki hennar líkra og harðlínumannanna í Ísrael sem og Palestínu er þó mikill stigsmunur, en það voru hennar líkar sem ríkisstjórnin gat fengið til að verða nazistar á sínum tíma, því frækorni hatursins hafði verið sáð og þá var bara að plægja jörðina og búa til ofstækismenn. Munurinn á okkar samfélagi og samfélögunum þarna niðri frá er að ofstækismenn fá greiðari aðgang að fólki og geta betur heilaþvegið það gegnum fjölmiðla og fleira. Ef ofstækismenn hér heima hefðu sömu fjármuni þá myndu margar Ásthildar umturnast í nazista.
Eyvör (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 02:10
Förum svo að passa betur upp á peninginn okkar. Hluti af peningunum sem Össur dælir til Palestínu endar í svona sjónvarpsefni eins og Earl benti á. Ég var þarna sjálf sem sjálfboðaliði og horfði á þennan hryllilega barnatíma með eigin augum. Það sem ég sá var bara ennþá ljótara og meira mannskemmandi. Mér finnst kynferðislegir glæpamenn engu betri en þeir sem sá hatri í hjörtu saklausra barna með þessum hætti. Það er ekki skárra að misnota sál barns en líkama þess.
Eyvör (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 02:11
Þegar ég sá færslu 3,hugsaði ég hana allt aðra,þoldi ekki að verða reið,hugsaði einu sinni enn mnneskjuhatur. Fyrirgefðu Ómar ég er í þínum ,húsum, það vakti mig ehv. og ég leit inn,sé aldrei eftir því.
Helga Kristjánsdóttir, 7.1.2013 kl. 04:39
Saell,
Vel skrifad, nei virkilega vel skrifad.... bkv. fra Midausturlondum...
DHH
David Heidar Hansson (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 09:47
Takk Dæti.
Bið að heilsa í gömlu menninguna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.1.2013 kl. 11:14
Hlægileg Eyvör aka Earl. Ég er enginn kynþáttahatari, en mér er mein illa við ríkisstjórn Ísrael og viðurkenni það alveg. Þú gerir engan greinarmun á ráðamönnum og þeirra pólitík eða hinum almenna landsmanni. Meira að segja flest ríki heims hafa fordæmt Ísraelsstjórn fyrir landnemabyggðir sínar og heiminum ofbýður grimmd þeirra hvernig þeir eyðileggal byggðir Palestínumanna. Mér er slétt sama hvað þú segir því það kemur ekkert við mig. En talsmátinn, fullyrðingarnar og hvernig þú talar um einstakling sem þú þekkir ekki neitt, sýnir að þú ert eiginlega að lýsa sjálfri þér þarna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.1.2013 kl. 11:31
Lúalegar árásir á Ásthildi, og fyrir hvað, þú þarna Earl eða Eyr eða hvað sem þú kallast? En takk Helga fyrir hlý orð í no. 2.
Elle_, 8.1.2013 kl. 00:22
Ég er ekki herra Earl þessi. Ég er ekki með árásir á einn né neinn. Ásthildur hefur verið með árásir á sjálfa sig með sínum fyrri ummælum um gyðinga, svo og ýmsa fleiri, þar sem hún ekki gerði þennan greinarmun á þeim og ríkisstjórn þeirri sem ég einnig fordæmi, auk þess sem ég var sjálfboðaliði í Palestínu um tveggja mánaða skeið. Ásthildur er ekki spör á alhæfingar og mannorðsmorð frekar en svo margir aðrir stórbloggarar þó hún hafi skánað í síðari tíð. Mannorðsmorð þjóðfélagshópa og minnihluta eru undanfarar eineltis og sjálfsmorð, geðraskanna ýmis konar og þegar hryllingurinn sem fylgir afleiðingum alhæfinga nær hámarki sínu, uppskrift að glæpamönnum, því erfið æska getur leitt menn út í glæpi og vímuefni. Á fjölþjóðlegu nýju Íslandi þar sem þegar er farið að halla verulega á innflytjendur og áhangendur annarra siða skal slíkt ekki liðið. Og nú fer að koma strengri löggjöf um svona talsmáta og þá er ágætt fyrir menn að muna að öll þessi ummæli eru varðveitt og er það vel.
Eyvör. (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 06:24
Átökin í Palestínu eru ekki heima í stofu hjá okkur. Stórflótti fólks frá heimilum sínum er staðreynd í næstu nágrannalöndum okkar. Skoðið bara fréttir um gyðingaflóttann frá Malmö undanfarin ár. Í Reykjavík búa nú bæði gyðingar og múslimar, Palestínumenn og fólk frá Ísrael. Þið berið ábyrgð á orðum ykkar og alhæfingar um þjóðir eru alhæfingar um menn. Alhæfingar um menn valda einelti sem er sálarmorð. Sá er sekari sem ber þetta í börnin en börnin sjálf. Og hann er sekur fyrir afleiðingarnar sem af slíku hljótast. Endurholgdun og karma er staðreynd og þið verið látin borga fyrir hvert orð ykkar. Ýmislegt slæmt í lífi ykkar í dag er út af svona fordómum í fyrri lífum. Og verra hendir í næstu ef þið ekki lærið. Lög og reglur eru hér til að vernda ykkur frá sjálfum ykkur þegar góðar vættir duga ekki lengur til.
Eyvör (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 06:28
Minni bara á að Kynþáttahatur, islamophobia og anti semitismi, en alhæfingar um Ísraela, meira en þriðja hvern gyðing jarðar falla þar undir, eru bæði refsiverð athæfi í ESB, og sett í sama flokk og hómófóbía og mismunun fatlaðra einstaklinga. Verstu afbrigði þeirra fylgir fangelsisvist, en það eru hundruðir manna í fangelsi í Þýskalandi fyrir gyðingahatur. Þessar reglur eru á leiðinni hingað, hvort sem við göngum í ESB eða ekki. Sameinuðu Þjóðirnar hafa talað fyrir því að þær verði gerðar hnattrænar og þrísta á ríkisstjórnir að taka upp slíkar réttlátar refsingar. Það virðist hart en hefðu slíkar reglur verið teknar upp fyrr þá hefðu tugir þúsunda mannslífa viðkvæmra sálna sparast, sem ýmist hurfu fyrir eigin hendi eða enduðu í annars konar öngstræti. Og það er á ábyrgð þeirra sem temja sér ekki siðmenntaða framkomu, þykjast allt vita og dunda sér við að eyðileggja líf samborgara sinna í frístundum.
Eyvör (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 06:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.