Það sem var ósagt í áramótaávarpi.

 

 

Virðulegi forseti.

Ég skora á fulltrúa þingflokkanna að setjast niður og semja um þinglok og leyfa okkur hinum þingmönnum að ræða mál sem brenna á fólkinu fyrir utan þennan þingsal.

Ég er komin hingað upp til að ræða aukna misskiptingu og fátækt í samfélaginu.

Nú er svo komið að Íbúðalánasjóður þolir ekki misskiptinguna í samfélaginu sem var búin til með fullri innstæðutryggingu og verðtryggingu. Eignafólkið greiðir upp lán sín hjá sjóðnum og nýtir sér betri kjör í bankakerfinu. Á sama tíma lendir eignalausa fólkið í vandræðum með að greiða af lánum og missir fasteignir sínar til sjóðsins vegna þess að laun hafa lækkað, kaupmáttur rýrnað og vegna verðtryggingarinnar.

Ört stækkandi hópur fólks býr við fátækt eftir hrun. Í hópi öryrkja, meðal eldri borgara og þeirra sem hafa verið lengi atvinnulausir eru margir svo illa staddir að þeir eiga hvorki í sig né á. Þessum hópum var lofað árið 2009 að skerðingin á bótum og lífeyri yrði bætt um leið og færi að birta.

Nú fullyrða stjórnarliðar að það sjái til sólar en engar tillögur hafa komið fram um að bæta kjör þessara hópa. Þess í stað er lofað að hækka bætur barnafólks til að það geti haldið áfram að borga bönkunum. Ungt, skuldsett fólk með börn er svo sannarlega í slæmri fjárhagsstöðu en það eru líka allir þeir sem eru á lágum launum og þurfa að lifa á atvinnuleysisbótum eða lífeyri.

Frú forseti. Það á að vera forgangsmál að útrýma fátækt. Það er óásættanlegt að í jafnríku landi og Íslandi búi stöðugt fleiri við fátækt.  (Lilja Mósesdóttir 5. des 2012).

 

Það er ákafleg einföld skýring að orðið fátækt kom ekki fyrir í áramótaávörpum forseta, forsætisráðherra eða í nýjárspredikun biskups Íslands.

Fátækt má ekki ræða í þessu landi alsnægtanna. 

Hún er verk guðs, ekki misviturra stjórnmálamanna sem lúta ráðgjöf sálarlausra hagfræðinga.  Það er ekkert samhengi milli vaxtagreiðslna uppá hundruð milljarða og ört vaxandi örbirgðar.   Það er ekkert samhengi á milli misskiptingar auðs og ört vaxandi fátæktar.  Það er ekkert samhengi milli sjálfvirkrar vaxtatöku verðtryggingarinnar og ört vaxandi fátæktar.

Fátækt er eins og drepsóttir eða engisprettufaraldurinn, verk guðanna ekki manna.  Samt er ekki lengur talað um engisprettufaraldur eða drepsóttir, þeim tókst mönnum að útrýma.  En ekki fátækt, eitthvað verða guðirnir að fá að hafa í friði.

 

Og fátækt má ekki ræða.  

Um hana liggur þagnarmúr.

Þess vegna þraut Liljur Vallarins örendið.  Um þær lék sífelldur kuldagjóstur varðhunda valdsins, varðhunda auðsins.  Spottið, eineltið, þögnin, og enginn kom þeim til hjálpar.

Enda efuðust þær um guðanna vilja, efuðust um fátæktina.  Efuðust um að hún væri eðlilega afleiðing þess að auður fengi dafnað á krepputímum.

 

Nei, trúnaðarfólk þjóðarinnar ræður ekki um fátækt í áramótaávörpum sínum.  

Það er stórhættulegt, það gæti uppskorið háð og spott, einelti og þöggun.

Yrði ekki lengur trúnaðarfólk.

Gæti jafnvel verið krossfest eins og Kristur forðum sem vogaði sér að flytja þau skilaboð að ofan að það væri argast lygi að kenna guð um fátækt, hún væri mannanna verk og að það væri vilji guðs að henni væri útrýmt.  

 

Nei, trúnaðarfólk þjóðarinnar talar ekki um fátækt.

Ekki á Íslandi, ekki í dag, ekki hjá þjóð sem lýtur á Mammon sem æðstan guða, æðri en sjálfan veðurguðinn.

Hjá þjóð sem blótar barnafjölskyldum á altari vaxta og verðtryggingar.

 

Þá væri það ekki lengur trúnaðarfólk.

Ekki á Íslandi árið 2013.

 

En það væri fólk.

Ærlegt fólk.

 

Og hver vill það?

Á Íslandi árið 2013.

 

Veit ekki, en veit að ekki er um offramboð að ræða.

Eins gott, annars gæti orðið plássleysi á Valhúsahæðinni.

 

Best að segja ekki meira,  Liljan sagði það sem segja þurfti.

 

"Það á að vera forgangsmál að útrýma fátækt. Það er óásættanlegt að í jafnríku landi og Íslandi búi stöðugt fleiri við fátækt."

 

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Hvað er fátækt? Fátækt í dag er ekki það sama og þegar t.d. þú varst barn.

Hvernig útrýmum við fátækt? Til að minnka fátækt eða eyða henni (eftir því hvernig hún er skilgreind) þarf að skapa verðmæti og það gerum við best með frelsi og kapítalisma. Slíkt fyrirkomulag á undir högg að sækja í dag.

Eitt er víst, hið opinbera getur ekkert gert varðandi fátækt.

Lilja meinar án efa vel en mér finnst hún oft ansi bláeyg.

Gleðilegt ár Ómar og takk fyrir gamla :-)

Helgi (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 10:16

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Hárrétt hjá þér, Ómar.  Ýmsir tala þó um að leysa þurfi vanda unga fólksins í skuldaklafanum en enginn minnist á öryrkja og eldri borgara sem lifa nú nánast við hungurmörk.

Þórir Kjartansson, 2.1.2013 kl. 10:21

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þórir.

Málið er að þetta er sami hluturinn, en auðklíkan hefur náð að etja saman kynslóðunum, sér til hags, þjóðinni til tjóns.

Og ég ætla að minnast á öryrkja og eldri borgara í lokfærslu minni sem spratt af þakklæti Jóhönnu.  

Mér er nefnilega ekki sama.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.1.2013 kl. 13:57

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Já gleðilegt ár Helgi.

Það er rétt hjá þér, fátækt er ekki sú sama og þegar ég var barn, þá tengdist hún meginpart óreglu og persónulegum aðstæðum fólks.  Gamalt fólk var margt sárfátækt en þá var ekkert kvótakerfi, og fiskur var á hvers manns diski, og fátæktin birtist í því að hann var sjö daga vikunnar á borðum.

Í dag sveltur fólk.  

Ég er alveg sammála þér með kapítalistana og markaðinn, sem grundvöll frjálsra viðskipta, þannig var það í árdaga mannsins að menn skiptust á vörum og þjónustu vegna gagnkvæms ávinnings.

Svo komust höfðingjarnir í spilið, fóru að setja upp girðingar, sölsuðu undir sig gæði, komu á einokun, þvinguðu fram einhliða viðskipti gróða og sjálftöku.

Við erum ennþá að glíma við þá, nýjasta útspil þeirra, frjálshyggjan hefur stolið meira á 30 árum en herjum Mongóla tókst að stela á 200 árum í ránsleiðöngrum sínum.

Þess vegna lemur frelsisunnandi eins og ég á frjálshyggjunni með kjaft og klóm. 

Þess vegna fordæmir siðaður maður frjálshyggjuna vegna hinnar siðlausu græðgi og sjálftökunnar sem einkennir framkvæmd hennar.

Þess vegna fordæmir kristinn maður hana vegna hinnar óhóflegu auðsöfnunar hinna ofurríku en eins og þú veist Helgi þá er auðsöfnun og sníkjulíf hinna ofurríku fordæmd í Nýja Testamentinu.

Og það er rétt hjá þér Helgi að Lilja er bláeygð, hagfræði lífsins er bláeygð, enda er blár litur sakleysisins sem við sórum öll að vernda.

En það er ekkert val Helgi, siðmenning er forsenda mannlífs og hagfræði lífsins er hagfræði hins siðaða manns.  

Grunnboðorð lífsins eru einföld, en þau ber að virða. 

Þú skalt ekki mann deyða.

Þú skalt ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að þér sé gert.

Þú skalt gæta bróður þíns.

Þú skalt virða rétt lífs til lífs.

Það er kúl að vera blár til augna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.1.2013 kl. 14:13

5 identicon

Sæll.

Það var engin frjálshyggja ríkjandi hérlendis né erlendis á árunum fyrir hrun.

Ef hið opinbera hérlendis hefði minnkað og reglum fækkað (svo tvö einföld dæmi séu tekin) hefði mátt debattera það hvort hérlendis hefði verið frjálshyggja á árunum fyrir hrun. Þessu var einfaldlega ekki til að dreifa.

Sífellt meira fé var varið í eftirlit með viðskiptalífinu, sú upphæð tvöfaldaðist frá 2004-2008. Það er ekki frjálshyggja. Lagasafnið stækkaði stórum skrefum á árunum fyrir kreppu. Tekjur hins opinbera þöndust út - hið opinbera tók sífellt meira til sín, var um 48% árin 2006 og 2007 af landsframleiðslu en hafði verið um 41 árið 1998.  

Gætum að því hvernig við notum hugtök. Ekki gera það sama og Steingrímur ESB sinni, fara með hugtök eins og honum hentar.

Frjálshyggjan vill ekki afskipti hins opinbera, þau voru hins vegar og eru gríðarleg. Þú t.d. ræður því ekki hvað þú leggur þér til munns, ríkið ákveður það að nokkru leyti fyrir þig með boðum, bönnum og sköttum. Ef ríkið hætti skattpíningu sinni á sjávarútveginum gætu fleiri lagt sé fisk til munns.  

Helgi (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 21:26

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi.

Mig minnir að ég hafi sagt þér það áður að ég væri eldri en tvívetra og man því tímanna tvenna.

Ég hef hlustað á og lesið svona orðræðu áður.  Nákvæmlega sömu rökfærslu, um nákvæmlega sama hlut.

Ég er svo gamall að ég náði að kynnast leifunum af lopapeysukommunum.

Þeir áttu líka draum um einhverja útópíu þar sem ekkert ríkisvald væri að flækjast fyrir, heldur lifðu allir í samræmi við jöfnuðinn, og frelsið og réttlætið. 

Hugmyndafræði þeirra bar ákveðið nafn, kommúnismi, og hún hafði þá verið reynd í  2 meginkerfum, í sovésku útfærslunni sem byggðist á iðnvæðingu og í kínversku útgáfunni sem lagði áherslu á byltingu bændanna. 

Vandinn við þessa hugmyndafræði var raunveruleikinn, að hún þyrfti að fara frá því sem er, yfir í það sem hún vildi verða.

Það var á því ferli sem hörmungarnar áttu sér stað Helgi.

Veruleikafirring þessa sófakommúnista var sá að þeir í sífelldu týndu til afsakanir í þess anda sem þú talar um hér að ofan.  Þetta var ekki kommúnismi í Sovétinu, heldur eitthvað ríkiseitthvað sem útskýrði kúgunina, sem útskýrði hörmungarnar. 

Það yrði bara að reyna aftur, og það var reynt.

Ég man það eins og það hafi gerst í gær hvað þeir fögnuðu þegar Rauðu Khemrarnir lögðu undir sig Phnom Penh, þá átti loksins að brjóta hið borgaralega samfélag á bak aftur og byggja upp nýtt kommúnískt samfélag á rústum þess.  Heima í sófanum fögnuðu þeir þegar borgin var tæmd af fólki og allir íbúarnir reknir út í sveitir landsins, þeir fögnuðu þessu afturhvarfi til steinaldar.

Enginn af þeim spáði í þjáningar fólksins sem var neytt í þetta ferðalag gegn sínum vilja. 

Enginn spurði hvað rétt höfum við í nafni hugsjóna að valda öðrum slíkum þjáningum??  Að eyðileggja það samfélag sem fyrir var vegna þess að við viljum eitthvað annað??

En að lokum þagði þetta fólk, jafnvel hreinlyndi hugsjóna þess þoldi ekki þjóðarmorðið, hugsjónabikarinn fylltist að lokum.

Helgi, þú ferð aldrei úr raunveruleikanum yfir í draumaþjóðfélagið, án þess að fyrsta skrefið sé stigið og það næsta.  

Þessi fyrstu skref frjálshyggjunnar hafa þegar valdið íbúum Vesturlanda ómældum þjáningum.  

Hvað viltu meira, þjóðarmorð???, borgarastyrjöld???, heimsstyrjöld???

Sérðu ekki þrælabúðakerfi þriðja heimsins sem hafa grafið undan velmegun og velsæld borgarlega þjóðfélaga Vesturlanda??

Sérðu ekki á sama tíma auðsöfnun hinna ofurríku???

Það eru skýringar á því að siðblint fólk vill brjóta niður  borgaraleg þjóðfélög, hvort sem það er undir merki kommúnisma eða frjálshyggju.  Sú skýring heitir völd og auðsöfnun.  Og þetta siðblinda fólk nýtir sér nytsama sakleysingja sem sjá einhverja útópíu í hillingum en sjá ekki hvað þeir hafa.  Nytsama sakleysingja sem átta sig ekki á því að leiðin að betri heimi er eitthvað sem kallast þróun, en þróun út frá siðaðri hugsun siðmenningarinnar.  

Ástæða þess að Vesturlönd hafa náð að þróast eins langt og þau hafa þó náð, er kristin lífsskoðun sem mótar allan menningarheim þeirra.  Lífsskoðun sem kristallast í þeirri hugmyndafræði að þú eigir að gæta bróður þíns. 

Það er heldur engin tilviljun  að það er sótt að þessu borgarlegu þjóðfélagi kristinnar íhaldsstefnu með andkristinni hugmyndafræði, annars vegar kommúnisminn sem sagði að þú mættir gera fólki það sem þér sýndist í nafni hugsjóna, og hins vegar frjálshyggjunnar sem segir að þú megir gera það sem þér sýnist, bara ef þú græðir á því.

Gegn hinu kristna lífsviðhorfi að þú eigir að gæta bróður þíns er stefnt þeirri hugmyndafræði að þú eigir ekki að gæta bróður þíns.

Og það merkilega er að þessu var lýst í Mattheusarguðspjalli, þegar freistarinn sagði, "Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig".

Svarið var skráð og það gildir jafnt í dag sem þá.

Aðeins hörmungar fylgja öðru svari.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.1.2013 kl. 11:32

7 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll dreifi þessu um netheima. Takk fyrir enn og aftur.

Sigurður Haraldsson, 4.1.2013 kl. 02:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 1237
  • Frá upphafi: 1412791

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1087
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband